Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Má ekki gleðjast án þess að vera minntur á leiðindin?

Fótbolti er í eðli sínu bardagaíþrótt, enda fundinn upp af Grikkjum í árdaga siðmenningarinnar til að efla baráttuanda í herdeildum, og honum fylgja alls kyns ógeðfelldar hliðarverkanir. Þjóðremban er þar efst á blaði og þótt ýmsum þyki eflaust ekki veita af því að hrista þjóðina saman í eitt allsherjarbandalag fylgir rembunni þeirri ofmat á eigin getu og árásir á "óvinina" sem minna helst á múgæsingar sem notaðar hafa verið til að réttlæta styrjaldir í gegnum tíðina. Allra leiða er leitað til að koma höggi á andstæðinginn, gera lítið úr honum og getu hans. 

Af hverju þarf að vera með leiðindi? Getur leiðarahöfundur Fréttablaðsins ekki skrifað einn heilan leiðara án þess að vera með alhæfingar og leiðinleg ummæli. Í heildina fær þessi leiðari blaðsins í dag slæman dóm, að minnsta kosti hér.

Skemmtunin 

Fótboltaleikur er skemmtun fyrir flesta. Svo er um svo margt annað. Fólk gengur á fjöll, fer í leikhús, sækir skemmtistaði, sinnir fjölskyldunni, horfir á sólarlagið, fylgist með fjölmiðlum og svo framvegis út í langan óendanleikann.

Leiðindin 

Hefði höfundur leiðarans verið að rita um fjallgöngu hefði hann ábyggilega rætt um slys sem kunna að fylgja frekar en að leggja áherslu á gleðina, útiveru og þjálfunina. Hann gæti ekki nefnt skemmtistaði án þess að segja frá litlum minnihluta sem hefur ekki stjórn á hegðun sinni né drykkju. Hann gæti ekki nefnt fjölskylduna og þá líffyllingu sem hún gefur foreldrum, gleði og ánægju fyrir alla án þess að nefna skilnaði, ofbeldi og önnur leiðindi. Hann gæti ekki tjáð sig um fegurð sólarlagsins án þess að nefna að hægt sé að blindast á því óvörðum augum í sólina.

Gleðispillar 

Auðvitað eru leiðindi sem fylgja öllu í tilverunni en er ekki stundum hægt að gleðjast? Má ekki einblína á það sem gott er án þess að troða hinu neikvæða upp á þá sem heyra? 

Alls staðar eru til gleðispillar. Sumir eru það óviljandi aðrir eru bara að fylla tilsettan fjölda orða í dálk en hafa ekki dýpri áhuga á því sem þeir rita. 

Alltaf má gleðjast 

Ég segi fyrir mína parta, fjölskyldu minnar og vini og vandamanna: ÁFRAM ÍSLAND og því fylgja ekki nein skilyrði.

Verði úrslitin ekki á besta veg þá segi ég eins og meginhluti þjóðarinnar: GENGUR BETUR NÆST og það án nokkurra leiðinda.

Það hefur nebbbbnilega alltaf dagur eftir þennan dag. Fyrir því er órofin hefð svo lengi sem elstu menn muna. Yfir því má einatt gleðjast. 

 


Frambjóðanda á ekki að vera heimilt að hætta við

Í reglum Sjálfstæðisflokksins eru gerðar kröfur til kjósenda og um kjörsókn. Hins vegar eru engar álíka kröfur gerðar til þátttakenda. Þeir geta tekið þátt bara til að prófa hvort þeir komist í ákveðið sæti og þeim er leyft að hætta við. Sumir eiga erindi sem erfiði í prófkjör, aðrir ekki.

Auðvitað á það að vera þannig að sá sem gefur kost á sér í prófkjör sé skuldbundnir að taka það sæti sem hann lendir í svo framarlega sem nægilega mörg atkvæði liggi að baki til að gera úrslitin skuldbindandi.

Það er ófært að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir skuli leyfa sér að sýna kjósendum, Sjálfstæðismönnum, þá óvirðingu að velta fyrst fyrir sér hvort hún ætli að taka fjórða sætið og svo eftir nokkra daga lýsa því yfir að hún sé hætt. Út á það ganga ekki stjórnmálin.

Sá sem gefur kost á sér á að ganga alla leið. Hann er siðferðislega skuldbundinn til þess. Um leið er það svo að sá sem vill verða leiðtogi verður líka að átta sig á því, áður en lagt er að stað, að honum gæti mistekist.

Kjósendur eiga fyrirfram rétt á því að vita hvort frambjóðandi sé svo tapsár að hann treysti sér ekki til að taka annað sæti en það sem hann býður sig fram í.


mbl.is Þorbjörg Helga tekur ekki sætið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarðskjálftahrinan við Víflsfell og í Jósefsdal

VifilsfellUndanfarna daga hafa verið jarðskjálftar í kringum Vífilsfell, þó einkum austan við það, í Jóskefsdal og þar fyrir ofan. Þeim virðist þó fara fækkandi, enginn skjálfti hefur mælst þar frá því fyrir klukkan sex í morgun.

Á myndinni til vinstri má sjá hvar upptök skjálftanna eru. Myndin er fengin frá Google Maps og skjálftarnir eru skráðir þarna inn samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.

Ágætt er að tvísmella á hana og stækka til að sjá hvernig þessi þyrping skjálfta raðast í landslagið. Sem leikmanni finnst mér merkilegast að sjá að þeir eru upp um báðar hlíðar Jósefsdals, en frekar lítið utan hans. Þeir eru í Sauðdalahnúkum, Páskabrekku og Ólafsskarði og Ólafsskarðshnúk svo nokkur örnefni séu talin upp. Nokkrir skjálftar eru á efsta hluta Vífilsfell og örfáir í hrauninu, Bruna, austan Jósefsdals. Til samanburðar er önnur mynd þar sem landslagið sést skýrt og greinilega. 

Vifilsfell2

Á jarðfræðibloggi Jóns Frímanns Jónssonar, er sagt að ástæðan fyrir þessum skjálftum sé niðurdæling á vatni, líklega á vegum Orkuveitunnar í Hellisheiðarvirkjun. Ég er ekki mjög trúaður á það, til þess finnst mér of langt í niðurdælingarstaði og að auki er jarðskjálftavirknin svo til eingöngu bundin við Jósefsdal.Raunar má halda því fram að vegalengd þurfi ekki að vera ráðandi í þessu tilviki. 

Hugsanlegar skýringar á jarðskjálftanum er einfaldlega að um sé að ræða hliðrun sem byrjaði með miklum skjálftum við Eldey og hefur síðan flust upp á landi, var síðast í Sandvík á sunnanverðu Reykjanesi, ekki langt frá Reykjanesvita. Tveir gallar eru við þessa skýringu. Annars vegar sá að fáir skjálftar hafa orðið milli Sandvíkur og Vífilsfell og hins vegar að undirritaður hefur ekkert vit á því sem hér um ræðir.

Hitt er þó staðreynd að eldstöðvakerfin á Reykjanesi eru mörg. Þar er þessi kerfi:

reykjanes-kort_3

 

  1. Reykjanes, þar sem Reykjanesviti er
  2. Eldvörp og Svartsengi
  3. Fagradalsfjall
  4. Krísuvík
  5. Brennisteinsfjöll 
  6. Hengill
Hliðrunin hefur því alveg sleppt þremur eldstöðvakerfum, hoppað frá Reykjanesvita og yfir í kerfið sem kennt er við Brennisteinsfjöll. Þetta sést vel á meðfylgjandi mynd sem tekið er af vef isor.is (Íslenskra orkurannsókna).

 


Eyðir Range Rover 7,5 l á hundraðið?

Rover

Range Rover sport virðist vera hinn glæsilegasti bíll þó svo að ég myndi varla vilja „fórna“ honum í ferðir um hálendi landsins, svo dýr sem hann er.

Fróðlegt væri að vita hvort uppgefin eldsneytiseyðsla geti staðist.

Sagt er í lýsingu á bílnum í aukablaði Morgunblaðsins í dag að hann eyði 7,5 l/100 km í blönduðum akstri. Í ljósi þess að bíllinn er með 3,0 lítra bensínvél og 2,1 tonn á þyngd þá virðist það kraftaverk. 


mbl.is Fimm stjörnu skriðdreki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitísk afskipti Landsvirkjunar eru óþolandi

Fyrirtæki sem þrífast á virkjanaframkvæmdum sem leggja undir sig náttúruna og gjörnýta auðlindir hennar, eiga ekki ráða ferðinni í þessu máli. Þetta er mál sem hefur víðtæk áhrif á alla Íslendinga. Það verður að koma í veg fyrir að Ísland gangi í gildru samninga við evrópsk orkufyrirtæki og ríkisstjórnir, samninga sem reynast vera óhagstæðir fyrir þjóðarhag þegar málið er skoðað frá öllum hliðum. Íslendingar eiga betra skilið.

Hér er vel komist að orði í niðurlagi athyglisverðrar greinar Í morgunblaðinu í morgun um jarðstreng frá Íslandi til Evrópu. Höfundurinn er Höfundur er Roger Croft, fyrrverandi framkvæmdastjóri Náttúruverndar Skotlands, en „hann hefur veitt ráðgjöf um landgræðslu og náttúruvernd á Íslandi um langt árabil“, eins og segir í kynningu með greininni. 

Þarna er Roger Croft að tala um Landsvirkjun sem hefur gert sig breiða á undanförnum árum og fullyrt að miklir peningar séu í húfi fyrir þjóðina verði lagður jarðstrengur. Landsvirkjun hefur minna rætt um hvaðan orkan eigi að koma, hvernig virkjanir eigi að búa til og í því liggur vandinn. Svona pólitísk afskipti Landsvirkjunar eru ekki þolandi. Við höfum enga þörf á afskiptasemi stofnunar sem á einungis að vinna að framkvæmdum sem þeim eru fyrirskipaðar.

Pólitísk afskipti Landsvirkjunar eru engu öðru lík nema ef ske skyldi hvernig Seðlabankinn hefur komið fram á undanförnum árum með hrapalegum afskiptum af Icesave og yfirlýsingum um ómögulegar aðgerðir núverandi ríkisstjórnar á skuldastöðu heimilanna.

Báðar þessar stofnanir eiga að halda sér saman og ekki vera með yfirlýsingar nema óskað sé eftir þeim. 


Flóttamannaleiðir bæjarstjórans í Garðabæ

Nei, Gunnar leggur á flótta inn á fjórar leiðir, sem kalla mætti flóttamannaleiðir, svo að notað sé heiti á vegi, sem Bretar lögðu fyrir ofan Garðabæ á stríðsárunum. Nafnið varð til þegar Bretar voru á flótta á nær öllum vígstöðvum víða um heim og gárungum fannst líklegt að vegurinn væri lagður til að auðvelda þeim flóttann hér. 

Rökræður byggist á því að komið er með rök á móti öðrum rökum eða fullyrðingu. Þessi íþrótt getur verið skemmtileg ef menn eru málefnalegir. Þetta er svona ping-pong út í hið óendanlega, rétt eins og borðtennis. Þegar annar slær heyrist væntanlega „ping“ og þegar hinn verst kemur ábyggilega hljóðið „pong“.

Þetta datt mér í hug þegar ég las grein Ómars Ragnarssonar í Morgunblaðinu í morgun en hún er svar við grein Gunnars Einarssonar, bæjarstjórans í Garðabæ, um vegagerð bæjarins og Vegagerðar ríkisins í Gálgahrauni.

Rök flóttamannsins 

Tilvitnunin hér að ofan er úr grein Ómars og eftir að hafa sagt þetta kallar hann slæleg rök Gunnars „flóttamannaleiðir“.

Skemmst er eiginlega frá því að segja að sjaldgæft er að sjá embættismann sveitarfélags flengdan á opinberum vettvangi og það af hinum friðsama Ómari Ragnarssyni.  Í greininni hrekur Ómar í fjórum liðum staðhæfingar sem Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, bar á borð fyrir lesendur Morgunblaðsins í síðustu viku sem eiga að rökstyðja að núverandi Álftanesvegur sé lagður af og vegurinn lagður um Gálgahraun.

Ómar segir meðal annars:

Og raunar væri hægt að gera það í núverandi vegarstæði og lagfæra það sem Gunnar telur að lagfæra þurfi. Umferð um Skeiðarvog, sem liggur um öllu meiri byggð og þrengsli en Álftanesvegur, er 14 þúsund bílar á dag án þess að menn séu að fara á límingunum yfir því. Gunnar talar um gríðarlegan vöxt umferðar um Álftanesveg. Hún var þó aðeins 13% meiri 2011 en 2007. 

Rök Ómars eru góð og skemmtigildi greinarinnar þó hún hafi ekki átt að vera það. Eini gallinn er að hún er án nokkurra greinaskila, öll í belg og biðu, en það er nú annað mál.

Ping, ping, ping, ping ... 

Hins vegar er forvitnilegt að fylgjast með því hvernig bæjaryfirvöld í Garðabæ hrekjast úr einu víginu í annað með því að fara annað hvort ekki rétt með eða brúka hálfsannleik.

Bæjarstjórinn nær ekki einu sinni að hitta hvítu kúluna sem hvín yfir netinu, svo tekinn sé upp samanburður við bortennis. Þá heyrist í sífellu; ping, ping, ping, ping, en ekkert pong. Pongleysið hlýtur að vera pirrandi fyrir þá sem stóðu að því að stórskemma Gálgahraun.

 


Jarðskjálftahrina við Vífilsfell

Skjalftar2

Mikil jarðskjálftahrina hefur verið í dag og í gær í og við Vífilsfell. Þar hafa orðið um eitthundrað jarðskjálftar frá því um miðnætti. Þeir dreifast lítið, eru raunar allir í Vífilsfelli og austan við það, í Jósefsdal og fyrir framan hann.

Flestir skjálftarnir eru undir einu stigi. Þó eru á annan tug yfir einu stigi og að minnsta kosti einn yfir tveimur.

Skjálftarnir eru án efa í beinu framhaldi af jarðskjálftahrinum sem verið hafa vestar á Reykjanesi. Í fyrra og á þessu ári voru hrinur við Eldey. Í haust var mikil hrina við Sandvík á Reykjanesi og síðan hafa orðið stöku skjálftar austar og í síðustu viku fóru að finnast skjálftar við Húsmúla við Hengil, í næsta nágrenni við „Hellisheiðavirkjun“. Varla er það svo að skjálftarnir séu vegna niðurdælingar, til þess eru þeir of margir og dreifðir.

Í síðustu viku fóru að finnast skjálftar í kringum Vífilsfell og þar skelfur nú jörðin, rétt eins og við Húsmúla og Sandvík áður. 

Skjalftar

Það merkilegast við þessa hrinu er að nú mælast jarðskjálftar undir þéttbýli og tengjast líklega þessari hrinu í Vífilsfelli. Til dæmis voru í morgun skjálftar við Selásskóla og einnig við götuna Vættaborgir í Grafarvogi. 

Efri myndin er af jarðskjálftakorti Veðurstofunnar og þar má sjá rauða þyrpingu depla við Vífilsfell.

Betra er þó að skoða Google Maps, sjá hér, og þar sést hvernig örvarnar benda á upptökustaði skjálfta í kringum Vífilsfell. Rauða strikið bendir á Vífilsfell.

Ég man ekki eftir jarðskjálftum á þessum slóðum síðustu árin, að minnsta kosti ekki svona miklum. Held þó að þessir skjálftar séu nú ekki fyrirboði um eitt eða neitt. Einungis að hrinur á Reykjanesi hliðrast til og frá. Þegar eitthvað gerist í kringum Eldey kann það að enda með jarðskjálftum við Vífilsfell eða Hengil, jafnvel enn ofar. 


Frambjóðendur eiga ekki að væla eftir prófkjör

Prófkjör er ekki lottó. Í það minnsta ætti viðhorf þátttakenda að vera eitthvað annað. Stjórnmál snúast um stefnu, markmið og framkvæmd.

Niðurstaða prófkjörs eru skilaboð frá kjósendum. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir getur varla hafa mislesið vilja sjálfstæðismanna fyrir prófkjörið svo herfilega að hún hafi talið sig eiga mikla möguleika á fyrsta sætinu. Það var held ég flestum öðrum ljóst. Niðurstaðan var sú að sá sem lenti í fyrsta sæti fékk 1.802 atkvæði en Þorbjörg Helga fékk aðeins 736 atkvæði í það sæti. Þetta er herfilega slæm útreið.

Raunar er það svo að Þorbjörg Helga rétt hafði það í fjórða sætið, á henni og Áslaugu Friðriksdóttur munaði aðeins 14 atkvæðum.

Auðvitað á konan að taka fjórða sætið. Leikrit um eitthvað annað er ekki sæmandi stjórnmálamanni með snefil af sjálfsvirðingu. Frambjóðendur eiga ekki að vera með eitthvað væl eftir prófkjör.


mbl.is Þorbjörg ekki tekið ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósköp eðlilegt að netnotkun eldra fólks sé 80%

Fyrir tuttugu til þrjátíu árum árum voru tölvur að að festa sig nokkuð í sessi. Fólk er núna 65-74 ára var þá 35 til 44 ára. Fjölmargir áttu þá tölvu og kunnu að nota hana og hafa gert síðan og tekið þátt í netvæðingunni sem síðar varð.

Finnst einhverjum það merkilegar fréttir að þetta sama fólk skuli enn þann dag í dag nota tölvur? Eða átti fólk á þeim tíma sem liðinn er að hafa hætt að nota tölvur? Nei, þannig gerast hlutirnir ekki ekki frekar en þeir sem eru læsir hætti einhvern tímann á lífsleiðinni að lesa.

Í þeirri könnun sem frá er sagt í frétt mbl.is kemur fram að fimmtungur fólks á aldrinum  ár fer aldrei á netið ... Þessu er snúið á haus. Í heildina fer 79% fólks á þessum aldri á netið og það er stórkostleg frétt og bendir ekki til þess að þetta fólk eigi að skilgreina sem „aldrað fólk“. Miklu frekar sem vel upplýst fólk sem fylgist með tækninni og nýtir sér hana.

Munum að eftir því sem tímar líða verða fleiri og fleiri sem áður hefðu talist „aldraðir“ í miklu betra formi og miklu ferskara heldur en forfeður þeirra. Vandinn verður þá að þetta fólk fái verkefni við hæfi en sé ekki sett út af vinnumarkaði gegn vilja sínum. 


mbl.is Eldra fólk notar netið meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar var hann ríkisskattstjóri þegar fiðlutónarnir hljómuðu?

FidlaAlveg er maður steinhissa á Ríkisskattstjóra, ASÍ, Skattrannsóknarstjóra, Lögreglunni, Innannríkisráðherra, STEF og öllum hinum að ekki skulu vera gripið í taumanna.

Jú, stórglæpur hefur verið framinn. Morgunblaðið náði mynd af ósvífnum lögbrjóti í Kringlunni. Hann stóð þar á miðju torgi og lék á fiðlu og vegfarendur þökkuðu fyrir sig og létu peninga í fiðluboxið sem stóð fyrir framan lögbrjótinn.

Hið svarta hagkerfi lætur ekki að sér hæða eða er þetta ekki hluti af því.

Báknið hefur áður sýnt hvað í sér býr og til dæmis stöðvað lögbrjóta sem hafa selt baka kleinur í heimahúsum og selt á víðavangi til styrktar hinum ómerkilegustu málefnum.

Þarna var verið að safna fyrir hjálparstarfsemi á Filippseyjum og söfnuðust 54.000 krónur.

Mér er alveg sama hvað Ríkisskattstjóra finnst en fiðluleikarinn á heiður skilinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband