Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gleðileg jól til þín, nytjastuldur og lagt á dóttur

1.

„Hop jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.     

Athugasemd: Má vera að lesandinn hafi aðrar tilfinningu fyrir þessari fyrirsögn en sá sem hér ritar. Vissulega hopa jöklar en það sem meira er, og það er fréttnæmara, þeir rýrna. Hins vegar er fyrirsögnin góð og gild. Fréttin fjallar um það sem gerist á landi eftir að jökullinn hefur horfið (hopað, styst, minnkað, bráðnað, þynnst, rýrnað …).

TillagaRýrnun jökla ógn­ar líf­ríki jök­uláa um all­an heim.

 

2.

„Það þýðir að repúblikanar og demókratar hlutu jafnmörg atkvæði. Ríkislög Virginíu kveða á um að kasta skuli upp um sigurvegara ef jafnt er. Formaður kjörstjórnar segir líklegast að nafn sigurvegarans verði dregið úr glerskál.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Hér er margt að. Undarlegt að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Sá sem kastar upp er að gubba. Óskiljanleg barnamál er að orða það þannig að „kasta skuli upp um sigurvegara“. Ótvíræðara orðalag er að varpa hlutkesti.

Dráttur á nafni úr skál er ekki það sama og að varpa hlutkesti. Þetta er illa skrifuð frétt og nær óskiljanleg. Er enginn blaðamaður með metnað á visir.is?

Tillaga: Ríkislög Virginíu kveða á um að varpa skuli hlutkesti reynist tveir frambjóðendur með flest atkvæði.

 

3.

„Nokkrum dögum síðar fékk hann hringingu frá Happdrætti Háskólans og var boðið að taka þátt. Hann var þá nýbúinn að leggja á dóttur sína í Danmörku.“ 

Frétt á dv.is.     

Athugasemd: Ekki kemur fram í fréttinni hvað maðurinn var búinn að leggja á dóttur sína. Má vera að hann hafi verið að tala við dóttur sína í síma og kann hún að búa í Danmörku. Með hefðbundnum borðsímum er hægt að „leggja á“, þá slitnar símtalið.

Með farsímum er hins vegar ekki hægt „að leggja á“. Þess vegna hefði blaðamaðurinn átt að orða þetta á annan og einfaldari hátt.

Tillaga: Hann var þá nýbúinn að tala við dóttur sína í síma en hún býr í Danmörku.

 

4.

„Með því vill fólkið sýna ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás samstöðu.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Oft eru langar málsgreinar erfiðar sérstaklega þegar notuð eru orðtök. Stundum slitna þau og verða dálítið kjánaleg. Algengt er „að sýna samstöðu“ með einhverju eða eins og í tilvitnuninni hér að ofan. 

Þetta er ekki löng málsgrein en hefði mátt endurskrifa. Alltaf þarf að hugsa til lesenda. Sá sem skrifar skilur hugsanlega það sem hann fjallar um en þar með er ekki sagt að aðrir geri það. 

Sá sem þetta ritar velti því eitt augnablik fyrir sér hver þessi samstaða væri sem gerði stórskotaliðsárás. 

Eftirfarandi regla er frá Jónasi Kristjánssyni, fyrrum ritstjóra sem ráðleggur blaðamönnum að skrifa einfalt mál: „Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann. […] Settu punkt sem oftast, styttu setningar og málsgreinar.“ Sjá jonas.is

Tillaga: Með því vill fólkið sýna samstöðu með ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás.

 

5.

„Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og óttast var að væri sprengja reyndist vera hrossatað sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Tað er þurrkaður skítur húsdýra. Fréttin er þýdd úr erlendum fréttamiðli og þar er enska orði „manure“ sem blaðamaður þýðir og kallar hrossatað.

Sá sem þetta ritar heldur að blessaður fjármálaráðherrann hafi beinlínis fengið blautan skít í pakkanum, sem hefur ábyggilega miklu betra til áhersluauka en sá þurri.

Tillaga: Sending sem stíluð var á Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og var óttast að væri sprengja, reyndist vera hrossaskítur sem ósáttur kjósandi sendi innpakkað.

 

6.

„Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna nytjastuldar á bifreið, ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.“ 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Nytjastuldur er líklega þjófnaður á einhverju til eigin nota, jafnvel til að selja. Þjófnaður er bara þjófnaður, þjófur er þjófur, steliþjófur er líka þjófur. Yfirleitt er það sem stolið er notað.

Hér er ekki eingöngu við blaðamann að sakast fyrir utan að hann tekur texta frá lögreglunni og birtir athugasemdalaust sem þykir nú ekki góð blaðamennska.

Skyldi sá sem ritaði textann vita hver er munurinn á „nytjastuld á bifreið“ og þjófnaði á bifreið? Eða muninn á ráni og þjófnaði? Held að á þessu sé stigsmunur. Þýfi nefnist það sem er stolið og sem líklega er dregið af nafnorðinu þjófur. Þjófnaður er hugsanlega eitthvað minna en rán. 

Sá sem þetta ritar veit ekki hvort nytjastuldur sé rán eða þjófnaður. Margvíslegu er stolið, til er bílstuldur, bókastuldur, bréfastuldur, eggjastuldur, fjárstuldur, gagnastuldur, heimildastuldur, hugverkastuldur, peningastuldur, smástuldur, vopnastuldur og ábygglilega fleiri samsetningar við orðið stuldur. Sá sem stelur getur svo verið stuldamaður.

Þar að auki er til munaþjófnaður. Er það nytjastjuldur?

Held að það sé hollt að velta þessu fyrir sér í stað þess að láta sem svo að þessi orð séu samheiti. Það er dálítið heimskt.

Tillaga: Þeir sem gistu fangageymslur voru þar meðal annars vegna ráns, líkamsárásar og þjófnaðar.

 

7.

„Gleðileg jól til þín, Gunna mín.“ 

Algeng kveðja á Facebook.    

Athugasemd: Víðar en á Facebook má sjá svona kveðjur. Þetta er ekki beinlínis rangt en heldur víðs fjarri íslenskum venjum. Yfirleitt er sagt: „Góðan daginn, Gunna mín“. Enginn segir góðan daginn til þín, Gunna mín. Það er frekar tilgerðarlegt og stirt.

Almenn er sagt gleðileg jól, gleðilegt ár, gleðilegt sumar og álíka án þess að bæta við forsetningunni „til“. Formlega dugar að segja: Ég óska þér gleðilegra jóla, Gunna mín.

Sá sem vill halda troða ensku máli inn í það íslenska gæti þess vegna sagt: Gleðilega Kristsmessu til þín, Gunna mín.

Tillaga: Gleðileg jól, Gunna mín.

 

8.

„Mannskæð snjóflóð voru í svissnesku Ölpunum yfir jólin þar sem þrír létust, einn skíðamaður og tveir fjallgöngumenn.“ 

Frétt á visir.is.     

Athugasemd: Í tilvitnuninn er tvítekið að fólk hafi farist í snjóflóðum. Blaðamaðurinn hefur varla tilfinningu fyrir því sem hann skrifar. Fréttin er flausturslega skrifuð og kemst ekki í hálfkvisti það sem segir á reuters.com.

Á Vísi segir þetta: „Að sögn lögreglu hreif snjóflóðið manninn með sér meira en kílómetra leið yfir grýtt svæði.“ 

Sögnin að hrífa merkir að taka, hrifsa eða álíka. Hún dugar ekki ein og sér, annað sagnorð vantar, það er sögnina að bera. Maðurinn barst með snjóflóðinu. Snjóflóðið féll á manninn og bar hann meira en einn kílómetra. 

Loks er greint frá því að „viðbragðsaðilar“ hafi fundið skíðamann. Þetta orð er frekar vinsælt. Við vitum að lögreglan bregst við mörgu, sama er með slökkvilið, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitir, Landhelgisgæsluna, húsverði, gangbrautarverði, meindýraeyði og jafnvel þá sem ryðja snjó af þjóðvegum. 

Hverjir eru „viðbragðsaðilar“? Eru það þeir sem bregðast við einhverju, þeir sem bregður við, þeir sem bregðast … Getur verið að gangbrautarvörður hafi komið að skíðamanninum? Eða meindýraeyðir?

Staðreyndin er einfaldlega sú að „viðbragðsaðili“ er rassbaga frá blaðamönnum eða illa skrifandi höfundum fréttatilkynninga hjá lögreglu eða öðrum „viðbragðsaðilum“. Orðið er algjör óþarfi, ekki lýsandi á neinn hátt, miklu frekar letiorð þeirr sem nenna ekki að skrifa hver „viðbragðsaðilinn“ er

Tillaga: Skíðamaður og fjallgöngumenn fórust um jólin í snjóflóðum í svissnesku Ölpunum.

 

9.

„Tvö fjallaslys og tvær leitir á jóladag.“ 

Undirfyrirsögn á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu 27. desember 2017.     

Athugasemd: Fyrir kemur að bílar rekast á, þá er það bílslys. Allir vita hvað flugslys er. Umferðaslys ekki aðeins við bílslys heldur líka reiðhjólaslys, slys á á göngustígum og svo framvegis. 

Hvað skyldi „fjallaslys“ vera? Sumum þykir Akrafjall svo skrambi ljótt að það sé hreinlega slys hvernig til tókst hjá skaparanum. Einhver miður orðheppinn taldi annað fjall frekar í ætt við „mykjuhrúgu“ svo vægt sé til orða tekið. Í jarðsögunni getur eitt fjall rekist á annað en það gerist bara á löngum tíma.

Líklega á „fjallaslys“ við slys fólks í mörgum fjöllum. Þetta er svo sem ágætt nýyrði en ef göngumaður slasast í Vífilsfelli er það vænanlega „fjallslys“, það er í eintölu. Sé sagt frá því slysi og öðru í Akrafjalli  kallast þau „fjallaslys“, það er í fleirtölu.

„Fjallaslys“ er ekki nýtt orð og þrátt fyrir það sem hér segir er það þokkalega nothæft. Á mbl.is segir fyrir þremur árum: „Eitt versta fjalla­slys sög­unn­ar átti sér stað 17. júlí 1990 á Lenín­t­ind­in­um í Pamír­fjöll­um í Kirgíst­an, skammt frá kín­versku landa­mær­un­um.“ Á dv.is má finna álíka notkun á orðinu.

Þó fannst þeim sem þetta ritar meira lýsandi að nota þá tillöguna hér fyrir neðan.

Tillaga: Tveir slösuðust á fjöllum og tvisvar leitað að fólki.

 

10.

„Áramótamengunin skaðlegri en í eldgosi.“ 

Tilvísun í frétt á forsíðu á visir.is.       

Athugasemd: Þessi tilvísun er hreinlega röng en skrifast varla á blaðamannin því fréttin sjálf hefur þessa fyrirsögn: “Mengunin skaðlegri en í eldgosi“. Þetta veldur engum misskilningi.

Sé eldgos í gangi um áramót veldur það varla meiri mengun um áramót en á öðrum tímum árs. Hins vegar er mikið um skotelda um áramót og þeir menga.

Tillaga: Mengun um áramót er skaðlegri en í eldgosi.


Veitum hinum raunverulegu burðarásum orðu

Engin ástæða er til að lasta þá sem forseti Íslands sæmdi á nýársdag heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Allt ábyggilega gott fólk og flestir heimsfrægir á Íslandi. Orðuveitingar hafa þó lengi einkennst af því að heiðra þá sem hafa unnið vinnuna sína um langa tíð, helst að lokinni starfsæfi. Alls kyns embættismenn hafa hlotið hana fyrir störf sem án efa hafa verið framúrskarandi, forystumenn í atvinnulífinu og listamenn af ýmsu tagi.

Minna hefur farið fyrir því ágæta láglaunafólki sem hefur sinnt störfum sínum af engu minni kostgæfni að starfsemin á vinnustað þeirra hefði farið á hliðina hefðu það ekki mætt í skamman eða lengri tíma.

Mér er það minnisstætt á árinu sem leið að starfsmaður sýslumannsembættis varð bráðkvaddur, samstarfsmönnum og vinum til mikillar sorgar ekki síður en fjölskyldu. Starf þessa ágæta manns varð ekki fyllt fyrr en löngu síðar jafnvel þó allir samstarfsmenn legðust á eitt. 

Á vinnuferðum mínum um landið allt síðasta ár hef ég kynnst fjölda fólks sem eru burðarásar á vinnustöðum sínum, skynsamt, yfirvegað, harðduglegt og heiðarlegt fólk. Ég á hér ekki við stjórendur eða yfirmenn heldur fólkið „á gólfinu“ eins og það er oft nefnt. Hversu mikilvægt er það ekki fyrir þjóðfélagið að sem flestir búi yfir þessum kostum? Nóg er af úrtölufólkinu, slugsurum og þykjustuliðinu.

Ég gæti nafngreint fjölda fólks hjá sýslumannsembættum landsins sem eiga skilið að fá orðu fyrir störf sín. Auðvelt er að nefna jafnmarga sem hafa sinnt félagsmálum og verið þar burðarásar. Í ónefndu ferðafélagi þekkti ég fólk sem naut félagsskaparins en lagði á sig ómælda vinnu til að félagið næði að blómstra og viðskiptavinir þess gætu notið þess að ferðast um landið.

Lesendur mínir geta ábyggilega bætt hér um betur og nefnt alþýðumanninn, konu og karl, sem ættu skilið orðu fyrir störf sín. Fólkið sem sinnir störfum sínum á þann hátt að mætti það einn góðan veðurdag ekki í vinnuna eða félagslífið myndi þjóðfélagið hreinlega stöðvast. Ég er næstu því vissuum að jörðin myndi hætta að snúast.

Einhver lesenda minna sem er málkunnugur forsetanum ætti að skjóta þessu  að honum. Má vera að við næstu orðuveitingu fengju burðarásarnir umbun þjóðfélagsins fyrir störf sín. Þá yrði kátt á landinu.


mbl.is Tólf fengu fálkaorðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öll mengun er slæm nema sú á gamlaárskvöldi

Þversagnirnar í lífi meðalmannsins eru miklar en aldrei missir hann svefn yfir þeim. Ástæðan er einfaldlega sú að samfélagslegar skoðanir snerta hann sjaldnast en geri þær það tekur hann afstöðu oft þvert á almenna skynsemi.

Almennt erum við á móti mengun:

Þannig er með plastpoka. Þrýstingur samfélagsins veldur því að æ fleiri hætta að nota plastpoka í verslunarferðum og velja frekar eitthvað úr taui eða öðru til burðarins. Fréttir af plastmengun í náttúru heimsins eru hrikalegar.

Þannig er það með skolpið. Fæstir leggja leið sína niður í fjöru en þeir sem það gera finnst alveg ómögulegt ef strendurnar eru ekki hreinar. Þess vegna er það krafa samfélagsins að skolpið sé hreinsað áður en því er sleppt í hafið.

Þannig er það með nagladekkin. Hversu margir daga á ári þarf að aka á nagladekkjum? Þeir eru fáir ef aungvir. Þar af leiðandi aka fjölmargir á nagladekkjum á snjóauðum götum meginhluta vetrarins. Nagladekk valda svifryksmengun og eru því hættuleg heilsu manna. Margir vilja banna þau.

Þannig er það með opna elda. Samfélagið vill ekki sinubrennur nema á ákveðnum tíma ársins. Ekki má brenna rusli. Eldar geta verið hættulegir og askan er hættuleg heilsu manna.

Þannig er það með göturyk. Samfélagið vill að götur borga og bæja séu sópaðar til að minnka svifryk. Borgin þráast samt við vegna blankheita og treystir á rokið.

Þannig er það með skotelda um áramót. Þeir valda gríðarlegri mengun, miklum sóðaskap og hættu fyrir notendur og nærstadda. En nú bregður svo við að mikill meirihluti fólks snýr snúðugt upp á sig og heldur því fram að skoteldar séu hluti af persónulegum rétti einstaklingsins. Líklega svona svipað og margir Bandaríkjamenn telja það rétt sinn að eiga og ganga með byssur sér til varnar eða skemmtunar.

Sérfræðingar halda því fram að mengun vegna skotelda sé gríðarlega mikil, stórhættuleg heilsu fólks og þar að auki skapa þeir hættu á beinu líkams- og eignatjóni.

En nei ... Við snúum upp á okkur og segjum að þetta skoteldanotkunin sé álíka mikill réttur okkar og þau frelsisákvæði sem er að finna í stjórnaraskránni.

Sko, við erum á móti allri plastmengun, strandmengun, svifryksmengun og opnum eldum og álíka. En skoteldarnir eru friðhelgir með allri sinni mengun og hættu. Er þetta ekki þversögn.

Jú, en við erum að reyna að styrkja björgunarsveitirnar ...

Já, auðvitað. Það réttlætir allt. Ekki satt?


Örnefni á frábærri Moggamynd Raxa

Hásúla kkMorgunblaðið birtir í síðasta tölublaði ársins alveg glannalega fallega skammdegismynd sem Ragnar Axelsson tók.

Gallinn er sá að Mogginn er lítið fyrir örnefni og segir ekkert frá því hvar myndin er tekin. Hún er af Háusúlu (916 m) sem er ein af tindunum í Botnsúlum. Til hliðar er opnan eins og hún er birt í blaðinu.

Eftir að ég náði mér af hrifningunni tók ég mér það bessaleyfi að setja nokkur örnefni inn á myndina. Þar sem myndin er tekin með nokkrum aðdrætti er dálítið erfitt að staðsetja einstök fjöll, dali og staði.

Bið lesendur mína forláts hafi ég ruglað eitthvað í örnefnaleiðangri mínum enda ber að hafa það sem réttara reynist.

Hér er örnefnamyndin og ef „klikkað“ er á hana þrefaldast hún í stærð.

Háasúla 1

 


Þúsund jólakveðjur út í tómið ...

kallariÍ gærmorgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann og hrópaði síðan af öllum kröftum:

Sendi ættingjum og vinum bestu óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.

Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:

Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.

Haltu kjafti, helv... þitt. Fók er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.

Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.

Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.

Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.

Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Þetta hef ég hins vegar gert á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum.

Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna þann hálfra aldar gamla sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins.

Nei, nei, nei ... Því er nú víðsfjarri, en úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín eða þeirra sem ég þekki.

Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt kann þó að vera jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir þrjú þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Ýmsum kann að finnast það álíka sorglegt.

Hitt er nú dagsatt að Ríkisútvarpið græðir í kringum tíu milljónir króna á tiltækinu. Í anda samkeppnis og þjóðþrifnaðar hyggst ég nú um áramótin bjóða landsmönnum að hrópa nýárskveðjur af svölunum heima. Takist vel til mun ég hrópa jólakveðjur af svölunum á næsta ári. Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,5% lægra.

Fyrst verið er að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna, í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu fyrir hefðum fólks, þá staðreynd að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í tómið.

Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:

En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.

Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obboðslega jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölum á Þorláksmessumorgni.

(Vilji svo til að einhver glöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal tekið fram að höfundur fer jafnan út á svalir þennan dag)

(Myndin er ekki af höfundi heldur alls óskyldum kallandi pilti)


Skjálftar í Kýrdal norðan Hengils

Skjálftahrina varð ekki í Hengli þó um sé að ræða „Hengilssvæðið“ eins og jarðfræðingar nefna það. Af um 29 skjálftum urðu flestir skammt norðan við Hengil, í Kýrdal, sem er í Dyrafjöllum. Um þá liggur Nesjavallavegur. Raunar er það svo að skemmra er frá Nesjavallavirkjun í upptök flestra skjálftanna en frá þeim og í Skeggja, sem er hæsti hluti Hengils. 

Skjálftarnir eru hins  vegar á þekktu norður-suður misgengissvæði og gerðust afar snöggt. Rétt rúmar tuttugu og tvær mínútur liðu frá því að sá fyrsti varð þar til sá síðasti reið yfir. Þetta þykir nokkuð hröð atburðaráðs. Síðan ekki söguna meir. Allir voru skjálftarnir á svipuðu dýpi, um 4 km.

Aðeins hálfur mánuður er síðan mikil skjálftahrina var í Skjaldbreið, sem er um 25 km fyrir norðan Þingvallavatn en Hengill er um 10 km fyrir sunnan það. Þar vakti athygli leikmannsins hversu staðbundnir skjálftarnir voru. Þó skjálftarnir í Kýrdal séu mun færri vekur það líka athygli hversu lítið þeir dreifast. Skýringin getur verið sú að hreyfing á einu misgengi veldur því að annað sem er nálægt hreyfist líka. Þessa verðu frekar vart þar sem misgengin eru mörg.

Hvort tengsl séu á milli skjálftanna í Skjaldbreið og í Kýrdal er erfitt að segja fyrir leikmanninn en jarðfræðingar vita þetta glöggt. Sá draumspaki sem höfundur ráðfærir sig oft við vissi ekkert um þetta þegar það var fært í tal við hann.

„Mis... hvað? Hver í ósköpunum heldurðu að dreymi um svoleiðis?“


mbl.is Skjálftahrina í Henglinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geldknappur texti til uppeldis

Sá vandi sem steðjar að íslensku máli er ekki erlend tungumál heldur fólk sem kann hvorki skil á móðurmáli sínu né öðrum málum, er svona slarkfært í hvort tveggja. Þetta ástand stýrir aungri lukku og með nokkrum rökum má halda því fram að framtíðin sé ekki björt.

Í Morgunblaðið dagsins er vel skrifað viðtal við Ólaf Hauk Símonarson, leikskáld og rithöfund sem ræðir um tungumál okkar af skynsemi. Flestir munu ábyggilega geta tekið undir þessi orð hans:

Breytingar í tungumálinu blasa við hvert sem litið er. Jafnt í sjónvarpi, útvarpi og prentmiðlum er skrifað og talað mál sem hefði, að mati Ólafs, ekki þolast fyrir aldarfjórðungi. Unga fólkið virðist eiga fullt í fangi með að tjá sig á móðurmálinu, og raunar líka á öðrum tungumálum.

„Það virðist ekki lengur vera ámælisvert að tala rangt mál í útvarpi og jafnvel fastráðið starfsfólk notar kolvitlaust mál fyrir framan alla þjóðina. Fyrir nokkrum áratugum hefði þessu sama fólki verið sagt upp störfum á stundinni, en núna virðist aðalatriðið að tala hratt og vera ofurhress.“

Í lok viðtalsins brýnir Ólafur þjóðina:

Tungumálið og bókmenntir okkar er líklega það eina sem er á heimsmælikvarða, ef svo má segja. Ef við glötuðum tungunni og þar með aðgangi að fortíð okkar í bókmenntum og sögu yrðum við mikið fátækari,“ segir hann.

„Hugsun manna er bundin tungumálinu – þjóð sem lendir á milli tungumála á erfiðara með að hugsa. Ef við ætlum ekki að nota íslensku til frambúðar þá þurfum við að velja okkur annað tungumál, og það strax. Við verðum að gera þetta upp við okkur – ætlum við að tala og skrifa íslensku í framtíðinni? Þá þarf að setja allt á fullt, taka íslenskuna af alefli inn í stafræna geirann, tölvurnar, símana, leikina, fræðslu- og kennsluefni og stórefla þýðingar á grundvallarritum í öllum fræðigreinum. Ef það er ekki gert er leikurinn tapaður.“

Ef það er ekki gert er leikurinn tapaður.“

Margt bendir til þess að leikurinn sé tapaður. Svo virðist sem að við höfum ekki alið nýjar kynslóðir nógu vel upp. Alltof margt ungt fólk er blint á lestur fjölmiðla, hefur ekki þolinmæði til að lesa bækur vegna þess að það ólst upp við að lesa geldknappan texta á sjónvarpsskjám. Eina vonin er sú að þessar nýju kynslóðir geri sér grein fyrir vandanum og ali sín börn betur upp en við gerðum. 

Hér hefur ekki verið fjallað um þátt menntakerfisins í hingnum íslenskunnar. Hvernig gerist það að heilu kynslóðirnar geti farið í gegnum öll skólastig án þess að öðlast brennandi áhuga á að lesa bækur? Í þeim er sá orðaforði bundinn sem öllum er nauðsynlegur til að geta tjáð sig skilmerkilega.

Hafið þér megingjarðir hér? spurði gamli maðurinn í fataverslun, ábyggilega sposkur á svip.

Ahhh, ehhh stundi afgreiðslustúlkan/drengurinn, roðnar og og muldrar eitthvað í barm sér og stikar í burtu. Kemur skömmu síðar með verlsunarstjórann.

Can I help you, sir, spyr hann kurteislega.

Tja ..., sagði sá gamli. Ég ætlaði nú bara að kaupa belti.

 

 

 

 


Gestgjafar Króata og málamiðlun eða málamyndun

Málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Keilir er móbergsfjall sem margir hafa gengið á á Reykjanesskaga.“ 

Myndatexti á blaðsíðu 23 í Morgunblaðinu 23. nóvember 2017.    

Athugasemd: Eftir að hafa skrifað er gott að geyma textann í nokkrar mínútur eða lengri tíma og lesa hann svo yfir. Þessi regla hlýtur að nýtast fleirum en þeim sem hér ritar. Í myndatextanum er orðaröðin röng. Ekki gengur að tvær forsetningar („á“), standi hlið við hlið, það er hræðileg viðvaningslegt, varla hægt að orða það öðru vísi. Raunar er myndatextinn lengri og í raun varla boðlegur, svo tilgerðarlegur er hann. 

Tillaga:  Margir hafa gengið á Keili, móbergsfjallið á Reykjanesskaga.

2.

„Þess má til gamans geta að tíu kíló af mér lágu eftir í brattanum eftir sumarið.“ 

Grein um ævisögu á blaðsíðu í Morgunblaðinu 24. nóvember 2017   

Athugasemd: Rugluð málsgrein og að auki er í henni nástaða, „eftir … eftir“. Blaðamaðurinn sem skrifar er einn af þeim bestu á Mogganum, ritar yfirleitt gott mál og lipran texta. Öllum getur þó orðið á.

Oft virðist sem að blaðamenn gæti ekki að nástöðunni, sömu eða keimlíkum orðum, sem liggja of nálægt og skemma stíl, rýra texta.

Ritfært fólk á auðvelt með að skrifa framhjá henni og þegar vel tekst til bætir það textann.

Tillaga:  Þess má til gamans geta að ég missti tíu kíló í fjallgöngum þetta sumar.

3.

„Hún var í raun að leggja sjálfa sig undir, það hefur væntanlega haft áhrif.“ 

Pistill á Silfri Egils Helgasonar.

Athugasemd: Finnst þetta frekar slakt orðalag sem er slæmt frá ritfærum manni. Hef ekki trú á að fólk „leggi sjálft sig undir“ þegar mikið liggur við heldur allt sitt.

Þetta er svona svipað því þegar sagt er að einhver „standi með sjálfum sér“. Óskaplega hlýtur það að vera erfitt rétt eins og „að leggja sig undir“. Hvort tveggja er frekar asnalegur talsmáti, líklega undir áhrifum frá ensku.

Tillaga:  Hún lagði allt sitt undir, það hefur væntanlega haft áhrif.

4.

„ÍBV fær heim­sókn frá Aft­ur­eld­ingu í Olís­deild karla í hand­bolta kl. 18:00.“ 

Frétta á mbl.is.

Athugasemd: Má vera að margir telji þetta rétt orðalag. Vissulega fær ÍBV heimsókn og það er Afturelding sem kemur. Eyjamenn fá ekki heimsókn frá Aftureldingu heldur kemur síðarnefnda liðið í heimsókn.

Forsetningunni „frá“ er algjörlega ofaukið.

Tillaga:  ÍBV fær Aft­ur­eld­ingu í heimsókn í Olís­deild karla í handbolta kl. 18:00.

4.

„Mín ráðlegging er að finna þér góða, sterka konu og vera ekkert of mikið að spá í útlitinu.“ 

Skopmynd á blaðsíðu 29 í Morgunblaðinu 1. desember 2017.

Athugasemd: Sá sem þetta ritar telur að forsetningin „í“ stjórni því að nafnorð fari í þolfall, ekki þágufall. Máltilfinningin samþykkir það og réttara sé að spá í útlitið.

Í gamla daga var manni kennt að setja eitthvurt annað orð í stað þess sem vafi leikur á. Enginn segir að spá í flugvélinni, spá í hestinum eða álíka.

Hér áður fyrr voru byrjendur í blaðamennsku oft settir í að þýða og staðfæra skopmyndir og skopmyndasögur. Vel má vera að það hafi verið rétt ráðstöfun en þá fylgdi að aðrir og reyndari lásu yfir og leiðréttu enda fylgir vandi vegsemdinni.

Illa skrifað skop er missir marks. Oftast er þó skopið í Mogganum á góðu máli. 

Tillaga:  Finndu þér góða, sterka konu og vera ekkert of mikið að spá í útlitið.

5.

„Juncker sagði á blaðamannafundi í morgun að niðurstöðurnar væru augljóslega til marks um málamyndun milli Breta og ESB.“ 

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Hér hefur blaðamanninum orðið allverulega á. Hann hefur hugsanlega ætlað sér að nota orðið „málamiðlun“ en ekki fundið það í kolli sínum.

Það gerist oftast hjá fólki sem hefur ekki tilfinningu fyrir málinu og býr yfir frekar rýrum orðaforða.

TillagaJuncker sagði á blaðamannafundi í morgun að niðurstöðurnar væru augljóslega til marks um málamiðlun milli Breta og ESB.

6.

„Í tilkynningu lögreglu segir að allmargir tónleikagestir hafi orðið fyrir þjófnaðinum.“ 

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Í heiðskírum einfaldlega tungumálsins má fullyrða að stolið hafi verið frá tónleikagestum. Þannig á að segja frá, ekki snúa textanum í einhvers konar nafnorðatuð.

Vel má vera að lögreglan eða aðrir viðmælendur geti ekki komið frá sér góðum texta en þá verður að treysta á að blaðamenn séu vandanum vaxnir og lagfæri hann.

TillagaÍ tilkynningu lögreglu segir að stolið hafi verið frá allmörgum tónleikagestum.

7.

„Það er eitt að vera í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar sem væri afrek fyrir litlan klúbb eins og Burnley …“ 

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Þetta er ljótt. Mikilvægt er að blaðamenn skrifi rétt mál og hafi vit á því að lesa vandlega yfir að loknum skrifum, helst að fá einhvern annan til þess. 

Dæmi um barnalegan texta er að byrja setningar á „Það …“. Annað er að skrifa „litlan klúbb“ í stað „lítinn klúbb“. Þriðja er að kunna ekki að nota punkt, skrifa þess í stað að langar málgreinar og flóknar. Fjórða er að nota viðtengingarhátt í stað framsöguháttar. Fleira má nefna.

TillagaEitt er að vera í efri hluta ensku úrvalsdeildarinnar sem er afrek fyrir lítinn klúbb eins og Burnley …

8.

„Íslenska karlalandsliðið er að fara að mæta liði í úrslitakeppni HM í Rússlandi næsta sumar sem komst upp með að brjóta reglur í undankeppninni.“ 

Frétt á visir.is.

Athugasemd: Auðvitað er hægt að segja að liðið sé að fara að mæta öðru. Flestir myndu þó segja að það muni mæta öðru, keppa við annað. Tvímælalaust einfaldara og betra.

Blaðamaðurinn er augljóslega ekki vanur skrifum. Verra er að hann er ekki vanur lestri. Sá sem hefur lesið mikið frá barnæsku öðlast smám saman tilfinningu fyrir málinu og það auðveldar honum starfið sem blaðamaður. 

TillagaÍslenska landsliðið mun keppa við Nígeríumenn í úrslitakeppni HM en það síðarnefnda braut reglur í undankeppninni.

9.

„Liðin sem leika á móti gestgjöfum Króata.“ 

Alengt orðalag í íþróttafréttum fjölmiðla.

Athugasemd: Gestgjafi er sá sem tekur á móti gestum. Evrópumótið í handbolta verður haldið í Króatíu í janúar. Nokkur lið munu leika gegn gestgjöfunum, króatíska landsliðinu. Samt mun ekkert lið leika gegn gestgjöfum Króata. 

Ástæðan er einfaldlega sú að Króatar eru ekki gestir á handboltamóti sem þeir halda sjálfir.

Í HM í Rússlandi næsta sumar spilar ekkert lið fótbolta gegn gestgjöfum Rússa. Það er gjörsamlega ómögulegt.

Á Evrópumótinu í fótbolta sumarið 2016 tapaði íslenska landsliðið ekki leik á móti „gestgjöfum Frakka“, heldur Frökkum.

Gestgjafar Frakka og annarra liða á HM í fótbolta 2018 verða Rússar. Ekkert lið mun þó leika gegn „gestgjöfum Rússa“, slíkir leikir verða ómögulegir á HM í Rússlandi.

Vonandi skilst þetta. Hins vegar munu íþróttafréttamenn vafalaust eftir að halda áfram með þessa rassbögu um leiki gegn gestgjöfum Króata, Rússa eða öðrum sem hýsa stórmót í landi sínu.

TillagaLiðin sem leika á mót gestgjöfunum. Eða, liðin sem leika á móti Króötum, gestgjöfunum.

10.

„Þegar verkefnum var lokið á vettvangi, fór björgunarsveitafólkið akandi um alla helstu vegi í Heiðmörk og gengu úr skugga um að ekki væru fleiri í vanda.“ 

Frétt á dv.is

Athugasemd: Blaðamenn eiga að rita einfalt og skiljanlegt mál. Þessi frétt er fljótfærnislega skrifuð. Blaðamaðurinn hafði greinilega ekki fyrir því að lesa hana yfir. Að öðrum kosti hefði hún orðið svipuð því sem gerð er tillaga um.

TillagaAð verkefnum loknum ók björgunarsveitin um Heiðmörk og kannaði hvort fleiri væru í vandræðum.

 

 


Grámann á Alþingi og fleiri talendur ...

Hver skrifar ræður fyrir Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins? Bjarni er vissulega mjög góður ræðumaður og efnislega var mál hans undir stefnuræðu forsætisráðherra alveg ágætt. Ræðan var þó frekar illa skrifuð. Hún var rislítil og þannig ekki mjög svo áhugaverð nema fyrir okkur nördana sem fylgjumst grannt með stjórnmálum. Brýnt er að Bjarni ráði nýjan ræðuritara.

Ein skemmtilegasta og best flutta ræða kvöldsins var sú sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrum forsætisráðherra. Ræðan var skemmtileg, sannfærandi og fyndin. Hann sagði meðal annars:

Hvar í stjórn­arsátt­mál­an­um finna Fram­sókn­ar- eða Sjálf­stæðis­menn áhersl­ur sem þeir geta verið stolt­ir af?

Svei mér þá, ég varð hugsi við þessi orð en það brá skjótt af.

Lélegasta ræða kvöldsins var Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata. Hann er slakur ræðumaður, skrifar lélega texta, í honum eru ótal málvillur og hann hikstar og tafsar á flutningnum. Í raun er það eina jákvæða með ræðu mannsins að hann las af iPad, sparar pappír. Jón Þór nefndi kjararáð. Skrýtið. Hann ætlaði að kæra kjararáð í fyrra fyrir hækkun launa þingmanna, ráðherra, forsetans og fjölda embættismanna. Enn hefur hann ekki kært einn eða neinn. Hann hótar að kæra og hótar. Svo hótar hann og hótar að kæra. Ekkert gerist. Auðvitað er hann barnslega einlægur í hótum sínum. Sumum finnst það svo sætt.

Mér þótti gaman að sjá gamlan félaga flytja sína fyrstu ræðu. Ólafur Ísleifsson, þingmaður fyrir Flokk fólksins, á ábyggilega eftir að láta að sér kveða á þinginu. Hann er hagfræðingur og þrátt fyrir það (!) skynsamur og góður maður og leggur meðal annars áherslu á íslenskt mál, menningu og sögu. Treysti honum vel fyrir þeim málum.

Ármann á Alþingi var tímarit sem gefið var út á þar síðustu öld og þótti stórmerkilegt og mikilvægt í sjálfstæðibaráttu þjóðarinnar. Nú hefur sá maður orðið alþingismaður sem nefna má „grámann á Alþingi“. Hann leggur lítt til málanna annað en það sem Vinstri grænir höfðu tuðað um í áraraðir til að ófrægja andstæðinga sína. Grámann er eins. Vílar ekki fyrir sér að starfa í anda Gróu á Leiti. Ljóst er að grámann, Guðmundur Andri Thorsson en mun betri og sannfærandi skríbent en ræðumaður, hvað þá stjórnmálamaður. Hann er á rangri hillu. Ég sakna þess að fá ekki lengur að lesa greinar eftir hann í Fréttablaðinu, sem hann skrifaði margvíslegan óþverra af stakri snilld. Og hann skrifar frábærar bækur.

Ekki finnst mér margir eldhugar í stjórnmálum hafa komist á þing við síðustu kosningar. Og ekki er miklu andríki fyrir að fara. Því miður. Umræðurnar um stefnuræðu forsætisráðherra voru svona leikrit, píratalegt og þar af leiðandi frekar leiðinlegt.

 

 


Skjálftar í Skjaldbreið, kvika eða spennulosun ...

171211 SkjaldbreiðHratt dregur úr skjálftavirkni í Skjalbreið eins og greinilega má sjá á tímalínu á vedur.is. Athygli vekur samt hversu lítil dreifing er á skjálftunum. Þeir eru því sem næst í einum hnapp, skammt neðan við gíginn að austanverðu. Þetta sést greinilega á kortinu sem hér fylgir og er af vedur.is.

Leikmaðurinn heldur að þetta segi nú ákaflega lítið um aðstæður annað en að þarna er jarðskorpan frekar sprungin sem getur verið ástæðan fyrir því að skjálftarnir hafa verið svona staðbundnir. Þó sést á gögnum að þeir eiga uppruna sinn frá um 11 km dýpi og upp í fjögurra km. Hmm ... dularfullt.

Aðeins níu skjálftar voru stærri en tvö stig og þeir eiga það sammerkt að eiga uppruna sinn á fimm til sjö km dýpi. Er það ekki skrýtið?

Væri þarna um kvikuinnskot að ræða dregur leikmaðurinn þá ályktun að fleiri skjálftar myndu finnast og á stærra svæði í kringum fjallið. 

0J2B3868Hér eru nokkur dæmi um skjálfta sem orðið hafa vegna kvikuinnskota í jarðskorpunni.

Norðaustan við Öskju hafa verið viðvarandi skjálftar, sértaklega í kringum Herðubreið. Skjálftarnir hafa haft sömu einkenni, verið staðbundnir. Svo hafa þeir dáið út en skömmu síðar hafa orðið samskonar skjálftar skammt frá.

Í Mýrdalsjökli hafa orðið svipaði skjálftar. Þar hafa komið hrinur af og til, verið nokkur staðbundnir en síðan „hreyfst“ um öskjuna á sama hátt.

Í Öræfajökli byrjuðu skjálftarnir í austurhlíðum jökulsins en hafa síðan dreifst um það allt, síst mælast þeir í öskjunni sjálfri. Miklu frekar austan hennar og norðan.

Leikmaðurinn dregur því þær ályktanir af ofangreindum dæmum að skjálftarnir í Langjökli eigi ekki uppruna sinn í kvikuinnskoti heldur séu þeir af völdum spennu sem hreinlega losnar á þessum slóðum. Spennan getur hafa byrjað vestast á Reykjanesi og færst síðan upp í Langjökul. Vitað er að skjálftar á einum stað á Reykjanesi, og einnig Suðurlandi og ábyggilega víðar, hafa byggt upp spennu og valdið skjálftum á öðrum stað og svo koll af kolli.

Leikmaðurinn viðurkennir að þessi röksemdafærsla er götótt og ekki síst fyrir þá sök að í Heklu eru sárafáir skjálftar. Engu að síður draga vísindamenn þá ályktun, og hafa stuðning af mælitækjum sínum, að kvikuhreyfingar séu undir því og skammt kunni að vera í gos.

Sem sagt, það sem hér hefur verið sagt eru staðlausir stafir ...

Myndin var tekin í gær og sjá má að þá var Skjaldbreið enn á sínum stað og óbreytt þrátt fyrir jarðskjálftanna. Eða eins og einn glöggur lesandi fyrri pistils um Skjaldbreið sagði í athugasemdum:

Verra væri hinsvegar ef gosið kæmi upp í hlíðum Skjaldbreiðar en ekki í toppgígnum því þá gæti hin reglulega skjaldlögun fjallsins aflagast. Ekki viljum við það.


mbl.is Engin merki sjást um eldgos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband