Máttlaus og aum Evrópuríki

Í Evrópuríkjunum búa samtals rúmlega 525 milljónir manna á fjögurra milljón ferkílómetra lands og er þá Rússland ekki með í þessari talningu. Þjóðirnar í álfunni njóta einhverra mestu velmegunar í heimi. Verg landsframleiðsla á mann er um fjórar milljónir króna á ári. Meðan allt lék í lyndi á Sýrlandi var hún um 655 þúsund krónur á ári.

Þjóðir Evrópu búa við lýðræði, háþróaða löggjöf, öfluga löggæslu, menntun, heilbrigðisþjónustu, menningu og ... gott mannlíf, svona yfirleitt. Í hamingju sinni talar fólk fjálglega um menningu sína og margir telja hana byggjast á kristnum gildum, náungakærleika og annað sem er fólki finnst fallegt að nefna á tyllidögum.

Sagt er að friður hafi ríkt í álfunni frá lokum seinni heimstyrjaldar. Undatekningarnar eru meðal annars tvær: Hryðjuverkastríð kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi og borgarastyrjöld milli þjóða fyrrum Júgóslavíu og kannski eitthvað annað „smálegt“.

Fátt bendir þó til að kristileg siðfræði sé hefndarþorstanum og drápsfýsninni yfirsterkari. Ekki er furða þótt maður velti því fyrir sér hvort hin kristnu gildi séu meira til viðmiðunar en að farið sé bókstaflega eftir þeim.

Svo gerist það ótrúlega að rúmlega ein milljón manna flosnar skyndilega upp frá heimahögum sínum vegna ófriðar og annarrar óáran. Íslamistar rísa upp og drepa fólk af sömu trú, svipað eins og hjaðningavíg kaþólskra og mótmælenda á Norður-Írlandi en bara af miklu stærri skala. Ástæðan er sú að þeir telja sig mega það samkvæmt trú sinni. Aðrir segja það rangt.

Harmleikurinn gerist í Sýrlandi, Líbýu, Túnis og víðar. Hvert leitar svo fjöldinn sem kemst á vergang vegna atburða í Sýrlandi og í fleiri arabaríkjum? Jú, í friðinn í Evrópu.

Og hvað gerist þar?

Evrópa fer nærri því á hliðina. Samtök ríkja í Evrópu geta ekki saman tekið við óvæntum gestum sem þó eru ekki nema um 0,2% af eigin mannfjölda. Allt virðist ætla að fara á hliðina, líklega vegna þess að efnahagslega stendur Evrópa á brauðfótum.

  • Landamæraeftirlitið liðast í sundur
  • Ekki er pláss fyrir flóttafólk í gistingu
  • Það er látið ganga hundruð kílómetra án matar og vatns
  • Flóttafólk fær ekki pláss í almenningsfarartækjum
  • Fólkið sveltur
  • Þúsundir manna drukkna á leið til Evrópu
  • Þúsundir barna týnast á vegum Evrópu
  • Glæpahópar ræna börnum og fullorðnum
  • Fólki er beitt ofbeldi
  • Sum ríki loka landamærum með gaddavírum og vopnuðum eftirlitsmönnum dag og nótt
  • Milljónir Evrópubúa halda að flóttamenn komi með ófriði

Er nokkur furða þó maður leyfi sér að álykta sem svo að Evrópuríkin séu einfaldlega máttlaus og aum fyrst þau geta ekki tekið skammlaust á móti einn milljón flóttamanna.

Hvers vegna er ekki umsvifalaust gengið í fyrirbyggjandi aðgerðir í löndum þar sem stríð og ófriður ríkja? Miðjarðahafið og Eyjahaf eru ekki stór og því furðulegt að fólk geti farið þar yfir á smáskekktum og gúmmítuðrum án þess að nokkrir verði þeirra var með berum augum, í sjónaukum, á radarskjám eða með háloftamyndum?

Er ef til vill öllum sama?

Hvað svo með glæpahópa sem leggja til ónýt fley undir flóttamenn sem þurfa að kosta öllu sínu til að fá pláss í þeim? Af hverju er ekki gengið í að koma í veg fyrir þennan ósóma? Samt eru þúsundir herskipa í löndum Vestur-Evrópu, Nató. Til hvers liggja þessi skip í höfn? Er ekkert brúk fyrir skip og áhafnir annað en að bíða eftir Rússum eða hryðjuverkamönnum?

Svo veltir maður fyrir sér hinum kristilegum gildum Evrópulanda, líka Íslands. Velmegunin er víst svo mikil í Evrópu að hin kristnu gildi mega sín einskis. Gestrisni sem öllum er kennd verður að engu vegna hræðslunnar við flóttafólkið. Sem sagt, ein milljón manna sem ekki eru ferðamenn heldur eru á flótta. Þá gerast þau undur og stórmerki að ...:

  • Dönsk stjórnvöld hirða öll verðmæti af flóttafólki
  • Norsk stjórnvöld vísa fólki til Rússlands þar sem frostið er gríðarlegt, bæði í andrúmslofti sem stjórnmálum.
  • Þeir Svíar eru til sem kveikja í húsum flóttamanna og hóta að drepa börn
  • Finnsk stjórnvöld ætla loka landamærum sínum.
  • Þýskur stjórnmálaflokkur vill láta skjóta flóttamenn við landamærin
  • Er hér ónefnd viðbrögð íbúa annarra Evrópulanda.

Auðvitað er allt þetta ósköp skiljanlegt enda er flóttafólk almennt stórhættulegt:

  • Það er ekki kristið sem auðvitað þýðir að það gæti beitt ofbeldi
  • Það er bláfátækt sem auðvitað þýðir að það þarf að betla
  • Það er atvinnulaust og tekur án efa vinnuna frá kristnu láglaunafólki
  • Það er veikt, að minnsta kosti sumir, sem þýðir byrði á heilbrigðiskerfinu
  • Það er húsnæðislaust sem þýðir að það verður byrði á félagslega kerfinu

Þegar öllu er á botninn hvolft virðist sem að allir hafa mjög sterka löngun til lífs og þörf á að afla sér viðurværis, matar og húsaskjól, ekki aðeins fyrir sjálfan sig heldur fjölskyldu sína og aðra nákomna. Þannig er þetta út um allan heim. Og hver eru nú hin kristnu gildi ef ekki að taka á móti fólki í neyð?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband