Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
Konur gefa ekki séns ...
28.9.2011 | 09:53
Í tíu ár, held ég, hefur Óli Þór Hilmarsson, vinur minn, hjólað í vinnuna sína. Hann býr í miðbænum og starfaði í húsi Iðntæknistofnunar austan við Keldnaholt í Reykjavík. Veður skipti ekki mál, hann hjólaði dag hvern. Gat farið í sturtu eftir komuna í vinnu en það segir hann grundvallaratriði.
Smám saman eignaðist hann afar gott, létt og sterkt hjól eftir að hafa slitið önnur út. Á veturna voru sett nagladekk undir hjólið. Þau skipti sem hann gat ekki hjólað vegna veðurs eða ófærðar eru teljandi á fingrum annarrar handar. Svo fluttist vinnustaðurinn hans niður í miðbæ og allt fúttið fór úr hjólreiðum á morgnanna og kvöldin.
Þetta nefni ég hér því ég las skemmtilega grein í Morgunblaðinu í morgun eftir Árna Matthíasson, blaðamann. Hann segist hafa tekið upp á því fyrir stuttu að hjóla í vinnuna sér til skemmtunar, frá Hafnarfirði og upp að Rauðarárvatni þar sem Morgunblaðið er til húsa.
Árni nefnir margt af því sem Óli vinur minn hefur fullyrt í mín eyru. Báðir halda því fram að hjólreiðar séu skemmtilegar. Þeir segja að vegalengdir séu afstæðar, því meiri vilji því minna máli skiptir vegalengdin.
Ég heyrði einhvern tímann á fjallaferðum mínum að veður væri aldrei slæmt. Það væri einfaldlega hugarástand. Þetta rímar ágætlega við það sem Árni blaðamaður segir. Hann lærði það í gamla dagá sjónum í gamla daga að best sé að vinna sér til hita, fara kappklæddur af stað og svo sér innbyggða miðstöðin um restina.. Og Árni segir:
Eins og ég nefndi er eiginlega aldrei vont veður á Íslandi og brekkurnar eru eitt það besta við hjólamennskuna, þær eru persónuleg áskorun sem gaman er að sigrast á og síðan gefa þær innspýtingu af endorfíni sem eykur enn ánægjuna.
Og á síðustu og bestu/verstu kvenréttindatímum sýnir Árni ákveðið hugrekki þegar hann segir, í gamni eða alvöru:
Konur gefa ekki séns. Frá því ég fór að hjóla í vinnuna hef ég farið 700 sinnum yfir gatnamót og þar af 385 sinnum yfir gatnamót sem eru ekki ljósastýrð. Ekki er alltaf bíll á leið um viðkomandi gatnamót, en mér telst svo til að það hafi þó gerst ríflega 200 sinnum. Af þeim skiptum hafa konur stoppað tvisvar, en karlar 146 sinnum.
Garðabær rokkar. Á leið minni hjóla ég í gegnum fjögur sveitarfélög. Af þeim er langbest að hjóla í Garðabæ og mjög gott að hjóla í Kópavogi og Reykjavík. Í Hafnarfirði, þar sem félagshyggjuflokkur (hrunflokkurinn) hefur stjórnað í 26 ár af síðustu 30 er ömurlegt að hjóla og hættulegt.
Og í lokin er hægt að taka undir með Árna þegar hann fullyrðir: Það er trúa mín að ef góðar og öruggar hjólabrautir væru í boði yrðu hjólreiðamenn legíó á Íslandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er snyrtileg borg hreinn óþarfi ...?
27.9.2011 | 10:00
Á einhverri útvarpsstöðinni heyrði ég í gær við viðtal við borgarfulltrúa Besta flokksins. Hann var spurður um útlit borgarinnar sem hefur farið hnignandi frá því þessi undarlegi flokkur tók við völdum ásamt Samfylkingunni. Til að spara er gras á grænum svæðum ekki lengur slegið, ekki við umferðargötur, dregið hefur verið úr þrifum í borginni og í sannleika sagt virðist borgin stefna í tóma órækt og óþrif.
Í morgun birtist svo í Morgunblaðinu ágætt umfjöllun í Staksteinum um þessi ruglmál Besta flokksins. Höfundurinn dregur flokkinn sundur og saman í háði:
Borgarfulltrúi Besta flokksins mætti hróðugur á sjónvarpsskjái borgarbúa og annarra landsmanna í gærkvöldi og útskýrði fyrir þeim hvílíkum árangri flokkurinn hefði náð í rekstri borgarinnar.
Besti flokkurinn fann út að það er aðeins smekksatriði hvort höfuðborgin á að vera snyrtileg eða ekki og með þessa uppgötvun í farteskinu hefur hann náð að spara töluverðar fjárhæðir.
Besti flokkurinn telur til dæmis alveg óþarfa að hafa grasið slegið í borginni og að ekkert geri til þó að það sé óslegið á einstaka stað, svo sem við fáfarnar götur á borð við Miklubraut og Sæbraut.
Besti flokkurinn er líka á því að það þurfi ekki alltaf að vera að sækja sorp eða tína upp rusl, óræktin þarf að fá að njóta sín víðar en á grasbölunum.
Mikið happ er fyrir borgarbúa að slíkir hugmyndafræðingar skuli hafa gefið kost á sér í síðustu kosningum. Þeir sögðu það mæla sérstaklega með framboðinu að þar færi hugmyndaríkara fólk en gengur og gerist, sem er augljóslega hárrétt.
Engum öðrum hefði getað dottið í hug að hægt væri að spara með því að minnka þjónustu og láta borgina líta verr út.
Það eru svona hugmyndir sem lyfta borginni upp og síðar landinu öllu ef Besti flokkurinn fær verðskuldað fylgi.
Veit einhver hvað Besti flokkurinn stendur fyrir eða hvað hann hefur komið með inn í rekstur höfuðborgarinnar? Hefur hann eitthvað breytt ásýnd borgarinnar nema til hins verrra? Hefur hann haft frumkvæði að því að sýna ráðdeild og skynsemi í rekstrinum?
Hið eina sem situr eftir er að þarna eru nokkrir borgarfulltrúar sem hafa sáralitla þekkingu á því starfi sem þeir hafa fengið að taka að sér. Þeir leggja fátt eitt til málanna nema það sem er borginni til óþurftar; uppsagnir, sóðaskap og leiðindi ...
Til hamingju KR-ingar
26.9.2011 | 11:10
Mannskepnan er skrýtin og ég er engin undantekning. Ég ólst upp sem Valsari og hef alltaf litið á mig sem slíkan. Svo einn dag röltir maður með sex ára strákpjakk yfir Kaplaskjólsveginn þar sem maður bjó, inn í iþróttahús erkifjendanna, KR, og skráir drenginn í félagið. Eftir það var ekki aftur snúið. Ekki nóg með að drengurinn varð KR-ingur heldur stóð maður sig að því að hrópa næstu 24 árin; áfram KR, áfram KR. Og svo dag einn verður dýrasti draumur hvers drengs að veruleika, hann verður Íslandsmeistari.
Á þessari vegferð hef ég marg oft litið í kringum mig og allaf vekur það mig til mikillar undrunar hvernig lífið leikur fólk í fótboltanum, fleiri en ég breyta nauðbeygðir um félag. Valsari verður KR-ingur, KR-ingur verður Stjörnumaður, Akurenesingur, Framari, Keflvíkingur og svo framvegis. Við fylgjum börnunum.
Ég kynntist eiginlega ekki KR-ingum að ráði fyrr en í MR. Þar lenti ég eitt árið í bekk með þvílíkum KR harðjöxlum að mér var um og ó. Skipti engu þótt á þessum árum hafi vegur KR farið hnignandi, þessir strákar gáfu félagi sínu allt. Þetta voru þeir Gunnar Ingimundarsson, Gísli Gíslason og Guðmundur Jóhannesson og fleiri snillingar í fótbolta og námi. Þeir stofnuðu fótboltafélag í bekknum sem nefnt var eftir einhverjum enskum bæ, Steinhousemuir, minnir mig að félagið hafi heitið. Við urðum MR meistarar eitt árið, lékum til úrslita við félag sem hét Darlington. Þeir voru á ári eldri og miklir naglar, KR-ingar og Vesturbæingar flestir.
Og nú, löngu síðar, eru þessir strákar komnir hingað og þangað um jarðarkringluna. Ekki ala þeir allir upp KR-inga heldur afreksdrengi í öðrum íþróttafélögum. Umhverfið mótar börnin og það vitum við flest, útilokað að taka þau úr hverfinu og senda í eitthvað annað. Innst inni eru þeir samt alltaf KR-ingar enda er KR alveg einstaklega merkilegt félag, og þó ekki félag, miklu meira, eiginlega lífsstíll ...
Og nú er ríkari ástæða en nokkru sinni að senda KR-ingum heillaóskir. Í meistaraflokki félagsins eru glæsilegir fulltrúar ungra mann, ferskir, lífsglaðir og skemmtilegir karakterar, sínu félagi til sóma.
Ríkisstjórnin ætlaði að falsa ríkisbókhaldið
26.9.2011 | 10:21
Ansi náði ríkisstjórnin núna að klekkja illilega á Sjálfstæðisflokknum. Svo virðist sem að hann sé á móti uppbyggingum hjúkrunarheimila, móti samfélagsþjónustu, kunni ekki að fagna með iðnaðarmönnum.
Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki ná að koma í veg fyrir þessar nauðsynlegu framkvæmdir - hvað sem hann reynir.
Þetta segir Björn Valur Gíslason, alþingismaður Vinstri grænna, sem hefur það embætti eitt að fara rangt með staðreyndir og tekst einstaklega vel upp á því sviði, er eiginlega fæddur í hlutverkið, náttúrutalent.
Öðrum gæti hins vegar fundist góð ástæða til að fara sér rólegar og skoða málið, jafnvel að greina á milli þess er kalla mætti form og hins sem er framkvæmdin sjálf.
Staðreyndin er einfaldlega sú að enginn er á móti uppbyggingu á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða.
Hvað formið varðar segir Ríkisendurskoðun um málið að færa skuli fjármuni sem ríkið kaupir og leigir og fyrna þá á notkunartíma. Þetta eigi að gera til að allir hafi glögga yfirsýn um fjárhagslega stöðu og styrk ríkisins eins og Ríkiendurskoðun orðar það.
Svona eru staðrendir málsins:
- Ríkisstjórnin hefur forgöngu um að byggja hjúkrunarheimili fyrir um 9 milljarða króna.
- Sveitarfélögin eru framkvæmdaraðili
- Sveitarfélögin fjármagna verkefnið með láni frá Íbúðarlánasjóði
- Ríkissjóður greiðir húsaleigu næstu 40 árin til viðkomandi sveitarfélaga
- Ríkisstjórnin ætlaði að fela kostnaðinn í bókhaldi ríkissjóðs
Ríkisendurskoðun vill að húsaleiga reiknist sem ígildi stofnkostnaðar: Að mati Ríkisendurskoðunar ber að líta á leigusamning sjóðsins við sveitarfélögin sem fjármögnunarleigusamning milli ríkisins og þeirra. Þess vegna beri að færa skuli þessa 9 milljarða sem stofnkostnað og fyrna á næstu 40 árum. Afskaplega einföld bókahaldleg framkvæmd en um leið mun hún sýna lakari stöðu fyrir ríkisstjórnina en það ætlaði hún sér að komast hjá.
Svona einfalt er málið. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn gerir athugasemdir varðandi formið verður fjármálaráðherra fokvondur og alþingismaðurinn sem hefur það eina verkefni að fara rangt með staðreyndir reynir að kasta ryki í augu almennings og heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé á móti hjúkrunarheimilum.
Sólarlag á Fimmvörðuhálsi
25.9.2011 | 11:12
Askan sem Eyjafjallajökull spúði úr sér í fyrra yfir Fimmvörðuháls og Skógaheiði var gríðarlega mikil. Hún er eiginlega ekkert annað en grófur sandur sem helgast af því að þyngri gosefnin falla fyrr en önnur úr gosmekkinum og á því töpuðu þessi svæði.
Askan á Fimmvörðuhálsi þyrlast við minnsta vind og þegar hvessir rýkur hún upp í hæstu hæðir. Neðarlega á Skógaheiði byrgir hún oft sýn og frá há Hálsinum sér oft niður á mökkinn.
En svo hvessir meira og nú er Eyjafjallajökull óþekkjanlegur hann er grár og gugginn eins og sjúkur maður. Þessar hamfarir breyta því ekki að náttúran getur breytt óhugnanlegum aðstæður í yndislega fegurð. Og þannig var það kvöld eitt í september í mistrinu á Fimmvörðuhálsi er sólin var að setjast ofan í gíginn á Eyjafjallajökli. Allt var þetta töfrum líkast - að því undanskyldu að rykið átti það til að fara í munn og augu. Óþarfa steinefnaneysla, að mínu mati.
Engu að síður er minningin sú ein að sólarlagið getur verið heillandi á Fimmvörðuhálsi.
Miklar breytingar á Fimmvörðuhálsi á 16 mánuðum
25.9.2011 | 10:59
Ég fór upp á Fimmvörðháls um daginn. Það kom ekki til af góðu. Félagar mínir í Útivist töldu nauðsynlegt að hafa skálavörð í Fimmvörðuskála félagsins. Búið var að leita að hæfileikaríkum manni út um allar trissur, margir voru kallaðir en enginn hafði lausan tíma. Ég var eiginlega síðasta sort ... Tók hugmyndinni strax illa. Sagðist vera hættur félagsstarfi í Útivist, mér leiddist fólk og Fimmvörðuháls væri ónýtur eftir eldgosið í Eyjafjallajökli. Auðvitað talaði ég þvert mér þvert um hug og reyndi hvað ég gat til að hrista þessa félaga mína af mér. Sérstaklega var Árni heitinn Jóhannesson þrár. Hann er síður en svo dauður en hefur þetta viðurnefni vegna þess að hann var formaður félagsins í nokkuð langan tíma.
Til að gera langa sögu stutta hafði ég tíma, hættur starfi fyrir Sveitarfélagið Skagaströnd, og í hálf fúlu skapi ók ég suður á Fimmvörðuháls. Þar dvaldi ég svo í tvær vikur. Allt kom mér þar á óvart. Engin einsemd, fullt af fólki upp á hvern dag, frábærir einstaklingar, fróðir og skemmtilegir. Ég skemmti mér konunglega.
Fimmvörðuskáli er lítill. Þar geta með góðu móti gist um það bil 14 manns en í hallæri er hægt að tvímenna í kojur og dæmi eru um að í skálanum hafi um 24 einstaklingar sofið og raunar átt náðugan dag.
Skálinn stendur á háum hrygg sem raunar var ekki svo hár er húsið var byggt árið 1991. Á tuttugu árum hefur mikið breyst á Fimmvörðuhálsi. Jökull og snjór hefur hörfað og þar sem áður var þægileg skíðabrekka norðan við skálann er nú þverhnípi.
Fimmvörðuskáli er fallegur skáli og stendur á frábærum stað. Þegar gaus á Hálsinum í mars 2010 héldum við margir að hann færi, en gosstöðvarnar eru sem betur fer um tvo kílómetra norðan við hann og enn stendur hann.
Svo gaus í Eyjafjallajökli en afleiðingar gossins voru nokkuð alvarlegar fyrir Fimmvörðuskála. Mikið tjón var á honum vegna öskufoks. Hann varð svo að segja sandblásinn, rúður urðu margar mattar og aska barst inn á gólf og hún er þess eðlis að hún slítur öllu hraðar en sandur.
Strax eftir að gosi lauk í Eyjafjallajökli í fyrra gengum við tveir félagar yfir Fimmvörðuháls og enduðum í Básum. Þetta var 22. maí og þá höfðu fáir eða aungvir gengið yfir Hálsinn.
Ég tók margar myndir í þeirri ferð og nýtti núna tímann til að taka myndir svo eitthvað væri nú til samanburðar. Og hann er sláandi. Margt hefur breytst. Eldfjöllin, Magni og Móði, hafa breyst, Fimmvörðuskáli og landið allt, ekki síst Eyjafjallajökull.
Á næstunni ætla ég að birta nokkrar fallegar myndir frá dvöl minni á Fimmvörðuhálsi. Læt þessar duga í bili, þær skýra sig sjálfar. Merkilegast finnst mér hvernsu liturinn á eldfjöllunum hefur breyst. Útfellingarnar sem voru eins og skel á þeim eru horfnar, hafa veðrast eða fólk gengið þær niður. Enn er þó mikill hiti í báðum. Steikti pylsur á Magna um daginn. Veit af fólki sem hefur grillað þar kjöt og orðið gott af. Sjálfur er ég hálfslappur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.11.2011 kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ímyndaðir eða raunverulegir hagsmunir og mannréttindi
25.9.2011 | 10:15
Allar líkur benda til þess að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Verkamannaflokksins í Bretlandi hafi átt lögmæt erindi við Gaddafí, einræðisherra Líbíu. Otrúlegt er hins vegar að bresk stjórnvöld hafi haft nokkurt samband við Líbíu. Leyniþjónusta Breta hafði nægar upplýsingar um grimmd Gaddafís og sona hans, mannréttindabrot í landinu svo ekki sé talað um Lockerby.
Háttalag Breta sannfærir mann aðeins um eitt. Ímyndaðir eða raunverulegir hagsmunir ríkis valda því stjórnvöld setja kíkinn fyrir blinda augað og byggja upp samskipti við þá sem ekkert gott eiga skilið. Vandinn er sá að ekki skiptir máli hverjir sitja við stjórnvölinn, vinstri menn eða hægri.
Þetta veldur fjölda fólks sorg. Ástæðan er einföld. Í stefnuskrám stjórnamálaflokka um alla hina vestrænu Evrópu sem og í Ameríku er ákvæði þar sem lofað er að virða mannréttindi og berjast gegn þeim. Þegar til kastanna kemur eru þessi ákveði ekki virt vegna ímyndaðra eða raunverulegra hagsmuna. Niðurstaðan er sú að saklausu fólki blæðir, því er haldið niðri og fær ekki notið neinna mannréttinda. Þau einu mannréttindi sem það fær notið eru ímynduð, byggð upp af fólum eins og Gaddafí, fjölskyldu hans og nánustu klíku.
Blair átti marga fundi með Gaddafi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er bjartari tíð framundan hjá Iceland Express?
24.9.2011 | 13:14
Í morgun, laugardag, las ég aldrei þessu vant góða grein í Fréttablaðinu. Viðtal við Birgi Jónsson, nýjan forstjóra Iceland Express.
Á undanförnum mánuðum hef ég tjáð mig dálítið um Iceland Express og gagnrýnt ýmislegt og þá sérstaklega framkomu stjórnenda þess sem kennt hafa öllum öðrum um mistök og vandamál en sér sjálfum. Ástæðan fyrir gagnrýni minni er sú að ég hef dálítið ferðast með IE og oftast líkað vel og fullyrða á að sá er vinur sem til vamms segir.
Í viðtalinu við Birgi Jónsson, forstjórra IE, bregður nýrra við. Frískur strákur tekur við stjórnartaumum og hefur skoðanir sem hann liggur ekki á. Hann lofar mörgu og ætlar að fara eftir bókinni sem þeir sem numið hafa viðskipti er fullkunnugt um, en margir hverjir hafa kosið að líta framhjá:
- Fyrirtækið á að tileinka sér stundvísi, seinkunum á að fækka 85-90% á réttum tíma í haust
- Flugferðir verða ekki felldar niður
- Engar yfirbókanir
- Farangur farþega á að fylgja þeim alla leið
- Nægur matur á að standa farþegum til boða meðan á flugi stendur
- Auka á bil milli sæta, einfalt atriði sem vekur ánægju farþega
- Endurskipulagning á rekstrinum
- Aukin arðsemi án þess að skaða orðstí fyrirtækisins
Í sjálfu sér er þetta ekki óviðráðanlegt verkefni fyrir skynsaman forstjóra og gott samstarfsfólk. Grundvallaratriðið er eins og fyrr að líta á farþegana, viðskiptavini, fyrirtækisins sem vini, ekki sauði sem hægt er að smala saman með lygilegum auglýsingum.
Vandi Birgis er hins vegar fólginn í rekstrarformi Iceland Express og þar af leiðandi þarf að treysta á verktaka af ólíku tagi. Fyrirtækið leigir flugvélar, kaupir aðstöðu á flugvöllum í Ameríku og Evrópu en er hvergi með eigin starfsfólk nema á Íslandi og um borð í flugvélunum.
Líklega eru margir verktakanna óábyrgir og eins kann að vera að IE hafi ekki staðið við sinn hluta samninga. Þetta er hins vegar allt smáatriði á móti algjörri viðhorfsbreytingu í stjórnun. Öll mistök er hægt að laga og þá er leiðin greið svo fremi sem orðum fylgi efndir.
Hvað varð um fyrirtæki sem fengu afskriftir skulda?
23.9.2011 | 11:06
Bankar og fjármálafyrirtæki afskrifa ekki skuldir af einskærri góðmennsku. Eitthvað annað býr að baki. Þess vegna vaknar sú spurning við lestur fréttarinnar hvað orðið hafi af þeim fyrirtækjum sem fengu skuldir afskrifaðar.
Hættu þau rekstri? Urðu þau gjaldþrota? Tóku bankar og fjármálastofnanir fyrirtækin yfir? Eða eru þau í fullum rekstri og í samkeppni við þau sem enn berjast við skuldaklyfjar sínar?
Þetta eru grundvallarspurningar. Þó ótrúlegt megi virðast eru enn fjöldi fyrirtækja í rekstri sem stóðust hrunið og afleiðingar þess. Mörg þeirra hafa ekki fengið neinar afskriftir skulda og raunar ekki boðið upp á slíkt. Þetta hefur skekkt samkeppnisgrundvöllunni. Ekki er þörf á að útskýra hvernig skuldsettum fyrirtækjum gengur í samkeppni við þau sem bankar og fjármálastofnanir hafa tekið yfir og straumlínulagað skuldasstöðu þeirra.
Fengu 170 milljarða afskrifaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Innantóm slagorð ríkisstjórnarinnar
23.9.2011 | 10:20
Skelegg grein Ragnhildar Kolka, lífeindafræðings, vakti athygli mína í Morgunblaðinu í morgun, föstudag. Henni er mikið niðri fyrir og rekur stærstu vitleysur núverandi ríkisstjórnar, ESB aðlögunarviðræðurnar, Icesave samninganna og fiskveiðilagafrumvarpið.
Greinin er harðorð en góð og með vel völdum orðum afhjúpar hún aumingjaskap ríkisstjórnarinnar sem klúðrar hverju málinu á fætur öðru.
Ragnhildur ræðir málið sem klýfur stjórnmálaflokka og af skemmtilegri orðgnótt og ritsnilld segir hún:
Hér er auðvitað átt við hin öfgafullu trúarbrögð Samfylkingarinnar og tilbeiðslu hennar á hinu nýsovéska skrifræði Evrópusambandsins. Trú þessara sjálfumglöðu helioprocti, sem ólmir vilja afhenda auðlindir Íslands og fullveldi til Sovét-Brussel, er órjúfanlega tengd kjötkötlunum sem ekki munu tæmast meðan kreista má blóð úr varnarlausum skattborgurum aðildarlandanna. »Réttlát« skipting auðsins var þetta einu sinni kallað sem keyrði þá annað stórveldi í þrot. Nú er Grikkland í öndunarvél en Ítalía, Portúgal og Spánn draga sæng yfir höfuð.
Og af sömu ákefð ræðir Ragnhildur um Icesave samninganna:
En varla var búið að troða kosningaloforðum Vinstri grænna ofan í kok á þeim þegar næsta rimma tók við; átökin um hinn »glæsilega« samning Svavarsnefndarinnar. Icesave I endaði sem sigur stjórnarandstöðunnar. Icesave II og III voru sigur þjóðarinnar sem aldrei hefði unnist ef stjórnarandstaðan hefði ekki staðið í stykkinu. Andæft og þæft þar til þjóðin, forsetinn og að endingu lýðræðið fór með sigur af hólmi.
Loks nefnir hún frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðilögum:
Og var ekki sagt að virðing Alþingis hefði aldrei lotið lægra en þegar stjórnarandstaðan barðist gegn frumvarpi um fiskveiðistjórnun? Þetta frumvarp sem lagt hefði undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í rúst átti að keyra í gegn án umræðu og án athugasemda umsagnaraðila. Þegar þær svo komu staðfestu þær allar álit stjórnarandstöðunnar. Ekki einu sinni ASÍ sem að jafnaði situr þögult í vasa forsætisráðherrans gat samþykkt frumvarpið. Og fyrir að hindra þetta hryðjuverk uppskar stjórnarandstaðan öll helstu fúkyrði íslenskrar tungu frá spunavélinni.
Full ástæða er til að taka undir með Ragnhildi er hún hvetur almenning til dáða:
Það er skylda fólks í lýðræðisríkjum að fylgjast með og láta ekki draga sig eins og dilka til slátrunar þegar óprúttnir valdafíklar reyna að breiða yfir vandræðagang sinn. Að leggja eyrun við innantómum slagorðum eins og »Það er engin önnur stjórn í sjónmáli« er uppgjöf af aumustu gerð, því þunginn í aðförinni að stjórnarandstöðunni sýnir hve vel hún stendur sig. Hins vegar eru það spunameistararnir sem skjóta sjálfa sig í fótinn í hvert sinn sem þeir grafa undan virðingu og trausti til Alþingis.