Ástæða til að hrósa dv.is fyrir að hafa séð að sér

dvNokkrum sinnum hef ég gert hér athugasemdir við málfar á fréttamiðlinum dv.is. Ritstjórnin má taka sig verulega á hvað varðar prófarkalestur.

Verst er þó útlitið á vefmiðlunum eftir að ný vefsíða var tekin í notkun. Þá voru allar fréttir tímasettar og sagt að þær hafi verið birtar fyrir tilteknum mínútum eða klukkustundum „síðan“.

Um þetta var fjallað hér í þessum pistli. Þar er sagt:

Þegar tengt er við tíma er einfaldalega sagt: Hann kom fyrir löngu. Algjör ofrausn er að bæta við atviksorðinu „síðan“, það hjálpar ekkert. Allir með þokkalegan skilning á íslensku vita að verið er að tala um liðna tíð.

Nú hefur einhver með viti bent ritstjórn dv.is að það er einfaldlega rangt að skrifa með frétt að hún hafi birst „fyrir klukkutíma síðan“. 

Ritstjórnin hefur nú séð að sér og lagt af þennan ljóta ósið. Það var líklega eins gott því ég var ákveðinn í að stefna fjölmiðlinum fyrir ranga notkun á íslensku. 

Ég ræddi við kunningja minn sem er lögfræðingur og skýrði málið út fyrir honum. Hann skildi mig þokkalega  en hló samt að mér og sagði slíkan málarekstur algjörlega vonlausan.

Hvað á eiginlega að gera þegar fjölmiðlar sýna lesendum sínum þá óvirðingu að bera fram fyrir þá illa skrifaðar fréttir? Veitingastaður gæti ekki borið fram skemmda rétti. Íslenska innanlandsflugfélagið sem áður hét Flugfélag Íslands, og ber nú langt og óþjált enskt nafn, myndi ekki komast upp með að bjóða upp á óstundvísi, léleg sæti eða jafnvel bilanagjarnar flugvélar. Strætó þarf að halda tímaáætlun um bjóða upp á þrifalega vagna fyrir hunda, menn og reiðhjól.

Þegar öllu er á botninn hvolft er nú ástæða til að hrósa ritstjórn dv.is í hástert fyrir að hafa séð að sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband