Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
Vafasöm lýsing á Gunnari Thoroddsen
18.2.2011 | 09:21
Allnokkuð er liðið frá því ég lauk við að lesa ævisögu Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Jóhannesson, sagnfræðing. Bókin er þykk og efnismikil og varpar auðvitað ljósi á ýmislegt í ævi Gunnars og er fengur að því. Þegar upp var staðið var ég samt dálítið efins um manninn en við nánari umhugsun finnst mér ævisagan hvorki varpa réttu ljósi á Gunnar né marga samferðamenn hans í stjórnmálum. Auðvitað hef ég ekki þaullesið bókina en til að átta mig á henni las ég aftur ævisögu Ólafs Thors. Fékk ég þá samanburð á samtíma Gunnars og efnistökum tveggja ólíkra ævisöguritara.
Gunnar kemur mér svo fyrir í ljósi ævisöguritarans að hann hafi verið nokkuð hégómlegur, meira gefinn fyrir titla en verkefni, um pólitískan eldmóð er fátt fjallað, hann virðist hafa setið á þingi án þess að hafa látið til sín taka í neinum málum sem einhverju skipta. Sáralítið er getið um borgarstjóratíð hans og raunar er sem maðurinn hafi ekkert sinnt því starfi. Sannast sagna líkar mér ekki við þennan Gunnar.
Fleira orkar tvímælis í bókinni. Það sem vekur þó athygli lesandans er hversu miklu plássi er varið í ágreining Gunnars við samþingmenn og forystu Sjálfstæðisflokksins vegna forsetakjörsins 1952 þegar Gunnar tók þá ákvörðun að styðja tengdaföður sinn í stað séra Bjarna Jónsson sem Sjálfstæðisflokkurinn lýsti yfir stuðningi við. Það er raunar gert að þungamiðju ævi Gunnars og orsakavaldi allra hans erfiðleika og vandamála upp frá því.
Ég vil halda því fram að forsetakosningarnar hafi ekki skipt svo miklu máli sem ævisöguritari Gunnars vill vera láta. Rök mín eru þau að Gunnar hélt áfram starfi sínu í Sjálfstæðisflokknum og stendur sig vel, hann verður ráðherra, sendiherra og prófessor. Nýtur greinilega stuðnings í þessi embætti. Hin vegar voru deildar meiningar um Gunnar. Ólafur Thors sagðist til dæmis ekki treysta honum. Var það vegna forsetakosningana eða risti það dýpra? út í það er ekki farið í ævisögunni og raunar stokkið á þá skýringu sem virðist nærtækust og engu skeytt hvort hún er rétt eða röng, hún virkar bara nógu góð.
Hvorki í stjórnmálum né annars staðar er sú krafa gerð til einstaklinga að þeim líki athugasemdalaust við náungann. Hver og einn getur litið í eigin barm og kemur þá í ljós að flestir dæma aðra með réttu eða röngu. Ástæðan fyrir vantrausti þarf ekki að vera merkileg, aðeins tilfinning en hún dugar ábyggilega flestum.
Verst við ævisöguna er að lesandinn fær undarlega tilfinningu fyrir stjórnmálamanni sem lengi var áberandi í þjóðlífinu. Flestir geta skilið metnað Gunnars. Ganga ekki allir stjórnmálamenn með ráðherrann í maganum, dreymir ekki marga um að komast í stól forsætisráðherra? Ég er þess fullviss um að líf Gunnars snérist ekki um þessa drauma. Hann vann að stefnumálum Sjálfstæðisflokksins og vék aldrei frá þeim frekar en aðrir þingmenn og ráðherrar hans.
Ævisöguritarinn, Guðni Jóhannesson, gerir alltof mikið úr ágreiningi milli Gunnars og annarra í forystu Sjálfstæðisflokksins og alltof lítið úr stjórnmálastörfum Gunnars og samstarfi hans við samherja sína á þingi og í borgarstjórn og raunar út um allt land. Fyrir vikið verður ævisagan ekki trúverðug að þessu leyti.
Guðni Jóhannesson er án efa góður sagnfræðingur og ritar léttan og læsilegan texta en innihaldið verður að gagnrýna. Ég fékk það þó ansi sterkt á tilfinninguna að hann væri alls ekki hlyntur Sjálfstæðisflokknum, sem er í lagi nema fyrir þá sök að hann virðist einfaldlega vera á móti flokknum og hagar frásögn sinni þannig.
Ef til vill er þetta misskilningur af minni hálfu en mér finnst það ekki jákvætt hvernig hann fjallar um Ólaf Thors og gerir hann beinlínis að illgjörnum manni, fullum af heift gagnvart Gunnari. Þetta gengur alls ekki upp miðað við þau einkenni sem Matthías Jóhannesson segir að einkennt hafi Ólaf. Því til stuðnings eru skoðanir fjölmargra andstæðinga Ólafs í stjórnmálum. Til dæmis var vinátta hans og Einars Olgeirssonar mikil og sterk, sama var um Gylfa Þ. Gíslason og marga fleiri. Illgjarn var Ólafur aldrei.
Svo virðist sem Guðni geri Bjarna Benediktssyni upp mikla óvild í garð Gunnars, en það gengur alls ekki upp. Vel má vera að Bjarni hafi verið þungur maður í skapi og erfitt við hann að eiga, og Matthías tekur undir það en bætir þó við að Bjarni hafi verið sanngjarn og viðræðugóður.
Matthías Jóhannesson ritar líka afskaplega góðan texta, stíll hans er ekki síður leikandi og grípandi. Sá síðarnefndi gerir þó miklu meira úr stjórnmálastarfi Ólafs Thors, verkefnum hans, samtímanum og samherjunum. Hafði hann, eins og Guðni, úr fjölmörgu persónulega efni að moða. Bók Matthíasar verður samt fyllri og skilmerkilegri.
Þegar öllu var á botninn hvolft fannst mér verulega gaman af bókinni um Gunnar Thoroddsen. Raunar langar mig til að bera bækurnar ítarlegar saman en ég hef gert í þessum litla pistl. Bæði er að ritarar þeirra eru skemmtilega færir, mjög ólíkir og ekki síst eru þessir tveir stjórnmálamenn afskaplega áhugaverðir sem og samtíð þeirra.
Borin von að forsetinn staðfesti ekki
16.2.2011 | 18:36
Synjunarvald forseta Íslands á samþykktum frumvörpu til laga er vissulega til staðar en það er borin von að hann beiti valdi sínu einu sinni enn. Hann mun skrifa undir lögin innan nokkurra daga.
Hers vegna fullyrði ég þetta, kann einhver að spyrja? Svarið liggur í augum uppi. Synjun forsetans á síðasta Icesave samningi var gríðarlegt högg á ríkisstjórnina. Hún mun ekki rísa upp fái hún annað. Þar af leiðandi mun hún aldrei taka áhættuna á því að forsetinn synji.
Hvað gera klókir stjórnmálamenn undir þessum kringumstæðum? Jú þeir fara til forsetans og ræða málið við hann. Ganga einfaldlega úr skugga um að hann sé samningnum hlyntur.
Því miður er það bara svona.
Hlustaði enginn á viðtalið við forsetann í Silfri Egils síðasta sunnudag. Hann gaf þar beinlínis til kynna að honum væri Icesave samningurinn þóknanlegur og það sem meira er, hann hefur þaullesið hann. Að vísu dró hann aðeins í land í lok viðtalsins, svona til að jafna málin og það væri ekki eins greinilegt að hann hefði tekið afstöðu.
Stjórnmálamenn sem leggja allt sitt undir verða að sjá nokkra leiki fram í tímann. Að öðru leyti fer illa, rétt eins og gerðist fyrir ári er forsetinn synjaði Icesave frumvarpinu staðfestingar. Það mun ekki gerast núna. Ríkisstjórnin ætlar ekki að fremja níunda sjálfsmorð sitt, hún hefur eitthvað lært á þessum tveimur lífárum sínum. Hins vegar er hún löngu dauð - veit bara ekki af því
Síðast hugsaði forsetinn málið í sex sólarhringa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hryðjuverk gegn lýðræðinu
16.2.2011 | 14:28
Vefsíðan kjosa.is er lýðræðislegt verkfæri þeirra sem eru á annarri skoðun en meirihluti á Alþingi. Sé rétt að ráðist hafi verið á síðuna er hér um hryðjuverk að ræða. Tilraun til að koma í veg fyrir að almenningur fái að tjá sig. Að öllum líkindum eiga hér hlut að verki lýður sem er hlyntur Icesave samningunum og á móti því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Að sjálfsögðu ber lögreglu að rannsaka málið og upplýsa það sem allra fyrst.
Árásir á vefsíðu tilkynntar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ritum nafn okkar á kjosum.is
15.2.2011 | 15:49
Ég hef ritað nafn mitt á undirskriftarlistann á vefnum kjosum.is. Ég hvet þá sem þetta lesa að hafna Icesave samningnum og rita nafn sitt á listann.
Hratt fjölgar þeim sem vilja hvetja Alþingi til að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans. Nú eru skráðir þátttakendur orðnir rúmlega 21.000. Fari svo að frumvarpið verði að lögum er skorað á forseta landsins að neita að staðfesta það. Þar með er því vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rökin fyrir afstöðu minni eru einfaldlega þau að þjóðin ber ekki ábyrgð á hrakförum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.
Ábyrgðina bera eigendur og stjórnendur bankans og eignir hans eiga að standa undir skaðanum svo langt sem að þær duga.
Afgangurinn er tap Breta og Hollendinga sem einhliða ákváðu að greiða skaðabætur til eigenda sparifjár í Landsbankanum.
Ásmundur hefur verið vanaður ...
15.2.2011 | 13:17
Meirihluti vinstri flokkanna á Alþingi er allur fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum ... nema þegar hætta er á að hann fari í þeim hallloka með mál sín.
Það vantar ekki að menn gapi og þenji sig á tyllidögum um vinsælu frasana; alþýðu, almenning, lýðræðið, opna stjórnsýslu og ábyrgð. Allur meirihlutinn hefur bullað á þann hátt eins og hann hefur getað. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta lið snarsnýr við stefnunni þegar það er komið að kjötkötlunum. Þar er hlýtt og gott að vera.
Þrátt fyrir kjafthátt og fyrirheit þá er Ásmundur Einar Daðason, alþingismaður, nákvæmlega eins. Hann þenur sig þangað til Steingrími er orðið nóg um og byrstir sig. Þá skríður Ási undir borðið og liggur kjurr eins og honum er skipað.
Útilokað er að Ásmundur greiði atkvæði með þjóðaratkvæði. Búið er að vana hann. Hann er bara jákvæður gagnvart því en kýs kjötkatlana ef hann þarf að velja.
Jákvæður í garð þjóðaratkvæðis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
En ef bankarnir greiði fyrir Icesave ...
15.2.2011 | 10:49
Látum bankanna greiða hina meintu skuld sem kennd er við Icesave. Ætli það myndi nú ekki heyrast annað hljóð úr horni Íslandsbanka ef það yrði raunin. Í sannleika sagt er þetta miklu betri lausn en sú að leggja Icesave byrðarnar sem skatt ofan á þrautpíndann almenning sem ekkert hefur til saka unnið.
Er þetta annars ekki kunnuglegt orðalag að samþykktin muni marka tímamót í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir hrun.? Var þetta ekki annars sagt þegar þröngva átti síðasta Icesave samningi upp á þjóðina?
Segir samþykkt Icesave muni marka tímamót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er stytting hringvegarins forgangsmál?
14.2.2011 | 17:43
Já, styttum leiðina til Akureyrar jafnvel þó kostnaðurinn við vegagerðina sé minnst 150 milljónir króna á hvern kílómetra sé eða 311 milljónir á hverja mínútu. Frábær hugmynd enda er vegakerfi landsins nú ekki upp á marga fiska.
Þó svo að þjóðvegur nr. 1 sé víðast með bundnu slitlagi þá eru margir vegir enn eins og tíðkaðist í gamla daga.
Þingmennirnir Sigmundur Ernir Rúnarsson og Tryggvi Þór Herbertsson virðast ekki skilja alvöru málsins, velta greinilega ekki fyrir sér hvernig eigi að koma í veg fyrir gildrurnar á vegunum sem valda dauða og alvarlegum slysum. Af þeim má nefna:
- Malarvegina
- Einbreiðu brýrnar
- Mjóu vegina (vegir eru ótrúlega misbreiðir)
- Ekki skilið á milli akstursstefna
- Ósléttu veginu
- Kröppu beygjurnar
- Öfugan halla í beygjum
Og þetta er bara hluti af því sem kemur upp í huga þess sem ekur víða um landið. Er ekki hægt að sameinast um að leysa úr aðkallandi endurbótum frekar en að reyna að stytta veginn til Akureyrar um sex mínútur? Þá skal ég með glöðu geði samþykkja vegagerðina yfir fúamýrarnar vestan við Svínavatn.
Vilja stytta hringveginn um 14 km | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Þingmenn endurskoði tengsl sín við þjóðina
14.2.2011 | 17:02
Vandi Alþingis Íslendinga virðist einkum vera fólginn í afar slökum tengslum við þjóðina. Sprungan virðist vera orðin að gjá sem fer hægt og hægt breikkandi. Fyrir síðustu kosningar heyrði ég oft þá kenningu að til þess að þjóðin gæti risið undir efnahagshruninu þyrfti að skipta út þingmönnum allra flokka. Mér fannst þetta fjarstæða en hef oft velt þessu fyrir mér eftir því sem á hefur liðið og ríkisstjórninni tekist að gera vont verra.
Umræðan um Icesave samninginn nýja hefur valdið vanlíðan meðal fólks. Sumir skilja ekki hvers vegna sífellt sé verið að ræða þetta Icesave mál en aðrir, og þeir sem betur eru að sér, skilja ekki hvers vegna löggjafarþingið ætlar að samþykkja ríkinu að greiða óreiðuskuldir íslensks fyrirtækis í útlöndum. Fyrir rúmu ári hafnaði þjóðin samningi við Breta og Hollendinga um svokallaða Icesave skuld. Nú er annar samningur kominn á borðið og skuldin og kjörin orðin með öllu viðráðanlegri.
Ég held nú samt að flestir skilji ekki hvers vegna ætlunin er að láta ríkisvaldið ábyrgjast þessa kröfu sem Bretar og Hollendingar eiga víst sannarlega á gamla Landsbankann. Heilaþvottur fjölmiðla er þó slíkur að fjölmargir telja hér vera skuld sem ríkisvaldið á að inna af hendi. Þar af leiðandi telur 40% landsmanna að skuldin hafi orðið til á löglegan hátt eða þeir séu einfaldlega orðnir svo drulluleiðir á umræðunni um þetta óskiljanlega Icesave að þeir vilja frekar hærri skatta en sífelldan glymjandan í eyrunum.
Við hin, sextíu og tvö prósentin, skiljum ekkert í þessari meintu skuld og hún sé ekki á neinn hátt lögleg. Í það minnst er gott að hér sé komin niðurstaða í viðhorfskönnun um þennan svokallaða samning. Það fær eflaust forseta Íslands og formann og þingmenn Sjálfstæðisflokksins eitthvað til að hugsa um. Fyrir þá síðarnefndu kann að vera að þeir endurskoði tengslin við þjóðina.
Meirihluti vill þjóðaratkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ríkisstjórn mistaka eða bara vanhæf ...
11.2.2011 | 23:42
Mistakastjórn. Er það ekki réttara nafn frekar en norræna velferðarstjórnin. Annars veit ég ekki hvort er verra fyrir ríkisstjórn að hafa gert svo ótal mörg mistök eða vera almennt svo vanhæf ríkisstjórn að eiginlega ekkert af því sem máli skiptir gengur upp.
Sorglegt, en þetta eru nú engu að síður þær staðreyndir sem blasa við almenningi. Ríkisstjórnin lætur líðast gríðarlegt atvinnuleysi, landflótta, svíkur loforð um að laga skuldastöðu heimilanna, fer á bak við fyrirtækin í landinu sem vantar rekstrarfé ...
- Forsætisráðherra og dómsmálaráðherra klúðra þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnlagaþing. Hvorugt telur sig bera nokkra ábyrgð og þverneita að segja af sér.
- Forsætisráðherra og fjármálaráðherra fengu Alþingi til að samþykkja drápsklyfjar á þjóðina með Icesave frumvarpinu fyrra. Það var kolfellt í þjóðaratkvæðagreiðslu en hvorugt telur sig ábyrgt og þverneita að segja af sér.
- Fyrrum félagsmálaráðherra reyndi að koma flokksgæðingi að sem forstöðumanni umboðsmanni skuldara og hann var gerður afturreka en sér ekki nokkra sök á eigin klúðri.
- Umhverfisráðherra reynir að koma höggi á Landsvirkjun og Flóahrepp og neitar að staðfesta aðalskipulagið. Dómstólar gera hana afturreka en hún kannast engu að síður ekki við nein mistök og ætlar auðvitað að sitja áfram.
Hversu alvarleg mistök þarf ríkisstjórn að gera til að hún segi af sér? Þarf annað hrun að verða í efnahagslífi þjóðarinnar ... úbs, það hefur þegar orðið, ríkisstjórnin hefur fryst efnahagslíf þjóðarinnar. Ekkert gerist, allt er lokað.
Þetta eru ekki meðmæli með einni ríkisstjórn. Hún á að bera fulla ábyrgð á mistökum sínum og segja af sér. Þjóðin á að fá að ganga til kosninga og kjósa nýtt löggjafarþing. Við þurfum endilega að losna við nokkra þingmenn sem reynst hafa óþarfir og þjóðinni andsnúnir. Fólk sem leggur í vana sinn að gera mistök eða er almennt vanhæf ef dæma má af verkum þeirra á auðvitað að hætta.
Svandís segir ekki af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Byrja þeir nú með þetta leikrit sitt ...
10.2.2011 | 13:40
Enn og aftur upphefst þetta leiðinda leikrit vinnuveitenda og ASÍ. Einn daginn fallast þessir aðilar hreinlega í faðma og hinn daginn rífast þeir eins og gráir kettir. Þetta er bara leikrit. Sett upp til að kasta ryki í augu launþega, fá þá til að halda að verkalýðsrekendur séu nú aldeilis að vinna fyrir kaupinu sínu og sinna gamaldags stéttarbaráttu og launþegakúltúr. Og atvinnurekendurnir standa fastir fyrir og þykjast byggja á samstöðu og alvarleika máls. Ekkert af þessu stenst enda feluleikur fyrir fjölmiðla.
Tímarnir hafa breyst. Í dag ganga ekki svona vinnubrögð. Við lifum á upplýsingaöld, allt er í seilingafjarlægð og samband fólks þarf ekki að vera stirt og erfitt. Svona leikrit var kannski einu sinni skemmtilegt en sá tími er liðinn. Menn þurfa ekki lengur að rjúka á dyr með hurðaskellum, neita að mæta á fundi eða setja verkbönn og verkföll. Nándin milli fólks er miklu meiri en leikararnir vilja vera láta.
Er það virkilega svo að upplýsingar um stöðu atvinnulífsins séu eitthvað leyndarmál svo ekki sé talað um kostnað við framfærslu og annað sem við launþegar byggjum tilveru okkar á? Ó nei, þetta liggur allt ljóst fyrir.
Geta þessir leikendur í farsanum ekki haldið áfram að ræðast við í síma eða augliti til auglitis, skipst á tölvupóstum og gengið einfaldlega frá einföldum samningi um laun og kjör?
Eru kannski samningar launþega og vinnuveitenda einhver geimvísindi sem eru aðeins á færi örfárra manna með milligöngu sérlegs sáttamanns ríkisins?
Nei. Þetta eru einföld mál. Það eina sem vantar er kjarkur til að taka afstöðu.
Verkföll og verkbönn eru gamaldags úrræði sem aldrei á að brúka. Hvað þá að lykilhópar geti tekið heilt þjóðfélag í gíslingu og hótað stórkostlegum efnahagslegum skaða sé ekki látið undan kröfum þeirra. Þetta má ekki gerast og á ekki að gerast. Nauðsynlegt er að sparka rækilega í þjóhnappa slíkra hópa og kenna þeim að vera með í að reka þjóðfélag.
Gleymum svo ekki lygunum. Báðir eru samsekir um að fela raunverulegar stöðu launþega með óskaplega flóknum samningum sem er ekki nema á færi vísindamanna að lesa út úr. Eitt launþegafélag ma ekki vita hvað annað semur um. Svo rífast þeir þess á milli um hvað launþegar hafa í laun, brúttó, nettó, með eða án einhvers og svo framvegis.
Hvernig væri að þetta lið færi nú vinna að því að ná þjóðfélaginu upp úr vandanum eftir bankahrun og ómögulega ríkisstjórn.
Áfangi að vinna sé að hefjast á nýjan leik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |