Ólík nálgun innanríkisráðherra og lagaprófessors

Ólíkt hafast menn að. Innanríkisráðherrann lýsir því yfir í Morgunblaðinu í dag að hann hafi gert mistök og ekki hafi átt að draga Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, einan fyrir Landsdóm. Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, ritar einnig grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann fer málefnalega yfir grundvöll kærunnar og kemst að þeirri niðurstöðu að kæran á hendur Geir fyrir landsdómi sé ekki trúverðug, vikið hafi verið frá mikilvægum reglum um höfðun sakamála.

Þó báðir virðist á sama máli um að draga beri kæruna til baka er mikill munur á rökfærslu þessara tveggja manna. Annar er pólitíkus og veður á súðum, kjaftar um allt sem honum dettur í hug í einhvers konar söguskýringum sem þó halda ekki vatni. Hinn er fræðimaður, nálgast umræðuefni á akademískan hátt, er rólegur í frásögn sinni, setur fram rök og dregur ályktanir og er sannfærandi.

Auðvitað er það afar leitt að vel skynsamur maður eins og innaríkisráðherra vissulega er skuli ekki kunna rökræðuna betur en hann gerir. Fyrir því eru auðvitað margvíslegar ástæður sem eiga rætur sínar að rekja í pólitískum uppruna.  

Þó ég sé fyllilega sammála ráðherranum um að rétt sé að hætta við ákæruna þá er afskaplega margt í blaðagreininni sem orkar tvímælis og margt tel ég beinlínis rangt. Að auki hefði hún mátt vera helmingi styttri en að móti kemur sú staðreynd að greinin er öðrum þræði málvörn gegn samherjum sem hann vissi að myndu missa stjórn á sér vegna afstöðu hans.

Ég er til dæmis ekki á því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hafi í öllu verið jafn góð og margir vilja vera láta. Siðfræðihluti skýrslunnar er til dæmis ekki arfaslakur. Höfundar eru taka þar beinlínis pólitíska stöðu sem bitnar á Sjálfstæðisflokknum og frjálslyndum stjórnmálaviðhorfum. Skýrslan sú skýrir fátt.

Ögmundur heldur því fram að veðsetning kvótans marki upphaf útrásarævintýrisins sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi kynnt undir. Þetta er beinlínis rangt. Með þessu er Ögmundur einfaldlega að lýsa því yfir að Íslendingar geti ekki rekið skammlaust sinnt fyrirtækjarekstri nema hann sé undir stjórn ríkisins. Þarna skilur mikið að í viðhorfi. Veðsetningin er einfaldlega hluti af rekstrargrundvelli útgerðarinnar.

Menn þekkjast af orðtaki þeirra, ekki síst ef þeir segjast vera alþýðumenn, sósíalistar. Frasamenningin getur hins vegar leitt mann í ógöngur. Ögmundi virðist sem að „fjármálakerfið“ sé orðin einhvers konar afl í þjóðfélaginu sem lúti einni stjórn og einum vilja og það helst glæpsamlegum. Hann virðir að vettugi þá staðreynd að Ríkisendurskoðun hefur farið ofan í saumanna á einkavæðingum helstu fyrirtækja í eigu ríkisins og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir einhverja annmarka hafi hún farið mjög eðlilega fram. Þrátt fyrir það hefur Ögmundur og liðið í kringum hann og Samfylkinguna reynt að gera einkavæðinguna tortryggilega. Raunar hefur markmiðið hans verið að því lengra sem líður frá einkavæðingartímanum því glæpsamlegra á hann að hafa verið. 

Hafi Ögmundur ekki trú á samlöndum sínum til að eiga og reka símafyrirtæki, mjölvinnslufyrirtæki, banka og annað þá á hann bara að segja það hreint út. Staðreyndin er hins vegar sú að Ögmundur er uppalinn sem kommi, vinstrimaður, sem bregst ekki uppruna sínum. Hann og aðrir slíkir munu aldrei samþykkja að einkaaðilar hafi með höndum nokkurn rekstur. Helst af öllu vildi hann að ríkið sæi um sölu mjólkur í sérstökum mjólkurbúðum, setjarar væru enn í prentun, ríkið sæi um útvarpsrekstur ... Æ, fyrirgefið. Þannig er það víst enn í dag en sem betur fer er ríkið ekki eitt á þeim markaði þó það gíni yfir honum öllum.

Fyrir hrun mátti ekki styggja á nokkurn hátt bankanna sem höfðu verið einkavæddir. Enginn vissi hvað þar var að gerast innandyra. Þeir hótuðu að yfirgefa landið væri snert við þeim á einhvern hátt og pólitískir varðhundar og fjölmiðlar í pólitískum leik pössuðu upp á bankamenn og útrásarvíkinga.

Þrátt fyrir allt get ég tekið undir með Ögmundi í niðurlagsorðum hans: „Ef einblínt er á sekt einstakra manna er líklegt að við missum sjónar á flóknu samspili einstaklingsathafna við félagslega, menningarlega og efnahagslega þætti og að við förum á mis við þá lærdóma sem draga þarf af svo miklum atburðum.

Hins vegar má aldrei láta einskæra pólitík leiða dómsvaldið í landinu. Þá er gott að hafa fyrirmynd í nálgun Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors sem getið var í upphafi. Hún leiðir okkur nær málavöxtum en pólitískar upphrópanir sem Ögmundur freistast til að grípa til. Þær skila engu. 


Þingmaður kallar ráðherra sinn sótraft

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG, kallar samflokksmann sinn, Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, sótraft. Og hvað þýðir það orð. Tja ... þetta er ekki beinlínis gæluorð, gæti merkt það sama og lúsablesi eða sá sem ekki er dugandi.

Hitnar þannig ærlega í kolum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs af því einu að sumum þykir ósanngjarnt að draga fyrrverandi ráðherra fyrir Landsdóm. Um leið var búið að falsa bókhaldið og ráðherrar Samfylkingarinnar undanskildir allri ábyrgð.

En mikið skelfingar ósköp er nú leiðinlegt að sjá virðulega þingmenn missa gjörsamlega stjórn á sér í þessu máli. Uppnefni og heiftarorð hjálpa engum málstað ekki frekar en einelti og ódrengskapur. Ljóst er að engin eining er með pólitíska árás á Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, mælir vel í grein sinni í Mogganum í morgun. Hann segir þar meðal annars:

Mistökin sem ég kalla svo, voru þau að stöðva ekki atkvæðagreiðsluna, þegar sýnt var að hún var að taka á sig afskræmda flokkspólitíska mynd, og gefa þingmönnum ráðrúm til að íhuga málið nánar. Mér segir svo hugur að við þá íhugun hefðu margir sem greiddu atkvæði með málsókn kosið að láta eitt yfir alla ganga í stað þess að setja alla ábyrgðina á herðar eins manns. Þar tala ég fyrir sjálfan mig.

Að öðru leiti vil ég taka það fram að margt vitlaust er í þessari grein Ögmunar. Kannski að ég komi að því í nýjum pistli síðar í dag.

 


mbl.is Árni Þór: „Flestir sótraftar á sjó dregnir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í áhrifastöðu verður kjáninn ekki lengur kjáni

Kjáni er bara kjáni hvort sem hann er verkamaður, skrifstofumaður eða skrifar þennan pistil. Ýmsir finna svo mikið til sín þegar þeir komast í áhrifastöður að það flögrar að þeim að þeir séu ekki lengur kjánar, hafi þvert á móti höndlað sannleikann. Ég er án efa kjáni en hef því miður aldrei komist í áhrifastöðu til að sannreyna kenninguna. Hún er sem sagt ósönnuð, flokkast því sem tilgáta.

Jæja. Í dag las ég frétt á visir.is. Fyrirsögnin er þessi: „Falskt eftirlit verra en ekkert -  brimsalt bjúga í skólamötuneytinu“. Vissulega er þetta löng fyrirsögn og hefur freisting blaðamannsins verið slík að hann gat ekki gert það upp við sig hvort hann ætti að hafa einfalda eða tvöfalda kynningu í fyrirsögn. Í greininni er vitnað til bloggs Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar. „Þar lýsir hún yfir áhyggjum vegna lélegs eftirlits eftirlitsstofnanna ...“. Og svo segir í fréttinni:

Margrét segir málið vægast sagt sérkennilegt og bendir á að einstaklingar myndu ekki nota iðnaðarsalt til matreiðslu heima hjá sér. „Maður reynir að hafa hollan mat heima. En svo fara börnin manns í skólann þar sem þau borða í mötuneytinu. Og þar er stundum brimsalt bjúga í boði," segir Margrét og bætir við að það sé hrollvekjandi að hugsa til þess hversu lengi saltið hefur verið notað til matvælaframleiðslu.

Nú er það svo að salt er salt. Mér skilst að ekki sé til veikt salt né sterkt salt, allt er þetta sama mölin. Eftir því sem ég bes veit er eiginlega enginn munur á iðnaðarsalti og matarsalti. Það sem skilur á milli er meðhöndlun matarsaltsins sem þarf að uppfylla ýmis skilyrði eins og aðrar vörur til manneldis.

Birmsalta bjúgað í sögu Margrétar þingmanns er því ekki hægt að rekja til iðnaðarsaltsins heldur til bjúgugerðarmannsins sem líklega hefur kastað til höndunum við framleiðsluna.

Í biblíunni er haft eftir Jésú: „Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar með hverju á að selta það? Það er þá til enskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.

Líklega má halda því fram að rangt sé hér haft eftir frelsaranum eða þá að hann noti þessi orð í yfirfærðri merkingu og eigi við mannfólkið. Ég ætla ekki að hætta mér út í túlkunina, nóg er þó sagt.

En ekki misskilja mig. Hér hef ég ekki kallað Margréti þingmann kjána. Heiður hennar er hins vegar sá að vera með sjálfum Jésú umræðuefni í litlum pistli.

Hins vegar má deila um þetta með falska eftirlitið sem Margrét þessi gerir að umtalsefni. Dreg stórlega í efa að falskt eftirlit sé verra en ekkert ... Þetta er svona leiðinda frasi sem gengur um í ræðum og ritmáli eins og afturganga en er gjörsamlega merkingarlaust nema einhver rökstuðningur fylgi.

En mikið óskaplega öfunda ég fólk eins og Margréti fyrir að vera í áhrifastöðu og vita þar af leiðandi allt ... 


Fjármálaeftirlitið lætur „doubltékka“ niðurstöðuna

Stjórn Fjármálaeftirlitsins tekur ávirðingum að forstjóra stofnunarinnar föstum tökum. Það ber að virða. Stjórnin ætlar ekki að eftirláta götunni að leiða umræðuna né heldur að leyfa getgátur og persónulegt skítkast á grunni skýrslu sem hugsanlega má draga í efa. Útfrá sjónarmiði almannatengsla er hér rétt unnið.

Tveim aðilum, öðrum lögfræðingi, hinum löggiltum endurskoðanda, eiga að skoða niðurstöðu Andra Árnasonar, „dobletékka“ þær eins og það er kallað.

Eflaust verður niðurstaðan á sama veg og hjá Andra og nær hún til að hreinsa forstjórann af öllum grun um eitthvað misjafnt. Vonandi dugar það til að þessi stofnun geti unnið eins og henni ber að gera í nánustu framtíð. 


mbl.is Endanleg ábyrgð hjá stjórn FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hefur breyst hjá borginni?

Til hvers að sanda flughálar götur og salta hinar? Hvað sagði ekki embættismaður borgarinnar með langa starfsheitið í viðtali við DV um daginn: 

„Þó að við hefðum byrjað eldsnemma um morguninn að sanda allar þessar götur, þá hefðum við aldrei verið búnir að því fyrr en um miðjan dag,“ segir Hrólfur.

Hvað hefur breytst? Og hvað sagði ekki  borgarstjórinn? Hmm ... eiginlega ekki neitt. Man nokkur eftir einhverju af viti sem maðurin hefur látið eftir sér hafa um snjómokstur og hreinsun gatna? Í Kastljósi sópaði hann borðið, kannski gildir það eitthvað.


mbl.is Byrjað að sanda í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Opna stjórnsýsla ríkisstjórnarinnar er öfugmæli

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir opinni stjórnsýslu, auknu gagnsæi og lýðræðisumbótum.“ Svo segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í upphafi ferils hennar. 

Morgunblaðið óskaði þann 21. febrúar 2011 eftir upplýsingum um kostnað vegna Icesve saminganefndar Lee C. Bucheit. Fjármálaráðuneytið leyndi þessum upplýsingum vegna þess að það taldi að upplýsingarnar hefðu áhrif á niðurstöður kosninganna um Icesave III þann 9. apríl í fyrra. Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, tók greinilega þá ákvörðun að afhenda ekki Mogganum þessar upplýsingar. 

Það þurfti ákvörðun Úrskurðarnefndar um upplýsingamál þann 29. desember síðast liðinn til að Mogginn fengi gögnin og þau bárust blaðinu loks í gær.

Allur þessi ferill er rakinn í Morgunblaðinu í morgun. Svona er nú hin opna stjórnsýsla og aukið gagnsæi í augum norrænu velferðarstjórarinnar. Er hún ekki bara orðin tóm, öfugmæli?


Trúnaður brostinn í Seðlabankanum?

Undarlegasta fréttin í Mogganum í morgun er án efa sú að Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, hefur höfðað mál mál vegna launakjara sinna. Hann telur sig eiga skilið hærri laun enda samdi hann um þau við fomann bankaráðsins.

Í millitíðinni gerist það að Kjararáð ákveður að laun hans skuli lækkuð um þrjúhundruð þúsund krónur. Úrksurðurinn var í samræmi við þá vitlausu hysteríu að enginn mætti nú  vera með hærri en þau sem forsætisráðherra fær. Auvitað er þetta bara bull því fjöldinn allur af starfsmönnum ríkisins hefur hærri laun vegna þess eins að þeir vinna meira. Nefna má lækna.

En Már fer í mál við Seðlabankann og krefst efnda. Eitthvað myndi nú ganga á ef við venjulegir launaþrælar myndum gera slíkt við okkar vinnuveitendur, hver í sínu lagi. Hversu réttmætt sem slík málsókn er má velta því fyrir sér hvar trúnaður viðkomandi liggur. Vinnuveitandinn er án efa ekki í vafa og sömuleiðis er launþeginn illur. Fyrir vikið hefur myndast trúnaðarbrestur milli aðila.

Og nú velta menn því fyrir sér hvort trúnaður hafi brostið milli aðila í Seðlabankanum. Getur seðlabankastjóri unnið með bankaráðinu eftir málaferlin og allir látið eins og ekkert hafi í skorist? Hafa yfirráðherrar ríkisstjórnarinnar traust á Má eftir málaferlin? Eða mun Már segja starfi sínu lausu fái hann ekki sínu framgengt í dómsmáli? Ég hef ekki nokkra trú á því að hér sé í friðsemd verið að kanna stöðuna. Menn geta bara ímyndað sér hvað hefur gengið á áður en Már grípur til þess sem sannarlega er óyndisúrræði að stefna Seðlabankanum.

Hér er kominn efni í skemmtilegan farsa þar sem allir geta látið vaða. Hins vegar er ég á þeirri skoðun að samningur sé samningur og að minnsta kosti er móralskt ekki hægt að víkjast undan honum og skiptir engu hvað konan í stjórnarráðinu er með í mánaðarlaun.


Kjánahrollurinn vex

„Talar ekki illa um annað fólk,“ segir Jón G. Kristinsson, borgarstjóri, um árangur sinn og flokks síns eftir nær tveggja ára valdatíð. Og borgarbúar fyllast kjánahrolli þegar hann birtist á skjánum, enn og aftur án nokkurrar þekkingar á þeim málum sem hann á að kunna skil á í krafti embættis síns. Getur þetta gengið svona miklu lengur?
mbl.is „Þetta var ófremdarástand“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pappír er úrelt form

Pappír er einfaldlega úrelt form fyrir dagblöð. Það get ég fullyrt eftir sex ára rafræna áskrift að Morgunblaðinu. Ég fæ Moggann minn á hverjum morgni eða hvenær sem ég óska, hvar sem ég er staddur í heiminum.

Veður skiptir engu máli, ófærð ekki heldur. Ég les Moggann eins og ekkert hafi í skorist jafnvel þótt nágrannar mínir hafi ekki fengið hann.

Sumum kann að þykja það óþægileg tilhugsun að lesa blað eða bók í tölvu, fartölvu eða iPad. Það venst og venst afskaplega vel. Ekki við ég skipta, raunar finnst mér núorðið sú tilhugsun að lesa dagblað prentað á pappír frekar leiðinleg.

Svo er Mogginn ódýrari í rafrænu formi en pappírs.


mbl.is Dreifingu Morgunblaðsins seinkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skammgóður vermir

Bráðfyndið þegar nýr fjármálaráðherra tekur við og honum aðeins gert að vera í starfi í sjö mánuði eða þar til sá sem starfið er eyrnamerkt kemst í það.

Höfund Staksteina í Morgunblaðinu ratast oft satt á munn. Hann talar um konuna sem vermir sæti fjármálaráðherra þar til hin konan sér sér fært að koma. Og sú sem vermir sætið er því eðlilega skammgóður vermir. Ekkert meiðandi, enginn skaðast, aðeins hrein og klár íslenska.

Fæstir kulvísir pissa í skóinn sinn enda löngum á almanna vitorði að það er skammgóður vermir að pissa í hann ...


Frekar svona slöpp frétt ...

Hvergi eru ekið yfir Skógaá nema á vaðinu uppi á Skógaheiði á leið upp á Fimmvörðuháls. Þarna er ekki mikil hætta á gróðurskemmdum, ekki frekar en oní Skógaá, eins og segir í fréttinni. Á þessum slóðum hverfur slóðin undir snjó um leið og vetrar. Freistast þá margir að aka utanvegar.

Annars skil ég fréttina illa. Ekki er greint frá neinni staðsetningu nema hvað að getið erum ánna. Hún er þó ansi löng, líklega einir fjörtíu kílómetrar eða meira. Og enn einu sinni nennir Mogginn ekki að skoða landakortið og afla fyllri upplýsinga. Hvers vegna er þá verið að birta svona frétt?


mbl.is Staðinn að utanvegaakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sparnaður mikilvægari en öryggi borgarbúa?

Á dv.is er viðtal við Hrólf Jónsson, sviðsstjóra, framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Ástæðan er sú staðreynd að borgin ákvað að bera hvorki salt né sand á götur um helgina þrátt fyrir gríðarlega hálku. í lok viðtalsins er haft eftir Hrólfi í ræðu:

„Þó að við hefðum byrjað eldsnemma um morguninn að sanda allar þessar götur, þá hefðum við aldrei verið búnir að því fyrr en um miðjan dag,“ segir Hrólfur.

Hann segir að það hefði þurft sextíu vinnuvélar til þess að klára að hálkuverja göturnar í Reykjavík skömmum tíma. „Það er uppsett afl sem þyrfti fáa daga ársins. Hvað ætti að gera við tækin restina af árinu,“ spyr Hrólfur.  

Hér á Hrólfur líklega við að tæki til að bera á göturnar séu svo sérhæfð að það sé óraunhæft að borgin eigi slík fyrir aðeins nokkra daga á ári. Þetta hef ég aldrei heyrt. Hér áður fyrr var sandi ausið á götur borgarinnar, fyrst og fremst miðað við aðalleiðir og síðan strætisvagnaleiðir og þessu næst aðrar götur. Auðvitað fylgir sandaustri mikil vandamál og ekki síður af saltdreifingu. Við höfum hins vegar lifað þetta af hingað til.

Aðalatriði málsins er fyrst og fremst að borgarbúar komist leiðar sinnar, ekki síður gangandi vegfarendur en akandi. Borgin má ekki láta það henda að starfsmönnum hennar sé haldið heima þegar ástandið er svona. Sú viðbára að vinnuvélarnar séu einhver fyrirstaða er marklaus því fjöldi verktaka hefðu áreiðanlega getað sinnt þessu. Raunar er staðan sú að fjöldi þeirra bíður eftir verkefnum á borð við þetta.

Hins vegar læðist sú hugsun að manni að hér sé um að ræða sparnaðaraðgerð. Borgin hafi af fjárhagsástæðum ekki séð sér fært að halda úti mannskap og vélum um helgina. Sé þetta rétt þá er um háalvarlegt mál að ræða og mikla ávirðingu á stjórnendur borgarinnar og þá sérstaklega borgarstjóra. Hvers konar borgarstjórnarmeirihluti lætur fjármál skipta meiru en öryggi borgarbúa.


Land hefur risið við Hornafjörð

Í dag eru 100 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings. Ekki þekkti ég manninn neitt persónulega en átti þó í stuttum samskiptum við hann 1979, þegar ég var ungur og óreyndur blaðamaður á síðdegisblaðinu Vísi, og einnig síðar þegar ég stofnaði tímart sem fékk nafnið Áfangar.

Vísir

Ég hafði á þessum árum ákafan áhuga fyrir jarðfræði. Mér gekk vel með hana í MR og hugleiddi að fara í jarðfræði í Háskólanum. Hætti þó við það vegna þess að stór hluti af jarðfræðinni er eðlisfræði og efnafræði og ég hafði talið mér trú um að það væru hundleiðinlegar fræðigreinar sem ég gæti engan veginn lært.

Svo gerist það að skipið Álafoss strandar í Hornarfjarðarósi og á ritstjórnarfundi var ákveðið að ég fyndi eitthvað út um ástæður þess. Talaðu bara við Sigurð Þórarinsson, sagði Elías Snæland, ristjórnarfulltrúi, hann nafni þinn veit allt.

Ég tók andköf. Fannst það eiginlega miklu meira mál að ræða við þann andans mann,, Sigurð Þórarinsson en að tala við ráðherra og viðskiptafursta. Jæja, ég hringdi í Sigurð. Auðvitað tók hann mér vel og sýndi mér, þessum aula í blaðamannastétt, mikinn skilning þrátt fyrir óskaplega vanþekkingu. Móttökurnar urðu til þess að styrkja sjálfsálitið og ég þorði síðar að hafa samband við Sigurð um annað mál.

Meðfylgjandi er mynd af forsíðufréttinni sem ég fékk birta á Vísi. Líklega eina fréttin frá mér sem rataði á þá síðu. Hægt er að smella nokkrum sinnum á hana og lesa.

Fréttin fjallaði auðvitað um landris við Hornafjörð þar sem farg jökla hafði minnkað á síðustu áratugum og það gat verið ástæðan fyrir því að skipið strandaði. 


Smjörklípa Björns Vals Gíslasonar

Einhver maður út í bæ, Pálmi Kristinsson, hefur lagt fram útreikninga um Vaðlaheiðagöng og í þeim kemur fram að áætluð umferð um göngin mun aldrei standa undir kostnaði við gerð þeirra.

Björn Valur Gíslason, formaður þingflokks VG, kann ekki við þessa niðurstöður. Þær geti ekki verið réttar vegna þess að maðurinn var framkvæmdastjóri Smáralindar. Önnur ávirðing á hann er sú að til er mynd af honum og Hannesi Smárasyni og Björn birtir myndina á bloggsíðu sinni.

Þarf nokkuð frekar vitnanna við. Pálmi þessi er greinilega óalandi og óferjandi og rök hans gegn Vaðlaheiðgöngum tóm della. Svona á auðvitað að taka á málum, skjóta fyrst og spyrja svo.


Aðeins einn jarðskjálfti á einum sólarhring

MúrdalsjÍ gær, laugardaginn 7. janúar 2012, bar það til tíðinda að aðeins einn jarðskjálfti mældist í Mýrdalsjökli. Segi og skrifa eitt stykki, 1. Telst það nú vera frekar aumt miðað við umtal og vísindalegar kröfur til eldfjalls sem komið er langt fram yfir eðlilega meðgöngu.

Meðfylgjandi er jarðskjálftakort Veðurstofunnar frá því í dag. Þar má sjá að skjálftinn í gær var 2,1 að stærð, sem þykir líklega vel í látið þrátt fyrir allt. Þess ber að geta að svo nákvæm eru mælitæki Veðurstofunnar að jafnvel hóstakjöltur í Vík í Mýrdal mælist á óróamælum.

Við leikmenn kunnum engin ráð önnur en að skoða hvenær Katla hefur gosið og svo reiknum við meðaltal á milli gosa og segjum að fimmtíu ár séu nægilegur meðgöngutími.

Haraldur Sigurðsson jarðeðlisfræðingur, segir þetta hins vegar hina mestu firru og telur jarðeðlisfræðilegu merkin í eldstöðinni og nágrenni hennar merkilegri. En hvað veit Haraldur svo sem. Hann hefur bara rannsakað eldgos alla sína starfsæfi og er aðeins jarðeðlisfræðingur að mennt.

Við leikmenn vitum miklu meira. Marga hefur margsinnis dreymt fyrir Kötlugosi, miðlar og sjáendur eru á þeirri skoðun að einhvern tímann muni gjósa í Kötlu og svo eru það hinir almáttugu og alvitru fjölmiðlar sem benda á að Kötlugos sé í aðsigi. Þessa vitnisburði er ekki hægt að leiða hjá sér. Eða hvað?

Svo gerist það að jarðskjálftum fer fækkandi, ekkert bendi til þess að kvikan undir Kötlu sé á hreyfingu, líklega hefur hún bara kólnað þarna undir freranum. 


Björt framtíð, en hvað með daginn í dag?

Stjórnmálamenn verða ekkert betri þó þeir misnoti eða ofnoti klisjur eða falleg orð. Sósíalistar gerði forðum allt í nafni alþýðunnar og jafnvel mestu grimmdarverk sögunnar voru unnin í nafni framtíðarinnar. Menn geta því talað endalaust og tvinnað saman fallegustu orðum íslenskrar tungu og vonað að það fleyti þeim inn á Alþingi. En til hvers?

Hvers vegna er Guðmundur Steingrímsson alþingismaður? Ég hefði borið meiri virðingu fyrir honum hefði hann notað tíma sinn þar til að drita út frumvörpum til laga til styrktar atvinnulífi þjóðarinnar, skuldavanda heimilanna og öðru því sem til framtíðar horfir. Þess í stað þrumir hann í horni, gerir ekki neitt, tekur ekki þátt til stjórnmálabaráttu, lemur ekki á þeim sem stýrt hafa landinu úr hruni í enn meira hrun.

Vel má vera að framtíð Guðmundar sé björt en hann hefur hjálpað ríkisstjórninni að gera daginn í dag helsvartan fyrir tugþúsundir mann.


mbl.is Björt framtíð heldur nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stærðfræðingur rasskellir Jón Bjarnason

Jón Bjarnason stóð innan ríkisstjórnarinnar fastur fyrir gegn aðild að ESB. Fyrir það má taka ofan fyrir honum. Jón er þó ekkert ofurmenni. Hann er eins og margir aðrir vinstri menn sem komast í ráðherrastólanna, lætur ekki alltaf málefnalegar forsendur ráða för. 

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur, skrifar stundum góðar greinar í Fréttablaðið. Í gær gerir Pawel Jón Bjarnason að umræðuefni og segir eftirfarandi undir fyrirsögninni „Gegn lögum og vísindum“:

Jón Bjarnason réð sér til aðstoðar mann sem hafði þurft að segja af sér þingmennsku fyrir að ráðast að fólki með nafnlausum tölvupóstum. Ráðningin var kærð til umboðsmanns Alþingis. Umboðsmaður taldi að margt hefði mátt bæta til að ráðningin hefði verið í betra samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Þó taldi hann sig ekki geta fullyrt að svokölluð „rannsóknarregla" stjórnsýslulaga hefði ekki verið brotin „með tilliti til þess að vikið var að huglægum sjónarmiðum í auglýsingu um starfið". Sem sagt: hæfniskröfurnar voru of loðnar til að hægt væri að sjá hvort þeim hafi verið fylgt.

Eins komst umboðsmaður að því að ákvarðanir ráðherrans í tollamálum stæðust ekki lög. Við hvorugu álitinu var brugðist. Það er erfitt að losna við þá tilfinningu að ráðherranum hafi ekki þótt þessi álit vera stórmál. Þrátt fyrir að þau gæfu til kynna stjórnarskrárbrot af hans hálfu.

Vondri stjórnsýslu og stjórnarskrárbrotum á ekki að kyngja. En það er ekki síður alvarlegt þegar stjórnmálamenn fara að skipta sér af því hvað vísindamenn megi rannsaka og hver niðurstaða þeirra rannsókna eigi að vera. 

Þó hæla megi Jóni Bjarnasyni fyrir að hafa staðið gegn ESB sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki þar með sagt að hann hafi verið góður ráðherra. Pawel bendir á nokkur mál sem benda til hins gagnstæða. Hann segir í grein sinni:

Eitt síðasta embættisverk Jóns var að reka stjórnarformann Hafrannsóknastofnunar. Fráfarandi stjórnarformaður hafði doktorspróf í tölfræði og hagnýtri líkindafræði. Sú sem látin var taka við er með meistarapróf í viðskiptafræði og er forstjóri fiskvinnslufyrirtækis. Hér skal ekki níða skó af þeirri konu. En að velja fólk til að stýra vísindastofnun með þessum hætti er fráleitt: Maður rekinn án ástæðu og eftirmaður, hagsmunaaðili sem gagnrýnt hafði niðurstöður stofnunarinnar, ráðinn, án auglýsingar.

Já, maður er rekinn án ástæðu. Gæti verið að sá sem skipaður hafi verið í staðinn sé þóknanlegri VG? Að minnsta kosti gerir núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ekki athugasemdir við gerðina. Hefur hann þó gagnrýnt forvera sinn alvarlega.

Pawel gagnrýnir Jón harðlega fyrir aðför hans að Hafrannsóknarstofnun. Hann bendir á að rannsóknir á fiskistofnunum sé vísindalegar en ekki pólitískar. Mér er til efs að margir hafi rasskellt Jón Bjarnason eins eftirminnilega og Pawel Bartoszek og hann gerir það svo snyrtilega að Jón mun ekki finna til nokkurs sársauka fyrir en hann sest á óæðri endann. 

í lok greinarinnar segir Pawel svo afar snyrtilega: 

Það breytir engu hvort meirihluti þings eða hagsmunaaðila telji meiri fisk vera í sjónum. Gagnrýni á vísindalegar niðurstöður þarf að vera vísindaleg. Sannleikurinn er ekki lýðræðislegt fyrirbæri. Skoðanir hagsmunaaðila á stofnstærðarmati Hafró eru auðvitað bjagaðar. Þeir vilja hafa sem mestan fisk í sjónum til að veiða sem mest af honum. Eru þeir þá endilega besta fólkið til að stýra stofnstærðarrannsóknum?

Ef ríkisstjórn ræki seðlabankastjóra sem neitaði að lækka vexti og réði í staðinn formann Samtaka atvinnulífsins yrði líklegast eftir því tekið. Hafrannsóknir eru fáum þjóðum mikilvægari en okkur svo þessi ákvörðun er ekki minna alvarleg. En því miður er hún dæmigerð fyrir fremur vondan ráðherraferil Jóns Bjarnasonar. 


mbl.is Forysta VG með of bogin hné
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins einn maður sleppur við gagnrýni Jóns Baldvins

Framar öllu þarf að leggja Jón Baldvin niður ... eða þannig Hann er einn af þessum málglöðu mönnum sem jarma um allt og alla. Besservisserinn. Það er auðvitað réttur hvers og eins.

Hann gagnrýndi forvera sinn, formann Alþýðuflokksins. Sagði hann ekki „fiska“ og því þyrfti að skipta um karlinn í brúnni. Jón var þá kosinn. Hann náði að vera ráðherra í nokkrum ríkisstjórnum. Hafði samt ekki erindi sem erfiði, hann „fiskaði“ ekkert enda gera kjaftaskar það aldrei. Þá dugði ekkert minna en að leggja Alþýðuflokkinn af og stofna nýjan flokk. Enginn eftirspurn var eftir Jóni Baldvini í starf formanns hins nýja flokks. Fyrsti formaður þess flokks hefur aldeilis fengið dembuna frá þeim sem lengst af hefur verið án eftirspurnar.

Hann nýtti sér pólitísk tengsl og fékk sig skipaðan sendiherra enda ekki heldur eftirspurn eftir þessum manni í heiðarleg störf innanlands.

Sífellt er verið að taka viðtöl við Jón Baldvin. Ástæðan er einföld, hann er ófyrirleitinn kjaftaskur. Ræðst óhikað á gamla samstarfsmenn, gerir lítið úr samferðarmönnum sínum og ófeiminn segir hann frá því hvað þeir hefðu átt að gera. Enginn stendur sig nógu vel. Aðeins einn maður sleppur við gagnrýni Jóns Baldvins og það er hann sjálfur. Hann þekki ekki sjálfsgagnrýni.

Persónulega finnst mér alveg nóg komið af viðtölum við Jón. Hann getur ekki lengur átt mikið ósagt. 


mbl.is Forsetinn heldur áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þverrandi virðing fyrir því gamla

Ekkert gamalt og gott má standa. Allt skal rifið og nýir og ljótir kassar byggðir svo miðbær Reykjavíkur verði því sem næst óþekkjanlegur frá því var fyrir tuttugu eða þrjátíu árum. Er það þetta sem við viljum? Á ekkert samræmi að vera í tilverunni? Á maður ekki að geta gengið um bæinn með barnabörnunum og sagt frá þeim stöðum þar sem forfeðurnir gengu um, þar sem maður sjálfur dorgaði á bryggjunum eftir marhnút eða ufsa?

Nei, þetta er hin nýja stefna. Öllu skal breytt. Jafnvel landslag tekur gríðarlegum breytingum á nokkrum árum. Heilu fellin hverfa, kroppað er í stærðar fjöll og úr sárinu blæðir. Búin eru til gríðarstór lón þar sem maður gekk einu sinni um, rör og háspennulínur spilla landslagi og tefja för. Nú á jafnvel að virkja lengsta fljót landsins í byggð þannig að landið verður gjörsamlega óþekkjanlegt.

Virðingin fyrir því gamla er engin. Íhaldsemin virðist horfin og enginn spáir í umhverfið. Ég held engu að síður að þetta sé alls ekki það sem Reykvíkingar vilja, það sem þjóðin vill.


mbl.is Nasa rifið í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi Tryggva Herbertssonar er mikill

Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, burðast með þyngri byrðar en flestir aðrir stjórnmálamenn. Vandi hans er skýrslan sem hann skrifaði árið 2006 ásamt Frederic Mishkin, hagfræðingi, um fjármálalegan stöðugleika á Íslandi. 

Í skýrslunni munu þeir félagar hafa mært fjármálalegan stöðugleika á Ísland, töldu litlar líkur á fjármálakreppu. Skemmst er frá því að segja að tveimur árum síðar skalla á kreppa með alvarlegri afleiðingum fyrir Íslands en líklega nokkura aðra þjóð.

Nokkrar staðhæfingar í skýrslunni standast illa tímans tönn í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað um 30 mánuðum síðar. Þannig er t.a.m. um þá staðhæfingu okkar Mishkins að stofnanaumgjörð sé með besta móti á Íslandi og spilling nær engin. Það lítur ekki vel út í ljósi atburðanna í október 2008. Óhætt er að segja að við höfum haft rangt fyrir okkur varðandi þessa þætti skýrslunnar. Þau mistök skýrast af því að við, eins og aðrir, misreiknuðum kerfið — fjármálahrunið leiddi síðar veikleika þess í ljós. Jafnframt ber að hafa í huga að þegar við skrifuðum skýrsluna var stærð fjármálakerfisins á Íslandi um 40% af því sem það var við hrunið.

Þetta segir Tryggvi í grein á evropuvaktin.is. Honum er pólitískt séð nokkur vandi á höndum. Andstæðingar hans nota þessa skýrslu óspart til að koma höggi á Tryggva og ekki síður Sjálfstæðisflokkinn. Hið síðarnefnda er algjörlega óþolandi fyrir flokksmenn. Hann er einnig gagnrýndur fyrir að hafa verið forstjóri hjá Askar Capital fjárfestingarbanka og síðast en ekki síst sem efnhagasráðgjafi forsætisráðherra á árinu 2008.

Óneitanlega virðast vopn andstæðinga Tryggva vera nokkuð beitt. Hann sá ekkert fyrir í skýrslu sinni árið 2008, enda segist hann frekar vera greinandi en spámaður. Í ljósi atburða duga þessi viðbára alls ekki.

Hann verður verður svo forstjóri Askar sem endar í alvarlegu gjaldþroti, raunar eftir að Tryggvi hættir þar. Þar að auki er hann efnahagsráðgjafi forsætisráðherra á því örlagaríka ári 2008. Þetta lítur því ekki vel út fyrir stjórnmálamanninn.

Tryggvi hefur í viðtölum lýst starfi sínu í Askar nokkuð og telur verk sín síst af öllu hafa valdið fyrirtæki skaða. Hins vegar minnist ég þess ekki að hann hafi gert upp starf sitt sem efnahagsráðgjafi. Öllum til mikillar undrunar varð það að samkomulagi að hann hætti. Mig minnir að það hafi gerst í ágúst 2008, rúmum mánuði fyrir hrunið. Fleiri en ég velta því fyrir sér hvað þá hafi gerst.

Grein Tryggva á Evrópuvaktinni er nokkuð vel skrifuð en hún er ekkert varnarskjal, til þess er hún alltof stutt og án nægilegra raka. Ég held þó að Tryggvi eigi talsverða vinnu fyrir höndum. Hann þarf að minnsta kosti að sannfæra flokksmenn sína miklu betur um að hann sé verðugur fulltrúi flokksins. Að öðrum kosti kann illa að fara fyrir honum í næsta prófkjöri.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband