Oflof

Sumir rita langt mál í dagblöð og bloggi og komast aldrei að efninu. Þeir eru til sem vilja rita knappt mál og þróa ósjálfrátt með sér stíl sem er í senn oft meiðandi og rangur. Svo eru snillingarnir til sem þurfa ekki mörg orð til að koma hugsun sinni til skila. 

Það gladdi undirritaðan nú í lokasennu kosningabaráttu að sjá tvo hlédræga heiðursmenn, þá Indriða á Skjaldfönn og Pétur lækni Pétursson, stíga fram á ritvöllinn, annar í Bændablaðinu 20. júní sl. og hinn í Morgunblaðinu þann 27. júní sl. og flytja sitt mál af rökfastri sanngirni, hógværð og mildi hins sanna mannasættis. Mikið happ er það Þóru Arnórsdóttur í hennar þunga róðri að eiga slíka háseta. 

Þetta er ábyggilega stysta greinin í Morgunblaðinu í morgun. Hún er eftir Lárus Helgason frá Kálfafelli í Fljótshverfi. Engin deili kann ég á manninum en tek ofan fyrir honum.

Í grein sinni grípur Lárus til gamals stílbragðs sem er í því fólgið að hæla þeim úr hófi fram sem hann vill ræða um. Forðum daga var stílbragðið kallað oflof. Oft greina menn ekki oflofið, halda það einfalt hól sem reynist svo vera hið argasta háð. Og lesandinn sem nær þessu glottir við tönn, en ég hló, gat ekki annað.

Lárus nefngreinir tvo menn og a milli línanna segir hann einfaldlega að þeir safni ekki mörgum atkvæðum fyrir sinn forsetaframbjóðanda, ef til vill þvert á móti. 

Steingrímur Thorsteinsson orti á sinni tíð:

Með oflofi teygður á eyrum var hann,
svo öll við það sannindi rengdust,
en ekki um einn þumlung hann vaxa þó vann.
Það voru'aðeins eyrun, sem lengdust.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha.. kannast við þessa báða drengi og hvorugur getur kallast hlédrægir.  Visan er líka algjörlega frábær.  Takk fyrir þetta gullkorn Sigurður.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.6.2012 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband