Quest - Hair, Beer & Whisky Saloon og álíka á Laugaveginum

„Fræga fólkið lét sig ekki vanta,“ segir í alræmdum dálki á mbl.is. Verið var að opna í fyrsta sinn veitingastað í Reykjavík undir nafninu „Lob­ster & Stuff“. Humar er vissulega góður sé hann rétt matreiddur en þetta „stuff“ er algjört óæti. Hef oft bragðað á „stöffi“ og alltaf orðið fyrir vonbrigðum. Auðvitað er ég ekki einn af fræga fólkinu, en með boðsmiða í höndunum hefði ég ábyggilega mætt enda finnst mér afar gott að drekka og borða á kostnað annarra.

Hins vegar verð ég að lýsa yfir vonbrigðum mínum með eigendur veitingastaðarins kunni viti ekki hvað „Lobster“ er á íslensku. Af hverju í ósköpunum eru þeir svo leiðinlegir að nota útlent heiti á veitingastaðinn? Dettur einhverjum í hug að ensk nafn huggnist íslenskum neytendum? Dettur einhverjum í hug að útlendum ferðamönnum þyki enskt nafn svo menningarlega merkilegt að þeir flykkist staðinn frekar en að fara á „Humarhúsið“. Hvað er annars átt við með „Stuff“?

Sem betur fer er hugsunarháttur flestra eigenda veitingastaða þannig að þeir telja það stað sínum til framdráttar að hann beri íslenskt nafn. Nefna má glæsilega veitingastaði eins og Lækjarbrekku, Kopar, Salt, Sægreifann, Sjávargrillið, Pottinn, Torfuna, Ísafold og Perluna. Man ekki eftir fleirum í augnablikinu.

Ég er með skrifstofu við Laugaveg í Reykjavík (vissara að taka bæjarfélagið fram). Á göngu minni um þessa fornfrægu götu virðast alltof margir eigendur fyrirtækja við hana kjósa ensk nöfn. Þarna má til dæmis finna þessi.

  • „Quest -Hair, Beer & Whisky Saloon“
  • „Igdlo Travel“
  • „Public House - Gastropub“
  • „Le bistro“
  • „Black Pepper Fashion“
  • „Room With a View apartment hotel“
  • „Trip“
  • „Freebird“
  • „Nostalgia“
  • „Kíkí queer bar“
  • og fleiri og fleiri 

Gleymdi hér fyrir ofan einu sem hlýtur að teljast botninn í enskri nafngift á íslensku fyrirtæki í Reykjavík: „Chuck Norris Grill“. Ferðamennirnir flykkjast ábyggilega á stað með svona flottu nafni.

Þakka má fyrir að enn sé verslunin Brynja við Laugaveg, Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Bókabúð Máls og menningar, Ullarkistan, Frú Fiðrildi, Tösku og hanskabúðin, Arkitektastofan Kím (sem þó er fyrir ofan Hlemm), Penninn Eymundsson og fleiri og fleiri fyrirtæki með frábær, lýsandi og jafnvel rómantísk nöfn.

Gleymdi hér að nefna uppáhaldsstaðinn minn sem er kaffihúsið Tíu dropar. Frábær staður sem ég legg stundum leið mína á. Hann er í kjallaranum á Laugavegi 27. Þar fær maður alltaf góða þjónustu og gott að borða. Því miður veit ég ekkert um kaffi hvorki þarna né annars staðar því ég hef aldrei drukkið slíkt. Mamma kenndi mér marga góða siði en gleymdi kaffinu í uppeldinu.

Þó ég sé nú frekar mikið á móti því að kalla íslensk fyrirtæki útlendum nöfnum þá er ég nú ekki svo öfgafullur að ég fljúgi ekki með Wow eða Icelandair, drekki ekki bjór á staðnum sem með langa nafninu, „Quest, Hair, Beer ...“ og það allt saman.

Mér hrýs samt hugur við því er götur í Reykjavík verða einhvern tímann nefndar enskum nöfnum til að hjálpa útlendum ferðamönnum á ráfi sínu um borgina. Ljósi punkturinn er þó sá að þá mun enginn villast til Siglufjarðar sem ætlar á hótel á „Hot Spring Street no.22a“.

Hins vegar verð ég að taka það fram hér í lokin, að á ferðum mínum í útlöndunum hef ég aldrei hrökklast frá veitingastöðum, verslunum eða öðrum fyrirtækjum þó nöfn þeirra hafi verið rituð á þýsku, frönsku, spænsku, grísku, armensku, kínversku, tyrknesku svo einhver tungumál séu nefnd. Margir hreinlega búast við því að enska hafi tekið yfir hvern einast menningarkima í heiminum. Þannig er það sem betur fer ekki og það er huggun harmi gegn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband