Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úbbs ... er ekki skráður á landsfund Sjálfstæðisflokksins

LandsfundurinnLandsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn um helgina. Ég gekk í flokkinn um leið og ég hafði aldur til og hef síðan sótt alla landsfundi hans nema einn (minnir mig), var þá í útlöndum við einhverja ómerkilega iðju, nám eða álíka vitleysu.

Nú er ég upptekinn við eitthvað sem er ábyggilegra enn ómerkilegra og því verður þetta í annað skiptið sem ég sæki ekki þennan stórskemmtilega og fróðlega allsherjarfund Sjálfstæðisflokksins.

Einhver kann að spyrja hvers vegna ég mæti ekki. Svarið er einfalt. Hvorki hefur Sjálfstæðisflokkurinn yfirgefið mig né ég hann. Ég er bara svo önnum kafinn í pólitískum vangaveltum að ég gleymdi að skrá mig.

Því miður hefur enginn tekið eftir því að nafnið mitt er ekki meðal 2.000 skráðra fulltrúa og það sem verra er, enginn hefur á mig skorað að mæta. 

Eftir því sem tímar hafa liðið hafa landsfundir Sjálfstæðisflokksins orðið æ fróðlegri og skemmtilegri. Hér áður fyrr fannst manni svo margir „gamlir kallar“ þar og svo fátt af konum og yngra fólk. Nú er meirihlutinn ungt fólk, konur og karlar, glæsilegir fulltrúar sinna kynslóða. Allir taka þátt í nefndafundum og leggja ýmislegt til málanna. 

Svo stórir eru nefndafundirnir orðnir að fyrir fjórum árum voru á fjórða hundrað manns að ræða um verðtryggingu og fjármál heimilanna. Fyrir tveimur árum voru rúmlega eitthundrað manns á nefndafundi um umhverfis- og skipulagsmál. Sem sagt, fleiri á nefndarfundi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins en voru á síðasta landsþingi Viðreisnar eða landsfund Samfylkingarinnar.

Væri ég landsfundarfulltrúi myndi ég leggja áherslu á að miðhálendi Íslands verði gert að þjóðgarði. Á þetta lagði ég áherslu á síðasta fundi, rökræddi við fjölda fólks um málið en þurfti því miður að lúta í lægra haldi.

Á fyrsta landsfundinum sem ég tók þátt í, vildi ég takmarka sauðfjárbeit á hálendinu. Tillaga var kolfelld í nefnd, þótti tóm vitleysa og flutningsmaðurinn óskynsamur strákur. Enn í dag er sauðfé beitt á takmarkaðan gróður á gosbelti landsins Kominn tími til að hætta þessu rugli.


Hefur ráðherra flutt lík í ráðherrabíl?

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, er ekki nógu klár í hausnum. Hann spyr ítarlegra spörninga um greiðslur til ráðherra en gleymir samt fjölmörgu sem brýnt er að fá svar við.

Hér eru dæmi:

  1. Hversu oft hefur sprungið á ráðherrabílum?
  2. Hafa ráðherrar aðstoðað við að skipta um dekk þegar sprungið hefur á ráðherrabílum?
  3. Eru ráðherrabílar á nöglum, heilsársdekkjum eða harðskeljadekkjum?
  4. Hver er loftþrýstingurinn í dekkjum ráðherrabíla? Að aftan, að framan?
  5. Hversu oft hefur ráðherra sofið í ráðherrabíl í stað þess að fara heim til sín eða gista á hóteli?
  6. Hafa ráðherrar drukkið áfengi í ráðherrabílum? Er bar í ráðherrabílum?
  7. Hefur ráðherra skutlað einhverjum öðrum lengri eða skemmri leið án þess að taka greiðslu fyrir? Sé svo var gefinn út reikningur? Var reiknaður útskattur á reikningnum?
  8. Hefur einhverjum ráðherra flogið íhuga að nota hesta, reiðhjól eða mótorhjól í stað ráðherrabíls?
  9. Nota ráðherra farangursrými í ferðum sínum? Hafa þeir sett lík í farangursrými?
  10. Er ráðherrabílstjóri vopnaður? Sé svo hefur ráðherra fengið að skjóta?

Mjög brýnt er að fá svar við þessum spörningum svo hægt sé að finna upp á einhverjum nýjum spörningum til að spörja.


mbl.is Vill upplýsingar um greiðslur til ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Feigir smáflokkar

Viðreist telur sig stjórnmálaflokk. Um sextíu manns sóttu landsþing flokksins. Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins tók ég þátt í nefndarfundi um umhverfismál og hann var fjölmennari en landsþing Viðreisnar.

Fólkið sem er í Viðreisn telur sig klofning úr Sjálfstæðisflokknum og hélt landsþing þar sem saman voru kominn fjöldi fólks sem þó var ekki nema 5% af þeim sem sóttu síðasta landsfund Sjálfstæðisflokksins. Var þó reynt að smala saman ættingjum og vinum eins og hægt var.

Miklar líkur benda til þess að Viðreisn fari sömu leið og Björt framtíð sem getur ekki einu sinni smalað saman skyldfólki til að búa til framboðslista í Reykjavík. Það hefur þó hingað til verið nauðvörn smáflokka.

Þessir tveir flokkar, Viðreisn og Björt framtíð, bjóða saman í Kópavogi, þó með erfiðismunum.

Það hlýtur að vera niðurlægjandi að ættingjar frambjóðenda smáflokka neita að kjósa frændur sína og frænkur. Sumir flokkar bera feigðina í sér.


mbl.is Þorgerður hlaut 61 atkvæði af 64
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjávarklasinn, iða mannlífs, hugsana og framkvæmda

180307 Sjávarklasinn 1Eitt af merkilegustu fyrirbærum í Reykjavík er starfsemi Íslenska sjávarklasans á Grandagarði 16. Eftir að hafa hætt sem framkvæmdastjóri Sýslumannaráðs varð ég svo heppinn að fá inni í húsinu í samstarfi við Grétar Sigfinn, son minn sem hefur haft þar aðstöðu í nokkurn tíma.

Sjaldan hef ég verið eins hissa og um leið hrifinn af nokkurri starfsemi eins og Sjávarklasanum. Þarna starfa meira en sextíu fyrirtæki, einstaklingar og fjölmargir frumkvöðlar, beint eða óbeint að verkefnum sem tengjast hafinu, útgerð, vinnslu eða rannsóknum. Ábyggilega á annað hundrað manns eru með hugann við fiskeldi, fisksölu, sjávarútvegstækni, hugbúnaði, hönnun, líftækni, snyrtivörum og fjölmörgu öðru.

180307 Sjávarklasinn 2Sjávarklasinn er stórt samfélag. Iða mannlífs, hugsunar og framkvæmda sem hlúð er að og fær aðstoð við að gera gott enn betra. Um leið hittist fólk frá ólíkum fyrirtækjum, spjallar, ber saman bækur sínar og þá kvikna óhjákvæmilega hugmyndir, samstarf verður til og jafnvel spretta upp ný fyrirtæki.

Þarna er einstaklingsframtakið ljóslifandi í stórkostlegri kviku eldmóðs, frjórra hugsana og hugmyndasmíði. Þetta er leikvöllur framtíðarinnar.

Nei, ég er ekki að gera of mikið úr starfsemi Sjávarklasans. Ég hef hreinlega aldrei áður kynnst öðru eins samfélagi.

Húsnæðið sem slíkt er afar vel heppnað. Það er allt á lengdina, nær eiginlega frá nútíð til framtíðar. Tveir langir gangar. Skrifstofur af ýmsum stærðum við glugga og fundaraðstaða í miðjunni. Veggir eru úr gleri, hvergi eru hulin rými, eiginlega allt fyrir opnum tjöldum.

180307 Sjávarklasinn 3Oft á dag má sjá hávaxinn og spengilegan mann spígspora um ganga. þar fer hann Þór Sigfússon, stofnandi og stjórnandi Sjávarklasans. Öndvegis maður í viðkynningu og mikill húmoristi, alltaf tilbúinn til að aðstoða, hjálpa til og auðvelda fólki að sinna starfi sínu.

Vikulega er sameiginlegur morgunmatur og þar hittist fólk og blandar geði. Og í morgun var þess látið getið að boðið væri upp á hugleiðslu sem jógakennari hefur umsjón með. Þvílíkt og annað eins.

Matsölustaðurinn Bergson er í Sjávarklasanum og óvíða hægt að fá betur framreiddan fisk en þar.

180307 Sjávarklasinn 4Um daginn kom forsetinn í heimsókn og við dauðlegir máttum taka í höndina á honum. Við brottför hafði hann um að hugsa og enda var hann afar hrifinn af því sem hann sá hérna.

Framtíðin er björt fyrir Íslenska sjávarklasann. Nú er verið að undirbúa svipað starfsemi með matarfrumkvöðla með það að markmiði að auka nýjungar og vöruþróun. Sú starfsemi verður á neðri hæðinni.

 

 


Stjórnarandstaðan stundar tilraunir í markaðsmálum

Alþingismenn stunda margir hverjir merkilegar tilraunir í markaðsmálum, já þeir eru flestir markaðslega sinnaðir. Skiptir engu í hvaða flokkum þeir eru. Dæmi um slíkt eru ótal fyrirspurnir til ráðherra um hitt og þetta sem raunar skiptir engu máli, hvorki fyrir þjóð eða þing.

Hið eina sem eftir stendur er að þingmaðurinn sem spyr kemst örstutta stund í kastljós fjölmiðla og það er honum nóg. Honum er nákvæmlega sama þótt margir opinberir starfsmenn eyði tíma sínum í að afla þeirra upplýsinga sem um er beðið, stundum í marga daga, og ekki heldur hvað svarið kostar í raun og veru.

Síst af öllu leiðir þingmaðurinn hugann að því að þeir starfsmenn sem eru uppteknir við að svara tilgangslausum spurningum gætu verið að gera eitthvað allt annað og gagnlegra.

Vantrauststillaga minnihluta er álíka heimskulegt athæfi því vitað er að meirihlutinn mun ekki samþykkja hana. Þarna er verið að stunda ómerkilega markaðsstarfsemi, búa til ávirðingar á dómsmálaráðherrann, ata hann auri vitandi það sem getur verið að því meir sem tönglast er á lyginni því meiri líkur eru á því að ístöðulaust fólk trúi henni. Nóg virðist vera að „virkir í athugasemdum“ séu virkjaðir í skítkastið.

Ekki er furða þó álit fólks á Alþingi fari stöðugt minnkandi þegar svona vinnubrögð eru stunduð.


mbl.is Ræða van­traust­s­til­lögu á dómsmálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náungi sem spilar handbolta í fyrirsögnum hlýtur að vera fjölhæfur

1.

„Tíu valkostir sem KSÍ gæti skoðað ef Heimir ákveður að hætta.“ 

Fyrirsögn á fótboltavefsíðunni 433.pressan.is.     

Athugasemd: Blaðamaðurinn sem skrifaði þessa fyrirsögn átti um tvennt að velja. Annars vegar að nota nafnorðið „val“ eða nafnorðið „kostur“. Þessi tvö orð merkja næstum því það sama, á þeim er þó blæbrigðamunur.

KSÍ gæti átt tíu kosta völ, það er valið um tíu þjálfara í stað Heimis. Hins vegar er alveg ómögulegt að steypa saman þessu tveimur orðum, útkoman er slæm, „valkostur“ er ljótt orð og það er órökrétt.

Eitthvað myndi nú íþróttablaðamaðurinn segja ef einhvern væri titlaður „sóknarframlínumaður“ í fótboltaliði. Sóknarmaður er sá sem sækir og á að skora, hann er venjulegast í framlínu liðsins. Tvítekningar á borð við þessa á auðvitað ekki að nota.

Í stað þess að nota „valkostur“ í fyrirsögninni hefði verið miklu betra að nota nafnorðið „þjálfarar“. 

Tillaga: Tíu kostir fyrir KSÍ hætti Heimir. 

2.

„Óðinn spilar handbolta í fyrirsögnum.“ 

Fyrirsögn bls. 2 íþróttablaði Morgunblaðsins 20. febrúar 2018.     

Athugasemd: Þessi fyrirsögn hún skilst ekki jafnvel meðal þeirra sem eru verulega vel að sér í handbolta. Verst er þó að blaðamennirnir sem skrifuðu fréttina skýra fyrirsögnina ekki í sjálfu meginmáli fréttarinnar.

Má vera að Óðinn þessi hafi átt skilið að fá nafn sitt í fyrirsögn í Mogganum vegna þess að markið hans réði úrslitum og það á síðustu sekúndu leiksins. Það réttlætir hins vegar ekki kjánalega fyrirsögn.

Tillaga: Óðinn skorði sigurmark FH á síðustu sekúndu leiksins.

3.

Brjáluð hjón kæra brúðkaupsljósmyndarann.“ 

Fyrirsögn á vísir.is.     

Athugasemd: Hjónin sem um ræðir í fréttinni voru reið út í ljósmyndarann vegna þess að hann tók lélegar myndir í brúðkaupinu. Þau voru sem sagt ekki trufluð á geði eins og ráða má af fyrirsögninni.

Fréttin er þýðing úr enskri vefsíðu. Þetta er ekki frétt, frásögnin hefur ekkert gildi og er einfaldlega ómerkileg. Tilgangurinn er að búa til uppfyllingarefni. 

Tillaga: Reið hjón kæra ljósmyndara vegna vinnusvika.

4.

Good Night er náttúrulegt svefnbætiefni sem hjálpar fólki að sofna og ná samfelldari svefni.“ 

Undirfyrirsögn í „Fólk kynningarblað„ Fréttablaðsins 20. febrúar 2018.     

Athugasemd: Í einni málsgrein, fjórtán orðum, tekst höfundi þrisvar sinnum að nota sama eða svipað orð. Þetta telst stagl, nástaða, sem síst af öllu er til eftirbreytni.

Svo er það nýyrðið „svefnbætiefni“. Dálítið skrýtið orð og ekki gegnsætt.

Tillaga: Reið hjón kæra ljósmyndara vegna vinnusvika.

5.

… og þurftum að sofa í ullarsokkum, buxum og rúllukragabol til að frjósa ekki bara. 

Úr forsíðugrein í Íþróttablaði Morgunblaðsins 24. febrúar 2018.    

Athugasemd: Blaðamenn hafa fulla heimild til að lagfæra orðalag viðmælenda, breyta kjánalegum talsmáta í þokkalegt ritmál. Auðvitað eru undantekningar frá þessu en almennt séð er það ekki hlutverk fjölmiðla að dreifa slæmu máli.

Þetta gerir sá sem skrifaði viðtalið á forsíðu Íþróttablaðs Moggans ekki. Þar af leiðandi endar málsgreinin á „bara“ sem er bara furðulegt.

… til að frjósa ekki bara.“ Hvernig er hægt að skrifa svona og birta? Atviksorðinu „bara“ er algjörlega ofauki, ekki aðeins í ritmáli heldur líka í talmáli. Það held ég nú ...

Tillaga: … og þurftum að sofa í ullarsokkum, buxum og rúllukragabol til að frjósa ekki.

6.

„Hvalaskoðunarfyrirtæki vill aðeins konu sem stöðvarstjóra: „Förum ekki í dulbúning með hvað við erum að leita að. 

Stríðsfyrirsögn á dv.is.     

Athugasemd: Enn skal ítrekað að blaðamaður hefur fulla heimild til að lagfæra orðalag viðmælanda síns, breyta kjánalegum talsmáta í skárra ritmál. 

Þetta orðalag „að fara í dulbúning með hvað við erum að leita að“ gengur alls ekki upp. Líklegast hefur viðmælandi ætlað að segja að hann fari ekki dult með ætlan sína. Má vera að hann hafi sagt rétt en blaðamaðurinn klúðrað, ekki skilið. Hins vegar ber blaðamanni að lagfæra orðalagið því það er rangt. Má þó vera að hann viti ekki betur sem er eiginlega verst.

Langar og klúðurslegar fyrirsagnir einkenna dv.is. Þar þekki enginn aðalfyrirsögn og undirfyrirsögn (eða yfirfyrirsögn). Hjá ritstjórninni skiptir mestu máli að vekja forvitni á borð við þessa, sem þó er skáldskapur en er lýsir fyrirsagnablætinu: 

„Ryksuga skilin eftir úti á götu og það sem gerðist næst er er veruleg óhugnanlegt meðal örvhentra karla í B blóðflokki undir þrítugu sem lokið hafa stúdentsprófi frá Laugarvatni fyrir 1996.“ 

Tillaga: Förum ekki dult með tilganginn.

7.

Konur tóku sér pláss á Eddunni. 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Blaðamaðurinn hefur eflaust ætlað sér að segja frá samstöðu kvenna á verðlaunahátíðinni Eddan. Honum mistekst hrapalega enda fyrirsögnin með endemum rislág. Halda mætti að fullt hús hafi verið á hátíðinni og konur hafi troðið sér þar sem pláss var að fá.

Blaðamaðurinn hefði átt að nota orðasambandið „að taka sér stöðu“, sem hann raunar gerir í meginmálinu. Óskiljanlegt að nota kjánalegt orðasamband sem gengur ekki upp. Slæmt hins vegar ekki notað sama orðasambandi tvisvar, það kallast nástaða. Þar af leiðandi þarf að koma því skýrt fram í fyrirsögn að konurnar hafi staðist fast á málflutningi sínum á hátíðinni. 

Tillaga: Konur fylltu sviðið á Eddunni og segja stopp.

8.

Heyrðu, þetta hefur nú bara gengið vel. 

Algengt svar í viðtölum í fjölmiðlum.      

Athugasemd: Þegar fréttamaður spyr hvernig gangi er algengt að viðmælendur svarið á þennan hátt: „Heyrðu?“ Og svo kemur spjallið“ 

Hvaðan kemur þessi upphrópun eða spurning „heyrðu“? Er verið að hvetja fyrirspyrjanda til að hlusta nú vel eða er ástæða til að halda að hann hlusti alls ekki.

Sannast sagna er svona orðalag með „heyrðu“ tómt rugl og vitleysa enda ekki í neinni tengingu við við svar. Þetta er nú álíka eins og að nota „sko“ eða „þannig“ í tíma og ótía.

Tillaga: Í sannleika sagt hefur bara allt gengið vel.

9.

Er ítalska mafían að fara koma til Íslands og slátra okkur? 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Tvær villur skera í augun og særa máltilfinninguna. Hið fyrra er að nafnháttarmerkið „að“ vantar með sögninni að koma. Fyrra nafnháttarmerkið dugar ekki fyrir báðar sagnirnar. Í talmáli getur orðasambandið „að fara að koma“ runnið saman og af þekkingarleysi skrifa sumir „að fara koma“ sem er auðvitað kolrangt.

Seinni villan og sú sem er sýnu alvarlegri er að nota nafnhátt þegar eðlilegra er að nota aðra tíð. Þetta telst barnamál, einföldun á tungumálinu sem oft er haft fyrir börnum. Stundum þroskast þau ekki upp úr þessari einföldun, yfirleitt vegna þess að þau eru ekki vanin við lestur. Þar af leiðir að þau safna ekki eðlilegum orðaforða sem bitnar á þeim sem leggja fyrir sig skriftir á fullorðinsárum.

Oft er sagt: „Ertu ekki að fara að koma?“. Dálítil þversögn í því fólgin að fara og koma á sama tíma. Þetta orðasamband hefur líklega unnið sér þegnrétt í málinu og lítið hægt að amast við því. Glöggur vinur minn snéri út úr fyrir mér og sagði „ég er að koma að fara“, og hló við.

Tillaga: Kemur ítalska mafían til Íslands og slátrar okkur?

10.

Fundu óvænt fald­ar mörgæsa­byggðir. 

Fyrirsögn á mbl.is.       

Athugasemd: Þetta er rangt vegna þess að enginn hafði falið svæði mörgæsanna. Blaðamaðurinn skortir orðaforða og hann finnur ekki viðeigandi lýsingarorð og fer því með vitleysu. „Óþekktar“ hefði alveg dugað, jafnvel „ókunnar“.

Yfirleitt er nafnorðið „byggð“ notað um þar sem fólk býr. Mjög sjaldgæft er að tala um byggðir fugla eða dýra, til dæmis gæsabyggðir eða hreindýrabyggðir. Þó er talað um lundabyggðir og þar af leiðandi ekki hægt að gagnrýna „mörgæsabyggð“.

Tillaga: Fundu óvænt ókunnar mörgæsabyggðir.


Er dregur úr skjálftum við Grímsey og byrja þeir annars staðar

180302 skjálftarSvo fór með jarðskjálftanna norðaustan við Grímsey og slagviðrið sunnanlands að þeir hjöðnuðu. Enda var ekki við öðru að búast. Öll él stytta upp um síðir, einnig rigningin í Reykjavík og jafnvel rokið undir Hafnarfjalli.

Hins vegar er það svolítið skrýtið að um leið og skjálftarnir byrjuðu við Grímsey dró úr skjálftum annars staðar. Reykjanes bærði varla á sér, tíðindalaust af Suðurlandi, Katla svaf vært, Öræfajökull róaði sig, Bárðarbunga gleymdi sér, Holuhraunsberggangurinn kyrrðist, Askja var í rólegheitum og kvikuhreyfingarnar undir Herðubreið hættu.

Svo gerist það er jarðskjálftunum við Grímsey linnir að lætin byrja annars staðar á landinu. Óróinn vex suður eftir rétt eins og kveikt er á raðtengdum ljósum, rétt eins og sjá má af kortinu sem fengið er af vef Veðurstofunnar.

Athygli vegur að norðvesturöxullinn í Vatnajökli er með fullri meðvitund, það er línan sem dregin er frá Öræfajökli um Grímsvötn, Bárðarbungu og allt í Tungnafellsjökul. Maður spyr sig hvort einhverra tíðinda sé að vænta þar fyrr en eitthvað gerist í Bláfjöllum.

Nú rekur lesandinn upp stór augu. Til að svala forvitni þá heldur hinn draumspaki og forspái félagi skrifara því fram að austan við Bláfjöll muni verða lítilsháttar eldgos áður en vetri lýkur og þar með skíðavertíð. Ég hef þó enga trú á þessu þar sem ekkert bendir til að umbrot séu þar í aðsigi.

Hins vegar er ég hvorki draumspakur né forspár og því er þetta ábyggilega tóm vitleysa. Á móti kemur að ég hef ekki hundsvit á jarðfræði. Allt er því opið eins og píratinn sagði þegar vaknaði á nefndarfundi Alþingis.


Skítlegt eðli Loga Einarssonar alþingismanns

Þar sem hæstvirtur fjármálaráðherra er nú orðinn býsna þekktur af því að fela gögn og stinga skýrslum undir stól, af hverju ætti þjóðin virkilega að trúa því að hæstvirtur fjármálaráðherra og fyrrum forsætisráðherra hafi ekki vitað neitt um málið. Ég spyr, herra forseti, er þetta enn eitt dæmið um leyndarhyggju Sjálfstæðisflokksins?

Þetta segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á fundi Alþingis um vopnaflutningamál flugfélagsins Air Atlanta. Greinilegri vitnisburð um skítlegt eðli er vart hægt að hugsa sér.

Nú tíðkast á sjálfu Alþingi að góða fólkið ráðist á samstarfsfólk sitt með margvíslegum ásökunum og jafnvel skítkasti þess á milli sem það sjálft segist vera algjör andstæða, allir aðrir eru vondir.

Logi Einarsson lætur að því liggja að flutningar Air Atlanta séu dæmi um „leyndarhyggju Sjálfstæðisflokksins“. Engu að síður er uppi röstuddur grunur um að maðurinn viti ekkert um flutninganna og vart um hvað hann er að tala.

Í hinu skítlega eðli Loga felst að hann reynir að tengja Bjarna Benediktsson við málið vegna þess að þetta gæti verið rétt. Hann hefur engar nánari upplýsingar, engar ítarlegri fréttir og því grípur hann til þess ráðs að segja að þetta geti verið rétt. Með öðrum orðum, Logi skrökvar, býr til sögur, falsfrétt.

Svona er nú komið fyrir Alþingi að bilað fólk hefur komist þar inn og notar aðstöðu sína til að útvarpa órökstuddum fullyrðingum um pólitíska andstæðinga. Rök skipta ekki lengur máli heldur nægir það sem getur verið satt. Um leið þverr virðing Alþingis. 


Hverjum er ekki sama um þennan Gunnar Smára?

Gunnar smári í VísiHæ, þetta er Gunnar Smári Egilsson, aðalsósíalisti Íslands. Ég þarf að tjá mig dálítið um lista Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna í vor. Ætlar þú að skrifa niður það ég segi eða hentar ykkur betur að taka það sem ég skrifa á Facebook?

Einhvern veginn byrjar samtal þessa nafngreinda manns við blaðamann á Fréttablaðinu, visir.is, dv.is, pressan.is eða eyjan.is. Og allir á þessum miðlum bugta sig og beygja og skrifa samviskusamlega það sem Gunnar Smári hefur að segja. Þessu næst er búin til fyrirsögn, skrifin kölluð frétt og birt á vefnum eða í blaðinu.

Hver er svo þessi Gunnar Smári Egilsson? Ég hef ekki hugmynd um það, sé hins vegar að hann hefur greiðan aðgang inn í ofangreinda miðla, skiptir engu hvað hann hefur að segja eða hvort eitthvað sé varið í það. Yfirleitt segir hann ekkert af viti.

Hið eins sem ég veit er að hann er uppgjafarkapítalisti. Efnaðist mikið á störfum sínum fyrir Baugsveldið, hann á mikið fé, hús í Skerjafirði sem er til sölu á annað hundrað milljónir króna. Ég hef einnig lesið að hann hefur farið á hausinn með útgáfufyrirtæki og fjöldi fólks stórtapað á viðskiptum við manninn og einnig hafa launþegar hrakist frá gjaldþrotum fyrirtækja í eigu hans.

Ef ég myndi hringja í fjölmiðla og segjast vilja tjá mig um mál líðandi stundar myndu sömu fréttamenn og beygðu sig í duftið fyrir Gunnari Smára hreinlega hlægja að mér og vísa mér til fjandans (og þá kann vel að vera að ég hitti þennan Gunnar Smára).

Jakob Bjarnar heitir „blaðamaður“ á visir.is og Fréttablaðinu. Hann skrifar „fréttir“ þann hátt sem „virkir í athugasemdum“ skrifa í athugasemdadálka lélegu miðlanna. Hann skrifar ekki fréttir heldur tjáir sig frá eigin brjósti og kemst upp með það. Hann bugtar sig ekki fyrir Gunnari Smára Egilssyni, nei nei. Hann leggst flatur fyrir honum. Meiri aumingjaskapur þekkist vart í blaðamennsku hér á landi.

Myndinn sýnir „frétt“ á visir.is sem Gunnar Smári Egilsson pantaði og Jakob Bjarnar, „blaðamaður“ framreiddi samkvæmt forskrift hins fyrrnefnda á Facebook. Í sannleika sagt er ekkert vit í Gunnari Smára, nema hvað að fyrirsögnin er skemmtileg. Hið eina sem maðurinn hefur úr á borgarstjórnarlista Sjálfstæðisflokksins að setja er aldursmunur á frambjóðendum, ofgnótt af konum eða skortur. Það telur Jakob Bjarnar vera frétt.

Furðuleg þetta allt með Gunnar Smára og hvernig hann nær að troða sér inn í flesta fjölmiðla og jafnvel umræðuþætti. Hversu oft hefur hann ekki sést í Silfri Ríkisútvarpsins?

Hvað kemur Gunnar Smári okkur almenning við? Rétt'upp hönd sem vill tjá sig um hann ...

 


Mælar á Sprengisandi nema óróann við Grímsey

GrímseyFyrir leikmann er sú staðreynd einna merkilegust að áhrifa skjálftanna norðaustan við Grímsey gætir allt suður að Vatnajökli og jafnvel sunnar.

Stórmerkilegt er að óróamælar á Skrokköldu á miðjum Sprengisandi nema óhljóðin í misgengjum við Grímsey.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá hefur Veðurstofa Íslands hefur sett upp tæki víða um land til að mæla hljóð sem koma úr jarðskorpunni en þau eru á tíðni sem mannlegt eyra getur ekki greint.

Hljóðin eru nefnd órói og er mæld í mælieiningunni Hz (Hertz). Óróinn verður til þegar til dæmis kvika þrengir sér upp í gegnum jarðskorpuna eða þegar jarðskjálftar verða og jafnvel kunna að vera fleiri ástæður.

SkrokkaldaBlái liturinn sýnir mjög lága tíðni og getur myndast vegna rennslis kviku.

Þessi hljóð berast hratt og mælast víða. Efsta myndin er frá óróamælunum í Grímsey. Samkvæmt þeim byrja skjálftarnir þann 14. febrúar og halda áfram fram á þennan dag. Ljóst er þó að úr óhljóðunum dregur enda fækkar skjálftunum.

Næsta mynd er af óróamælingunum við Skrokköldu á Sprengisandi. Mælingarnar eru nákvæmlega þær sömu og í Grímsey að því undanskildu að tíðnin er lægri, eflaust vegna fjarlægðar.

SvartárkotNæsta mynd er af óróanum sem mælarnir við Svartárkot í Bárðardal námu. Teikningin er því sem næst hin sama og á hinum tveimur.

Fleiri myndir úr óróamælum mætti birta en án efa eru jarðeðlisfræðingar mun betri að greina óróann en fávís leikmaður. Hitt er þó víst að jarðskjálftahrinan við Grímsey mælist víða. Þá hlýtur leikmaðurinn að velta því fyrir sér hvort skjálftarnir norðaustan við Grímsey geti raskað jafnvægi í sprungum fjarri upptökunum og jafnvel valdið kvikuhreyfingum.

Er til dæmis mögulegt að Kröflueldar taki að bæra á sér á ný eða aftur verði gos í Holuhrauni vegna þess að sjávarbotninn skelfur eitthundrað til tvöhundruð km í burtu?

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband