Hækkun skatta á bensín er tilræði við landsmenn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir hækkun kolefnisgjalds sé stefnumörkun ríkisstjórnarinnar til að draga úr losun koltvísýrings. Markmiðið sé að fá fólk til að draga úr notkun bensínknúinna ökutækja. 

Þetta er ein sú vitlausasta yfirlýsing sem ráðherra hefur látið sér um munn fara. Og hann er í ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn tekur þátt í. Og ég er í Sjálfstæðisflokknum og hlýt því að mótmæla hækkun á bensíni. 

Við búum í stóru landi. Hækkun á bensíni er landsbyggðaskattur. Ekki nóg með það með henni er verið að draga úr ferðalögum fólks um landið.

Hvernig í ósköpunum á maður að komast leiðar sinnar um landið öðru vísi en á bensínknúnum bíl eða dísil? Ég kemst ekki inn í Þórsmörk á rafdrifnum bíl, ekki heldur upp á Sprengisand, Kjöl, Fjallabak eða á jökla (eru til rafdrifnir vélsleðar?). Eða ætlar umhverfisráðherra að senda hjálparsveit mér til aðstoðar þegar rafmagnið þrýtur? Ekki einu sinni björgunarsveitir nota rafdrifna bíla.

Þessi stefna umhverfisráðherra má kalla „dagsisma“, kennd við borgarstjórann í Reykjavík sem gerir allt hvað hann getur til að tefja umferð bíla um borgina svo þeir druslist nú í strætó. Borgarbúar láta sem ekkert sé og ætla sér að endurkjósa þennan mann.

Hagkvæmustu bílarnir hafa hingað til verið díselbílar. Nú eru þeir orðnir óvinsælir því sótið úr þeim er stórhættulegt. Þá kaupir maður sér bensínjeppa. Rándýran andskota sem eyðir ótrúlega miklu bensíni og nú hefur umhverfisráðherra hækkað verðið til að minnka mengun.

Gott fólk. Er ekki kominn tími til að endurskoða þetta allt saman? Hvað þyrfti ég að gróðursetja mörg tré til að vega á móti akstri díseljeppa á einu ári? Ég skal gróðursetja tvöfalt fleiri tré, jafnvel þrefalt. Ástæðan er einfaldlega sú að ég vil frekar verja (ekki eyða) peningum í skógrækt en borga hærra verð fyrir eldsneyti. Ég treysti einfaldlega ekki ríkinu með sínar gráðugu krumlur sem læðist ofan í veski almennings.

Þar að auki ætlar umhverfisráðherra ekki að gera neitt með þessa hækkun á bensíni, hún gengur bara inn í ríkishítina. Engin skógrækt, hvergi mokað ofan í framræsluskurði í mýrum. Engar mótvægisaðgerðir, bara hækkun hækkunarinnar vegna.

Og hvað í fjandanum er Sjálfstæðisflokkurinn að gera í ríkisstjórn sem hækkar bensín til að draga úr eldsneytiseyðslu bíla. Er ætlunin að einangra fólk úti á landi? Víða er það þannig að aka þarf langar leiðir til að fá heilbrigðisþjónustu, matvæli og aðrar nauðþurftir. Á fólk ekki að eiga þess kost að skreppa bæjarleið til að hitta vini, vandamenn eða bara fara í ríkið? Nei, það á að draga úr eldsneytiseyðslu. Ágætu vinir mínir á Skagaströnd, þið eigi helst að fara gangandi inn á Blönduós ef þið þurfið að fara til tannlæknis, á fund, fótboltaleik eða í ríkið. Verði ykkur og öðrum á landsbyggðunum að góðu með kveðju frá umhverfisráðherranum.

Gumað er að því að rafmagnið sé komið til að leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi. Þetta er auðvitað tóm della. Yfirfærslan tekur lengri tíma en eitt eða tvö ár. Líklega tekur hún heila kynslóð.

Finnst þér ekki mikið rugl, ágæti lesandi, að á meðan skuli ríkisstjórnin með umhverfisráðherrann í broddi fylkingar (mann sem er ekki einu sinni með bílpróf) reyna að trufla daglegt líf almennings? Hvers konar dallumakerí er að gerjast í ríkisstjórninni?

Má vera að það sé svona sem stjórnmálaflokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn fjarlægist stuðningsmann sinn, svo gripið sé til klisjunnar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Þessar hækkanir eru galnar. Ekki gleyma því heldur, að samhliða hækka húsnæðislánin hjá okkur. Allt sem heitir lækkun á launaskatti hverfur í með þessum auknu álögum og jafnvel rúmlega það. 

 Ekki eykst traust mitt á forystu Sjálfstæðisflokksins með þessu og telst ég þó gallharður sjálfstæðismaður.  Stórt ffffrrrrussss.... á þetta!

 Þakka góðan pistil.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.4.2018 kl. 14:30

2 Smámynd: Emil Þór Emilsson

Þetta er frekar pirrandi, bensínið er orðið hið nýja áfengi, endalaust hægt að hækka þetta. Hvað varð um gamla mottóið, "Báknið burt" , sjálfstæðismenn þurfa að fara að rifja það upp

Emil Þór Emilsson, 7.4.2018 kl. 19:37

3 identicon

Það er áhyggjuefni að fólk sem ekki virðist átta sig á eða hafa skilning á aðstæðum utan höfuðborgarsvæðisins skuli komast upp með svo íþyngjandi ákvarðanir fyrir þá sem eiga ekki annarra raunhæfra kosta völ.

Á meðan ekki er hægt að aka rafknúnum bílum um lengri veg öðruvísi en að ferðalagið lengist umtalsvert (á meðan beðið er eftir hleðslu) er óhjákvæmilegt að nota jarðefnaeldsneyti.  Auðvitað væri betra að þurfa ekki að sækja alls kyns þjónustu svo langt, sú samþjöppun hefur þó verið markviss í seinni tíð í nafni hagkvæmni (þeirra sem þjónustuna veita, ekki þeirra sem hana nota).

Það er allra góðra gjalda vert að hvetja til notkunar hreinni orkugjafa, hins vegar gengur ekki að hegna þeim sem geta ekki nýtt sér þá til fulls - jafnvel þótt þeir gjarnan vildu.

TJ (IP-tala skráð) 7.4.2018 kl. 23:39

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Amen á eftir efninu, TJ.

Halldór Egill Guðnason, 8.4.2018 kl. 02:18

5 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll síðuhöfundur.

Ég spyr mig einnig að þessari spurningu og hún verður áleitnari með hverjum deginum:

Og hvað í fjandanum er Sjálfstæðisflokkurinn að gera í ríkisstjórn sem hækkar bensín til að draga úr eldsneytiseyðslu bíla.

Sindri Karl Sigurðsson, 8.4.2018 kl. 14:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband