Bloggfærslur mánaðarins, september 2011
Sýnilegar breytingar á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi
30.9.2011 | 18:02
Miklar breytingar hafa orðið á eldfellunum tveimur á Fimmvörðuhálsi og umhverfi þeirrra frá því að gosi lauk og fram á þennan dag.
Frá goslokum í Eyjafjallajökli hef ég nokkrum sinni farið upp á Fimmörðuháls og tekið myndir mér til gamans eins og ég geri alltaf á ferðum mínum. Á minnið er ekki alltaf að treyst en ljósmyndin breytist ekki nema henni sé beinlínis breytt og það geri ég aldrei. Er þó aldrei þar í þeim tilgangi að taka myndir til samanburðar. Ég er bara ekki nógu fræðilega sinnaður til þess.
Myndir til samanburðar
Efsta myndin er af eldfellinu sem hlotið hefur nafnið Magni. Þessi mynd var tekin 22. maí 2010, er við tveir félagar óðum öskuna frá Skógum og yfir í Bása. Held að fáir hafi farið þessa leið á undan okkur eftir að gosi lauk í Eyjafjallajökli.
Næsta mynd var tekin 16. júní 2010 þegar við nokkrir Útivistarfélagar tókum að okkur að marka nýja gönguleið framhjá Magna og í gegnum Goðahraun.
Þriðja myndin, sú rauða, var svo tekin núna í byrjun september. Allar eru myndirnar klipptar út úr stærri myndum. Tilgangurinn er sá að hægt sé að skoða eldfjallið nánar og bera myndirnar saman. Munum að hægt er að tvísmella á þær til að stækka þær.
Gufustrókarnir
Margt er áberandi við þessar myndir. Hið fyrsta er hversu uppgufunin hefur minnkað. Líklega helst það í hendur við að fellið og hraunið kólnar. Kælingin virðist þó vera hraðari en mér hefur dottið í hug. Ekki getur verið að votviðri hafi aukið á uppgufunina því í júníferðinni var rigning en ekki þeirri í maí.
Rauði liturinn
Litamunurinn er þó hvað undarlegastur. Magni og umhverfi hans breytist frá því að vegar grár og gugginn í það að vera rauðleitur. Hvernig stendur á því?
Fræðilega séð get ég ekki skýrt gráa litinn. Frá sjónarhorni leikmannsins gæti hann stafað af einhvers konar útfellingum sem orðið hafa á heitum stöðum í fellinu. Þær mynduðu fljótlega um tommu þykka skel, afar brothætta. Fjórða myndin er tekin í júní 2010 ofarlega í Móða og sýnir skelina.
Grá skelin er nú að mestu horfin. Hvers vegna veit ég ekki. Dreg stórlega í efa að átroðningur göngumanna sé einum um að kenna. Margt annað kann að hafa valdið, t.d. rofi vegna vatns og vinda og einnig hrun úr fellinu.
Sprungan
Annað sem vekur athygli mína er að sprunga hefur myndast efst fellinu, eiginlega rétt við gönguleiðina. Ég man ekki eftir henni úr fyrstu ferðinni og sé hana hvergi á myndum.
Sprungan nær frá um það bil miðjum hlíðum austan megin, upp á fellið og örlítið niður að vestanverðu. Gönguleiðin upp hlíðina hefur troðist ofan í sprunguna. Uppi er hún rúmur metri á dýpt eins og má sjá af myndinni vinstra megin.
Neðri myndin sem tekin var 16. júní 2010 sýnir að engin sprunga er sjáanleg þar sem nú hefur troðist gönguleið.
Sé þriðja efsta myndin stækkuð (tvísmella á hana) má greina sprunguna og gönguleiðina nokkuð vel.
Litskrúðið að hverfa
Það sem mér þótti stórkostlegast er ég kom í fyrsta sinn á gosfellið Magna var litafegurðin. Hún er óðum að hverfa. Ástæðan kann að vera átroðingur göngumanna. Litirnir voru hreinlega stórkoslegir og mögnuðust auðvitað upp vegna þess að umhverfið var allt svo svart og kalt vegna öskunnar úr Eyjafjallajökli.
Berum til dæmis saman myndina hérna til vinstri við þá af fólkinu við sprunguna. Á þessum tveimur er talverður munur.
Fjallið sígur
Skoðum líka fleiri breytingar sem orðið hafa á Magna. Greina má á þremur efstu myndunum að fjallið sígur. Það má einna helst sjá þar sem gönguleiðin liggur. Víða hefur runnið úr fjallinu og það minnkað að ummáli.
Þetta sést líka á tveimur neðstu myndum sem eru úr norðri. Fjallið er grátt á annarri enda sú tekin 22. maí 2010 og hin var tekin núna í september.
Mér finnst greinilegt hversu hallinn frá vinstri og að fjallinu hafi lækkað. Takið líka eftir ummerkjum í framan fjallinu, þar hafa orðið talsverðar breytingar, runnið hefur úr því og það breyst nokkuð. Lítið á svæðið fyrir neðan fólkið á nýrri myndinni og stækkið gráu myndina til samanburðar. Þarna er stór munur.
Í lokin er ekki úr vegi að biðja lesendur afsökunar af lélegri jarðfræðilegri þekkingu minni. Vona að myndirnar séu skárri en frásögnin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ófróðir, ótalandi og óstafsetjandi ...
30.9.2011 | 10:31
Fæstir af þeim sem ég hef hitt á lífsleiðinni hafa haft fyrir því að tjá sig í fjölmiðlum um málefni líðandi stundar. Margt af þessu fólki hefur haft afar ákveðnar skoðanir, sumum hef ég verið sammála, öðrum ekki. Það skiptir þó minnstu máli. Ég ber barnslega virðingu fyrir þeim sem standa fast á sinni skoðun og geta rökstutt hana.
Stundum virðist hendir að fólk af þessu tagi skrifar grein eða bréf til dagblaða. Einn þeirra sem talar hreint út á ómengaðri íslensku nefnir sig Lúinn borgara og skrifar í dag, föstudag, bréf í dagskrárliðinn Velvakanda í Morgunblaðinu. Hann segir í upphafi greinarinnar:
Þeir sögðu frá því í fréttum, og voru með neyðarástandssvipinn á sér á meðan, að tölvur í reykvískum grunnskólum hefðu ekki verið endurnýjaðar svo og svo lengi. Þetta var víst alveg ómögulegt ástand. Mætti ég hins vegar láta í ljós þá skoðun, að skólarnir ættu hið snarasta að draga úr tölvukennslu sinni en reyna fremur að kenna börnum og unglingum að gera sig skiljanleg á íslensku.
Í sjálfu sér er það ákaflega forneskjulegt viðhorf að amast við tölvunotkun en hitt er þó aldeilis satt að börnum og unglingum hefur farið stórlega aftur í ræðu og riti. Ef til vill er þetta bara sama gamla bullið sem hrjáð hefur eldra fólk allt frá tímum Rómverja og jafnvel forngrikkja, að tímarnir fari versnandi.
O tempora o mores ... Þvílíkir tímar, þvílíkir siðir, er haft eftir Cicero sem réðst í ræðu sinni á spillingu samtíðar sinnar. Þetta er auðvitað háttur gamals fólks sem skilur ekki nútímann, skilur til dæmis ekki tölvunotkun og kennir henni um lélegan skilning ungmenna á íslensku.
En hinn Lúni borgari er ekki svo vitlaus sem hann virðist. Margt er til í ræðu hans.
Almenn grunnþekking, af því tagi sem áður þótti nauðsynleg hverjum þeim sem vildi teljast menntaður maður, finnst nú varla hjá ungu fólki. En það er afar lipurt á tölvu, getur hlaðið niður stolinni tónlist á leifturhraða og telur sig eiga kröfu til þess að hvergi sé kennt neitt erfitt en allir fái háar einkunnir. Allt kennsluefni skal vera á einföldu máli, með mörgum myndum og aðgengilegt á netinu. Aldrei má þurfa að fletta upp í bók. Orðabækur vill þetta fólk ekki sjá, alfræðibækur enn síður. Wikipedia er þessu fólki bæði marktæk og nægileg heimild. En eftir því sem fleiri og fleiri kunna minna og minna eykst skyldusöngurinn um hve skólakerfið sé frábært og fagmennskan ógurleg.
Lovísa, elsta systir mín, var lengi kennari en hefur nú hætt störfum vegna aldurs, þó hún sé miklu yngri í anda en árfjöldinn segir til um. Eitt sinn ræddum saman um uppeldi mitt á börnum mínum. Mér er það minnistætt að hún hélt því mjög fast fram að bóklestur skipti sköpum fyrir börn, þau sem næðu tökum á honum stæðu sig að jafnaði betur í skóla.
Ég held að hún hafi rétt fyrir sér. Við sjáum það til dæmis núna, svart á hvítu, hversu lestrarkunnáttu unga fólksins hefur hnignað. Fullyrt er að um 23% 15 ára drengja og 9% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns. Ef til vill hefur sá Lúni borgari eitthvað til síns máls þegar hann segir:
Vandamálið í íslensku skólakerfi er ekki að grunnskólarnir séu ekki með allra nýjustu tölvurnar. Vandamálið er fremur að menn koma út ófróðir, ótalandi og óstafsetjandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Styðjum lögreglumenn, öryggi landsins er undir
29.9.2011 | 14:58
Virðing ríkisstjórnarinnar fer þverrandi. Það má sjá á viðhorfi hennar til einstaklinga, félagsamtaka, fyrirtækja og jafnvel stofnana. Hún neitar að semja við lögreglumenn um kaup og kjör. Málinu var vísað til kjaradóms þar sem engin ásættanleg úrlausn fékkst.
Nú sætta lögreglumenn sig ekki við stöðuna og krefjast úrbóta. Ljóst má vera að verði ekkert að gert lamast lögreglan og sérsveit hennar. Í áróðursstríði sínu gegn lögreglumönnum fer ríkisstjórnin fram með offorsi og látum. Inn í málið eru dregin innkaup hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Langt er síðan ríkisstjórninni hefur tekist jafn vel upp í PR málum og núna. Aldrei fékk klúður Steingríms fjármálaráðherra vegna Sjóvár og tapsala Seðlabankans á því fyrirtæki jafnmikla umræðu í fjölmiðlum. Var þar þó um tugi milljarða að ræða en ekki meint ólögleg innkaup upp á tugi milljóna.
Ég þekki ágætlega til lögreglunnar. Starfaði námsárum mínum sem sumarmaður í löggunni og var þar með mörgum afbragðs góðum einstaklingum sem nú eru margir háttsettir innan liðsins. Gríðarlega mikið hefur breyst frá því að ég gekk um götur borgarinnar í einkennisbúningi eða ók um landið í vegalöggunni sem svo var oftast kölluð. Ábyrgð lögreglumanna hefur stóraukist, einnig álag og vinnutími. Á móti hafa launin í raun lækkað. Mér er til stórefs að fyrir þriggja mánaða sumarvinnu í löggunni í dag sé hægt að hafa nægar tekjur til að halda sér uppi í níu mánuði í háskóla.
Lögreglumenn hafa sýnt mikla stillingu og kurteisi í baráttu sinni fyrir betri launum. Fyrir það eiga þeir og forystumenn þeirra hrós skilið. Í starfi sínu eru þeir oftast til mikillar prýði og hæst ber fórfúst starf þeirra á meðan á óeirðum í miðbæ Reykjavíkur á dögum búsáhaldabyltingarinnar.
Ég styð lögreglumenn í kröfum þeirra um betri kjör. Öryggi þjóðfélagsins er undir, við höfum ekki efni á upplausn í röðum þeirra sem þar leggja mest af mörkum.
Lögreglan mótmælir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skrökvar forseti Alþingis?
29.9.2011 | 11:01
Forseti Alþingis gerði athugasemd við Fésbókarfærslu Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns. Sú síðarnefnda hélt því fram að vegna ótta við ólæti hefði setning Alþingis verið fært frá því kl. 13:30 á laugardaginn til kl. 10:30 um morguninn. Þetta segir forseti Alþings vera rangt og krafið þingmanninn um leiðréttingu.
Þegar hér er komið sögu er ekki nema eðlilegt að vísa til málefnalegrar umfjöllunar í Staksteinum Morgunblaðsins um málið. Í þeim segir:
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, fann að skrifum þingmanns sem vitnaði til fréttar Morgunblaðsins um að þingsetningu hefði verið flýtt. Í stað þess að vera klukkan hálftvö eftir hádegi yrði hún haldin um morguninn.
Ásta Ragnheiður heldur því fram að þetta sé rangt og þingsetningu hafi ekki verið flýtt. Hún væri á þeim tíma sem þingfundir væru haldnir þegar þeir væru á laugardögum.
Svo óheppilega vill til fyrir þingforseta að Alþingi hefur verið sett áður og þess vegna eru fordæmi fyrir því hvenær Alþingi er sett.
Í seinni tíð hefur það verið kl. 13:30, hvort sem um er að ræða miðja viku eða laugardaga.
Árið 2005 var 1. október síðast á laugardegi og þá var þingið sett kl. 13:30.
Næst þar á undan bar 1. október upp á laugardegi árið 1994 og þá var þingið líka sett kl. 13:30.
Sú fullyrðing að ekki sé verið að flýta þingsetningunni er þess vegna augljóslega röng.Hvers vegna kemur þingforseti sér í þá aðstöðu að telja sig þurfa að segja ósatt um setningu Alþingis?
Er þetta liður í þeirri viðleitni að auka virðingu Alþingis?
Mér þykir það ákaflega leiðinlegt þegar sá sem gegnir hinu virðulega embætti forseta Alþingis hreinlega skrökvar um lítið og eiginlega ákaflega ómerkilegt mál. Það skiptir engu máli heldur er það verknaðurinn sem slíkur sem manni gremst.
Þegar upp er staðið hvarflar sú hugsun að manni að ástæðan fyrir skröki forseta Alþingis og tilfærslu á setningu þingsins sé vegna þess að stjórnarflokkarnir eru dauðhræddir við mótmæli. Þeir vita sem er að hafi einhvern tímann verið ástæða til að berja í búsáhlöld er það núna.
Nú eru 11.300 manns atvinnulausir, meira en 12.500 manns hafa flust af landi brott frá því 2008, verðbólgan er á uppleið, stýrivextir Seðlabankans hafa verið hækkaðir, fjármagnsskortur þjáir fyrirtækin í landinu og fátt eitt er gert til að efla innlenda og erlenda fjárfestingu.
Berjum í búsáhöld á laugardaginn og í allt haust. Komum þessari ríkisstjórn frá. Sú næsta hlýtur að verða betri, botninum hefur verið náð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hefur þjóðfélagið efni á að tapa 35 milljarða veltu?
28.9.2011 | 17:55
Lítil tafla í góðri umfjöllun Morgunblaðsins um atvinnuleysi í síðustu viku vakti athygli mína. Í henni eru atvinnlausir sundurliðaðir eftir menntun.
Samtals eru 1.822 háskólaborgarar án atvinnu. Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir því hversu þetta er alvarlegt mál.
Þjóðin hefur veitt þessu fólki nánast ókeypis menntun, það hlýtur að hafa kostað talsvert allt frá barnæsku.
Menntunarkostnaður eins einstaklings
Á hrunárinu 2008 var kostnaður vegna menntunar hvers manns í háskóla tæplega 9.000 bandaríkjadalir. Er þá ekki reiknaður kostnaðurinn við menntun á fyrri menntunarstigum.
Á núverandi gengi eru þetta um ein milljón króna á ári og því kostar líklega 3 til 4 milljónir króna að mennta hvern einstakling í dag.
Gætu haft 9 milljarða í laun og greitt skatta
Nú eru 1.822 háskólaborgar án atvinnu. Það flögraði að mér að kostnaðurinn við það nú að vera mikill. Líkur benda til að laun þessa fólks gæti verið í samtals tæplega 9 milljarðar króna á ári.
Um leið verður ríkissjóður af skatttekjum sem nema rúmlega 4 milljörðum króna á ári. Þess í stað borgar ríkissjóður fólkinu 3,5 milljarða króna í atvinnuleysisbætur.
Hversu mikið rugl er ekki atvinnuleysi fyrir samfélagið? Allir hljóta að sjá að það margborgar sig að koma fólki í vinnu frekar en að hafa það á bótum. Fyrirgefið mér, en hvað í fjandanum eru stjórnvöld að gera?
20 milljarðar í atvinnuleysibætur á ári
Háskólaborgarar eru ekki þeir einu sem eru án atvinnu. Telja má upp fjöldan allan af vel menntuðu fólk sem þjáist vegna skorts á atvinnu, smiði, pípulagningarmenn, rafvirkjar skrifstofufólk, bókarar, afgreiðslufólk og svo framvegis.
Nú eru 11.294 einstaklingar án atvinnu. Laun þessa fólks gætu verið eitthvað í kringum 35 milljarðar króna eftir skatta. Og þá hafa þeir staðið ríkissjóði skil á meira en 13,5 milljörðum króna í staðgreiðslu miðað við gefnar forsendur.
Slík er klikkunin að við látum okkur atvinnuleysið í léttu rúmi liggja. Ríkissjóður greiðir hverjum og einum um 180.000 krónum á mánuði fyrir að vera heima.
Samtals er því öllum atvinnulausum greiddar rúmar 19 milljarða í bætur. Og svo mikill er svíðingsskapurinn að fólk þarf að greiða staðgreiðslu af þessu smáræði. Ríkissjóður fær því til baka tæpa 3 milljarða króna. Þetta er eins og að skera rófuna af hundi og af gæsku sinni gefa honum hana að éta ...
Fjárskortur í samfélaginu
Lesendur hljóta að gera sér grein fyrir því hversu mikið vandamál það skapar að missa 35 milljarða úr veltu samfélagsins. Einungis þetta veldur í sjálfu sér atvinnleysi, minnkandi umsvifum, fólk getur síður greitt skuldir sínar, rekstur fyrirtækja og heimila dregst saman. Í almennu máli nefnist þetta kreppa.
6000 fyrirvinnur fluttu til útlanda
Nú kunna einhverjir að halda því fram að ríkisstjórnin hafi náð góðum árangri í baráttunni við atvinnuleysið því við hrunið voru missti nærri 20 þúsund manns vinnu. Nei, það er ekki svo gott, því miður hefur ríkisstjórnin ekki staðið sig.
Frá árinu 2009 hafa um 12.500 einstaklingar flutt af landi brott. Þetta geta verið 3.100 fjölskyldur eða 6.200 fyrirvinnur. Hér eru þeir ekki taldir með sem flutt hafa af landinu á þessu ári.
Niðurstaðan er því sú að ekkert hefur gengið hjá ríkisstjórninni í baráttunni við atvinnuleysið. Í stsað þess að greiða nærri 40 milljarða í atvinnuleysisbætur leystu þúsundir landsmanna málið og fluttu af landi brott. Líklega kann ríkisstjórnin þessu fólki miklar þakkir fyrir greiðann.
Ríkisstjórnin hefur hingað til fyrrst við þegar sýnt hefur verið fram á aumingja skap hennar í atvinnumálum. Látum þá vera að kennan einhverjum um. Horfum fram á við og krefjumst aðgerða.
Hvað eru stjórnmál?
Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórnmál fjalli ekki um rekstrur frá degi til dag. Mér dettur ekki í hug að hrósa ríkisstjórninni fyrir að halda í horfinu, draga úr kostnaði ríkissjóðs og reyna að auka tekjur hans með skattheimtu. Flestir hefðu gert eitthvað svipað, skiptir engu hver stjórnmálaflokkurinn er.
Hefði ríkisstjórnin farið í tveggja og hálfs árs frí til Kanaríeyja í febrúar 2008 og væri nú nýkomin aftur til stafa kæmi án efa í ljós að embættismenn stjórnsýslu landsins hefðu haldið í horfinu, staðan væri jafnvel skárri en sú sem við stöndum núna frammi fyrir. Það er vegna þess að rekstur er ekki í eðli sínu stjórnmál.
Það sem ég er að segja er einfaldega eftirfarandi. Stjórnmál byggja á stefnumótun og hugsjónum og framkvæmd þeirra. Stjórnmál eru ekki debet og kredit verkefni eða sópa gólf að halda hlutunum í lagi. Það geta allir gert og það gera embættismenn lýðveldisins fullvel.
Svona er stefnumörkun í stjórnmálum
Það sem vantar er stefnumörkun stjórnmálamanna. Og hún á meðal annars að innhalda eftirfarandi atriði:
- Útrýma 90% af atvinnuleysi á næstu 24 árum
- Auka á næstu 24 mánuðum eigið fé íbúðareigenda svo þar verði sem næst því sem það var í lok árs 2007
- Auka verðamætasköpun fyrirtækja meðal annars með skattalækkunum
- Laða að fjárfestingar erlendra og innlendra aðila
- Útbúa stefnumörkun í atvinnumálum til 10 ára í senn og henni sé fylgt
- Ríkisstjórnir standi við stefnu og hætti vingulshætti
- Draga stórlega úr þeim fjárveitingum úr ríkissjóð sem skila ekki árangri í fækkun á atvinnuleysisskrá
Við skulum nú hætta öllu kjaftæði og einblína á atvinnuleysið, þann vanda sem veldur almennt hvað mestri sorg og óhamingju í þjóðfélaginu. Um leið og atvinnustigið hækkar leysist fjöldi annarra vandamála, þau hverfa hreinlega eins og dögg fyrir sólu. Hunsum þá sem finna svona aðgerðum allt til foráttu, lítum þess í stað á málin í heild sinni.
Við megum alls ekki gerast svo kröfuhörð að hin pólitíska stefna tapist vegna þess að henni fylgi svo mikill fræðilegur línudans að enginn þori að grera neitt af ótta við að verða sér til skammar. Nei, smáatriðin eru aðeins fyrir nördin. Hinir geta haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Hér vísa ég í góðan mann sem ég ræddi um í pistli fyrr í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikil spurn eftir stöðu í heiðursverðinum
28.9.2011 | 14:12
Vinur minn einn tekur að sér að standa heiðursvörð við setningu Alþingis sé eftir því leitað. Hann er til í að gera það ókeypis. Hann er vanur stöðum, hefur gengt mörgum en er nú að leita sér að nýjum.
Feiri en hann eru atvinnulausir og tilbúnir að standa heiðursvörð og munu ábyggilega gera það vel. Þeir eru líka vanir að standa og sitja eftir því sem ríkisstjórnin óskar.
Þá má nefna þá sem hafa þegið matargjafir frá Fjölskulduhjálp Íslands og skyldum samtökum. Án efa væru þeir tilbúnir til að standa vörð um heiður Alþingis og ríkisstjórnarinnar.
Enn eru ótaldir þeir sem töpuðu heimilum sínum að hluta eða öllu leiti til ríkisins og fjármálastofnana. Þeir munu áreiðanlega fjölmenna við setningu Alþingis.
Raunar er ég sannfærður um að spurn eftir stöðu í heiðurverðinum sé miklu meiri en framboðið. Gæti best trúað að þúsundir manna mættu á Austurvöll í þögulli stöðu sem mun bergmála um allt land og loks hrekja þessa velferðarríkisstjórn frá völdum. Það væri nú heiðursvörður í lagi ...
Ekki hlutverk björgunarsveita að standa heiðursvörð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjall spýtir gjóthnullungum á ferðamenn ...
28.9.2011 | 14:01
Mogginn hlýtur að geta gert betur en þetta. Hvers vegna talar skrifar blaðamaðurinn um grjóthnullunga sem eldfjallið gæti spýtt frá sér.? Gæti verið að eitthvað eldfjall sé farið að gjósa eða er spýtingurinn af einhverjum öðrum orsökum?
Hvers konar eldfjall er um að ræða? Ráðast grjóthnullungarnir aðeins á þessa 53 ferðamenn? Hvað með restin af íbúunum, þeir eru um 10.000, og aðra ferðamenn?
Nei, kæru Moggamenn. Svona frétt er ekki boðleg og hún stendur ekki undir því að vera frétt. Þið verðið að gera betur. Lesa yfir og gera fréttina fyllri.
Eyja á Kanarí rýmd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kona í rauðum loftbelg
28.9.2011 | 13:46
Fræðilegur línudans sem eyðileggur umræðuna
28.9.2011 | 11:07
Við megum alls ekki gerast svo kröfuhörð að hugtakið detti úr notkun vegna þess að því fylgi svo mikill fræðilegur línudans að enginn þori að nota það af ótta við að verða sér til skammar. Nei, smáatriðin eru aðeins fyrir nördin. Hinir geta haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Ein af þeim bloggsíðum sem ég les mér til ánægju, fræðslu og upplýsinga er Hungurdiskar (http://trj.blog.is) og er höfundurinn er Trausti Jónsson, veðurfræðingur, afskaplega ritfær maður.
Nærri má geta að pistlar Traust fjalla eingöngu um veðurfræði og það verður ekki af honum skafið að hann reynir að skýra hin ýmsu veðurfyrirbrigði út fyrir lesendum sínum. Það er því ekki honum að kenna þó maður skilji nú ekki allt þrátt fyrir prýðileg framsetningu.
Tilvitnunin hér að ofan er fengin úr pistli dagsins hjá Trausta. Hann er að skýra út hugtakið hnúkaþeyr eða hnjúkaþeyr, líklega er það smekksatriði hvernig menn vilja rit orðið. Og það sem mér kemur á óvart er að hnúkaþeyr er ekki eins algengur eins og menn halda. Fyrirbrigðið er víst flóknara en svo. Það er þó aukaatriði.
Trausti góður fræðimaður og ritar af miklilli þekkingu en ekki síður frjálslyndi og í niðurlagi pistilsins fjallar hann um kröfuhörkuna í umræðunni. Það varð mér til mikillar umhugsunar.
Hér er komið að máli sem skiptir gríðarlega miklu og það er kröfuharkan um nákvæmni í umræðum, til dæmis um stjórnmál. Ég held að það sé nákvæmlega þetta sem háir stjórnmálalegri umræðu.
Menn mega einfaldleg ekki hafa skoðun á til dæmis verðtryggðum íbúðalánum því þá koma fræðingarnir, oftast á vegum fjármálafyrirtækjanna, og hengja mann í smáatriðunum. Um leið týnist aðalatriði málsins. Til dæmis sú einfalda staðreynd að eftir hrunið var öll verðtryggingin sett á ábyrgð lántakenda og fjármögnunarfyrirtækin stórgræddu, tóku enga ábyrgð.
Í umræðunni um smáatriðin gleymdist sú einfalda staðreynd að eigið fé heimilanna brann upp, bankarnir hirtu það. Af hverju? Af því að þeir gátu það, segja þau rétt eins og útrásarvíkingarnir sögðu fyrir hrun.
Og svo halda fjármálafyrirtækin áfram eins og ekkert hafi í skorist en almenningur stendur eftir með sárt ennið (og líklega afturhlutann) vegna þess að fólk var að tala um aðalatriði málsins, ekki smáatriðin. Og hvert er aðalatriði þessa máls? Jú, eignir fólks hurfu ...
Svona er umræðan líka hjá þeirri velferðarstjórn sem nú segist vera að stýra landinu út úr kreppunni. Hún neitar að horfa á stóru málin, atvinnuleysið, fjármagnsskort fyrirtækja og veltuminnkun í þjóðfélaginu. Þess í stað er einblínt á debet og kredit í ríkisreikningnum ... Þvílík pólitík sem það nú er þegar þjóðinni blæðir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
iPhone síminn er frábært tæki
28.9.2011 | 10:25
Allt frá því fyrsti iPhone síminn kom á markaðinn hef ég haft hug á því að fá mér einn slíkan. Það gerðist þó ekki strax. Bæði var að einhver spakur maður fullyrt að aldrei ætti að kaupa fyrstu útgáfu af neinu tæki. Þau ættu eftir að þróast og breytast. Svo skipti líka máli að annar vinur minn, Steve Jobs, forstjóri Apple, ákvað að iPhone síminn skyldi aðeins seldur í tengslum við áskrift ákveðinna símafyrirtækja. Þetta var léleg ákvörðun og vini mínum til mikils vansa.
Hér á landi var lengi vel ekki hægt að kaupa iPhone nema á svörtum markaði, læstan og hakkaðan. Það var ómögulegt að mínu mati. Svo sá Steve Jobs að sér, vegna þrábeiðni vina sinna, og ákvað að setja ólæstan iPhone síma á markað. En gallinn á gjöf Njarðar var að hann varð hrikalega dýr. Mér fannst mikið að kaupa síma á 35.000 krónur eða þar um kring og flögraði því ekki að mér að kaupa iPhone á 150.000 kall.
Þetta gerði mig óánægðan í langan tíma og spilltist nú vinátta okkar Steve Jobes. Svo gerist það í sumar að hann lækkaði verðið á iPhone4 vegna þess að iPhone5 er á leiðinni. Ég lét því drauminn rætast og keypti mér þennan langþráða síma.
En þvílíkur sími sem iPhone4 er. Hann er meiriháttar tæki og afskaplega auðvelt í notkun. Hann nýtist ekki aðeins til að hringja og senda sms skilaboð. Maður fær tölvupóstinn sinn með skilum, sendir tölvupóst, vafrar á netinu, skráir skorið í golfinu, fær nákvæmar upplýsingar um staðsetningu í gegnum gps forrit, hann nýtist í hlaupum og myndavélin er frábær.
Þennan síma ætla ég að eiga í mörg ár - nema því aðeins að maður kaupi sér iPhone5 á næsta ári ... ég meina ef hann verður á góðu verði. Svona er maður vitlaus, lætur tæknina hlaupa með sig í fjárhagslegar gönur ... Svo þarf ég endilega iPad ... Hvar endar þetta?
Myndin er af undirrituðum með fyrsta iPhone símann, myndin er tekin 6. júlí 2007.
Apple býður til iPhone-fundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.10.2011 kl. 16:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)