Taka þarf upp vegabréfaskoðun á Schengen svæðinu

Schengensamstarfið er miklu, miklu meira en bara að fylgjast með ytri landamærum svæðisins. Til þess að samstarfið og kerfið virki fullkomlega þarf að vera mjög virkt innra eftirlit, þ.e. eftirlit lögreglu innan landamæra hvers ríkis fyrir sig og í samvinnu við lögreglu annarra landa. Þetta innra eftirlit er það sem hefur brugðist, a.m.k. á Íslandi, vegna þess að lögreglan hefur þurft að skera svo mikið niður. Löngu er orðið tímabært að snúa þeirri þróun við og þær 400 milljónir sem samkvæmt fréttum á að leggja í löggæslumál til viðbótar, er að mínu mati langt frá því að vera nóg, þó skrefið sé virðingarvert.

Þetta segir Marinó G. Njálsson, ráðgjafi, á Facebook síðu sinni þar sem hann fjallar um Schengen-samstarfið. Vissulega er þetta samstarf mikilvægt en engu að síður hefur það verið gagnrýnt og þá sérstaklega á þessu ári enda virðist sem svo að glæpamenn af ýmsu tagi hafi getað nýtt sér frjálsa för milli landa í Evrópu til að stunda iðju sína nær truflunarlaust og þar á meðal á Íslandi. Sama á við um þá glæpastarfsemi sem hingað til hefur verið flokkuð sem hryðjuverk.

Á sama tíma og Marinó ræðir um kosti Schengen er vitnað í Morgunblaðs dagsins til fyrrverandi forstjóra Interpol, Ronald K. Nobel sem segir í viðtali við New York Times á forsíðu, í frétt á innsíðu og í leiðara:

Opin landamæri án viðeigandi eftirlits með skilríkjum eru vatn á myllu hryðjuverkamanna. Það er einfaldlega óábyrgt að kanna ekki gaumgæfilega öll vegabréf eða kanna auðkenni við landamæri á tímum alþjóðlegrar hryðjuverkaógnar,« skrifar Noble og bætir við að eftir 14 ár sem æðsti stjórnandi Interpol viti hann að mun líklegra sé að hryðjuverkamönnum takist ásetningsverk sín svo lengi sem ríki kanna ekki almennilega skilríki þeirra sem fara yfir landamæri þeirra.

Hér hefur verið vitnað til tveggja manna sem ágætlega til þekkja. Sú skoðun heyrist engu að síður að Ísland ætti að hætta í Schengen-samstarfinu og eru rökin einkum þau að vegbréf ferðamanna séu ekki skoðuð í þeim mæli sem þau ættu að vera. Flestir gera sér grein fyrir þessum galla og svo virðist sem að nú sé unnið að endurbótum.

Afdráttarlaus skoðun fyrrum forstjóra Interpol vekur engu að síður mikla athygli, ekki síst vegna þeirrar sérstöðu sem Bretland hefur en það stendur utan Schengen. Í leiðara Morgunblaðsins segir:

Noble segir að opin landamæri Evrópu, sem geri mönnum kleift að ferðast á milli 26 landa án vegabréfaeftirlits eða landamæravörslu, sé „í raun alþjóðlegt vegabréfalaust svæði þar sem hryðjuverkamenn geta framið árásir á meginlandi Evrópu og komist undan“.

Þetta segir hann augljósasta lærdóminn af skelfilegu hryðjuverkaárásunum í París á dögunum, en jafnframt þann sem bjóði upp á einfalda lausn: „Það ætti að leggja til hliðar hin opnu landamæri, og hvert og eitt af þátttökuríkjunum ætti tafarlaust að bera öll vegabréf kerfisbundið saman við gagnagrunn um stolin og glötuð vegabréf sem alþjóðlegu lögreglusamtökin Interpol halda úti.“

Noble segir ekkert ríkjanna hafa skimað vegabréfin í aðdraganda nýjustu árásanna, og segir svo: »Þetta er líkt því að hengja upp skilti þar sem hryðjuverkamenn eru boðnir velkomnir til Evrópu. Og þeir hafa þegið þetta heimboð.«

Noble bendir á að Bretar, sem hafi byrjað að bera vegabréf saman við gagnagrunn Interpol í kjölfar hryðjuverkaárásanna 2005, skoði nú um 150 milljón vegabréf á ári, meira en öll hin ríki Evrópusambandsins samanlagt, og finni þannig meira en 10.000 einstaklinga á ári sem séu að reyna að komast inn í landið.

Staðreyndin er sú að opin og lýðræðisleg samfélög í Evrópu eru miskunnarlaust misnotuð af glæpamönnum undir margvíslegu yfirskini, meðal annars trúarlegu. Ekki er hægt að búa við slíkt, það liggur í augum uppi. Ef eftirlit Schengen-svæðisins hefur brugðist að þessu leiti þarf að lagfæra misfellurnar og bregðast við af hörku. Sé niðurstaðan sú að taka upp vegabréfaeftirlit að nýju þá verður svo að vera.

Allir vita hvernig Bandaríkjamenn taka á móti gestum sínum og víst er að ekki eru allir sáttir við meðferðina. Tilgangurinn er engu að síður skýr og hið sama eiga Evrópuríki að gera. Flestum ferðamönnum ætti að vera sama þó það taki einhvern tíma að komast inn í annað land ef tilgangurinn er öryggi allra.

Vegabréfaskoðun sýnilegur þáttur í öryggismálum og hefur án efa fyrirbyggjandi afleiðingar enda ljóst að því oftar sem vegabréf ferðamanna eru skoðuð er líklegra að upp komist um glæpamenn sem þegar eru á skrá. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband