Betri myndir af gígnum við Skarðsheiði

Google1

Í gær birti ég gamla mynd sem ég tók og er af furðulegum gíg í fjalli austan Blákolls, og því sem næst sunnan Hafnarfjalls.

Brynjólfur Þorvarðsson sendi mér línu og sagðist aldrei hafa tekið eftir gígnum. Hann skoðaði hann í Google Maps og segir:

Þarna er mikið móberg (þetta er innan gamallar , mjög stórrar öskju) og svo gæti virst sem hálfhringlaga stykki hafi losnað úr fjallsbrúninni og skriðið fram til norð-vesturs og stöðvast þar. Úr lofti lítur þetta út eins og gígur, en frá hlið meira eins og stór sylla í fjallsbrúninni.

Google Maps er líklega af sama meiði og Google Earth sem ég notaði til að skoða gíginn nánar. Með því móti sést landslagið næstum því í þrívídd og því auðveldara að átta sig á hlutunum.

Google2

Á efri myndinni sem ég tók af Google Earth sést afstaða gígsins. Hann er nær efst á myndinni, vinstra megin við miðju, rétt ofan hamrabeltisins. 

Neðri myndin, einnig af Google Earth, sýnir gíginn miklu nær, hvernig hann situr á fjallsbrúninni rétt eins og þarna hafi orðið sprenging. Líklega eru skýringarnar af jarðfræðilegum toga svipað eins og Brynjólfur segir. Hins vegar sést ekkert af skriðunni en líka það hefur sínar skýringar þar sem hún kann að vera löngu gróðin eða horfin.

Gaman væri að heyra í fleirum sem kunna skýringu á þessu eða hafa komið á þessar slóðir. 



Skrýtinn gígur við Skarðsheiði

811019-11

Hann er furðulegur þessi gígur sem er á myndinni. Var að skanna slides-myndir og rakst þá á þessa. Myndin er tekin haustið 1981 í flugferð sem Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, sem þá var starfandi hjá Arnarflugi. Hann var í áætlunarflugi til Gjögurs og fannst einhvern veginn tilvalið að bjóða mér með.

Ég tók fjölda mynda í ferðinni, fæstar af þeim voru af nokkru gagni og notaði ég þær aldrei í útgáfu á tímaritinu Áfangar sem ég var með á þessum tíma en hafði þó ætlað mér það.

Svo fann ég þessa í gær. Gígurinn vakti athygli mína. Myndin er tekin skammt austan við Blákoll sem er fallegt fjall sunnan við Hafnarfjall í Leirársveit. Horft er til suðausturs og þarna er Skarðsheiði, Hvalfjörður og Botnsúlur.

Á litlu myndinni, sem tekin er úr kortasjá LMÍ, er gígurinn lengst til hægri. Nauðsynlegt er að smella nokkrum sinnum á myndina til að fá hana í góða stærð. Þá sést afstaðan miðað við þjóðveginn, en hann er lengst til vinstri.

Kort 3b

Ég varð strax dálítið spenntur og fór að ímynda mér tóma vitleysu. Fyrst datt mér í hug að þetta væri gígur eftir loftstein, en það getur nú varla verið. Svo róaðist ég. Líklegast er þetta forn gígur frá því land var þarna í mótun. Samkvæmt korti er gígurinn sporöskjulaga. Um 160 metrar á skammveginn og rétt rúmlega 200 á þann lengri.

Ekki veit ég hvort gígurinn hafi eitthvað nafn en vonandi er einhver sem þekkir betur til og sendir mér línu í athugasemdadálkinn. Á eftir að ganga á Hafnarfjall og Blákoll og þá er gígurinn í seilingarfjarlægð.


Bjóðum birninum rauðvín meðan beðið er

Þúsundir manna búa við Húnaflóa. Hver og einn af þeim getur verið í hættu. Því er aðeins ein regla, skjóta ísbjörn um leið og hann sést áður en hann veldur fólki eða búfénaði skaða. Ég ráðlegg öllum að hafa viðbúnað og fylgjast með umhverfinu. 

Undantekning frá þessari reglu er auðvitað til. Hún felst í því að ávarpa ísbjörninn kurteislega, bjóða hann velkominn til Íslands, kanna hvort hann hafi eitthvað tollskylt meðferðis og biðja hann loks að hinkra við þangað til skotmaður með deyfilyf og rimlabúr kemur frá Danmörku. Á meðan er sjálfsagt að bjóða birninum upp á rauðvín með ritz kexi og ostum og spjalla síðan dálítið um villt dýralíf.

Önnur ráð eru auðvitað til. Einhver sagði við mig að öruggast væri að vera ekki einn á ferð þegar maður mætir ísbirni, helst að vera með einhverjum sem hleypur hægar en maður sjálfur ...


mbl.is Gera hlé á leitinni í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur skýtur á ríkisstjórnina

En hvers vegna þessi ákafi að koma sök á Íslendinga? Getur verið að menn langi til að við förum halloka í þessu máli? Og hvað fjárhættuspilarana áhrærir, sem Fréttablaðið vísar til, þá er það staðreynd að við værum búin að greiða tugi milljarða í vextina sem Bretar og Hollendingar reyndu að þröngva upp á okkur ef þjóðin hefði ekki ákveðið að breyta um kúrs.

Þannig ritar Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, í niðurlagi pistils á heimasíðu hans. Þar gerir hann að umtalsefni undarlega forystugrein í Ólafs Stephensen ritstjóra Fréttablaðsins um Icesave málið. Ólafur fullyrðir að málarekstur fyrir EFTA dómsólnum ráði einhverju endurgreiðslur og vexti Íslendinga til Breta og Hollendinga.

Þetta er auðvitað rangt eins og Ögmundur segir í pistlinum. Það var þjóðin sem felldi tvo Icesave samninga í þjóðaratkvæðagreiðslu, samninga sem félagar Ögmundar í Vinstri grænum og kollegar hans í ríkisstjórninni ætluðu að þröngva upp á landsmenn. Skiptir engu þótt Ögmundur hafi verið á móti.

Í þessari ríkisstjórn, í þessum félagsskap, unir Ögmundur sér vel enda fer ráðherrastóllin vel með afturendann. Veitir nú ekki af því sparkið kemur bráðum og þá mun Ögmundur og aðrir ráðherrar endasendast út úr stjórnarráðinu enda bera þeir sameiginlega sök á klúðrinu frá síðustu kosningum.


ESB ætlar að beita Íslandi ofbeldi

Mann rekur í rogastans við að lesa viðtal Morgunblaðsins við sjávarútvegsstjóra Evrópusambandins, Maria Damanaki. Í því koma fram alvarlegar hótanir sem vissulega geta haft áhrif verði af þeim. Meðal refsiákvæða sem sjávarútvegsstjórinn nefnir eru þessi í þýðingu Morgunblaðsins:
  • Takmarkanir á magni innflutts fisks til Evrópusambandsins, þar með talið af stofnum sem snerta sameiginlega hagsmuni og tengdar tegundir.
  • Ákvæðin veita svigrúm til frekari aðgerða reynist upphaflegu aðgerðirnar ekki árangursríkar.
  • Takmörkun á notkun hafna í ESB fyrir skip sem sigla undir fána landsins eða svæðisins sem talið er stunda ofveiði.
  • Takmörkun á notkun hafna í ESB fyrir skip sem flytja fisk og sjávarafurðir úr stofnum sameiginlegra hagsmuna og tengdra tegunda.
Allt þetta gerist vegna þess að makríllinn virðir ekki landhelgi ríkja, flakkar um hafið eins og honum þóknast. Útflutningsverðmæti hans er mikill fyrir þjóðina því aðeins þorskurinn skilar meiri verðmætum af einstökum fisktegundum.
 
Evrópusambandið hefur skammtað sér 90% af heildaraflanum en bauð Íslendingum 6,5% hlut. Íslendingar hafa ekki samþykkt það heldur áætlað sér hlut upp á um 17%.
 
Íslendingar eru sakaðir um óábyrgar veiðar en engu að síður hafa skoskar útgerðir verið staðnar að því að landa miklum makrílafla framhjá vikt. Veiðar Evrópusambandsins eru meiri en vísindamenn ráðleggja en þeir skella skollaeyrum við því. Sambandið telur sig þess umkomið að skammta Íslendingum afla í veiðum á þeim fiski sem dvelur langdvölum í íslenskri lögsögu.
 
Til að standa sig í stykkinu gagnvart ríkisstyrktum útgerðum meðal annars á Bretlandseyjum ætlar Evrópusambandið í krafti stærðar sinnar að skaða Ísland efnahagslega vegna veiða sinna. Eflaust verður ESB í lófa lagið að stöðva að hluta eða öllu leyti innflutning íslenskra sjávarafurða og valda okkur miklu tekjutapi. Það sýnir þó aðeins hvernig ESB starfar og hversu lítið við megum okkur gagnvart kommisaraveldinu, skiptir litlu hvort við stöndum innan eða utan sambandsins, aflsmunur á að ráða.

Hvenær eru fjallamenn tjóðraðir?

Alparnir

Í fjölmiðlum er áberandi að sumarfríin eru byrjuð og nýliðarnir teknir við. Þetta datt mér fyrst í hug er ég las frétt á visir.is um fjallgöngumennina sem létust er þeir hröpuðu í svissnesku ölpunum. Í fréttinni segir að þeir hafi verið „tjóðraðir saman“.

Er þetta orðalag ekki dálítið heimskulegt ef það á að lýsa því að menn hafi gengið hver á eftir öðrum og haft á milli sín langa línu til öryggis?

Og af hverju er ég að pirra mig út af þessu? Einu sinni var ég byrjandi í blaðamennsku og gerði örugglega fjöldann allan af málfarsvillum í þeim fréttum er ég skrifaði. Ég man þó eftir því að á Vísi í gamla daga voru allar fréttir lesnar yfir. Stundum var að verki Elías Snæland Jónsson, sem þá var ritstjórnarfulltrúi. Oft kallaði hann á mig inn til sín og leiðbeindi mér. Sérstaklega hef ég haldið í heiðri þá aðferð er hann og fleiri héldu að mér að byrja fréttir vel.

Tjóður DSCN6059

Fréttin á vísi.is er vond. Blaðamaðurinn þarf að lesa bækur, margar, margar. Þannig verður til orðaforði og skilningur á tungumálinu. Minnir að það hafi verið Matthías Johannesen sem sagði einhvern tímann að sá sem ætlaði sér að skrifa góðan texta þyrfti árlega að lesa Sturlungu.

Sturla Þórðarson hefði líkast til aldrei byrjað setningu á „þá“:

Þá er talið að mennirnir hafi verið tjóðraðir saman þegar slysið átti sér stað.

Svo geta lesendur skemmt sér við að fletta upp á sögninni „tjóðra“. Ég er þess fullviss að hún á síst af öllu við um öryggislínu milli fjallgöngumanna. Eða skyldu göngumennirnir á meðfylgjandi mynd vera „tjóðraðir“?

Sáralítill áhugi á fótbolta í USA

Bandaríkjamenn hafa greinilega sáralítinn áhuga á fótbolta. Aðeins 1,3% landamanna horfðu á EM sem segir allt sem segja þarf.

Þó sjónvarpsstöðin ESPN haldi því fram að meiri áhugi hafi verið fyrir EM er þau orð aðeins til að sýnast.

Skyldu íslensku sjónvarpsstöðvarnar hafa bitist um að fá útsendingarréttinn frá EM ef aðeins fjögur þúsund Íslendingar (1,3% þjóðarinnar) hefðu áhuga á að horfa á leikina? Nei, varla. 

Annars er maður óskaplega hissa á þessu litla áhorfi Bandaríkjamanna. Fjölmiðlar hafa keppst við að segja okkur frá vaxandi áhuga þeirra en hann virðist þó enn vera afar lítill. Á móti kemur að sjálfsögðu að líklega er áhugi Bandaríkjamanna meiri fyrir heimamótum í fótbolta (soccer) en útlendum. Gera má ráð fyrir að miklu fleiri myndu horfa á heimsmeistarakeppnina ef landslið Bandarríkjanna væri að spila þar.


mbl.is Aukið áhorf á EM í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hægt að trúa nýjum flokki með ný loforð?

Skoðanakannanir lýsa einungis stöðunni á þeim tíma sem þær eru gerðar. Sé samræmi milli þeirra og úrslita í kosningum er það tilviljun eða engin breyting hefur orðið á milli. Þetta vekur enga undrun sé á annað borð rétt unnið úr könnunum.

Tilveran er margbreytileg en sumir geta fest sig inni í eigin hugsun án nokkurrar tengingar við umhverfið eða fólk hefur geta vistast í svo þröngum hóp að þegar niðurstöður kosninga eða skoðanakannana koma í ljós þá verður það hreint forviða. Þannig er líklega með Lilju Mósesdóttur. Hún skilur ekkert því því að hún fái ekki meira fylgi, svo fullviss er hún um sitt ágæti.

Flestir eru í eðli sínu íhaldsamir ... síst af öllu er fólk fífl. Nýjir flokkar spretta fram með ótrúlega lystaukandi tilboð eða loforð. Ótrúleg loforð geta oft verið of góð til að vera sönn.

Skoðum bara Hreyfinguna sem hét Borgarahreyfingin fyrir þau slagsmál sem enduðu með því að einn þingmaðurinn hraktist úr flokknum. Fyrir kosningar voru forystumenn flokksins með mikinn fagurgala og fengu út á það fjóra menn. Þá byrjaði baktalið, síðan viðskipti við ríkisstjórnina og nú er Hreyfingin með leynilegan samning um stuðning við hana. Vildu kjósendur Borgarahreyfingarinnar allt þetta? Varla.

Að mörgu leyti er Lilja Mósesdóttir dugandi þingmaður. Hún hefur komið með nokkur góð mál inn á þingið en er hægt að treysta henni fyrir öðru en það sem varðar fjármál heimilanna? Er hún ekki bara enn einn vinstri maðurinn sem klýfur flokk til að þjóna eigin hagsmunum? Mun hún ekki kljúfa sinn eigin ef hún lendir í minnihluta?

Ég er ekkert hissa á því að stóru flokkarnir fái betri útkomu í skoðanakönnunum en þeir nýju. Fólk er bara íhaldsamt og vill sjá hvernig þeim gengur áður en þeir krossa við flokk sem kann að vera með innantóm loforð.

Sjáum bara hvernig Besti flokkurinn í Reykjavík hefur reynst. Hann er hrikalegt víti til varnaðar.


mbl.is Furðar sig á fylgi flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæðan fyrir því að ég kaus Ólaf Ragnar

Stuðningur sjálfstæðismanna við Ólaf Ragnar Grímsson var almennur. Kunningi minn í heita pottinum sagði að á sjónum í gamla daga hafi nýliðum verið hastarlega ráðlagt að kyngja ælunni, annars gæti illa farið. Hann ráðlagði mér hið sama og kjósa Ólaf Ragnar sem og ég gerði. 

Ráðherrar, stjórnarliðar á Alþingi og víðar, ráða vart við sig. Endurkjör Ólafs Ragnars hefur kallað fram það versta í fari þeirra og nú leita þeir allra ráða til að sverta sjálfstæðismenn fyrir stuðninginn. Af þeim lekur ólundin og lyktina má finna víða.

Þeir hafa reiknað sig fram og aftur og komist að þeirri niðurstöðu að 69,2% kjörsókn sé ávirðing fyrir íhaldið og Ólaf Ragnar. Auðvitað kemur allur slíkur útreikningur kemur þeim í koll. Þeir gleyma um leið að kjörsókn til stjórnlagaþings var 35%. Og ríkisstjórnin sat sem fastast.

Ég er sjálfstæðismaður, hef fer aldrei í grafgötur með þá staðreynd. Ólafur Ragnar er eins langt frá Sjálfstæðisflokknum eins og hugsast getur. Hann var þingmaður sem barðist fyrir gildum sem ég virði en studdi ekki og mun væntanlega aldrei gera. Hann réðst iðulega á Sjálfstæðisflokkinn á afar ómálaefnalegan hátt og sakaði forystumenn hans um skítlegt eðli. Þó svo að nú hafi ég kosið þennan sama mann sem forseta lýðveldisins þýðir ekki að ég hafi slegið striki yfir fortíð hans og láti sem hún skipti engu máli. 

Ég kaus Ólaf Ragnar af því að hann spyrnti tvívegis við fótum þegar ógeðfelldasta ríkisstjórn Íslandssögunnar ætlaði að láta þjóðina kokgleypa Icesav-skuldirnar. Fyrir það kann ég honum þakkir fyrir enda málið gríðarlegt og varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Ólafur Ragnar er ekki óskeikull. Tíminn hefur sýnt að neitun hans að staðfesta fjölmiðlalögin 2004 voru mistök og þjóðin væri nú í betri stöðu hefði hann látið skynsemina ráða.

Þó svo að þjóðin geti þakkað fyrir að Ólafur skuli þrívegis hafa neitað að staðfesta lög er ekki svo að forsetaembættið sé einhvers konar öryggisventill. Síður en svo. Vandinn var einfaldlega ríkisstjórnin sem hagaði sér heimskulega. Við, þjóðin, eigum að hafa vit á því að velja okkur forystu af meira viti og yfirvegun en að hleypa slíkum kjánum að löggjafarsstarfinu.

Gleymum því ekki heldur að Ólafur Ragnar hefur reynt að breyta forsetaembættinu. Það getur ekki farið saman að æðsti embættismaður framkvæmdavaldsins skuli vera fengið það vald að eiga að staðfesta gerðir löggjafarvaldsins. Hversu mikið sem menn geta þakkað Ólafi Ragnari fyrir  Icesave og fjölmiðlalögin greip hann þar í öll skiptin inn í löglegt starf löggjafarþingsins og raskaði þar með þeim grunni sem stjórnskipun landsins stendur á. Þar af leiðandi ber knýjandi nauðsyn á því að endurskoða embætti forsetans í stjórnarskránni. Öryggisventilinn má hanna betur og koma fyrir annars staðar.

Hitt er svo allt annað mál að við sjálfstæðismenn höfum ástæðu til að bera höfuði hátt. Við getum endalaust hlegið að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar sem enn einu sinni fara halloka í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórninni hefur ekki aðeins tekist að hrekja frá sér helminginn af kjósendum sínum heldur líka sinn helsta bandamann, Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrum formann Alþýðubandalagsins. Hvaða slátur er þá eftir í liði stuðningsmanna?


Ríkisstjórnin eyðilagði framboð Þóru

Mér kom það mikið á óvart hversu kröftug og góð kosningbarátta Þóru Arnórsdóttur var. Hefði alveg treyst mér til að kjósa hana, en gerði það ekki.

Þóra kom afskaplega vel fram og málflutningur hennar var góður. Hún átti þó við þann djöful að draga sem er ríkisstjórnin. Án leyfis hertók Samfylkingin og stór hluti vinstri grænna yfir framboð hennar og gerði að sínu, þetta var svona óvinveitt yfirtaka svo orðalag úr viðskiptalífinu sér notað. Fyrir vikið átti Þóra aldrei nokkurn möguleika á sigri.

Greiningar á skoðanakönnunum sýndu þetta svo ekki var um að villast. Ríkisstjórnin vildi ekki Ólaf Ragnar áfram og því var Þóra sú sem á var veðjað. Þar með var var fjandinn laus. Greinahöfundar í blöðum, bloggarar og fjölmargir aðrir lögðu til atlögu við heiður Þóru og gerðu hana að ósekju að sérlegum frambjóðanda ríkisstjórnarinnar. 

Sé kosningabarátta Þóru skoðuð er ekkert sem bendir til þess að hún hafi verið ríkisstjórnarmegin, þvert á móti hún lagði upp með óháða kosningabaráttu sem allir hefðu geta samþykkt. Stefna hennar var falleg og góð en stjórnmálin eyðilögðu hana.

Í þokkabót er það rétt að ríkisstjórnin skemmdi kosningabaráttuna fyrir frambjóðendum með því að krefjast þess að þingið stæði fram til 18. júlí. Fyrir vikið hvarf kosningabaráttan í rykský alvarlegra mála á Alþingi. Meiri óvild og virðingarleysi var ekki hægt að sýna kosningum til embættis forseta lýðveldisins.


mbl.is Nýbökuð móðir viðurkennir ósigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólína í fýlu vegna lýðræðisins

Þeir geta ekki dulið vonbrigði sín og gremju vegna úrslita forsetakosninganna, þingmenn ríkisstjórnarinnar.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, reynir að krafsa í grafarbakkann og heldur því fram að kosning Ólafs Ragnars sé ekki „sannfærandi“. Og svo mikill er skilningurinn á fótbolta að hún ber þær saman við kosningarnar og heldur því fram að niðurstaðan sé gult spjald fyrir sigurvegarann.

Formaður þingflokks vinstri grænna, Björn Valur Gíslason, telur grætur mikið á bloggsíðu sinni og lemur á mótframbjóðendunum fyrir að hafa ekki reynst vera nógu kraftmiklir gegn Ólafi. Úr sömu ríkisstjórnargröf og Ólína heldur hann því fram líkt og hún að lítil kjörsókn sé ávirðing gegn Ólafi.

Þjóðinni er skemmt. Ríkisstjórnin situr nú uppi með forseta sem hefur reynst henni óþægilegur ljár í þúfu í stað þess að vera samstarfsmaður. Hann tók á síðasta kjörtímabili afstöðu með þjóðinni og það er ástæðan fyrir fýlunni í Ólínu og Birni Val. Þau mega reyna hvað þau geta til að sverta forsetann með misheppnaðri talnaspeki í bland við heimagerðar skýringar.

Skiptir sú skoðun Ólínar Þorvarðardóttur einhverju máli að forsetinn hafi fengið „35% atkvæðisbærra manna í landinu — þ.e. 52,8%  þeirra 69,2% sem yfirleitt skiluðu sér á kjörstað“? Hvað má þá segja um kjörsókn í kosningunum um stjórnlagaráðið.

Þá var kjörsóknin 36% en nú í síðustu forsetakosningum var hún 69%. Sé gult spjald núna á Ólaf Ragnar vegna kjörsóknar var þá ekki spjaldið rautt á ríkisstjórnina fyrir stjórnlagaráðskosningarnar? Munum svo eftir þjóðaratkvæðagreiðslunum um Icesave og veltum fyrir okkur litinn á spjaldinu sem ríkisstjórnin fékk þá. Hún fór bara í fýlu rétt eins og núna.

Svona hefur allt snúist í höndum ríkisstjórnarinnar, ekkert gengur lengur upp. Enn og aftur er lýðræðið orðið stjórnarliðum til mikilla leiðinda. 


mbl.is Segir kosningu Ólafs ekki sannfærandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ættin sem bera af í gáfum eða ...

Konungsveldi á heima í ævintýrum, rétt eins og galdrakallar og -kellingar. Sá fyrsti sem er valinn kann að vera foringi, en genin vatnast út, erfingjar hans eru bara eins og allir aðrir. Konungsætt verður aldrei sú sem af ber af gáfum eða einhverjum hæfileikum. Hún er uppsafn af tildri og hégómaskap, geymsla á fortíðarþrá. Framar öllu er konungsveldið svo langt frá lýðræði sem mest má vera. Eða hvað?

Þversögnin í þessu er þó sú að þetta er það sem margar þjóðir óska sér, meirihlutinn getur ekki hugsað sér annað. Stærsti hluti Breta vill halda í drottninguna sína, tekur ástfóstri við niðja hennar, elskar og hatar þá á víxl eftir því hvernig þeir axla erfðir sínar.

Þannig er þetta ábyggilega eins með Norðmenn, Svía, Dani, Hollendinga, Spánverja og alla hina. Er Spánverjar losnuðu við Frankó tóku þeir upp konungsveldi, lýðræðislega.

Þannig er nú mannskepnan, tómar þversagnir. Persónulega finnst mér konungsveldi tómt rugl en viðurkenni um leið rétt annarra til að halda í þannig fyrirkomulag.


mbl.is Vilja að Noregur verði lýðveldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Speki stjórnmálafræðingsins er viðbrugðið

Prófessor í stjórnmálafræði segir ýmis teikn á lofti um það að kjörsókn verði minni en venja hefur verið.

Halló ...! Er ekki ljóst að kjörsókn er núna miklu lakari en í fyrri kosningum. Þarf prófessor í stjórnmálafræði til að malbika eitthvað um málið?

Þetta er eins og það þurfi veðurfræðing til að fullvissa mann um að sól sé úti og hiti nær tuttugu gráður.

Og prófessorinn vill ekki fullyrða of mikið og segir að komi fleiri á kjörstað muni kjörsókn ábyggilega aukast. Og hann segir að betra sé að fara eftir tölum um kvöldmatarleytið.

Nú er ég ekki prófessor í stjórnmálafræði og síður en svo veðurfræðingur. Hitt get ég fullyrt með rökum að kjörsókn eykst eftir því sem fleiri mæta til að kjósa. Kjörsókn mælist auk þess betur samkvæmt tölum klukkan tíu í kvöld heldur en um kvöldmatarleytið

Og til að toppa þessa speki geti ég jafnframt fullyrt að það verði sól svo lengi sem ský skyggi ekki á.


mbl.is „Sinnuleysi gagnvart kosningum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver tapar á lélegri kjörsókn?

Minni kjörsókn gæti þýtt lakari útkoma fyrir Ólaf Ragnar Grímsson. Hann er með yfirburðastöðu samkvæmt skoðanakönnunum og stuðningsmenn hans kunna að vera værukærari en aðrir. Hins vegar má leiða að því líkum að stuðningsmenn Þóru Arnórsdóttur séu ákveðnari í því að skipta um forseta og með það á oddinum er líklegra að þeir mæti á kjörstað.

Þetta er svo gáfuleg útskýring að hún gæti hafa verið hnoðuð í bakaríi stjórnmálafræðings. Fleiri geta fleiþóri spekúlerað og lagt fram tilgátur. 

Það yrði aldeilis fár ef núverandi forseti tapar vegna lélegrar kjörsóknar. Nokkuð sem ekki var fyrirséð og alls ekki kom fram í skoðanakönnunum enda ekki spurt hvort kjósendur ætli yfirleitt að mæta á kjörstað þrátt fyrir fylgispekt við einhvern frambjóðanda.

Persónulega er ég nú nær fullviss að Ólafur Ragnar muni verða kjörinn, en ... 


mbl.is Minni kjörsókn hingað til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viljandi eða óviljandi gleymska

skilríki

Frambjóðendur í forsetakosningunum eru ekki með áróður á kjördag, sýnist mér. Það er virðingarvert en getur þó verið tvíbeint. Annars vegar skiptir miklu máli að hvetja fólk til að fara á kjörstað, gleyma ekki frambjóðandanum, eða þá að frambjóðendur verði andvaralausir gagnvart trixum annarra.

Þar sem ég hef menntun í markaðsmálum og hef talsvert starfað í almannatengslum pældi ég í því í gær hvernig frambjóðandi gæti vakið athygli á sér á kjördag. Minntist ég þá gamla brandarans úr „Íslenskri fyndni“. Kona nokkur var nokkuð utan við sig fór út í búð á inniskónum (sem líklega þótti hneyksli á sjöunda áratugnum). Eftirá var hún spurð hvernig henni hefði liðið þegar hún uppgötvaði þetta. „Það var svo sem ekkert mál,“ sagði hún. „Ég gekk bara dálítið hölt!“ ...

Mér datt í hug að Ólafur Ragnar hefði átt að koma með aðra hendina í fatla. Þá fengi hann góða umfjöllun í fjölmiðlum, allir myndu minnast axlarbrotsins. Þóra gæti þess vegna komið á inniskónum og sömuleiðis fengið fína umfjöllun og svo framvegis. Mér kom þó ekki í hug að láta frambjóðandann „gleyma“ persónuskilríkjum heima og fara þannig á kjörstað

Fínt trix, sárasaklaust og fjölmiðlar gleypa við því.

Auðvitað getur líka verið að ekkert misjafnt sé að baki þessarar gleymsku.

En var þá kosningastjórnin að gleyma sér ...?


Oflof

Sumir rita langt mál í dagblöð og bloggi og komast aldrei að efninu. Þeir eru til sem vilja rita knappt mál og þróa ósjálfrátt með sér stíl sem er í senn oft meiðandi og rangur. Svo eru snillingarnir til sem þurfa ekki mörg orð til að koma hugsun sinni til skila. 

Það gladdi undirritaðan nú í lokasennu kosningabaráttu að sjá tvo hlédræga heiðursmenn, þá Indriða á Skjaldfönn og Pétur lækni Pétursson, stíga fram á ritvöllinn, annar í Bændablaðinu 20. júní sl. og hinn í Morgunblaðinu þann 27. júní sl. og flytja sitt mál af rökfastri sanngirni, hógværð og mildi hins sanna mannasættis. Mikið happ er það Þóru Arnórsdóttur í hennar þunga róðri að eiga slíka háseta. 

Þetta er ábyggilega stysta greinin í Morgunblaðinu í morgun. Hún er eftir Lárus Helgason frá Kálfafelli í Fljótshverfi. Engin deili kann ég á manninum en tek ofan fyrir honum.

Í grein sinni grípur Lárus til gamals stílbragðs sem er í því fólgið að hæla þeim úr hófi fram sem hann vill ræða um. Forðum daga var stílbragðið kallað oflof. Oft greina menn ekki oflofið, halda það einfalt hól sem reynist svo vera hið argasta háð. Og lesandinn sem nær þessu glottir við tönn, en ég hló, gat ekki annað.

Lárus nefngreinir tvo menn og a milli línanna segir hann einfaldlega að þeir safni ekki mörgum atkvæðum fyrir sinn forsetaframbjóðanda, ef til vill þvert á móti. 

Steingrímur Thorsteinsson orti á sinni tíð:

Með oflofi teygður á eyrum var hann,
svo öll við það sannindi rengdust,
en ekki um einn þumlung hann vaxa þó vann.
Það voru'aðeins eyrun, sem lengdust.

 


Pólitísk látalæti Ögmundar

Lítil frétt á mbl.is vakti athygli mína í gær. Freyja Haraldsdóttir, fötluð kona, fær ekki að fara með aðstoðarmanni í kjörklefa í forsetakosningunum. Hún verður að þiggja aðstoð frá kjörstjórn ella fær hún ekki að kjósa. Freyja segist velja síðari kostinn. Ég skil hana vel. 

Þá stendur Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, upp og veifar ólmur til fjölmiðla og vill fá að komast að. Sá maður sleppir aldrei góðu tækifæri til að vekja athygli á sjálfum sér. Maðurinn telur sig umkominn að biðja fatlaða einstaklinga afsökunar að lögum hafi ekki verið breytt svo þeir geti farið í kjörklefann með aöðstoðarmanni að eigin vali. Í fjölmiðlum segist Ögmundur ætla að lagfæra þetta. 

Gott hjá manninum, hann, einn og sér er þess umkominn að breyta lögum um þessi efni. Alþingi og aðrir alþingismenn koma þar hvergi nærri.

Ögmundur Jónasson svaf á verðinum. Hann svaf sem alþingismaður og hann hefur sofið vært sem innanríkisráðherra, ekki sinnt starfskyldum sínum, er á sama báti og aðrir ráðherrar í þessari vondu ríkisstjórn.

Ögmundur veit mætavel að Sigurður Kári Kristjánsson fyrrum alþingismaður lagði margoft fram frumvörp til breytinga á kosningalögum þess efnis að fatlaðir gæti fengið að fara í kjörklefann með eigin aðstoðarmann. Mogginn segir frá þessu í frétt í morgun og getur um að Sigurður hafi lagt fram þessi frumvörp á árunum 2005, 2006 og 2010.

En Ögmundur veit ekkert um þetta, hann var sofandi, og það voru fleiri alþingismenn. Frumvörpin döguðu uppi á þinginu, fengu ekki afgreiðslu.

Núna er Ögmundur hins vegar glaðvaknaður enda telur hann sig geta vakið athygli og kannski atkvæði fyrir snöfurmannleg viðbrögð við vanda þeim sem Freyja Haraldsdóttir og fleiri eiga við að etja. Út af fyrir sig er það bara gott ef lögunum verði breytt, en drottinn minn, mann klígjar við pólitískum látalátum Ögmundar. 

Málið er að breyting á lögunum í haust gagnast engum í forsetakosningunum á laugardaginn. Eina ráðið er eins og Freyja segir sjálf í Moggafréttinni og hún á þar með rétt á því að kjósa núna:

Fyrir mér er það algjörlega augljóst að þegar lagaákvæði í almennum lögum gengur gegn mannréttindaákvæðum þá þarf það lagaákvæði að víkja.


Skrum forsetaframbjóðanda

Væri ég forseti hefði ég fyrir löngu borið mig saman við fólkið í landinu um hvort það vildi veita ákveðnum ráðherrum lausn. Þetta eru óvenjulegar aðstæður sem við glímum við í dag, og það getur þurft að taka á því með óvenjulegum lausnum, ef fólk bregst skyldum sínum og ábyrgð.

Halldór, teikn

Þetta segir forsetaframbjóðandinn Andrea Ólafsdóttir.

Ég skil alls ekki svona tal. Bera mig saman við fólkið í landinu ... Hvernig skyldi sá samanburður fara fram?

Auðvitað er þetta ekkert annað en lýðskrum, æfingar sem standast engan veginn skýringar fræðimanna á stjórnarskránni. 

Sem betur fer er frambjóðandinn ekki í nokkurri hættu að verða kjörinn. Svo er hún búin að opna bókhaldið sitt upp á gátt. Þar geta menn séð hverjir veittu henni þessar 30.000 krónur sem hún hefur fengið í styrki. 


Valdsvið forseta túlkað frjálslega

Forsetakosningar eru hins vegar ekki réttur vettvangur til þess að gera út um valdsvið forseta og þaðan af síður að það geti farið eftir því hver kjörinn er forseti hverju sinni, hvert valdsvið hans er talið.

Mér finnst þetta afar skynsamlega mælt og hefði nauðsynlega þurft að hafa komið fram fyrr í aðdraganda forsetakosninganna. Þannig er ritað, og mun meira af svipuðum nótum, í grein í Morgunblaðinu í morgun eftir sjö manns. Suma þeirra kannast ég dálítið við og ber mikla virðingu fyrir þeim. Höfundarnir heita: Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Garðabæ, Benedikt Jóhannesson, stæðrfræðingur, Hallgrímur B. Geirsson, hrl., Hörður Sigurgestsson, rekstrarhagfræðingur, Jarþrúður Ásmundsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri, og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi.

Þarna er tekið á umræðu sem fleirum en mér hefur gramist. Ég hef ekki getað skilið hvernig forsetaframbjóðendur geta túlkað stjórnarskránna eftir vild, leyft sér jafnvel að fullyrða að vald embættisins leyfi afskipti af löggjafarvaldinu. Rétt eins og sjömenningarnir segja í grein sinni þá verður forseti að gæta að þingræðisreglunni:

Samkvæmt þessu getur forseti yfirleitt ekki beitt valdi nema með atbeina ráðherra. Fljótt á litið mætti ætla að forseti réði nokkru um stefnu og aðstöðu ráðherra, þar sem hann samkvæmt 15. gr. stjskr. skipar ráðherra og veitir þeim lausn. En hér verður að gæta þingræðisreglunnar, sem áður hefur verið minnst á. Samkvæmt henni ber forseta, þrátt fyrir 15. gr. stjskr. að skipa ráðherra og veita þeim lausn í samráði við Alþingi eða meirihluta þess. Stjórnarathafnir ráðherra, sem tækju við skipun í ráðherraembætti eða sætu í ráðherrastóli andstætt vilja meirihluta þings yrðu að vísu formlega gildar en þeir mundu baka sér ábyrgð. Kæmi þá auðvitað til árekstra á milli þings og forseta og er hugsanlegt að þeir leiddu til frávikningar hans, ef þrír fjórðu þingmanna yrðu honum andstæðir.“ 

Ef til vill hefur þetta tímabil fram að forsetakosningunum verið svo leiðinlegt vegna þess að frambjóðendur hefa verið svo önnum kafnir við að túlka stjórnarskránna á þann hátt sem þeir halda að geti dregið að sem flesta kjósendur. Enginn hefur kunna neina hófsemi í þessum efnum nema ef til vill Ari Trausti Guðmundsson. Engin skemmtun er í því að horfa upp á hvern frambjóðendann á fætur öðrum tjá sig fjálgum orðum um alla mögulega útvíkkun á valdsviði embættisins.

Er það lausn að kippa lýðræðinu úr sambandi?

Eitt af því merkilegasta sem ég las í morgun var eftirfarandi á vef Heimssýnar, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum.

Evran gerir þjóðir gjaldþrota vegna þess að efnahagsleg mistök fá ekki leiðréttingu í gengi gjaldmiðilsins. Spánn getur ekki af eigin rammleik komið sér út kreppunni þar sem eina raunhæfa útgönguleiðin, gengisfelling, er lokuð.

Innri gengisfelling, þ.e. niðurfærsla launa og verðlags, tekur mörg ár að framkvæma. Forsenda innri gengisfellingar er að samstaða sé um það að þjóðin lifi um efni fram. Slík samstaða er nær ómöguleg því ólíkir þjóðfélagshópar ná ekki saman um slíka greiningu. Lýðræðislegar kosningar eru ekki til þess fallnar að leiða fram sameiginlega niðurstöðu.

Til að verja evruna verður að kippa lýðræðinu úr sambandi, líkt og gert var í Grikklandi - eins og Gavin Hewitt hjá BBC bendir á. 

Ríki gera vissulega mistök í efnahagsmálum sínum en oftar en ekki er alþjóðlegt umhverfi síst af öllu hagstætt rekstri þess. Ekki þurfa mistök að koma til, síður en svo. Rétt eins og hér á landi er það lífsnauðsynlegt að eiga möguleika á að leiðrétta gengi gjaldmiðilsins.

Margir andstæðingar krónunnar benda á að gengi hennar sé nú aðeins brot af virði hennar frá upphafi. Þetta er auðvitað í eðli sínu rangt vegna þess að gengið endurspeglar yfirleitt stöðu gjaldmiðilsins á hverjum tíma. annað eru bara einfaldara reikningsæfingar. Í tugi ára voru nær einu gjaldeyristekjur þjóðarinnar af sölu sjávarafurða, þær héldu þjóðinni á floti. Umhverfið var síður en svo auðvelt eða einfalt. Aflabrögð gátu verið mismunandi og einnig markaðir erlendis. Hvort tveggja leiddi til breytinga á gengi krónunnar. Hvað annað?

Ljóst má vera að komist einstök ríki í vanda með efnahagsmál sín þá geta þau stærri gert það líka sem og ríkjabandalög. Evrópusambandið og Evran eru ekki undanskilin. Vandinn er bara sá að einfaldara ætti að vera að stýra íslenskum efnahagsmálum en þeim þar sem tuttugu og sjö ríki koma saman með tuttugu og sjö eða fleiri kröfur um úrlausn mála. Má vera að slíkt sé vonlaust verkefni og því einfaldast að kippa lýðræðinu úr samanbandi og láta stjórnina kommiserunum í Brussel eftir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband