Til hamingju KR-ingar

DSC_0516 - Version 2

Mannskepnan er skrýtin og ég er engin undantekning. Ég ólst upp sem Valsari og hef alltaf litið á mig sem slíkan. Svo einn dag röltir maður með sex ára strákpjakk yfir Kaplaskjólsveginn þar sem maður bjó, inn í iþróttahús erkifjendanna, KR, og skráir drenginn í félagið. Eftir það var ekki aftur snúið. Ekki nóg með að drengurinn varð KR-ingur heldur stóð maður sig að því að hrópa næstu 24 árin; áfram KR, áfram KR. Og svo dag einn verður dýrasti draumur hvers drengs að veruleika, hann verður  Íslandsmeistari.

Á þessari vegferð hef ég marg oft litið í kringum mig og allaf vekur það mig til mikillar undrunar hvernig lífið leikur fólk í fótboltanum, fleiri en ég breyta nauðbeygðir um félag. Valsari verður KR-ingur, KR-ingur verður Stjörnumaður, Akurenesingur, Framari, Keflvíkingur og svo framvegis. Við fylgjum börnunum.

Ég kynntist eiginlega ekki KR-ingum að ráði fyrr en í MR. Þar lenti ég eitt árið í bekk með þvílíkum KR harðjöxlum að mér var um og ó. Skipti engu þótt á þessum árum hafi vegur KR farið hnignandi, þessir strákar gáfu félagi sínu allt. Þetta voru þeir Gunnar Ingimundarsson, Gísli Gíslason og Guðmundur Jóhannesson og fleiri snillingar í fótbolta og námi. Þeir stofnuðu fótboltafélag í bekknum sem nefnt var eftir einhverjum enskum bæ, Steinhousemuir, minnir mig að félagið hafi heitið. Við urðum MR meistarar eitt árið, lékum til úrslita við félag sem hét Darlington. Þeir voru á ári eldri og miklir naglar, KR-ingar og Vesturbæingar flestir.

Og nú, löngu síðar, eru þessir strákar komnir hingað og þangað um jarðarkringluna. Ekki ala þeir allir upp KR-inga heldur afreksdrengi í öðrum íþróttafélögum. Umhverfið mótar börnin og það vitum við flest, útilokað að taka þau úr hverfinu og senda í eitthvað annað. Innst inni eru þeir samt alltaf KR-ingar enda er KR alveg einstaklega merkilegt félag, og þó ekki félag, miklu meira, eiginlega lífsstíll ...

Og nú er ríkari ástæða en nokkru sinni að senda KR-ingum heillaóskir. Í meistaraflokki félagsins eru glæsilegir fulltrúar ungra mann, ferskir, lífsglaðir og skemmtilegir karakterar, sínu félagi til sóma. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband