Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011

Klúður ef kjósa á um tvö mál samtímis

Þó fjármálaráðherra kvarti og kveini yfir kostnaði ríkisvaldsins við ýmis konar kosningar á vegum lýðræðisríkisins Íslands verður engu að síður að fullyrða að sá kostnaður sé ósköp eðlilegur. Í mörgum tilfellum kann að vera einfalt mál að halda tvö- eða þrefaldar kosningar í einu. Þá erum við ef til vill að ræða um tillögu um áfengisútsölu, hundahald eða álíka „smámál“.

Hins vegar er Icesave málið alls ekkert smámál. Raunar er það stærsta málið sem fallið hefur til þjóðarinnar frá lýðveldiskosningunni og sýnist sitt hverjum um málið. Skoðanir eru líka skiptar um stjórnlagaþing og kosningar til þess. Það er ekki heldur neitt smámál sem hægt er að gera að einhvers konar hjámáli við enn stærri kosningu.

Frá upphafi hefur Icesave málið verið til bölvaðra óþæginda fyrir þjóðina. Ríkisstjórnin hefur ekki getað klárað það svo vel sé og þingið hefur nú verið gert afturreka með það í tvígang. Hvers vegna ætti ríkisstjórnin að leyfa þessu mikilvæga máli að klúðrast enn einn ganginn með því að kjósa um annað mál á sama degi? Það væri bara klúður með skýru fordæmi.

Er ástæða til að klúðra Icesave á ný á þann hátt að þjóðin fái ekki að einbeita sér að kosningunni án truflunar frá öðrum málum. Eða finnst ríkisstjórninni þetta mál vera smámál. Til viðbótar er allt óljóst með stjórnlagaþingskosninguna; framboð og kynningu frambjóðenda nema ríkisstjórnin ætli sér að þröngva þeim í annað framboð sem tóku þátt í því fyrra. Þeirri kosningu er lokið og nú þarf að efna til annarrar og leita eftir frambjóðendum, gefa þeim kost á að kynna sig og ekki síst ganga úr skugga um að í þetta sinn verði kosið á milli frambjóðenda en ekki númera.

Hversu mjög sem við viljum spara þá eiga þessu tvö mál alls ekkert skylt og ber að kjósa til þeirra í sitt hvoru lagi. Eða hvað liggur svona óskaplega mikið á með stjórnlagaþingskosninguna? Verði kosið um þessi tvö mál má ætla að ríkisstjórnin sé að reyna að trufla einbeitingu þjóðarinnar og auðvelda sér áróður sinn.


mbl.is Dagsetning liggur ekki fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkir siðir á Íslandi og Líbíu

Fráfarandi leiðtogi Líbíu ku hafa sést í ríkissjónvarpi landsins í 22 sekúndur í gærkvöldi. Hefur mörgum þótt það lengri tími en þörf var á miðað við þær aðstæður sem hann er kominn í.

Í ríkissjónvarpi Íslands sást Steingrímur J. Sigfússon í 20 mínútur í gærkvöldi. Þykir mörgum það einstaklega langur tími miðað við þær aðstæður sem hann er kominn í. Ræddi hann þó allan tímann um Icesave og varðist fimlega enda á þeirri skoðun að almenningur landsins eigi að greiða skaða sem óreiðumenn hafa valdið út útlöndum.

Ríkissjónvarpið hefur ekkert sýndi mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í gærkvöldi og er almenningur landsins bara sáttur við það. 

Ólíkt hafast menn að í Líbíu og Íslandi þegar almenningur herjar á ráðamenn. Þar hrynja varnir en hér sitja menn sem fastast. Þarf byltingu til að koma ríkisstjórninni frá, hún er löngu dauð.


mbl.is Gaddafi flutti 22 sekúndna ávarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er myndin af ...?

Myndbirting með frétt um mann sem myrti eiginkonu sína, gróf hana í garðinum og reyndi svo síðar að brenna líkamsleifar hennar á grilli  getur verið vafasöm. 

Ég er að velta því fyrir mér hvort þessi lystilegi matur á grillinu tengist fréttinni. Hvernig sem tengingunni er háttað held ég að fæstir hafi lyst á grillmat á næstunni. 


mbl.is Grillmorðingi fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur fólk eða veður yfir ánna?

Ætli það sé ekki best að hafa tvennt á hreinu varðandi þessa frétt.

Í fyrsta lagi er ekki gengið yfir vatnsföll nema á  þeim sé brú. Hingað til hafa þau verið vaðin og það er einmitt það sem fólkið er að gera á myndinni sem fylgir fréttinni.

Í öðru lagi er fólkið á myndinni ekki að vaða Markarfljót, líklegast er þetta Þröngá og göngufólkið á leiðinni suður Laugaveginn svokallaða.

Það tíðkast ekki að vaða Markarfljót enda er það stórt og mikið og í þokkabót er getur straumurinn verið meiri en svo að fólk geti staðist hann. Þó eru dæmi um að fólk hafi vaðið Markarfljót. 

Hins vegar er hugmyndin um göngubrú yfir Markarfljót afar áhugaverð og myndi opna skemmtilegar gönguleiðir. Gæti þá verið innan við einn kílómetri að skálunum í Húsadal, um tveir kílómetrar að skála FÍ í Langadal og um fjórir í Bása. Fjarlægðir byggjast auðvitað á staðsetningu brúarinnar.


mbl.is Fyrsti styrkurinn í göngubrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lætur ríkisstjórnin af hræðsluáróðri?

Má skilja þessi orð Árna Páls Árnasonar, efnahagsráðherra, á þá leið að þegar síðasti Icesave samningur var til umræðu í þinginu og fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna, hafi ríkisstjórnin iðkað hræðsluáróður? Ríkisstjórnin hvatti að minnsta kosti til samþykktar á samningnum og benti um leið á að allt færi nú til andskotans ef honum yrði hafnað. Þjóðin hafnaði samningnum og ekkert verra gerðist en að ríkisstjórnin hélt áfram, sem í sjálfu sér var afar slæmt.

Líklega bendir það til hræðsluáróðurs þegar hlutirnir ganga ekki upp eins og spáð var. Það sem er eiginlega verst við þetta er að með svona áróðri er farið á svig við veruleikann og því haldið fram sem getur ekki gerst. 

Ég held að Árni Páll árnason átti sig á þeim einfalda sannleika að ríkisstjórnin getur ekki komið tvisvar í röð og spáð heimsenda. Kominn er tími til að ræða málin á skynsamlegum og raunsæjum nótum. Grundvallaratriðið er að þjóðin stofnaði ekki til Icesave skuldarinnar og því hlýtur þrotabú Landsbankans að standa fyrir kröfunum rétt eins og við önnur gjaldþrot.

Fleira er eiginlega ekki um málið að segja, hverju svo sem Bretar og Hollendingar halda fram. 


mbl.is Ekki stórvægileg áföll heldur kyrrstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Át sá látni poppkorn fyrir eða eftir dauða sinn?

Át sá látni poppkorn eða gerði hann það fyrir dauða sinn?

Þvílík bull er þessi málsgrein bæði að uppsetningu og innihaldi: „Fór það hversu mikill hávaði skapaðist af poppkornsáti hins látna í taugarnar á morðingja hans.

Hvernig er hægt að klambra setningu saman sem byrjar svona: „Fór það hversu ...“. Maður bara skilur þetta ekki, eins og kallinn sagði. 

Er svona mikið að gera á Mogganum að blaðamenn mega ekki vera að því að lesa greinar sínar yfir?


mbl.is Drepinn vegna poppkornsáts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki kjósa um Icesave og stjórnlagaþing á sama tíma

Er það nú ekki dæmigert um glámskyggni forsætisráðherrans þegar hún veltir því upp hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave lögin og stjórnlagaþingi geti ekki farið fram samtímis?

Hver eru tengslin milli þessara tveggja mála? Engin og því á ekki að blanda þeim saman. Enn vitum við ekki hvernig á að kjósa til stjórnlagaþings. Á til dæmis að kjósa aftur á milli þeirra sem buðu sig fram síðast, þ.e. endurtaka kosninguna? Eða á að gefa öðru kost á að bjóða sig fram?

Þá er ég ansi hræddur um að  einn til einn og hálfur mánuður og skammur tími fyrir frambjóðendur að kynna sig. 

Ég vona bara að þeir sem sitja nú á þingi komi í veg fyrir tvöfaldar kosningar á einum kjördegi. Icesave er tvímælalaust nógu mikilvægt til að kjósa um það eitt. Forsætisráðherra vill hins vegar kasta ryki í augu kjósenda og rugla fólk í ríminu með tvöfaldri kosningu.

Og meðal annarra orða; fellum Icesave lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þjóðin stofnaði ekki til þessarar skuldar og ber enga ábyrgð á henni.


mbl.is Atkvæðagreiðslan verði sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með náttúruvernd en móti lögleysu umhverfisráðherra

Ég er ákveðið þeirrar skoðunar að þjóðin þurfi að fara sér hægt þegar ákvarðanir eru teknar um virkjanir, sérstaklega þegar þær hafa miklar breytingar á landslagi. Að þessu leiti er ég íhaldsmaður. Um þetta viðhorf mitt hef ég talsvert skrifað. Ég hef haldið því fram að það sé varla forsvaranlegt að eitt hundrað árum eftir að Einar skáld Benediktsson hvatti til vatnsvirkjanna skuli tækniþróunin varla vera komin lengra áleiðis að enn er land kaffært í vatni til að gera miðlunarlón fyrir virkjun. Skoðum Hágöngumiðlanir við Sprengisand og Kárahnúka. Eru það ekki vítin til að varast?

Og nú á að gjörbreyta ásýnd lands meðfram Þjórsá og tillögur eru uppi um að kaffæra bújarðir að hluta ofan við Árnes og upp að Þjórsárdal. Samskonar tillögur eru til um virkjun við Blönduós. Það er nöturlegt að líta til þess að barnabörnin manns skuli ekki geta litið landið sömu augum og afinn gerði alla sína æfi og þar á undan forfeður hans. 

Ekkert virðist ganga að þróa gufuaflsvirkjanir og þar sem þær eru reistar er land gjörsamlega rústað og undirlagt fyrir rör og leiðslur. Eitt hrikalegasta dæmið um þetta er Hellisheiðarvirkjun Orkuveitunnar en við gerð hennar er sem öll hugsanleg umhverfismistök hafi verið skipulögð. Þarna hefur landi verið gjörbreytt og verður aldrei hið sama.

Sem betur fer virðist nú Langasjó og umhverfi hans verið bjargað með friðlýsingu umhverfisráðherra og sveitarstjórnar Skaftárhrepps. 

Þó ég sé þessarar skoðunar get ég seint samþykkt gerðir umhverfisráðherra sem um daginn var dæmd fyrir að synja Flóahreppi staðfestingar á aðalskipulagi. Hún hélt því fram að Landsvirkjun hefði mútað hreppnum til að skipuleggja virkjanir sem þóknanlegar væru fyrirtækinu.

Umhverfisráðherra heldur því fram að hún hafi ekki brotið lög heldur hafi hún ákveðið að láta náttúruna njóta vafans á umdeildu aðalskipulagi. Þó svo að ég myndi glaður vilja taka undir með ráðherranum er það ekki þannig sem stjórnvöld eiga að vinna. Ráðherra hefur haldið framhjá lögum landsins og borið fyrir sig eitthvað sem ekki er löglegt. Slíkt framhjáhald lofar ekki góðu væri það viðurkennd stjórnsýslurök heldur fordæmi fyrir misnotkun á valdi. Er ekki nóg komið af slíku?

Þorsteinn Pálsson ræðir þetta mál í grein í Fréttablaðinu um þessa helgi. Niðurstaða hans er skynsamleg enda fjallar hann fyrst og fremst um lagalega hlið málsins en ekki þá sem varðar náttúruvernd  og hann gagnrýnir Alþingi harðlega og ekki síður ríkisstjórnina:

Fjármálaráðherra og fleiri samstarfsmenn umhverfisráðherrans á Alþingi hafa brugðið fyrir hann skildi með því að láta að því liggja að sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi hafi haft stjórnvaldsákvarðanir um skipulagsmál til sölu. Þetta er kynleg málsvörn í ljósi þess að niðurstaða dómstóla var einmitt sú að ekkert slíkt hefði átt sér stað og fyrir þá sök hefði synjun umhverfisráðherra á staðfestingu skipulagsákvörðunar sveitarfélagsins verið ólögmæt.

Oft eru slík vafamál uppi við stjórnsýsluákvarðanir að eðlilegt er að dómstólar skeri úr réttarágreiningi eða óvissu. Þó að lagarök ráðherra verði undir í niðurstöðu dómstóla leiðir það sjaldnast til þess að spurningar vakni um pólitíska ábyrgð og því síður um refsiábyrgð eftir ráðherraábyrgðarlögum. En er eðlilegt að slíkar spurningar vakni í þessu máli?

Til þess að svara því þarf að liggja fyrir með hvaða hætti ákvörðun ráðherra var undirbúin. Tefldu lögfræðingar ráðuneytisins fram greinargerðum með sannfærandi rökstuðningi fyrir ólögmæti skipulagsákvörðunarinnar eða að verulegur vafi léki þar á? Enginn hefur kallað eftir rannsókn á því. Það er óskiljanlegt. Eftirlitshlutverk Alþingis á að ná til slíks undirbúnings og líka til hæfni embættismanna til að gefa sjálfstæða og áreiðanlega lögfræðiráðgjöf.


Enginn sómi að því að grafa undan Hæstarétti

Síðan Hæstiréttur Íslands tók til starfa fyrir rúmum 90 árum og allt til ársins 2009, hafa aðeins ráðherrar úr Sjálfstæðisflokki , eða Framsóknarflokki skipað dómara þar.

Þetta er með hreinum ólíkindum og manni verður jafnvel hugsað til Sovétríkjanna sálugu þar sem það var skylt, að dómarar væru í Kommúnstaflokknum. 

Þetta skrifar Ómar Ragnarsson sem þarf greinilega að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn. Auðvitað er algengt að pólitiskir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins reyni með dylgjum að koma því inn hjá almenningi að dómsmálaráðherrar Sjáflstæðisflokksins hafi misnotað embætti sitt til að koma Sjálfstæðismönnum inn í Hæstarétt.

Sögurnar halda þó aldrei vatni, jafnvel þó „svívirðingunni“ sé líkt við kommúnistaflokk Sovétríkjanna eins og Ómar gerir. En til að eyðileggja nú allt þarf ekki annað en að hafa röksemdafærsluna í lagi:

  • Hvers vegna ætti einhver flokkur að hafa það sem keppikefli að setja flokksmenn sína sem dómara?
  • Hvaða skipanir í Hæstarétt hafa orkað tvímælis og ef svo er hafa þeir dómarar hafi á einhvern hátt misnotað aðstöðu sína?
  • Einnig þarf að skoða hvort dómar Hæstaréttar beri þess merki að einhver önnur sjónarmið hafi ráðið úrslitum en þau lagalegu.
  • Loks þurfa þeir sem halda því fram að dómsmálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi misbeitt valdi sínu við skipun dómara í Hæstarétt að benda á þá dómara sem líklegir hafi verið til að ganga annarra erinda en kveðið er á um í lögum um dóminn og í stjórnarskrá.

Þó svo að ég virði Ómar Ragnarsson mikils og meti hann fyrir þau margvísleg störf sem hann hefur unnið um ævina finnst mér þessi ofangreindu ummæli á bloggsíðu hans vera langt fyrir neðan virðingu hans.

Ég hélt og held raunar enn að Ómar sem yfir það hafinn að vera með hálfkveðnar vísur. Hann er nógu góður hagyrðingur til að geta ort þær fullkveðnar en sóma síns vegna hlýtur hann að vita hvar ber að nema staðar.

Hafi Ómar einhver dæmi um að Hæstiréttur hafi dæmt á anna veg en eftir lögum og stjórnarskrá þá er það ekki í hag Sjálfstæðisflokksins eða nokkurs annars stjórnmálaflokks eða þjóðarinnar í heild. Eða byggjum við ekki land á lögum?

Mér telst svo til að um 44 dómarar hafi starfað við Hæstarétt og eru þá núverandi dómarar meðtaldir. Eflaust má með sanni halda því fram að einhverjir hafi verið eða eru hlynntir Sjálfstæðisflokknum, um það veit ég minnst.

Enginn getur þó með neinum rökum bent á að þessir dómarar hafi misbeitt valdi sínu. Allir hafa á einhvern hátt mótast af umhverfnu og dómarar eru ekkert öðru vísi en annað fólk að því leyti. Svo fremi sem lög leyfa hlýtur viðhorf dómara á einhvern hátt að móta starfshætti þeirra en að tengja það flokkspólitík er ansi langt til seilst.

Og haldi Ómar því fram eða einhver annar að flokkspólitík hafi ráðið niðurstöðum dómara þá er hér listi yfir þá. En fyrir alla muni færið rök fyrir ásökunum á hendur dómurunum sem hér eru taldir upp í stafrófsröð.

  1. Arnljótur Björnsson
  2. Ármann Snævarr
  3. Árni Kolbeinsson, núverandi
  4. Árni Tryggvason
  5. Benedikt Blöndal
  6. Benedikt Sigurjónsson
  7. Bjarni K. Bjarnason
  8. Björn Sveinbjörnsson
  9. Eggert Briem
  10. Einar Arnalds
  11. Einar Arnórsson
  12. Garðar Gíslason, núverandi
  13. Gizur Bergsteinsson
  14. Guðmundur Jónsson
  15. Guðmundur Skaftason
  16. Guðrún Erlendsdóttir
  17. Gunnar M. Guðmundsson
  18. Gunnar Thoroddsen
  19. Gunnlaugur Claessen, núverandi
  20. Halldór Daníelsson
  21. Halldór Þorbjörnsson
  22. Haraldur Henrysson
  23. Hjördís Hákonardóttir
  24. Hjörtur Torfason
  25. Hrafn Bragason
  26. Ingibjörg Benediktsdóttir, núverandi
  27. Jón Ásbjörnsson
  28. Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi
  29. Jónatan Hallvarðsson
  30. Kristján Jónsson
  31. Lárus H. Bjarnason
  32. Lárus Jóhannesson
  33. Logi Einarsson
  34. Magnús Thoroddsen
  35. Magnús Þ. Torfason
  36. Markús Sigurbjörnsson, núverandi
  37. Ólafur Börkur Þorvaldsson, núverandi
  38. Páll Einarsson
  39. Páll Hreinsson, núverandi
  40. Pétur Kristján Hafstein
  41. Sigurgeir Jónsson
  42. Viðar Már Matthíasson, núverandi
  43. Þór Vilhjálmsson
  44. Þórður Eyjólfsson

Ég gerði athugasemdir við blogg Ómars og hann svaraði mér kurteislega eins og hans er von og vísa. Hann gat þó ekki rökstutt hvers vegna það væri óeðlilegt að Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi nær einir haft með höndum dómsmálaráðuneytið í 90 ár. Til að geta tekið undir með Ómari þarf að vera hægt að benda á óeðlilegar skipanir hæstaréttardómara og hvaða afleiðingar þær hafi haft í för með sér.

Mér segir svo hugur um að Ómar geti ekki komið með annað en að benda á að Jón Steinar Gunnlaugsson sé eða hafi verið í Sjálfstæðisflokknum. Þó ég sé „eldri en tvævetur“ eins og Ómar bendir á, þá get ég ómögulega gert alvarlegar athugasemdir með skipan þessara dómara.

Dómsvaldið er gríðarlega mikilvægur hluti þrískiptingu ríkisvaldsins. Nóg er að framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið klúðri málum, á eitthvað verðum við að geta treyst og það er ekki til góðs að reyna að klekkja á Sjálfstæðisflokknum með því að grafa undan dómsvaldinu. Það endar bara illa.


Gott hjá Einari Má

Þetta er vel orðað og skilmerkilega hjá Einari Má Guðmundssyni og vel til fundið að vitna á þennan hátt í forsetann.

Þetta er það sem þjóðin bíður eftir, að fá að taka ákvörðunina sjálf. Forsætisráðherra telur ranglega að ekki megi bera mál sem tengjast fjárskuldbindingum undir dóm þjóðarinnar. Og ranglega heldur hún því fram að þetta tíðkist ekki í nágrannalöndunum.

Forseti Íslands hlýtur að taka mark á góðu og velviljuðu fólki. Hann verður að synja Icesave samningnum staðfestingar. 


mbl.is Skorar á forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband