Vangaveltur um síma, þjófnað og réttlæti

Fréttir frá Bretlandi um innbrot í síma og tölvur eru ógnvekjandi. Handsímar virðast vera frekar óörugg tæki, og svo virðist sem framleiðendur þeirra hafi lagt megináherslu á frábæra og skemmtilega tækni en ekki að sama skapi á öryggi. Þar af leiðir að símaeigendur þeirra auðveld bráð fyrir glæpamenn. Þróunin hefur síðan orðið sú að fjölmiðlar hafa reynt að stytta sér leið í áhugaverða tækni með því að gera hið sama, brjótast inn í síma, þefa og snuðra og fionna eitthvað sem getur selt blöðin.

Í sjálfu sér er þarna enginn munur á fjölmiðli og glæpamönnum. Hvorir tveggja brjóta lög. Ég rak þó upp stór augu þegar það kom fram í einhverjum enskum fjölmiðlum að ritstjórn News of The World hefði greitt glæpamönnum til að brjótast inn í síma. Talið er að um fjögur þúsund símar hafi verið hakkaðir á þennan hátt.

Vissulega getur verið fengur í trúnaðarupplýsingum hvernig svo sem þær eru fengnar. Nefna má SÍA skjölin, skýrslur námsmanna í hinni sósíalísku Austur-Evrópu sem Heimdallur komst yfir og birti í stórri bók fyrir um fjórum áratugum. Enn hefur ekki verið greint frá því hvernig þessi skjöl komust í hendur andstæðinga sósíalista en fullyrða má að birting þeirra var gríðarlegt áfall fyrir þá og hefur æ síðan verið mikil ávirðing á fjölda nafngreindra manna sem enn hafa ekki viljað skýra fylgispekt sína við nástefnu sósíalismans. Raunar hefur verið sagt að þessum skjölum hafi verið stolið en einnig að einn skýrsluhöfunda hafi einfaldlega ofboðið og gefið þau.

Fyrir nokkrum árum var tölvupóstum stolið úr tölvu. Þetta voru hin svonefndu Baugspóstar. Með innihaldi þeirra var reynt að sverta ritstjóra Morgunblaðsins, lögmann, formann Sjálfstæðisflokksins og ekki síður eiganda póstanna. Að mati margra tókst þessi árás að mörgu leyti þó svo að sagan síðan hafi skýrt hver ástæðan var fyrir þessum þjófnaði og má benda á Rosabaug Björns Bjarnasonar um þetta mál.

Árás fjölmiðla og glæpamanna á tölvur og handsíma eru af svipuðum toga og að ofan greinir. Annars vegar er að sækjast eftir trúnaðarupplýsingum sem geta orðið til að auka sölu á fjölmiðli eða koma pólitískum andstæðingum illa, og hins vegar að stela upplýsingum fjármálalegum upplýsingum til að geta komið höndum yfir fé á bankareikningum eða kreditkortum.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að þjófnaður er þjófnaður, hvort sem hann á sér stað í tölvu eða handsíma eða eitthvað er tekið á annan hátt. Lausnin er sú hin sama og alltaf, gæta að sínu.

Og ekki má gleyma því að sumir eru þeirrar skoðunar að hægt sé að réttlæta þjófnað með því sem stolið er. Þannig ku vera afar göfugt að gera eins og Hrói Höttur, stela frá þeim ríku og gefa þeim fátæku. Hann gerði það þó ekki nema að hluta, hélt einhverri kommissjón fyrir sjálfan sig og félaga sína.

Þeirri spurningu má varpa fram hvort það sé réttlætanlegt að stela upplýsingum úr tölvu stjórnmálamanns sem t.d. er grunaður um spillingu, mútur, þjófnað eða álíka. Það kann að vera, en komi hins vegar í ljós að þessi grunur var á misskilningi byggður, hvað þá?

Er þá þessi hugmynd um réttlæti og heiðarleika hriplek, á bara við af og til og gildir aðeins um suma en ekki aðra?


mbl.is Auðvelt að brjótast inn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Steinsson

Mér finnst mikill munur á hvort fjölmiðill notar vafasamar aðferðir til að koma upp um sviksamlegt athæfi og glæpi eða hvort þeir ráðast inn í einkalíf fólks sem ekkert hefur gert af sér annað en að lenda í persónulegum harmleikjum. Það fyrra er vissulega á gráu og jafnvel dökkgráu svæði en það síðara er algjörlega siðlaust og glæpsamlegt.

Einar Steinsson, 14.7.2011 kl. 16:40

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Einar, þakka fyrir innlitið. Ég er viss um að við getum flokkað lögbrot í grá, dökkgrá og svo glæpsamleg. Er kannski í lagi að „fiska“, tékka á símum eða tölvum náungans og kanna hvort þar finnist ekki eitthvað vafasamt? Eru menn sammála því að lögreglan geri slíkt hið sama án dómsúrskurðar, fiski til að koma í veg fyrir sviksamlegt athæfi eins og þú orðar það?

Ég held að við þurfum að taka ákveðna afstöðu. Annað hvort er verknaðurinn bannaður eða öllum er gefið veiðileyfi. Að mínu mati dugar ekkert hálfkák, það mun koma til með að eyðileggja traust á milli fólks, eyðileggja það sem heldur þjóðfélaginu saman.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.7.2011 kl. 16:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband