Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Sagan af gúmmípakkanum dularfulla úr Sandvíkurfjöru

Stigvel

Hérna ætla ég að segja frá dálitlu ævintýri sem enn sér ekki fyrir endann á. Það skemmtilegasta við það er ímyndunaraflið sem að vísu fer dálítið langt frá raunveruleikanum í mínu tilviki, rétt eins og draumur, skemmtisaga eða bíómynd. Afþreyingin er hins vegar alltaf góð.

Aldrei hef ég fundið neitt merkilegt á göngum mínum um fjörur og er þó hinn mesti fjörulalli. Síðasta laugardag gerðist hins vegar dálítið sem í sjálfu sér er merkilegt og til að festa atvikið enn frekar í minni ætla ég að rekja það eins og það kom mér fyrir sjónir. Vara þó við því að ég er bæði gleyminn og á það til að ýkja dálitið, þó ég telji að allt sem hér fer á eftir sé sannleikanum samkvæmt ... held ég. 

Fjara á Reykjanesi

Þannig var að við tveir félagar ákváðum að ganga um Reykjanes, helst að fara Reykjaveginn. Þar sem við fundum ekki hið formlega upphaf hans álpuðumst við nokkru austar og að vík sem á korti nefnist Mölvík. Þekktust er hún væntanlega fyrir þá sök að í henni urðu fyrir rúmri viku miklir jarðskjálftar, jafnt inni á landi sem og á sjávarbotni.

Við gengum frá leifunum af fiskeldisstöð sem líklega náði aldrei fullum þroska, hrötuðum við ofan í fjöruna í Sandvík, en hún er vestan við Mölvík. Hvorug víknanna stendur undir nafni. Í þeim eru áberandi hlussustórir hnullungar, minna er þar af sandi og möl, en það er nú annað mál.

Sjavargos

Þar sem við röltum í hægðum okkar, horfum til gígsins á Háleyjarbungu, og veltum við því fyrir okkur hvort þar væri ekki ágætur staður til að fá sér nestisbita. Ef til vill um tveir kílómetrar þangað. Þá hrekkur úr félaga mínum, honum Jóni, sem horfir betur fyrir neðan fætur sér en ég: „Hvað í ósköpunum getur nú þetta verið.“ Gæti þó verið að hann hafi einfaldlega sagt: „Sjáðu“ eða eitthvað annað merkilegra.

Gúmmípakkinn 

Við störum á hlut sem í fljótu bragði virðist vera þakinn þara en er það þó ekki heldur er hann klæddur gúmmíi. Svo virðist sem gúmmíið sé lagskipt, hefur flagnað af honum að hluta en langt í frá að hann sé opinn. Var þetta gúmmí-bobbingur? Nei! Var þetta eitthvað sem notað er við fiskveiðar? Nei, ekki sýndist okkur það. Ef þetta líktist einhverju þá var þetta eins og frekar lítil taska vafin inn í gúmmí, mörgum lögum að því er virtist.

Þar með opnaðist fyrir flóðgáttir ímyndunaraflsins og við létum vaða. Dóp, pakkað í gúmmí. Innpakkaðir dollaraseðlar, gull og gersemar. Og svo náðum við flugi í getgátum: Gralið helga sem nasistar náðu í síðasta stríði og settu í skip sem sökk. Nei, frekar bráðdrepandi veira sem ábyrgur aðili hefur pakkað inn í mörg lög af gúmmíi og sökt í miðju Atlantshafi og ætlast til þess að pakkinn sykki niður á mörg þúsund metra dýpi og geymdist þar um aldir alda.

Hálfvitinn

Ég er nú eiginlega orðinn svangur,“ hrökk svo upp úr Jóni.

„Já, ég líka“, sagði ég

Langur gangur 

Við röltum svo þessa rúmu tvo kílómetra vestur fyrir Háleyjarbungu þar sem við fundum skjól fyrir gjólunni og úðuðum þar í okkur nesti. Þessu næstu héldum við áfram, skoðuðum björgin, gengum um hið sundursprungna Hrafnkelsstaðaberg en þar fyrir neðan hefur margur báturinn og skipið strandað. Og loks komum við að Reykjanestá og skoðuðum vitann. Héldum áfram um hraunið og að Valahnúkamöl og Valahnúk þar sem bíllinn beið. Þetta var þá orðin um sautján kílómetra gangur þennan daginn.

Fjaran

Hurðu“? segir þá Jón er við settumst inn í bílinn. „Eigum við ekki bara að kíkja á þennan dularfulla hlut í fjörunni í Sandvík.

,“ svaraði ég.

Pakkinn sóttur 

Við ókum að þangað, fylgdum slóðanum framhjá eldisstöðinni sem aldrei varð, sáum mann með stóran riffil sem lá húddinu á bílnum sínum. Hann skaut eitthvað út í fjarskann og notaði kíki, líklega nákvæmnismaður.

Í hvarfi frá honum lá gúmmíhluturinn efst í fjörunni og beið okkar. Við drösluðum honum upp að bílum og settum í skottið. Örugglega fimmtíu eða sextíu kílóa hlass.

IMG_0380

Nú vandaðist máli. Hvað ættum við að gera við hann? Jón stakk upp á því að við keyptum okkur hníf í Grindavík og skærum pakkann upp. Mér leist ekkert vel á það. Við þyrftum ábyggilega sög, fullyrti ég, og reyndist um síðir sannspár sem gerist sjaldan.

Förum þá með'ann heim í bílskúr. Þar á ég fullt af verkfærum,“ sagði Jón, örlítið rogginn.

Ertu vitlaus, maður,“ hrópaði ég í æsingi. „Hvað ef þetta er einhverskonar sprengja eða eitthvað þaðan af verra, til dæmis mannshausar sem mafían var að senda milli landa. Ekki viltu fá þá á gólfið í bílskúrnum?“

Þetta dugði. Eftir að hafa íhugað þessar röksemdir mínar í smá tíma fannst honum ekkert vit í því að fara með pakkann heim í bílskúr.

Gagnslausar varúðarráðstafanir 

Vinna

Við ókum engu að síður beinustu leið heim til Jóns, sóttum verkfæri út í bílskúr og fórum síðan yst út á Kársnes, en þar er tippur. Í skjóli fyrir fornvitnum augum söguðum við í gúmmíið, skárum í það með dúkahníf  en allt kom fyrir ekki. Loks stakk ég skrúfjárni inn og barði á það með hamri.

Einhvern veginn var ég búinn að steingleyma öll tali um hugsanlega sprengihættu. Engin sprenging varð en skrúfjárnið stóð fast í gúmmíinu. Hef ekki náð því síðan. Sem betur fer var þetta gamla skrúfjárnið hans Jóns og löngu afskrifað. Líklega hefði hann orðið reiður ef ég hefði festi hitt.

Sem sagt, allt gekk á afturfótunum og við ekki nógu miklir verkmenn til að geta opnað þennan dularfulla hlut. Því fórum við aftur heim til Jóns. Gleymdum öllu tali um sprengihættu, geislavirkni, ógeðsleka og öðru óþægilegu. Skelltum einfaldlega óværunni á borð í bílskúrnum. Svo nenntum við ekki meiru og ég fór heim, sótti sunddótið og hélt í Laugardalslaugina.

Allir muna eftir Einari Herjólfssyni

Morguninn eftir, það er mánudaginn, hringdi Jón og kvartaði undan skilningsleysi konu sinnar. „Hún heldur að þetta geti verið sprengja og kann frekar illa við svoleiðis í bílskúrnum okkar,“ sagði hann, rólegur að vanda.

Ég hafði hins vegar öðrum hnöppum að hneppa. Hélt suður að Gálgahrauni og mótmælti pínulítið eyðileggingunni á þessu fallega hrauni. Þar hitti ég gamlan félaga en hann var rétt nýbyrjaður í löggunni þegar ég var þar sumarmaður fyrir frekar mörgum áratugum. Hann er núna í rannsóknarlögreglunni og vegna gamallar vináttu fékk hann að heyra sólarsöguna en í staðinn kom hann í veg fyrir að ég væri handtekinn, borinn á braut og sektaður. Hann skemmti sér hið besta við að giska á innihaldið í gúmmípakkanum.

Nei, nei, minn kæri,“ sagði hann. „Ég held að það sé vonlaust að þú lendir í neinum vandamálum út af þessum fundi, hvort heldur pakkinn innihaldi dollara, dóp eða dauðaveiru.

Mér fannst það ekki líklegt. Enn man þjóðin eftir Einar Herjólfssyni sem kom hingað til lands um 1402 eftir ferðir sínar um Evrópu ... Jú, hann bar óafvitandi svartadauða til Íslands ...

Þessi ágæti rannsóknarlögreglumaður ráðlagði mér að hafa samband við Landhelgisgæsluna og láta sérfræðinga þar gegnumlýsa pakkann. Mér þótti það óráð. Ef eitthvað væri að dópi inni í honum værum við félagarnir handteknir fyrir smygl. Væru peningar í pakkanum yrðum við án efa handteknir fyrir peningaþvætti. Og væri þetta dauðaveira á borð við svartadauða yrði nafn mitt við hana kennd við hana um næstu aldir.

Ég hringdi í Jón og sagði honum frá þessu makalausa ráði. „Fínt,“ sagði hann. „Ég hringi í Gæslunna,“ og skellti á áður en að ég gat stunið upp mótmælum.

Víkinga- og sprengjusveitin og aðrir árásaraðilar   

Nokkru síðar hringdi hann aftur og sagði að sprengjudeild Landhelgisgæslunnar væri á leiðinni heim til sín. Mér krossbrá auðvitað og spurði hvort víkingasveitin komin á staðinn og búið væri að rýma hverfið, jafnvel búið gefa út handtökuskipun á mig.

Rólegur, maður,“ sagði Jón, enda sallarólegur sjálfur. „Þeir ætluðu nú eiginlega ekki að gera neitt, en þegar ég sendi þeim myndina sem þú sendir mér [og fylgir með þessum pistli], varð greinilega jarðskjálfti upp á fjóra og nú eru tveir menn á leiðinni.“

Er ekki betra að ég fari í felur?“ spurði ég, skelkaður. „Líkega best að ég skrifi mína útgáfu af fundinum, setji hana á bloggið svo landslýður viti sannleikann í málinu ef ske kynni að við myndum hreinlega týnast í meðförum víkingasveitarinnar eða njósnadeildarinnar sem vinstri menn hafa lengi haldið fram að væri starfandi í landinu.“ Menn hafa lent í Guantanamo fyrir minni sakir ... hugsaði ég.

Jón bað mig lengstra orða að vera rólegan og koma heim til sín. Ég gerði það með hálfum huga og við öllu búinn. Fer ekki nánar út í það hvernig viðbúnaður minn var. Þó sneri bíllinn rétt miðað við flóttaleið, númeraplöturnar hafði ég skrúfað af og þar að auki litað hann í felulitum.

Það fór eins og mig grunaði. Stuttu eftir að ég kom til Jóns renndu þrír bílar frá Landhelgisgæslunni í hlað auk bíla frá lögreglunni og sóttvörnum ríkisins. Ég var gripinn á hlaupum út í Jarisinn og Jón handteknn með nýja skrúfjárnið inni í bílskúr. Síðan vorum við settir í fangelsi upp á vatn og brauð meðan sprengjan var gerð óvirk með aðstöð kjarnorkusérfræðinga bandaríska öryggisráðsins ...

Nei ... Nú lét ég ímyndunaraflið aldeilis hlaupa með mér í gönur ... úbs! Þeir komu bara tveir saman, geðugir ungir menn, úr sprengjudeild Landhelgisgæslunnar, til að skoða pakkann. Þeir höfðu samt engan húmor fyrir fundinum og það sem verra var, ekki nokkurn skilning á ofurmannlegu ímyndunarafli okkar. Ólíklegt að þeir hafi lesið æsilegar strákabækur, til dæmis um hann Hjalta litla, Tom Swift, Prins Valiant, Ben Húr, Svarta prestinn og alla þá félaga sem héldu manni í ofurspennu langt fram á unglinsárin. 

Fljótræði hinna ungu sprengjumanna 

Þeir hurfu síðan á braut með gúmmípakkann aftan í Landcruser-jeppa. Sögðust hugsanlega ætla með hann út á æfingasvæðið við Keflavíkurflugvöll og sprengja hann þar.

Jæja, drengir mínir,“ sagði ég yfirlætislega. „Þið ætlið sem sagt að eiga það á samviskunni að hafa í einhverri fljótfærni eyðilagt gralið helga, brennt upp þúsundir dollaraseðla, stórskemmt gull og gersemar, eyðilagt egyptska muni úr grafhýsi Tutankamons eða rústað handritum sem rituð voru af samtímamanni hans Jesúsar frá Nasaret ...“ 

Þeir horfðu á mig opinmynntir. 

Við munum fylgjast með ykkur,“ bætti ég við. „Ef þið hættið í Gæslunni einhvern tímann á næstunni, þá merkir það að einhver verðmæti hafa verið í þessum pakka.“ 

Haka þeirra seig enn neðar meðan Jón tjáði sig.

Með þessar kveðjur í farteskinu hurfu hinir vösku sprengjuleitarmenn Landhelgisgæslunnar á braut, sögðu ekki einu sinni gúddbæ, farvel, áfvídersen, aloa ...

Framhald næst 

Hvað síðan hefur gerst, vitum vér eigi, en hér, á þessum vettvangi, verður áreiðanlega sagt frá framhaldinu og það áður en langt um líður. Fylgist með ... eins og þeir segja á ensku í sjónvarpinu.

Og þess má hér geta að sá sem kemst næst því að giska á innihald pakkans fær pínulitla viðurkenningu.*)

 

*) Ofangreind frásögn er ekki sannleikanum samkvæm, heldur byggist á ímyndunarafli höfundar, og hana má hvurgi staðar endurtaka nema með Leifi. Myndirnar eru úr blaði danskra fjallamanna. Höfundarrétturinn er ljósmyndarans. 

 


Gálgahraun fer sömu leið og Rauðhólar

Þegar ég sá fyrstu fréttina um að lögreglan hefði látið til skarar skríða í Gálgahrauni í morgun stóð ég upp og gekk út af vinnustaðnum og ók suðureftir. Auðvitað komst ég ekki að vettvangi, lögreglan gætti þess að bílar kæmust ekki að, lokaði við gatnamót. Ég ók því upp á Garðaholt og gekk þar smáspöl niður að hraun.

SS í mótmælum2

Í jaðri Gálgahraun að sunnan var fjölmennt lið lögreglumanna sem gerði enga tilraun til að stöðva för mína inn á hraunið. Ég gekk því óhikað inn og settist við hlið Reynis Ingibjartssonar sem ég kannast dálítið við og við tókum spjall saman. Stuttu síðar gekk að okkur lögreglvarðstjóri og spurði mig sem nýkominn hvort ég vissi hvað til míns friðar heyrði að öðrum kosti þyrftum við að raða saman um verkefni lögreglunnar. Ég kvaðst flest allt vita og frábað mér ræðuna. Þá sagðist hann kannkvís vilja fjarlægja Reyni og það í þriðja sinnið. Ég fengi að sitja á meðan og njóta dvalarinnar.

Þeir röðuðu sér nú á Reyni, hófu hann til himins eins og fis væri og báru á brott. Fyrir framan mig sat hjólreiðamaður í fullum herklæðum og þeir vísuðu honum á brott. Gengu síðan að mér og tóku á mér. Varðstjórinn spurði þá kannkvís hvort ég ætlaði að láta bera mig í burtu. Nei, ég sagðist kunna fótum mínum forráð. Samþykkti hann að ég fengi að rölta út fyrir plastborðan sem þarna markaði fyrirhugaðan veg. Ég gekk hægt í burtu en það dugði ekki einum ungum og yfir sig áhugasömum lögreglumanni því í oflæti sínu potaði hann stanslaust í mig með fingrinum og ekki minnkaði æsingurinn í honum þegar ég gekki lengri leiðina að borðanum.

Allir voru lögreglumenn mjög kurteisir eftir því sem ég gat best séð. Enginn var laminn og í sannleika sagt báru lögreglumenn mótmælendur á höndum sér ... það er nú þónokkuð.

Þetta er þó ekkert grín. Nú kann lesandinn að spyrja hvers vegna ég hafi tekið örlítinn þátt í þessum mótmælum. Ég hafði ekki meiri tíma vegna vinnu minnar. Ég styð þó fyllilega Hraunavini og mótmæli harðlega þeim náttúruspjöllum sem verið er að fremja á Gálgahrauni.

Lítum í dag til Rauðhóla við Suðurlandsveg. Þar var tekið gríðarlegt efni og notað í húsgrunna í Reykjavík og ekki síst í gerð flugvallarins. Á þeim tíma fannst öllum þetta tilvalið enda tíðarandinn allt annar. Ég held þó að nú sé meirihluti fólks sé eins farið og mér að Rauðhólar séu víti til varnaðar og sama megi ekki gerst með Gálgahraun, að það verði stórlega skaðað.

Hvað varðar bæjarstjórn Garðabæjar þá tel ég að þar þurfi menn að hugsa sinn gang upp á nýtt. Nú er það ekki svo að það séu einhverjir æsingamenn sem ganga fram fyrir skjöldu og vilja vernda Gálgahraun og ástæðurnar séu viti bornum mönnum algjörlega huldar eða þær þeim framandi.

Valdið verður að hafa vit og skynsemi. Þeim sem kjörnir til ábyrgðastarfa fyrir sveitarfélög ber að hafa til þá víðsýni og vilja til að gera góða hluti. Taka sönsum þegar því er að skipta. 

Hvað er það sem mótmælendur vilja? Jú, vernda náttúrulegt landslag, koma í veg fyrir óafturkræf spjöll. Hversu vondur getur slíkur málstaður verið að hann verðskuldi að stjórnvaldið loki augum sínum og berjist á hæl og hnakka gegn öllum fyrirhuguðum breytingum?

Málstaður mótmælenda góður og göfugur. Þeir sem fara með valdið fyrir hönd almennings þurfa að taka tillit til góðs málstaðar, þess sem skaðar engan en gerir það að verkum að umhverfi okkar verður einfaldlega betra og yndislegra. Hvar er skilningur bæjarstjórnar Garðabæjar.

Rauðhólar verða aldrei hinir sömu, þeir voru stórskemmdir. Því miður benda líkur til þess að stór hluti af Gálgahrauni verði fyrir óbætanlegum skaða. Jarðýtan sem ruddist yfir þar sem mótmælendur sátu áður eirði engu. Þar eyðilagðist lítil hrauntröð, birkihríslan marðist undir og mosinn tættist. Hugsaðu þér, lesandi góður, og við göngumenn tökum oft á okkur krók til að skemma ekki fallegan mosa, vildum jafnvel ganga í honum berfættir. Nei, jarðýtan fer allt. Tæknilega séð getum við fjarlægt Esjuna. 

Meðfylgjandi mynd er úr mótmælunum 21. október. Þarna situr Reynir Ingibjartsson flötum beinum hægra megin og vinstra megin sér í bakhlutann á undirrituðum. Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari.


mbl.is Spennustigið hátt í hrauninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru 20% íslenskra íbúða undirlögð áhrifum eitursvepps?

Myglusveppur er eitt alvarlegasta vandamáli sem íbúðaeigendur standa frammi fyrir. Hann er stórkostlega heilsuspillandi, uppgötvist hann ekki tímanlega. Undanfarna mánuði hef ég starfað dálítið fyrir Hreinsanda ehf. sem getur fjarlægt eituráhrif myglusvepps úr húsmunum með ósón.

Nær vikulega hef ég talað við fólk í vanda. Margt þeirra hefur búið í svona húsnæði í mörg ár og það þjáist af ýmis konar kvillum, öndunarfærasjúkdómum, sárum á húð, mótstöðuaflið minnkar gegn fjölmörgum sjúkdómum og svo má lengi telja. 

Vandinn er sá að myglusveppurinn gefur frá sér eitur sem berst um íbúðina og þeir sem þar búa anda þessu eitri að sér. Sveppurinn æxlast með gróum sem hann dreifir frá sér. Hvort tveggja sest í húsgögn og það er alkunna að þó fólk flytjist í húsnæði sem hefur ekki myglusvepp er eitrið enn í húsgögnunum og veldur fólki áframhaldandi vanlíðan.

Fyrir vikið hafa margir gripið til þess ráðs að henda húsgögnum og keypt sér ný og þessu fylgja auðvitað mikil fjárútlát og sársauki að þurfa að losa sig við muni sem það hefur tengst tilfinningalegum böndum.

Þetta er hægt að koma í veg fyrir og spara fólki fjárútlátin. Verra er að útlokað er að finna eitursvepp með mælingum. Hann er alltaf hulinn augum fólks, felur sig þar sem hann hefur nægan raka, til dæmis í þaki sem ekki hefur verið rétt byggt, baðherbergjum og eldhúsi. Margir hafa sagt að það sé útilokað að búa til baðherbergi með því að nota timbur í smíðarnar. Fyrr eða síðar verður leki og þá kviknar myglusveppurinn. Þetta gerist miklu síður í steinsteyptum baðherbergjum eftir því sem kunnugir segja mér.

Á ákaflega merkilegri ráðstefnu sem fyrirtækið Líf og heilsa og Endurmenntun hélt í byrjun september síðast liðinn (og fjölmiðlar sögðu ekkert frá) kom fram að á Norðurlöndum væri allt að 20% húsnæðis undirlagt myglusveppi. Er nokkur ástæða til að ætla að hann sé sjaldgæfari hér?

Tryggingar bæta ekki tjón sem verður vegna myglusvepps nema því aðeins að hann myndist vegna leka úr íbúðinni fyrir ofan. Hins vegar bæta tryggingar aldrei fjárhagslegan tjón fólks, hvað þá heilsufarslegan skaða.

Fyrirtækið Hreinsandi ehf. hefur tekið til sín húsgögn sem menguð er vegna myglusvepps, hreinsað þau og síðan sett í ósonklefa en þar gerir ósónið út af við eitrið og gróin og húsgögnin eru í fullkomnu lagi á eftir samkvæmt umsögnum eigenda. 


mbl.is Tugir húsa lagfærðir vegna myglusvepps
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akrafjall og Skarðsheiði

akrafjallVið fórum í gönguferð um Reykjenes í Græ, nánar tiltekið austan við Reykjanestá og vestur að litla vitanum við Reykjanestá og síðan að . Á leiðinni heim ókum við eftir Reykjanesbraut. Dimmt var yfir nema til vestur, norður og austurs. Segja má að myrkur hafi ríkt á höfuðborgarsvæðinu en þar fyrir utan var björt og fögur kvöldsól.

Meðfylgjandi mynd er af dimmu Akrafjalli og hún er teki með 300 mm aðdráttarlinsu. Varla er hægt að greina neitt annað en útlínurnar fjallsins. Ef tvímsellt er (eða oftar) á myndina má stækka hana upp og þá má greina í vesturhluta Reykjavíkur og Seltjarnarnes, t.d. Gróttuvita og Seltjarnarneskirkju.

Vinstra megin við Akrafjall er Hafnarfjall og hægra megin er Skarðsheiði og hæst trjónir þar Skarðshorn sem er 923 m hátt og aðeins austar er hærri tindur sem 1039 m.


Uppgangurinn og hrunið varð á höfuðborgarsvæðinu

Hagvoxtur

Á Norðurlandi, Suðurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum varð hvorki kreppa né samdráttur eftir 2007, nema þá í mjög stuttan tíma. 

Þetta segir höfundar skýrslunnar „Hagvöxtur landshluta 2007-2011" en um hana er fjallað í frétt í Morgunblaðinu í morgun og verða þetta að teljast afar merkilegt.

Gera má ráð fyrir því að sambærileg skýrsla, yrði hún skrifuð, muni sýna að uppgangur á árunum fyrir hrun hafi einkum verið á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi, síst á norðursvæði Vesturlands, Vestfjörðum, Norðurlandi, stórum hluta Austurlands og Suðurlandi. Að minnsta kosti er þetta reynsla flestra á landsbyggðinni og þar á meðal þess sem þetta ritar.

Tvisvar fór allt á hliðina á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, uppgangur og síðan hrun. Þessa veltings varð síður vart víða um landsbyggðina nema hvað verðlag varðar. Þar er allt í föstum skorðum. Sem dæmi um það eru atvinnuleysistölur sem aldrei urðu viðlíka háar og á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Ástæðan er einföld og hún er sú að atvinnuleysi leitaði ávallt í jafnvægi á landsbyggðinni. Viðbrögð fólks við atvinnuleysi var oft að flytjast til Reykjavíkur.

Miklar líkur eru á því að hagvöxtur á Norðurlandi eystra hafi verið svipaður og á Norðurlandi vestra en Akureyri skekkir án efa niðurstöðurnar í landshlutanum. Sama er án efa að segja um Austurland. Sé virkjunarframkvæmdirnar við Kárahnúka og bygging álversins í Reyðarfirði tekin út fyrir sviga má gera ráð fyrir að hagvöxturinn á svæðinu kunni að vera álíka eins og á annars staðar á landinu. 

Niðurstaðan er því einfaldlega sú að vandinn sem skapaðist á höfuðborgarsvæðinu hafði talsverð áhrif um landsbyggðina. Vöruverð spyr ekki um hreppamörk né heldur skuldastaða lána sveitarfélaga og fyrirtækja. Að öðru leyti virðist landsbyggðin hafa þrifist ágætlega og veltingurinn lítil áhrif haft.


Þjálfarinn ætlar að leggjast í helgan stein

Alltaf gaman af orðtakavillum sérstaklega þegar þær koma eins og þruma úr heiðskírum læk.

Herr Hitzfield er í fréttinni sagður ætla að leggjast í helgan stein. Eiður Guðnason sagði á bloggi sínu um daginn frá einum sem ætlaði að leggjast undir helgan stein.

Sagt er að tvisvar verði sá feginn sem á steininn sest. Til skýringar skal þess getið að í fyrra sinni verður þreyttur maður feginn að setjast á steininn og í síðara sinni verður hann glaður að standa upp og það helst áður en honum sárverkjar undan hörðu grjótinu.

Hitt er öruggt að örðugt mun flestum reynast að leggjast í helgan stein jafnt og þeim sem ætla að leggjast undir hann nema sá steinn sé helgur legsteinn, hvar margir enda fyrr eða síðar.

Á Vísindavefnum segir eftirfarandi um steininn helga og er það góð útskýring:

 

Í nútímamáli er merkingin í orðasambandinu að setjast í helgan stein að ‘draga sig í hlé, hætta að vinna’ og elsta dæmi Orðabókar Háskólans um þá notkun er frá fyrri hluta 19. aldar.

Í fornu máli var merkingin að ‘ganga í klaustur’. Að vísu var lýsingarorðið heilagur ekki með í orðasambandinu í elsta máli heldur var talað um að setjast í stein eða ganga í stein. Steinn er þarna í merkingunni ‘klaustur’.

Undir lok Grettis sögu segir frá samtali þeirra hjóna Spesar og Þorsteins drómundar. Spes sagði: „Nú skulum við kaupa að þeim mönnum sem hagir eru á steinsmíði að þeir geri sinn stein hvoru okkru og mættum við svo bæta það sem við höfum brotið við guð.” Þarna á Spes við að láta reisa tvö klaustur. Síðar í sama kafla stendur: „Og lyktaði þessari smíð og á viðurkvæmilegum tíma og öllum hlutum tilbúnum skildu þau sína stundlega samvist að sjálfráði sínu að þau mættu því heldur njótandi verða heilagrar samvistu annars heims. Settist þá í sinn stein hvort þeirra og lifðu þau langan tíma sem guð vildi skipa og entu svo sína ævi“ (Grettis saga 92. kafli).

Í Flateyjarbók er þetta dæmi: „Konungrinn ... gékk í stein ok var einsetumaðr, meðan hann lifði“ (Fritzner, Johan III:539).

Elsta dæmi Orðabókar Háskólans um helgan stein er frá miðri 17. öld en einnig er í kvæði eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld talað um kyrran stein: ,,Nú er mér kært í kyrran stein / að setjast sælu hjá, / sú leiðin þókti bein.“

Heimildir

Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. III. Oslo 1954.

Grettis saga. Í: Íslendinga sögur. Fyrra bindi. Svart á hvítu, Reykjavík 1985.

 


mbl.is Hitzfeld hættir þjálfun eftir HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri með enga ábyrgð

Á kjörtímabilinu hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn breytt stjórnskipulagi ráðhúss Reykjavíkur í þeim tilgangi að losa sitjandi borgarstjóra undan skyldum sínum. Í meginniðurstöðum sex mánaða gamallar skýrslu úttektarnefndar á stjórnkerfi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar kemur fram að óheppilegt sé að litið sé svo á að það sé að einhverju leyti valkvætt með hvaða hætti æðsti embættismaður borgarinnar (borgarstjóri) hagi aðkomu sinni að því starfi.

Þessi fráleita stjórnsýsla er í boði Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Þetta segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, sá sem er iðnastur borgarfulltrúa að skrifa í fjölmiðla og tjá skoðanir sínar í borgarmálum. Segja má að aðrir borgarfulltrúar séu gjörsamlega meðvitundarlausir enda ljóst að Besti flokkurinn í borgarstjórn er lítill hópur fólks sem hefur ekkert bakland og segist sjálfur ekki vera lýðræðislegur í eðli sínu.

Kjartan gagnrýnir forgagnsröðun Samfylkingar og Besta flokksins og bendir á að gæluverkefnin njóti meira vægis en önnur. Hann nefnir Hofsvallagötuklúðrið og segir:

Fjölmennur íbúafundur var haldinn í Vesturbænum í síðasta mánuði um breytingarnar á Hofsvallagötu. Æðstu yfirmenn verklegra framkvæmda hjá borginni, Jón Gnarr borgarstjóri og Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, sáu ekki ástæðu til að sækja fundinn og hlusta þar á sjónarmið íbúa. Þess í stað lýsti einn æðsti embættismaður borgarinnar því yfir í upphafi fundar að Jón Gnarr borgarstjóri bæri enga ábyrgð á framkvæmdunum. Varla er hægt að finna skýrara dæmi um það hvernig Jón Gnarr smeygir sér markvisst undan þeirri ábyrgð, sem fylgir starfi borgarstjóra. 

Auðvitað gengur það ekki að æðsti embættismaður borgarinnar sé ófær um að gegna stöðu sinni og hafi hvorki þekkingu né vilja til þess.

Niðurstaðan er sú að nánustu samstarfsmenn Jóns Gnars mynda skjaldborg í kringum hann og gæta þess að enginn nái til hans. Blaðamenn þurfa að leggja inn þær spurningar sem ætlunin er að þýfga manninn um, hann lærir svo svörin og gætir þess að svara engu öðru.

Að auki þarf hann ekki lengur að vinna vinnuna sína, heldur fær hann að taka þátt í þeim leik sem hann ákveður hverju sinni og það á fullum launum. 


Þjóðarfjöllin, skiptu skoðanirnar og fjallleysur

DimonFólki þykir gaman að kjósa um hvað sem er. Fallegasta konan, kynþokkafyllsti leikarinn, herra eða ungfrú sveitarfélagsins, vinsælasti stjórnmálamaðurinn, skemmtilegasti skemmtikrafturinn, leiðinlegasti stjórnmálamaðurinn og svo framvegis. 

Við lestur Moggans í morgun rifjaðist það upp fyrir mér að Landvernd hafði haft forgöngu um að kosið yrði „þjóðarfjall“ árið 2002. Fyrir valinu varð Herðubreið, 1.682 m hátt fjall sem er í eðli sínu dyngja, ekki stapi eins og margir kunna að halda. Vissulega er Herðubreið fagurt fjall en það er, þrátt fyrir þetta, ekki „þjóðarfjall“ Íslendinga frekar en Akureyri er „höfuðstaður Norðurlands“, eins og oft er japlað á, eða að Linda Pétursdóttir sé fallegasta kona heims.

Mat eins eða fleiri á fegurð hefur eiginlega ekkert að segja, það stenst varla ekki til lengri tíma. Væri það til dæmis einhver goðgá ef í ljós kæmi að Borgnesingar myndu langflestir telja Hafnarfjall fegursta fjall Íslands og þar af leiðandi „þjóðarfjall“? Ég yrði alveg fyllilega sammála þeim. Grundfirðingar myndu flestir velja Kirkjufell sem „þjóðarfjallið“ og enn væri ég sammála því vali. Hólmarar myndu eflaust velja Drápuhlíðarfjall, Skagstrendingar elska Spákonufell, Akureyringar Súlur, Húsvíkingar fjallið sem kennt er við víkina og svona má telja fjölda fjalla sem standa við eða í sjónfæri við bæi. Að ógleymdum öðrum stórkostlegum fjöllum sem fyrir löngu hafa brennt sig inn í huga þeirra sem séð hafa og skoðað. Ég væri ábyggilega sammála öllum niðurstöðunum.

Ég er oft spurður að því hver sé uppáhaldsstaðurinn minn hér á landi, uppáhaldsfjallið, fjörðurinn, vatnið, áin ... Svo hrifnæmur sem maður er þá kemur oftast upp síðasta fjallið sem maður gekk á eða leit augum. Lengi var ég skotinn í Esju og Móskarðshnúkum, Vífilsfelli ... svo fer maður á Eyjafjallajökul og allt breytist. Það er svo erfitt að velja því allt svona val er breytingum undirorpið. Umhverfið, stemningin, ferðafélagarnir og stundum veðrið (gott eða vont) hefur svo mikil áhrif á val mitt að ég gæti aldrei komist að fullkominni niðurstöðu.

Staðreyndin er einfaldlega sú að fæstir eru við eina fjölina felldir í „fjallamálum“ svo ekki sé talað um „þjóðarfjallamálum“. Úti á Markarfljótsaurum stendur Stóra-Dímon. Er hún fjall, fell eða fjallleysa? Eða Fimmvörðuháls eða Eiríksjökull ...?


Fornmenn voru fæstir víkingar

... af hverju fornkapparnir okkar sem við lærum um í sögubókunum og lesum um í Íslendingasögum þurfa allir að heita víkingar nú á dögum. Sannleikurinn er sá að þeim hefði fæstum þótt sómi að því heiti. Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar - og raunar alveg fram á okkar daga - merkti víkingur sjóræningi, maður sem stundar vígaferli og rán, yfirleitt utanlands.
 
Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og blaðamaður ritar fróðlegan pistil í Moggann sinn í morgun og vekur máls á staðreyndum sem fæst okkar hafa leitt hugann að. Sjálfur verð ég að viðurkenna að ég hafði ekki áttað mig á því að fæstir fornmenn íslenskir voru „víkingar“. Guðmundur nefnir að Halldór Laxnes hafi áttað sig á því að sjálfur Ari fróði nefnir ekki víkinga.
 
Hann [Ari fróði] virðist ekki einu sinni kannast við orðið. Ef dæma skyldi eftir þeim fróðleik sem í Íslendingabók er veittur virðast ekki líkur á því að nokkru sinni hafi verið víkingar á Íslandi, skrifaði Halldór eitt sinn.
 
Og svo segir Guðmundur í lok pistilsins:
 
Það var ekki fyrr en á 19. öld og síðar að farið var að nota heitið víkingur sem samheiti yfir allt norrænt fólk snemma á miðöldum. Þetta byrjaði í enskumælandi löndum en náði svo fótfestu annars staðar, þar á meðal á Íslandi á síðustu árum. Því miður er orðið of seint að vinda ofan af þessari merkingarbreytingu, en ef menn átta sig ekki á því að sama orðið er haft um tvö ólík hugtök er hætt við að þeir lendi í vandræðum þegar þeir lesa forna texta.
 
Víkjum nú frá Morgunblaðinu og yfir til Njálssögu. Þar segir af honum Gunnari Hámundarsyni, að hann hafi verið í Noregi og viljað fara í „hernað“ sem merkir ekkert annað en að hann fór í „víking“. Hvers vegna orðar höfundur Njálu það á þennan hátt í stað þess að segja beinum orðum að Gunnar hafi viljað fara í víking?
 
Á einum stað segir í Njálu:
 
Þaðan héldu þeir [Gunnar og félagar] suður til Danmerkur og þaðan austur í Smálönd og börðust jafnan og höfðu ávallt sigur. Ekki héldu þeir aftur að hausti. 
Annað sumar héldu þeir til Rafala og mættu þar víkingum og börðust þegar og fengu sigur. 
 
Þarna mættu Gunnar og félagar öðrum víkingum eftir að hafa sjálfir barist í Smálöndum og líklega rænt þar og ruplað að víkinga hætti. Hins vegar er höfundur Njálu svo „háttvís“ að hann segir fátt illt um Gunnar Hámundason og hefði til dæmis aldrei ritað að hann hefði ráðist á varnarlaust fólk í Smálöndum eða víðar og rænt það og drepið þá sem í móti stóðu.
 
Þetta var raunar það sem gerðist um allar miðaldir, víðs vegar um Evrópu. Ræningjar gerðu strandhögg þar á sem byggðin virtist veik, hirtu það sem þeir náðu og létu aungva standa í vegi fyrir sér, gætu þeir ráðið. Þetta gerðist um allt Miðjaðarhafið og allt upp til Íslandssstranda löngu eftir að Gunnar leið og á ég þá við „Tyrkjaránið“.
 
Líklega er hér mál að hætta enda er ég líklega kominn út á hættulegar slóðir, geri Gunnari upp níðingsverk og hugsa unnendur hans mér ábyggilega þegjandi þörfina. 

Gullkorn eftir Magnús Thoroddsen

Orðið dómgreind er fallegt orð í íslenzku máli og það er sjálflýsandi, eins og svo mörg orð á okkar fögru tungu. Vitanlega þarf dómari að kunna góð skil á íslenzkum rétti, bæði hvað varðar fræði og framkvæmd. En það er ekki nóg. Góður dómari verður að hafa góða dómgreind, vita og finna, hvar er sannast og réttast í hverju máli og „helst að lögum“, og dæma samkvæmt því.

Þetta þykir mér vel sagt og lýsir væntanlega vel innræti og viðhorfi þess sem þarna mælir. Sá hét Magnús Thoroddsen, lögfræðingur, hæstaréttarlögmaður og fyrrum hæstaréttardómari. Frétt um andlát hans birtist í Morgunblaðinu í morgun.

Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á lestri og les mér til ánægju margt af ólíklegasta tagi og þá gerist það að mér finnst ég orðið þekkja fjölda fólks jafnvel þó persónuleg kynni séu oftast engin. Þetta er svona einhliða vinskapur sem skapast hefur í mörgum tilvikum. Ekki þar fyrir að margir þeirra sem ég les bækur eða greinar eftir heilla mig lítið en það er önnur saga og annar handleggur.

Magnús Thoroddsen þekkti ég ekki persónulega, hitti hann samt nokkrum sinnum, og er næsta öruggur um að hann hafi hvorki þekkt haus né sporð á mér. Það skiptir hins vegar engu máli. Mest er um vert að hann skrifaði talsvert, hafði auga fyrir stíl og gat verið spaugsamur í greinum og pistlum. Framar öllu var hann fræðandi og fyrir það ber að þakka.

Tvær fyrstu tilvitnanirnar í þessum pistli eru úr grein Magnúsar þar sem hann á afar hógværan hátt tyftir hagfræðing nokkurn fyrir meinlegan misskilning í vefgrein. Hann gerir það á afar hógværan og einfaldan hátt. Ég orðaði það í pistli hér, að rök Magnúsar séu svo einföld að mér sé til efs að hagfræðingur hafi orðið þess var að hann hefur verið rassskelltur - sviðinn hlýtur að hafa verið óbærilegur þegar hann fattaði það.

Grundvallaratriðið er hins vegar ekki hvort maður hafi haft yfirhöndina í rökræðum heldur miklu frekar hvernig hann svaraði gagnrýni, jafnvel þeirri sem telst ómerkileg. Magnús sagði: 

Þurfa dómarar að hafa dómgreind? Mér finnst spurningin kjánaleg! En svarið er einfalt. Það er já. 

Einhverju sinni skrifaði Magnús Thoroddsen um fyrirhuguð jarðakaup kínversks kaupsýslumanns á Grímsstöðum á Fjöllum. Þá sagði hann eftirfarandi sem vert er að menn hugleiði mjög ítarlega:

Ég er borinn og barnfæddur Reykvíkingur og íslenzkur ríkisborgari. Ekki á ég lóðina undir húsi mínu, heldur leigi ég hana af borginni, svo sem títt er um aðra hús- eða íbúðareigendur í þéttbýli hér á landi. Þykir mér það sjálfsagt fyrirkomulag og hygg ég að svo finnist öðrum Íslendingum. Jarðir og lendur eru einu veraldargæðin, sem varanleg eru. Hvers vegna í ósköpunum eigum við að vera að selja erlendum aðiljum þessi gæði úr því að obbinn af Íslendingum nýtur þeirra ekki og lætur sér vel lynda? Þá segja menn: Við þurfum erlenda fjárfestingu inn í landið og það kann að vera rétt. En það er ekki sama hvernig hennar er aflað. Sjálfstæð þjóð gerir það ekki með því að selja undan sér landið.  [...]

Samkvæmt lögfræðinni þurfa þrjú skilyrði að vera fyrir hendi til þess að um þjóðríki geti verið að ræða, þ.e.: „Land, fólk og lögbundið skipulag“. Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir því, að „heimskapítalið“ getur keypt upp Ísland „Milli mjalta og messu“, ef Íslendingar halda ekki vöku sinni? Vilja menn það? Ekki trúi ég því. Það er viðbúið að ásókn erlendra auðhringa aukist stórlega í framtíðinni, vegna hinna miklu endurnýjanlegu náttúruauðlinda, er Ísland á yfir að ráða, nú þegar hratt gengur á óendurnýjanlegar auðlindir heimsins. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband