Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Handarbaksvinnubrögð

lereftshofu.jpg

Eftir myndum að dæma virðist Múlakvísl slá sér vítt við gamla brúarstæðið en samkvæmt mælingum er vatnsmagnið um það bil hið sama og það var fyrir flóð. Þetta sést á meðfylgjandi línuriti Veðurstofunnar en það er frá fellinu Léreftshöfuð, sem er tæpa sex kílómetra þar fyrir norðan.

Hins vegar skil ég ekki hvernig hægt er að gera ráð fyrir að það minnki enn frekar í fljótinu síðdegis því oftast er gert ráð fyrir því að meira vatn sé á þeim tíma í jökulfljótum þegar bráðvatn dagsins skilar sér í þau. Þó svo að gert sé ráð fyrir að það kólni þegar líður á daginn koma þau áhrif varla fram fyrr en í kvöld eða nótt.

Það er hins vegar algjörlega óskiljanlegt hvers vegna Vegagerðin grípur ekki til bráðabirgðaaðgerða til að brúa Múlakvísl. Ómar Ragnarsson hefur bent á notkun röra, það sé einfaldlega hægt að raða saman stórum rörum og mynda þannig brú. Sama hefur Árni Johnsen alþingismaður gert en hann bendir á að hægt sé að nota gáma í sama tilgangi.

Það þarf því enginn að segja manni að ekki sé hægt að leysa þetta verkefni á skemmri tíma en þremur vikum. Vegagerðin þarf einfaldlega að rísa upp og fara að vinna vinnuna sína.

Menn geta ekki látið sem svo að ekki sé hægt að temja eitt fljót með rökréttum aðgerðum.

Það er því í hæsta máta hlægilegt að nú séu einhver stór tæki sem eiga að ferja fólk yfir fljótið. Engu er líkar en þjóðin sé komin fjörtíu ár aftur í tímann í tæknilegu tilliti. Svona handarbaksvinnubrögð eru Vegagerðinni til mikils vansa.


mbl.is Þess beðið að sjatni í ánni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má ekki setja Múlakvísl í rör til bráðabirgða

Morgunblaðið verður að fara að ganga á forsvarsmenn Vegagerðarinnar og krefja þá svara um þá kosti sem eru í stöðunni. Ferðaþjónustan hefur bent á að hver dagur er gríðarlega dýr meðan hringvegurinn er rofinn. Þess vegna undrast fjölmargir að ekki sé hægt að stytta þann tíma sem tekur að gera við hann.

Til dæmis hafa margir stungið upp á því að setja þrengingu í Múlakvísl og setja síðan í rör. Það hlýtur að vera vænlega bráðabirgðalausn.


mbl.is Byrja á brúargerð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi vinnubrögð Vegagerðar og ríkisstjórnar

Ferðaþjónustutíminn hér á landi eru þrír til fjórir mánuðir. Þrjár til fjórar vikur þýðir einfaldlega að stórt tap verður á rekstri ferðþjónustufyrirtækja í Skaftafellssýslum. Og ekki nóg með það, þetta tap dreifist út um samfélagið í báðum sýslum. 

Seinlæti Vegagerðar ríkisins er alls ekki ásættanlegt og sinnuleysi ríkisstjórnarinnar bendir eindregið til þess að hún skilji ekki alvöru málsins. Raunar hefur ríkisstjórnin aldrei skilið mikilvægi atvinnulífsins í þjóðfélaginu. Hún heldur líklega að verðmætasköpunin aðeins til í kaffihúsum í 101 Reykjavík - með fullri virðingu fyrir þessari atvinnugrein.

Óskiljanlegt er að það taki heilar þrjár vikur að koma upp bráðabirgðabrú yfir Múlakvísl. Ferðaþjónustan í Skaftafellssýslum má ekki við þessu um hábjargræðistímann. Þeir ferðamenn sem ætluðu um Suðurland og austur um Kirkjubæjarklaustur, Öræfi, Suðursveit, Mýrar, Höfn og Lón koma einfaldlega ekki aftur.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa rétt fyrir sér, neyðarástand ríkir í ferðamálum. Þingmaður Framsóknarflokksins virðist hafa skilning á ástandinu og fleiri þingmenn þurfa að rísa upp af sínum feitu afturendum og krefjast eldsnöggra úrbóta af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hversu flókið er það annars að skella einni brú yfir Múlakvísl er að verða að smámigu miðað við það sem hún var þegar flóðið stóð sem hæst? Það er eins og að Vegagerðin haldi að fljótið haldi á einhvern óskiljanlegan hátt vatnsmagni sínu. Þarf ekki að fara að skoða þessa ríkisstofnun sem virkar eins og ríki í ríkinu og fer svo hægt yfir að tímamælingin er í misserum og áratugumÐ


mbl.is Tók 5-6 daga að opna 1996
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrann Jóhanna og stjórnarandstöðuþingmaðurinn Jóhanna

Af mjög praktískum ástæðum les ég ekki Fréttablaðið oft. Þá sjaldan sem ég geri það kemur fyrir að ég rekist á merkilegt efni í því. Hæst ber auðvitað afbragðs skrípó og myndasögurnar eru bara ansi góðar. En í dag las ég leiðara helgarblaðsins sem ritstjórinn, Ólafur Stephensen, ritar. Óli er góður eins og svo oft áður. Hann segir:

Þingtíðindin muna allt sem sagt er á Alþingi, þar á meðal orð Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öskuill í ræðu 20. nóvember 1996 yfir svari við fyrirspurn sinni um húsnæðismál frá Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra. Jóhanna kallaði svörin „ámælisverð og ófyrirleitin“. Þar kæmu fram „villandi og beinlínis rangar upplýsingar þannig að við jaðrar að um beina fölsun á staðreyndum sé að ræða“ – og svo alvarlegir hlutir að jafna mætti við „hreina valdníðslu“.

Forsætisráðherrann, Jóhanna Sigurðarsdóttir, er ekki sama konan í stjórn og stjórnarandstöðu. Halda mætti að sú í stjórnarandstöðunni hafi fengið högg á hausinn við að verða allt í einu aðal. Óli ritstjóri skrifar:

Þegar hún var í stjórnarandstöðu lagði hún einu sinni fram 107 fyrirspurnir á 17 mánuðum, frá október 2003 fram til febrúar 2005. Þá var reiknað út að þetta væru hátt í fjórar fyrirspurnir á hverri viku sem þingið sat og að færu sex vinnustundir að meðaltali í að svara hverri þyrfti stjórnarráðið að hafa tvo deildarsérfræðinga í því verki einu að undirbúa svör til Jóhönnu.

Og svo kemst upp um konuna þegar hún reynir að blekkja þingið með því að svara ekki Guðlaugu Þ. Þórðarsyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, þegar hann reyndi að fá upplýsingar um kostnað vegna ráðgjafastarfa. Í fyrstu umferð hafði forsætisráðherra „gleymt“ að taka fram ákveðnar upplýsingar, sérstaklega um greiðslur til annarra en einstaklinga, en það er ljóst að fjölmargir verktakar í álitsgerðum hafa stofnað einkahlutafélaga til að komast hjá eðlilegri skattlangningu tekna. Ritstjóri Fréttablaðsins skrifar:

Viðbrögð forsætisráðherra við aðfinnslum þingmannsins við hið upphaflega svar eru hins vegar umhugsunarverð. Í bréfi sem Jóhanna skrifaði Alþingi og Ríkisendurskoðun í janúar var hún sármóðguð í garð Guðlaugs, sem hafði komið auga á misræmi í tölunum. Jóhanna sagði aðfinnslurnar „alvarlegri en gengur og gerist því þingmaðurinn sakar forsætisráðherra landsins beinlínis um að leyna þingið vísvitandi upplýsingum“. Slíkt væri „í besta falli kjánalegt“. 

Jóhanna Sigurðardóttir þótti í stjórnarandstöðu vera mikið fyrir stóru orðin og sparaði þau hvergi. Hún var sem erfið í stjórnarsamstarf, dró ekkert af gagnrýni sinni á eigin flokksforystu sem og eigin ríkisstjórn. Sem sagt hún hefur alltaf verið til vandræða. Og þetta orð, vandræði, skýrist auðvitað af ófyrirleitinni hegðun hennar þegar hún er sjálf orðin forsætisráðherra. Þá skapast vandræðin af kjánalátum annarra. Óli Steph. ritstjóri Fréttablaðsins er hógvær í gagnrýni sinni en Jóhönnu svíður örugglega inn að beini við orð hans:

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ráðherrann Jóhanna lendir í vandræðalegri mótsögn við stjórnarandstöðuþingmanninn Jóhönnu. Hefði hún ekki átt að spara stóru orðin og leggja bara áherzlu á að stjórnarráðið vandaði sig betur við að svara fyrirspurnum þingmanna? 


Bréf Kalla til Tóna

Kæri Tóni,

Vér teljum að breska krúnan geti ekki setið hjá og horft á. Vér þurfum að tjá oss um erfðabreytt matvæli. Þau eru ómöguleg. Erfitt að elda á gasi, að minnsta kosti segja matreiðslumenn vorir það. Auk þess eru þau þannig hönnuð að þau festast í tönnum. Eigi gengur að vér þurfum hálfan daginn að ganga með lager af mat í munni. Hann kann að fúlna og þá er skammt í andremmu.

Bið yður lengstra orða að banna erfðabreytt matvæli af þessum sökum. Þér getið ef þér viljið borið oss fyrir heilbrigðum rökum.

Refaveiðar eru af hinu góða, munið það kæri forsætisráðherra. Svo góðar eru þær að vér munum stunda þær um næstu árhundruð á því landi sem sannarlega er vor eign. Þér megið alls ekki leyfa ráðherrum yðar að leggja fram bann við veiðum með refum, þær eru hluti af menningu vorri, nauðsynlegt áhugamál og íþrótt fyrir aðalinn. Hvað ætti hann sosum að gefa ef ekki væru refaveiðar?

Þetta legg ég fyrir yður, kæri forsætisráðherra.

Hin konunglega tign, Kalli (verðandi kóngur) 


mbl.is Blair var pirraður á Karli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illskiljanlegt forsætisráðuneyti

Nú þykist forsætisráðherra vera í svo miklum önnum um hábjargræðistímann að hafa ekki tíma til að taka á móti forsætisráðherra hins ríkisins. Mætti halda að konan stæði út á túni og rakaði eftir skattasláttumanninum slynga.

Auðvitað er mikið að gera hjá Jóhönnu, svo mikið að hún lætur ráðgjafa sinn í utanríkismálum malbika einhverja skýringu á ógestrisni sinni. Ráðgjafinn er slyngur með pennann og heiðskíra hugsun:

Það er ekki rétt að tiltekin dagsetning í júlí hafi verið endanlega ákveðin en það var vissulega til alvarlegrar skoðunar um tíma. Ekki er heldur rétt að horfið hafi verið frá þeirri dagsetningu að ósk forsætisráðherra. Ég ítreka síðan að það hafa verið reifaðar hugmyndir milli ríkjanna um heimsóknir á þessu ári eða því næsta vegna tímamótanna við 40 ára stjórnmálasamband, enda liggur fyrir boð frá íslenskum stjórnvöldum frá árinu 2006 og samskipti eftir diplómatískum leiðum til að ákveða hugsanlegan tíma heimsóknar munu halda áfram. Slík samskipti fara ávallt fram í trúnaði milli ríkja.

Þetta segir ráðgjafi forsætisráðherra í tölvupósti til Morgunblaðsins. Ég verð að segja eins og er að þetta er algjörlega óskiljanleg og sannkallað stofnanamál. Er fólki algjörlega fyrirmunað að segja satt og rétt frá?

Ráðgjafinn fer þarna undan í flæmingi. Hann veit að málið lítur illa út og í stað þess að viðurkenna það (veit að þeir í kínverska sendiráðinu lesa fjölmiðla) raðar hún saman orðum svo úr verður merkingarleysa.

Að sjálfsögðu hefði átt að taka með fögnuði ósk kínverska forsætisráðherrans um heimsókn. Það hefði vakið athygli í fjölmiðlum heims. Evrópusambandið hefði tekið eftir því og lagt réttan skilning í fréttirnar, þess efnis að Ísland sé sjálfstætt ríki með sína eigin utanríkisstefnu. Það skyldi þó ekki vera að ríkisstjórnin vilji ekki trufla umsóknarviðræðurnar við ESB með því að taka á móti forsætisráðherra Kína. Og alls ekki gefa til kynna að utanríkisstefnun okkar getum við framfylgt án aðstoðar. 

 


mbl.is Annir hjá forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjórinn birtist aðeins á gleðistundum

Borgarstjórinn í Reykjavík er víst þannig gerður að þegar er tilefni til fagnaðar mætir hann á staðinn með ræðu sem aðstoðarmaðurinn hefur ritað á tölvu og prentað út á laiser prentara. En það eru ekki alltaf jólin. Þegar slæmar fréttir eru af borgarrekstrinum er borgarstjórinn víðsfjarri. 

Eflaust er ekkert við þessu að gera. Hann hefur sjálfur sagt að hann geri það sem hann kann best. Hefur nýlega lært að í einum milljarði eru ekki bara eitt hundrað milljónir heldur þúsund. Og debet og kredit hefur flækst fyrir fleiri borgarstjórum. Borgarstjóri err listans sáluga sagðist ekkert skilja í bókhaldi. Hann kann ekkert heldur á fiskveiðar í ám og fékk sér aðstoðarmann í að víga Elliðaárnar. Það verkefni flokkast þó sem fagnaður en ekki rekstrarleg leiðindi. Uppskar hann því aðdáun þeirra sem ekki þekktu hann fyrir að hafa ekki nennt að veiða.

Ný hús í miðborginni eru fagnaðarefni jafnvel þó þau séu eftirlíking af húsum sem aldrei hafa aldrei staðið þarna. Engu að síður eru þau falleg. Kristinssyni borgarstjóra til sóma að mega vígja þau.  


mbl.is Líf færist í húsin á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband