Brúarleysið á Múlakvísl er ekkert gamanmál

Farsinn vegna brúarleysið á Múlakvísl er ótrúlegur. Nú leggja fjölmiðlar áherslu á að ferðamenn skemmti sér aldeilis stórkostlega í ferjuflutningum yfir fljótið. Mikið gaman, mikið fjör ...

Margir sjá þó aðrar hliðar á málinu og þær eru ekkert gamanmál. Þeir sem gengið hafa fram fyrir skjöldu og krafist úrbóta, bráðabirgðabrúar, eru af fjölmörgum úthrópaðir fyrir æsing, frekju, og ruddaskap við Vegagerðina og ríkisstjórn.

Sá ágæti maður Ómar Valdimarsson, eldri, segir í fyrirsögn á bloggi sínu um þá sem kvarta undan samgönguleysinu: „Organdi frekja“. Og í blogginu segir hann:

Ég hef hvergi séð tölur um hversu margir gestir hafa hætt við að koma til Hornafjarðar eða Víkur í Mýrdal. Samt láta hótelhaldarar og sveitastjórnarmenn á þessum stöðum eins og himininn hafi hrunið yfir þá og að peningarnir fljúgi út úr kössunum þeirra. Hvernig er hægt að tapa milljörðum króna á fjórum dögum?

Ómar sýnist víst ekki skilja ferðaþjónustuna og ekki heldur veit hann að fyrir austan býr fólk sem þarf mat og aðrar vörur. Síðan brúin fór hefur flutningskostnaður aukist um 30% eftir því sem fjölmiðlar herma.

Og jafnvel þegar bæjarstjórinn á Höfn reynir að leiðrétta Ómar og skýrsla Rannsóknarseturs HÍ liggur fyrir maldar Ómar í móinn og segir:

Ekki ætla ég að bregða brigður á útreikninga Rannsóknarseturs HÍ – en varla er það svo að ferðamenn komi eingöngu til Hornafjarðar suðurleiðina. Koma virkilega engir úr hinni áttinni? Og var orðið ljóst strax í hádeginu á mánudag, tveimur dögum eftir hlaupið í ánni, að 50% samdráttur blasti við ferðabransanum á Hornafirði? Ætli það. 

Ómar er skynsamur maður og ég hef lesið bloggið hans mér til ánægju og upplýsingar. Hann fer þó aldeilis villur vegar í málefnum ferðaþjónustunnar og virðist ekki gera sér grein fyrir öðrum rekstri og búsetu fólks fyrir austan. Mér finnst eins og hann haldi að ferðaþjónustan og aðrir séu að ljúga að þjóðinni.  

Hann heldur líklega að ferðamenn staldri bara við og bíði ... Það er nú öðru nær, þeir fara bara eitthvað annað og ferðaþjónustan fyrir austan situr eftir með sárt ennið.

Samgöngur skipta landsbyggðina meira máli en flest annað. Það er einfaldlega ástæðan fyrir því að hagsmunaaðilar, íbúar og sveitarstjórnarmenn risu upp með látum þegar Vegagerðin lét hafa það eftir sér að það myndi taka þrjár vikur að byggja nýja brú. Skynsamir menn bentu á að á nokkrum dögum væri hægt að byggja bráðabirgðabrú úr rörum eða gámum. Þrátt fyrir það fer Vegagerðin sínu fram og býður hagsmunaaðilum, ferðamönnum, íbúum og flutningsaðilum upp á selflutninga á fólki og bílum. Um leið sést á myndum að bráðabirgðabrú Vegagerðarinnar er byggð á þurru landi, fljótinu veitt sitt á hvað.

Mér er fyrirmunað að skilja það á árinu 2011 þurfi Vegagerðin að nota selflutninga í stað þess að brúka stórvirk tæki og tækni til að skella niður bráðabirgðabrú á Múlakvísl. En þessi steinrunna stofnun fer sínu fram og ráðherrar mala og hæla stofnuninni á hvert reipi. Dettur nokkrum mönnum í hug að Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson hefðu haldið sig á mottunni væru þeir í stjórnarandstöðu. Nei, þeir hefðu ráðist á ríkisstjórnina fyrir sleifarlag og aumingjaskap - og þeir hefðu þá haft rétt fyrir sér. Ástæðan er einföld, brúarleysið á Múlakvísl er ekkert gamanmál fyrir íbúa í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum.


mbl.is Eins og í Disneylandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skeggi Skaftason

O ekki voru það heimamenn austan sanda, búðareigendur og aðrir íbúar, sem hæst létu, heldur fyrst og fremt Erna Hauks sem strax daginn eftir nóttina sem brúin fór kvartaði undna því að ferðaiðnaðurinn allur væri í stórhættu.

Samt er nú spurning hvort nokkur einasti ferðamaður hafi afbókað komu sína til landsins, þó auðvitað séu staðbundin áhrif af svona atburði.

Auðvitað er það bagalegt fyrir fólkið á suðausturhorninu að hafa ekki veginn, fyrir ferðamennina er þetta minna mál, þeir eru sjaldnast á hraðferð.

Og auðvitað ætti Vegagerðin að hlusta á "skynsama menn", þig og Árna Johnsen og fleiri. Árni er sérfræðingur í bæði gangnagerð og hafnarsmíði og vafalítið alvitur um jökulár og brýr yfir þær.

Skeggi Skaftason, 14.7.2011 kl. 14:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Skeggi, þú hlýtur að tala gegn betri vitund, ég trúi ekki öðru.

„... fyrir ferðamennina er þetta minna mál, þeir eru sjaldnast á hraðferð.“ Þessi fullyrðing stenst engan veginn.

Þú átt líklega við að ferðamenn bíði og ferðaþjónustan bíði, og loksins þegar brúin er tilbúin eiga ferðamennirnir að hlaupa á staðinn og kaupa þá þjónustu sem þeir pöntuðu? Hvað ef fullt er þann dag sem þeir loksins komast, eiga þeir að bíða ...?

Þetta er jú hábjargræðistíminn í ferðaþjónustunni um allt land og vonandi allt fullt.

Þurfa allir að láta heyra í sér til að þeir sem ráða skilji alvöru málsins. Hvað sagði Erna Hauksdóttir sem þú ert svona ósáttur við?

Svo er nú alveg óþarfi að vera með einhvern skæting í minn garð þó þú sért ekki sammála mér. Það er nákvæmlega þetta sem flestir kvarta undan athugasemdakerfinu, leiðinda skætingur sem rökþrota fólk bregður fyrir sig.

Er nú ekki betra væri að ræða málefnalega um það sem þú ert svo ósáttur með í pistlinum?

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.7.2011 kl. 14:37

3 Smámynd: Skeggi Skaftason

Fyrirgefðu stríðnina útaf spekúleringum þínum um bráðabirgabrú! Ekki ila meint.

Nei pistill þinn er alls ekki slæmur, brúarleysið hlýtur sannarlega að vera mjög bagalegt fyrir flesta íbúa austan ár og ekki síst fyrirtæki sem reiða sif á flutninga og samgöngur. En þetta setur ekki íslenskan ferðamannaiðnað eins og hann leggur á sig á hausinn, eins og erna Hauks sagði:

Biðin setur ferðaþjónustuna á hausinn

Algjört neyðarástand ríkir í ferðaþjónustunni vegna lokunar hringvegsins, en umferð verður ekki komið á fyrr en í fyrsta lagi eftir tvær vikur. Biðin setur greinina á hausinn segir framkvæmdastjóri Samtaka Ferðaþjónustunnar.

Hún er ekki að tala um nokkra gististaði á suð-austulandi heldur alla "greinina" !

Það sem ég á við með að ferðamenn séu ekki að flýta sér er það að þeir geta yfirleitt hliðrað til sínum plönum, og ef hægt er að redda þeim 5 tíma rútuferð um hálendið til að komast á milli landshluta, í stað klukkutíma ferðar á hringveginum, þá gengur það vafalaust fyrir flesta.

Auðvitað gerbreyta þeir áætlunum sínum sem ætla sér að keyra á hringinn á litum bílaleigubíl, en ég efast um að fólk hafi afbókað ferðir til Íslands, nema í óverulegum mæli, sem þýðir að ferðaþjónustan í heild sinni tapar litlu sem engu.

Skeggi Skaftason, 14.7.2011 kl. 15:03

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir þetta, Skeggi.

Vissi að það er meira í þig spunnið en sem nam stríðninni.

Einhvern veginn held ég að þú hafir samt rangt eftir Ernu. Hún er mikil sómakona og hefur verið ágætur talsmaður fyrir Samtök ferðaþjónustunnar.

Hins vegar getur meira en verið að stopp í rekstri í tvær eða þrjá vikur geti orðið til þess að reksturinn margra smærri fyrirtækja í ferðaþjónustu fyrir austan breytist í tap, jafnvel mikið tap. Munum að hábjargræðistími margra er minna en þrír mánuðir.

Og rekstrartap þýðir annað hvort að fók nær ekki að breiða af lánum vegna fjárfestinga í húsnæði eða öðru eða það þarf að reikna sér mjög lág laun fyrir langan vinnudag. Hvort tveggja er afar slæmt.

Það er engu að síður rétt hjá þér að ferðaþjónustan sem held tapar ekki vegna þess að ferðamenn flýja ekki af landi brott þó þeir fái ekki gistingu eða ferðir á einum stað. Það er þó einum einstaklingi með taprekstur lítil huggun.

Þetta er ástæðan fyrir því ramakveini sem margir ráku upp þegar brúin fór - og lái þeim hver sem vill.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.7.2011 kl. 15:22

5 identicon

Eigum við ekki að halda ró okkar og leyfa fagmönnum að sjá um þetta og klára verkið.  Samkvæmt fréttum á að hleypa umferð yfir brúna á morgun, rétt rúm vika frá því að brúin hvarf.  Það kalla ég bara nokkuð gott.

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 00:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband