Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
Boragarstjórnarmeirihlutinn skapar ljóta borg
20.7.2011 | 11:41
Ég þekki mann sem er svona frekar latur og nískur og hann viðurkennir það fúslega. Hann á stóran garð en hefur engan áhuga á garðverkunum og það sem meira er sinnir þeim ekki. Honum fannst hann því hafa himinn höndum tekið þegar því var gaukað að honum að ekki þyrfti að vera gras í garðinum. Hann lét því rífa upp grasið og flestar plöntur og setja í staðinn marglita möl. Þetta var ansi snoturt hjá honum.
Nokkru síðar gerðist það að alls kyns plöntur tóku að stinga upp kollinum í garðinum, arfar, sóleyjar, hundasúrur og njóli. Hann sá þá eftir öllu saman, fannst garðurinn vera ljótur með þessu njólum og örfum og enn verra að eltast við þessar plöntur til að halda ásýnd garðsins eins og hún var þegar mölin var nýkomin.
Sagan endaði á því að maðurinn lét taka mölina úr garðinum og setti aftur gras og plöntur. Svo réði hann einhverja garðaþjónustu til að slá og hirða um annan gróður. Hann er núna alsæll.
Meirihluti borgarstjórnar er latur. Hann nennir ekki að ráða skólafólk til að sinna hirðingu eins og alla tíð hefur verið gert. Meirihlutinn er líka nískur. Hann heldur að snyrtileg ásýn borgarinnar fari með fjárhaginn.
Meirihluti borgarstjórnar er enn að læra stjórnun. Hann var blautur á bak við eyrun og er það ennþá. Borgin er orðin ljót og það er meirihlutanum að kenna.
Vilja minnka tún í borginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjallabaksvegur og Landmannaleið - ekkert annað
19.7.2011 | 09:19
Fyrir mörgum árum gaf ég út tímarit um ferðalög hér innanlands. Það kom út í fjögur ár og sá tími reyndist ævilöng lexía í rekstri, útgáfumálum, útlitshönnun og stjórnun og ekki síst í skrifum. Ég kynntist mörgu góðu fólki á þessum tíma.
Eitt sinn varð mér á í einhverjum skrifum að nefna Fjallabaksleið nyrðri og syðri. Mig minnir að sá ágæti maður Grétar Eiríksson, áhugaljósmyndari, er sat lengi í stjórn Ferðafélags Íslands, hafi þá komið í heimsókn til mín og veitt mér þarfa en vinsamlega áminningu.
Fjallabaksvegur nyrðri heitir vegurinn, sagði Grétar, og lagði áherslu á veginn.
Í Mogganum í morgun las ég stutta og góða grein um sama efni eftir mikinn fróðleiksmann, Þór Jakobsson, veðurfræðing. Í grein sinni segir Þór:
Mér hefur því verið hugsað til skrifa Pálma Hannessonar, náttúrufræðings og rektors Menntaskólans í Reykjavík, í bók hans, Um óbyggðir sem kom út fyrir hálfri öld (1958). Heitir þar einn kaflinn Fjallabaksvegur nyrðri eða Landmannaleið (bls. 177-178). Greinir hann frá því að heitið Fjallabaksvegur sé fornt, en þar er átt við leiðina sem nú kallast gjarnan Fjallabaksleið syðri. Hins vegar var það fyrst árið 1839 sem Björn Gunnlaugsson fór leið í landkönnun sinni, sem hann kallaði svo Fjallabaksveg nyrðri á uppdrætti sínum og loddi það síðan við í landfræðiritum.
Og í lok greinarinnar segir Þór:
Förum að ráðum skólamanns sem þekkti manna best landið, söguna og málið. Næst við sunnlensku jöklana norðanvert er Fjallabaksvegur, að baki byggðarfjallanna, að baki Eyjafjalla, en miklu norðar er Landmannaleið, kennd við Landmenn, heimamenn í Landsveit eða á Landi, sem er efsta sveit í Rang- árvallasýslu (Rangárþingi). Ég endurtek: annars vegar er Fjallabaksvegur, hins vegar Landmannaleið.
Í megindráttum er áminning Þórs á sama veg og Grétar Eiríksson veitti mér forðum daga. Undir orð Þórs get ég því fúslega tekið. Hvet aðra til að gefa orðum hans gaum. Við þurfum að leggja við eyrun þegar skynsamir menn mæla af þekkingu og vinsemd.
Er munur á okurverði og okurverði?
19.7.2011 | 08:58
Af nokkrum góðum greinum í Morgunblaðinu í morgun, þriðjudag, er ástæða til að vekja athygli þeirri eftir Jónas Gunnar Einarsson, rithöfund á blaðsíðu 20. Hann hamrar reiðilega á lyklaborðið vegna greinar sem Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, ritaði í blaðið fyrir viku. Jónas segir:
GB kyrjar þar enn gamalkunnugt okurversið, heilagt vers enn grundvöllur verðlags á íslenskum húsnæðislánum á frummarkaði með veðskuldabréf á Íslandi.
Okurversið svona: Jafnverðmætar krónur til baka með sanngjörnum vöxtum. Sjá Mbl. 12. júlí 2011 bls. 17. Hljómar dálítið eðlilegt og sanngjarnt en er í raun og sann stærsta og illvígasta kerfisvilla íslenska hagkerfisins.
Ef spurt af hverju er svarið þetta: Vegna þess að um leið og þetta vers er samþykkt eðlilegt og sanngjarnt vers sem grundvöllur verðlags húsnæðislána á frummarkaði, er um leið verið að samþykkja að velta allri ábyrgð af allri verðlagsþróun á allri vöru og þjónustu á allri plánetunni yfir á kaupendur íslenskra húsnæðislána. [...]
GB ber saman verð á tveimur vörum: verðtryggð og óverðtryggð húsnæðislán. Verðlaging á hvortveggja í höndum seljenda á frummarkaði og verð beggja vörutegunda alræmt okurverð, miðað við verð á húsnæðislánum í öllum okkar nágrannalöndum. GB ber því saman okurverð og okurverð. Segir svo annað verðið heldur skárra. Í meira lagi fróðlegt, eða hvað?
Jónas spyr hvað sé nú eiginlega að þessari þjónustu sem kallast húsnæðislán og svarar spurningunni með þessum orðum:
Í fyrsta lagi er okurverð aldrei eðlilegt og sanngjarnt.
Í öðru lagi er aflausn frá áhættu þverbrot á því sem eðlilegt er og sanngjarnt í viðskiptum, ekki síst á fjá málamörkuðum, þar sem verðlag vöru ræðst af áhættu og stendur í beinu samhengi við ábyrgð og traust.
Þriðja vitleysan ofin þessari vöru er hve ferlega hvetur þráðbeint seljendur verðtryggðra húsnæðislána á frummarkaði (sem og alla kaupendur verðtryggðra húsnæðislána á eftirmarkaði, þar með talið lífeyrissjóðina) til þess öfugmælis að stuðla sem hraðast og best að verðhækkunum, og þar með verðbólgu og hækkun neysluverðsvísitölu, því þá verður arðsemin hærri (hærri tekjur seljenda = þyngri greiðslubyrði kaupenda) af seldum lánum (sem og ávinningur kaupenda á eft- irmarkaði). Þessi súperhvati fer þannig alveg þvert gegn verðbólgumarkmiðum Seðlabankans sem og allri viðleitni til faglegri efnahagsstjórnar hérlendis.
Síst skánar síðan ef rannsökum vítisvél reikiútreikninganna m.v. Ólafslög, eignaupptökuna, einhliða skilmálana, mismunun kaupenda, o.fl., þ.m.t. brot á jafnræðisreglu og eignaréttarákvæðum stjórnarskrár.
Í grein sinni kemur Jónas inn á mjög viðkvæm mál sem varða allan almenning. Vandinn hefur verið sá að eignamyndun í húsnæði er mjög hæg og ástandið hefur einfaldlega orðið kolgeggjað eftir hrunið. Seljendur lána töldu sig hafa himinn höndum tekið í hruninu enda brann eigið fé í húseignum svo að segja upp miðað við óbreytt ástand í gengislánum.
Þó eflaust megi gagnrýna ýmislegt í grein Jónasar endurspeglar hún að minu áliti engu að síður álit þorra þjóðarinnar. Fólk er orðið þreytt á stöðu mála og krefst úrlausnar. Því miður hefur ríkisstjórnin gefið út að ekkert verði frekar aðhafst í lánamálum íbúðareigenda og þar við situr.
Ég þori eiginlega að veðja húfunni minni upp á að íbúðalánavandinn muni verða það sem mestu máli skiptir í næstu þingkosningum. Þá er hætt við að margir stjórnmálaflokkar fái falleinkun hjá þjóðinni, og ekki aðeins ríkisstjórnarflokkarnir.
Sköllóttur eða hárfatlaður einstaklingur ...
18.7.2011 | 19:09
Stjórnlagaráðið tekur á mörgum afskaplega þörfum málum, greinir ítarlega frá þeim en gleymir ýmsu enda er ég ekki í því. Nefna má sérstaklega eftirfarandi:
Orðið skalli má ekki nota um hárlaust höfuð. Þegar vöntun er á hári skal framvegis tala um hárfötlun, mikla eða litla. Orðið skalli er niðrandi merkin rétt eins og orðið negri sem ekki lengur er notað um þeldökkt fólk.
Þegar t.d. er lýst er eftir manni og honum lýst sem sköllóttum skal framvegis tala um hárfatlaðan mann. Að öðrum kosti skulu viðkomandi eiga yfir höfði sér (skalla) sekt mikla og skal málið rannsakað af hárfötlunardeild lögreglustjóraembættisins.
Í samsettum orðum skyldi aldrei tala um mann sem skallaskít heldur hárfatlafól. Heimilt á að vera að tala um jökulskalla þegar náttúru landsins er lýst en óheimilt að kalla einstakling slíku nafni. Blettaskalli er óheimilt að nota, heldur skal segja blettahárfötlun, hálfskalli skal vera hálfhárfatlaður einstaklingur ...
Úff, ég nenni ekki lengur að snúna svona út úr niðurstöðum stjórnlagaráðs. Þar er komin samsuða sem tekur á öllu og engu í miklu orðavaðli. Var eitthvað þannig að núgildandi stjórnarskrá sem drögin frá stjórnlagaráði eiga að bæta úr?
Óheftur aðgangur að netinu verði tryggður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kunnuglegur forleikur í Mýrdalsjökli
18.7.2011 | 11:08
Erfitt er fyrir leikmenn að spá í þær upplýsingar sem Veðurstofan þóknast að hleypa manni í. Sem fyrr eru jarðfræðingar eru þöglir sem gröfin. Gefa ekkert upp. Ástæðan er líklega sú að þeir eru eins og við hin, geta ekki spáð fram í tímann. Einnig finnst þeim verulega vont að þurfa að draga eitthvað til baka.
Hins vegar fer ekki hjá því að leikmaðurinn sjái einhver líkindi með gosinu í Eyjafjallajökli og þeim jarðskjálftum sem nú eru í Mýrdalsjökli.
Efsta myndin var tekin af vefsíðu Veðurstofunnar 6. apríl 2010. þarna hafa orðið hressilegir jarðskjálftar í rótum
Steinsholtsjökuls sem er skriðjökull í Eyjafjallajökli. Þar héldu allir að myndir verða eldgos enda voru jarðskjálftarnir flestir á þessum slóðum þangað til sprakk í gígnum þann 14. apríl.
Næsta mynd fyrir er af jarðskjálftavirkninni í Mýrdalsjökli síðustu daga. Nokkur munur er á þessum tveimur myndum. Sú síðarnefnda sannar að vísu ekkert því nauðsynlegt er að skoða það sem að baki liggur.
Við leikmenn látum það þó ekki slá okkur út af laginu. Við höldum því einfaldlega fram að síaukinn fjöldi jarðskjálfta sé aðdragandi eldgoss og innan mánaðar verði farið að gjósa haldi þessi þróun áfram.
Í alvöru talað væri gaman að sjá uppsafnaðan fjölda skjálfta í jöklinum, t.d. síðustu fjóra mánuði.
Dýpi skjálftanna segir til um kvikuhreyfingar. Hægt er að fylgjast með því hvernig skjálftar sem byrja djúpt grynnast en það bendir til kvikuhreyfingar.
Þá væri gaman að fá að vita eitthvað um gps mælingarnar en þær geta sýnt hreyfingar kvikunnar frá því djúp í jörðu og inn í jarðskorpuna. Við það hliðrast jarðskorpan til og jafnvel lyftist.
Þá eru það óróamælingarnar. Þær mæla lágtíðnihljóð af ýmsu tagi úr iðrum jarðar. Jarðfræðingar ráða af þessum mælingum hvort kvika sé á hreyfingu.
Sé farið inn á vef Veðurstofunnar og litið á óróamælingarnar þá eru þær talsverðar og alls ekki hægt að segja að allt sé með kyrrum kjörum. Ekki heldur er hægt að fullyrða að allt sé á rennandi gosleið þó ýmislegt bendi til þess.
Til samanburðar eru hér tvær myndir af óróamælingum. Sú efri er frá Hrauni á Skaga. Þar virðist allt vera með kyrrum kjörum - að mestu. Hins vegar er myndin af óróamælingunum frá Goðabungu í Mýrdalsjökli allt önnur. Þar eru helv... læti. Dæmi svo hver fyrir sig um lífið í Mýrdalsjökli.
Hér að ofan er samankominn heilmikill fróðleikur. Hann skiptist í gáfulegar upplýsingar, rugl og svo er talsvert um vitleysu.
Það er síðan verkefni lesandans að greina á milli. Þetta er nú eiginlega allt sem ég veit um eldgos.
Annars er best að vísa á vefsíðu Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðings, http://vulkan.blog.is. Hann hefur þá náðargáfu að geta sagt frá fóknum jarðfræðilegum staðreyndum að auðskiljanlegan hátt.
Skjálftahrina í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þingmaðurinn Björn Valur er ósannindamaður
15.7.2011 | 22:45
Lygi er alltaf til óþurftar og þeir sem bregða henni fyrir sér eru ómerkingar og í mörgum tilfellum slæmt fólk. Ég veit ekki með alþingismann sem heitir Björn Valur Gíslason. Hann er í það minnst ómerkilegur jafnvel illa innrættur því hann fer blákalt með ósannindi.
Á bloggi sínu segir ræðir hann um söluna á Byr sem fjármálaræðaherra fyrir hönd ríkissjóðs seldi Íslandsbanka. Menn hafa átalið ráðherrann og ríkisstjórnina fyrir að gefa ekki upp söluverðið:
Meðalgáfaður fréttamaður ætti að gera sér grein fyrir því að útgjöld eða tekjur ríkisins eru opinber og ómögulegt að halda leyndu jafnvel þó svo að menn reyndu hvað þeir gætu í því. Menn komust reyndar ansi nálægt því við einkavinavæðingu bankanna á sínum tíma þegar allskonar söluverð var skáldað upp sem á endanum var aldrei greitt (a.m.k. hvað Landsbankann varðar) og hefði auðvitað átt að skila sér í reikningum ríkisins en gerði hinsvegar aldrei.
Auðvitað er söluverðið opinbert og um það verður upplýst þegar salan er endanlega gengin í gegn. Söluverðið mun koma fram í ríkisreikningi ársins eins og vera ber. Nema hvað? Hvaða ástæða ætti annars að vera fyrir því að halda söluverðinu leyndu?
Hann reynir að þyrla upp einhvers konar moldvirðri um sölu bankanna á sínum tíma í þeirri von að vandræðagangurinn vegna Byrs falli í skuggann. Þetta er svo sem allt í lagi en verra er að hann segir blákalt rangt frá.
Björn ætti að lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingar banaka og fyrirtækja, en sú skýrsla var gerð að beiðni þingmanna Vinstri grænna og kom út í desember 2003. Í henni segir m.a.:
Fjöldi hluthafa í Landsbanka Íslands hf. var 13.714 í lok september 2003. Eftir að Samson eignarhaldsfélag ehf. hefur greitt lokagreiðslu skv. samningnum við ríkið verður eignarhlutur þess 41,8%. Fjórir stærstu eigendurnir eiga 51,4% eignarhlut í bankanum og tíu stærstu 61,2%.
Eftir að ríkið hætti afskiptum af Landsbankanum hefur virði hans aukist verulega og bankinn er orðinn sterkari og samkeppnishæfari en áður var.
Enginn ágreiningur var um skýrslu Ríkisendurskoðunar og var hún þó mjög gagnrýnin á ýmislegt í framkvæmd sölu ríkisfyrirtækja. Í heildina var sala og söluferill talinn viðunandi.
Ríkissjóður fékk allar greiðslur fyrir Landsbankann. Útilokað er að halda öðru fram og staðhæfing Björn er einfaldlega lygi, öðruvísi er eki hægt að orða það. Söluverðið var strax gefið upp ólíkt því sem gerist við núverandi einkavæðingu Brims. Ekki nokkur ástæða er til að halda söluverðinu leyndu og hefði ríkisstjórn vegum Sjáflstæðisflokksins gert slíkt hefði VG risið upp á afturlappirnar og froðufellt af vandlætingu.
Hins vegar er ástæða til að taka undir Birni Vali Gíslasyni þegar hann spyr um söluna á Byr: Hvaða ástæða ætti annars að vera fyrir því að halda söluverðinu leyndu?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.7.2011 kl. 08:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Brúarleysið á Múlakvísl er ekkert gamanmál
14.7.2011 | 14:11
Farsinn vegna brúarleysið á Múlakvísl er ótrúlegur. Nú leggja fjölmiðlar áherslu á að ferðamenn skemmti sér aldeilis stórkostlega í ferjuflutningum yfir fljótið. Mikið gaman, mikið fjör ...
Margir sjá þó aðrar hliðar á málinu og þær eru ekkert gamanmál. Þeir sem gengið hafa fram fyrir skjöldu og krafist úrbóta, bráðabirgðabrúar, eru af fjölmörgum úthrópaðir fyrir æsing, frekju, og ruddaskap við Vegagerðina og ríkisstjórn.
Sá ágæti maður Ómar Valdimarsson, eldri, segir í fyrirsögn á bloggi sínu um þá sem kvarta undan samgönguleysinu: Organdi frekja. Og í blogginu segir hann:
Ég hef hvergi séð tölur um hversu margir gestir hafa hætt við að koma til Hornafjarðar eða Víkur í Mýrdal. Samt láta hótelhaldarar og sveitastjórnarmenn á þessum stöðum eins og himininn hafi hrunið yfir þá og að peningarnir fljúgi út úr kössunum þeirra. Hvernig er hægt að tapa milljörðum króna á fjórum dögum?
Ómar sýnist víst ekki skilja ferðaþjónustuna og ekki heldur veit hann að fyrir austan býr fólk sem þarf mat og aðrar vörur. Síðan brúin fór hefur flutningskostnaður aukist um 30% eftir því sem fjölmiðlar herma.
Og jafnvel þegar bæjarstjórinn á Höfn reynir að leiðrétta Ómar og skýrsla Rannsóknarseturs HÍ liggur fyrir maldar Ómar í móinn og segir:
Ekki ætla ég að bregða brigður á útreikninga Rannsóknarseturs HÍ en varla er það svo að ferðamenn komi eingöngu til Hornafjarðar suðurleiðina. Koma virkilega engir úr hinni áttinni? Og var orðið ljóst strax í hádeginu á mánudag, tveimur dögum eftir hlaupið í ánni, að 50% samdráttur blasti við ferðabransanum á Hornafirði? Ætli það.
Ómar er skynsamur maður og ég hef lesið bloggið hans mér til ánægju og upplýsingar. Hann fer þó aldeilis villur vegar í málefnum ferðaþjónustunnar og virðist ekki gera sér grein fyrir öðrum rekstri og búsetu fólks fyrir austan. Mér finnst eins og hann haldi að ferðaþjónustan og aðrir séu að ljúga að þjóðinni.
Hann heldur líklega að ferðamenn staldri bara við og bíði ... Það er nú öðru nær, þeir fara bara eitthvað annað og ferðaþjónustan fyrir austan situr eftir með sárt ennið.
Samgöngur skipta landsbyggðina meira máli en flest annað. Það er einfaldlega ástæðan fyrir því að hagsmunaaðilar, íbúar og sveitarstjórnarmenn risu upp með látum þegar Vegagerðin lét hafa það eftir sér að það myndi taka þrjár vikur að byggja nýja brú. Skynsamir menn bentu á að á nokkrum dögum væri hægt að byggja bráðabirgðabrú úr rörum eða gámum. Þrátt fyrir það fer Vegagerðin sínu fram og býður hagsmunaaðilum, ferðamönnum, íbúum og flutningsaðilum upp á selflutninga á fólki og bílum. Um leið sést á myndum að bráðabirgðabrú Vegagerðarinnar er byggð á þurru landi, fljótinu veitt sitt á hvað.
Mér er fyrirmunað að skilja það á árinu 2011 þurfi Vegagerðin að nota selflutninga í stað þess að brúka stórvirk tæki og tækni til að skella niður bráðabirgðabrú á Múlakvísl. En þessi steinrunna stofnun fer sínu fram og ráðherrar mala og hæla stofnuninni á hvert reipi. Dettur nokkrum mönnum í hug að Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hefðu haldið sig á mottunni væru þeir í stjórnarandstöðu. Nei, þeir hefðu ráðist á ríkisstjórnina fyrir sleifarlag og aumingjaskap - og þeir hefðu þá haft rétt fyrir sér. Ástæðan er einföld, brúarleysið á Múlakvísl er ekkert gamanmál fyrir íbúa í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum.
Eins og í Disneylandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Héðinsfjarðargöng hafa sannað gildi sitt
14.7.2011 | 11:55
Samgöngur eru grunnatriði í tilveru allra sveitarfélaga á landsbyggðinni. Viðbrögð fólks fyrir Í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslum var eingin tilviljun þegar brúin fór af Múlakvísl í flóðinum um daginn. Allt byggist á góðum samgöngum; vegum, flugi og höfnum. Með flutningi á vegum á fólk víðast um land þess kost að fá ferska matvöru svo að segja daglega. Samgöngurnar eru nefnilega ekki aðeins fyrir ferðaþjónustuna heldur byggist lífsviðurværi annarra líka á þeim.
Gunnar Birgissin þáverandi bæjarstjóri í Kópavogi og þingmaður var svo smekklegur að hann lýsti því yfir í grein í Morgunblaðinu að þegar Héðinsfjarðargöng voru á teikniborðinu að þau væru vitlausasta framkvæmt Íslandssögunnar.
Ég ritaði grein á móti 21. apríl 2005 og fyrirsögnin var Vitlausasti þingmaðurinn?. tek það fram að þetta var ekki fullyrðing heldur fylgdi spurningarmerki á eftir. Í greininni er eftirfarandi:
Nauðsynlegt er að gera einfaldar athugasemdir við ummæli Gunnars þó ekki sé til annars en að benda á að þau endurspegla alls ekki skoðanir fjölmargra íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Raunar er mér til efs að þau eigi þar nokkurn hljómgrunn nema kannski hjá Errlistanum í Reykjavík sem hefur leiðst út í óþarfa andstöðu við landsbyggðarfólk.
Svona skrýtnar eru skoðanir þingmannsins.
1. Hann metur samgöngubætur eftir kjördæmum og íbúafjölda sem orkar að minnsta kosti tvímælis.
2. Hann vill etja saman höfuðborgarsvæði og landsbyggð í kappi um fjárveitingar til samgöngumála sem er ákaflega heimskulegt.
3. Hann hefur haft fjölmörg tækifæri til að ræða við samgönguráðherra um samgönguáætlunina en ræðst engu að síður opinberlega gegn honum með gífuryrðum sem er óskiljanlegt.
Vegabætur á landsbyggðinni teljast ekki byggðamál í þröngum skilningi þess orðs heldur miklu frekar þjóðarnauðsyn. Ákvörðun um framkvæmdir geta ekki byggst á íbúafjölda vegna þeirrar einföldu staðreyndar að víða er landslagið ráðandi þáttur. Þörf er málamiðlunar milli ólíkra sjónarmiða og sem slík er samgönguáætlunin mjög góð.
Auðvitað eru áherslur manna margar og mismunandi en skýr stefna verður hins vegar að vera til staðar. Í stað þess að standa í gamaldags kjördæmapoti ætti Gunnar að einbeita sér að því að vera þingmaður allra landsmanna, óháð búsetu.
Þrátt fyrir strákslega fyrirsögn er langt í frá að ég vilji vega að Gunnari persónulega en ummæli hans um Héðinsfjarðargöng eru engu að síður þau vitlausustu sem ég heyrt um í langan tíma.
Til skýringar skal þess getið að sú samgönguáætlun sem um er rætt kom frá Sturlu Böðvarssyni, þaverandi samgönguráðherra, og samflokksmanni Gunnars Birgissonar.
Nú hefur Morgunblaðið birt ítarlega og góða samantekt um stöðu mála eftir að Héðinsfjarðargöng hafa verið tekin í notkun. Vissulega voru þau dýr en hagkvæmnin er gríðarleg fyrir fólkið sem þarna býr. Fyrir vikið er búsetan um allt auðveldari og rekstur hins nýja sveitarfélags léttari en fyrir var.
Fjölbreyttara mannlíf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vangaveltur um síma, þjófnað og réttlæti
14.7.2011 | 09:23
Fréttir frá Bretlandi um innbrot í síma og tölvur eru ógnvekjandi. Handsímar virðast vera frekar óörugg tæki, og svo virðist sem framleiðendur þeirra hafi lagt megináherslu á frábæra og skemmtilega tækni en ekki að sama skapi á öryggi. Þar af leiðir að símaeigendur þeirra auðveld bráð fyrir glæpamenn. Þróunin hefur síðan orðið sú að fjölmiðlar hafa reynt að stytta sér leið í áhugaverða tækni með því að gera hið sama, brjótast inn í síma, þefa og snuðra og fionna eitthvað sem getur selt blöðin.
Í sjálfu sér er þarna enginn munur á fjölmiðli og glæpamönnum. Hvorir tveggja brjóta lög. Ég rak þó upp stór augu þegar það kom fram í einhverjum enskum fjölmiðlum að ritstjórn News of The World hefði greitt glæpamönnum til að brjótast inn í síma. Talið er að um fjögur þúsund símar hafi verið hakkaðir á þennan hátt.
Vissulega getur verið fengur í trúnaðarupplýsingum hvernig svo sem þær eru fengnar. Nefna má SÍA skjölin, skýrslur námsmanna í hinni sósíalísku Austur-Evrópu sem Heimdallur komst yfir og birti í stórri bók fyrir um fjórum áratugum. Enn hefur ekki verið greint frá því hvernig þessi skjöl komust í hendur andstæðinga sósíalista en fullyrða má að birting þeirra var gríðarlegt áfall fyrir þá og hefur æ síðan verið mikil ávirðing á fjölda nafngreindra manna sem enn hafa ekki viljað skýra fylgispekt sína við nástefnu sósíalismans. Raunar hefur verið sagt að þessum skjölum hafi verið stolið en einnig að einn skýrsluhöfunda hafi einfaldlega ofboðið og gefið þau.
Fyrir nokkrum árum var tölvupóstum stolið úr tölvu. Þetta voru hin svonefndu Baugspóstar. Með innihaldi þeirra var reynt að sverta ritstjóra Morgunblaðsins, lögmann, formann Sjálfstæðisflokksins og ekki síður eiganda póstanna. Að mati margra tókst þessi árás að mörgu leyti þó svo að sagan síðan hafi skýrt hver ástæðan var fyrir þessum þjófnaði og má benda á Rosabaug Björns Bjarnasonar um þetta mál.
Árás fjölmiðla og glæpamanna á tölvur og handsíma eru af svipuðum toga og að ofan greinir. Annars vegar er að sækjast eftir trúnaðarupplýsingum sem geta orðið til að auka sölu á fjölmiðli eða koma pólitískum andstæðingum illa, og hins vegar að stela upplýsingum fjármálalegum upplýsingum til að geta komið höndum yfir fé á bankareikningum eða kreditkortum.
Niðurstaðan er einfaldlega sú að þjófnaður er þjófnaður, hvort sem hann á sér stað í tölvu eða handsíma eða eitthvað er tekið á annan hátt. Lausnin er sú hin sama og alltaf, gæta að sínu.
Og ekki má gleyma því að sumir eru þeirrar skoðunar að hægt sé að réttlæta þjófnað með því sem stolið er. Þannig ku vera afar göfugt að gera eins og Hrói Höttur, stela frá þeim ríku og gefa þeim fátæku. Hann gerði það þó ekki nema að hluta, hélt einhverri kommissjón fyrir sjálfan sig og félaga sína.
Þeirri spurningu má varpa fram hvort það sé réttlætanlegt að stela upplýsingum úr tölvu stjórnmálamanns sem t.d. er grunaður um spillingu, mútur, þjófnað eða álíka. Það kann að vera, en komi hins vegar í ljós að þessi grunur var á misskilningi byggður, hvað þá?
Er þá þessi hugmynd um réttlæti og heiðarleika hriplek, á bara við af og til og gildir aðeins um suma en ekki aðra?
Auðvelt að brjótast inn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Af örnefnum og ónákvæmni í fréttinni
13.7.2011 | 20:01
Ekki veit ég hvar örnefnið Kirkja á að vera í Steinsholti. Hins vegar heitir klettakaus þar Kirkjuhöfuð samkvæmt bók Þórðar Tómassonar, Þórsmörk. Ekkert er við því að segja þó ný örnefni verði til, þannig er það og þannig hefur það alltaf verið. Þó er nauðsynlegt að örnefnin séu fleirum kunnug en þröngum hópi manna í björgunarsveit.
Svo er ekki úr vegi að gagnrýna bæði Morgunblaðið og fjölda fólks sem fer rangt með þessi fallegu örnefni, Steinsholt, Steinsholtsá og Steinsholtsjökull. Eignarfallsending er í fyrsta hluta þess. Sé essinu sleppt má eiginlega segja að orðið gengisfalli og öll dýrðin hverfi úr því. Steinsholt er ólíkt fallegra orð ein Steinholt. Ef til vill er þetta bara smekksatriði.
Víkjum aftur að manningum sem heimtur hefur verið af jökli. Hann týnist á Fimmvörðuhálsi og finnst ofanvert í Steinsholti. Steinsholt er innan við Gígjökul og nær að Steinsholtsjökli, sem er skriðjökull. Þar fyrir innan er Stakkholt. Mér finnst einhvern vegin líklegra að maðurinn hafi fundist ofan við Merkurtungur. Finnst einhvern vegin ólíklegt að björgunarsveitarmenn og sá sem týndist hafi álpast yfir sprungusvæðið ofan við Steinsholt og Stakkholt. Þar er líka snarbratt niður, þó ekki ófært.
Svo er ástæða til að skýra út fyrir lesendum að Þórólfsfell er handan Markarfljóts, langt frá Þórsmörk, Goðalandi og Fimmvörðuhálsi. Heill dalur á milli. Á Þórólfsfelli er endurvarpi og sími mannsins hefur líklega komið þar inn og mælst átta kílómetrum frá varpanum. Þar af leiðandi hefur björgunarsveitarmönnum verið vísað í Eyjafjallajökul.
Hins vegar er ofmælt að maðurinn hafi gengi yfir Eyjafjallajökul. Hann gekk á jöklinum til vesturs og kom líklega að brún hans norðanmegin. Svo bíðum við bara nánari frétta en hvetjum blaðamann Moggans um að vera nákvæmari í landafræðinni.
Maðurinn er fundinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)