Fjallabaksvegur og Landmannaleið - ekkert annað

Fyrir mörgum árum gaf ég út tímarit um ferðalög hér innanlands. Það kom út í fjögur ár og sá tími reyndist ævilöng lexía í rekstri, útgáfumálum, útlitshönnun og stjórnun og ekki síst í skrifum. Ég kynntist mörgu góðu fólki á þessum tíma.

Eitt sinn varð mér á í einhverjum skrifum að nefna Fjallabaksleið nyrðri og syðri. Mig minnir að sá ágæti maður Grétar Eiríksson, áhugaljósmyndari, er sat lengi í stjórn Ferðafélags Íslands, hafi þá komið í heimsókn til mín og veitt mér þarfa en vinsamlega áminningu.

Fjallabaksvegur nyrðri heitir vegurinn, sagði Grétar, og lagði áherslu á veginn.

Í Mogganum í morgun las ég stutta og góða grein um sama efni eftir mikinn fróðleiksmann, Þór Jakobsson, veðurfræðing. Í grein sinni segir Þór:

Mér hefur því verið hugsað til skrifa Pálma Hannessonar, náttúrufræðings og rektors Menntaskólans í Reykjavík, í bók hans, „Um óbyggðir“ sem kom út fyrir hálfri öld (1958). Heitir þar einn kaflinn „Fjallabaksvegur nyrðri eða Landmannaleið“ (bls. 177-178). Greinir hann frá því að heitið Fjallabaksvegur sé fornt, en þar er átt við leiðina sem nú kallast gjarnan Fjallabaksleið syðri. Hins vegar var það fyrst árið 1839 sem Björn Gunnlaugsson fór leið í landkönnun sinni, sem hann kallaði svo Fjallabaksveg nyrðri á uppdrætti sínum og loddi það síðan við í landfræðiritum. 

Og í lok greinarinnar segir Þór:

Förum að ráðum skólamanns sem þekkti manna best landið, söguna og málið. Næst við sunnlensku jöklana norðanvert er Fjallabaksvegur, „að baki byggðarfjallanna, – að baki Eyjafjalla“, en miklu norðar er Landmannaleið, kennd við Landmenn, heimamenn í Landsveit eða á Landi, sem er efsta sveit í Rang- árvallasýslu (Rangárþingi). Ég endurtek: annars vegar er Fjallabaksvegur, hins vegar Landmannaleið. 

Í megindráttum er áminning Þórs á sama veg og Grétar Eiríksson veitti mér forðum daga. Undir orð Þórs get ég því fúslega tekið. Hvet aðra til að gefa orðum hans gaum. Við þurfum að leggja við eyrun þegar skynsamir menn mæla af þekkingu og vinsemd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gissur Þórður Jóhannesson

Í bókinni Sýslu og sóknarlýsingar í Skaftafellsýslu svarar Magnús Steephensen f.1797 sýslumaður í Skaftafellsýslu spurningum Hins íslenskabók bókmentafélags frá 1839 varðandi fjallabak svo.  Um Álftaver segir hann,,eru því talin fjöll langt      norður í óbyggðir sem áföst eru Rangvellingaafrétti og Skaftártungumanna þar sem hlið er á fjallaklasanum og farið verður á fjallabaki".           Um Skaftártungu segir hann,,Koma afréttir Skaftártungumanna saman við Rangvellinga þar sem hlið er á jöklaklasanum og vegur liggur er kallast Fjallabaksvegur" Um þetta segir Pétur Stephensen f.1798 prestur í Ásum í Skaftártungu eftir að hafa talið upp 3 vegi innan hrepps.,,4) Frá Ljótarstöðum vestur á Rangárvelli að bænum Rauðnefsstöðum.         Fjallvegurinn er á að giska 2 1/2 þingmannaleið. Á fjallveginum er einn áfangastaður Grashagi nefndur. 

Gissur Þórður Jóhannesson, 20.7.2011 kl. 12:10

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir innleggið, Gissur. Greinilega mikill fróðleikur á blogginu þínu, hlakka til að lesa mér þar til.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.7.2011 kl. 15:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband