Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Borgarstjóri úti á Borgartúni

Þetta hefur komið inn á borð hjá okkur og það er eins með þetta og öll önnur svipuð mál þar sem framkvæmdir hafa verið, við reynum að lágmarka óþægindi og betrumbæta ef þurfa þykir. [...] En ég þekki það ekki hvort til stendur að setja útskot fyrir strætó þarna.

Jón Gnarr Kristinsson, borgarstjóri í Reykjavík, í viðtali í Morgunblaðinu í morgun. Rætt er um umferðateppu i Borgartúni sem strætisvagnar skapa vegna þess að ekki voru gerð útskot til að þeir gætu stoppað og um leið hleypt umferð framhjá sér. Nú er ætlunin að umferðin sé á strætisvagnahraða sem á víst að draga úr notkun einkabíla ... 

Borgarstjóri á að taka afstöðu, lætur laga það sem laga þarf, hann stjórnar. Nema því aðeins að hann vinni gegn hagsmunum þeirra sem ferðast á einkabílum um borginna.


Getur fagmaður starfað hjá óhæfum stjórnendum

Logi Ólafsson er tvímælalaust fagmaður, það hefur hann sýnt og sannað í sínu fagi. Vandinn við góða stjórnendur, skiptir engu á hvaða sviði það er, í íþróttum, viðskiptum og jafnvel stjórnmálum, eru hinir, þessir sem ekki eru fagmenn.

Hver þekkir ekki þá stöðu að hafa starfað hjá eða með óhæfu fólki? Þegar miklum kröfum er mætt með góðum afköstum og ágætum árangri eru alltaf einhverjir sem gagnrýna og halda því fram að betur hefði mátt gera. Þegar rætt er um málin kemur í ljós að þessir „gagnrýnendur“ eru síst af öllu með allt á hreinu, ef til vill að velta ímynduðu vandamáli fyrir sér í fyrsta sinn. Slíkir eiga það til að hrapa að einhverri niðurstöðu, á ensku „jump to a conclusion“.

Svo eru þeir til sem eigna sér heiður og segja þegar vel gengur: Nú get ég. Svo gengur hvorki né rekur og allt fer í handaskolum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að góður árangur næst hvergi nema með góðum undirbúningi, mikilli vinnu. Oft er verkefnið sjálft aðeins lítið og jafnvel ómerkilegt miðað við þá vinnu sem lögð er í aðdragandanum. Stjarnan kann að hafa tapað úrslitaleik um bikarinn en sú staðreynd að liðið komst í þennan leik segir mikla sögu. Sá sem gagnrýnir þjálfarann og leikmenn fyrir tapið hefur ekki framtíðarsýn. 


mbl.is Logi: Kom mér algjörlega í opna skjöldu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átta skjálftar stærri en 3 stig austan við Reykjanestá

Skjalftar4SkjalftarÉg skrifaði lítilræði um jarðskjálftana austan við Reykjanestá fyrr í morgun. Þá birti ég mynd frá Google Maps og hefur eflaust mörgum þótt nóg um fjölda skjálfta þarna sem voru staðsettir af mikilli nákvæmni.

Hér er önnur mynd sem ég tók af Google Maps fyrir nokkrum mínútum og hægra megin er sú sem ég tók í morgun. Nördar eins og ég geta leikið sér að því að bera þessar tvær myndir saman. Tvær og hálf klukkustund eru á milli þeirra.

Samkvæmt upplýsingum af vef Veðurstofunnar er fjöldi skjálfta sem hér segir:

 

  • Stærð minni en 1 alls:  5
  • Stærð 1 til 2 alls:  65
  • Stærð 2 til 3 alls:  33
  • Stærri en 3 alls:  8
  • Samtals: 111 
Skjálftahrinan byrjaði um klukkan 7:19 í morgun, þó var einn um 0,9 stig klukkan 1:22 en svo liðu nærri sex klukkustundir og þá skall þetta á fyrir alvöru og heldur enn áfram.

 


mbl.is Enn skelfur við Reykjanestá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nákvæmari staðsetningar skjálftanna

SkjalftarSkjalftar3Fyrr á þessu ári og allt fram í lok sumars voru miklar skjálftahrinur við Eldey. Þessir skjálftar hafa nú færst nær því upp á land eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi mynd.

Þarna er stór dreif skjálfta vestan við Grindavík. Litirnir gefa til kynna stærð þeirra, því dimmari því minni.

Eflaust er orsakanna að leita í spennu sem jarðskjálftarnir í sumar mynduðu og þessir skjálftar jafna hana út í jarðskorpunni.

Hugsanlega kann þessi hrina að verða til þess að aðrir skjálftar verði innar í landinu, nær höfuðborgarsvæðinu. Eða vera upphaf að eldgosi, hvað veit maður sosum, eins og karlin sagði.

Ekki hef ég hugmynd um hvers vegna þessir skjálftar eru margir hverjir svona stórir. Hins vegar held ég að sá skjálfti sem fannst á höfuðborgarsvæðinu eigi upptök sín enn austar, skammt suðaustan við Kleifarvatn, raunar í hafi. Á stærri myndinni sést upptök skjálftans lengst til hægri.

Mér finnst betra að skoða þessar myndir eða kort heldur en stöðluðu kortin hjá Veðurstofunni og birtist með fréttinni. Þær sýna betur staðsetningar og hægt er að fara langt inn í þær og sjá nákvæmlega hvar skjálfti varð.


mbl.is Skjálftinn mældist 4,8 stig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Intelligensían missti áhrif sín og Megas varð alþýðlegur

Heyrðu, Megas. Ég dáist ekki að þér. Ég kann hins vegar vel að meta að þú ert hagyrðingur af skárra taginu. Þú ert vel máli farinn, fékkst án efa gott uppeldi. Þegar á botninn er hvolft stóðst þú fyrir öllu því sem ég er á móti.

Þú varst átrúnaðargoð vinstri intellegensíunnar. Hún bar þig á höndum sér. Og við, sem í laumi bárum virðingu fyrir þér gátum ekki viðurkennt þig vegna pólitískrar þungavigtar sem bæði þú og þeir sem stóðu þér næst lögðu þér til. Virðingin var vegna þekkingar þinnar, þú kunnir að orða hugsun í ljóði sem hitti okkur stundum í hjartastað.

En núna er allt annað uppi á teningnum. Þú blandar orðið geði við aðra tónlistarmenn, sem hafa aldrei tekið svo beinharða afstöðu í stjórnmálum eins og þú. Vinstri intellegensían hefur til dæmis aldrei viðurkennt Gylfa Ægisson, sem þó er náttúrubarn í tónlist, alþýðlegi gæinn sem semur tónlist er allir geta hummað með, og hún er betri en en margir aðrir sem þó fengu „viðurkenninguna“.

Sem ráðherra veitti Björn Bjarnason þér viðurkenningu á degi Jónasar Hallgrímssonar. Sú var verðskulduð og vakti athygli. Um leið hrapaðir þú í áliti vinstri intellegensíunnar. Nú má eiginlega segja að þú sér orðinn „normal“.

Við sem stöndum hægra megin við miðjuna getum nú fagnað þér sem tónskáldi og hagyrðingi. Ef til vill ertu orðinn fráhverfur þeim stjórnmálaskoðunum sem þú hafðir áður, hugsanlega hefur þú þroskast. Þó kann að vera að „intellegengsían“ hafi einfaldlega mist þau áhrif sem hún hafði áður og við það hefur þú orðið ... tja ... mannlegur ... Veit ekki, en þú ert ekki samur og þú varst fyrir þrjátíu árum - þú ert betri. Þú ert alþýðlegur.


mbl.is Aðdáun þjóðarinnar að drepa Megas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sameining stofnana fyrir Excel eða þjóðina?

Er ekki ágætt að hafa það í huga að Landspítalinn, Borgarspítalinn og Landakotsspítali urðu að Landspítala-Háskólasjúkrahúsi árið 2000. Þar með höfðu flest sjúkrahús í Reykjavík verið sameinuð. Sex árum síðar voru St.Jósefsspítali og Sólvangur sameinaðir í eitt og áru síðar sett undir Landsspítalann en raunar lokað.

Síðan hefur engin samkeppni ríkt á milli sjúkrahúsa vegna þess að sérfræðingar á borð við Jón Torfa Jónasson prófessor við HÍ, fundu það út að Excelskjal var miklu áhrifaríkara til sparnaðaraðgerða en tilveran sjálf. Svo ekki sé talað um fólkið sem vann í þessum gömlu sjúkrahúsum eða þá sjúklinga sem nutu umönnunar.

Nú er sjálfur Landspítalinn, margsameinaður, á heljarþröm fjárhagslega. Excel vann en almenningur tapaði.

Jón Torfi Jónasson stendur upp og vill sameina Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Eflaust er hægt að fá Excel til að samþykkja að fjárhagslega hagkvæmara sé að reka einn skóla en tvo, við það sparast fjöldinn allur af embættum og stöðum. Hins vegar má ekki gleyma almenningi, fólkinu sem nýtir þjónustuna, námsmönnum og starfsmönnum. Ekkert bendir til að reksturinn verði á allar hliðar betri eftir sameiningu, þvert á móti benda líkur til þess að sameinaður háskóli muni stefna í sömu átt og sameinaður Landspítali, það er í tómt fjárhagslegt tjón, tap á starfsfólki og hæfileikaskorti.

Staðreyndin er einfaldlega sú að samkeppni getur ein verið sú hvatning sem þarf til að fólk geri betur. Rekstur á borð við ráðstjórn og einokun mun aldrei geta gagnast rétt eins og dæmin sanna, ekki síst hér á landi. Höldum háskólunum eins og þeir eru, reynum ekki sameiningar. Hitt er svo annað mál að gera má kröfur um aðhald í rekstri en um leið hvetja til akademískrar útrásar háskóla. Er það ekki veglegra markmið?

Excel er frábært forrit, eitt að þeim sem ég nota mest. Það hefur hins vegar engan skilning frekar en önnur. Furðulegast er þó að þeir sem nota Excel skuli verða eins og forritið, týna sjálfum sér.


mbl.is Styrkur að sameina HÍ og HR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótorhjól eiga aðeins heima á merktum vegum

Vélhjólamenn hafa haft aðstöðu við Bolaöldu norðaustan við Vífilsfell, rétt hjá Litlu-Kaffistofunni. Þeim hefur ekki dugað það land sem þeir fengu úthlutað heldur spóla sig suður og einnig vestur fyrir Bláfjöll. Þar hef ég oft rekist á þessa kumpána og þeir segjast mega aka þá slóða sem þeir hafa myndað á síðustu tíu árum.

Þeir hafa líka ekið vestan við Hengil, farið um Engidal og Marardal. Þeir aka um Fremstadal í Hengli og Innstadal. 

Sem sagt, utanvegaakstur á mótorhjólum er leyfilegur ef það er kominn slóði sem mótorhjólamenn hafa sjálfir myndað.

Þær myndir sem birtar eru með fréttinni eru ekkert einsdæmi.

Og hvers vegna er amast við mótorhjólaakstri í náttúrunni? Vegna þess að menn eyðileggar gríðarlega mikið, markfalt meira en gangandi fólk. Að auki virðist mörgum mótorhjólamönnum fátt heilagt.

Vélknúin ökutæki eiga aðeins að vera á merktum vegum. Flóknara er það ekki. Undantekningar er aðeins þegar snjór hylur jörð. 


mbl.is Staðnir að akstri utanvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KR-ingurinn Bjarni Guðjónsson til Fram

Bjarni Guðjónsson hefur verið einn af máttarstólpum KR-inga undanfarin ár. Við eigum eftir að sakna hans. Hann var einstaklega lipur með boltann, gat átt stórkostlegar sendingar fram á völlinn sem gáfu mörk. Stóð sig með afbrigðum vel, jafnt í vörn sem framar.

Vonandi kemur hann með nýtt hugarfar inn í Fram og ekki veitir af eftir frekar slappa framgöngu síðustu árin að undanskildu árinu í ár. Hver veit nem Frammarar eigi á ný eftir að verða stórveldi í knattspyrnu og það undir stjórn KR-ingsins og ÍA-mannsins, Bjarna Guðjónssonar.

Í Fram er nú einn KR-ingur fyrir, Viktor Bjarki Arnarson, sem kom til félagsins í fyrra. Mér hefur alltaf þótt Viktor góður knattspyrnumaður og hefði viljað sjá hann áfram í KR.


mbl.is Yfirlýsing frá Bjarna Guðjóns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snoppurfríð Hollívúddleikkona í hlutverki Agnesar

FrettHvernig skyldi það vera í útlandinu, geta aðeins snoppufríðar stúlkur leikið aðalhlutverk í kvikmyndum? Ég spyr vegna lítillar fréttar á blaðsíðu 38 í Morgunblaðinu. Þar er tilgreind einhver leikkona frá Hollívúdd sem sögð er koma til greina í hlutverk Agnesar Magnúsdóttur.

Agnes er þekktust í Íslandssögunni fyrir að hafa ásamt Friðriki Sigurðssyni verið þau síðustu sem tekin voru af lífi vegna glæps.

Ef til vill féll Natan fyrir fegurð Agnesar en í lýsingum á henni kemur fram að hún hafi verið gáfuð og hæfileikarík enda ráðskona hans. Natan var hins vegar ekki við eina fjölina felldur í kvennamálum.

Saga þessa fólks er margbrotin og held ég að óþarfi sé að gera Agnesi að fegurðardís, leggja meiri áherslu á hæfileika hennar og gáfur sem eflaust höfðu laðað margan manninn að henni. Natan hafði án efa lofað henni gulli og grænum skógum en sveik allt. Biturð og reiði í ástarmálum hafa oft haft slæmar afleiðingar, þó sjaldan eins og í þessari sögu.


Söguskýringar Ögmundar fyrrverandi

Ögmundur Jónasson, þingmaður og fyrrverandi innanríkisráðherra, ætti að skrifa fleiri greinar en tala minna. Ástæðan er einföld. Í rituðu máli er auðvelt að greina kjarna málsins (sé hann einhver) en í flaumi ótrúlega margra orða sem hin djúpa rödd flytur týnist kjarninn en „sannfæringarkrafturinn“ er slíkur að margur kann að segja: Ó, guð, hvað hann flutti þennan óskiljanlega boðskap vel.

Síðasta Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins fer hrikalega í taugarnar á Ögmundi í grein sem hann ritar í blaðið í dag. Það er skiljanlegt og því reynir hann að gera lítið úr efnisatriðum bréfsins. Um er að ræða verkfall opinberra starfsmanna árið 1984 þegar starfsmenn Ríkisútvarpsins slökktu á útsendingum vegna eigin hagsmuna og gáfu þá lítið fyrir að þessi stofnun hafði löngum byggt tilveru sína á svokölluðum öryggishagsmunum, að enginn myndi geta varað fólk við almannavá nema það.

Ögmundur heldur því fram að ríkisvaldið hafi neitað að greiða laun fyrir október 1984. Hins vegar var það þá afar klókt af launþegafélögunum að boða ekki til verkfalls fyrr en október væri hafinn og búið að borga út laun. Þar með væri fjárhagslega auðvelt fyrir þessi opinberu félög að fara í verkfall því á þessum árum voru laun opinberra starfsmanna borguð fyrirfram í upphafi hvers mánaðar. Þarna kom hins vegar krókur á móti bragði og varð ásamt fleiru til þess að verkfallið entist illa og var óvinsælt. Það hafði þó það í för með sér að æ fleiri komust á þá skoðun að afnema þyrfti einokun Ríkisútvarpsins í fjölmiðlum, markaði brautina.

Í dag er Ríkisútvarpið hins vegar risavaxið í fjölmiðlum, rekur margar útvarps- og sjónvarpsstöðvar og hagar sér eins og ríki í ríkinu. Það rukkar mig árlega um nærri tuttugu þúsund krónur og þessir peningar eru hrifsaðir af mér hvernig sem árar, hvort sem ég hef vinnu eða ekki. Þetta gengur auðvitað ekki, það hélt ég að flestir áttuðu sig á.

Með því að hafa rúmar þrjá milljarða króna í forskot í samkeppni við aðra fjölmiðla leyfir Ríkisútvarpið sér að berja á samkeppnisaðilum í auglýsingasölu og áskriftum. Hver getur á krepputímum keppt við þann aðila sem með ofbeldi hirðir áskriftina af einstaklingum og fyrirtækjum? Og hver má sín einhvers í auglýsingasölu gegn þeim sem er með slíkt ríkisstyrkt forskot?

Það er rétt sem Ögmundur segir í grein sinni að „Við erum ekki öll sögulaus“. Engu að síður eigum við okkur framtíð. Í henni ætti Ríkisútvarpið að fá að dafna og þroskast á eigin forsendum, án þvingunaráskriftar. Hins vegar er það svo að sum vé eru heilög í þjóðfélaginu, vinstri menn sjá um það. Ekki má snerta Ríkisútvarpið en stjórnvöld mega vaða uppi og nærri slátra fjárhagslegum grunni heilbrigðismála á höfuðborgarsvæðinu og ekki síst á landsbyggðinni.

Væri ekki nær að vinna að því að efla grunnþjónustuna í stað þess að styrkja fjölmiðlun. Ég myndi glaður samþykkja að andvirði þvingunaráskriftar að Ríkisútvarpinu myndi verða varið í heilbrigðismál.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband