Unglingar rannsaka gamla fólkið

Bölvaðir vitleysingar eru nú þessir bresku vísindamenn. Þeir fara með tómt bull, maður lifandi, ekkert skilst, halló gaman. Það er ekkert mál að vera fertugur og ekkert finn ég til þess að andlegri heilsu hafi hrakað, hrakað, hrakað ...

Snjór er yfirleitt utandyra á veturna. Auðvitað verður að taka í taumanna og leiðbeina unglingunum sem stóðu að rannsókninni. Yfir kaldan eyðisand enda er ríkisstjórnin svo ákaflega góð og stendur með almenningi í gegnum alla brotsjói og snjóskafla á köldum eyðissandi.

Að lokum er ekki úr vegi að benda á norðurljósin sem speglast í haffletinum á hálendinu. Niður með fjöllin, upp með dalina. Ég man að ég ætlaði að skrifa eitthvað um jólin ...


mbl.is Andlegri getu hrakar eftir fertugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær fær ASÍ endanlega nóg af ríkisstjórninni?

Loksins rumskar Alþýðusamband Íslands. Ekkert hefur gerst í atvinnumálum þjóðarinnar frá hruni, ríkisstjórnin situr aðgerðarlaus og skrökvar því að almenningi að afrek hennar séu ofurmannleg. Hún hefur þó ekkert gert annað en að sinna helstu skrifstofustörfum.

Nú þurfti loksins formannafund ASÍ til að vekja samfylkingarmanninn Gylfa Arnbjörnsson af svefninum langa. Hann tekur þó ekki dýpra í árinni en að segja ríkisstjórnina á skilorði ... Hvers konar talsmáti er þetta? Hvernig er hægt að gefa ríkisstjórn lengri séns en þrjú ár til að koma hlutunum í gang? Hversu lengi á skilorðið að standa? Er tímafresturinn til 20. janúar, eins og forseti ASÍ segir í viðtalinu við Morgunblaðið í morgun? 

Þrjú ár hlýtur að vera nægur tími fyrir ríkisstjórn að koma með frambærilega atvinnustefnu og framfylgja henni. Þessi ríkisstjórn hefur ekkert gert annað en að skrökva að þjóðinni. Það er útilokað að halda því fram að samviskusamlegt starf opinberra starfsmanna í þrjú ár sé afrek ríkisstjórnarinnar.

Skip með ónýta vél og stöðugan leka verður ekkert betra þótt daglega sé ausið og tekið til. Jafnvel þótt það reki í rétta átt er ekki þar með sagt að skipstjórinn standi sig vel.


Ögmundur er hentistefnustjórnmálamaður

Og ég sem hélt að Ögmundur Jónasson væri að lagast. Nei, þvert á móti hann er að versna. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að ríkisstjórnin sem hann situr í gerir ekkert. Atvinnulausum fjölgar, skattar hækka og draga kjarkinn úr fólki og atvinnulífinu, ekkert er gert vegna skuldastöðu heimilanna og svo lýgur hún að almenningi. Og enn ætlar Ögmundur Jónasson inn í ESB hvað svo sem flokksmenn hans segja.

Best að hafa það alveg klárt. Við sjálfstæðismenn höfum hvorki áhuga á nokkru samstarfi við stjórnmálaflokk eins og VG sem selur sig purkunarlaust fyrir ráðherrastóla né heldur höfum við áhuga á samstarfi við mann eins og Ögmund sem slær í og úr, hleypur inn og út úr ríkisstjórn eftir því hvorum megin hann fer framúr á morgnanna. 

Og Ögmundur veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga. Hann daðrar við stjórnarandstöðuna í VG, klappar hana og kjassar, talar svo blíðlega við stjórnarsinnanna í flokknum. Þvílíkur hentistefnustjórnmálamaður sem hann er. Best færi nú á því að hann tæki einu sinni ákvörðun um hvorum meginn hann ætlar að vera og standi við hana. Líklega þykir honum ráðherrastóllinn orðinn svo mjúkur að hann annað hvort getur ekki staðið upp úr honum eða nennir því ekki. Ég veit ekki hvort er verra.


mbl.is Vilja ekki Sjálfstæðisflokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áramótaspár fjölmiðla reynast tómt rugl

Um hver áramót, svo lengi sem elstu menn muna, hefur svokölluð Völva Vikunnar stokkið fram og „spáð“ fyrir um framtíð þjóðarinnar. Hún hefur reynst vera ákaflega góð söluvara svo fleiri fjölmiðlar hafa tekið upp á því að framleiða sínar eigin „spár“.

Auðvitað eru ekki til neinir spámenn eða spámiðlar, það veit allt skynsamt fólk. Engu að síður kaupir fjölmargt skynsamt fólk spádómablöð og les af mikilli áfergju. Minna fer síðan um þá staðreynd að fæst af því sem „spáð“ er stenst.

Ragnar S. Ragnarsson, sálfræðingur, gerir þetta að umtalsefni í grein í Mogganum í morgun. Hann skoðaði „spárnar“ sem fjölmiðlar birtu í upphafi árs 2010 og segir um þær:

Undirritaður fann 18 mælanlegar fullyrðingar úr spá Fréttablaðsins og 36 fullyrðingar úr DV spánni og kannaði hvort þær hefðu ræst. Í Fréttablaðinu reyndust 12 af 18 rangar og 35 af 36 í DV. Samtals 47-7 sem þættu skelfileg úrslit fyrir taplið í handboltaleik og ættu líka að þykja svo meðal spámannlega vaxins fólks.

Dæmi um spádóma sem rættust ekki eru: „Ríkisstjórnin fellur í febrúar“; „Jóhanna mun hætta afskiptum af stjórnmálum“; „Sumir þekktustu útrásarvíkingarnir verða dæmdir í fangelsi“; „Miklir skjálftar í Gjástykki í Mývatnssveit“; „Þjóðarleiðtogi á Norðurlöndum mun falla frá“; „Gilzenegger kvænist um mitt ár og brúðurinn er talsvert eldri en hann og þjóðþekkt fyrir störf í sjónvarpi“; „Jónína Benediktsdóttir verður áhrifameiri í rekstri Krossins“ og „Hanna Birna sætir mikilli gagnrýni frá Sjálfstæðisflokknum síðla árs þegar svört skýrsla um stjórntök hennar veldur uppnámi innan flokksins.“ Þessar niðurstöður verða að teljast lélegar svo ekki sé dýpra tekið í árinni.

Og Ragnar velti fyrir sér þeim stórmálum sem fjölmiðlarnir sáu alls ekki fyrir og segir:

Sé jafnframt skoðað hvað spárnar sögðu ekki, kemur enn frekar í ljós hversu rýrar og lélegar þær eru. Þessum spám mistókst til dæmis að sjá fyrir ógildingu stjórnlagaþingskosninganna; úrsögn Lilju og Atla úr þingflokki VG; afdrif Icesave málsins; frásögn Guðrúnar Ebbu; bröltið í kringum ráðningu forstjóra Bankasýslu ríkisins; breytingarnar í ríkisstjórninni og áhuga kínversks auðjöfurs á Gríms- stöðum svo eitthvað sé nefnt. 

Ég held að Ragnar S. Ragnarsson hafi gert þessu spárugli góð skil. Hann segir þó ekki því frá því hvernig fjölmiðlarnir standa að þessum spám sínum. Heimildir mínar herma að saman komi hópur fólks sem skemmtir sér við að fjalla um einstök mál og hvernig þau þróast á árinu. Ekki er um neina spámenn eða sjáendur að ræða (þeir eru ekki til) heldur eru þetta fólk af ritstjórninni. Má líklega taka undir það sem Ragnar S. Ragnarsson segir í lok greinar sinnar:

En vonandi sér annað fólk að „spárnar“ eru bara marklaust skemmtiefni sem birtir þá skýru mynd að samband spámiðla við framtíðina er ekki neitt. 


Fimm krimmar

Um jólin las ég aðeins fimm bækur í spennusagnaflokki. Hafði af því gagn og gaman, var ánægður með sumar en varð fyrir vonbrigðum með aðrar. Þetta eru bækurnar í þeirri röð sem ég las þær:

  1. Paganini samningurinn eftir Lars Kepler 
  2. Einvígið eftir Arnald Indriðason
  3. Feigð eftir Stefán Mána
  4. Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur
  5. Órólegi maðurinn eftir Henning Mankel 

Mig langar til að segja aðeins frá hugsunum mínum eftir þennan lestur. Lklegast er best að koma sér beint að efninu.

Mér fannst bókin Órólegi maðurinn eftir Henning Mankel ótvírætt best. Frásögnin er afar sannfærandi og söguhetjan, Kurt Wallander, rannsóknarlögreglumaður, er ósköp mannlegur. Hann virðist seinfær, hugsar djúpt og pælir mikið en áttar sig um síðir á glæpunum sem voru flóknari og erfiðari en manni gat dottið í hug. Ég hef lesið nokkrar bækur um Wallander og kunnað afar vel við þessa sænsku spennu.

Feigð, ók Stefáns Mána kom mér mikið á óvart. Ég hafði áður lesið bókina Skipið sem kom út fyrir tveimur árum, held ég. Mér þótt hún ekki góð. Feigð er aftur á móti góð saga.

Atburðarásin er ofsalega hröð sem gerir hana svo skemmtilega að maður stendur sig að því að hraða lestrinum sem mest má. Gallinn við bókina er líklega sá að hún er eiginlega of mikill leiðarvísir. Mér finnst að höfundurinn hefði til dæmis mátt sleppa nákvæmum lýsingum á ökuferðum um Reykjavík, frá Ísafirði til Reykjavíkur og um Þingmannaheiði.

Einnig eru óþarflega miklar lýsingar á tilfinningum fólks. Dæmi eru „kaldhæðnisglott“, „móðursýkislegur“, „náfölur“, „flissandi“ og „pirruð“. Allir virðast vera með einhvern svip, enginn er bara venjulegur.

Einvígið eftir Arnald Indriðason byggist á svipuðum forsendum og þessar bækur sem ég las um jólin. Einn góður gæi, lögga, klár, á í persónulegum erfiðleikum, en fattar allt í lokin. Persónulega finnst mér Marion Briem dálítið ósannfærandi. Mikið er lagt upp úr persónulegum erfiðleikum hans í sögunni, lesandinn fær samúð með honum og andstyggð á umhverfi hans. Hann er eiginlega alinn upp af eldri manni sem kemur honum til manns.

Þrátt fyrir allt virðist Marion þessi aldrei hafa gengið í skóla, óljóst hvað hann heitir eða hvort hann er bara utanveltu í þjóðfélaginu fram til þess tíma er hann gerist lögreglumaður. Hins vegar er plottið dálítið skemmtilegt en eiginleg er verður alltof lítið úr því í lokin.

Paganini samningurinn er svona „lala“ krimmi, gaman að lesa hann, en skilur fátt eftir. Plottið er dálítið gott þó það sé nú svona dálítið barnalegt. Vondu kallarnir og góðu gæjarnir eiga við og endirinn er í svona hefðbundnum amrískum stíl þó bókin sé sænsk. Jón Daníelsson þýddi söguna og gerir það bara vel eftir því sem ég best veit.

Brakið eftir Yrsu Sigurðardóttur finnst mér eiginlega lökust af þessum fimm bókum. Einhvern veginn er öll sagan svo óskaplega ósannfærandi.

Aðalsöguheitjan er lögfræðingurinn Þóra. Sagan segir frá rannsókn hennar á fólki sem hverfu af snekkju sem siglt er frá Portúgal og kemur svo mannlaus inn á höfnina í Reykjavík. Talsmátinn er dálítið skrýtinn, höfundur virðist ráða öllu, ekkert er skilið eftir fyrir ímyndunarafl lesandans.

Dálítið óþægilegt að finna fyrir höfundinum sem andar ofan í hálsmálið á manni: „Þær tóku starf sitt föstum tökum ...“ segir í bókinni. „Skartgripirnir virtust ekki ekta en Þóra var svo sem ekki dómbær um það enda lítt fyrir glingur.

Mér finnst eins og Þóra ráði ekki alveg við sögugerð og lætur allt vaða. Engu líkar er en að hún byrji á því að finna út plott, skipti síðan sögunni í nokkra hluta og reynir síðan að fylla þá með orðum. En hvað er ég svosem að vilja upp á dekk, fólk virðist kunna miklu betur við bókina en ég. 

 


Kallar, um kalla, frá komma, til kalla

Af öllum konu, það er fyrir utan Hallgerði langbrók, hef ég einna helst borið óttablandina virðingu fyrir Birnu Þórðardóttur, þeirri sem lengi var kölluð rússakommi. Vinstrisinni, hélt með Sovétríkjunum, starfaði í félagi sem hér Fylkingin, gekk Keflavíkurgöngu til að mótmæla hernum og Nató, snéri upp á punginn á Guðbrandi lögregluforingja í Þorláksmesssuslagnum 1968 og fleira pólitískt má heimfæra upp á þessa konu sem svo sannarlega var og er glæsileg.

Hún skrifar litla grein í Fréttablaðið í morgun undir fyrirsögninni „Kallafréttir á nýársdegi rúv“. Í henni býsnast hún yfir því að hádegisfréttir í RÚV 1. janúar hafi verið um karlmenn. Til þess notar hún ótrúlegan fjölda þankastrika sem koma niður á sárafáum kommum - og punktum.

Forðum var boðberi slæmra tíðinda oft drepinn. Einhver fró hefur verið í því fyrir til dæmis kóng að höggva manngreyið. Á sama hátt má draga þá ályktun af grein Birnu að ekki skipti máli um hvað fréttirnar eru heldur að ekkert fréttnæmt skuli haft eftir konu. Þetta er auðvitað alveg rétt og raunar sjálfsagt að slátra RÚV fyrir vikið. Verst er þó að við Birna skulum vera knúin til þess með lögum að greiða afnotagjald til þessarar stofnunar. Við eigum ekki þess kost að hætta greiðslum okkar í mótmælaskyni við slæman fréttaflutning.

Grein Birnu er þó langt frá því að vera vel skrifuð. Hún er einhvers konar tilraunastarfsemi sem gengur ekki upp. Fjöldi setninga og aukasetninga veldur flestum leiðindum, þankastrikin eru ofnotuð og orsnilldin er engin. 

Hins vegar má hafa gaman af orðfærinu í greininni:

Fjórði kall – allt í einu orðinn – við launafólk – yfir minn dauða kropp – eins og segir á léttsnar­aðri ensku – við launafólk – einn af forsetum lýðveldisins – það er að segja forseti almúgamanna – á ofurlaunum – hinn fjórði í kalla­ röðinni fenginn sem álitsgjafi yfir ríkisstjórninni – við launa­ fólk – hefur sá forsetinn einhvern tímann lifað og barist fyrir lífi sínu sem almennur launamaður – ekki veit ég til þess – ekki fremur en hinir þrír ofantöldu kallar.

Eru kallafréttir rúv á nýársdag forsmekkur þess sem koma skal – eða megum við vænta annars? 


Ofsahræðsla grípur mann

Jafnvel lítil snjóflóð eru einstaklega óþægileg. Svona svipað eins og að lenda á kafi í stórri öldu. Maður veit ekkert hvað er að gerast fyrr en öllu er lokið. Hef nokkrum sinnum lent í litlum snjóflóðum. Reynslan nýtist manni lítið í hvert skipti. Skyndilega er allt á hreyfingu, maður tekur andköf, skíði og skíðastafir tefja fyrir og kvíðinn fyrir því ókomna tekur völdin, jafnvel ofsahræðsla. Hræddur maður gerir ekkert að viti.

Og svo skyndilega er öllu lokið og maður stendur upp úr flóðinu og litast um. Ég hef lesið leiðbeiningar um hvað ber að gera í snjóflóði. Gallinn er bara sá að maður verður svo óskaplega áttavilltur og oftast hræddur. 

Held að það besta í þessum tilvikum sé að vera með snjóflóðaýli og ferðafélagarnir hafi líka slíkt tæki og kunni aðleita að fólki í snjóflóði.

Staðreyndin er sú að um 75% fólk sem lendir í snjóflóði kafnar, aðrir látast vegna áverka sem þeir verða fyrir. Auk snjóflóðaýlis eru til snjóflóðabelgir. Hið síðarnefnda er ætlað að auka flot þess sem lendir í snjóflóði. Nái maður að toga í handfangið á þrýstilofthylki blæs belgurinn upp rétt eins og líknarbelgur þegar bíll lendir í árekstri.

Ekki er líklegt að venjulegir ferðamenn séu með búnað vegna snjóflóða á sér sé gengið í Esjuna eða til kinda. Flestir teljum við að slysin komi fyrir alla aðra en okkur sjálfa. Að auki finnst okkur flestum alltof dýr að „eyða“ peningum sem hugsanlega verða okkur til lífs. Kannski þurfum við aldrei á slíkum græjum að halda og til hvers er þá fjárfestingin?


mbl.is „Maður getur ekki hugsað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin vill þingkosningar ekki forseta

Það er rétt sem hinn burtrekni Jón Bjarnason segir að Evrópusambandsmálið kann að skipta miklu verði forsetakjör á árinu. Um leið eru miklar líkur á því að ríkisstjórnin, tóri hún áfram, geti falið aðgerðaleysi sitt og dáðleysi í kosningabaráttu frambjóðenda til forsenda.

Þegar upp er staðið getur þjóðin verið nokkuð ánægð með sextán árin hans Ólafs Ragnars Grímssonar. Vegur þyngst afstaða hans til Iceave samninga ríkisstjórnarinnar. Mér finnst afskaplega mikilvægt að Ólafur haldi áfram. Hann getur sinnt sínum hugðarefnum síðar. Meirihluti þjóðarinnar kallar á þingkosningar en ekki forsetakosningar. 


mbl.is Jón: ESB hluti af forsetakjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árið 2012 og tvö eldgos í vændum ...

Í barnsminni mínu hljómar lagið sem Vilhjálmur Vilhjálmsson söng um árið 2012. Fannst það alltaf í senn dularfullt og heillandi, enda textinn eftir Ómar Ragnarsson. Svo kemur Ómar með nýjan og ekki síður smellinn texta.

Víkjum að háalvarlegum málum. Stundum hef ég hér í pistlum getið um draumspakann mann sem gaukar að mér handónýtum spám um eldgos og annað válegt. Mér gengur harla erfiðlega að hrista hann af mér.

Einhvern tímann hafði ég eftir honum að tuttugu eldgos yrðu á áinu 2011 því hann þóttist hafa staðið einhvers staðar þar sem hátt bar og talið þetta mörg gos um landið allt. Sem betur fer reyndist hann ekki sannspár. Engu að síður er'ann kominn á kreik með nýjan draum sem hann dreymdi síðustu nótt fyrir áramót og vildi endilega troða honum upp á mig.

Í draumnum sá hann lítið og krúttlegt eldgos, svona eins og 5VH gosið en gat ekki staðsett það. Snjór var þó í kring þó gysi á sléttu. Telur hann líklegt að næst gjósi í hálendinu, fjarri mannabyggð. Oafn í þetta litla kemur annað eldgos, -  ekki svo ýkja fjarri heldur hann. Það verður ansi stórt og vaknaði draumamaðurinn með andfælum, löðursveittur og blóðþrýstingurinn kominn upp úr öllu valdi. Var þetta til marks um að drauminn yrði að taka alvarlega.

Ég hef nú ekki svo ýkja mikið álit á draumamanninum en segi frá draumnum hér. Alltaf gott að geta vitnað til þess í framtíðinni að ég hafi sagt frá spádómsdraumi. Draumamaðurinn fullyrðir taldi sig að dreymt fyrir hruninu og hrunahruninu Jóhönnu og Steingríms, en gleymdi að láta mig vita. Þau mistök ætlar hann aldrei að gera aftur og því lætur hann mig nú vita daglega vita af draumförum sínum. Trúið mér, það er ekki mikil skemmtun.


Steingrímur leiðréttir

Mann léttir nú hálfpartinn. Alltaf gott að fá línuna frá honum Steingrími. Jón Bjarnason var búinn að segja við alþjóð að hann hefði verið rekinn vegna andstöðu hans við ESB. Eitthvað var hann að misskilja málin því hann var bara rekinn vegna „breyting á verkaskiptingu á mannskap en ekki stefnu.“. Stefnan er sumsé enn inn í ESB.

Steingrímur leiðrétti einnig þann leiða misskilning Hreyfingarinnar að hún hafi verið beðin um að styðja ríkisstjórnina fyrir vantrausti. Samkvæmt Steingrími var það Hreyfingin sem bað um að fá að ræða við ríkisstjórnina um að koma í veg fyrir að vantraust á hana verði samþykkt. Hið síðarnefnda virðist líka vera miklu eðlilegra og lógískara svo ekki sé talað um góðfúslegan vilja ríkisstjórnarinnar til að spjalla.

Steingrímur segir að ríkisstjórnin sé í óbreyttum farvegi. Mikið er nú gott til þess að vita. Velti því þó fyrir mér hvort ekki sé tími til að einhver fari út að ýta.


mbl.is Tengist ekki Evrópumálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Órhróður Þorvaldar Gylfasonar

Hrikalega er málfutningur Þorvaldar Gylfasonar, hagfræðings, ógeðfelldur. Hann hikar ekki við að fara með staðlausa stafi og kann ekki að skammast sín.

Í nokkuð langan tíma hefur honum verið tíðrætt um einhverja sem hafa viðhaft frasann „svokallað hrun“ um efnahagshrunið haustið 2008. Ekki hef ég hugmynd um hverjir það eru. Það skiptir svo sem engu máli. Verra er að hann heldur að hrunið sé eitthvað verkfræðilegt afrek þeirra sem eru á önduverðum meiði við hann í stjórnmálum.

Þorvaldur kann enga sanngirni. Hann reyndir að klína þessu og öðrum óhróðri á pólitíska andstæðinga. Og þetta er maðurinn sem auðfyrirtæki keypti og lét skrifað áróðursgreinar um andstæðinga þess.

Hann var málaliði auðvaldsins, þeirra sem áttu stærstan þátt í hruninu.

Hann hefur varið þessa kolómögulegu ríkisstjórn sem undir yfirskini velferðar hefur ráðist svo heiftarlega að kjörum almennings að engin dæmi eru um slíkt í sögu þjóðarinnar. Þetta er ríkisstjórn sem svikið hefur gerða samninga og sáttmála. Aldrei hefur Þorvaldur gagnrýnt þessa félegu félaga sína sem purkunarlaust svíkjast aftan að almenningi.


Gerast góðir hlutir núna hratt?

Ekkert liggur á, var oft sagt í gamla daga. Lengi var því haldið fram að góðir hlutir gerist hægt. Í þessu tvennu er dálítið þægilegt samræmi.

Tímarnir eru breyttir og ekki víst að allt í góðu gengi. Á tæplega þriggja ára valdatíma norrænnar velferðarstjórnar á Ísland virðist allt komið á hliðina, öllu á að breyta, helst gjörbreyta. Og sú grunsemd læðist að manni að breytingar eigi sér aðeins forsögu í sjálfum breytingunum.

Helst á að breyta stjórnarskránni, henda þeirri gömlu og taka nýja upp. Hvers vegna er ekki ljóst. Ýmislegt má eflaust breyta í þeirri gömlu en þarf að gjörbreyta ...?

Verið er að gjörbreyta stjórnsýslunni. Gömul ráðuneyti hafa verið lögð niður og starfsemin sameinuð öðrum. Allt gert með einhverri hagkvæmni að leiðarljósi. Og hverjum skyldi hafa dottið í hug nöfnin á þessum ráðuneytum.

Skattkerfið hefur þanist út, nýjir skattar orðið til, virðisaukaskattarnir orðnir þrepaskiptir ... Maður hefur færri peninga í buddunni en áður.

Allt þetta og miklu meira til hefur gerst á þremur árum. Hvers vegna lá svona mikið á. Hefur þessum breytingum fylgt einhver gæfa, gerast góðir hlutir hratt? 

 


Lágt sjálfsálit?

Aðspurð sagðist hún [Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar] þó ekki geta tjáð sig um það hvaða breytingar á ríkisstjórninni yrðu lagðar til og þá ekki síst vegna þess að hún vissi ekki hverjar þær væru.

Sjálfsálit málsvara ríkisstjórnarflokkanna hlýtur að vera orðið ansi lágt. Vanþekking hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að þeir tjái sig með miklu orðskrúði og list. Eða eins og sagt er um einn góðan Samfylkingarmann: Hann getur lengi, lengi rætt um það sem hann veit ekki án þess að koma nokkurn tímann að kjarna málsins.


mbl.is Breytingar á ríkisstjórninni ræddar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkalýðsrekandi vaknar með andfælum

Hvað er eiginlega að þessum verkalýðsrekendum? Í þrjú ár hefur atvinnuleysið farið vaxandi og nú eru opinberlega um tólf þúsund manns án atvinnu. Ótaldir eru þó þeir sem flúið hafa land og fundið vinnu annars staðar, ekki eru þeir heldur taldir með sem hafa hrokkið af atvinnuleysisskrá þar sem þeir hafa verið þar of lengi. Og allir eru búnir að gleyma litlu manninum, þeim sem voru verktakar í ýmsum störfum og eiga engan rétt inni á skránni.

Og núna hleypur Sigurður Bessason uppá dekk og talar óðamála um atvinnuleysi og fjárhag heimilanna rétt eins og vandamálin hafi orðið til í fyrradag. Hvar hefur maðurinn haldið sig undanfarin ár? Hvers vegna hefur hann ekki tekið höndum saman með kollegum sínum og krafist úrbóta frá hinni norrænu velferðarstjórn.

Atvinnuleysi er mannskemmandi og af öllum þeim ávirðingum sem hægt er að klína með réttu á stjórnvöld er það einna alvarlegast. Vonandi vita ummæli Sigurðar Bessasonar á gott, að eitthvað sé nú að gerast hjá launþegahreyfinginunni vegna atvinnuleysis og fjárhag heimilanna.


mbl.is Getum ekki sætt okkur við atvinnuleysið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirtækjasamsteypa í eigu Framtakssjóðs

Fyrir jól ritaði Þorkell Sigurlaugsson, stjónarformaður Framtakssjóð Íslands, grein í Fréttablaðið. Í henni mærir hann eðlilega sjóðinn og framtakssemi hans. Sjóðinn stofnuðu sextán lífeyrissjóðir fyrir tveimur árum og markmiðið er „... að fjárfesta í íslenskum yfirtækjum sem eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll ...“, eins og Þorkell orðar það í grein sinni. Hann segir:

Markmiðið var að byggja upp öflug fyrirtæki og um leið skila góðri ávöxtun til fjárfesta. Það er ekki markmið Framtakssjóðsins að eiga fyrirtæki til lengri tima þvert á móti á Framtakssjóðurinn að selja hluti sína að hluta eða öllu leyti innan nokkurra ára, eða þegar hlutverki hans er lokið, meðal annars með skráningu á hlutabréfamarkað.

Þetta eru háleit og virðingarverð markmið en manni er engu að síður órótt. Hér er komið mikið vald og ógrynni af peningum í eitt saman fyrirtæki. Völdin eru mikil og því vakna auðveldlega grunsemdir um meðferð og stjórnun þessara fyrirtækja.

Í allri grein Þorkels finn ég enga umhyggju fyrir almenningi, þjóðinni. Ekki heldur er reynt að greina fyrir hvað þau fyrirtæki sem Framtakssjóðurinn vélar um standa í raun og veru fyrir. Þetta veldur mér vonbrigðum.

Staðreyndin er einfaldlega sú að fyrirtæki er starfsfólkið, ekkert annað. Ábyrgð stjórnandans er fyrst og fremst gagnvart því og síðan fjárfestum. Ég held það sé komið nóg af dekri við alls kyns fjárfesta sem hugsa fyrst og fremst um skjótfenginn gróða. Ég sakna gamalla og gróinna fyrirtæki sem nú er búið að rústa og sum hver eru ekki lengur starfandi. Þar réðu ríkjum gamaldags kapítalistar sem hugsuðu um fyrirtækið framar öllu, gerðu sér grein fyrir að það var skjól fyrir starfsmenn, lifibrauð þeirra. Þessi gildi hurfu einhvern vegin á síðustu árum eftir skefjalausa sókn í skyndigróða. Enginn mátt vera að uppbyggingu. Fyrirtækin voru tætt í sundur, skuldsett og yfirgefin.

Ég er hrikalega tortrygginn gagnvart risastórum sjóði sem ætlað er að kaupa upp „vænleg“ fyrirtæki. Sérstaklega ef tilgangurinn er að ná góðri ávöxtun á það fjármagn sem bundið er i sjóðnum ...“. Fyrirtækin í eigu sjóðsins eru óskaplega stór, virka sem samsteypa og geta starfað sem slík meðan verið er að gera þau aðlaðandi í augum fjárfesta. Þau þurfa ekki að taka tillit til neins nema samsteypunnar.


Eru jólin uppskeruhátíð kapítalismans?

Gleðileg jól, kæru lesendur (... finnst dálítið yfirlætislegt að taka þannig til orða, en fyst aðrir gera það þá get ég það líka).

Jólin eru á margan hátt hátíð. Kristin fólk heldur upp á fæðingu frelsarans og allir fagna því að daginn er tekið að lengja. Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa verið alinn upp af góðri móður og föður, alþýðufólki sem átti sína trú og gætti hennar vel. Það er svo allt annað mál hvernig ég hef rækt og þroskað trúna allan þann tíma sem liðinn er frá því ég var barn. Líklegast hefur allt farið á versta veg í þeim efnum, og þó ...

Vonandi held ég eitthvað í eitthvað af boðskapnum, siðfræði kristinnar trúar. Ef til vill er það þess vegna sem mér gremst svo ákaflega mikið kaupmennska jólanna. Það er eins og verslunin sé upphaf og endir kristinnar trúar. Og ég þá gat varla trúað mínum eigin augum þegar ég las eftirfarandi undir fyrirsögninni: „Jólin eru uppskeruhátíð kapítalismans“. Fyrirsögnin ein hlýtur að ofbjóða hverjum og einum upplýstum manni. 

Á jólunum eru kostir markaðshagkerfisins hvað sýnilegastir. Nóg er að horfa yfir hlaðið borð kræsinga þegar jólin hringja inn. Villibráð er frá Bretlandi, vín frá Ítalíu, maís frá Bandaríkjunum, ávextir frá Suður Afríku, tómatar frá Portúgal, ferskt krydd frá Ísrael og gosdrykkir úr Reykjavík. Þegar svo kemur að jólagjöfum eru leikföng barnanna frá Malasíu, Suður Kóreu, Indónesíu og Kína. Þeir sem hafa arin kveikja svo upp arinkubbi frá Bandaríkjunum og bæta við birki frá Egilstöðum. Svona mætti áfram telja.

Þetta stendur skrifað á vefnum amx.is sem ég les oft mér til ánægju og gangs. Þetta er svo sem allt satt og rétt en þessar staðreyndi eiga ekker endilega við um jólin heldur en hversdaginn. Séu jólin uppskeruhátíð kapítalismans hvar stendur þá trúin? Hvort kemur á undan í mikilvægi? Svo má auðvitað endalaust ræða upp barnaþrælkun, sviknar vörur og lág laun í þróunarlöndunum.

Er til dæmis hægt að halda jól án þess að kapítalisminn sé virkur? Flestir myndu ætla að svo sé. Þá má á móti spyrja hvort hægt að halda „uppskeruhátíð“ kapítalismans án jóla? Vissulegar er það gert og það dags daglega. Kapítalisminn er einungis aðferð, alls ekki hátíð eða trúarbrögð frekar en prentlist eða heilbrigður lífsstíll. Uppskeruhátíð á ekki hér við frekar en aðra daga ársins. Það er líka gjörsamlega smekklaust að orða hlutina á þennan hátt.

Jólin eru ekki og hafa aldrei verið uppskeruhátíð kapítalismans. Hún er trúarhátíð og kemur efnislegum hlutum svo til ekkert við þó svo að tekist hafi að snúa henni upp í andhverfu sína með gengdarlausum áróðri sem boðskapur kristinnar trúar á ekki nokkra möguleika til að snúa við. Og hver ætti svo sem að tala máli trúarinnar eða boðskapsins? Kirkjan, segir einhver ...! Því miður, kirkjan er illa haldin af innanmeinum og óvíst hvort hún lifir  það af. Hins vegar lifir trúin og ekki síðst sá boðskapur sem felst í kristinni trú.

Ég hef lengi aðhyllst kapítalismann, telst þar af leiðandi hægri maður. Engu að síður getur mann gramist pólitísk misnotkun á því sem telst til staðreynda í tilverunni. Eins og áður sagði kann að vera eitthvert vafamál hvernig ég hef ræktað barnstrúna og allra síst er ég kirkjurækinn maður. Ég ber þó virðingu fyrir þeim gildum sem ég ólst upp með. Ungur tók ég pólitíska afstöðu og hef staðið vel í ístaðinu á þeim vettvangi eins og margir vita. 

Frá því í sunnudagsskóla KFUM í gamla daga man ég alltaf þetta:

Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna og mælti við þá: „Ritað er: „Hús mitt á að vera bænahús, en þér gjörið það að ræningjabæli.“

Fyrir alla munu ættu við að forðast að blanda saman óskyldum málum og síst af öllu í pólitískum tilgangi. Það hjálpar síst af öllu málastað hægri manna að krefjast þess að þeir taki afstöðu til trúar og stjórnmála. Líklegast myndi halla á hið síðarnefnda.

Fnykur af soðinni, útmiginni skötu veldur náttúruhamförum

Kári var spurður hvort rétt væri að menn léttu á sér í skötubinginn til að hraða kæsingunni. „Þetta er orðin svo eftirsótt vara að við höfum engin vafasöm orð um það,“ sagði Kári hlæjandi og neitaði því staðfastlega að þessi brögð væru viðhöfð við verkunina nú til dags. „Ætli það hafi ekki gerst í gamla daga, þegar skatan lá úti við beitningaskúrana, að menn hafi tappað af sér í sama horninu?“

Ekki er nóg með að útlendingum sé talin trú um að míginn hákarl og skata sé þjóðlegur „matur“ heldur gera fjölmiðlar sitt til að halda þessari sögu að landsmönnum. Hið eina þjóðlega við þetta er að þetta er þjóðsaga.

Ofangreind tilvitnun er úr Mogganum í dag, en dag segir í fyrirsögn: Skötuilminn að vestan leggur yfir landið. Í fréttinni er sagt frá tindabikkju- og skötuverkun og upplýst að hér áðurfyrr hafi verið migið á fiskinn til að hraða verkuninni. Þó því sé neitað að slíkt sé gert enn þann dag í dag læðist alltaf sú hugsun að manni að sú sé engu að síður staðreyndin. Það getur einfaldlega ekki verið jafn vond lykt af neinum mat eins og af kæstri skötu eða tindabikkju nema því aðeins að migið hafi verið á hann meðan á verkuninni stóð. Sé það rangt er málið enn alvarlegra. Hvernig í ósköpunum getur verið svona vondur fnykur af nokkrum mat hafi ekki verið migið á hann?

Enginn, ekki einu sinni forfallnir skötufíklar, getur haldið því fram að bragðið af kæstri skötu sé gott. Svo hrikalega stækt er það, að sá sem slafrar þessu óhroða upp í sig í einhverjum magni á Þorláksmessu á það á hættu að líkaminn losi sig við eitrið í gegnum fret, rop og svita langt fram yfir áramót. Og það öllum nærstöddum til óskaplegrar armæðu. Skötuátið er því umhverfisvandamál. En meira er í þessu.

jar›skjálftar 3

Ég hef það fyrir satt (og trúið mér því þetta er ríkisleyndarmál) að jarðvísindamenn fullyrði að skötuát á Þorláksmessu auki hættuna á auknu kvikustreymi frá iðrum jarðar með tilheyrandi jarðskjálftum og jafnvel eldgosum á komandi ár. Sel þetta þó ekki dýrara en ég keypti.

Hér til vinstri er jarðskjálftakort frá því um miðjan dag á Þorláksmessu á síðasta ári. Þar koma greinilega fram skjálftar  á öllum þéttbýlisstöðum á Vestfjörðum, beggja vegna Húnaflóa og svo í Reykjavík. Annars staðar er skötufíknin miklu minni. Þetta er merkilegt fyrir þær sakir að jarðskálftar eru mjög sjaldgæfir á Vestfjörðum og við Húnaflóa. 

Af þessu má sjá að skötuát er stórkostlega hættulegt þar sem það veldur náttúruhamförum. 


Alvörublóð úr platjólasveini

Velta má eftirfarandi fyrir sér:

  1. Jólasveinninn er ekki til
  2. Blóð rennur ekki í æðum hans
  3. Hann gefur því ekki blóð
  4. Blóðið væri þá gerfiblóð
  5. Nema því aðeins að einhver þættist vera jólasveinn
  6. Þá fengi Blóðbankinn alvörublóð
  7. Nema því að jólasveinninn sé til
  8. Þá gæti hann gefið blóð
Veit að fleiri trúa á jólasveininn en ríkisstjórnina og er hún þó alvöru ...

 


mbl.is Blóðið flæðir um jólin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlé milli gosa hefur ekkert spádómsgildi.

Við höfum oft heyrt það sagt, að Katla sé komin á tíma, að nú hljóti að fara að gjósa vegna þess að viss tími sé liðinn síðan síðasta stórgos var, árið 1918. Þetta er misskilningur. Reynslan sýnir, að eldgos eru yfir leitt það sem vísindin kalla stochastic process. Það er að segja: fyrri atburður eða tímalengd milli atburða hefur engin áhrif á tímasetingu næsta atburðar. Það fæst því engin spá að viti með því að mæla tíðni gosa og lengd goshlés. Hins vegar eru jarðeðlisfræðileg merki mikilvæg. Þau gera ekki spá mögulega, en þau mynda kerfi af upplýsingum, sem kunna að gefa viðvörun um yfirvofandi gos. 

Þetta segir Haraldur Sigurðsson, jarðeðlisfræðingur, í bloggi sínu í gær. Og mikið ári kemur hann okkur leikmönnum á óvart. Nú erum við í tugi ára búnir að bíða eftir eldgosi í Kötlu af því að eldstöðin er komin fram yfir meðalhvíldartíma. Jafnvel Katla veit ekkert af þessu heldur hefur boðið upp á óróa undanfarna mánuði rétt eins og hún sé að kynda upp.

Af öllum tek ég mest mark á Haraldi og síðan hinum óglögga draumamanni sem sífellt dreymir um væntanlegt eldgos í Kötlu. Hann hefur þó brugðist mér ótal sinnum. Haraldur bregst hins vegar ekki og því hvet ég áhugamenn um jarðfræði að lesa nýjasta bloggið hans.


Bófarnir boðnir velkomnir

Verði sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur áfrýjað til Hæstaréttar og þar staðfestur má búast við því að erlendir meðlimir Hells Angels verði þar með óheimil dvöl á Íslandi. Það er veit á gott. Hitt er þó áhyggjuefni að stjórnvöld geta varla tryggt að þetta illþýði eða önnur komist til landsins enda gáttir hér allar opnar.

Hægt er að fljúga víðar til hingað en til Keflavíkurflugvallar. Farþegar skipa, að Norrænu undanskilinni, eru taka land án mikilla vandræða og dæmi eru um að vondu kallarnir hafi komið hingað á ýmis konar fleyjum. Í skjóli Schengen samkomulagsins eru glæpamenn boðnir velkomnir. Í ljósi ofangreinds er að öllum líkindum kominn tími til að endurskoða hið alræmda samkomulag síst af öllu átti að vera bófum til hagsbóta.


mbl.is Sýknað af bótakröfu vítisengla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband