Skrýtinn gígur við Skarðsheiði

811019-11

Hann er furðulegur þessi gígur sem er á myndinni. Var að skanna slides-myndir og rakst þá á þessa. Myndin er tekin haustið 1981 í flugferð sem Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, sem þá var starfandi hjá Arnarflugi. Hann var í áætlunarflugi til Gjögurs og fannst einhvern veginn tilvalið að bjóða mér með.

Ég tók fjölda mynda í ferðinni, fæstar af þeim voru af nokkru gagni og notaði ég þær aldrei í útgáfu á tímaritinu Áfangar sem ég var með á þessum tíma en hafði þó ætlað mér það.

Svo fann ég þessa í gær. Gígurinn vakti athygli mína. Myndin er tekin skammt austan við Blákoll sem er fallegt fjall sunnan við Hafnarfjall í Leirársveit. Horft er til suðausturs og þarna er Skarðsheiði, Hvalfjörður og Botnsúlur.

Á litlu myndinni, sem tekin er úr kortasjá LMÍ, er gígurinn lengst til hægri. Nauðsynlegt er að smella nokkrum sinnum á myndina til að fá hana í góða stærð. Þá sést afstaðan miðað við þjóðveginn, en hann er lengst til vinstri.

Kort 3b

Ég varð strax dálítið spenntur og fór að ímynda mér tóma vitleysu. Fyrst datt mér í hug að þetta væri gígur eftir loftstein, en það getur nú varla verið. Svo róaðist ég. Líklegast er þetta forn gígur frá því land var þarna í mótun. Samkvæmt korti er gígurinn sporöskjulaga. Um 160 metrar á skammveginn og rétt rúmlega 200 á þann lengri.

Ekki veit ég hvort gígurinn hafi eitthvað nafn en vonandi er einhver sem þekkir betur til og sendir mér línu í athugasemdadálkinn. Á eftir að ganga á Hafnarfjall og Blákoll og þá er gígurinn í seilingarfjarlægð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Sigurður

Nú hef ég gengið talsvert á þessu svæði án þess að verða var við þennan gíg enda tekur maður sjálfsagt helst eftir honum á korti eða úr lofti (og þá er hann mjög greinilegur!).

Þetta er þó varla gígur í hefðbundinni merkingu, hvorki eftir eldgos né loftstein. Ef ég man rétt þá vantar þarna eina tvo kílómetra af jarðlagastafla ofaná sem ísaldarjöklar hafa rifið í burtu.

Þetta gæti verið óvenju stór gígtappi með mýkri kjarna, mishröð veðrun hefur svo skilið eftir sig gíglögunina. Af kortinu að dæma er "gígurinn" opinn til norð-vestur með n.k. "farvegi" þar sem efni gæti hafa skolast út. En best væri auðvitað að skoða þetta nánar.

Ég prófaði að skoða þetta í Google Maps, þar getur maður horft á fyrirbærið "frá hlið" úr vestri og þá líkist það reyndar frekar bergskriði en nokkru öðru. Þarna er mikið móberg (þetta er innan gamallar , mjög stórrar öskju) og svo gæti virst sem hálfhringlaga stykki hafi losnað úr fjallsbrúninni og skriðið fram til norð-vesturs og stöðvast þar. Úr lofti lítur þetta út eins og gígur, en frá hlið meira eins og stór sylla í fjallsbrúninni.

Ekki á ég heimangengt á næstunni til að skoða fyrirbærið en það gæti orðið næsta sumar, svæðið er óneitanlega skemmtilegt og fjallamyndanir norðan Blákolls og austan Hafnarfjalls eru mjög sérstakar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 6.7.2012 kl. 07:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband