Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Abraham Lincoln um tilvitnanir á netinu

Víkverji í Morgunblaðinu á tilvitnun dagsins, og líklega þá stórkostlegustu. Hann ræðir um fleygar tilvitnanir og dregur margar upp úr farteskinu. Svo segir hann:

Svo er auðvitað kapítuli út af fyrir sig hvort taka eigi slíkar upptalningar trúanlega, þótt tilgangur þeirra virðist göfugur.Því, eins og segir í einni frægustu tilvitnun Internetsins: „Vandamálið við tilvitnanir á Internetinu er að þú getur ekki alltaf stólað á að þær séu réttar,“ sagði Abraham Lincoln, árið 1864.

Sá sem hefur hugsað sér að gera einhverjar athugasemdir við ofangreint ætti að hugsa sig tvisvar um.

 


ÍBV heldur upp á 20 ára gamlan sigur á KR

Margir glöddust þegar KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu. Gerðu margir sér dagamun af því tilefni, en þó ekki allir. Víkverji Morgunblaðsins segir frá annarri sýn á afrek KR-liðsins.

Þær voru naprar kveðjurnar sem stuðningsmenn KR fengu frá íþróttadeild RÚV. Í staðinn fyrir að sýnt væri frá því þegar 2.000 manns á öllum aldri komu saman á Eiðistorgi til þess að hylla nýkrýnda Íslandsmeistara var sýnt frá um 20 Eyjamönnum komnum af léttasta skeiði að fagna því að einu sinni fyrir langa löngu náði ÍBV að vinna KR í fótbolta. Fyrir einskæra tilviljun var útvarpsstjórinn sjálfur mættur líka í þann fríða flokk. Víkverji telur að næst þegar KR fagnar Íslandsmeistaratitli ætti félagið að bjóða útvarpsstjóranum sérstaklega á sigurhátíðina, svona bara til þess að tryggja það að RÚV sýni nú eitthvað aðeins frá henni. Stöð 2 fær hins vegar hrós fyrir sína umfjöllun frá Eiðistorgi .

Ég man eftir þessum fréttum Ríkisútvarpsins og undraðist þó ég hefði nú dálítið gaman af því að menn úti í Eyjum haldi sigurhátíð vegna einstaks sigurs á KR fyrir ævalöngu. Ríkisútvarpið er einfaldlega skrýtinn fjölmiðill allra landsmanna - afsakið ... allra Eyjamanna eða tuttugu þeirra.


Koma þarf skúrkunum bak við lás og slá

Þegar almenningur gerist þreyttur á aðgerðarleysi stjórnvalda eða honum ofbýður er ekki gott í efni. Vissulega geta embættismenn litið stórt á sig og gert lítið úr kvörtunum, kallað þá kverúlanta sem gagnrýna. 

Hversu erfitt er til dæmis að taka glæpastarfsemi hér á landi föstum tökum. Það þarf ekki nema gott eftirlit á þeim sem ítrekað eru dæmdir fyrir brot, rafrænt eftirlit ef því er að skipta. Hversu margir atvinnuglæpamenn eru hér starfandi og hversu margir leiðast út í glæpi vegna fíkniefnaneyslu?

Tryggvi Páll Friðriksson, listmunasali, ritar litla grein í Morgunblaðið í morgun. Án efa taka flestir undir með honum þegar hann segir:

Hvernig væri að breyta leikreglunum núna? Framvegis verði þær miðaðar við hagsmuni almennings en ekki brotamannanna? Til dæmis þannig að þeir sem staðnir eru að ölvunarakstri og akstri undir áhrifum fíkniefna verði tafarlaust teknir úr umferð og sendir í einhvers konar meðferð. Að auki væru þeir sviptir ökuréttindum ævilangt og ökutæki þeirra undantekningalaust gerð upptæk. Er ekki kominn tími til að litið verði á þessi brot sem tilræði við borgarana? 

Þegar menn brjóta ítrekað og ákveðið af á hreinlega að svipta menn réttindum sínum og setja á bak við lás og slá þar til þeir sjá að sér. Lausnin er að minnsta kosti ekki sú að lögleiða fíkniefni.

Staðreyndin er einfaldlega þessi: Það geta varla verið „nein geimvísindi“ í 300.000 manna samfélagi að fylgjast með skúrkunum og koma böndum á þá.


Sigmundur Davíð og Bjarni, hvert í fjandanum liggur leiðin?

Mikið óskaplega flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, efnislega ruglingslega stefnuræðu í kvöld. Verð að segja að vonbrigði mín voru mikil með ræðuna sem og ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins.

Hér stíga fram ungir menn og eiga að byggja á nýjum vinnubrögðum og nýjum verkefnum. Nei, voru ungir menn með aldraðar hugmyndir. Ekkert nýtt sem skiptir máli, aðeins farið fram með gamlar lausnir í nýlegum umbúðum.

Fimm árum eftir hrunið og fjögurra ára hrunstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er ekkert að gerast. Síðasta ríkisstjórn spólaði í sömu förum og nú þykjast forvígismenn þeirra geta allt gert sem þeir vanræktu á með völdin vöru þeirra.

Og hvað gerum við núna sem biðum eftir betri tíð með blóm í haga? Eigum við aða halda áfram að bíða?

Ég tek dálítið mark á Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Hann segir í pistli á Evrópuvaktinni og er það að setja niður í við formann VG sem gagnrýnir fjárlagafrumvarpið:

Það er hægt að gagnrýna núverandi ríkisstjórn fyrir að grípa ekki til róttækra aðgerða með uppskurði á ríkiskerfinu í grundvallaratriðum til þess að rjúfa þá stöðnun en það er ekki hægt að skamma hana fyrir aðgerðir sem leiði til stöðnunar. Hún hefur verið til staðar.

Styrmir segir í öðrum pistli og er þar að fjalla um hagvöxtinn sem hann sér ekki nein merki um í nýju fjárlögunum. 

Þeir sem gerðu sér vonir um að með fyrsta fjárlagafrumvarpi hinnar nýju ríkisstjórnar yrði einhvers konar umbylting í opinbera kerfinu hafa hins vegar orðið fyrir vonbrigðum. Þetta er ekki slíkt fjárlagafrumvarp.

Framtíðarsýn Sigmundar Davíðs og Bjarna virðist vera dálítið þokukennd. Þeir félagar hafa að minnsta kosti ekki náð að blása mér bjartsýni í brjóst. Hafi það ekki tekist með mig, innvígðan Sjálfstæðismanninn, hver skyldi árangurinn hafa verið með aðra, almenning ... sjálfa þjóðina.

Nei, þeir náðu ekki að hrífa mig með. Kolamolatal Sigmundar Davíðs var ekki viðeigandi. Ég áttaði mig ekki á Bjarna. Ekkert nýtt var í ræðu hans. Þarna gæti hafa staðið Magnús Jónsson frá Mel, Gunnar Thoroddsen eða einhver annar af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sem stóðu fyrir áratugum fyrir fjármálum ríkisins. Sama ræðan ... Engin breyting á ástandi aðeins plástrar. „Viljum ekki eyða meira en við öflum“... Þetta sögðu þeir allir.

Undanfarna daga hef ég spjallað við fjölda mann, í heita pottinum í laugunum og víðar. Heyrðu, Sigurður, er sagt og margir benda vísifingri að mér. Svo er spurt. Hvers vegna er ríkisstjórnin að lækka skatta á útgerðinni, afnema auðmannaskatt á sama tíma vantar peninga til að reka ríkissjóð?

Mér vefst að sjálfsögðu tunga um höfuð og tala um að auka fjármagn í umferð, auka möguleika fyrirtækja til að fjárfesta. Fólk skynjar heimsku mína og vanþekkingu og býðst í staðinn til að tala um haustið og veðrið framundan. Ja, hérna ...

Hins vegar náði ræða formanns VG að heilla mig - hefði hún ekki gleymt stað og stund. Gleymdi því að fjögurra ára ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar skilaði litlu nema þokkalegu bókhaldi. Hún var að gagnrýna núverandi ríkisstjórn er um fjögurra mánaða gömul. Hún hafði samt rétt fyrir sér að mörgu leiti. Framtíðarsýn núverandi ríkisstjórnar er slöpp, áherslurnar slakar.


mbl.is Ísland getur orðið „fyrirmyndarland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreinræktaður eða gamaldags niðurskurður

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fylgja nánast hreinræktaðri niðurskurðarstefnu sem reynsla undanfarinna ára í Evrópu hefur sýnt að gerir illt verra,“ segir í tilkynningu frá þingflokki Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vegna fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Ennfremur segir í tilkynningunni að með frumvarpinu sé horfið „frá árangursríkri stefnu fyrri ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

Ræktunarstarf ríkisstjórna er misjafnt. Sumar eru gagnrýndar fyrir fjögurra ára samfellda og gamaldags niðurskurðarstefnu aðrar eru gagnrýndar fyrir fjögurra mánaða hreinræktaða niðurskurðarstefnu. 

Þeir sem heima sitja og jafnvel þeir sem hafa vinnu skilja ekkert í svona ræktunarstarfi og velt fyrir sér hvað Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur haft fyrir stafni síðustu fjögur árin.

Þar á bæ hefur ræktunarstarfið þó skilað svo miklum árangri að nú er hleypt af stokkunum nýræktuðum þingmönnum sem lesa og skilja fjárlagafrumvarp á örfáum nokkrum klukkutímum. Við hin föttum ekkert en þó örlar fyrir þeirri hugsun að VG hefði nú átt að standa sig betur í ríkisstjórn fyrst að skilningur flokksmanna sé svona afburða glöggur, nema því aðeins að nýræktuðu þingmennirnir séu klárir en hinir séu enn við sömu andlegu heilsuna.

Svo má spyrja hvort „árangursríkur niðurskurður“ fyrri ríkisstjórnar hafi verið skárri en hreinræktaður niðurskurður núverandi ríkisstjórnar á að vera. 

Raunar er svo árangurslaust að velta fyrir sér ályktun Vinstri grænna, svona svipað og að reyna að átta sig á því hvort þeir hafi fengið meðvitund eða misst hana.

Eitt er hins vegar víst, síðasta ríkisstjórn virðist hafa haft landsmenn að fífli miðað við hreinræktaða ályktun þingflokks VG.


mbl.is „Þetta er stöðnunarfrumvarp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband