Er snyrtileg borg hreinn óþarfi ...?

Á einhverri útvarpsstöðinni heyrði ég í gær við viðtal við borgarfulltrúa Besta flokksins. Hann var spurður um útlit borgarinnar sem hefur farið hnignandi frá því þessi undarlegi flokkur tók við völdum ásamt Samfylkingunni. Til að spara er gras á grænum svæðum ekki lengur slegið, ekki við umferðargötur, dregið hefur verið úr þrifum í borginni og í sannleika sagt virðist borgin stefna í tóma órækt og óþrif.

Í morgun birtist svo í Morgunblaðinu ágætt umfjöllun í Staksteinum um þessi ruglmál Besta flokksins. Höfundurinn dregur flokkinn sundur og saman í háði:

Borgarfulltrúi Besta flokksins mætti hróðugur á sjónvarpsskjái borgarbúa og annarra landsmanna í gærkvöldi og útskýrði fyrir þeim hvílíkum árangri flokkurinn hefði náð í rekstri borgarinnar.

Besti flokkurinn fann út að það er aðeins smekksatriði hvort höfuðborgin á að vera snyrtileg eða ekki og með þessa uppgötvun í farteskinu hefur hann náð að spara töluverðar fjárhæðir.

Besti flokkurinn telur til dæmis alveg óþarfa að hafa grasið slegið í borginni og að ekkert geri til þó að það sé óslegið á einstaka stað, svo sem við fáfarnar götur á borð við Miklubraut og Sæbraut.

Besti flokkurinn er líka á því að það þurfi ekki alltaf að vera að sækja sorp eða tína upp rusl, óræktin þarf að fá að njóta sín víðar en á grasbölunum.

Mikið happ er fyrir borgarbúa að slíkir hugmyndafræðingar skuli hafa gefið kost á sér í síðustu kosningum. Þeir sögðu það mæla sérstaklega með framboðinu að þar færi hugmyndaríkara fólk en gengur og gerist, sem er augljóslega hárrétt.

Engum öðrum hefði getað dottið í hug að hægt væri að spara með því að minnka þjónustu og láta borgina líta verr út.

Það eru svona hugmyndir sem lyfta borginni upp – og síðar landinu öllu ef Besti flokkurinn fær verðskuldað fylgi. 

Veit einhver hvað Besti flokkurinn stendur fyrir eða hvað hann hefur komið með inn í rekstur höfuðborgarinnar? Hefur hann eitthvað breytt ásýnd borgarinnar nema til hins verrra? Hefur hann haft frumkvæði að því að sýna ráðdeild og skynsemi í rekstrinum?

Hið eina sem situr eftir er að þarna eru nokkrir borgarfulltrúar sem hafa sáralitla þekkingu á því starfi sem þeir hafa fengið að taka að sér. Þeir leggja fátt eitt til málanna nema það sem er borginni til óþurftar; uppsagnir, sóðaskap og leiðindi ...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband