Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Sumri lýkur aldrei í júlí eða ágúst, stundum þó í september

Umræðan um tíðarfar og misserisskiptin eru alveg hringlandi vitlaus. Ekki þarf nema þungbúinn himinn og og rigningu í lok júlí og fjölmiðlalýðurinn er farinn að tala um snemmkomið haustveður.

Þvílík vitleysa. Nú er hásumar, allt er þrungið lífi og hvergi á öllu jarðríki er betra að vera jafnvel þó'ann rigni og hitinn sé í kringum tíu gráðurnar og jafnvel lægri. Það stendur aldrei lengi og þeim er sjaldan kalt sem hreyfir sig.

Ég hef nokkra reynslu af íslensku sumri og þekki hverfilyndi þess. Ég minnist þó aldrei annars en að sumarið hafi staðið undir nafni, að minnsta kosti að meðaltali.

Nú vill fólk að hér á landi séu tuttugu til þrjátíu gráður og sól um á hvern einasta dag allt endilangt sumarið. Þannig er hönnuninni ekki háttað hér á landi, því miður. Sættum okkur við Ísland og því sem fylgir.

Sumarið er ekki búið fyrr en í september. Ágúst er stórkostlegur mánuður. Landið hefur sætt sig við sumarið, gróðurinn er í hámarki, berin brosa til okkar, rökkrið sígur yfir fyrr á kvöldin og fjöllin brosa.

Slæmt er að vera svartsýnn. Munum að glasið er hálffullt en ekki hálftómt, seinni hálfleikur er ekki endalokin, ágúst er sumarmánuður. Veðrið gefur enga bendingu um lok sumars, hvernig svo sem það lætur.

Eftir vorið kemur sumar, eftir sumar kemur ... bling. Ekki einu sinni nefna þetta orð fyrr en að því kemur í almanakinu.

Ekki þar fyrir að af öllum misserum held ég mest upp á... bling, af svo fjölmörgum og ánægjulegum ástæðum. Mikið hlakka ég til.


Árin tvö sem farið hafa til spillis

Af nokkrum góðum greinum í Morgunblaðinu í morgun vil ég nefna grein eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann ræðir um rekstur ríkisins og starf ríkisstjórnarinnar og kemur með sláandi upplýsingar, allt annað en ráðherrar ríkisstjórnarinnar guma af. Hann segir:

Þrátt fyrir síendurteknar skattahækkanir og ný gjöld hafa tekjur ríkisins lítið aukist. Á sama tíma reynist erfiðara fyrir heimili og fyrirtæki að standa undir útgjöldum og fjárfesting dregst enn saman. Hlutfall fjárfestingar af landsframleiðslu er nú hið lægsta frá því að mælingar hófust. Hlutfallið þyrfti að hækka um helming bara til að halda í horfinu. Þrátt fyrir það standa stjórnvöld í vegi fyrir fjárfestingu, skapa sterka öfuga hvata og óvissu um skattkerfið, en fátt er betur til þess fallið að fæla frá fjárfesta.

Hallinn á rekstri ríkisins nam á síðasta ári 8 prósentum af landsframleiðslu. Til samanburðar var hallinn í Grikklandi 10,5%. Á Spáni, þar sem atvinnuleysi er vel yfir 20%, var hallinn 9,2% og 4,6% á Ítalíu. Sé litið til tekna ríkisins nam hallinn á ríkissjóði Íslands 26% af tekjum ríkisins.

Og Sigmundur bendir á að landið hafi átt margra kosta völ í kjölfar hrundins en greinilegt er að núverandi ríkisstjórn kunni ekki að grípa tækifærið:

Eftir efnahagshrunið varð Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar. Gjaldmiðillinn er ódýr, laun afar samkeppnishæf, nægt laust vinnuafl, sterkir innviðir, fríverslunarsamningar við lönd um allan heim, næg umhverfisvæn orka (samanber áætlun Landsvirkjunar um umhverfisvæna orkuvinnslu) og auk þess er staðsetning landsins nú að verða kostur frekar en galli í framleiðslu á útflutningsvörum. Erlendir og innlendir fjárfestar komu snemma auga á þetta og margir töldu að Ísland yrði fyrsta landið til að vinna sig út úr kreppunni. Kolröng efnahagsstefna og pólitísk óvissa hefur hins vegar valdið því að tvö og hálft ár hefur farið til spillis. Fjölmörg stór verkefni og þúsundir starfa eru enn í biðstöðu eða hafa verið slegin af vegna þess að stjórnvöld viðhalda varanlegri óvissu um lagasetningu, skattastefnu og orkuframleiðslu. Það segir þó sína sögu um þá möguleika sem eru til staðar að erlendir fjárfestar hafa að undanförnu keypt fasteignir á Íslandi vegna þess hvað gjaldmiðillinn er ódýr. Fáir þora hins vegar að fjárfesta í atvinnusköpun á meðan pólitísk óvissa og aðgerðaleysi er jafn mikið og raun ber vitni.

 Við þetta er lítið að bæta. Sigmundur hefur rétt fyrir sér, því miður. 

Í lokin segir hann þó:

Hægt er að snúa þróuninni við og það þarf að gerast hratt því að þegar fjármálakrísan hefst aftur fyrir alvöru í Evrópusambandslöndunum, og líklega í Bandaríkjunum, getur staða okkar orðið mjög erfið.

Leysa þarf úr skuldamálunum með almennum og skýrum reglum. Einfalda þarf skattkerfið og taka upp lagasetningu og skattkerfi sem hvetur til fjárfestingar og atvinnusköpunar.  

Auðvitað er útilokað að ríkisstjórnin snúi við blaðinu. Öll orkan fer í að sannfæra landsmenn um að hún standi sig svo óskaplega vel og halda stólunum þrátt fyrir að meirihluti hennar hafi hrunið og hún hangi núna á einum þingmanni - ef þingmann skyldi kalla.

Atvinnuleysið hefur minnkað, sem auðvitað er rétt vegna þess að svo margir hafa fallið af atvinnuskrá vegna þess að þeir eru búnir að vera „of lengi“ þar og svo er það allur þessi fjöldi sem hefur einfaldlega flúið land. 

Skuldamál heimilanna hafa verið „leyst“ ... eða þannig. Eignabruninn verður ekki leiðréttur ef marka má orð forsætisráðherra. Ekkert fleira verður gert fyrir heimilin en að lög voru sett sem eiginleg gengu þvert á dóm hæstaréttar frá því í fyrra og voru til þess eins að gæta hagmuna kröfueigenda.

Verðmætasköpun þjóðarbúsins hefur minnkað vegna óhóflegrar skattheimtu fyrirtækja og ekki síður einstaklinga. Fyrirtækjum er gróflega mismunað. Þau sem lent hafa í gjaldþroti eru hreinsuð af skuldum og seld, og keppa þannig við þau sem reynt hafa að halda sjó og standa sig.

Og norræna velferðarstjórnin stingur nú höfðinu í gin ESB og þykist ætla að lifa á Evru og styrkjum þessa alræmda ríkjasambands.  


Fylgjandi gegnsæi um allt nema ...

Er það nú ekki dæmigerður tvískinnungur að hafa unnið við að birta frétt um tekjur þúsunda Íslendinga en kveinka sér undan því að lenda sjálfur í annarri slíkri. 

Blaðamaður að nafni Þórarinn Þórarinsson, sem ég þekki hvorki haus né sporð á, ritar eftirfarandi á bloggsíðu sína, badabing.is, undir fyrirsögninn „Hefnd Frjálsrar verslunar“:

Eins og ég er nú fylgjandi gegnsæi á öllum sviðum samfélagsins og þá ekki síst því að álagningaskrár skuli liggja fyrir hunda og manna fótum síðsumars ár hvert þá kann ég Frjálsri verslun litlar þakkir fyrir að birta tekjur mínar á síðasta ári í Tekjublaði sínu. Þar sem í raun ekkert hefur breyst hér eftir hrun er manngildið enn metið í milljónum og milljörðum króna og það er mér ekki til framdráttar að verið sé að flagga tekjum mínum á ári sem ég var bæði atvinnulaus og skrifaði bók sem seldist ekki vel.

Mér finnst þetta eiginlega bráðfyndið að náunginn sem er „fylgjandi gegnsæi á öllum sviðum samfélagsins“ kveinki sér undan því að aðrir viti um tekjur hans. Og ég er fyllilega sammála honum. Hef ekki hugmynd um tekjur mannsins og vil ekki vita neitt um þau mál. Hef raunar ekki áhug að hnýsast í fjármál annarra, hvort sem þeir eru útrásarvíkingar eða blaðamenn.

Þrátt fyrir fyrirsögnina nær Þórarinn aldrei að gera meinta hefnd Frjálsrar verslunar að aðalatriðinu.

Vefþjóðviljinn veltir á athyglisverðan hátt fyrir sér birtingum á tekjum fólks samkvæmt opinberum skattskrám og bendir á að hægt sé að ganga lengra:

Hvenær ætli bótaþegaskrá ríkisins verði birt opinberlega? Jón Jónsson þáði í fyrra eina komma sex milljónir króna í atvinnuleysisbætur, sem kunningjum hans þykir mjög forvitnilegt því þeir vita ekki betur en hann vinni í raun sem aðstoðarmaður á bílaverkstæði mágs síns og hafi gert lengi. 

 


Ætluðum að moka skalfinum úr skarðinu

Einhvern tímann á þeim árum er við í heita pottinum fimbulfömbuðu sem mest um skaflinn efst í Gunnlaugsskarði en veðurfræðingar og blaðamenn voru fjarri góðu ganni ... datt okkur nokkrum í hug að þörf væri á breytingum. Við ætluðum að skrölta þarna upp í skarðið með skóflur og hrífur og breyta fjalli.

Ekki þarf mikið að gera, leysa aðeins upp í skaflinum, dreifa úr honum og nokkrum dögum síðar myndi hann heyra sögunni til. Þá hefði nú aldeilis heyrst hljóð úr heita pottinum, menn slægju sér á lær og býsnuðust yfir hlýnun jarðar. Á meðan myndum við sitja hljóðir hjá og glotta því glotti sem aðeins þeir renna á andlit sér sem betur vita.

Hins vegar varð aldrei neitt úr framkvæmdum. Helv... burður að flækjast þetta með skóflur upp á Esju og svo er skaflinn merkilega of stór fyrir skrifstofumenn sem ekki hafa unnið líkamlega vinnu frá því á námsárunum.

Svona fer nú oft með hinar bestu hugmyndir, framkvæmdina vantar.

Og löngu síðar fattaði maður að Páll Berþórsson, veðurfræðingur, hefur notað skaflinn sem mælitæki frá því 1909 ... Ljótt er að hrekkja fólk. Jafna má saman því að moka skaflinum úr skarðinu og að fela hitamælinn fyrir veðurfræðingnum. Hann myndi ekki geta á sér heilum tekið næstu hundrað árin.


mbl.is Örlög skaflsins enn óljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver sinnir öryggismálum þjóðarinar?

Annað hvort er það svo að innanríkisráðherran sé meðvitundarlaus og tengir ekki atburðinn í Noregi á nokkurn hátt við Ísland eða hann og lögreglan hafa þegar gripið til fyrirbyggjandi aðgerða en vilji eðlilega ekki láta neitt uppiskátt um þær. Við skulum vona að það síðarnefnda sé raunin.

Stjórnvöld verða að huga að öryggismálum og grípa til aðgerða. Það er heiðskírt. Sá tími er liðinn að menn geti sagt í kæruleysi sínu: Hvað ætti svosem að gerast hér á landi?

Hvað átti svosem að gerast í Noregi? Fyrirfram hefði enginn trúað því að snargeggjaður maður missti sjónar af öllu því sem máli skiptir í tilverunni og lét allt það sem honum var kennt í æsku lönd og leið. Slík geggjun á sér engin landamæri, hún er ekki bundin við þjóðir eða landsvæði. Núna um helgina hélt til dæmis einhverr rugludallur því fram hér á landi að hann væri sammála morðingjanum í Noregi og gekk í skrokk á öðrum sem var á öndverðum meiði.

Því er ekki furða þótt maður líti í kringum sig og spyrji spurninga. Gæti verið að einhver vildi samlöndum sínum eitthvað illt eða kemur öll illskan utanfrá?

  1. Fylgist lögregla til dæmis með vefsíðum öfgafólks, hverjir sem þeim hópi tilheyra?
  2. Rannsakar hún það sem er þar að finna?
  3. Til hvaða viðbragða verður gripið sé ríkisstjórn Íslands ógnað? Verður hún starfandi eftir glæpsamlegan verknað?
  4. Er öryggi stjórnsýslu landsins sinnt?
  5. Getur lögreglan staðist hópi vopnaðra manna snúning?
  6. Veit löggæslan hvar er í skipum sem koma hingað til lands?
Þessar spurningar og margarfleiri flögra um huga manns þegar fréttir af fjöldamorðum berast frá hinum friðsæla Noregi.

Því er ekki furða þótt maður líti í kringum sig og spyrji spurninga. Með réttu getum við nánast fullyrt að það vonda sem á sér stað í útlöndum getur allt eins gerst hér á landi. 

 


mbl.is Engar stórtækar aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum

Japanska kvennalandsliðið varð heimsmeistari á dögunum kom að flestum á óvart. Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi, ritar af því tilefni afskaplega fallega grein á bls. 20 í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Greinin nefnist „Nadeshiko Japan og þakklæti Japana til heimsins“. Að sögn Toshiki er „Nadeshiko“ blóm sem er kallað „dianthus“ og oft notað sem tákn japanskrar konu á meðal Japana.

Presturinn fagnar að sjálfsögðu árangri landa sinna en hann segir frá því að þrjár stúlknanna í landsliðinu auk þjálfarans hafi verið frá hamfarasvæði jarðskjálfta og flóðbylgju.

Miðvörðurinn, Aya Sameshima, nr. 15, tilheyrði t.d. fótboltaliðinu „Tokyo Electricity“ og starfaði í því kjarnorkuveri sem olli geislalekanum eftir jarðskjálftann. 

Í ljósi aðstæðna þurfti Aya að velta fyrir sér hvað væri rétt og rangt. Hún var í æfingabúðum sem voru langt í burtu frá hamfarasvæðinu en sendi skeyti til móður sinnar: „Má ég æfa mig í fótbolta á meðan margir eiga í erfiðleikum? Er ekki eitthvað að?“ Hún var lömuð af sektarkennd. En þeir sem hvöttu hana og sögðu að Aya mætti halda áfram að æfa voru fólk á hamfarasvæðinu sjálfu. „Hið besta sem þú getur gert fyrir okkur er að sýna okkur góðan fótboltaleik. Gefðu okkur gleði og von!“ Svo sannarlega svaraði Aya fólkinu með því að sýna sitt besta. 

Toshiki er hófsamur en hvetjandi maður. Grein hans er nærfærin, kurteis en þó full vonar, ekki aðeins vegna árangurs japönsku stúlknanna heldur bendir hann á að fólk getur allt tengst, jafnt í sorg og gleði.

Orð Toshiki eru í tíma töluð, einmitt nú, þegar við syrgjum með Norðmönnum vegna þess hildarleiks sem þar átti sér stað fyrir síðustu helgi. Þess vegna eiga þessi orð vel við:

„Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum“ (Rom. 12:15) eru uppáhaldsorð mín í Biblíunni. Það þýðir ekki að við skulum aðlaga okkur að manneskju sem stendur frammi okkur núna. Það þýðir að við skulum lifa með náungum okkar alla tíð, hvort sem tíminn er góður eða slæmur. Sorg manna og gleði, erfiðleikar fólks og fagnaðarefni er allt tengt hvað við annað á einhvern hátt. Sorg getur verið kraftur til að breyta neikvæðum raunveruleika í jákvæða átt og fögnuður verður næring fyrir nýja von. Þess vegna megum við ekki horfa fram hjá erfiðleikum annarra og við skulum ekki hika við að fagna fagnaðarefnum með öðrum.

Japanska þjóðin upplifði bæði sorg og gleði á stuttu tímabili. Við grétum og grétum, en núna er Japan full af gleði og fögnuði. Þetta tvennt er sjálfstætt hvort gagnvart öðru, en samt tengist það víst gegnum manneskjur sem hafa huggun til nágranna og kærleika. 


Snjór á Norðurlandi?

Ekki viðrar vel á Norðurlandi miðað við myndina sem fylgir fréttinni. Þar er snjóföl. Passar nú ekki við það sem ég hef reynt. Var bæði á Sauðárkróki og Blönduósi í gær og á báðum stöðum var frábært sumarveður eins og á að vera á þessum tíma árs.

Má vera að myndin sé gömul, tekin úr myndasafni Morgunblaðsins. Þess er þó ekki getið þó oftast sé það gert.

 


mbl.is Maðurinn fundinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppbygglega blogg, skítleg blogg og Noregur

Vinur minn einn hefur lítið álit á bloggi. Hann telur það vera sem morðvopn. Fjölmargir skrifi af algjöru ábyrgðarleysi og þekkingarskorti. Þeir freta út í allar áttir og hafa engar áhyggjur af þeim sem fyrir verða. Aðalatriðið er að meiða, ekki upplýsa, skaða, ekki byggja upp. Þess vegna, segir þessi vinur minn, nenni ég ekki að lesa blogg og allra síst athugasemdir lesenda. Þær eru jafnvel enn skaðlegri en blogg in sjálf.

Vinur minn hefur mikið til síns máls. Það vita allir sem til þekkja. Ég hef þó rökrætt við hann og bent honum á þau fjölmörgu blogg sem ég les reglulega mér til upplýsingar og fróðleiks.

Ég gæti til dæmis nefnt skrifara eins og Harald Sigurðsson, jarðfræðing, Emil H. Valgeirsson, Jón Sigurðsson á Blönduósi, Jón Atla Kristjánsson, hagfræðing, Marinó G. Njálsson, óþreytandi talsmann fyrir hagsmunamálum heimilanna, Gunnlaug Júlíusson, hagfræðing og hlaupara, Ágúst Bjarnason, verkfræðing, Trausta Jónsson, veðurfræðing, Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, Sigurð Þór Guðjónsson, veðurkall, Jón Frímann, jarðfræðiáhugamann, og marga fleiri.

Ég les líka reglulega pólitískt blogg eftir þá sem eru á andstæðri skoðun við mig. Hef auðvitað valið út þá sem mér finnst skrifa vel, eru skynsamir að mínu mati, kannski ekki alltaf sanngjarnir, en áhugaverðir. Af þessu fólki má til dæmis nefna Stefán Pálsson sem ég nefni friðarkall, Ómar Ragnarsson, Vilhjálm Þorsteinsson, Össur Skarphéðinsson, samfylkingarmann, Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóra, Indriða Þorláksson, fyrrv. aðstoðarmann Steingrím Sigfússonar, en Indriði virðist nú vera að mestu hættur skrifum, Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, strigakjaftinn Björn Val Gíslason og marga fleiri.

Af þessu má sjá að hingað til get ég ekki verið sammála áðurnefndum vini mínum um að blogg sé slæmt. Vissulega eru til slæm blogg, hirðuleysisleg og jafnvel vond skrif og meiðandi eins og áður sagði. Þegar ég rekst á slík blogg þá hef ég það fyrir vana að reyna að forðast þau. Jafnvel hef ég lent í því að útiloka nokkra einstaklinga frá því að skrifa athugasemdir á bloggið mitt. Ástæðan er tvennslags, ómálefnalegar og ruddalegar athugasemdir og persónulegar árásir á mig eða aðra. Þetta kæri ég mig ekkert um á mínum heimavelli.

Ég var forðum við nám í Noregi og bjó í Ósló og skammt fyrir utan borgina. Norðmenn eru frábær þjóð og stundum óska ég þess að við værum líkari þeim. Heiðrún Sjöfn, dóttir mín býr í Noregi með sambýlismanni sínum, sem og Dagbjört bróðurdóttir mín og fjöldskylda hennar. Norðmenn hafa reynst mér og mínu fólki vel og fyrir það er ég þakklátur. Þess vegna varð manni ónotalega við þegar fréttir bárust af hryðjuverkunum. Og nú þegar flest kurl eru komin til grafar á maður afar erfitt með að tjá sig um þessi hræðilegu ódæði sem sturlaður maður framdi.

Ég fullyrði að enginn málstaður getur nokkru sinni réttlæt morð og eignaspjöll.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta í spjalli mínu um blogg er einfaldlega það að ég hef óttast umræðuna. Ég hræðist lykilorðin um morðingjann og ábyrgðalaus skrif á bloggi og athugasemdakerfum. Og það hefur komið á daginn að nú ætla menn að nota þennan harmleik í pólitísku skyni hér á landi.

Karl Th. Birgisson er lítt hrifinn af Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, prófessor, og lætur það óspart í ljós í bloggi sínu á vefritinu Eyjunni, þar sem hann er ritstjóri. Hann segir um að virða ekki Hannes viðlits:

Hingað til hef ég verið þeirrar skoðunar líka. En ekki lengur. Ekki eftir atburðina í Noregi.

Halló, halló – heyri ég nú einhverja segja. Ætla ég virkilega að bera Hannes og vini hans saman við fjöldamorðingjann í Noregi?

Svarið er já. Ekki af því að þeir myndu fremja neitt ódæði þessu líkt, víðs fjarri því. Ég held því hins vegar fram að hatrið, ofstækið og brenglunin sem birtist í skrifum Hannesar-klansins sé af sama meiði og þegar Anders Breivik kallar Gro Harlem Brundtland landsmorðingja, en ekki landsmóður. 

Þetta er sorglegt dæmi um umræðuna, vissulega ekki það versta, en í ljósi stöðu Karls sem ritstjóra hefði hann átt að halda þessu áliti sínu fyrir sjálfan sig. En Karl mundar stílvopnið með hatri sínu og ber Hannes saman við fjöldamorðingja, mann sem hefur aldrei annað gert en stundað skriftir, aldrei lyft hendi gegn nokkrum manni.

Hversu auðvelt er ekki að hnoða saman líkingum og gera þær sennilegar. Væri ekki auðvelt fyrir Hannes að svara þannig fyrir sig að líkja Karli við hinn norska fjöldamorðingja og kalla hann mannorðsmorðingja með stílvopn sitt.

Og hvernig endar sú umræða sem fer af stað með svona endemum? Hún endar aldrei, byrjar í heift, heldur áfram með sandkasti og persónulegum ávirðingum sem færist yfir í hatur og róg. Þannig skilur ómenningin aldrei neitt eftir sig nema sviðna jörð og lesendur eru engu nær. 

Stundum nenni ég ekki að lesa vel skrifuð blogg vegna þess að ég er ósammála þeim. Þá geri ég eitthvað annað og opna bloggið löngu síðar. Skítleg blogg opna ég aldrei aftur. 


Tvær hörmulega lélegar fréttir

Tvær hörmulega illa skrifaðar fréttir vöktu athygli mína. Önnur er af mbl.is og hin af visir.is. Veit ekki hvor er lakari en báðar finnst mér marka botninn í heimsku sinni.

Á visir.is segir í fyrirsögn „Þyrla sótti aldraðan mann í Hrafntinnusker“. Hér er fréttin sjálf:

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út undir kvöld í gær til að sækja göngumann á sextugs aldri inn í Hrafntinnusker, í grennd við Landmannalaugar. 

Hann hafði fegnið hjartsláttartruflanir og kölluðu félagar hans eftir aðstoð. Þyrlan lenti með manninn við Borgarspítalann rétt fyrir klukkan átta, þar sem maðurinn fékk viðeigandi meðferð. 

Maður sem er á milli fimmtugs og sextugs er aldraður að mati blaðamanns visir.is. Er það nú svo? Svari nú hver fyrir sig. 

Fréttin úr mbl.is fjallar líka um atvikið í Hrafntinnuskeri. Hún er svona:

Tilkynning barst til Neyðarlínunnar klukkan 17:57 um karlmann með hjartsláttartruflanir vestur af Hrafntinnuskerjum og norður af Mýrdalsjökli. Maðurinn mun hafa verið í hópi göngufólks.

Læknir í hópnum hafði samband við Neyðarlínuna og var ákveðið að senda björgunarþyrlu á staðinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ fór í loftið skömmu eftir að tilkynningin barst. Ekki liggur fyrir hvenær megi búast við henni aftur til Reykjavíkur. 

Landfræðilegri þekkingu blaðamannsins er þarna verulega áfátt. Í fyrsta lagi er Hrafntinnusker eintöluorð en er að vísu eins í nefnifalli og þolfalli í eintölu og fleirtölu. Hrafntinnuskerið er þó aðeins eitt og þykir nóg. Vissulega má til sannsvegar færa að það sé norðan Mýrdalsjökuls. Það er þó slök staðsetning af hálfu blaðamanns og furðulegt að hann skuli til dæmis ekki vita af gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur og þeim áföngum sem eru á leið. Meðal þeirra er Hrafntinnusker. 

Réttara hefði veri að segja að Hrafntinnusker sé suður af Landmannalaugum eða þá norðan við Álftavatn.

Svo væri ágætt ef blaðamaður mbl.is og blaðamaður visir.is vendu sig af hinni ljótu fræðimannamállýsku. Best væri að hann læsi og tileinkaði sér reglur Jónasar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra. Á bloggi hans eru mjög skýrar og góðar reglur sem flestir ættu að geta tileinkað sér.

Reglur Jónasar (www.jonas.is) um stíl:

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

Á bloggi Jónasar eru margar lexíur sem blaðamenn ættu að lesa yfir. Margar þeirra eru þannig að skynsamlegra væri að skrifa ekkert fyrr en að loknum lestri þeirra. Enginn nær þó góðu valdi á skrifum nema með mikilli æfingu. Góður blaðamaður verður enginn nema sá sem hefur víðtæka þekkingu og góða ályktunarhæfni. 


Er Hvammstangi höfuðstaður Norðurlands?

Reykjavík er höfuðborg landsins. Ýmis rök má færa fyrir því. Ísafjörður er ekki eini höfuðstaður Vestfjarða og ekki er Akranes eini höfuðstaður Vesturlands, né eru Egilsstaðir eini höfuðstaður Austurlands eða Höfn í Hornafirði Suðurlands. Hins vegar eru margir höfuðstaðir í hverjum landshluta en fæstir eru með hausverk út af málinu eins og sá ritar grein í Morgunblaðinu í morgun, fimmtudag og hann segir einfaldlega, ... og ekki í fyrsta sinn:

Bara svo það sé á hreinu þá er best að upplýsa að veðrið er mjög gott í höfuðstað Norðurlands.

Þetta ritar hinn ágæti blaðamaður Skapti Hallgrímsson, mikill húmorist og fjölskyldumaður. Hann ku vera staðsettur á þessum „höfuðstað“ og þykir eðlilega vænt um bæinn sinn. 

Nú er það sosum ágætt að veðrið sé gott á Akureyri. Hitt veldur fleirum en mér með hvaða rökum Akureyri geti verið „höfuðstaður“. Ljóst er að það er ekki samkvæmt neinum lögum, reglum eða ályktunum, hvorki akureyrskum né frá Alþingi.

Þá er það hitt að yfirburðir Akureyrar sem menningar-, stjórnsýslu- og skemmtibæjar hljóti að vera slíkir að hann verðskuldi að vera „höfuðstaður“.

Þetta er áreiðanlega rétt ef um magn er að ræða. Hins vegar held ég að menning og skemmtun í Skagafirði sé alls ekki síðri og því verðskuldi Sauðárkrókur að vera höfuðstaður Norðurlands. Hlufallslega er meiri menning á Skagaströnd en víðast annars staðar. Þess vegna verðskuldar Skagaströnd að vera höfuðstaður Norðurlands. Ekki er lakara standið á Blönduósi og á Hvammstanga og því verðskulda báðir bæirnir titilinn. Ónefndur er Siglufjörður, sá fornfrægi bær og þar er meiri uppgangur en víðast annars staðar, Ólafsfjörður er yndislegur og fyrir það á hann mikið titilinn skilinn. Dalvík er nú eiginlega í sérflokki og verður stundum á sumrin stærri en „Agureyris“ . Einnig má nefna Húsavík, sem hefur á síðustu árum gjörbreyst og er áreiðanlega hvalaskoðunarhöfuðstaður Íslands.

En auðvitað er „Agureyris“ höfuðstaður Norðurlands þó hann sé „í þeim skurði sem skerst langt inn í landið með uppgröftri á báða bakka sem útilokar oftar en ekki alla aðkomu“, eins og einhver orðaði það. Þó það sé ekki nema fyrir loftið í þeim sem endilega vilja hnýta þessum marklausa titili til við nafn bæjarins. Aungvir aðrir gera slík með sína bæi. Og þegar nánar er út í málið farið eru allir bæir höfuðstaðir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband