Annað hvort náttúrupassi eða frelsi til ferða

HattverSvokallaðaður „náttúrupassi“ er er komin á það stig að svo virðist sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Elín Árnadóttir, sé ákveðin í því að taka hann í brúk, hvað sem hver segir.

Fyrir nokkrum árum var svokallað „útvarpsgjald“ sett í lög og það þýðir einfaldlega að ríkið rukkar áskrift fyrir Ríkisútvarpið og skiptir ekki nokkru máli hvort greiðandinn hefur áhuga á fjölmiðlinum eða ekki. Í þokkabót var það ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem kom þessum skatti á.

Geri fólk ekki sér grein fyrir því hversu alvarlegt þetta mál er þá væri skynsamlegt að lesa Moggann í morgun. Annað hvort virðst málið snúast um „náttúrupassa“ eða hömlur verði lagðar á ferðafrelsi landsmanna.

„Besta lausnin“? 

Í Morgunblaðinu er fréttaskýring um „náttúrupassann“ enda ekki er bent á nein andstæð sjónarmið. Hér vil ég reyna að malda örlítið í móinn.

Í fréttaskýringunni segir:

Í skýrslu Boston Consulting Group, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að náttúrupassi sé besta lausnin, er sagt að hæfilegt sé að náttúrupassi kosti „nokkur þúsund krónur“ og að tekjur af náttúrupassanum geti hlaupið á 700 milljónum og upp í 4,6 milljarða fyrsta árið.  

Tvennt er við þetta að athuga. 

Í fyrsta lagi er talað er um „bestu lausnina“ sem er auðvitað ranglega ályktað. Ríkið hefur ótrúlegar tekjur af ferðaþjónustunni, hátt í þrjátíu milljarða króna og nærri tvöhundruð og fjörtíu milljarðar koma í gjaldeyristekjur. Þrátt fyrir þetta er á fjárlögum næsta árs aðeins gert ráð fyrir tvöhundruð og sextán milljónum króna í uppbyggingum á ferðamannastöðum. Sem sagt, 0,7% er veitt til uppbyggingarinnar.

Í öðru lagi er fullyrt að tekjur geti verið allt að 4,6 milljarðar króna fyrsta árið. Ekki er nema von að fólk fái glýju í augun og haldi að „náttúrupassi“ leysi öll vandamál. Til viðbótar má áætla að glýja ríkisstjórnarinnar sé ekki minni.

Misnotkun ríkisins á sértækum sköttum 

Spyrja má hversu marga sértæka skattstofna hafi ríkið misnotað? Þeir eru fjölmargir. Núna síðast er ætlunin að snuða Ríkisútvarpið og áskriftarskatturinn mun ekki allur fara til þess heldur í einhverja aðra málaflokka.

Af reynslunni má fullyrða að tekjur af „náttúrupassanum“ verða misnotaðar, þeim verður veitt til annarra málaflokka. Á þetta bendi ég til að stuðningsmenn „náttúrupassans“ átti sig á eðli skattheimtu ríkisins. Það er ekkert gefið í þeim efnum.

Afnám frelsis til ferðalaga 

BCG telja ekki að Íslendingar ættu að vera undanþegnir gjaldtökunni en að gjaldið mætti greiða í gegnum skattkerfið. Fyrir upphæð sem jafngildir 30 daga passa fyrir ferðamenn fái Íslendingar passa sem gildi í fimm ár. Það væri m.a. hægt að gera með því að krossa í viðeigandi reit í skattaskýrslu, en sú aðferð er nú þegar notuð við kaup á slysatryggingu við heimilisstörf og er iðgjaldið 450 krónur á ári. 

Höfum það á hreinu að Íslendingar munu þurfa að greiða miklu meira en 450 krónur fyrir „náttúrupassann“. Líklega mun þessi skattur verða svipaður og „útvarpsgjaldið“.

Með „náttúrupassa“ er frelsi Íslendinga til ferðalaga um landið stórlega skert.

Frelsið til ferðalaga er ein af grunnþáttum réttinda landsmanna og þannig hefur það verið frá landnámi og raunar alla tíð.

Dettur einhverjum hjá Boston Consulting Group eða jafnvel ráðherranum sjálfum, að hægt sé að stilla málum upp á jafn einfeldningslegan hátt og gert er í tilvitnunni hér að ofan. Krossi ég ekki við „náttúrupassareitinn“ í skattskýrslu mun ég um leið að afsala mér rétti mínum til ferða um landið ... Nei, það gengur einfaldlega ekki upp nema því aðeins að fylgst verði með ferðum okkar sem ekki greiðum.

Þetta er aldeilis ótrúlegur málflutningur og ber ekki gott vitni um ráðgjafanna hjá Boston Consulting Group eða þeirra innlendra manna sem helst hafa hampað skýrslu þessa makalausa fyrirtækis.

Auðvitað er þá það eftir að skatturinn verði lagður á alla rétt eins og þetta með „útvarpsgjaldið“ alræmda. Nei, ég trúi því ekki að ríkisstjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að standi fyrir slíku. Og þó ... 

Frelsi til ferða um landið 

Eftir stendur sú spurning hvort landsmenn ætli að láta ríkisvaldið takmarka ferðafrelsi þeirra og þeir þurfi að vinka einhverjum „náttúrupassa“ til að fara um landið, ganga um fjöll og óbyggðir? Eða ætla menn að láta yfir sig ganga að sérstakur skattur verði lagður á landsmenn vegna þess að ríkisvaldið telur sig ekki hafa efni á að veita fjármagni í þá atvinnugrein sem það hefur mestar tekjur af?

Ég skora á þá sem lesa þennan pistil að skoða málin vel og vandlega. „Náttúrupassi“ mun gera út af við frelsi til ferðalaga eins og við þekkjum það í dag. Hann er aðeins tilraun ríkisins til að afla enn meiri tekna án þess að þurfa að kalla það skatt.

„Náttúrupassinn“ er hins vegar ekkert annað en skattur. Með honum stendur landsmönnum aðeins tvennt til boða. Annað hvort að greiða eða að þeir fái ekki að ferðast um landið sitt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband