Er sparnaður mikilvægari en öryggi borgarbúa?

Á dv.is er viðtal við Hrólf Jónsson, sviðsstjóra, framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Ástæðan er sú staðreynd að borgin ákvað að bera hvorki salt né sand á götur um helgina þrátt fyrir gríðarlega hálku. í lok viðtalsins er haft eftir Hrólfi í ræðu:

„Þó að við hefðum byrjað eldsnemma um morguninn að sanda allar þessar götur, þá hefðum við aldrei verið búnir að því fyrr en um miðjan dag,“ segir Hrólfur.

Hann segir að það hefði þurft sextíu vinnuvélar til þess að klára að hálkuverja göturnar í Reykjavík skömmum tíma. „Það er uppsett afl sem þyrfti fáa daga ársins. Hvað ætti að gera við tækin restina af árinu,“ spyr Hrólfur.  

Hér á Hrólfur líklega við að tæki til að bera á göturnar séu svo sérhæfð að það sé óraunhæft að borgin eigi slík fyrir aðeins nokkra daga á ári. Þetta hef ég aldrei heyrt. Hér áður fyrr var sandi ausið á götur borgarinnar, fyrst og fremst miðað við aðalleiðir og síðan strætisvagnaleiðir og þessu næst aðrar götur. Auðvitað fylgir sandaustri mikil vandamál og ekki síður af saltdreifingu. Við höfum hins vegar lifað þetta af hingað til.

Aðalatriði málsins er fyrst og fremst að borgarbúar komist leiðar sinnar, ekki síður gangandi vegfarendur en akandi. Borgin má ekki láta það henda að starfsmönnum hennar sé haldið heima þegar ástandið er svona. Sú viðbára að vinnuvélarnar séu einhver fyrirstaða er marklaus því fjöldi verktaka hefðu áreiðanlega getað sinnt þessu. Raunar er staðan sú að fjöldi þeirra bíður eftir verkefnum á borð við þetta.

Hins vegar læðist sú hugsun að manni að hér sé um að ræða sparnaðaraðgerð. Borgin hafi af fjárhagsástæðum ekki séð sér fært að halda úti mannskap og vélum um helgina. Sé þetta rétt þá er um háalvarlegt mál að ræða og mikla ávirðingu á stjórnendur borgarinnar og þá sérstaklega borgarstjóra. Hvers konar borgarstjórnarmeirihluti lætur fjármál skipta meiru en öryggi borgarbúa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Jafnvel þó þeim glæpafyrirtækjum sem kölluðu sig lánafyrirtæki, hafi tekist að koma úr landi fjölda vinnuvéla, oftar en ekki á sviksamann hátt, er enn til næg tæki í landinu til að takast á við snjómokstur og hálkuvörn.

Það er með ólíkindum ef þessi ummæli eru rétt og að þau komi frá sviðsstjóra framkvæmda og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Það vekur upp þá spurningu hvort þessi maður hafi þá þekkingu sem til er ætlast í því starfi sem hann gegnir.

Nú um helgina var sannkölluð asahláka. Sá klaki sem myndaðist varð flugháll en um leið meir. Þeir sem hafa unnið við snjómokstur vita að þá er lítið mál að brjóta klakann upp. Hann er oftar en ekki laus frá jörðu eða malbiki og orðinn meir, þannig að auðvelt er að ná honum. En það þarf vinnuvélar til. Ekki neinar sérstakar vélar, heldur ósköp venjulegar vinnuvélar, s.s. gröfur, hjólaskóflur og heflar, svo eitthvað sé nefnt, sem sagt tæki sem nóg er til af.

Varðandi söndun á þeim leiðum sem ekki er hægt að hreinsa, er hægt að nýta söltunatækin.

Nú er hins vegar farið að frysta aftur og möguleikinn til að hreinsa upp klakabrynjaðar götur hefur minnkað mikið. Þetta mun valda enn meiri vanda við hreinsun ef aftur kemur snjóatíð. Það er nánast útilokað að vinna við snjóruðning á götum sem eru með miklum klakabrynjum undir snjónum, þetta er óslétt og fer illa með tækin. Hefðbundin snjóruðningstæki eru ekki gerð til stórátaka við klaka.

Þá munu þessir klakabunkar verða til mikilla miska fyrir bifreiðaeigendur og valda því að erfiðara verður að komast um þega færð fer að þyngjast af snjó, auk þess sem þetta skemmir bílana.

Reykjavíkurborg kostaði miklum fjármunum til auglýsinga síðasta haust, þar sem ökumönnum var talin trú um að nagladekk væru óþörf. Það má vissulega taka undir að það kostar nokkuð að endurnýja malbik á götum borgarinnar, en það kosta líka öll þau tjón sem menn verða fyrir í hálkunni. Sá kostnaður lendir bara á bíleigendum og íbúum. Til að fá bíleigendur til að sleppa nöglum, verður borgin að sýna í verki að fært sé um hana án þeirra!

Þá hefur stjórn Reykjavíkurborgar mikið talað fyrir því að fólk ferðist gangandi og á reiðhjólum um borgina og hefur verið gert átak í lagningu stíga í þeim tilgangi. Það er lágmark að borgin sjá þá svo um að fært sé um þessa slóða og að þeir séu ekki notaðir sem söfnunarsvæði fyrir þann snjó sem rutt er af götunum!

Það verður að segjast eins og er að borgarstjórn brást illilega um helgina.

Gunnar Heiðarsson, 9.1.2012 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband