Varla takandi að hafa orð á þessu en ...

Mér hefur alltaf fundist það athyglisvert hversu fólk sem telur sig hafa átt undir högg að sækja í tilveru sinni á auðvelt með að berja á öðrum. Ef til vill er erum við öll svona innrætt og þess vegna er lífið erfitt og óþægilegt. Nú má eiginlega ekki neitt og allra síst vera ánægður vegna eigin tilveru. Helst á fólk að vera með sút og ólund vegna þess að vont fólk er til og sumir eilíflega með ólund.

Vissulega er það svo að Ísland er ekki miðdepill alheimsins, aðeins fyrir okkur. Rétt eins og miðdepill Japana er umhverfi þeirra og svo mun vera með flestar þjóðir heims. Varla tekur því að hafa orð á þessu. Japaninn mun örugglega telja ýmislegt þjóðerni sínu til tekna og síst af öllu er ástæða til þess fyrir mig eða einhvern annan að gera lítið úr því.

Ég er bara þokkalega ánægður með þjóðerni mitt, hreykinn af menningu þjóðarinnar, uppruna hennar, afrekum einstaklinga í gegnum tíðina og kappkosta að velja íslenskar vörur fram yfir útlendar af því að ég veit að slíkt er þjóðhagslega hagkvæmt.

Það ferð þó ekki á milli mála að umhverfi okkar á að mörgu leyti uppruna sinn annars staðar en á Íslandi. Varla tekur því að hafa orð á þessu en þó Íslendingar hafi í fornöld ritað sögur er slíkt ekki upprunnið hér á landi. Ég dáist að fjölmörgum íslenskum skáldum en veit það jafnframt að sögur og ljóð eru samin víða um heiminn. Sama er með svo fjölmargt annað sem hérlendir taka sér fyrir hendur að fólk af öðru bergi brotið í nálægum eða fjarlægum löndum gerir slíkt hið sama. 

Þó svo að ég og mínir líkar hreykjum okkur af forfeðrum eða samtímafólki sem gerir góða hluti þá þýðir það ekki að annars staðar séu ekki einhverjir sem gera nákvæmlega hið sama. Ég hlakka til að sjá fótboltaleikinn við Króata og vonast eftir sigri. Mér er auðvitað fullkunnugt um að fjölmargir vonast á sama hátt eftir því að Ísland tapi leiknum. Svona er nú lífið og varla takandi að hafa orð á þessu en sumum finnst þetta ekki ganga upp.

Hins vegar er það ekki sæmandi að gera lítið úr væntingum mínum, þjóðerniskennd eða öðru því sem tengist menningu og uppruna mínum. Allra síst ættu stjórnmálamenn og leiðtogar að gera lítið úr þessum tilfinningum eða halda því fram að grundvöllur þjóðerniskenndar sé vanþekking eða hroki. Einstaklingar mega hafa sínar skoðanir en alhæfing er aldrei góð. Hún er jafnvitlaus og þeir sem alhæfa. Ólund sína ættu stjórnmálamenn að halda fyrir sjálfa sig.

Auðvitað er lítil ástæða til að hafa orð á þessu nema fyrir þá sök að sumir þrífast á því að gera lítið úr öðrum og reyna með því reyna að upphefja sjálfa sig. Hafi útlendingahatur farið vaxandi hér á landi er varla þjóðerniskennd um að kenna heldur allt öðru. Eignarétti er varla um að kenna að þjófnaður sé ansans ári algengur.


mbl.is Jón Gnarr: Undarleg þjóðerniskennd læðist um
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Góð grein hjá þér Sigurður. Tek undir hana.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2013 kl. 17:01

2 Smámynd: Már Elíson

Fín grein hjá þér, Sigurður - en grein Jóns Gnarr var bara ansi góð greining á því hvernig við hér á Djöflaeyjunni misskiljum veru okkar hér á þessum guðsvolaða útnára, þrælpískaðir á alla lund, og tölum sem lúbarðir þrælar í N-Kóreu, og hömpum einhverju sem ekkert er. -

- Hér er einfaldlega varla / ekki búandi, en samt erum við "stórastir og bestir"...O svei !

Jón Gnarr er ótrúlega greindur, hefur ákkúrat hárrétta sýn á svokallað þjóð-eða mannlíf hér á Djöflaeyjunni, og hefur tækifæri til að segja það sem okkur öllum býr í brjósti, og gerir það. - Svona á að nota málfrelsið og meðvitundina.

Svo segja allir hinir..."Alveg eins og talað úr mínum munni..." en þora ekki að viðurkenna það af ótta við gagnrýni - á sannleikann.

Már Elíson, 12.11.2013 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband