Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Píratar hreinsa til, ljóðskáldið og hagfræðingurinn skorin

Hópurinn sem síðustu misseri hefur kallast Píratar hefur verið iðinn að skemmta landsmönnum. Svo atorkusamur er hann að stundum hefur þurft að kalla til sálfræðinga til að greina vanda og róa fólk. Þeir hafa þó aldrei komið að neinu gagni. 

Oftast hefur hópurinn klofnað og fundið nýtt nafn og kennitölu. Svo er bara boðið fram í kosningum gegn spillingu, óheiðarleika og álíka.

Þannig var það þegar Borgarahreyfingin klofnaði í Borgara og Hreyfinguna. Eitthvað hræðilegt hafði eitrað andrúmsloftið því samskiptin milli fólks voru erfið, hugsanlega vegna spillingar og óheiðarleika. Sálfræðingar voru hins vegar ráðþrota.

Rítalínið dugði til að fyrirbyggja þau klofning. Eitthvað obbbboðslega slæmt hafði gerst. Persónuleg áflog voru orðin svo tíða að kalla varð aftur á sálfræðinganna sem, eins og áður, gátu ekkert gert. Fáir grétu klofninginn.

Stofnað til Pírata og var nú friður um sinn. Svo spillti eitthvað samstarfinu og þeir gerðu uppreisn á móti formanninum og stofnandanum, ljóðskáldinu geðþekka. Það var beinlínis sent í útlegð, fékk ekki einu sinni heiðurssæti á lista og ekki eina einustu sporslu, ráðgjafa- eða nefndarstarf. Er hún nú úr sögunni og var nú friður um sinn.

Kutarnir voru nú brýndir og næst ráðist gegn öðrum hógværum hagfræðingi, ljúfu og geðþekkum manni sem aldrei hefur lagt ill til nokkurs manns, hvorki í ræðu né riti. Hann fær ekki lengur að sitja í Seðlabankaráði sem þykir góð sporsla. Kemur nú hagfræðingnum í koll innflytjendastefna Pírata sem sækja nú útlending, líklega flóttamann, til að sitja í ráðinu.

Svona hafa nú leiksýningarnar verið á undanförnum árum og eru á borð við bestu sápuóperur sem tíðkast í amrísku síðdegissjónvarpi.

Lítið hefur farið fyrir pólitískri stefnu krakkanna í margklofna hópnum enda ekki tími til að sinna pólitík þegar daglega er verið að höggva samherja í herðar niður. Sjá hér.

Margt bendir til þess að Píratar klofni og samkvæmt sögunni eru líkur til þess að annar flokkurinn muni heita Pí og hinn Ratar. Í þeim fyrrnefnda verða fyrirspurnar- og þrætuþingmenn. Í þeim síðara verður burtreknir en geðþekkir fyrrverandi stjórnmálamenn. 

Berdreymin kona ritaði fyrir stuttu á samfélagsmiðli að margt muni nú gerast áður en að Pí & Ratar fari að sinna stjórnmálum. Nótt hinna löngu hnífa nálgast óðum ...


mbl.is Segir Pírata „stefnulaust skip“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæða til að hrósa dv.is fyrir að hafa séð að sér

dvNokkrum sinnum hef ég gert hér athugasemdir við málfar á fréttamiðlinum dv.is. Ritstjórnin má taka sig verulega á hvað varðar prófarkalestur.

Verst er þó útlitið á vefmiðlunum eftir að ný vefsíða var tekin í notkun. Þá voru allar fréttir tímasettar og sagt að þær hafi verið birtar fyrir tilteknum mínútum eða klukkustundum „síðan“.

Um þetta var fjallað hér í þessum pistli. Þar er sagt:

Þegar tengt er við tíma er einfaldalega sagt: Hann kom fyrir löngu. Algjör ofrausn er að bæta við atviksorðinu „síðan“, það hjálpar ekkert. Allir með þokkalegan skilning á íslensku vita að verið er að tala um liðna tíð.

Nú hefur einhver með viti bent ritstjórn dv.is að það er einfaldlega rangt að skrifa með frétt að hún hafi birst „fyrir klukkutíma síðan“. 

Ritstjórnin hefur nú séð að sér og lagt af þennan ljóta ósið. Það var líklega eins gott því ég var ákveðinn í að stefna fjölmiðlinum fyrir ranga notkun á íslensku. 

Ég ræddi við kunningja minn sem er lögfræðingur og skýrði málið út fyrir honum. Hann skildi mig þokkalega  en hló samt að mér og sagði slíkan málarekstur algjörlega vonlausan.

Hvað á eiginlega að gera þegar fjölmiðlar sýna lesendum sínum þá óvirðingu að bera fram fyrir þá illa skrifaðar fréttir? Veitingastaður gæti ekki borið fram skemmda rétti. Íslenska innanlandsflugfélagið sem áður hét Flugfélag Íslands, og ber nú langt og óþjált enskt nafn, myndi ekki komast upp með að bjóða upp á óstundvísi, léleg sæti eða jafnvel bilanagjarnar flugvélar. Strætó þarf að halda tímaáætlun um bjóða upp á þrifalega vagna fyrir hunda, menn og reiðhjól.

Þegar öllu er á botninn hvolft er nú ástæða til að hrósa ritstjórn dv.is í hástert fyrir að hafa séð að sér.


Æ, æ og æ ofan í æ ...

Alþýðufylkingin stendur ekki undir nafni, sárafáir fylkja sér með henni, hvorki í Alþingiskosningum né sveitarstjórnarkosningum. 

Besti árangur Alþýðufylkingarinnar var í sveitarstjórnarkosningum 2014 er hún fékk 0,4% atkvæða, 219 manns kusu hana. Engu að síður kusu 575 manns flokkinn í Alþingiskosningunum 2016 en hlutfallið var þó aðeins 0,3%

Síðast haust fékk flokkurinn aðeins 0,2% þó 375 manns hafi kosið hann.

Venjulegt fólk hefði auðvitað hætt þessari vitleysu en í Alþýðufylkingunni er ekkert venjulegt fólk heldur hörkuduglegt fólk sem tekur ekki mark á synjun, tekur ekki nærri sér þó þjóðin hafni henni æ ofan í æ.

Og æ, æ. Nú ætlar hann Þorvaldur trésmiður Þorvaldsson að bjóða sig enn einu sinni fram og núna í borgarstjórnarkosningunum í vor. Við liggur að maður vorkenni honum. Hann er eins og maðurinn sem sér ekki dyrnar og gengur á glerið aftur og aftur (æ ofan í æ). 

Honum fer eins og karlinum sem réri bát sínum á skerið og orti rétt áður (skrifað eftir minni):

Ýtar sigla út með sjó

á unnarjónum káta.

Skipið er nýtt en skerið hró

og skal því undan láta.

Og svo hrópar þessi ágæti frambjóðandi eins og félagi Stalín forðum: Berjumst félagar, berjumst.

Ég spái Alþýðufylkingunni 0.05% atkvæða, það er ef skyldmenni frambjóðenda mæti kjörstað.

 

 


mbl.is Þorvaldur leiðir Alþýðufylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn öfgavædd og Birgitta bakar lag en ekki köku

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum:

1.

„Það er skrítið að vera í þessu þegar maður er búinn með sex ára háskólanám í tannlækningum sem borga vel.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Hvað borga tannlækningar? Blaðamaðurinn er líklega  þarna að þýða enska orðatiltækið „It pays well“ en ferst það frekar óhönduglega vegna þess að íslenskan viðurkennir ekki þessa þýðingu, hún verður einfaldlega asnaleg.

Byggi blaðamaðurinn yfir drjúgum orðaforða eftir að hafa stundað bóka- og blaðalestur frá barnæsku ætti honum að vera auðvelt að þýða á góða íslensku. Jafnframt vissi hann að bein þýðing gengur oft ekki upp. Slíkar eru oft kenndar við „Google-Translate“ og þykja ekki merkilegar. 

It's strange to be in this when you have a six-year university study in dentistry that is paying well.

Þannig þýðir Google-Translate ofangreinda tilvitnun og gerir það bara býsna vel.

Tillaga: Það er skrýtið að vera í þessu eftir sex ára háskólanám í tannlækningum sem er ábatasamt nám.

2.

„… hafi hann haft aðgang að 110 börnum á aldrinum ellefu til fjórtán ára. Talið er að honum hafi tekist að öfgavæða einhver þeirra.“ 

Úr frétt á visir.is.     

Athugasemd: Held að blaðamaðurinn sem skrifaði þessa grein hafi verið furðuvæddur eða þá að hann hafi verið vitleysisvæddur. Ofangreint „meikar ekki sens“, svo gripið sé til enskuvæðingar á íslenskri tungu.

Tillaga: Talið er að hann hafi innrætt sumum börnunum öfgafullar skoðanir.

3.

„ Zlat­an Ibra­himovic var að eiga hreint út sagt ótrú­lega frum­raun með LA Galaxy … “ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Blaðamaðurinn skrifar um það sem þegar hefur gerst. Í flestum tungumálum er slíkt nefnd þátíð og hún er bara ansi góð til síns brúks. Þar með hefði hann einfaldlega getað skrifað eins og hér er gerð tillaga um og er miklu, miklu betra og skýrara.

Tillaga: Zlat­an Ibra­himovic átti hreint út sagt ótrú­lega frum­raun með LA Galaxy …

4.

„Erkifjend­urn­ir frá Los Ang­eles komust í 3:0-for­ystu áður en heima­menn klóruðu í bakk­ann eft­ir klukku­tíma leik og þá steig Sví­inn á stokk af vara­manna­bekkn­um.“ 

Úr frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Skelfing er að þurfa að lesa svona þvælu um fótboltaleik. Svíinn sem um er rætt, Zlatan Ibrahimovic, steig ekkert á stokk. Slíkt gerir enginn í íþróttaleik. Maðurinn var varamaður og gekk eða hljóp inn á völlinn og gjörbreytti gangi mál fyrir liðið sitt.

Íþróttablaðamenn eiga að skrifa um það sem hefur gerst án alls skrauts. Sé ætlunin að nota orðatiltæki eða málshætti er krafan sú að það sé gert rétt. Höfundur fréttarinnar gjörsamlega klúðrar henni með of langri málsgrein og orðatiltækjum sem passa ekki nokkurn skapaðan hlut inn í frásögnina. „Stíga á stokk af varamannabekk“, þvílíkt bull.

Hér er ekki allt upptalið í frétt sem er aðeins þrettán línur. Svíinn skorði mark á „einhverjum 36 metrum“, segir í fréttinni. Hvaða á höfundurinn við með þessu? Leiki einhver vafi á vegalengdinni hefði mátt nota fjölda annarra orða, til dæmis „um“, „á að giska“ eða álíka.

Tillaga: Erkifjend­urn­ir frá Los Ang­eles skoruðu þrjú mörk áður en Svíinn kom inn á sem varamaður og snéri leiknum algjörlega við.

5.

„Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég krosslegg fingur að þau séu að skemmta sér.“ 

Úr „frétt“/pistli á visir.is.      

Athugasemd: Þessi málsgrein segir ekki fulla sögu vegna þess að í hana vantar sagnorð. Ekki er hægt að segja „krosslegg fingur að þau séu …“. 

Blaðamaðurinn hlýtur að hafa krosslagt fingur og vonað að börnin skemmti sér. Raunar er algjör óþarfi að krossleggja fingur af þessu tilefni, vonin dugar, hjátrúin gerir ekkert, ekki einu sinni fyrir stílinn. Vanur blaðmaður er hér staðinn að rugli.

Tillaga: Krakkarnir mínir eru í Skíðaskólanum í Bláfjöllum og ég vona að þau skemmti sér vel.

6.

„Enginn sjúkrabíll hefur verið á vakt á Ólafsfirði frá því í fyrrasumar.“ 

Úr frétt í 10 fréttum Ríkissjónvarpsins 3. apríl 2018.     

Athugasemd: Bregður nú nýrra við þegar bílar stunda vaktavinnu. Flestir hefðu talið að slík tæki gætu ekki brugðist við nema þeim væri stjórnað af fólki.

Má þó vera að hægt sé að taka svona til orða, þó það stingi örlítið í augun. Að minnsta kosti er sagt: Bíll ók á ljósastaur, sjúkrabíll sótti slasaðan mann og flugvélin lenti á túninu. Engum dettur í hug að þessi tæki hafi verið sjálfvirk og mannshönd hvergi komið nærri.

Betra er þó að blaðamenn hafi blæbrigði málsins í huga en skrifi ekki án hugsunar og gæti jafnframt að stíl. Svo skaðar ekki að lesa yfir eða láta lesa yfir. 

Tillaga: Enginn sjúkrabíll tiltækur í neyðartilvikum á Ólafsfirði.

7.

„Gylfi Zoëga, meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands og prófessor í hagfræði, hafði tvisvar á liðnu ári kosið að vextir yrðu lækkaðir meira en tillaga seðlabankastjóra hljóðaði. “ 

Úr frétt á bls. 23 í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.

Athugasemd: Af tvennu illu er betra að nota hið ófríða nafnorð „meðlimur“ en hið útjaskaða og ljóta nafnorð „aðili“ um manninn sem situr í nefnd. Hið fyrrnefnda er samt ferlega asnalegt í þessu samhengi. 

Væri peningastefnunefndin hljómsveit eða Lionsklúbbur væri líklega réttlætanlegt að halda því fram að maðurinn væri meðlimur. Maður sem situr í nefnd er varla meðlimur, miklu frekar … Tja, hvað skal segja? 

Þeir sem skrifa mikið lenda ósjaldan úti í horni og komast ekkert áfram. Þá er um að gera að endurskrifa. Allt annað er þrákelni og vitleysa, það er að segja beri skrifarinn skynbragð á iðn sína.

Að öðru leyti er þessi málsgrein tóm tjara. Venjan er sú að á eftir nafni manns kemur titill hans, þessu næst má nefna að hann sé í peningastefnunefnd eða fótboltaliði. 

Svo er það þetta með tillögu seðlabankastjóra sem „hljóðaði“ ...

Í lok málsgreinarinnar er höfundur kominn út í horn, skilur ekki skrif sín, og lýkur við þau á ófullnægjandi hátt. 

Berum nú saman ofangreinda tilvitnun úr Mogganum og tillöguna hér fyrir neðan. Held því fram að tillagan sé ólíkt rismeiri.

Tillaga: Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, vildi tvisvar á síðasta ári til að vextir yrðu lækkaðir meira en seðlabankastjóri lagði til. 

8.

„Segjum bless við veturinn og nei takk við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð 15. apríl.“ 

Texti á Facebook undir nafni Eykjavíkurborgar.

Athugasemd: Frekar er þetta nú barnalegur texti. Hvenær var hætt að nota sögnina að kveðja og taka um rassböguna „segja bless“ í ofangreindu samhengi.

Undirritaður og fjöldi annarra vill ekkert með svifrykið hafa en fær engu um það ráðið. Reykjavíkurborg hefur mörg ráð til að draga úr því allt árið um kring en máttleysi hennar er í þessum málum er sárgrætilegt.

Hins vegar getur Reykjavíkurborg gert þá kröfu til þeirra sem senda út tilkynningar á hennar vegum að þeir geri það sómasamlega.

Tillaga: Kveðjum veturinn og losum okkur við svifrykið. Tökum nagladekkin úr umferð fyrir 15. apríl.

9.

„Láttu freistinguna eftir þér.“ 

Úr auglýsingu sem hljómaði á Stöð2 fyrir kvöldfréttir 7. apríl 2018.

Athugasemd: Hvað merkir orðið freisting? Líklega er uppruninn eitthvað sem laðar að en er þó rangt að falla fyrir. Suma freistar eitthvað sem þeir hafa ekki efni á og þá er hluturinn tekinn traustataki, honum stolið. Freistandi er að kaupa sælgæti en þau getur verið óholl fyrir marga.

Oft fellur maður í freistni, það er líklega ekki gott. Í stað þess að „láta freistinguna eftir sér“ er einfaldara að standast hana. Hins vegar er margt sem hægt er að láta eftir sér án þess að maður falli í freistni.

Fólkið sem samdi auglýsinguna með ofangreindri tilvitnun er líklega að rugla þessu tvennu saman, að láta eitthvað eftir sér og freistast. Á þessu tvennu er talsverður munur að mati þess sem hér ritar. Skárra hefði verið að segja og skrifa: Láttu freistast.

Vonandi misheyrði undirritaður ekki auglýsinguna. Í minninu hljómar tilvitnunin svona. Láttu freistinguna á eftir þér. Það hefði nú verið ljót ruglið.

Tillaga: Láttu þetta eftir þér …

10.

„Öskrandi kett­ir forðuðu stór­bruna.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.  

Athugasemd: Fyrirsögnin er beinlínis um að stórbrunanum hafi verið forðað og líklegt að kettirnir hafi bjargað honum. Hægt er að forða manni frá slysi eða forða einhverjum frá illum örlögum. Hins vegar forðar enginn stórbruna eða slysi enda er það ekki vinnandi vegur og því tómt rugl.

Sagnorðið að forða merkir að koma einhverju undan, koma í veg fyrir eitthvað eða álíka.

Blaðamaðurinn sem skrifaði fyrirsögnina skilur ekki þetta sagnorð og það sem verra er misnotar það. Fátt er lakara en rithaltur blaðamaður.

Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.

11.

„Birgitta og Vignir baka nýtt lag með Írafár.“ 

Fyrirsögn á visir.is.  

Athugasemd: Hvað þýðir að baka lag? Er verið að baka lagskipta köku? Nei, þau tvö eru í hljóðveri að semja eða taka upp lag. Hins vegar er algjörlega út í hött að breyta tungumálinu á þann hátt að misnota sögnina að baka og láta hana merkja að semja tónlist eða taka upp tónlist. Ekki þarf að fara í hljóðver til að baka köku, eldhúsið dugar. Hafi þau verið að semja eða taka upp lag, hvers vegna er það þá ekki sagt? Hvers vegna var orðið sögnin að baka notuð, af hverju ekki að frysta eða gubba ...?

Svo er það fallbeygingin. Blaðamaðurinn talar um nýtt lag með Írafár, ekki Írafári. Þetta er fyrirsögn á visir.is. Hvort skyldi hann „baka“ fréttir á Vísir eða Vísi (varla Vísiri)? Ritari þessara orða var forðum daga blaðamaður á Vísi og skrifaði fréttir í Vísir.

Tillaga: Öskrandi kettir komu í veg fyrir stórbruna.  

12.

„Ri­bery fram­lengi við Bæj­ara.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.   

Athugasemd: Ribery er franskur fótboltamaður sem hefur þegar framlengt samning við fótboltafélagið Bayern München. Engu að síður er notaður viðtengingarháttur í fyrirsögninni, rétt eins og verið sé að skora á fótboltamanninn að endurnýja samning sinn.

Vonandi hefur aðeins einn stafur fallið niður í orðinu. Þess ber þó að geta að margir blaðamenn hafa átt í erfiðleikum með viðtengingarhátt og misbeitt honum illilega.

Tillaga: Ribery framlengdi við Bæjara.


Sjónvarpsþættir um frægt fólk á fjöllum

DSC_0249Alltaf er gaman þegar Ríkissjónvarpið getur sýnt þokkalega góða útivistarþætti. Einn slíkur er á dagskrá um þessar mundir undir nafninu „Úti“. Orðið er atviksorð og hentar frekar illa sem nafn á þætti en það er aukaatriði.

Þeir þrír þættir sem hafa verið sýndir eru ágætlega vel teknir. Þó má gera athugasemdir við of mikla notkun á drónamyndum, þær geta verið þreytandi til lengdar. Hins vegar eru mörg skotin ansi góð og skemmtileg.

Gaman var að fylgjast með fer forstans upp á Öræfajökul, leið sem ég hef þó aldrei farið. Þekki mun betur Sandfellsleiðina og síðan hef ég farið upp á jökulinn norðanmegin frá, það er úr Esjufjöllum. Heillandi leið. Þátturinn var einstaklega skemmtilegur og upplýsandi. Raunar var þetta besti þátturinn, líklega vegna aðalsöguhetjunnar.

DSC_0296Kajaksiglingin um Langasjó hefði verið ágætur þáttur hefði tekist að minnka ótrúlegt mas leikvennanna sem töluðu út í eitt en höfðu frá afar litlu að segja. einhvern veginn rann ferðin í Kerlafjöllum út í sandinn, varð eiginlega ekki neitt neitt. Leið líklega fyrir kajasiglinguna.

Þátturinn um klifurferð í Hnappavallahömrum var frekar slakur sem og ísklifrið. Þarna var skautað yfir á mikilli harðferð og drónamyndir notaðar til að fylla upp í efnið.

Þessir þættir byggjast upp á því að fá fræga fólkið til að taka þátt. Fylgst er með þeim og það látið segja frá og tala um reynslu sína. Því miður tekst það ekki alltaf. Forsetinn var nú einna skástur og leikkonan Brynhildur Guðjónsdóttir var snöggtum skárri en kollegar hennar í þættinum fyrir tveimur vikum, líklega vegna þess að hún talaði með minni leikrænum tilþrifum en hinar.

Já, það er nú þetta með fræga fólkið. Hvenær í ósköpunum skyldi maður fá frí fyrir leikhúsfólki, stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki. Halda þáttagerðarmenn að Helgi Seljan dragi að? Persónulega finnst mér hann og fleiri slíkir alltof oft í fjölmiðlum í öðrum erindagjörðum en að miðla fréttum. Mér finnst ég vita meira um Helga þennan og leikkonurnar en ég hef þörf fyrir. Fjölmiðlamenn og blaðamenn eiga ekki að búa til þætti eða viðtöl um aðra fjölmiðlamenn. Það er hallærislegt og alls ekki siðlegt

Af hverju er ekki leitað til almennings, Jóns og Gunnu, sem eru að byrja í útivist eða vinafólks þeirra sem er lengra komið? Ég get bent á tugi fólks af þessu tagi. Í vetur hitti ég tvo náunga á Vífilsfelli sem hafa í tvö ár gengið á öll fjöll í nágrenni Reykjavíkur og víðar. Þeir sögðu að það hefði verið kvöl og pína að byrja en nú hlaupa þeir upp á fjöllin, bókstaflega.

Í sama fjalli hitti ég tvær ungar konur sem gengu upp harðan snjóinn á strigaskóm. Þótti það aldeilis ekkert mál að komast upp, en svo vandaðist málið þegar þær fóru niður. Ég lánaði þeim skíðastafi og var þeim til aðstoðar á niðurleið, var sjálfur á ísbroddum. Þær ætluðu að verða sér út um betri búnað og ganga í framtíðinni á fjöll.

Lítum bara á þá sem fara í ferðir með Ferðafélagi Íslands og Útivist. Þar er stórkostlegt fólk á ferð, fólk sem er að læra á landið, klífur fjöllin, skíðar og kann á allar öryggisreglur og kann að nota hjálpartæki fjallalífsins ... Þarna verða til fjallamenn sem ganga meðan aðrir telja sér til tekna að „labba“.

Myndirnar hér fyrir ofan tók ég í Vífilsfelli í lok apríl í fyrra þegar hópur frá Ferðafélagi Íslands kom sunnan á fjallið. Hann var í æfingaferð og fór líklega á Öræfajökul um vorið. Þarna voru hetjur á ferð. 


Hækkun skatta á bensín er tilræði við landsmenn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir hækkun kolefnisgjalds sé stefnumörkun ríkisstjórnarinnar til að draga úr losun koltvísýrings. Markmiðið sé að fá fólk til að draga úr notkun bensínknúinna ökutækja. 

Þetta er ein sú vitlausasta yfirlýsing sem ráðherra hefur látið sér um munn fara. Og hann er í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í. Og ég er í Sjálfstæðisflokknum og hlýt því að mótmæla hækkun á bensíni. 

Við búum í stóru landi. Hækkun á bensíni er landsbyggðaskattur. Ekki nóg með það með henni er verið að draga úr ferðalögum fólks um landið.

Hvernig í ósköpunum á maður að komast leiðar sinnar um landið öðru vísi en á bensínknúnum bíl eða dísil? Ég kemst ekki inn í Þórsmörk á rafdrifnum bíl, ekki heldur upp á Sprengisand, Kjöl, Fjallabak eða á jökla (eru til rafdrifnir vélsleðar?). Eða ætlar umhverfisráðherra að senda hjálparsveit mér til aðstoðar þegar rafmagnið þrýtur? Ekki einu sinni björgunarsveitir nota rafdrifna bíla.

Þessi stefna umhverfisráðherra má kalla „dagsisma“, kennd við borgarstjórann í Reykjavík sem gerir allt hvað hann getur til að tefja umferð bíla um borgina svo þeir druslist nú í strætó. Borgarbúar láta sem ekkert sé og ætla sér að endurkjósa þennan mann.

Hagkvæmustu bílarnir hafa hingað til verið díselbílar. Nú eru þeir orðnir óvinsælir því sótið úr þeim er stórhættulegt. Þá kaupir maður sér bensínjeppa. Rándýran andskota sem eyðir ótrúlega miklu bensíni og nú hefur umhverfisráðherra hækkað verðið til að minnka mengun.

Gott fólk. Er ekki kominn tími til að endurskoða þetta allt saman? Hvað þyrfti ég að gróðursetja mörg tré til að vega á móti akstri díseljeppa á einu ári? Ég skal gróðursetja tvöfalt fleiri tré, jafnvel þrefalt. Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil frekar verja (ekki eyða) peningum í skógrækt en borga hærra verð fyrir eldsneyti. Ég treysti einfaldlega ekki ríkinu með sínar gráðugu krumlur sem læðist ofan í veski almennings.

Þar að auki ætlar umhverfisráðherra ekki að gera neitt með þessa hækkun á bensíni, hún gengur bara inn í ríkishítina. Engin skógrækt, hvergi mokað ofan í framræsluskurði í mýrum. Engar mótvægisaðgerðir, bara hækkun hækkunarinnar vegna.

Og hvað í fjandanum er Sjálfstæðisflokkurinn að gera í ríkisstjórn sem hækkar bensín til að draga úr eldsneytiseyðslu bíla. Er ætlunin að einangra fólk úti á landi? Víða er það þannig að aka þarf langar leiðir til að fá heilbrigðisþjónustu, matvæli og aðrar nauðþurftir. Á fólk ekki að eiga þess kost að skreppa bæjarleið til að hitta vini, vandamenn eða bara fara í ríkið? Nei, það á að draga úr eldsneytiseyðslu. Ágætu vinir mínir á Skagaströnd, þið eigi helst að fara gangandi inn á Blönduós ef þið þurfið að fara til tannlæknis, á fund, fótboltaleik eða í ríkið. Verði ykkur og öðrum á landsbyggðunum að góðu með kveðju frá umhverfisráðherranum.

Gumað er að því að rafmagnið sé komið til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Þetta er auðvitað tóm della. Yfirfærslan tekur lengri tíma en eitt eða tvö ár. Líklega tekur hún heila kynslóð.

Finnst þér ekki mikið rugl, ágæti lesandi, að á meðan skuli ríkisstjórnin með umhverfisráðherrann í broddi fylkingar (mann sem er ekki einu sinni með bílpróf) reyna að trufla daglegt líf almennings? Hvers konar dallumakerí er að gerjast í ríkisstjórninni?

Má vera að það sé svona sem stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægist stuðningsmann sinn, svo gripið sé til klisjunnar.

 


Ohmæ gawd, líkamsleifar á Faxaflóa og menn hólkast upp

1.

„Kominn tími til þess að það taki allir af­stöðu til þess hvort þeir treysti dóms­mála­ráð­herra eða ekki.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Blaðamenn á visir.is og Fréttablaðinu eru frekar slakir í gerð fyrirsagna. Þær eru oft alltof langar og efnislega rýrar. Þessi fyrirsögn fer varla í úrvalsflokk því hún er of löng og stirð.

Orðin eru höfð eftir viðmælanda vefsins. Mjög einfalt er að laga hana, fækka orðum og þar með flækjustiginu. Þá myndi hún vera eitthvað á þessa leið: Kominn tími til að kanna hvort þingmenn treysti dómsmálaráðherra? Þessi tillaga er ekki nógu góð og hægt að gera hana mun betri jog jafnvel hafa hana innan gæsalappa því efnislega er þetta það sem viðmælandinn segir.

Tillaga: Treysta þingmenn dómsmálaráðherra? 

 

2.

„Kis­urn­ar trekkja að á kaffi­húsið.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Einhvern veginn er fyrirsögnin frekar stirðbusaleg, má þó vera að hún sé málfræðilega rétt. Þó má velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að nota annað orð en þessa mislyndu sögn „að trekkja“. Hún 

Tillaga: Kisurnar laða gesti að kaffihúsinu.

 

3.

„Ragnarök Fram.“ 

Fyrirsögn á bls. 4 í Íþróttablaði Morgunblaðsins 12. mars 2018    

Athugasemd: Íþróttablaðamenn Moggans eru ekki allir jafngóðir að semja fyrirsagnir. Nú bregður svo við að þegar Fram tapar í illa í handbolta gegn ÍBV er samin ágætis fyrirsögn. Líklega má jafna átta marka tap í úrslitaleik við ragnarök. Af mikilli hugarleikfimi fellir blaðamaðurinn nafn eins leikmans, Agnars, inn í orðið „ragnarök“ og ritar það með rauðu. Þar bregst honum bogalistin. 

Doldið fyndið, það verður að viðurkennast en blaðamaðurinn skilur ekki orðið ragnarök né hvernig það er myndað. Orðið er tvískipt, annars vegar er það „regin“ og hins vegar „rök“. Merkingin er dauði guðanna í ásatrú, heimsendir, sem lýsir vel niðurlægjandi tapi Frammara. Kosturinn við fyrirsögnina er að blaðamaðurinn getur endurnýtt hana þegar einhver Ragnar stendur sig vel. Þegar hluti orðisins er ritaður með rauðu verða afgangarnir tóm vitleysa, eitt R og svo ök sem má leggja saman, en þannig leik á ekki að stunda á fjölmiðlum. Hlutverk þeirra er að segja fréttir á einfaldan og skýran hátt. Sú er bogalistin.

Mesta slysahættan á ritstjórnarskrifstofum er í fyrirsögnum. Fyrirsagnagerð krefst langrar þjálfunar og mikillar málþekkingar. Svo fá orð eru í fyrirsögnum, að þau geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar. Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri.

Margir munu ábyggilega halda því fram að rauða innskotið með nafni leikmannsins ekki eiga heima þarna. Sá sem þetta ritar var lengi að átta sig á beyglunni, las „rök Fram“ og skildi ekkert. Þar með sannast það sem Jónas segir í tilvitnunni hér að ofan að fá orð í fyrirsögn geta óvart gefið ranga mynd af innihaldi fréttar.

Tillaga: Ragnarök Frammara [svart á hvítu].

 

4.

„Brian Cox vinnur að þætti um Mars á Ísland. “ 

Fyrirsögn visir.is.   

Athugasemd: Orðaröð skiptir gríðarlega miklu máli í töluðu og rituðu máli. Í ofangreindri fyrirsögn mætti halda að Mars væri fyrirtæki á Íslandi og það sé verkefnið.

Fyrir nokkrum árum birtist þessi fyrirsögn í einhverjum fjölmiðli: 

Jón Gnarr breytir nafni sínu í Huston.

Allir vita hver Jón Gnarr er og hafði hann fram að þessu borið nafn sitt með stolti. Mér fannst þó hálfskrýtið að hann vildi framvegis heita Huston. Auðvitað kom í ljós við lestur fréttarinnar að maðurinn ætlaði ekki að heita Huston heldur væri hann að breyta nafni sínu í borginni Huston í Texas. Óneitanlega má skilja fyrirsögnina á tvo vegu.

Tillaga: Brian Cox gerir þætti á Ísland um Mars.

 

5.

„Fyrir 4 klukkutímum síðan: Þakklátur að geta borgað allar skuldirnar “ 

Fyrirsögn forsíðu dv.is.     

Athugasemd: Vefsíðan dv.is hefur fengið nýtt útlit og því fylgir að í yfirfyrirsögn með hverri frétt er sagt hversu langt er síðan fréttin var birt. Þar klikkar ritstjórnin á málfræðinni. Vefsíðan hefur raunar aldrei verið þekkt fyrir að rita fréttir sínar á góðri íslensku.

Síðan“ er atviksorð og er hér vegna þekkingaskorts.Tökum hér lítið dæmi um notkun atviksorðsins.

Þegar tveir hittast sem hafa ekki sést lengi segir annar: Mikið er langt síðan ég hef séð þig. 

Hinn svarar: Já, nú eru ábyggilega tvö ár síðan.

Sá fyrri bætir við: Fyrir tveimur árum hittumst við á Akureyri [Takið eftir að hér er ekkert „síðan“].

Berum þetta saman og síðan við fyrirsögnina. Þá kemur berlega í ljóst að atviksorðinu „síðan“ er ofaukið. Hjálpar ekkert, er bara óþarfi. Engu að síður afar mikið notað, misnotað.

Tillaga: Fyrir 4 klukktímum: Þakkátur að geta borgað allar skuldirnar.

 

6.

„Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhuga- menn hólkast upp við endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.“ 

Úr dálkinum Ljósvakinn á bls. 30 í Morgunblaðinu 19. mars 2018.     

Athugasemd: Ljósvakinn í Mogganum er oft skemmtilegur og fróðlegur. Blaðamenn Morgunblaðsins skiptast á að skrifa í hann hugleiðingar um Sjónvarp. Oft er farið víða um völl í stuttu máli og sitt sýnist hverjum.

Ekki veit ég hvað orðasambandið að hólkast upp þýðir í þessu sambandi og því fletti ég í vefsíðunni malid.is. Þar er er þetta sagt: „vera óklæðilega víður (um flík)“. Þar af leiðandi er ég engu nær um hvað blaðamaðurinn á við, er hann þó yfirleitt ágætlega máli farinn. Þetta virkar samt einhvern veginn sem déskoti töff talsmáti …

Tillaga: Ekki þarf að bregða sér lengra en inn á Twitter til að sjá að íslenskir íþróttaáhugamenn eru fullir eftivæntingar vegna endurkomu Tigers Woods og eyða nú kvöldunum fyrir framan skjáinn.

 

7.

„Heils­ustaður­inn Yoga­food hef­ur lokað á Grens­ás­vegi.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd:  Þetta er hrikalega ljót villa vegna þess að heilsustaðurinn hefur ekki lokað neinu, hann getur það ekki. Þess í stað hefur honum verið lokað, líklega hefur eigandinn gert það.

Blaða- og fréttamenn eiga óskaplega erfitt með að átta sig á því að almennt framkvæma dauðir hlutir ekki neitt, lifandi fólk gerir það hins vegar. Hús geta ekki opnað eða lokað, hreyft við dyrum eða lagt niður rekstur.

Víða opnast dyr þegar skynjari verður var við hreyfingu í nánd. Ofmælt er að segja að húsið hafi opnað. Þegar rekstri hefur verið hætt er húsnæðinu lokað þar sem hann var starfræktur.

Tillaga: Heilsustaðnum Yogafood á Grensásvegi hefur verið lokað.

 

8.

„Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig í að ganga þrjú ár, vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.“ 

Frétt á vefritinu bleikt.pressan.is.       

Athugasemd: Þvílíkt bull sem er hér birt. Vonandi er tilvitnunin lélegum prófarkalestri að kenna frekar en að blaðamaðurinn sé svona hræðilega illa skrifandi. 

Síðar í sömu grein segir: 

Bylgja segir að upphafið á hreyfingu hennar hafi byrjað á Yoga námskeiði sem hún var í í 6 vikur.

Takið eftir tveimur forsetningum hlið við hlið í lok málsgreinarinnar; „… sem hún var í í 6 vikur.“ Svona gerir enginn sem er vanur skriftum. Og svo þetta: „upphafið á hreyfngu hennar“. Ekki stendur steinn yfir steini hjá blessuðum blaðamanninum. Trúir einhver því að Bylgja hafi ekki hreyft sig í þrjú ár? Blaðamaðurinn bullar.

Tillaga: Bylgja Guðjónsdóttir hafði ekki hreyft sig né gengið í þrjú ár vegna taugaáfalls sem hún varð fyrir.

 

9.

„Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar lík­ams­leif­ar sem fund­ust á Faxa­flóa ný­verið …“ 

Úr frétt á mbl.is.        

Athugasemd: Faxaflói er hafsvæði og hvort sem eitthvað finnst fljótandi eða sokkið í sjó þá er jafnan notuð forsetningin „í“, ekki „á“. Í fréttinni sjálfri er hvort tveggja notað. Í myndatextanum er sagt „í Faxaflóa“.

Í annarri frétt á sömu vefsíðu er sagt að líkamsleifar hafi fundist „við Snæfellsnes“ jafnvel þó fram komi að þær hafi fundist á 120 metra dýpi í Faxaflóa.

Varla er til nein regla um þetta. Hins vegar eru skip oft á siglingu eða veiðum við Snæfellsnes. Kafbátar kunna að vera á ferðinni í Faxaflóa og skipsflök og ýmislegt annað kann að finnast á botni Faxaflóa. Mogginn þarf endilega að samræma fréttaflutning. 

Flóabardagi er sagður hafa verið háður árið 1244. Viðbúið er að einhverjir hafi þá hrokkið útbyrðis og drukknað. Sokkið í Húnaflóa. Hvíli nú í votri gröf í Húnaflóa.

Í gamla daga sagði íslenskukennarinn að það væri illskárra að gera alltaf sömu villuna heldur en að vera svona ýmist eða.

Tillaga: Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu hef­ur til rann­sókn­ar líkams­leif­ar sem fund­ust í Faxa­flóa ný­verið …

 

10.

„Vísir greindi frá viðbrögðum Páls vegna pistilsins, og í gærkvöldi tjáði svo Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, um fúkyrðaflaum sem dunið hefur á Stundinni, meðal annars á vegg Páls.“ 

Úr frétt á visir.is.       

Athugasemd: Prófarkalesturinn á visir.is er ekki lagi, líklega er hann enginn. Reyndur blaðamaður sem skrifar fréttina las ekki lesið yfir eða honum hefur yfirsést.

Í stuttu máli vantar afturbeygða fornafnið í þessa löngu málsgrein. Fyrir vikið er málsgreinin hálf hölt. Jónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri, hvetur blaðamenn til að skrifa stuttar málsgreinar, setja punkt sem oftast. 

Blaðamanni liggur svo mikið á að hann virðist engu skeyta um stíl. Punkt notar hann sparlega. Hann setur inn leiðinlegan hortitt, atviksorðið „svo“ sem þarna á ekkert erindi. Ótrúleg nástaða verður til, nafn fjölmiðilsins er tvítekið sem er óþarfi.

Blaðamenn eiga að vanda sig, lesa yfir og vera gagnrýnir á eigin skrif. Halda mætti að þessi blaðamaður sé vanur en orðalagið bendir ekki til þess. Og enginn les yfir.

Tillaga: Vísir greindi frá viðbrögðm Páls vegna pistilsins. Í gærkvöldi tjáði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, sig um fúkyrðaflauminn sem dunið hefur á fjölmiðlinum, meðal annars á vegg Páls.

 

11.

„Þau eiga meðal ann­ars tvö af­kvæmi sam­an en Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað en hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Afkvæmi fólks eru nefnd börn. Oft er sagt að fólk eigi krakka saman eða jafnvel gríslinga. Afkvæmi annarra spendýra bera ólík nöfn, kálfar, folöld, hvolpar og svo framvegis.

Afar sjaldgæft er tala aðeins um afkvæmi. Þegar um fólk er að ræða þykir það dálítið niðurlægjandi eða … bara svolítið „töff“ eins og í þessu tilviki. Þetta er þó ekki til eftirbreytni í frétt jafnvel þó blaðamaðurinn kunni að vera vinur þeirra sem um er rætt.

Annars er það dálítið skondið hvernig blaðamaðurinn orðar upphaf samdráttar hjónaleysanna. Þau „hnutu“ um hvort annað. Dálaglega orðað, það verður að viðurkennast. Hins vegar batna allar fréttir ef þegar punktur er notaður ósparlega af mikilli kunnáttu.

Tillaga: Þau eiga meðal ann­ars tvö börn sam­an, Hild­ur átti eitt fyr­ir þegar þau hnutu um hvort annað. Hjóna­leys­in búa sam­an í Vest­ur­bæ Reykja­vík­ur.

 

12.

„Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en ætlað sér að taka sér tíma í að fram­kvæma ákvörðun­ina.“ 

Úr frétt á mbl.is.       

Athuasemd: Furðulegur talsmáti, „… að taka sér tíma í að framkvæma ákvörðunina“. Greinilega geld þýðing úr ensku eftir einhvern sem ekki hefur lesið yfir og hefur þar að auki ekki góða máltilfinningu.

Í endursögn hefur forsetinn líklega ekki ætla að reka hann strax. Af hverju er ekki hægt að segja það? Eða þá að McMaster myndi ekki hætta strax? Ákvörðunin var tekin, maðurinn var rekinn en vann áfram svo lengi sem forsetanum þóknaðist.

Tillaga: Mbl.is greindi frá því vik­unni að Trump hefði ákveðið að reka McMa­ster en þó ekki strax.

 

13.

Að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstreng­ur sé raun­hæf­ur í sam­an­b­urði við loftlínu er veiga­mik­il ástæða þess að Úrsk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála felldi í gær úr gildi fram­kvæmda­leyfi Hafn­ar­fjarðarbæj­ar fyr­ir svo­nefndri Lykla­fells­línu.“ 

Úr aðalfrétt á forsíðu á mbl.is.       

Athuasemd: Ofangreind tilvitnun er alltof löng. Punktur hefði verið til bóta.

Algjört stílleysi að byrja setningu á nafnháttarmerkinu „að“. Má vera að það sé ekki málfræðilega rangt en málgreinin verður afar undarleg fyrir vikið. 

Hið þriðja sem verður að finna að er orðalagið „… er veigamikil ástæða þess …“ Þetta þykir ekki heldur góður stíll.

Tillaga: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í gær úr gildi framkvæmdaleyfi Hafnarfjarðarbæjar fyrir svonefndri Lyklafellslínu. Í ákvörðuninni vó þung að Landsnet hafi ekki sýnt fram á að jarðstrengur sé raunhæfur í samanburði við loftlínu.

 

 

 

 

Vinsæl gæluorð blaðamanna

  • Bíllinn hafnaði út af

Jafngilt eða betra: Lenti, endasentist, endaði, valt, rann …

  • Jón hafnaði í fyrsta sæti

Jafngott eða betra: Sigraði, lenti, náði

  • Stína hafnaði tilboðinu

Þetta er gott. Stína hefði líka getað neitað að samþykkja, synjað um samþykki vegna þess að hún var orðin afhuga því.

Klessa:

  • Hún klessti á bíllinn

Jafngilt eða betra: Ók á, rakst á …

  • Báturinn klessti á brúnna

Jafngilt eða betra: Sigldi á, rakst á, hann rak stjórnlaust á brúnna …

  • Hún barði eiginmann sinn í klessu:

Gott hjá henni, hafi hann átt það skilið.

 

Málið

Örlítill dálkur í Morgunblaðinu grípur daglega athygli þess sem hér ritar enda er þar fjallað af mikilli fagmennsku um tungumálið enda nefnist hann Málið. Hér er dæmi (greinaskilum hefur verið bætt við):

Hálf- er aumt að sjá þýtt svona bókstaflega: „enda ekki úr karakter“ (um mann grunaðan um misferli) í stað t.d. enda ekki ólíkt honum. 

In character (with sth) / out of character þýðir í þessu sambandi í samræmi / ósamræmi við eðli – þess sem um ræðir. Þ.e.a.s.: þetta var svo sem eftir manninum.

 

Nokkuð sem bragð er er að

Nú er til dæmis aflagt að segja Hamingjan sanna og Hægan hægan, sem einu sinni var vinsælt í leikritaþýðingum og vel mátti missa sig, en líka: Ég á ekki orð!, Ég er alveg bit!, Þú segir ekki!?!, Guð hjálpi mér, og ein tuttugu önnur orðatiltæki, jafnvel bara gamla góða: Ja, hérna! 

Nei, það sem unglingarnir hrópa upp í tíma og ótíma er Ohmæ gawd. Það er sem sagt nauðsynlegt að ávarpa Guð á ensku, þegar mikið liggur við. Um áhrifamátt þess skal ég ekki fjölyrða, því að ég hef aldrei prófað það.

Úr greininni „Ohmæ gawd“ eftir Svein Einarsson, leikhússtjóra, birt á bls. 19 í Morgunblaðinu 6. mars 2018. (Geinaskil og feitletranir eru á ábyrgð SS)

 

 

 


Slakur skilningur á íslensku er vandamál á dv.is

DVÍ sígildu ævintýrunum hefjast sögur ósjaldan á þennan hátt: Fyrir langa löngu var ... og svo heldur sagan áfram.

Fengi ritstjórn DV að ráða myndi sagan hefjast þannig: „Fyrir langa löngu síðan ...“.

Á þessu tvennu er mikill munur. Hið fyrra er rétt en það síðara er rangt.

Þegar tengt er við tíma er einfaldalega sagt: Hann kom fyrir löngu. Algjör ofrausn er að bæta við atviksorðinu „síðan“, það hjálpar ekkert. Allir með þokkalegan skilning á íslensku vita að verið er að tala um liðna tíð.

Hins vegar er allt í lagi að segja: „Langt er síðan ég sá þig fyrst.“

Fólk sem er ekki mjög vel lesið áttar sig ekki á þessu og ruglar saman svo úr verður rassbagan „Fyrir löngu síðan“. Þetta er sagt vegna þess að lestur bókmennta er grundvallaratriði í skilningi á tungumáli, ekki aðeins íslensku heldur allra. 

Þetta skilur vefmiðillinn dv.is ekki þetta og ekki heldur Facebook. Villan grasserar á báðum miðlum.

bækurNú hefur dv.is breytt forsíðu sinni. Kostir og gallar fylgja breytingunum. Gallarnir eru tveir. Í fyrsta lagi blasir villan, rassbagan, við öllum í hverri einustu frétt sem birt er þann daginn sem síðan er skoðuð. Í öðru lagi setur vefmiðillinn niður þegar dagur líður án þess að ný frétt birtist. Hvort tveggja er svona frekar neyðarlegt.

Hér áður fyrr var eldklárt fólk starfandi á ritstjórn DV sem lagði mikið á sig til að fara rétt með íslenskt mál. Skyldi nú starfa á dv.is eldklárt fólk sem hefur slakan skilningi á íslensku?


Almennir flokksmenn semja drög að ályktunum fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins

Nei, kommon Bjarni.
Skynsamir flokksmenn felldu út „flokkseigendatillöguna” um að byggja nýja Landspítalann við Hringbraut og reisa um leið einkaspítala annars staðar.
Í staðinn kom skýr og rökrétt stefna um að fara strax í staðarvalsgreiningu þar sem m.a. yrði hugað að betri samgönguleiðum.

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra, á Fésbókarsíðu sinni. Hann telur sig þar með hafa komið höggi á formann Sjálfstæðisflokksins og „flokkseigendafélagið“.

Þetta er auðvitað tóm vitleysa hjá manninum því hann veit ekki hvernig Sjálfstæðismenn vinna tillögur fyrir landsfund. Það er ekki þannig að einn maður eða örfáir flokksmenn semji það sem lagt er fyrir fundinn. Í öllum tilvikum eru málefnanefndir flokksins opnir. Allir flokksmenn hafa rétt til þáttöku og fundirnir eru auglýstir opinberlega og fjöldi fólks tekur átt.

Þar af leiðandi er það engin „flokkseigendatillaga“ sem lögð er fyrir landsfund. Ég man ekki til þess að forysta flokksins sæki þessa málefnafundi, en það getur þó verið í einstaka nefndum.

Á landsfundi eru málefnafundirnir afar fjölmennir, miklu fleiri taka þátt í umræðum um drög að ályktunum en þeir sem sömdu þau. Í lýðræðislegum flokki ræður meirihlutinn.

Vel má vera að Sigmundur Davíð hripi niður á servéttu drög að ályktun Miðflokksins og hún sé svo samþykkt án mótatkvæða á aðalfundi flokksins. Þannig er það bara ekki í Sjálfstæðisflokkunum þar sem almennum flokksmanni er treyst og hann hvattur til að hafa áhrif.

Svo get ég ekki orða bundist um hegðun margra stjórnmálamanna, til dæmis Sigmundar Davíðs. Í þrjú ár sat hann með Sjálfstæðismönnum í ríkisstjórn og það án nokkurra vandkvæða. Hvað rekur hann til þess að stunda persónulegar árásir á fyrrum samstarfsmenn? Kynntust hann engum í ríkisstjórn sinni eða var allt svona ömurlegt og leiðinlegt og ástæða til að hefna með með skítkasti í stað þess að ræða málefnalega um staðreyndir?

Hins vegar er það mín skoðun og fjölda annarra Sjálfstæðismanna að byggja eigi nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut.


Ofbeldi meirihluta borgarstjórnar

Við ætlum að taka 25.000 manns úr bílum og setja í strætó,“ sagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og væntanlega forystumaður flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Hún nefndi ekki hvernig ætti að gera það. Hins vegar er alveg ljóst hvaða aðferðir vera notaðar en ætla má að fjölskyldufólki á einkabílum verði gert miklu erfiðara fyri en nú. Þetta er helst á dagskránni:

  1. Götur verða þrengdar rétt eins og gerðist með Grensásveg, Borgartún og Hofsvallagötu
  2. Strætó verður látinn hafa forgang umfram einkabílinn, þetta var gert í Borgartúni
  3. Tafið verður fyrir einkabílnum með því að lækka hámarkshraða eins og rætt hefur verið um að gera á Miklubraut og Hringbraut
  4. Lokað verður fyrir umferð einkabíla og honum kennt um mengun.
  5. Strætó fær forgang umfram aðra bíla og jafnvel umfram núgildandi umferðalög

Þetta heitir að berja fólk til hlýðni. Svo viss er meirihluti borgarstjórnar um ágæti almenningsfarartækja að hann er tilbúinn til að gera allt til að fá fólk inn í vagnanna. Frjáls vilji skiptir engu.

Aðeins um 4% borgarbúa taka strætó og þeim hefur ekki fjölgað neitt á undanförnum árum. Engu að síður skal sósíalískt boðvald borgarstjórnar stýra eftirspurn eftir strætó hvað svo sem almenningur vill. 

Líf Magneudóttir er trú sínum sósíalístíska uppruna og ætlar með berja fólk inn í strætó.

Fyrir nokkrum árum gerði ég tilraun í eitt ár og fór allra minna ferða á reiðhjóli. Það var skemmtileg upplifun. Hins vegar gengur ekki að setja alla á hjól. Þar að auki hefur meirihlutinn lítið gert í að auðvelda hjólafólki ferðir um borgina. Ekki heldur gert mikið í því að lagfæra strætó og gera hann að hvetjandi samgöngumáta. 

Stjórnmálamenn þurfa að vinna heimavinnuna áður en þeir setja fram yfirlýsingar. Ég ber enga ábyrgð á Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa VG. Hún hótar ofbeldi.


mbl.is „Ber ekki ábyrgð á Sigríði Andersen“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband