Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Á að malbika Kjöl og Sprengisand?

Hvað er til ráða vegna vegar yfir Kjöl og Sprengisand svo dæmi séu nefnd um hálendisvegi. Því miður eru vegir eru ekki þeirrar náttúru að þeir endurnýi sig og síst af öllu eru þeir sjálfbær fyrirbrigði. Þeir þarfnast reglubundins viðhalds og endurnýjunar. Þetta eru það sem við þurfum að sætta okkur við.

Almennt vill fólk að hálendið sé frumstætt og rómantískur sjarmi þessi haldist um aldir alda. Þetta gengur hins vegar ekki upp þegar ferðamönnum, innlendum og erlendum fjölgar árlega um fimmtung. Þetta þýðir að vegirnir á hálendinu slitna mun hraðar en áður.

Líklega er þrautaráðið að leggja bundið slitlag á helstu hálendisleiðir til þess eins að þeir séu færir. Þetta mættu ekki vera neinar hraðbrautir heldur einfalt slitlag sem kemur til móts við kröfur um þokkalega vegi sem færir eru ferðamönnum og rútum og ganga ekki gjörsamlega þvert á óskir um að hálendið haldist ósnortið.


mbl.is „Óboðlegur vegslóði“ um Kjöl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgafell landsins eru átta

HelgafellNafnið Helgafell er fallegt, ber helgina næstum því með sér. Þau sem ég þekki eru eiginlega íhvolf, svona eins og skál á hvolfi, enginn tindur, heldur er hæsti hlutinn ... bara þar sem hæst ber. Þau eru tilgerðarlaus, frekar lítil og er því réttnefnd fell. 

Mér telst svo til að átta fjöll á landinu beri nafnið Helgafell. Má vera að þau séu fleiri, sé svo myndi vinsamlegur lesandi eflaust láta mig vita.. Þau eru ekkert sérstaklega há sé miðað við umhverfið.

  1. Helgafell ofan Hafnarfjarðar, 340 m á hæð
  2. Helgafell í Mosfellsbæ, 217 m 
  3. Helgafell skammt frá Stykkishólmi, 73 m
  4. Helgafell við Hvalsárdal í Hrútafirði, 301 m
  5. Helgafell við Dýrafjörð, skammt frá Þingeyri, 549 m
  6. Helgafell á Seljaheiði, suðvestan við Þistilfjörð, 460 m
  7. Helgafell á Vatnsdalsfjalli norðaustan við Hvolsvöll, 362 m
  8. Helgafell á Heimaey, 226 m

Ekki þekki ég þau öll, vantar þrjú upp á. Það vekur athygli mína að þú eru einkum á vesturhluta landsins, með einni undantekningu.

Frægasta Helgafellið er án efa það sem er í samnefndri sveit og skammt frá Stykkishólmi. Í Eyrbyggju segir frá Þórólfi Mostraskegg, landsnámsmanni:

Þórólfur kallaði Þórsnes milli Vigrafjarðar og Hofsvogs. Í því nesi stendur eitt fjall. Á því fjalli hafði Þórólfur svo mikinn átrúnað að þangað skyldi engi maður óþveginn líta og engu skyldi tortíma í fjallinu, hvorki fé né mönnum, nema sjálft gengi í brott. Það fjall kallaði hann Helgafell og trúði að hann mundi þangað fara þá er hann dæi og allir á nesinu hans frændur.

Síðar í sögunni segir:

Það var eitt kveld um haustið að sauðamaður Þorsteins fór að fé fyrir norðan Helgafell. Hann sá að fjallið laukst upp norðan. Hann sá inn í fjallið elda stóra og heyrði þangað mikinn glaum og hornaskvöl. Og er hann hlýddi ef hann næmi nokkur orðaskil heyrði hann að þar var heilsað Þorsteini þorskabít og förunautum hans og mælt að hann skal sitja í öndvegi gegnt föður sínum. Þennan fyrirburð sagði sauðamaður Þóru konu Þorsteins um kveldið.

Hún lét sér fátt um finnast og kallar vera mega að þetta væri fyrirboða stærri tíðinda.

Um morguninn eftir komu menn utan úr Höskuldsey og sögðu þau tíðindi að Þorsteinn þorskabítur hafði drukknað í fiskiróðri og þótti mönnum það mikill skaði.

Saga Helgafells á Þórsnesi tengist órjúfanlegum böndum sögu þjóðarinnar. Ekki aðeins er það áberandi í Eyrbyggju heldur alla tíð síðan. Þar var löngum kirkja og einnig klaustur og ábúendur á jörðinni Helgafelli voru margir merkilegir menn allt frá söguöld og lengi síðan.

Saga annarra Helgafella er ekki eins litrík. Engu að síður er Helgafell ofan Hafnarfjarðar afar þekkt í samtímanum. Þangað flykkist fólk á björtum dögum og gengur á fjallið enda er það auðvelt fyrir flesta þó sums staðar sé það bratt og geti verið hættulegt óvönum. Sama má segja með Helgafell í Mosfellsbæ og jafnvel Helgafell á Heimaey.

Látum þetta duga að sinni. Næst ætla ég að segja frá Búrfellum landsins. Þau eru æðimörg. 


Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar og andlát stjórnarandstöðu

Hvar sem komið er verður þess vart að stuðningsmenn og velunnarar núverandi ríkisstjórnar eiga erfitt með að skilja á hvaða vegferð hún er. Það eru ekki aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem valda þessu heldur miklu fremur það sem þessi hópur fólks upplifir sem aðgerðarleysi.

Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á Evrópuvaktinni. Ég rak upp stór augu, hélt að ég væri einn áhyggjufullur vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar. Ekki síður hefur maður áhyggjur af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Sumir þeirra virðast frekar meðvitundarlausir um tilveru og samtíð. 

Látum þó stjórnarandstöðuna njóta sannmælis. Hún er gjörsamlega dáin. Sumir þessara nýju þingmanna virðast ekkert hafa til brunns að bera nema daglegt tuð og tafs. Forðum var sagt að sitt hvað væri gæfa og gjörvileiki. Í því ljósi má ef til vill segja að ekki sé allt fjölmiðlavænt fólk gott til löggjafarstarfa eða stjórnmálaþátttöku. Því miður er það þannig að mikið vantar upp á að nýju þingmennirnir stigi fram með góðar hugmyndir og hafi til að bera þann eldmóð sem nauðsynlegur er til að koma þeim í framkvæmd.

Styrmir Gunnarsson segir um stjórnarandstöðuna: 

En þótt ástandið sé bágborið meðal stuðningsmanna stjórnarflokkanna, sem hafa orðið fyrir vonbrigðum - miklum vonbrigðum - er það sízt betra í stjórnarandstöðuflokkunum. Þótt þeir hafi eitthvað verið að bæta stöðu sína í skoðanakönnunum fer hitt ekki á milli mála, að þeir hafa ekkert að segja sem máli skiptir. Það eru engar vísbendingar um að einhvers konar endurnýjun stefnumótunar fari fram í þeim herbúðum.

Þetta er rétt og jafnframt afar sorglegt að stjórnarandstaðan hafi gefið upp andann svona snemma á kjörtímabilinu.


Frelsi fólks til ferðalaga um landið er grundvallaratriði

HonrvíkÉg er á móti svokölluðum „náttúrupassa“. Landsmönnum á að vera frjálst að ferðast um landið án þess að greiða landskatt, hvorki til ríkis né landeigenda. Ein af grundvallarréttindum frjálsrar þjóðar er að mega fara um land sitt óhindrað en um leið að hlíta lögum og reglum sem sett eru.

Verði hindranir á ferðum um landið leiddar í lög, hvort heldur í formi skatta eða annars er ástæða til að rísa upp berjast og um leið gegn því fólki sem þau setur.

„Náttúrupassi“ mun verða til þess að eyðileggja hefðbundin ferðalög okkar Íslendinga, takmarka möguleika okkar til akstursferða eða gönguferða. Það má aldrei gerast

Útvarpsgjaldið hafði slæmar afleiðingar 

Fyrir nokkrum árum var tekið um svokallað „útvarpsgjald“ sem er ekkert annað en skattur, innheimta áskriftargjalds fyrir Ríkisútvarpið.

Enginn á að vera skyldaður með lögum til að kaupa vöru eða þjónustu sem hann vill ekki. Þeir sem ekki vilja nýta sér þjónustu Ríkisútvarpsins eiga ekki að þurfa að sætta sig við lögþvingaða áskrift. Að auki er það ekki þeirra vandamál þó fjölmiðillinn sé rekinn með halla. Hins vegar hefur „útvarpsgjaldið“ haft skelfilegar afleiðingar fyrir samkeppni á fjölmiðlamarkaði.

Gríðarlegar tekjur af ferðaþjónustu 

Í Morgunblaðinu í morgun er viðtal við Önnu Dóru Sæþórsdóttur, dósent í ferðamálafræði við HÍ. Í viðtalinu er haft eftir Önnu Dóru (feitletranir eru mínar):

Á árinu 2013 stefni í að tekjur ríkissjóðs af ferðaþjónustu verði 17 milljarðar og 10 milljarðar í viðbót sé tekið tillit til allra þátta. Um 7.000 störf hafi skapast í ferðaþjónustu, hún skili 239 milljarða gjaldeyristekjum og sé ein af þremur undirstöðuatvinnugreinum landsins. 

Ferðaþjónustan leggur til gríðarlegar fjárhæðir í ríkissjóð og gjaldeyristekjur hennar eru himinháar. Því er ekki furða þótt við, sem leggjumst á móti „náttúrupassa“ spyrjum hvort ríkissjóðir hafi ekki efni á að sinna verkefnum fyrir atvinnugrein sem hann mokgræðir á?

Ekki slæmt að ferðamönnum fjölgi hægar 

Anna Dóra nefnir skýrslu á vegum Boston Consulting Group sem flestir er fylgjast með umræðunni þekkja. Um hana segir Anna Dóra (feitletranir eru mínar): 

Ein af mótbárunum í skýrslunni við komu- eða brottfarargjaldi sé sú að þá myndi ferðamönnum ekki fjölga eins ört og undanfarin ár. „En er það slæmt að ferðamönnum fjölgi hægar? Er það ekki nákvæmlega það sem við þurfum á að halda til þess að við getum vandað okkur betur við að byggja upp greinina til framtíðar?“ spyr Anna Dóra. Lengi hafi verið talið eftirsóknarverðara að fjölga vel stæðum ferðamönnum, frekar en einblína á fjölgunina sem slíka. Það sé ekki hollt fyrir neitt land að ferðamönnum fjölgi um 20% á milli ára, ár eftir ár, líkt og hér hafi gerst

Auðvitað er þetta rétt. Komu- eða brottfarargjald er einfaldlega skattur rétt eins og aðrir skattar og ríkisvaldinu í sjálfsvald sett hvernig hún ráðstafar tekjum af honum.

Göfug fyrirheit en slæmar afleiðingar 

Hitt er hrikalega vont ef löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið ætli sér að kollvarpa ferðaháttum landsmanna með því að segja á „náttúrupassa“. Aðeins með nafninu er verið að fara í feluleik með tilganginn. Hann er einfaldlega sá að afla enn frekar tekna, skattleggja almenning enn meira og nú í því skjóli að aurinn fari í náttúruvernd og fyrirbyggjandi aðgerðir. Með göfug fyrirheit er farið af stað með verkefni sem hafa mun ljótar afleiðingar.

Sannast sagna er komið nóg. Ríkissjóður á ekki annarra kosta völ en að draga úr útgjöldum, hann getur ekki gengið frekar í veski landsmanna. Punktur.

Á að láta þetta yfir sig ganga?

Frá barnæsku hef ég ferðast um landið og hef fullan hug á að halda því áfram meðan ég hef tvo fætur og heilsu. Ég ætla ekki að borga ríkissjóði gjald fyrir að ganga yfir Fimmvörðuháls, upp á Esju, um Hornstrandir og Firði, yfir jökla, sigla niður ár, róa um firði, aka vélsleðum eða jeppum svo dæmi sé tekið. Frekar mun ég sleppa því yfirleitt að greiða skatta ...

Það eru einfaldlega siðferðileg takmörk fyrir því hvað ríkisvaldið má gera.  

 


25 Skálafell á landinu af ýmsu tagi

Skálafell kort

Hvernig verða örnefni orðið til? Landsmenn hafa auðvitað nefnt staði, sum nöfn hafa náð að festast um sinn, kynslóðir geyma örnefnin, gleymt öðrum, búið til ný þegar það hefur hentað.

Skaðinn er hins vegar ekki mikill fyrr en með breyttri landnotkun. Þar af leiðandi hefur gildi örnefna aukist, ekkert mun koma í stað þeirra sem tapast vegna þess að notkun landið er að breytast hröðum skrefum.

Eigendur hafa ekki nú sömu þörf fyrir örnefni, landslagið liggur ljóst fyrir á kortum og punktum og svo hroðalega framtíðarsýn gæti blasað við að staðir beri einungis tölur en ekki nöfn. 

Skalafell á Reykjanesi

Þá má spyrja hvor nefna megi staði sem ekkert nafn bera? Hin breytta landnotkun felur t.d. í sér að ferðamönnum fjölgar og þeir hafa annan skilning og aðra þörf fyrir örnefni en fjárbændur og hestamenn liðins tíma.

Hvernig geta örnefni náð að festast í sessi ef bannað er að nefna staði?

Skalafell Drapuhlidarfjall

Ég er ekkert tiltakanlega fróður um örnefni en hef af því mikla ánægju að rýna í þau. Eiginlega hef ég mestallt mitt vit frá Þórhalli Vilmundarsyni sem eitt sinn var forstöðumaður Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins og þar var gefið út ritið Grímnir, stórmerkilegt rit um örnefni og skýringar þeirra.

Þórhallur er höfundur svonefndrar náttúrunafnakenningar sem byggir á því að örnefni eigi uppruna sinn frekar í umhverfinu heldur en í nöfnum og sögum.

Um daginn var ég eitthvað að velta fyrir mér fjallinu Skálafell sem er austan við Esju og Móskarðshnúka. Það leiddi til þess að ég fór að telja Skálafellin á landinu. Þau eru að minnsta kosti ellefu og líklega frekar fimmtán, jafnvel fleiri. Afleidd nöfn eru mörg, til dæmis Skálafellsöxl, Skálfellssel og fleiri.

Skálafell í Kjós

Eitt fjall ber nafnið Skálarfell og fimm fjöll bera nafnið Skálarfjall. Því til viðbótar eru til afleidd örnefni eins og Mánaskálarfjall, Skessuskálarfjall, Smjörskálarfjall.

Auðvitað fór ég að hugsa um nafnið, hvaðan skálin kemur sem fast er í nafninu. Þórhallur Vilmundarson hefur skrifað um Skálafell í Grímni og segir (vitnar meðal annars í Jónas Magnússon í Stardal (greinaskil eru mín)):

 Sunnan í S. [Skálafelli] norðan Mosfellsheiðar „er hvilft, er heitir Skál, sem fellið dregur nafn af. Þar hefur fellið einhvern tíma sprungið fram. Talað er um að „fara upp í Skálina“.“ (Örn.).

Skálafell við hellisheiði

Ýmis fleiri Skála-örnefni eru dregin af no. skól ´hvilft´, sbr. fjallsheitið Skåla í Noregi (NSL 286).

Skálafell,. -fjall eru algeng fjallanöfn á Íslandi, og kunna sum þeirra að vera líkingarnöfn, þar sem lögun þeirra minnti á skála, sbr. sum Búrfell.

S. [Skálafell] sunnan Hellisheiðar minnir á húsburst séð úr Ölfusi og mætti verl slíkt líkingarnafn.“ 

Ég hallast nú helst að því að nafnið Skálafell sé dregið af skál sem myndast hefur við berghlaup úr fjallinu. Þetta getur þó ekki verið einhlítt. Fjölmörg Skálafellin eru án 'skálar' og þar eru engin berghlaup. Þessi fjöll minna helst á skál á hvolfi.

Efsta myndin er af Skálafelli á Reykjanesi. Á henni sést Reykjanesviti sem stendur á litlu felli og hægra megin á myndinni er mikill skjöldur sem heitir Skálafell. Þar er ekkert berghlaup og nafnið hugsanlega dregið af orðinu skál. Þó veit ég ekki hvort orðið 'skál' hafir verið til á söguöld eða hvenær það birtist í málinu.

Á næstefstu myndinni er Drápuhlíðarfjall, litríkt og fagurt. Við rætur þess, vinstra megin á myndinni er hamrabelti og þar held ég að heiti Skálafell. Lögunin er ekkert ólík Skálafelli við Hellisheiði en mynd af því er hérna fyrir ofan, hægra megin.

Í Kjós er Vindáshlíð og þar fyrir ofan er fjallið Sandfell, keilulagað og formfagurt. Þriðja myndin hér fyrir ofan er af Sandfelli og glittir í Hvalfjörðinn enda myndin tekin af Skálfelli við Mosfellsheiði. Lítið Skálafell mun vera hægra megin við Sandfell, en ekki get ég fundið því stað. Það hlýtur að vera frekar lítið.

Þannig er það eiginlega með mörg Skálafellin á landinu. Þau eru frekar lítil og sjást ekki vel tilsýndar. Þannig er það með þau sem eru á heiðum fyrir austan. Önnur fjöll sem bera nafnið finnast á öðrum fjöllum eða fjallshryggjum. Þannig er það með Skálafellin á Skorradalshálsi, á Þverárhlíð og víðar. Önnur eru tengd öðrum fjöllum órjúfanlegum böndum eins og Skálafell við Hesteyrarfjörð sem tengist Lásfjalli og Skálarfjall í Hafursey.

Ég þekki ekki Skálafellin þrjú á Sandvíkurheiði en þau nefnast Austasta-Skálafell, Mið-Skálafell og Vestasta-Skálafell en ekkert ber nafnið Skálafell.

Á suðaustanverðu landinu er Skálafellsjökull, Skálafellshnúta og bæirnir Skálafellssel og Skálfafell. hvergi er þó að finna hið eiginlega Skálafell, eftir því sem ég best fæ séð á landakorti. Hins vegar gæti ég trúað því að Skálafellshnúta hafi áður heitið Skálafell, dreg þá ályktun af lögun fjallsins. Það er skálarlaga.  

Enn er margt ósagt um Skálafellin á landinu en þó er ljóst að örnefnin finnast víða um land, eru ekki bundin við einhvern einn landshluta. 

 

 

 

 


Steingrímur og ESB-umsóknin

Eins vaknar sú spurning hvers vegna VG hafi á endanum þurft að gera „erfiða málamiðlun“ vegna málsins, eins og Steingrímur orðaði það meðal annars á Alþingi 10. júlí 2009, ef niðurstaða málsins var í samræmi við stefnu flokksins. Sú málamiðlun fólst í því að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, lagði fram þingsályktunartillögu um að sótt yrði um inngöngu í Evrópusambandið en ekki formlega í nafni ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna þurfti slíkt fyrirkomulag ef framhald málsins eins og það síðan varð var í samræmi við stefnu VG? Hver var þá tilgangurinn með því? Vitanlega var ástæðan sú að stefna flokksins heimilaði alls ekki slíka umsókn. Því þurfti krókaleiðir.

Hjörtur Guðmundsson, blaðamaður Morgunblaðsins, ritar góðan Pistil á blaðsíðu tuttugu og sex í Morgunblaði dagsins. Í henni fjallar hann um þversagnir í stefnu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs vegna umsóknar landsins í ESB og bók Steingríms J. Sigfússonar, fyrrum ráðherra og formanns flokksins.

Eins og Hjörtur rekur  í ofangreindri tilvitnun og í pistlinum sjálfum rekur sig hvað á annars horn í yfirlýsingum og framkvæmdum flokksins í ríkisstjórn. Í öðru orðinu hélt flokkurinn, og þá Steingrímur, því fram að flokkurinn væri á mót aðild að ESB. Í hinu orðinu var stefnan svikin og sótt um aðild að ESB. Í þokkabót var því skrökvað að þjóðinni að umsóknin væri til þess gerð að fá „góðan samning“ við ESB.

Hjörtur segir:

Tilgangurinn var fyrst og síðast að tryggja áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf vinstriflokkanna. Andstöðu VG við inngöngu í Evrópusambandið var einfaldlega fórnað í þágu þess, enda sagði Steingrímur í títtnefndri ræðu sinni að sumir myndu kalla málamiðlunina við Samfylkinguna fórn. Væntanlega hefur hann sannfært sjálfan sig um að nauðsynlegt væri að færa þá fórn fyrir ráðherrastólana. En það voru bara ekki allir reiðubúnir til þess.  

Þetta er auðvitað ástæðan fyrir andstöðu Jóns Bjarnasonar, Hjörleifs Guttormssonar, Ásmundar Einars Daðasonar, Atla Gíslasonar og fleiri VG manna sem einfaldlega sögðu sig úr flokknum vegna ESB málsins. Steingrímur getur því ekki haldið því fram að allt leiki í lyndi því þannig er það ekki.

Vegna fjögurra ára samfelldan tíma mistaka Steingríms og annarra samferðamanna hans tapaði VG hrikalega í síðustu þingkosningum og Steingrímur þurfti að segja af sér. Nú gerir hann upp fortíðina í bók á afar umdeildan hátt rétt eins og hann ritaði bók sem kom út árið 2006 og þar sem hann ætlaði að gera upp framtíðina.


Listin og persónuleg skoðun listamannsins?

Conductors

Getur maður hlustað á hljómsveitarstjóra, sem hefur lýst yfir stuðningi við stefnu Pútíns gegn samkynhneigðum og réttlætt ofsóknirnar gegn Pussy Riot, stjórna Tsjaikovskí og Shostakovits? [...] Sá sem hér er átt við er Valeri Gergiev, aðalstjórnandi í Marinskí leikhúsinu í Pétursborg og London Symphony Orchestra.

Þannig spyr Egill Helgason, þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu, í pistli á Eyjunni. Mér finnst þetta dálítið merkileg spurning og eiginlega heimspekileg. Varla er til við henni einhlítt svar en eflaust má skemmta sér með því að nálgast umræðuefnið fjölmargan máta.

Móðir mín var afar vel að sér í ljóðum, varla var það ljóð til sem hún kunni ekki eða hafði á eitthvað á hraðbergi um höfundinn. Einhverju sinni hafði ég uppgötvað, sem barn eða unglingur, að Jónasi Hallgrímssyni hafi þótt sopinn góður. Ég spurði móður mína hvernig hægt væri að taka mark á svona fyllibyttu og þykja vænt um ljóðin hans. Mæður hafa jafnan góð svör við öllu. Hún sagði einfaldlega það að ekki væri endalaust hægt að eltast við höfundinn sjálfan, það gæti enginn. Ljóðin stæðu fyrir sínu hvernig sem höfundurinn hafði hagað lífi sínu.

Þetta fannst mér gilt svar og tók ljóðin í sátt en skildi á milli þeirra og höfundarins. Síðar hef ég kynnst Jónasi af bókum góðra manna og líkar bara ágætlega við hann.

Eftir að ég varð eldri og reyndari gekk nú verr að skilja á milli listamanns og listar. Ég man hvað mér mislíkaði er ég uppgötvaði að Frank söngvari Sinatra hafi verið inni á gafli hjá mafíunni og hann hafi verið svo mislyndur að hann hafi barið bæði eiginkonur og börn. Svo hefur smám saman farið að mér þykir orðið æ leiðinlegra að hlusta á Franky boy. Hugsanlega er það bara vegna þess hversu tilgerðarlegur mér þykir hann.

Ég á margar bækur en met þær sjaldnast eftir höfundunum, miklun frekar eftir efninu. Uppi í hillu hjá mér eru pólitískar bækur eftir Magnús Kjartansson, Lúðvík Jósefsson, Einar Olgeirsson, Bjarna Benediktsson, Hannes Hólmstein Gissurarson, Valtý Stefánsson, ljóðabækur eftir Davíð Stefánsson og Einar Benediktsson, skáldsögur eftir hina og þessa og svo má lengi telja. Það myndi nú æra óstöðugan ef hann myndi telja réttlætanlegt að gera úttekt á höfundunum áður en hann byrjaði að lesa.

Mér er til mikils efs að ég geti heyrt muninn á túlkun Valeri Gerviev er hann stjórnar hljómsveit sem leikur Svanavatnið eftir Tschaikovsky eða hvort stjórnandinn sé Leonardo Bernstein, Pierre Boulez, Bernard Hitink, Carols Kleiber, Daniel Barenboim, Riccardo Muti, Simon Rattle, Claudion Abbado svo margir af stórkostlegustu hljómsveitarstjórum þessarar og síðustu aldar séu nefndir. 

Og hver skyldi skoðun þeirra vera á samkynhneigð? Couldn't care less ... segi ég nú bara og á líklega von á ávirðingum frá einhverjum. 

Myndina tók ég af vefnum sinfinimusic.com. 


Enn má hætta við vegagerð um Gálgahraun

Einn af hinum vinsamlegu gagnrýnendur vegar um Gálgahraun ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Þetta er hann Ómar Ragnarsson, kurteisi eldhuginn sem ann náttúru landsins og vill miðla þekkingu sinni til annarra.

Einhverra hluta vegna bæjarstjórn Garðabæjar og Vegagerðin álíta hann óvin og stórhættulegan mann. Hann er maðurinn sem Vegagerðin lét handtaka eins og ótíndan glæpamann og flytja úr friðsamlegum mótmælum í Gálgahrauni og sekta fyrir óspektir eða óhlýðni við „valdstjórnina“ eins og það heitir.

Ómar hefur mér vitanlega aldrei gert flugu mein, en orð hans hafa áhrif og undan þeim virðist bæjarstjórninni í Garðabæ svíða meira en allt annað. Hún mun ábyggilega reyna að svara grein Ómars, kalla út stórskotaliðið og helst sprengja vetnissprengju til að takmarka skaðann ... eins gáfulegt og það nú er.

Rök sjálfstæðismannsins

Í greininni vitnar Ómar til Ólafs Kr. Guðmundssonar, verkefnisstjóra EuroRAP á Íslandi. Ég hef þekkt Ólaf lengi. Hann er afskaplega mikill fræðimaður, ann náttúru landsins og hefur ákveðnar skoðanir í umhverfisvernd. Í ofanálag er hann Sjálfstæðismaður, og nú síðast höfum við starfað saman ásamt fleira góðu fólki í umhverfis- og samgöngunefnd Sjálfstæðisflokksins. Að auki er hann frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosninganna næsta vor, býður sig fram í 4. sæti (og ég ætla að kjósa hann í það sæti).

Eru þetta rök æsingamanna? 

Tökum eftir að margir skynsamir menn hafa lagt margt gott til í rökræðunum um Gálgahraun. Þetta eru engir æsingamenn, ekki frekar en Ómar, Reynir Ingibjartsson, Eiður Svanberg Guðnason og fleiri og fleiri. Bara gott fólk með einlægar skoðanir um verndun umhverfisins. Hvaða rök hefur bæjarstjórn Garðabæjar til að geta hunsað óskir og ábendingar frá góðu fólki? Jú, lítum á það sem Ómar segir í grein sinni í Mogganum í dag:

Ólafur reiknaði út að hvað heildartölu umferðaróhappa snerti er Álftanesvegur númer 22 af 44 sambærilegum vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir að 21 vegarkafli er með hærri óhappatíðni. 

Skeiðarvogur og Álftanesvegur 

Og með hliðsjón af skýrslu Ólafs Kr. Guðmundssonar um slysatíðni á árunum 2007-2011 á vegarköflum á höfuðborgarsvæðinu í rekstri Vegagerðarinnar, segir Ómar:

Að undanförnu hefur verið stagast á [þeirri] síbylju, nú síðast innanríkisráðherra og bæjarstjórinn í Garðabæ, að vegna umferðarálags og hættulegra aðstæðna sé ekki hægt að notast við núverandi vegarstæði Álftanesvegar og engin leið að endurbæta veginn þar. Hið rétta er að umferðin á dag um veginn er innan við 7 þúsund bílar, en til samanburðar má geta þess að dagleg umferð um Skeiðarvog, sem liggur í gegnum öllu meiri húsaþrengsli og meiri byggð og auk þess með tvo skóla hið næsta sér, er 14 þúsund bílar á dag.

Jú, það kemur fyrir að ráðherra fari með rangt mál, jafnvel sá sem situr í umboði Sjálfstæðisflokksins. Hann er hins vegar ekki undanþeginn gagnrýni og fær hana málefnalega hjá Ólafi og Ómari.

Sáttartillaga Ómars

Það sem vekur undrun mína í öllu þessu máli eru viðbrögð stjórnvalda. Þau einkennast síst af því fornkveðna að sá sé vinur sem til vamms segir. Miklu frekar að sá sem finnur að því sem stjórnvöld aðhafast séu upphlaupsmenn eða stórhættulegt lið með vondar skoðanir sem gera ekkert annað en að skaða lífsmöguleika almennings ... Ekkert er fjarri sannleikanum. Ómar segir í niðurlagi greinar sinnar:

Ég skora á þá, sem að þessu hafa staðið, að staldra við og finna lausn til að bjarga því sem bjargað verður, þrátt fyrir þau spjöll sem þegar hafa verið unnin. Til greina gæti komið að gera leiðina um sjálft hraunið að göngu- og hjólreiðastíg, enda er breidd þess ruðnings, sem nú er kominn, enn aðeins brot af ætlaðri heildarbreidd á helmingi leiðarinnar. 

Íslensk stjórnsýsla 

Þrátt fyrir óblíða meðhöndlun lögreglunnar og dvöl í fangelsi er Ómari enn vinsamlegur og hann réttir út sáttahönd sem bæjarstjórn Garðabæjar ætti að grípa í feginsamlega. Út á það ætti eiginlega íslensk stjórnsýsla að ganga, að geta séð að sér, geta bakkað með ákvarðanir þegar óskir og ábendingar um betri úrlausnir berast.

Ómar, Ólafur og félagar þeirra eru ekki óvinir bæjarstjórnar Garðabæjar, Vegagerðarinnar eða innanríkisráðherra. 


Grunsamlega fáir jarðskjálftar á landinu

SkjalftarMér verður alltaf dálítið órótt þegar ég frétti af því að fáir eða aungvir jarðskjálftar mælast á landinu. Og þannig er það nú ef marka má þessa mynd af jarðskjálftakorti Veðurstofunnar núna klukkan 14:30.

Þarna eru merktir inn fimm jarðskjálftar frá því klukkan þrettán á mánudaginn síðasta.

Tveir þeirra eru á suðurhluta landsins. annar svona miðja vegu á milli Skálafells á Hellisheiði og Raufarhólshellis. Hinn skjálftinn var skammt suðvestan við Hrafntinnusker, það er í áttina að Laufafelli.

Fyrir norðan urðu tveir skjálftar á sama stað sem er skammt vestnorðvestan við Öskju og sá þriðji er í sjó suðaustan við Flatey á Skjálfanda.

Þetta er nú allt og sumt.

Í stuttu máli, ekkert virðist vera að gerast. Kyrrð landsins er grunsamleg.

En lesandi góður, finnur þú ekki kuldahrollinn læðast niður bakið, gæsahúðina myndast og ótta vaxa í huga þér?

Sá draumspaki miðill sem ég vitna oft til er skelfingu lostinn. Hann dreymdi um daginn fyrir stórkostlegum náttúruhamförum og staðsetur þær í Bárðarbungu í Vatnajökli. Þar mun gjósa, segir hann. Og ekki nóg með það heldur mun á sama tíma gjósa við Kleifarvatn, nærri Gullbringu. Þar mun renna hraun allt til sjávar.

Ég held ró minni, þessi ágæti maður hefur aldrei reynst sannspár. Ástæðan fyrir því að ég nefni hann hér er að ég veit ekki um neinn annan. 


Hálfsannleikur Steingríms um aðildarumsóknina að ESB

Orðrétt segir Steingrímur um þá ákvörðun að setja ESB-aðild á verkefnalista ríkisstjórnarinnar: „Mín hugsun var sú að loks væri þá hægt að fá einhvern botn í þetta mál sem hafði hangið svo lengi yfir okkur. Við skyldum bara láta á þetta reyna.“

Steingrímur segir að sú niðurstaða að fallast á að Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, legði fram tillögu um aðildarumsókn að ESB hafi verið sér á móti skapi, en hún var sem kunnugt er samþykkt 16. júlí 2009.

Þetta segir í frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu í morgun. Í henni er fjallað um ESB umsókn síðustu ríkisstjórnar og vitnað í bók Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi ráðherra, en hún nefnist „Frá hruni og heim“.

Steingrímur ræðir í raun ekkert um ástæðuna fyrir ESB umsókninni heldur telur að þurfi að fá „botn í málið“ og það hafi einungis verið hægt með því að sækja um aðild.

Ríkisstjórnin sótti blindandi um aðild, vissi ekki eða leyndi því hvernig aðild að ESB fer fram. Ráðherrarnir töluðu jafnan um samning sem alls ekki er niðurstaða aðildarumsóknar. Í þokkabót reynir Steingrímur að komast hjá því að ræða hina raunverulegu ástæðu fyrir umsókninni og hvers vegna Vinstri grænir samþykktu hana þvert á stefnuskrá sína.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, áttar sig betur á því sem að baki umsóknarinnar lá. Hann segir á Evrópuvaktinni:

Skýringar Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi formanns VG á svikum hans og flokksins í ESB-málum í nýrri bók hans eins og þeim er lýst í Morgunblaðinu í dag ganga ekki upp. Það eru engin rök fyrir aðildarumsókn að hún hafi verið lögð fram til þess að málið væri ekki hangandi yfir íslenzkum stjórnmálamönnum.

Það var til önnur leið til þess að hreinsa það út af borðinu ef þetta var aðal áhyggjuefni Steingríms J. Sú aðferð var einfaldlega að spyrja þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vildi sækja um eða ekki. Þar með var komin niðurstaða á hvorn veginn, sem hún hefði orðið og það með lýðræðislegum hætti og málið ekki lengur hangandi yfir Steingrími J.

Það er hins vegar hægt að hafa samúð með Steingrími J. í tilraunum hans til að útskýra afstöðu sína vegna þess að hana er ekki hægt að útskýra nema með því að segja sannleikann.

Sannleikurinn var sá, að Samfylkingin neitaði að mynda ríkisstjórn með VG nema sótt yrði um aðild. Í stað þess að láta lýðræðið ráða samdi Steingrímur J. um það á bak við lokaðar dyr að svíkja stefnu eigin flokks til þess að komast í ríkisstjórn. 

Auðvitað var þjóðaratkvæðagreiðsla eina leiðin til að útkljá „þetta mál sem hafði hangið svo lengi yfir okkur,“ eins og Steingrímur orðar það. Steingrímur og félagar hans vildu ekki þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að Samfylkingin óttaðist niðurstöðurnar. 

Þessi litla tilvitnun úr bók Steingríms er í hnotskurn ástæðan fyrir því að almenningur metur stjórnmálamenn lítils. Þeir víkja margir umsvifalaust frá stefnu sinni og hugsjónum þegar það hentar. Og þjóðin er ekki einu sinni spurð álits í jafn viðamiklu máli og aðild að ESB.

Steingrímur lætur sér sæma að flytja hálfsannleika en gerir það svo mætavel eins og hans er von og vísa að margir eiga eftir að trúa honum. Þetta ætti nú að kenna okkur, almenningi þessa lands, kjósendum, að láta ekki kjaftaskanna stjórna. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband