Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Af fundum fiska, hrafna og manna

Makrílfundur ... ónei, fiskurinn hélt ekki fund eins og hrafnanir. Og ekki á fyrirsögnin um fund á veiðanlegri makríltorfu. Þó eru haldin hrafnaþing. Loðnan lætur ekki sjá sig en þegar hún gerir það verður loðnufundur og eitthvað gagnlegt ákveðið. Gott er að börn náttúrunnar fundi. Jafnvel er talað um ríkisstjórnarfundi en þeir eru víst allt öðruvísi og lítið gagn eða gaman og allt frekar ónáttúrulegt.


mbl.is Gagnlegur makrílfundur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipta 220 miljarðar ríkisstjórnina engu?

Sjávarútvegsráðherra hefur fyrir hönd ríkisstjórnarinnar lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um fiskveiðar. Allir þeir sem atvinnu sína hafa af fiskveiðum og verkun fisks hafa lagst gegn því. Samtök sjómanna, útgerðarmanna, alþýðusambönd af öllu tagi og samtök atvinnurekenda eru á einu máli um að verði frumvarpið að lögum muni afrakstur fiskveiða og vinnslu minnka og atvinnuleysi aukast. Ríkisstjórnin þveskallast og þykist ekki heyra.

Í hvaða stöðu er sú þjóð þegar ríkisstjórn hennar telur hagkvæmt að raska við atvinnugrein sem nemur 39% af tekjum þjóðarinnar og 8600 manns hafa framfæri sitt af henni, 5,2% af heildarvinnuafli?

Hvað er ætlunin að laga með þessu frumvarpi eða er það bein árás á útgerðir og starfsfólk í fiskveiðum og vinnslu? Ástæðan er alla vega ekki sú að rekstur sjávarútvegsfyrirtækja sé í molum og þeir sem að þessari atvinnugrein standa kunni ekki til verka.

Í viðskiptum er sú regla í hávegum höfð að hlú að þeirri vöru sem best selst um leið og stuðlað er að aukinni sölu annarra. Ríkisstjórnin lítur ekki til 220 milljarða króna tekna af útfluttum sjávarafurðum. Eða er hugmyndin sú með frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskveiðar að tekjurnar aukist enn meir? Fæstir þeirra sem til þekkja telja frumvarpið þess eðlis. Þvert á móti.


mbl.is Ísland 17. mesta fiskveiðiþjóðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil sérkunnátta ríkisbanka og of mikil áhrif

„Bankaránið mikla“ nefnist grein í Morgunblaðinu í morgun, fimmtudag. Hún er eftir tvo Bandaríkjamenn, Nassim Nicholas Taleb sem er prófessor í áhættustýringu við New York University og Mark Spitznagel sem stjórnar vogunarsjóði. 

Ég varð dálítið hugsa vegna þessarar greinar. Margt gott er í henni en höfundar hafa áhyggjur af launakerfi bandarískra banka og fjármálastofnana. Þeir færa rök fyrir því að fimm milljarðar dollara fari í margvíslegar bónusgreiðslur í bönkum næsta áratuginn og segja réttilega:

Þessar fimm billjónir dollara verða ekki notaðar til að leggja vegi, reisa skóla eða fjármagna önnur langtímaverkefni, heldur verður féð flutt beint út úr bandaríska hagkerfinu inn á einkareikninga stjórnenda og annarra starfsmanna banka. Þessar peningatilfærslur fela í sér eins lævíslega skattlagningu á allra aðra og hægt er að hugsa sér. Það er óréttlátt að stjórnendur banka, sem stuðluðu að fjármála- og efnahagsvandamálunum, eru eina stéttin sem verður ekki fyrir tjóni vegna vandræðanna, heldur þvert á móti hagnast á þeim í mörgum tilvikum. 

Þeir segja gróða risabanka megi frekar rekja til „of mikilla áhrifa, frekar en færni eða sérkunnáttu“. Þetta fæ ég ekki skilið öðru vísi en að bankarnir geti hannað atburðarás sem færi þeim miklar tekjur jafnvel þó lítið sé að baki.

Nákvæmlega þetta gerðist hér á landi í aðdraganda hrunsins. Hannaðar voru aðstæður sem færðu þröngum hópi mikið fé en aðrir hreinlega töpuðu. Dæmi um þetta eru yfirtökur fyrirtækja og skuldsetning þeirra áður en þau voru seld. Fæst þeirra lifðu af hrunið og afleiðingar þess. Það virðist svo óskaplega auðvelt að heilla fjárfesta á markaði, engu líkar en að formúlan sé hin sama og með bíómynd, allir fara á hana þó flestir sjá að hún er léleg. Greinarhöfundar segja:

Peningarnir streyma í röngum hlutföllum til starfsmanna bankanna en tjónið af atburðunum er stundum mikið og lendir á hluthöfum og skattgreiðendum. 

Með öðrum orðum má segja að bankarnir taki áhættu, græði þegar vel gengur, en þegar illa gengur komi það niður á hluthöfum, skattgreiðendum og jafnvel fólki á eftirlaunum. Til að bjarga bönkunum hefur bandaríski seðlabankinn til að mynda haldið vöxtum óeðlilega lágum; auk þess sem hann hefur veitt bönkunum leynilegt lán að andvirði 1,2 billjónir dollara, eins og upplýst var nýlega. Með því að fela áhættuna hefur þetta einkum haft þau áhrif að hægt hefur verið að hækka aftur kaupaukagreiðslur bankanna.

Það eru síðan skattgreiðendur sem þurfa að bera kostnaðinn af tjóninu sem hlýst af áhættunni, svo og eftirlaunafólk og aðrir sem reiða sig á vexti af sparifé sínu. Þar að auki færir lágvaxtastefnan hættuna á verðbólgu til allra sparifjáreigenda – og til komandi kynslóða. Grófasta móðgunin við skattgreiðendur felst ef til vill í því að launagreiðslur bankanna voru jafnháar á síðasta ári og þær voru fyrir fjármálakreppuna. 

Ég mæli eindregið með greininni jafnvel þó svo að ýmislegt kunni að vera að rökfærslu höfunda. Hún er engu að síður áhugaverð fyrir þá sem fylgjast með þróun efnahagslífs á Vesturlöndum. Sérstaklega má benda á lokaorðin, þau eru umhugsunarverð:

Stjórnendum fjárfestingarsjóða ber siðferðileg og fagleg skylda til að gegna hlutverki í því að temja bankakerfið. Fyrsta skrefið ætti að vera að flokka banka eftir því hvernig launakerfi stjórnenda þeirra er háttað.

Fjárfestar hafa áður notað siðferðileg rök – með því til dæmis að fjárfesta ekki í tóbaksfyrirtækjum eða fyrirtækjum sem studdu kynþáttaaðskilnað í Suður-Afríku – og þeim hefur tekist að hafa áhrif á gengi hlutabréfa með þeim rökum. Fjárfestingar í bönkum fela í sér tvöfalt brot – siðferðilegt og faglegt. Eins og við hin yrðu fjárfestar miklu betur settir ef þessir peningar færu í arðbærari fyrirtæki, e.t.v. með þeirri breytingu að fjárhæðin, sem annars færi í kaupaukagreiðslur til stjórnenda banka, rynni til vel rekinna góðgerðarsamtaka. 


Innantóm orð manns sem stefnir í uppvask

Gott er að geta stofnað nýjan flokk en erfiðara er að sníða honum pólitískan stakk og klæðast honum. Ekki dugar að viðhafa falleg orð og vinsæla frasa. Það gagnast engum. Ekki dugar heldur að fullyrða að nýr flokkur verði öðru vísi en þeir sem fyrir eru. Stjórnmálaflokkar eru ekkert annað en sú stefna sem fólkið sem er í þeim markar. 

Guðmundur Steingrímsson verður ekkert heiðarlegri og betri stjórnmálamaður við það að skipta um flokk. Raunar má með rökum fullyrða að við það verði hann lakari stjórnmálamaður. Þar sem hann er ekki nóg félagslega þroskaður til að geta unnið með fólki í Samfylkingu eða Framsóknarflokki getur hann varla samlagast fólki í öðrum flokkum, skiptir þá engu hvert nafnið er.

Svo er það hitt. Hver eru stefnumál flokka? Ég hef þá trú að allir sem taka þátt í starfsemi vilji einfaldlega landi sínu og þjóð vel. Hins vegar er mörgum mislagðar hendur og stjórnmálastefnan kemur er ekki skýr í framkvæmdinni. Til dæmis er óskaplega erfitt að sjá hvaða stefnu Besti flokkurinn hefur í borgarstjórn. Raunar er líklegast að flokkurinn hafi enga stefnu heldur ráði vindar hvert sé farið. 

Nú um stundir eru fjármál sveitarfélaga og ríkis afskaplega mikilvæg. Stefna Besta flokksins og Samfylkingar er engin í þeim efnum. Þeir treysta á að embættismenn borgarinnar sjái um málin sem þeir og gera. Borgarfulltrúar þessara flokka koma þar lítið nálægt.

Stefna Vinstri grænna og Samfylkingar í ríkisfjármálum er engin. Þessir flokkar hafa þá stefnu eina að lækka ríkisútgjöld sem næst því sem tekjur ríkisins eru. Það er gott og blessað, svipað því að sinna uppvaskinu vel.

Það sem þessir þrír flokkar kunna ekki er að nota þau tæki sem tiltæk eru svo hagvöxtur aukist, atvinnulífið komist á skrið og atvinnuleysi verði útrýmt. Hér er ég að tala um raunverulega stefnu í stjórnmálum.

Það dugar ekki að sinna uppvaskinu. Hvatning til þjóðarinnar er afskaplega mikilvæg. Ekki gengur lengur að hækka skatta og aðrar álögur á almenning og fyrirtæki, segja upp fólki hjá ríki og sveitarfélögum og hrekja fólk í burtu. Stjórnmálastefnuna vantar en hún hefur tapast í froðunni við uppvaskið.

Allt tal um heiðarleika í pólitík, tal um mannúð og frið, umhverfismál og náttúruvernd, alþjóðahyggju, frjálslyndi og annað sem hljómar svo afskaplega vel, eru einfaldlega innantóm orð ef engin er stefnan. Tölum bara hreint út; þetta er tómt bull og kjaftæði.

Við getum endalaust haft þá stefnu að við eigum að klappa og kjassa hvert annað en í guðanna bænum lítum upp því að um 15.000 manns eru atvinnulausir. Þúsundir vel menntaðs fólks hefur flúið land og fjöldi þeirra kemur aldrei til baka. Fjöldi fólks á ekki til hnífs og skeiðar.

Ef þetta bull á að halda áfram fáum við aðeins nýjan Gnarr á Alþingi, mann sem hefur því miður ekki haft neitt fram að færa annað en litskrúðug föt í Gay Pride göngu. Við fáum Guðmund Steingrímsson, sem fátt hefur gert á þingi, raunar ekkert annað en að skipta um flokka. Við fáum kannski með þessum tvemenningum gott og heiðarlegt fólk á þing, en það kann ekki til verka, ekki frekar en borgarfulltrúar Besta flokksins. 

Er Alþingi staður fyrir tilraunastarfsemi og starfsnám? Nei, við þurfum þar fólk með stefnu, þekkingu og þor - ekki uppvaskara (með fullri virðingu fyrir þeim sem slíku sinna).


mbl.is Áhugi víða fyrir nýju framboði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaráðherra ábyrgur fyrir milljarða klúðri

Vita lesendur að eignir fjármálastofnunarinnar Byrs rýrnuðu um 113 milljarða króna á síðustu tveimur árum? Gera þeir sér grein fyrir því að kostnaður við sameiningu hins nýja Sparisjóðs Keflavíkur, sá gamli varð gjaldþrota, og Landsbankans er um 38 milljarðar króna en ekki 11 milljarðar eins og ríkisstjórnin mat samrunann?

Í Morgunblaðinu í morgun, 21. september, birtist sláandi grein eftir Guðlaug Þór Þórðarson, alþingismann Sjálfstæðisflokksins, sem nefnist „Mun Steingrímur J. draga Steingrím J. fyrir landsdóm vegna Byrs og SpKef?“.

Milljarðaklúður vegna SpKef

Í greinnni eru dregnar fram hrikalegar upplýsingar um handarbaksvinnubrögð Fjármálaeftirlitsins, fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherrra.  Í greininni segir Guðlaugur:

Hinn 22. apríl 2010 greip FME inn í starfsemi Sparisjóðsins í Keflavík og skipti honum upp í gamlan og nýjan. Ekki liggur fyrir á hvaða forsendum ákveðið var að stofna nýjan sparisjóð eða hvaða útreikningar eða mat um rekstrarhæfi lágu að baki. ...

Stofnun nýja SpKef virðist hafa verið gerð af svo mikilli vanhæfni að nýi sjóðurinn komst í þrot tæpu ári síðar eða í mars 2011. Spyrja má hversu miklir fjármunir töpuðust við stofnun nýja sjóðsins – hver var t.d. rekstrarkostnaður hans frá apríl 2010 og mars 2011 og hversu mikið hafa eignir rýrnað? 

Ljóst er að milljarðar króna hafa tapast vegna SpKef og Guðlaugur er harðorður í garð stjórnvalda. Hann segir:

Ríkið hefur endurtekið vanmetið stöðu sjóðsins, fyrst á meðan sjóðurinn var í undanþáguferli hjá FME (í eitt ár), aftur við skiptingu hans í nýjan og gamlan (22. apríl 2010) og í þriðja skiptið við samrunann við Landsbankann (mars 2011). Eignir sjóðsins hafa rýrnað verulega á meðan á þessu hefur staðið. Verðmætið hefði verið betur tryggt ef sjóðurinn hefði strax farið í slitameðferð þegar sýnt var að hann myndi ekki geta aukið eigið fé sitt, sem hlaut að hafa verið ljóst eftir sex mánaða undanþágu frá eiginfjárkröfum.

Til viðbótar eru rökstuddar efasemdir um að löglegt hafi verið að veita nýja Spkef sjálfkrafa starfsleyfi í apríl 2010. Sé það rétt var sjóðurinn rekinn án starfsleyfis í tæpt ár, sem getur þýtt enn frekari skaða fyrir ríkið og/eða Landsbankann. 

113 milljarðar fuku út í veður og vind 

Klúðrið vegna Byrs virðist vera enn meira en með SpKef. Fyrirtækinu var skipt upp í nýja og gamla Byr og Guðlaugur segir í grein sinni:

Eftir stendur að Byr fékk að starfa í 10 mánuði á undanþágu skv. 86. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Það hlaut að byggja á því mati FME að félagið væri lífvænlegt – sem ekki var raunin. Síðan var stofnaður nýr Byr sem virðist ekki geta starfað sjálfstætt. Sama vanmatið og með Sparisjóð Keflavíkur – og sóun fjármuna. Samkvæmt Viðskiptablaðinu 8. september 2011 hafa eignir Byrs rýrnað um 113 milljarða síðustu tvö ár í umsjón ríkisins.

Fleiri dæmi um klúður stjórnvalda

Nú munu eflaust flestir halda því fram að nóg sé af klúðri en alltaf bætist eitthvað við eins og Guðlaugur tíundar:

Einnig má minna á lánveitingarnar til VBS upp á 26 milljarða og Sögu Capital upp á 19 milljarða. Ekki liggur fyrir á hvaða áætlunum eða forsendum þessi fyrirgreiðsla byggðist – eða á hvaða lagaheimild byggt var. Einnig er ljóst að FME taldi „eiginfjársnúninga“ fyrirtækjanna ekki samræmast alþjóðlegum eiginfjárreglum, en lét það viðgangast, sbr. Viðskiptablaðið 21. apríl 2009.

Landsdómur yfir Steingrími J.

Samkvæmt öllu er embættisfærsla fjármálaráðherra með slíkum endemum að væri Steingrímur J. í stjórnarandstöðu færi hann hamförum gegn ríkisstjórn sem hagar sér á þennan hátt. En nú er hann í forsvari fyrir fjármálum ríkisins og sér ekkert athugunarvert við störf sín. Menn hafa sagt af sér embætti fyrir minni sakir en milljarða klúðri.


Varasamur, vanstilltur þingmaður

Svona er nú málfar margra vinstri manna. Þeir sem þeir eru ekki sammála fá yfir sig óhroða af ýmsu tagi. Málefnaleg umræða víkur fyrir kjaftbrúki og rugli. Virðingin fyrir embættum lýðveldisins er ekki meiri en svo að vanstilltir menn bresta á límingunum og taka upp skítkast.

Einn af þessum andlega ótöðugu mönnum er Björn Valur Gíslason alþingismaður Vinstri grænna. Hann kallar foseta Íslands "forsetaræfil". Látum nú vera hvort þingmaðurinn hafi rétt fyrir sér, hitt er alvarlegra að þingmaðurinn kann sig engan veginn, er ókurteis og fjandsamlegur í garð embættisins.

Og hvernig halda menn að Björn Valur tali svo um aðra þá sem hann telur sig eiga sökótt við? Andstæðinga, embættismenn, almenning?

Svona fólki er einfaldlega ekki treystandi fyrir löggjafarvaldinu. Hversu skammt er ekki frá slæmum munnsöfnuði og rógi yfir í vond vinnubrögð og jafnvel samþykkt laga sem hreinlega mismuna fólki.

Nei, gætum okkur á svona mönnum, þeir eru afar varasamir svo ekki sé meira sagt. Kjósum þá ekki.


mbl.is Talaði um „forsetaræfilinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðlögunarviðræður í hættu vegna Jóns Bjarnasonar

Víst var frumvarpið um breytingar á stjórnarráðinu sett fram til höfuðs Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það vita allir sem fylgjast með stjórnmálum. Harka Samfylkingarinnar er slík að hún vill umfram allt losna við þennan harðasta andstæðing aðlögunarviðræðnanna við Evrópusambandið úr ríkisstjórninni.

Hvers vegna? Jú, hann ætlar ekki að makka eftir línu Samfylkingarinnar og annarra ráðherra og þingmanna Vinstri grænna, kallinn er gegnheill á móti ESB.

Nú er vandamálið hins vegar það, að öllum var ætlan Jóhönnu Sigurðardóttur orðin ljós. Hefði hún haldið fast við áform sín hefði hún búið nýtt vandamál og öllu alvarlegra. Jón hefði hrakist í burtu úr ríkisstjórn og þar af leiðandi rakleitt út úr Vinstri hreyfingunni grænt framboð.

Þó svo að þingmaðurinn Guðmundur Steingrímsson hafi komið til liðs við velferðarstjórnina dugar það aðeins til að halda sléttu í meirihluta, ekkert annað. Álit almennings yrði hins vegar hrikalega andstætt rikisstjórninni hrökklaðist Jón í burtu, og var ekki úr háum sessi að falla. Fyrirsjáanlegt er þá að hún myndi ekki geta starfað áfram.

Og þetta er öllum ljóst. Því er nú gerð skörp vinstri beygja og öllum sem vettlingi geta valdið innan ríkisstjórnarinnar, í þingliðinu og víðar uppálagt að flytja sömu tugguna og Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, gerir í dag.

„Frumvarp um breytingar á stjórnarráðinu er auðvitað ekki lagt fram til höfuðs Jóni Bjarnasyni, ráðuneytið mun starfa út kjörtímabilið,“ segja stjórnarliðar og reyna að bera höfuðið hátt en flökktandi augnaráðið kemur upp um þá. Þeir trúa því ekki að hinar tilbúnu skýringar sem forsætisráðherra og fjármálaráðherra suðu saman um daginn gangi ómeltar ofan í almenning.

Nú er komin pattstaða hjá ríkisstjórninni. ESB aðildin er í afar slæmum farvegi. Heilt ráðuneyti neitar að samstarfi. Viðbúið er þá að ESB muni slíta viðræðunum. Þrautaráðið verður eflaust að fá Jón Bjarnason til að hætta með góðu. Allt verður gert til að fá hann út. Með hvaða hætti það gerist er erfitt um að spá.

Hitt er þó heiðskýrt og ljóst að hætti Jón Bjarnason þá hefur eitthvað meira en lítið gengið á. Hann mun þá hafa fengið tilboð sem hann hefði aldrei getað hafnað ...

 

 


mbl.is Ekki til höfuðs Jóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skyldi Þráinn vera að hugsa?

Ég er líklega einn um að skilja ekki alltaf þingmanninn Þráinn Bertilsson. Þetta segi ég ekki manninum til hnjóðs heldur kann vandinn að liggja mín megin.

Hvað sem því líður þá er hér tilvitnun úr frétt mbl.is sem höfð er eftir Þránni. Hann er að ræða stjórnarfrumvarp um endurskoðun á lögum um stjórnarráð Íslands.

Í fréttinni segir Þráinn:

Mér finnst frumvarpið ekki ennþá vera orðið nægilega vel unnið í nefndinni og ég vildi reyna til þrautar að ná eins breiðri samstöðu um þetta frumvarp og hægt er, því það er verið að setja lög til framtíðar, það er ekki bara verið að setja lög um ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur. Því ég útiloka ekki að Sjálfstæðisflokkur komist til valda á næstu þrjátíu árum og þessi lög ná yfir hvaða ríkisstjórn sem situr, hvaða flokkar svo sem eiga sæti í henni. 

Getur einhver skýrt út fyrir mér hvað þingmaðurinn á við? Ég skil hann á þann veg að laga þurfi stjórnarfrumvarp um stjórnarráðið svo tryggt verði að Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki í ríkisstjórn næstu þrjátíu árin.

Í sjálfu sér er þetta háleitt markmið og eflaust óskhyggja sumra en ekki að sama skapi lýðræðislegt.

En ... ég gæti haft rangt fyrir mér. Hugsanlega vill Þráinn koma í veg fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn, er hann kemst til valda, geti breytt þessum skringilegu lögum, nái frumvarpið fram að ganga. Það mun hann áreiðanlega gera því með þeim er verið að auka vægi framkvæmdavaldsins á kostnað þingsins.


mbl.is Ekki sátt um upptökur á fundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi Samfylkingin að þetta yrðu aðlögunarviðræður ...?

Ekki var hún merkileg greinin eftir Magnús Orra Schram, alþingismann, í Morgublaðinu í morgun, föstudag. Ég fattaði það auðvitað ekki fyrr en ég var búin að lesa hana. Þó hef ég lengi haft meira álit á höfundinum en flestum öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar og jafnvel skrifað um það og því var mér lítt skemmt.

Hvað um það. Magnús er orðin svo slíkur stjórnmálamaður að hann er farinn að vitna í sjálfan sig. Það hefur mér alltaf fundist frekar hvimleið tíska og eiginlega meira hégómleg en upplýsandi. Gasserar þó meðal stjórnmálamanna í öllum flokkum. „Ef enginn hælir mér, þá hæli ég mér sjálfur, ef enginn vitnar í mig þá geri ég það bara ...“

Ekki ætla ég að fara í saumana á grein Magnúsar. Hann veður úr einu í annað. Byrjar þó og endar á Evrópusambandsaðildinni en það vil ég gera að umtalsefni. Í upphafi segir hann:

Samfylkingin ein flokka hefur barist fyrir því að þjóðin fái að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. 

Þetta er nú tóm vitleysa hjá Magnúsi. Sjálfstæðisflokkurinn lagði það fram í upphafi að þjóðin fengi að kjósa um það hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Yrði það samþykkt myndu niðurstöður aðildarumsóknarinnar lagðar undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem sagt, flokkurinn boðaði tvennar kosningar um málið.

Magnús og aðrir samfylkingarmenn hlógu sig máttlausa vegna þessarar tillögu Sjálfstæðisflokksins. Fannst sko tómt bull að kjósa tvisvar. Þá kann það hafa virst vera svo. Nú hefur hins vegar komið á daginn að aðildarviðræðurnar eru einfaldlega ekki aðildarviðræður heldur aðlögurnarviðræður.

Hver vissi þetta í upphafi? Að minnsta kosti ekki almenningur. Hafi Samfylkingin vitað það, leyndi hún því fyrir þjóðinni ...

Undir forystu Samfylkingarinnar eru Ísland nú hægt og hægt að renna saman við Evrópusambandið. Í þokkabót er verið að eyða hundruðum milljóna króna til að sýna fram á kosti aðildarinnar. Engu að síður er þetta ólýðræðislega og illa rekna ríkjasamband við það að hrynja í efnahagslegu tilliti. Þar loga eldar sem breiðast hægt og hægt út til flestra ríkja í Suður-Evrópu og önnur eiga í stórkostlegum vandamálum, ekki aðeins Írland og Belgía heldur segja sérfræðingar að Frakkland þurfi aldeilis að taka sig á eigi ríkið að komast fyrir horn í efnahagsvanda sínum.

Magnús Orri Schram vitnar til formanns Sjálfstæðisflokksins sem vill að aðildarumsóknin að ESB verði dregin til baka. Vonbrigði Magnúsar eru skiljanleg. Hann á þó að vita að formaðurinn hefur heila landsfundarsamþykkt að baki sér.

Því er því skiljanlegt að formaðurinn ítreki flokkssamþykkt þegar samfylkingarmenn leita hófana hjá honum vegna bresta í ríkisstjórnarsambandinu.

Málið er ósköp einfalt. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar ekki að tryggja framgang aðildarumsóknarinnar hrökkvi Vinstri grænir úr ríkisstjórn. Þetta telja Sjálfstæðismenn einfaldlega skynsama afstöðu og eiga stuðning þjóðarinnar fyrir því samkvæmt skoðanakönnunum. 


Því miður, þetta skiptir svo ákaflega litlu

Enn og aftur er brugðist við atvinnuleysi með aðgerðum sem draga ekki úr fjölda atvinnulausra. Með fullri virðingu fyrir Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Vinnumálastofnun þá skapar samstarfssamningur þessara stofnana ekki nein atvinnutækifæri. Hugsanlega til lengri tíma litið en ekki strax.

Ég þori að fullyrða að 90% þeirra sem ertu atvinnulausir eru í brýnni þörf fyrir launum til framfærslu. Verkefni við þróun viðskiptatækifæra gerir það ekki.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og forveri hennar og atvinnuráðgjafar um allt land hafa í langan tíma boðið upp á aðstoð við gerð viðskiptaáætlana.

Atvinnulaust fólk vill einfaldlega atvinnu. Fæst af því getur staðið undir þeim kostnaði sem uppbygging eigin atvinnutækifæra í mörgum tilfellum krefst. Og það er hrikalega erfitt hægt á þeim „bótum“ sem fást frá VMS. Ólíklegt er að atvinnulaus maður fái nauðsynlega fyrirgreiðslu í bönkum til að stofna til eigin reksturs nema hann hafi ákveðið hlutfall eigin fjár og veð fyrir láni.

Með ofangreindu er ég síst af öllu að agnúast út í framtak Nýsköpunarmiðstöðvar og Vinnumálastofnunar.

Vandamálið er djúpstæðara og alvarlegra. Það einfaldlega að því umhverfi sem almenningi og fyrirtækjum er skapað af ríkisstjórn og fjármagnsstofnunum.  

 


mbl.is Nýtt úrræði fyrir atvinnulausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband