Enginn á að fara á fjöll að vetrarlagi nema kunna til verka

í línuTvær mikilvægar reglur eru í fjallaferðum að vetrarlagi.

  1. Að nota ísexi og ísbrodda.
  2. Að kunna að nota þessi tæki og hafa æft sig í því undir leiðsögn.

Því miður verða stundum óhöpp í fjallaferðum að vetrarlagi, jafnvel alvarleg slys. Snjór, ís, bratti og veður geta valdið hinum vanasta fjallamanni vandræðum. Til að komast áfram nota vanir fjallamenn ýmsar græjur.

Í bratta er nauðsynlegt að hafa meðferðis ísöxi og ísbrodda. Ótrúlegt hversu maður kemst langt með þessum tækjum og svo ekki sé talað um að ferðast í línu en þá þarf belti og fleira.

fjallabunadur_mediumÞetta virðist allt mjög einfalt en reyndin er sú að hjálpartæki geta verið stórkostlega hættuleg í meðferð þeirra sem ekki kunna á þau.

Fólk hefur snúið sig á ökkla með ísbrodda á fótum og jafnvel fótbrotnað. Dæmi er um að fólk hafi runnið niður í móti og skaðað þá sem eru fyrir neðan með broddum eða ísöxi.

Í bratta er notað ákveðið öryggisgrip á ísöxi en það byggist á því að geta beitt öxinni því sem næst umsvifalaust. Mikilvægast að koma sér á magann og þrýsta efri hluta axarinnar niður og draga þannig úr hraða og helst að geta stöðvað sig algjörlega.

Til þess að þetta takist þarf þetta að vera vel æft, rétt eins og sundtökin sem flestir grípa til við fall í vatn. Vandinn er sá að þegar maður dettur í snjó í miklum bratta er hvert sekúndubrot dýrmætt. Að öðrum kosti er hætta á að maður endasendist stjórnlaust niður brekkuna á sívaxandi hraða með hræðilegum afleiðingum.

Svo er það þetta með ísbroddanna. Þeir bjarga engu þegar maður dettur í bratta. Sé reynt að spyrna við fótum er hætta á að þeir nái skyndilega festu og fóturinn hreinlega brotni.

Um daginn var ég í Vífilsfelli og hitti Íslendinga og útlendinga sem voru á hákubroddum, svona smábroddum sem margir ganga á þegar hált er á sléttlendi. Þannig græjur eru gangslausar í fjöllum.

Fyrir nokkrum árum gekk ég á Hvannadalshnúk í glampandi sól og blíðu. Í fjallinu voru hundruð annarra sem nutu útiverunnar og reyndu sig við þennan hæsta tind landsins. Myndin hér fyrir ofan var tekin í ferðinni. Á myndinni eru þrír hópar, tveir á leiðinni upp síðasta áfangann og einn á niðurleið.

Tveir hóparnir fara algjörlega rangt að, eðeins hópurinn sem er lengst til vinstri gerir rétt.

Ég man ekki hvort það hafi verið þessir hópar eða einhverjir aðrir en ég man eftir stórum hópi á niðurleið. Ofarlega í hópnum hrasaði maður og féll á þann næsta fyrir neðan hann. Sá datt á þann þriðja og svo koll af kolli. Verra var að nokkrir í hópnum rákust á göngufólk á uppleið og þar með voru örlög þeirra ráðin. Um tuttugu og fimm manns enduðu fyrir neðan brekkuna í einni bendu. Líklega kunni enginn í þessum hópum að tryggja ... Hvað skyldi það nú annars þýða?

Hópurinn til vinstri á myndinni gerir rétt. Fólkið gengur í krókaleiðum upp. Ef einhver dettur geta flestir séð til þess sem hrasar og tryggt, það er stungið ísöxinni eldsnöggt niður og tekið sér viðbragðsstöðu áður en strekkist á línunni.

Sé hópurinn hins vegar í beinni línu geta fæstir brugðist við áföllum. Sá sem dettur fellur venulegast á þann næsta og svo koll af kolli.

Neðri myndina fann ég á vefnum náttura.is. Þar er stutt en góð grein um eftir Árna Tryggvason og nefnist hún „Hugleiðing vegna óhappa á fjöllum“.

Í greininni varar Árni við að fólk fari á fjöll án útbúnaðar og þekkingar. Eftirfarandi er úr greininni og ég er fyllilega sammála:

Að mínu mati hafa margir þessara hópa farið offari í sínum ferðum. Duglegt fólk sem telur sér allt fært en kunnáttan lítil og oft er hópstjórinn upphafinn sem alvitur leiðtogi.

Aðili sem fer oft of geyst og hleypir með [í ferðina] fólki sem á ekkert erindi á fjöll. Sorgleg staðreynd sem hefur orðið of mörgum að falli og það jafnvel í fylgd mjög vanra fjallamanna. Í ferðum sem þessum er hópurinn aldrei sterkari en sá sem sístur er varðandi kunnáttu og búnað. Þetta er staðreynd sem allir verða að temja sér sem ætla í ferðir sem þessar. Kröfur þarf því að auka til þátttakenda í slíkum ferðum og ekki síst þarf að auka kröfur til skipuleggjenda slíkra ferða.

Ábyrgð fararstjóra eða hópstjóra er mikilvæg. Oft stjórnar sá ferð sem er mestur garpurinn, gengur hraðast eða hefur þekkingu á því svæði sem um er farið. Það er bara oft ekki nóg. Kröfur sem hópur á að gera jafnt til sín sem og til fararstjórans er að allir kunni til verka. Hafi fararstjórinn til dæmis ekki þekkingu á notkun brodda og ísexi og sé vanur að ferðast með slíkar græjur á hann ekki að stjórna hópi. Og það sem meira er, enginn í hópnum á erindi í fjöll að vetrarlagi nema hann sé vanur. Allt annað býður hættunni heim. Best er að æfa sig, byrja hægt og rólega undir leiðsögn þeirra sem kunna til verka.

Og svo er það aðalreglan í fjallaferðum og hún er sú að hafa þekking og kjark til að snúa við áður en það er of seint. Betra er að ofnota þessa reglu frekar en að láta björgunarsveit sækja sig eða þyrlu Landhelgisgæslunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband