Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Hvað hefur Sjálfstæðisflokkurinn gert og hvað vill hann?

Kjörsókn í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í gær er fyrir neðan allar hellur. Hins vegar þurfa að vera góð rök og snjöll ef breyta eigi röðun í fyrstu sex sætin. Enginn hunsar þannig vilja kjósenda, hversu fáir þeir voru í prófkjörinu.

Hvað veldur slakri kjörsókn. Ég held að henni valdi margir samverkandi þættir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki enn gert almennilega upp hrunið í augum kjósenda. Þrátt fyrir einhverjar umræður á landsfundi hefur almenningur ekki fundið fyrir þeim. Stór hluti kjósenda flokksins lenti illa í hruninu, venjulegt fólk sem átti í raun ekkert annað í íbúðir sínar eða hús og einhvern sparnað á bankareikningum. Margir misstu íbúðir sínar eða þurftu að selja, og þetta fólk kann Sjálfstæðisflokknum engar þakkir fyrir að aða sofið á verðinu, kennir honum um með réttu eða röngu.

Frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð virðist margt reka á reiðanum. Fólk þarf að reiða sig á upplýsingar úr Ríkisútvarpinu eða öðrum fjölmiðlum um það sem ríkisstjórnin er að gera eða ætlar að gera. Allt virðist í einhverri framtíðarþoku.

Í þokkabót hafa aðeins tveir eða þrír borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verið með meðvitund þetta kjörtímabil. Borgarstjórnarflokkurinn hefur hreinlega ekki verið samstíga í stjórnarandstöðu heldur hræðst Jón Gnarr og þann ólýðræðislega flokk sem hann stendur fyrir. Til viðbótar segja margir að Jón Gnarr og flokkur hans hafi ekki gert margar vitleystur.

Hvað er þá Sjálfstæðisflokkurinn að vilja upp á dekk? 


mbl.is Niðurstaðan ekki bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilaröskun og hæfileikinn til rökréttar hugsunar

Er það ekki svo, Baldur, að þú hugsar hægar og ógreinilegar og þess vegna talar þú svona hægt? spurði mig hreint út vel meinandi og vel gerður maður og þá runnu upp fyrir mér mínir eigin fordómar. Fólk setur nefnilega samasemmerki milli málhraða (tækni) og greindar eða færni. Sá sem ekki talar af færni er illa gefinn, hvort sem það er málstol af völdum heilaröskunar eða vegna skorts á móðurmáli. Þetta fólk dregur sig því í hlé smám saman, stór hluti af því.

Þetta er úr grein eftir sr. Baldur Kristjánsson í Fréttablaðinu í dag og greinina er líka hægt að finna á visir.is. Baldur segir frá því í greininni hann hafi fengið heilablæðingu febrúar á þessu ári og hafa síðan verið í endurhæfingu sem gengið hafi vel nema talið. 

Fólk er mismunandi af guði gert. Sumir eru tala óskaplega hratt og jafnvel mikið. Hins vegar er það ekki alltaf svo að allt sé spaklegt sem slíkir láta frá sér fara. Góður ræðumaður er yfirleitt vel undirbúin, þekkir umræðuefnið meira en eftir smávægilega umhugsun. Þó ég kunni stundum að koma þokkalega fyrir mig orði er ekki vonlaust að ég gæti flutt góða ræðu undirbúningslaust um kjarnasamruna í orkuverinu á Long Island í Bandaríkjunum. Raunar er pottþétt að ræðan verði slæm þó ég fengi nægan undirbúning.

Þeir sem verða fyrir heilaröskun missa ekki hæfileikann til rökréttrar hugsunar þó að hæfileikinn til tjáskipta skerðist oft tímabundið og þá oft vegna talfæra eða boða til þeirra. Hjá sjálfum mér hefur gerst það sama og hjá mörgum öðrum. Samfara æfingum hefur greindarvísitala mín hækkað. Óþarfi að liggja á því.

Mér finnst Baldur komast hér vel að orði. Alltof fáir tileinka sér rökrétta hugsun heldur láta bara það vaða sem fyrst kemur upp í hausinn. Takið bara eftir ýmsum stjórnmálamönnum eða þeim sem rita athugasemdir við fréttir margra netmiðla. Jafnvel ég mætti athuga minn gang.

Hann er enn ritfær eins og þetta bendir eindregið til:

Ég mun því sitja kirkjuþing sem fulltrúi vígðra í Suðurkjördæmi en einnig sem fulltrúi allra þeirra sem ekki geta tjáð sig eins og áður. Fulltrúi þeirra málhöltu. Ég vona að sem flestir þeirra komi sem oftast og sem mest fram í dagsljósið. Ég er laus við fordóma í garð þeirra sem tala hægt eða ógreinilega. Það er frekar að ég hafi komið mér upp fordómum í garð þeirra sem tala of hratt. En það er efni í aðra grein. 

Ég sendi sr. Baldri Kristjánssyni einlægar batakveðjur og vonast til að fá að hitta hann á förnum vegi eins og svo oft áður.


Þessa kýs ég í prófkjöri Sjálfstæðiflokksins

Ég ætla á morgun að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor. Hvet alla Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn flokksins til að taka þátt.

Heimilt er að kjósa sex frambjóðendur (hvorki fleiri né færri) og þessa hef ég valið í númeruð sæti:

  1. Júlíus Vífill Ingvarsson
  2. Kjartan Magnússon
  3. Marta Guðjónsdóttir
  4. Ólafur Kr. Guðmundsson
  5. Örn Þórðarson
  6. Björn Jón Bragason 

Rökin fyrir þessu vali eru einföld. Úr borgarstjórnarflokknum vel ég þrjá einstaklinga. 

1. Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi, er formaður borgarstjórnarflokksins og hann hefur staðið sig vel í borgarmálunum þetta kjörtímabil.

2. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi, hefur yfirburðaþekkingu í borgarmálum og hann hefur setið í borgarráði þetta kjörtímabil. Hann er kurteis og hógvær, lætur verkin tala. Hann yrði góður borgarstjóri. Ég þekki Kjartan ágætlega og treysti honum.

3. Marta Guðjónsdóttir,varaborgarfulltrúi, hefur mikla reynslu í borgarmálum. Hún hefur setið í umhverfis- og skipulagsráði sem er ein mikilvægasta nefnd borgarinnar. Einnig hefur hún setið íþrótta- og tómstundaráði, menningar- og ferðamálaráði, mannréttindaráði og heilbrigðisnefnd. Ég þekki Mörtu mjög vel og treysti henni.

Þá hef ég valið þrjá frambjóðendur sem ekki hafa áður komið að borgarmálum. Þetta er fólk með sérþekkingu sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf verulega á að halda.

4. Ólafur Kr. Guðmundsson er sérfræðingur í samgöngumálum. Hann sinnir öryggisskoðun á vegum og jarðgöngum ekki aðeins á Íslandi heldur víða um heim. Hann hefur unnið að samgöngu- og skipulagsmálum sérstaklega með umferðaröryggi fyrir augum. Þennan mann þurfum við í borgarstjórn. Ég þekki Ólaf vel og treysti honum.

5.  Örn Þórðarson hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum. Hann hefur verið sveitarstjóri og sinn ráðgjöf fyrir sveitarfélög og gengt fjölda trúnaðarstarfa á vegum sveitarfélaga. Ég þekki ekki Örn en við þurfum reyndan mann í borgarstjórn.

6. Björn Jón Bragason er sagnfræðingur og kemur inn í borgarmálin með nýja og ferska sýn. Hann hefur til dæmis bent á að skógrækt hefur bætandi áhrif á veðurfar, hann leggur áherslu á að flugvöllurinn verði áfram í borgarlandinu og hann vill bregðast við flótta ungs fólks úr Reykjavík og í nærliggjandi sveitarfélög. Björn þekki ég ekki neitt en er þess fullviss að hann muni standa sig vel í borgarstjórn.

Ég fór vel yfir lista frambjóðenda og fann þar marga góða en því miður eru reglurnar þannig að aðeins er heimilt að kjósa sex manns.

Mér finnst miklu skipta að þekking og reynsla verði áfram innan borgarstjórnarflokksins. Þar af leiðandi legg ég mikla áherslu á að Júlíus, Kjartan og Marta verði kosin. Aðra hef ég valið eftir talsverða yfirlegu, tel að þeir muni verða góðir borgarfulltrúar.

Ég vona svo að einhverjir hafi gagn af þessum ábendingum mínum. Aðalatriðið er að fólk leggi það á sig að kjósa á morgun, laugardag. 

 


Hvers vegna heita 39 fjöll á landinu Búrfell?

BurfellinBúrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið. 

 

Áður en lengra er haldið er hér listinn yfir Búrfell landsins. Mér telst svo til að þrjátíu og níu fell eða fjöll beri nafnið Búrfell: 

  1. Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
  2. Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
  3. Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
  4. Búrfell í Reykholtsdal við Rauðsgil, 398 m
  5. Búrfell vestan við Síðufjall í Borgarfirði, 156 m
  6. Búrfell í Norðurárdal, sunnan Snjófjalla, ca. 260 m
  7. Búrfell, sunnan við Rif og Hellissand, 232 m
  8. Búrfell við Svínadal í Dölum, norðan í Miðfjalli, ca. 560 m
  9. Búrfell innst í Gilsfirði, 262 m
  10. Stóra-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, 448 m
  11. Litla-Búrfell, norðan Bjarkalundar, í Vaðalfjöllum, ca. 360 m
  12. Búrfell norðvestan við Brjánslæk í Vatnsfirði, 514 m
  13. Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, 412 m
  14. Búrfell innst í Patreksfirði (Ósafirði), við Botnsheiði, ca. 320 m
  15. Búrfell við Selárdal í Arnarfirði, 455 m
  16. Búrfell innst í Dýrafirði sunnanverðum, 505 m
  17. Búrfell skammt frá Ísafirði, það er á milli Súgandafjarðar og Skutulsfjarðar, 741 m
  18. Búrfell, milli Hesteyrar og Miðvíkur í Aðalvík, 498 m
  19. Búrfell upp af Gervidal við Ísafjörð, 601 m
  20. Búrfell ofan Reykjafjarðar á Ströndum, 697 m
  21. Búrfell á austanverðum Hrútafjarðarhálsi, 204 m
  22. Búrfell á Sólheimahálsi við Langadal, skammt frá Blönduósi, 282 m
  23. Búrfell á Skaga, norðan Sauðárkróks, 158 m
  24. Búrfell syðst í Svartárdal í Skagafirði, ca. 620 m
  25. Búrfell í Fjörðum, vestan megin í Hólsdal innan við Þorgeirsfjörð ca. 120 m
  26. Búrfell austan við Húsavík, 761 m
  27. Búrfell suðaustan við Öxarfjörð og suðvestan við Þistilfjörð, 605 m
  28. Búrfell austan við Mývatn, við Mývatnsöræfi, 953 m
  29. Búrfell á Hauksstaðaheiði, sunnan Jökulsárhlíðar, 369 m
  30. Búrfell milli Borgarfjarðar eystri og Brúnavíkur, 451 m
  31. Búrfell austan við Þríhyrningsfjallgarð, norðvestan Jökuldals, 631 m
  32. Búrfell, austan við Kárahnjúka, 840 m
  33. Búrfell við norðanverðan Reyðarfjörð, við veginn yfir í Vaðlavík, 393 m
  34. Búrfell í Skaftártungu, vestan Eldvatns, ca. 220 m
  35. Búrfell í Mýrdal, 393 m
  36. Búrfell við Þjórsárdal, 655 m
  37. Búrfell austan við Hvítá, suðaustan Bláfells, 499 m
  38. Búrfell í Grímsnesi, suðaustan við Úlfljótsvatn og Þingvallavatn, 536 m
  39. Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

 

Burfell vid Myvatn

Verkefnið

Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla. 

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru.  Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Búrfell og Hekla

 

Hvaða búr er um að ræða?

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:

Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau. 

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús. 

Burfell i Grimsnesi

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring. 

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi (greinaskil og feitletranir eru mínar):

En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar. 

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla. 

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“ 

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn. Talið er að það séu a.m.k. 47 fjöll hér á landi sem bera nafnið Búrfell.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður. 


Búr og kjölur

Burfell Borgarfj ey

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.


Orðsifjafræðin

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.  

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur

Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins. Vafasamt. Orðið gæti eins verið sk. fi [fornindverska]. bhuri- ´stór´, sbr. býri eða nno. bura ´öskra, baula’, sbr. söguna um nauthvelið og baul þess, og nno. [miðnorska] buril, burul ´nautkálfur, uxi´. Sjá burung(u)r.

Búrfell á Sólheimahálsi

Því miður hef ég ekki allar málfræðilegar leturgerðir sem ríkt er af í tilvitnunni, biðst velvirðingar á því. Vona einnig að hornklofarnir rugli ekki, þótti við hæfi að skýra út skammstafanir.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt. 

Í sömu bók segir:

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:

2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri (1).

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:

1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa (3).

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“. 

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.


Fornritin

Sæl væri eg

ef sjá mættag

Búrfell og Bala,

báða Lóndranga,

Aðalþegnshóla

og Öndvertnes,

Heiðarkollu

og Hreggnasa,

Dritvík og möl

fyrir dyrum fóstra.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“ (sjá merkingu nr. 7 á kortinu). Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli (sjá merkingu nr. 38 á kortinu). Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa. 

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á. Væntanlega fæ ég sendar leiðréttingar sem ég reyni þá jafnóðum að koma inn í þessa samantekt.

Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar.


Laxdæla

Ég greip fyrst í Laxdælu og sjá. Þar eru nefnd „búr“ ótal sinnum sem og „útibúr“. Í kafla 55 segir:

Síðan riðu þeir að selinu. Selin voru tvö, svefnsel og búr.

Gæti nú verið að þarna hafi verið sérstakt hús sem verið hafi búr, það er matargeymsla?


Njáls saga

Í Njálssögu er víða talað um „búr“ og „útibúr“. Í sögunni gerist afdrifaríki atburður er þræll Hallgerðar fer að skipun hennar og stelur mat í Kirkjubæ:

Síðan fór hann til útibúrs og lauk upp og klyfjaði þaðan tvo hesta af mat en brenndi búrið og drap hundinn. Hann fer upp með Rangá. Þá slitnar skóþvengur hans og tekur hann hnífinn og gerir að. Honum liggur eftir hnífurinn og beltið.

Í 109. kafla segir af Höskuldi Hvítanesgoða sem tók á móti Njálssonum, fóstbræðrum sínum:

Hann hafði látið taka ofan skála sinn en hann átti útibúr þrjú og voru þau búin mönnum að sofa í.

Líklega má gera ráð fyrir að matargeymslur Höskuldar hafi verið allstórar og góðar fyrst þeim var hægt að breyta í gististaði. Þetta notaði Mörður til að sá fræjum tortryggni hjá Skarphéðni er hann sagði: 

En mér þykja þau ekki minni fjörráð er hann bauð þér til veislu og skipaði þér í útibúr það er fyrst var húsum og var þar borinn að viður alla nóttina og ætlaði hann að brenna yður inni.


Fljótsdæla saga

Í Fljótsdælasögu er ýmist talað um „búr“ eða „útibúr“ og virðist það vera eitt og hið sama. Eftirfarandi er úr 17. kafla:

Hann sat í útibúri fyrir ofan hús. Þar var inni varningur hans. Ekki hafði hann verið við fund þennan og ekki hafði hann vitað til að styrjöld sjá hafði verið. Konan hleypur til búrsins. Þetta var vinnukona hans. Gunnar sat í dyrum útibúrsins og fiðraði örvar. 

Þarna segir beinlínis að búr hafi ekki verið við húsið heldur fyrir ofan það, líklega svo vel trekkti í gegn og héldi matvöru kældri.


Egils saga

í Egilssögu segir í 78. kafla:

Þá hljópu þrælar hans á brott. Þeir komu fram um nótt að Þórðar á Lambastöðum og báru þar eld að húsum og brenndu þar inni Þórð og hjón hans öll, en brutu upp búr hans og báru út gripi og vöru; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu og fóru síðan út til Álftaness.

Af þessu má ráða að „búr“ hafi ekki endilega verið matargeymsla heldur geymt margvíslega aðra vöru. Engu að síður er óljóst hvort þrælarnir hafi brotið upp fleiri en eitt búr, það er matarbúr sem og önnur búr.


Eyrbyggja

Í Eyrbyggju segir í 20. kafla:

„Það skal sem yður líkar," segir Katla og bað matselju bera ljós fyrir þeim og lúka upp búri „það eitt er hús læst á bænum.“

Búr Kötlu hefur án efa verið matargeymsla enda er matseljan fengin til að opna. Hið merkilegast er að búrið var læst. Það hef ég ekki rekist fyrr á í flettingum mínum. Hún segir það eina læsta húsið á bænum. Gæti þetta ekki bent til að búrið hafi verið stakt hús, utan við önnur?

Í 51. kafla sögunnar er að finna einstæða og myndrænu lýsingu tengda Fróðárundrum:

Og er menn komu í rekkjur heyrðu þeir hark mikið í búrið. Var þá farið að forvitnast hvort eigi væru þjófar inn komnir. Og er menn komu til búrsins var þar sén kona mikil. Hún var nökvin svo að hún hafði engan hlut á sér. Hún starfaði að matseld. En þeir menn er hana sáu urðu svo hræddir að þeir þorðu hvergi nær að koma.

Nakin kona var við matseld og það hræddust fornmenn … Þetta minnir á ekkert annað en er Freydís Eiríksdóttir hins rauða skelfdi skrælingja á Vínlandinu góða er hún tók „brjóstið upp úr serkinum og slettir á sverðið“.

Hin nakta kona hét Þórgunnur, suðureysk að uppruna, og var er þarna var komið sögu, steindauð, hafði gengið aftur. Það skondnasta kemur fram í sögunni að morguninn eftir átu menn þann mat er hin látna kona hafði matbúið og varð engum meint af …

Þetta er þó allt aukaatriði í þessu samhengi. Hitt skiptir máli að hægt var að matbúa í búrinu, það var ekki einungis geymsla. Gæti það hafa verið eldhús líka? Og hver er munurinn á „búri“ og „eldhúsi“? Þegar það er orðað þannig í ofangreindri tilvitnun að konan hafi verið við „matseld“ bendir það til að opinn eldur heldur hafi verið í búrinu og það því verið hvort tveggja, eldhús og búr.


Fóstbræðra saga

Í Fóstbræðrasögu segir af Þormóði Kolbrúnarskáldi á Grænlandi. Hann hafði særst í átökum og þurfti tíma til að jafna sig. Í upphafi 24. kafla segir:

Þá er Þormóður var orðinn heill maður þess er Falgeir hafði á honum unnið þá fluttu þeir Skúfur og Bjarni Þormóð heim á Stokkanes og varðveittu hann þar á laun í einu búri. Þar var Þormóður hinn þriðja vetur. Þann vetur seldu þeir Skúfur og Bjarni bæinn á Stokkanesi og aðrar jarðir þær sem þeir áttu og svo kvikfé og ætluðu að ráðast í brott af Grænlandi.

Þetta orðalag bendir líklega til þess að búrið hafi verið fjarri öðrum húsum og nægilega stórt til að maður gæti búið þar með öðru sem þar var geymt. Og það í heilan vetur.


Grettis saga

Í 30. kafla Grettissögu er greint frá ferðum Grettis. Þar segir:

Og meðan þeir voru fyrir sunnan heiðina fór Grettir heiman frá Bjargi og með honum tveir húskarlar Atla. Þeir riðu yfir til Búrfells og þaðan yfir hálsinn til Hrútafjarðar og komu til Mela um kveldið. […]

Þeir voru fimm saman, riðu uns þar til er þeir komu á Hrútafjarðarháls vestur frá Búrfelli. Þar stendur steinn mikill er kallaður er Grettishaf. Hann fékkst við lengi um daginn að hefja steininn og dvaldi svo þar til er þeir Kormákur komu. 

Hér er sagt frá Búrfelli sem merkt er með 21 á kortinu. Þar hjá er samnefndur bær en óljóst er hvort höfundur Grettissögu hafi átt við bæinn eða fjallið, en það skiptir líklega litlu máli.


Gísla saga Súrssonar

Í Gíslasögu Súrssonar segir svo í 25. kafla af Gísla í Hergilsey:

Gísli er ávallt í jarðhúsi þá er menn koma í eyna. En Ingjaldur var góður gestgjafi og býður Helga gisting; þar var hann um nóttina.

[…] Nú er sagt að Þorgerður gengur til jarðhússins og ætlar að gefa Gísla dögurð en þili er á millum búrsins og þess er Helgi lá í. Þorgerður gengur í brott úr búrinu. Klífur Helgi upp á þilið og sér að þar var manni matur deildur og í því kemur Þorgerður inn og vinst Helgi við fast og fellur ofan af þilinu.

Búrið hefur verið í jarðhúsi, það er húsi sem er niðurgrafið. Hugsanlega er að til að kælingar. Fram kemur, og ekki í fyrsta sinn, að hægt var að leyfa fólki að gista í búrinu eða í sama húsi og búrið var.


Hallfreðar saga vandræðaskáld

Í fjórða kafla Hallfreðarsögu er í kvæði talað um „búrhund“ og víst er að orðið er ekki til neinnar upphafningar. Síðar í öðru kvæði er getið um „búr“ og átt við matarbúr.


Hávarðar saga Ísfirðings

Í 15. til 18. kafla er sagt frá því er menn „ryðja búr“, það er tæma öll föng úr því. Raunar er sagan af honum Atla í Otradal einstaklega fyndin. Hann á að hafa verið giftur Þórdísi sem var systir Steinþórs Þorlákssonar á Eyri, en frá honum segir í Eyrbyggju. Samkvæmt þeirri bók átti Steinþór aðeins eins systur, hana Helgu, en það er önnur saga.


Heiðarvíga saga

Í Heiðarvígasögu segir í 16. kafla:

Bær heitir að Búrfelli milli Svínavatns og Blöndu. Það er á Hálsum út. Þar bjó sá maður er Eiríkur hét og var kallaður viðsjá. Hann var skáld og eigi lítill fyrir sér.

Enn er bær undir Búrfelli á Sólheimahálsi, raunar tveir, Litla-Búrfell og Stóra-Búrfell (sjá merkingu nr. 22 á kortinu).


Víga-Glúms saga

Í 18. kafla Víga-Glúmssögu segir:

Vel hefir þú einurð haldið hér til en nú skýjar á heldur og finnst nú það á að þú munt oftar hafa staðið nær búrhillum og ráðið um matargerð með móður þinni en gengið að hestavígum og er þann veg litt skegg þitt eigi síður.

Varla þarf að skýra þessa málsgrein svo niðurlægjandi sem hún er. Hún er þó merkilegt fyrir þær sakir að þarna kemur fram að hillur hafi verið í búrum. Þó sumum finnist það sjálfsagt að hillur hafi verið notaðar hefur höfundum fornsagna ekki þótt sjálfsagt að greina frá því, fyrr en þarna. 


Svarfdæla saga

Í 18. kafla í Svarfdælasögu segir:

Ekki er sagt frá ferðum Klaufa fyrr en hann kemur upp að Krókamelum gegnt Búrfellshúsum og þar er hann fyrir fjallmönnum við vaðið. 

Þarna vekja „Búrfellshús“ athygli lesandans. Höfundur á eflaust við bæinn Búrfell sem enn er þarna í Svarfaðardal. Ofan hans er Búrfellshyrna sem ábyggilega hét áður fyrr Búrfell. Fjallið er þó ekki tekið með í upptalninguna enda ekki ótvírætt að fjallið hafi borið nafnið.


Landnáma

Fróðlegt að fletta upp í Landnámu. þar segir frá Katli Örlygssyni landnámsmanni er átti erfitt með að finna sér samastað. Hann tapaði þrælum sínum sem misstu stjórn á sér með hörmulegum afleiðingum:

Þrælarnir báru eld að húsum og brenndu Þórð inni og hjón hans öll; þeir brutu þar upp görvibúr og tóku vöru mikla og lausafé; síðan ráku þeir heim hross og klyfjuðu; þeir snöru á leið til Álftaness. 

Ekki veit ég hvað „gjörvibúr“ en auðveldlega má hugsa sér að það sé frekar vel byggt og glæsilegt og jafnvel full matar.

Landnáma kemur á óvart og styður ekki alveg við röksemdafærsluna. Í 69. kafla er fjallað um víg í Noregi og þar:

Þá komu Öndóttssynir þar snemma um morguninn að svefnbúri því, er Auðun lá í, og skutu stokki á hurð. 

Hvað er „svefnbúr“? Hér hefur verið gengið að því vísu að „búr“ merki matargeymsla. Gæti verið að  „búr“ merki einfaldlega vistarvera eins og herbergi í þeim skilningi sem við þekkjum það orð. „Búr“ gæti einfaldlega merki einfaldlega hús með einu herbergi, nokkurs konar skáli eða „hytta“ eins og Norðmenn nefna það í dag?


Gylfaginning

í Gylfaginningu er í 6. kafla sagt frá manni nokkrum sem var afi Óðins. Hér er allur kaflinn, hann er örstuttur og skiljanlegri í heild sinni:

Þá mælti Gangleri: „Hvar byggði Ýmir, eða við hvað lifði hann?"

Hár svarar: „Næst var það þá er hrímið draup að þar varð af kýr sú er Auðhumla hét, en fjórar mjólkár runnu úr spenum hennar, og fæddi hún Ými."

Þá mælti Gangleri: „Við hvað fæddist kýrin?"

Hár svarar: „Hún sleikti hrímsteinana er saltir voru. Og hinn fyrsta dag er hún sleikti steina kom úr steininum að kveldi mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var þar allur maður. Sá er nefndur Búri. Hann var fagur álitum, mikill og máttugur. Hann gat son þann er Bor hét, hann fékk þeirrar konu er Bestla hét, dóttir Bölþorns jötuns, og fengu þau þrjá sonu. Hét einn Óðinn, annar Vilji, þriðji Vé. Og það er mín trúa að sá Óðinn og hans bræður munu vera stýrandi himins og jarðar. Það ætlum vér að hann muni svo heita. Svo heitir sá maður er vér vitum mestan og ágætastan, og vel megið þér hann láta svo heita."

Hérna er kominn Búri sá sem nefndur var að ofan í Orðsifjabókin. Ekki veit ég hvar það kemur fram að hann hafi verið stór en þarna er hann sagður mikill sem gæti haft aðra merkingu en stærð hans.


Ólafs saga Tryggvasonar

Í Ólafs sögu Tryggvasonar er sagt frá konungi í Vindlandi sem hét Búrisláfur, líklega samsett svona; Búri-sláfur. Hvað sláfur merkir veit ég ekki. Í íslensku Wikipediunni segir um annan með þessu nafni, líklega niðja hans: 

Ríkissa var dóttir Búrisláfs 3., konungs Póllands, og seinni konu hans Salóme af Berg. Hans dætur voru þær Geira, Gunnhildur og Ástríður.

Eftirfarandi er þýðing úr sænsku Wikipediunni en þar segir:

Rikissa var dotter till kung Boleslav III av Polen och Salome av Berg. 

Hvernig skyldi nafnið Búrisláfur hafa orðið að Boleslav eða öfugt? Endingin „slav“ er algeng í slavneskum nöfnum, t.d. Jaroslaw, Stanislaw, Miroslava og fleira. 

„Búrisláfur“ þessi er örugglega hinn sami og greint er frá í Jómsvíkinga sögu. Þar er nafnið samt ritað á annan máta máta „Búrizláfur“.


Heimskringla

Í Heimskringlu eru sagðar fjölmargar sögur Noregskonunga. 

Í Sögu Inga konungs og bræðra hans segir í 6. kafla:

Þeir Sigurður gengu þar upp í elding nætur og komu á óvart og tóku hús á þeim og vildu leggja eld í býinn en Benteinn komst út í búr nokkuð með herklæðum og vel búinn að vopnum og stóð fyrir innan dyrin við brugðið sverð og hafði skjöld fyrir sér og hjálm á höfði, var þá búinn til varnar. Dyrnar voru heldur lágar. Sigurður spurði hví þeir gengju eigi inn. Þeir svöruðu að engi var einn fús til. 

Þarna er dálítil lýsing á búri sem maðurinn flýði inn í því sagt er að dyrnar hafi verið heldur lágar. Gæti það hafa verið reyndin?

Í Magnúsar sögu Erlingssonar kemur fyrir enn ein útgáfa á nafni sem dregið er af orðinu „búr“

Þeir fóru suður til Danmerkur á fund Valdimars konungs og þeirra Búriss Heinrekssonar, bróður Inga konungs. 

 

Landnámubók Sturlu

Í 46. kafla Landnámubók segir:

Oddleifur var faðir Gests hins spaka og Þorsteins og Æsu, er átti Þorgils son Gríms úr Grímsnesi. Þeirra synir voru þeir Jörundur í Miðengi og Þórarinn að Búrfelli. 

Átt er við Búrfell í Grímsnesi (sjá merkingu nr. 7 á kortinu).

Burfjell i Rana2

 

Noregur

Þó svo að ég hafi dvalið í Noregi og lært eitthvað í því fallega máli 

Burfjell í Fusa

er ég langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.


Stapi

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.

Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.

Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg. 

 

Niðurstaða

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg. 


Samanburður af myndum

Það væri nú gaman að hafa myndir af öllum Búrfellunum og bera þau saman og flokka eftir útliti. Ég er þó enginn sérfræðingur í þessu og hef ekki beinlínis eytt tíma í að taka myndir af Búrfellum landsins.

Fyrir tilviljun hafa sum þeirra ratað inn á myndir hjá mér og af öðrum hef ég með fullum vilja tekið mynd. Hér eru myndir sem ég gat fundið: 

  1. Efsta myndin er af Búrfelli austan Mývatns, sjá nr. 28.
  2. Næsta mynd er af Búrfelli við Þjórárdal og Heklu, sjá nr. 36.
  3. Þarna ber Sandey á Þingvallavatni í Búrfell í Grímsnesi, sjá nr. 38.
  4. Búrfell er við Borgarfjörð eystri, sjá nr. 30.
  5. Mynd af búrhval.
  6. Þarna er myndin af Búrfelli á Sólheimahálsi, sjá nr. 22. Þvílík heppni að ég skyldi ná mynd af fjallinu.
  7. Þá er það snævi þakið Burfjell í Rana í Noregi.
  8. Loks er það Burfjell í Fusa í Noregi.

 ----

Að endingu vona ég að einhver hafi haft gaman að þessari samantekt og tek það fram að ég gæti hafa gert einhverjar vitleysu í þessu, misritað eða snúið sjálfsögðum hlutum á hvolf. Fyrir alla muni ekki misvirða það heldur væri ég afar þakklátur að fá leiðréttingar. Eins væri gaman að fá myndir til að fylla upp í söguna.


 


Fyrir hvað eru Jón Gnarr og Dagur að hrósa sér og hæla?

Maður nokkur hótar að berja annan. Nærstaddir skerast í leikinn og hvetja hann til að hafa hemil á sér sem og hann gerir og blóðsúthellingum er afstýrt. Já, ég er friðarins maður, segir sá sem hótaði.

Hvernig eigum við að taka yfirlýsingum vinstri flokkanna í borgarstjórn sem hafa ákveðið að draga til baka hækkanir á gjaldskrám borgarinnar.

Forystumennirnir eru auðvitað vissir um eigið ágæti og hæla sjálfum sér á hvert reipi. Jón Gnarr, borgarstjóri, segir:

Með þessu viljum við sýna vilja okkar í verki og leggja okkar af mörkum til að hér náist sátt um að efla kaupmátt og almenn lífskjör í landinu.

Og formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, lætur ekki sitt eftir liggja.

„Við lítum á þetta sem framlag til komandi kjarasamninga.

En, augnablik ... Hvað gerðu blessaðir mennirnir. Jú, þeir telja það sér til tekna að hafa hætt við gjaldskrárhækkanir, hrökklast til baka með það sem þeir áður töldu vera bráðnauðsynlegt fyrir borgina.

Hvers konar hringlandaháttur og bull er þetta. Jú, jú, eflaust er það gott að gjaldskrárnar hækki ekki.

Það hefði hins vegar verið meiri manndómsbragur ef í upphafi hefði Jón Gnarr og Dagur tilkynnt um 25% hækkun á gjaldskránum eða jafnvel 50% hækkun ... jú, jafnvel tvöföldun. Þá hefði afturköllunin í öllum tilfellum verið miklu meira „framlag til komandi kjarasamninga“. 


mbl.is Borgin hættir við hækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá draumspaki er með úrslitin í landsleiknum á hreinu

Við sem ekkert skiljum í draumum eru alltaf jafn undrandi á þeim sem segjast berdreymnir. Þeir geta ráðið í drauma sína og vita hvað framtíðin ber í skauti sér og hagað lífi sínu eftir því.

Hins vegar eru fæstir þeirra sem ég þekki eru þessarar náttúru, þrátt fyrir að sumir segi hið gagnstæða. Engan þekki ég sem hefur dreymt réttar tölu í lottóinu, vinningsnúmerið í happdrætti eða annað álíka þarflegt. 

Ekki vantar að mann dreymi heil ósköp. Í æsku var það jafnan viðkvæði móður minnar þegar ég sagði henni frá draumum mínum að þeir væru fyrir snjóavetri. Og svo hló hún. Eftir því sem ég varð eldri áttaði ég mig á staðreyndum lífsins og hló með henni. Sumir segja að hún hafi verið berdreymin en í mín eyru gerði hún yfirleitt lítið úr slíku og þannig myndaðist draumaráðningin um snjóavetur.

Á morgun verður í Laugardal Reykjavíkur kappleikur í knattspyrnu milli tveggja þjóða, okkar og Króata. Ekki nokkur maður hefur dreymt fyrir úrslitunum, að minnsta kosti hefur enginn látið neitt uppi um draumfarir sínar. Tvær skýringar eru á því, annað hvort er ekkert að marka drauma eða úrslitin verða landsliði okkar verulega óhagstæð - enginn vill vera boðberi slæmra tíðinda.

Er ég hafði ritað ofangreint hérna á Moggabloggið hringdi síminn ...

Sigurður“, sagði maður nokkur, djúpri röddu. „Mig dreymdi draum í nótt ...“ Og þarna var sá draumspaki í símanum, sá sem ég hef vitnað æði oft til hér. 

Honum var mikið niðri fyrir. Sagðist hafa dreymt risastóran snjóbolta sem stóð á miðjum Laugardalsvellinum og fjölda manna reyna að klífa hann. Að lokum stóðu fjórir menn á toppinum og réttu upp hendur eins og sigurvegarar.

„Og hvað segirðu núna, skepnan þín,“ hvæsti sá draumspaki. „Þú segir ekkert að marka drauma en þessi er skýrari en allt sem skýrt er.“

Nei, sagði ég. Það vantar niðurstöðuna, hvernig fer leikurinn við Króata?

„Það sjá nú allir,“ sagði draumspakur. „Annað hvort liðið vinnur fjögur núll eða það verður jafntefli og bæði liðin skora tvö mörk.“

Sum sé, mennirnir sem standa efst á risastórum snjóbolta tákna mörkin? Ég leyfði mér að andvarpa ókurteislega.

Já,“ sagð'ann, keikur.

Þá geta úrslitin líka verið þannig að annað liðið skorar þrjú, tvö eða eitt mark og hitt það sem upp á vantar, ekki satt? Leikurinn getur því farið 4:0 eða 3:1 fyrir annað liði eða jafntefli verður.

Já, að vísu ...“ sagði draumspakur, en eitthvað hafði sljákkað í honum.

Hvernig stendur á því að þig dreymir aldrei beinlínis það sem gerist heldur þurfum við alltaf að spá og spekúlera í niðurstöðunum? Geturðu ekki látið þig dreyma skýrari og einfaldari drauma? Það væri til dæmis ágætt ef þig dreymdi hreinlega fyrirsögnina á íþróttakálfi Moggans á laugardaginn. Væri ekki einhver sparnaður í því fólginn?

Það er nú andskotakornið aldrei hægt að ræða við þig, Sigurður. Þú ert alltaf með eilífan kjaft og skilur ekkert í yfirnáttúrulegum efnum hvað þá öðrum ... auk þess ertu ljótur og leiðinlegur.

Og með það skellti hinn draumspaki vinur minn á og mun eflaust ekki tala við mig næstu daga. Nema hann hafi lagt sig. Þá hringir hann aftur ef hann getur ráðið drauminn. Nema hann viti á snjóavetur.


Borgríki borgarinnar

02-landspitali-1af[1]Hvað er að borgaryfirvöldum? Bera þau enga virðingu fyrir þeirri byggð og umhverfi. Má bara vaða áfram, skipuleggja og byggja hvað sem er hvar sem er, rífa allt hið gamla og byggja nýtt.

Meirihlutinn í borgarstjórn lætur óátalið að nýbyggingar fari í algjöra mótsögn við það sem fyrir er. Engu líkar er en að hann standi fyrir hryðjuverkum í borginni og þau beinast gegn borgarbúum.

Takið eftir þessu hrottalega skipulagi hins svokallaða nýja Landspítala. Þarna á að byggja upp borgríki á viðkvæmasta stað. Aðeins vantar múra í kringum þetta ferlíki en þeir koma líklega síðar. Um þá er ábyggilega getið í smáaletrinu.

Skerjafjörður

Takið einnig eftir byggðinni sem á að koma sunnan við byggðina sem stendur við Skerjafjörð og ber nafn hans. Þarna er ætlunin að búa til annað borgríki. Hrúga saman háhýsum við hliðina á lágreistri og hógværri byggð þar sem myndast hefur ljúft samfélag.

Meirihlutinn í borgarstjórn og síðasta ríkisstjórn gerðu samkomulag um að leggja niður norðaustur-norðvestur flugbrautina og þarna við Skerjafjörð á að troða ótal fjölbýlishúsum.

Ég skil hreinlega ekkert í borgaryfirvöldum. Fyrir það fyrsta að láta sér detta þetta í hug og í öðru lagi að geta látið sér detta það í hug að með þessu móti sé verið að skapa lífvænlega byggð.

Á undanförnum árum hefur verið kappkostað að breyta Reykjavík eins og hægt er. Ekkert virðist vera til framtíðar, það sem ein kynslóð byggir upp verður hin næsta að rústa. Gömlu húsin eru látin grotna niður og svo byggð háhýsi í staðinn. Turnar eru orðnir ráðandi í borgarmyndinni og enginn segir neitt ...

Hvað er orðið af Reykjavík æsku þinnar? kæri lesandi.

Þori að veðja að sértu kominn yfir fertugt eða fimmtugt þá sé líklegt að sú mynd sé glötuð nema hún sé í huga þér eða þú eigir einhvers staðar ljósmynd.

Við þurfum að vernda Reykjavík fyrir liðinu sem hefur verið að skemma hana undanfarin ár. 


Íþróttafélög kynni starfsemi sína í skólum borgarinnar

Marta

Það er ósamræmi í þessu, því það er verið að samþykkja nýja forvarnastefnu fyrir Reykjavíkurborg sem kveður á um að það eigi að ýta undir aukna hreyfingu og lýðheilsu barna og unglinga og þá skýtur skökku við að það sé verið að koma í veg fyrir að félög sem sinna slíku starfi geti kynnt börnunum starfsemi sína.

Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í frétt í Morgunblaðinu í morgun. Hún vill að íþrótta- og æskulýðsfélögum verði heimilað að kynna starf sitt i skólum borgarinnar. Rík ástæða er til að styðja þessa tillögu Mörtu.

Vinstri flokkarnir í borgarstjórn eru ekki sammála heldur vilja að kynningunni sé beint til foreldra en ekki barna.

Auðvitað er þetta tómur misskilningur hjá vinstri flokkunum og ekkert annað en hluti af einhvers konar misskilinni umhyggju fyrir börnum.

Þannig er það bara að krakkarnir sjálfir vita best hvar þeir vilja stunda íþróttir og það er yfirleitt í því hverfi sem þeir eru búsetti. Sem foreldri hefur maður reynt að hafa áhrif á börnin sín í þessum efnum en án árangurs. Um slíkt eru ótal dæmi. 

Fullorðnir og börn vita að það eru börnin sem taka ákvörðun um að vilja æfa íþróttir og velja íþróttafélag. Hvort það byggist á skynsamlegum rökum skiptir ekki mál. Þetta eru allt góð íþróttafélög, yfirleitt vel stjórnað og með hæfum leiðbeinendum. Þetta veit Marta Guðjónsdóttir og auðvitað líka borgarfulltrúar vinstri flokkanna.

Enda er það nú ekki eins og verið sé að bjóða sælgætisframleiðendum að fara inn í skóla og kynna framleiðslu sína. Nei, við erum að tala um íþróttafélög með holla starfsemi og göfugt starf.

Fastlega má gera ráð fyrir að KR vilji kynna starfsemi sína í Melaskóla, Grandaskóla og Vesturbæjarskóla og en Leiknir í Breiðholti mun ábyggilega ekki sækjast eftir því að fara í þessa skóla frekar en að KR vilji fara í Breiðholtsskólanna. Og þó svo væri, hvaða skaði væri af slíku? Í ofnálag endar allt hjá foreldrunum, þeirra er valdið. Þetta snýst bara um að treysta börnunum til að taka við upplýsingum og vilja stunda íþróttir.


Varla takandi að hafa orð á þessu en ...

Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert hversu fólk sem telur sig hafa átt undir högg að sækja í tilveru sinni á auðvelt með að berja á öðrum. Ef til vill er erum við öll svona innrætt og þess vegna er lífið erfitt og óþægilegt. Nú má eiginlega ekki neitt og allra síst vera ánægður vegna eigin tilveru. Helst á fólk að vera með sút og ólund vegna þess að vont fólk er til og sumir eilíflega með ólund.

Vissulega er það svo að Ísland er ekki miðdepill alheimsins, aðeins fyrir okkur. Rétt eins og miðdepill Japana er umhverfi þeirra og svo mun vera með flestar þjóðir heims. Varla tekur því að hafa orð á þessu. Japaninn mun örugglega telja ýmislegt þjóðerni sínu til tekna og síst af öllu er ástæða til þess fyrir mig eða einhvern annan að gera lítið úr því.

Ég er bara þokkalega ánægður með þjóðerni mitt, hreykinn af menningu þjóðarinnar, uppruna hennar, afrekum einstaklinga í gegnum tíðina og kappkosta að velja íslenskar vörur fram yfir útlendar af því að ég veit að slíkt er þjóðhagslega hagkvæmt.

Það ferð þó ekki á milli mála að umhverfi okkar á að mörgu leyti uppruna sinn annars staðar en á Íslandi. Varla tekur því að hafa orð á þessu en þó Íslendingar hafi í fornöld ritað sögur er slíkt ekki upprunnið hér á landi. Ég dáist að fjölmörgum íslenskum skáldum en veit það jafnframt að sögur og ljóð eru samin víða um heiminn. Sama er með svo fjölmargt annað sem hérlendir taka sér fyrir hendur að fólk af öðru bergi brotið í nálægum eða fjarlægum löndum gerir slíkt hið sama. 

Þó svo að ég og mínir líkar hreykjum okkur af forfeðrum eða samtímafólki sem gerir góða hluti þá þýðir það ekki að annars staðar séu ekki einhverjir sem gera nákvæmlega hið sama. Ég hlakka til að sjá fótboltaleikinn við Króata og vonast eftir sigri. Mér er auðvitað fullkunnugt um að fjölmargir vonast á sama hátt eftir því að Ísland tapi leiknum. Svona er nú lífið og varla takandi að hafa orð á þessu en sumum finnst þetta ekki ganga upp.

Hins vegar er það ekki sæmandi að gera lítið úr væntingum mínum, þjóðerniskennd eða öðru því sem tengist menningu og uppruna mínum. Allra síst ættu stjórnmálamenn og leiðtogar að gera lítið úr þessum tilfinningum eða halda því fram að grundvöllur þjóðerniskenndar sé vanþekking eða hroki. Einstaklingar mega hafa sínar skoðanir en alhæfing er aldrei góð. Hún er jafnvitlaus og þeir sem alhæfa. Ólund sína ættu stjórnmálamenn að halda fyrir sjálfa sig.

Auðvitað er lítil ástæða til að hafa orð á þessu nema fyrir þá sök að sumir þrífast á því að gera lítið úr öðrum og reyna með því reyna að upphefja sjálfa sig. Hafi útlendingahatur farið vaxandi hér á landi er varla þjóðerniskennd um að kenna heldur allt öðru. Eignarétti er varla um að kenna að þjófnaður sé ansans ári algengur.


mbl.is Jón Gnarr: Undarleg þjóðerniskennd læðist um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað hvort náttúrupassi eða frelsi til ferða

HattverSvokallaðaður „náttúrupassi“ er er komin á það stig að svo virðist sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sé ákveðin í því að taka hann í brúk, hvað sem hver segir.

Fyrir nokkrum árum var svokallað „útvarpsgjald“ sett í lög og það þýðir einfaldlega að ríkið rukkar áskrift fyrir Ríkisútvarpið og skiptir ekki nokkru máli hvort greiðandinn hefur áhuga á fjölmiðlinum eða ekki. Í þokkabót var það ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem kom þessum skatti á.

Geri fólk ekki sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta mál er þá væri skynsamlegt að lesa Moggann í morgun. Annað hvort virðst málið snúast um „náttúrupassa“ eða hömlur verði lagðar á ferðafrelsi landsmanna.

„Besta lausnin“? 

Í Morgunblaðinu er fréttaskýring um „náttúrupassann“ enda ekki er bent á nein andstæð sjónarmið. Hér vil ég reyna að malda örlítið í móinn.

Í fréttaskýringunni segir:

Í skýrslu Boston Consulting Group, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að náttúrupassi sé besta lausnin, er sagt að hæfilegt sé að náttúrupassi kosti „nokkur þúsund krónur“ og að tekjur af náttúrupassanum geti hlaupið á 700 milljónum og upp í 4,6 milljarða fyrsta árið.  

Tvennt er við þetta að athuga. 

Í fyrsta lagi er talað er um „bestu lausnina“ sem er auðvitað ranglega ályktað. Ríkið hefur ótrúlegar tekjur af ferðaþjónustunni, hátt í þrjátíu milljarða króna og nærri tvöhundruð og fjörtíu milljarðar koma í gjaldeyristekjur. Þrátt fyrir þetta er á fjárlögum næsta árs aðeins gert ráð fyrir tvöhundruð og sextán milljónum króna í uppbyggingum á ferðamannastöðum. Sem sagt, 0,7% er veitt til uppbyggingarinnar.

Í öðru lagi er fullyrt að tekjur geti verið allt að 4,6 milljarðar króna fyrsta árið. Ekki er nema von að fólk fái glýju í augun og haldi að „náttúrupassi“ leysi öll vandamál. Til viðbótar má áætla að glýja ríkisstjórnarinnar sé ekki minni.

Misnotkun ríkisins á sértækum sköttum 

Spyrja má hversu marga sértæka skattstofna hafi ríkið misnotað? Þeir eru fjölmargir. Núna síðast er ætlunin að snuða Ríkisútvarpið og áskriftarskatturinn mun ekki allur fara til þess heldur í einhverja aðra málaflokka.

Af reynslunni má fullyrða að tekjur af „náttúrupassanum“ verða misnotaðar, þeim verður veitt til annarra málaflokka. Á þetta bendi ég til að stuðningsmenn „náttúrupassans“ átti sig á eðli skattheimtu ríkisins. Það er ekkert gefið í þeim efnum.

Afnám frelsis til ferðalaga 

BCG telja ekki að Íslendingar ættu að vera undanþegnir gjaldtökunni en að gjaldið mætti greiða í gegnum skattkerfið. Fyrir upphæð sem jafngildir 30 daga passa fyrir ferðamenn fái Íslendingar passa sem gildi í fimm ár. Það væri m.a. hægt að gera með því að krossa í viðeigandi reit í skattaskýrslu, en sú aðferð er nú þegar notuð við kaup á slysatryggingu við heimilisstörf og er iðgjaldið 450 krónur á ári. 

Höfum það á hreinu að Íslendingar munu þurfa að greiða miklu meira en 450 krónur fyrir „náttúrupassann“. Líklega mun þessi skattur verða svipaður og „útvarpsgjaldið“.

Með „náttúrupassa“ er frelsi Íslendinga til ferðalaga um landið stórlega skert.

Frelsið til ferðalaga er ein af grunnþáttum réttinda landsmanna og þannig hefur það verið frá landnámi og raunar alla tíð.

Dettur einhverjum hjá Boston Consulting Group eða jafnvel ráðherranum sjálfum, að hægt sé að stilla málum upp á jafn einfeldningslegan hátt og gert er í tilvitnunni hér að ofan. Krossi ég ekki við „náttúrupassareitinn“ í skattskýrslu mun ég um leið að afsala mér rétti mínum til ferða um landið ... Nei, það gengur einfaldlega ekki upp nema því aðeins að fylgst verði með ferðum okkar sem ekki greiðum.

Þetta er aldeilis ótrúlegur málflutningur og ber ekki gott vitni um ráðgjafanna hjá Boston Consulting Group eða þeirra innlendra manna sem helst hafa hampað skýrslu þessa makalausa fyrirtækis.

Auðvitað er þá það eftir að skatturinn verði lagður á alla rétt eins og þetta með „útvarpsgjaldið“ alræmda. Nei, ég trúi því ekki að ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að standi fyrir slíku. Og þó ... 

Frelsi til ferða um landið 

Eftir stendur sú spurning hvort landsmenn ætli að láta ríkisvaldið takmarka ferðafrelsi þeirra og þeir þurfi að vinka einhverjum „náttúrupassa“ til að fara um landið, ganga um fjöll og óbyggðir? Eða ætla menn að láta yfir sig ganga að sérstakur skattur verði lagður á landsmenn vegna þess að ríkisvaldið telur sig ekki hafa efni á að veita fjármagni í þá atvinnugrein sem það hefur mestar tekjur af?

Ég skora á þá sem lesa þennan pistil að skoða málin vel og vandlega. „Náttúrupassi“ mun gera út af við frelsi til ferðalaga eins og við þekkjum það í dag. Hann er aðeins tilraun ríkisins til að afla enn meiri tekna án þess að þurfa að kalla það skatt.

„Náttúrupassinn“ er hins vegar ekkert annað en skattur. Með honum stendur landsmönnum aðeins tvennt til boða. Annað hvort að greiða eða að þeir fái ekki að ferðast um landið sitt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband