Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2015

Þannig er Sighvatur Björgvinsson misskilinn

Forðum var sagt á niðurlægjandi hátt að einhver reiddi ekki vit sitt í þverpokum. Þá var hreinlega átt við að sá væri nú frekar illa gefinn. Þetta datt mér í hug þegar ég las grein eftir Sighvat Björgvinsson í Morgunblaði dagsins. Síst af öllu ætla ég að frýja honum vits enda hefur hann verið bæði þingmaður og ráðherra og það sem meira er formaður Alþýðuflokksins eftir að hann var lagður niður. Lakara er með mitt eigið vit og skilning því ég hreinlega átta mig ekki á grein Sighvats.

Greinin er skrifuð af miklum þrótti, eldmóði og á vönduðu máli um forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson og afstöðu hans. Við, almenningur, erum svo óskaplega vanir því að gamlir vopnabræður forsetans ráðist á hann enda hafa þeir ekki gleymt þeirri því er hann gerði út af við Icesave stefnu fyrri ríkisstjórnar, henni til mikils álitshnekkis.

Og hvað veit maður um Sighvat þó hann segist sammála forsetanum um að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu vegna trúmála? Hann gæti svo sannarlega verið að blöffa og í kaldhæðni þóst sammála verandi þó algjörlega á móti orðum forsetans. 

Ég þurfti að lesa greinina þrisvar til að reyna að skilja en gafst eiginlega upp. Sighvatur segir í greininni:

Oft hefi ég verið ósammála forseta vorum, stundum mjög ósammála, en þó svo hafi verið hefi ég aldrei krafist þess að hann þegði um sínar skoðanir. Ég hef krafist þess og mun krefjast þess áfram að hann hagi orðum sínum án ofstopa, án fúkyrða, án öfga og án stóryrða og illmælgi - með öðrum orðum án alls þess sem framar öllu öðru einkennir tjáskipti ósköp venjulegra Íslendinga á samfélagsmiðlum og í kommentakerfum.

Þegar þarna var komið sögu var ég algjörlega viss um að Sighvatur væri nú að „blammera“ forsetann fyrir eitthvað sem ég átta mig ekki á.

Það truflaði mig líka að ég aldrei vitað annað en að Ólafur Ragnar hafi hagað orðum sínum afar prúðmannlega, það er allt frá því að honum varð það á að segja Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, haldinn „skítlegu eðli“. Það voru augljós mistök auk þess að vera einfaldlega rangt. Ég er þó viss um að eftir Icesave hefur Davíð áreiðanlega fyrirgefið Ólafi þessi mistök.

Víkjum aftur að grein Sighvats. Hann segir líka eftirfarandi í greininni:

Ég er sammála forsetanum, að ekki eigi að taka við fjármunum frá Saudi-Arabíu til nokkurrar starfsemi hér á landi, sem varðar trúmál eða uppfræðslu um trúmál. Þeir, sem efast, ættu að kynna sér hvernig grundvallarskoðanir þær eru, sem Wahhabitar byggja alla trúarbragðafræðslu sína á en Saudi-Arabia er miðstöð þeirrar greinar sunni-islams sem wahhabitismi er.

Nákvæmlega þarna taldi ég pottþétt að Sighvatur væri úti að aka. Var hann ekki rétt á undan búinn að halda því fram að hann væri oft ósammála forsetanum?

Í þriðja yfirlestrinum áttaði ég mig þó á því að hugsanlega væri maðurinn á góður róli en mig skorti gáfur til skilnings. Til dæmis efaðist ég í fyrsta yfirlestri um að Sighvatur sé, þrátt fyrir orð hans, sammála forsetanum. Hins vegar get ég ómögulega farið að kynna mér Wahhabita í Saudi-Arabíu til að skilja hvernig hann sé sammála. Finnst þetta ærið langsótt krafa.

Þá benti góður maður mér á að efinn í þessu sambandi stæði ekki upp á að Sighvatur væri sammála forsetanum heldur ætti hann við ástæðuna fyrir því að hann væri á móti stjórnskipulaginu í Saudi-Arabíu og kennisetningavaldi trúarinnar sem þar ríkir.

Má vera að þetta sé rétt hjá útskýranda mínum. Sé svo er um að ræða sögulegar sættir Sighvats og Ólafs Ragnars að ræða, að minnsta kosti hjá þeim fyrrnefnda. Þó held ég að Hvati hafi ekki enn fyrirgefið forsetanum fyrir að hafa brugðið fæti fyrir Icesave stefnu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og fyrr frjósi í Hel en það gerist.

Að lokum er vert að biðjast afskökunar ef lesandinn á erfitt með að skilja efni þessa pistils. Það er fráleitt honum að kenna. Málið er að ærið fátt er í þverpokum mínum. Þess vegna reynir maður að skrifa fullorðinslega um hluti sem maður hefur engan skilning á.


Ruglið í Þóru Tómasdóttur um forsetann

Hann ætlar enn og aftur að taka sér það hlutverk að vera hlífisskjöldur yfir viðkvæmri þjóð. Hann ætlar að leiða okkur í gegnum þetta því við erum svo taugaóstyrk. Við þurfum bara lýðræði,“ segir Þóra en ekki karl á áttræðisaldri til að leiða íslensku þjóðina í gegnum þessa tíma.

Þetta eru orð Þóru Tómasdóttur í endursögn visir.is en konan var í umræðuþættinum Eyjunni á samnefndum vefmiðli. Ekki þekki ég nein deili á henni en man hana úr Kastljósi Ríkissjónvarpsins. Hún er að tala um forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson, og hugsanlegt framboð hans í forsetakosningunum næsta vor.

Eiginlega finnst mér þetta svo heimskuleg ummæli að ég hreinlega trúi því ekki að nokkur maður hafi látið þau út úr sér. Hver er tilgangurinn með að draga aldur Ólafs Ragnars inn í umræðuna ef ekki til að reyna að niðurlægja hann og gera lítið úr honum. 

Og hversu gáfulegt er að segja í sömu andrá að við þurfum lýðræði en ekki karl á áttræðisaldri ... Aldur einstaklinga og stjórnskipulag á ekkert sameiginlegt. Lýðræðið verður ekkert meira eða tryggara ef fólk á áttræðisaldri verði bannað að bjóða sig fram í forsetakosningum. 

Raunar held ég að það sé þjóðin þarfnist nauðsynlega ráð og stjórnvisku öldunga en bráðræði og fljótfærni óreyndra sem eðli máls vegna eru yfirleitt frekar ungir að árum.

Annars skil ég ekkert í hávaða og upphlaupi vegna Ólafs Ragnars Grímssonar. Hann hefur staðið sig frábærlega vel í embætti, það viðurkenni ég, þó ég hafi ekki kosið hann í upphafi.

Mér sýnist að liðið sem vildi að þjóðin samþykkti Icesave sé núna komið í hart gegn sínum gamla vopnabróður og samherja. Ætla að launa honum lambið grá. Við hin sem vildum í upphafi ekki Ólaf Ragnar erum sátt við hann.


Svartur föstudagur fyrir íslenska tungu

Nokkuð hefur verið rætt um „Black Friday“ tilfellið sem óð yfir landsmenn á föstudaginn var. Hér er enn á ný um að ræða landnám amerískra verslunarhátta hér á landi. Áður höfðu numið hér land „Valentínusardagurinn“, „Halloween“, „Tax Free“ og ábygglega margt fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.

Máttur auglýsinganna er mikill. Um það fer enginn í grafagötur. Fæstum agnúast þó út í það sem þeir hugsanlega geta hagnast á. Þar renna saman hagsmunir kaupmanna og neytenda. Fyrst svo er mætti halda að báðir þessir hagsmunaaðilar gætu sameinast í því að tala íslensku og viðhalda henni.

Staðreyndin er sú að íslenskunni fer hnignandi. Ekki endilega vegna þess að verið er að sletta ofangreindum orðum í söluræðum heldur miklu frekar vegna þess að yngra fólk er farið að nota ensku eins og hún sé móðurmálið.

Þetta sést mætavel á Facbook. Fæstir hafa við að þýða snjallar tilvitnanir á ensku heldur birta þær orðréttar. Slettur úr öðrum tungum eru mun sjaldgæfari.

Ég held að íslensk kennarastétt standi sig ekki sem skyldi. Ef hún gerði það væri ungt fólk almennt vel máli farið og legði alúð í mál sitt, væri vel lesið og vel skrifandi. Svo er því miður ekki og má greinilega sjá þetta meðal ungra blaða- og fréttamanna. Verst er þó að enginn leiðbeinir.

Höfuðborgarbúar ættu að ganga niður Laugaveginn í Reykjavík. Ábyggilega 90% nafna á verslunum, veitingastöðum og hótelum eru á ensku. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, líklega til að auðvelda útlendingum valið. Þetta er engu að síður mikill misskilningur. Ég hef farið nokkuð víða utan Íslands og finnst lítið tiltökumál þó ég langflest nöfn á veitingastöðum, hótelum og verslunum í Aþenu séu á grísku, á Spáni er spænskan ráðandi og á Ítalíu er það ítalskan. Myndi nokkur Frakki með réttu ráði nota enskt nafn á verslun sína eða veitingastað?

Hvers vegna erum við Íslendingar svona enskuskotnir? Er íslenskan ekki nógu góð?

„Thanksgiving Day“ hefur á íslensku fengið nafnið Þakkargjörðarhátíð. Var þessi þýðing erfið eða flókin? Nei, en um það snýst ekki málið. Hvorki að þýðing úr ensku og yfir á íslensku sé einhverjum vandamálum bundin né heldur að við þurfum að taka útlenda siði og festa þá í gildi hér á landi. Í fljótu bragði sýnist þetta ástfóstur á erlendum siðum byggjast á skorti á þjóðlegri sjálfsvitund. Þegar málið er nánar skoðað horfum við bara of mikið á amrískar bíómyndir og undirmeðvitundin heldur að við séum ekki lengur íslensk.


Af hverju er lögreglan hvergi sjáanleg?

DSC_1961Eitthvað mikið virðist að í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og það bætir ekki úr skák að lögreglan virðist víðsfjarri. Eða ágæti lesandi, hvenær sástu síðast lögreglubíl á ferli? Sá sem þetta ritar hefur ekki séð lögreglubíl langa lengi og allra síst við eftirlit.

Hér eru nokkur atriði sem ég hef verið dálítið hugsi út af og hef áður nefnt í þessum pistlum:

  1. Aðfararnótt fimmtudags og laugardags átti ég erindi um bæinn og aldrei sá ég lögreglubíl. Líklega er óhætt að spara sér leigubíl og aka bara fullur á aðventunni.
  2. Æ oftar taka ökumenn áhættuna og aka yfir á rauðu ljósi eftir að hafa „rétt misst“ af því græna eða gula.
  3. Svo virðist sem annar hver ökumaður sé í símanum og megi ekkert vera að því að fylgjast með því sem er að gerast í kringum þá. Oftar en ekki eru þetta atvinnubílstjórar og svo ungar stelpur. Oft hefur mér dottið í hug að taka myndir af þessum bílstjórum í símanum, en þá er maður líklega kominn í sama hóp.
  4. Akstur á vinstri akrein er leiðinda ósiður. Svo virðist sem allir telji sér heimilt að aka þar í hægðum sínum. Líklega myndi umferðin ganga fimm sinnum hraðar ef ökumenn ækju á hægri akrein nema rétt til að fara framúr eða þegar komið er að því að beygja til vinstri.
  5. Stefnuljós eru líkast til í ólagi á flestum bílum, sjaldnast sjást þau í notkun.
  6. Viðbragðsflýtir margra ökumanna er hrikalega lítill. Hver hefur ekki lent í því að vera annar í röðinni á beygjuljósi og ekki komast yfir vegna þess að sá á undan tók ekki eftir ljósunum fyrr en grænt breyttist í rautt.

Gott væri nú að löggan myndi vakna af dvala sínum og fara út í eftirlit. Á námsárunum starfaði ég á sumrin sem lögreglumaður. Þá var hluti af vinnunni að ganga niður Laugveginn, láta almenning sjá sig. Af sömu ástæðu voru menn á lögreglubílum settir í eftirlit í ákveðnum hverfum. Svo voru lögreglumenn settir til að fylgjast með hættulegum gatnamótum, í hraðamælingar eða hreinlega til að fylgjast með umferðinni í akstri.

Sú stefna er góð að lögreglan sé sýnileg öllum stundum sólarhringsins. Það eykur traust almennings og fælir um leið misindismenn frá starfa sínum.

Nú virðist löggan hvergi vera sýnileg. Má vera að hún eigi ekki fyrir bensíni á löggubíla eða þeim háir slæmska í fótum.

Til að fyrirbyggja misskilning skal tekið fram að myndina hér fyrir ofan tók höfundur úr farþegasæti bifreiðar. Myndin sýnir ekkert misjafnt, er bara til skrauts.


Birtutíminn lengist ekki þó klukkunni verði flýtt

Sú hugsun að gott sé að breyta klukkunni svo bjartara verði fyrr á daginn er skiljanleg. Hugsunin gengur þó frekar skammt. Í dag er birtutíminn rétt rúmar fimm klukkustundir. Hann lengist ekki við það að breyta klukkunni. 

Margir óska sér að bjartara verði fyrr á daginn, það er í dag verði sólarupprás kl. 9:37 í stað 10:37.

Afleiðingin verður þá einfaldlega sú að síðdegis skellur myrkrið fyrr á, það er rétt rúmlega klukkan þrjú í stað um fjögur.

Auðvitað eru þeir til sem vilja frekar bjartari morgna en dagurinn verður því miður ekkert lengri þó við breytum klukkunni. Í dag höfum við aðeins þessar fimm klukkustundir til ráðstöfunar og myndum við breyta henni þannig að sólarupprás verði klukkan átta þá er bara komið myrkur klukkan tvö. 

Í sannleika sagt skiptir einn klukkutími til eða frá að morgni dags sáralitlu nema að því leiti að myrkrið verður fyrr á ferðinni síðdegis.

Fólk sem telur skammdegið ógna sálarheill sinni verður einfaldlega að finna aðrar leiðir til að takast á við vanda sinn heldur en að krefjast breytingar á klukkunni.

Enn er tæpur mánuður til 21. desember og myrkrið sækir á. Eftir það eru aðeins þrír mánuðir í jafndægur. Þannig hefur það verið æði lengi, lengur en elstu menn muna.


mbl.is Dagsbirtan með breyttri klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk Anonymous eru tilraun til kúgunar og því glæpur

Svokallaður aðgerðarhópurinn Anonymous telst vera pólitískur sértrúarhópur sem hefur umfangsmikla sérþekkingu á tölvutækni og internetinu. Hann er eins og önnur glæpasamtök, mafían, Daesh eða Isis í heimi íslamista. Hópurinn telur hefndina vera sína af því að hann hefur tæknikunnáttu til að beita henni. 

Mafían kúgar þá sem henni sýnist með hótunum, ofbeldi, skemmdarverkum og jafnvel drápum.

Eflaust getur Anonymous réttlætt gerðir sínar en þetta eru einfaldlega ofbeldissamtök sem ráðast á þá sem pólitísk löngun þeirra beinist að. Tilgangurinn er að skaða, valda truflunum og skemma. Þetta er mafíustarfsemi, hryðjuverkasamtök

Ekki frekar en íslamistar virðir Anonymous fullveldi þjóða, sjálfsákvörðunarrétt þeirra eða hagsmuni. Íslensk stjórnvöld hafa leyft hvalveiðar með vissum skilyrðum. Ég er ósammála þessum veiðum, en stjórnskipulag okkar byggist á lýðræðislegum hefðum og rödd mín má sín lítils á móti meirihlutanum og því sætti ég mig við niðurstöðuna þó enn sé ég á annarri skoðun.

Daesh, Al Kaida og álíka samtök sendir ungt fólk til að drepa annað í ríkjum sem teljast til heiðingja og fullyrða um leið að dráp á öðru fólki sé spámanninum Múhameð þóknanleg og jafnvel réttlætt í hinni heilögu bók Kórarninum. Milljónir manna sömu trúar mótmæla þessu og benda á rök í Kóraninum sem eru eru algjörlega á móti manndrápi. 

Anonymous sendir fólk til hermdarverka rétt eins og mafían og Daesh. Öll þessi þrjú glæpasamtök reyna hvað þau geta til að fela nöfn sín og komast því upp með að valsa um frjáls lönd og valda skaða og eyðileggingu og sum þeirra drepa fólk. Fjöldi fólks með þekkingu á tölvutækni og interneti eru á móti aðgerðum Anonymous.

Fæstir halda því fram að allir þeir sem búa yfir umfangsmikilli tölvuþekkingu séu sjálfkrafa glæpamenn eins og Anonymous.

Þeir eru engu að síður til sem telja alla Íslamstrúar sjálfkrafa vera hryðjuverkamenn og morðingja.


mbl.is Listi yfir íslensku skotmörkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taka þarf upp vegabréfaskoðun á Schengen svæðinu

Schengensamstarfið er miklu, miklu meira en bara að fylgjast með ytri landamærum svæðisins. Til þess að samstarfið og kerfið virki fullkomlega þarf að vera mjög virkt innra eftirlit, þ.e. eftirlit lögreglu innan landamæra hvers ríkis fyrir sig og í samvinnu við lögreglu annarra landa. Þetta innra eftirlit er það sem hefur brugðist, a.m.k. á Íslandi, vegna þess að lögreglan hefur þurft að skera svo mikið niður. Löngu er orðið tímabært að snúa þeirri þróun við og þær 400 milljónir sem samkvæmt fréttum á að leggja í löggæslumál til viðbótar, er að mínu mati langt frá því að vera nóg, þó skrefið sé virðingarvert.

Þetta segir Marinó G. Njálsson, ráðgjafi, á Facebook síðu sinni þar sem hann fjallar um Schengen-samstarfið. Vissulega er þetta samstarf mikilvægt en engu að síður hefur það verið gagnrýnt og þá sérstaklega á þessu ári enda virðist sem svo að glæpamenn af ýmsu tagi hafi getað nýtt sér frjálsa för milli landa í Evrópu til að stunda iðju sína nær truflunarlaust og þar á meðal á Íslandi. Sama á við um þá glæpastarfsemi sem hingað til hefur verið flokkuð sem hryðjuverk.

Á sama tíma og Marinó ræðir um kosti Schengen er vitnað í Morgunblaðs dagsins til fyrrverandi forstjóra Interpol, Ronald K. Nobel sem segir í viðtali við New York Times á forsíðu, í frétt á innsíðu og í leiðara:

Opin landamæri án viðeigandi eftirlits með skilríkjum eru vatn á myllu hryðjuverkamanna. Það er einfaldlega óábyrgt að kanna ekki gaumgæfilega öll vegabréf eða kanna auðkenni við landamæri á tímum alþjóðlegrar hryðjuverkaógnar,« skrifar Noble og bætir við að eftir 14 ár sem æðsti stjórnandi Interpol viti hann að mun líklegra sé að hryðjuverkamönnum takist ásetningsverk sín svo lengi sem ríki kanna ekki almennilega skilríki þeirra sem fara yfir landamæri þeirra.

Hér hefur verið vitnað til tveggja manna sem ágætlega til þekkja. Sú skoðun heyrist engu að síður að Ísland ætti að hætta í Schengen-samstarfinu og eru rökin einkum þau að vegbréf ferðamanna séu ekki skoðuð í þeim mæli sem þau ættu að vera. Flestir gera sér grein fyrir þessum galla og svo virðist sem að nú sé unnið að endurbótum.

Afdráttarlaus skoðun fyrrum forstjóra Interpol vekur engu að síður mikla athygli, ekki síst vegna þeirrar sérstöðu sem Bretland hefur en það stendur utan Schengen. Í leiðara Morgunblaðsins segir:

Noble segir að opin landamæri Evrópu, sem geri mönnum kleift að ferðast á milli 26 landa án vegabréfaeftirlits eða landamæravörslu, sé „í raun alþjóðlegt vegabréfalaust svæði þar sem hryðjuverkamenn geta framið árásir á meginlandi Evrópu og komist undan“.

Þetta segir hann augljósasta lærdóminn af skelfilegu hryðjuverkaárásunum í París á dögunum, en jafnframt þann sem bjóði upp á einfalda lausn: „Það ætti að leggja til hliðar hin opnu landamæri, og hvert og eitt af þátttökuríkjunum ætti tafarlaust að bera öll vegabréf kerfisbundið saman við gagnagrunn um stolin og glötuð vegabréf sem alþjóðlegu lögreglusamtökin Interpol halda úti.“

Noble segir ekkert ríkjanna hafa skimað vegabréfin í aðdraganda nýjustu árásanna, og segir svo: »Þetta er líkt því að hengja upp skilti þar sem hryðjuverkamenn eru boðnir velkomnir til Evrópu. Og þeir hafa þegið þetta heimboð.«

Noble bendir á að Bretar, sem hafi byrjað að bera vegabréf saman við gagnagrunn Interpol í kjölfar hryðjuverkaárásanna 2005, skoði nú um 150 milljón vegabréf á ári, meira en öll hin ríki Evrópusambandsins samanlagt, og finni þannig meira en 10.000 einstaklinga á ári sem séu að reyna að komast inn í landið.

Staðreyndin er sú að opin og lýðræðisleg samfélög í Evrópu eru miskunnarlaust misnotuð af glæpamönnum undir margvíslegu yfirskini, meðal annars trúarlegu. Ekki er hægt að búa við slíkt, það liggur í augum uppi. Ef eftirlit Schengen-svæðisins hefur brugðist að þessu leiti þarf að lagfæra misfellurnar og bregðast við af hörku. Sé niðurstaðan sú að taka upp vegabréfaeftirlit að nýju þá verður svo að vera.

Allir vita hvernig Bandaríkjamenn taka á móti gestum sínum og víst er að ekki eru allir sáttir við meðferðina. Tilgangurinn er engu að síður skýr og hið sama eiga Evrópuríki að gera. Flestum ferðamönnum ætti að vera sama þó það taki einhvern tíma að komast inn í annað land ef tilgangurinn er öryggi allra.

Vegabréfaskoðun sýnilegur þáttur í öryggismálum og hefur án efa fyrirbyggjandi afleiðingar enda ljóst að því oftar sem vegabréf ferðamanna eru skoðuð er líklegra að upp komist um glæpamenn sem þegar eru á skrá. 


Leg þingmanns, kjálki karla og virðisaukaskattur

Margt er mannanna meinið og mörg eru útgjöld fólks. Síst af öllu skal gert lítið úr þörf kvenna á hreinlætisvörum. Hins vegar má gera athugasemdir við markaðssetningu á skoðunum Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartar framtíðar, sem svo grípandi nefnir það að verið sé að skattleggja á henni legið“. Dömubindi og túrtappar bera virðisaukaskatt rétt eins og allflest annað. Dálítið snjallt að vekja svona athygli á hagmunamáli sínu.

Þessi skoðun er engan vegin ný. Minna má að sósíaldemókratar í Svíþjóð kröfðust á áttunda áratugnum að dömubindi ættu að vera ókeypis í verslunum landsins. Ekki náðist samstaða um það heldur lognaðist málið út af.

Hér á landi hefur þeirri skoðun vaxið ásmegin að fatnaður fyrir börn ætti að vera í lægra skattþrepi virðisaukaskatt eða vera undanþegin honum. Margvísleg rök standa til þess sérstaklega þau að skattur á selda vöru þykir allt of hár.

Karlmenn geta ómögulega lagst gegn skattlagningu á legi Heiðu Kristínar Helgadóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar. Slíkt væri hin mesta ómennska auk þess sem fæstir myndu vilja rökæða við þingmanninn um legið hennar. Aftur á móti væri það ágætis búbót fyrir flest heimili ef legskatturinn væri aflagður.

Einnig væri það guðsþakkarvert fyrir oss karlmenn ef skattur á kjálka vora og efri vör yrði aflagður. Nógu andskoti dýr eru tól til þessara hluta og tengdar vörur. Góður maður skaut því að ritara að árlegur kostnaður hans vegna raksturs sé 57.500 krónur. Nú er afar misjafnt hversu skeggvöxtur er hraður og einnig hversu hraustleg skeggrótin er. Sumir þurfa að raka sig daglega meðan öðrum dugar að þrisvar í viku eða svo. Svo leggja margir upp úr nokkurra daga skeggvexti og þeirri prýði sem slíkt þykir og gjörir marga unglegri en raun er á. Og loks vilja margir leyfa skeggi sínu að vaxa að vild en aðrir snyrta það á ýmsan hátt. Svo eru þeir til sem nota rafmagnsrakvélar, þær eru engu að síður nokkuð dýrar.

Niðurstaðan af ofangreindu er síst af öllu sú að gera lítið úr legi þingmanns Bjartrar framtíðar eða annarra kvenna og þaðan af síður kostnaði vegna þess (óskiljanlegt að ritari telji sig hér knúinn að gera einhvern fyrirvara á skrifum sínum).

Hið stóra mál sem flesta skiptir öllu er að skattheimta ríkisins á seldum vörum í þjóðfélaginu sé hófleg, hvort heldur um sé að ræða dömubindi, rakblöð, barnaföt eða annað. Það stuðlar að betra þjóðfélagi að eyðslufé fólks nýtist sem best til þeirra hluta sem það vill kaupa í stað þess að allt að fjórðungur af verði hverrar vörur sé sjálfvirkt ríkiseign.

Ráð er að þingmaður Bjartrar framtíðar liti til þessa í stað þess að einblína á leg sitt.


mbl.is 65.500 í skatt fyrir að vera á túr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brot af verkum leiðinlegustu og verstu ríkistjórnar Íslands

Trúði einhver því þegar háværar raddir kröfðust þess að pólitísk umræðuhefð á Íslandi breyttist? Trúði því einhver þegar þess var krafist að alþingismenn ynnu saman í því að setja lög, hættu skítkasti og flokkspólitískri hagsmunagæslu?

Ég verð að viðurkenna að ég var einn þeirra sem sá eftir hrun fram á betri daga í íslenskum stjórnmálum, eldmóð, málefnalegar rökræður og stefnumörkun sem byggði á þörf fólks og fyrirtækja hér á landi.

Nei,þetta rættist ekki. Þeir sem fóru um með háværum kröfum um breytta umræðuhefð var lið eins sem núna leyfir sér ótrúlegan munnsöfnuð á þingi og leiðindi sem hefur þær afleiðingar að almenningur gerist æ fráhverfari stjórnmálum.

„Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt til þess að vita að við erum komin á síðari hluta kjörtímabilsins því að ég má bara til með að orða það hér í ræðustól Alþingis: Óskaplega leiðist mér þessi ríkisstjórn.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í bloggi sínu á Pressunni. Hún er ein af þessum gamaldags stjórnmálamönnum sem lítið spreyta sig við að vinna með öðrum heldur heggur mann og annan þegar vel liggur við höggi. Ugglaust er það ágætt tómstundagaman en lítt áhugavert í stjórnmálum.

Gleymum því ekki að Svandís Svavarsdóttir var þingmaður og ráðherra í ... tja, hvað á maður að segja annað en ... leiðinlegustu og jafnframt verstu ríkisstjórn í samanlagðri stjórnmálasögu Íslands.

Hér fer einstaklega vel á því að rifja hér upp örlítið brot af leiðindunum sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms mengaði þjóðfélagið með í heil fjögur ár:

  1. Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra: Hæstiréttur dæmdi 2011 að umhverfisráðherra hafi ekki haft heimild til að hafna tillögu sveitarstjórnar Flóahrepps um aðalskipulag sem gerði ráð fyrir virkjun við Urriðafoss.
  2. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í ágúst 2012 að innanríkisráðherra hefði brotið lög er hann skipaði karl en ekki konu í embætti sýslumanns á Húsavík.
  3. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra: Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði 2012 að forsætisráðherra hefði brotið lög er hún skipaði karl en ekki konu í sem skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu. Ráðherra var dæmd í fjársekt.
  4. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra í þætti á mbl.is fyrir kosningar 2009: „Við höfum hérna nýja skýrslu, Evrópuskýrsluna, og það hafa verið samtöl við forsvarsmenn Evrópusambandsins og þeir segja að innan árs, kannski 18 mánaða, mundum við geta orðið fullgildir aðilar að Evrópusambandinu …“.
  5. Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra: Veitti forstjóra Landspítalans launahækkun upp á 450.000 krónur á mánuði sem er meira en flestir starfsmanna spítalans hafa í mánaðarlaun.
  6. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra: Sagðist á blaðamannafundi í Stokkhólmi 27. júní 2009 vonast til að Ísland yrði formlega gegnið í ESB innan þriggja ára.
  7. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG: Fullyrti sem stjórnarandstöðuþingmaður að ekki kæmi til mála að semja um Icesave. Sveik það. - Var harður andstæðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem stjórnarandstæðingur en dyggasti stuðningsmaður hans sem fjármálaráðherra.
  8. Vinstri hreyfingin grænt framboð: Forysta flokksins sveik stefnu hans um ESB
  9. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði árið 2010 Icesave samningi þeim er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 63% og 98% kjósenda hafnaði samningnum.
  10. Ríkisstjórnin: Þjóðin hafnaði 2011 Icesave samningi er ríkisstjórnin hafði fengið samþykktan á Alþingi. Kosningaþátttaka var 75% og 60% kjósenda hafnaði samningnum.
  11. Ríkisstjórnin: Kosningar um stjórnlagaþing vakti litla athygli, kjörsókn var aðeins 36%. Þann 25. janúar 2011 dæmdi Hæstiréttur kosningarnar ógildar.
  12. Ríkisstjórnin: Landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra kostaði ríkissjóð 187 milljónir króna.
  13. Ríkisstjórnin: Sótti um aðild að ESB án þess að gefa kjósendum kost á að segja hug sinn áður.
  14. Ríkisstjórnin: Kostnaður vegna ESB umsóknarinnar var tæplega tveir milljarðar króna á kjörtímabilinu.
  15. Ríkisstjórnin: Loforð um orkuskatt svikin, átti að vera tímabundinn skattur
  16. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna skuldastöðu heimilanna
  17. Ríkisstjórnin: Setti ÁrnaPáls-lögin til höfuðs skuldurum en til hagsbóta fyrir skuldareigendur.
  18. Ríkisstjórnin: Gerði ekkert vegna verðtryggingarinnar sem var að drepa stóra hluta skuldara í kjölfar hrunsins.
  19. Ríkisstjórnin: Hækkaði skatta á almenning sem átti um sárt að binda vegna hrunsins.
  20. Ríkisstjórnin: Réðst gegn sjávarútveginum með offorsi og ofurskattheimtu.
  21. Ríkisstjórnin: Breytti lögum, reglum og stjórnsýslunni í landinu til að þóknast ESB í aðlögunarviðræðunum.
  22. Ríkisstjórnin: Einkavæddi Íslandsbanka og Arion banka, gaf hreinlega kröfuhöfum bankanna.

Eflaust má fullyrða að Svandís og aðrir ráðherrar, þingmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafi skemmt sér á árunum 2009-2013 en þjóðinni var ekki skemmt. Því er mátulegt að Svandísi og hennar nótum leiðist lífið á valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Henni er þó algjörlega í sjálfsvald sett hvort hún þrumi úti í horni eða hristi af sér leiðindin, taki sér tak og hefji málefnalega rökræðu á þingi, leggi gott til. Að öðrum kosti má hún húka í horni sínu og muldra af og til tilvitnanir í sjálfa sig í Pressunni.


Í tjaldi í Fossvogi

DSC_1937bMaðurinn á myndinni er líklega búinn að búa í tjaldi við botn Fossvogs í viku. Í grænu tjaldi á auðu svæði inni í birkiskóginum. Hugsanlega er þetta útlendingur sem er að spara sér peninga áður en hann heldur heim á leið.

Vonandi er þetta ekki Íslendingur eða annar heimamaður sem misst hefur íbúðina sína eða á ekki í nein hús að venda. Hrikalegt ef svo væri að eini möguleikinn sé að búa í tjaldi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband