Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Jarðskjálftahrina í Skjaldbreið
9.12.2017 | 23:54
Í austurhlíðum Skjaldbreiðar er í gangi nokkuð stöðug skjálftahrina. Þegar þetta er skrifað hafa orðið alls 57 skjálftar frá því rétt fyrir miðnætti fimmtudaginn 7. desember. Stærstu skjálftarnir þrír urðu allir í dag.
- Fyrsti stóri skjálftinn var 3,5 stig og varð kl. 19:20
- Annar skjálftinn rúmum hálftíma síðar, 3,1 stig, kl: 19:53
- Síðasti stóri skjálftinn var 3,8 stig og var kl. 21:26
Allir skjálftarnir voru á svipuðum stað, frá 5 og niður í 5,6 km dýpi.
Ég man ekki eftir svona jarðskjálftahrinu undir Skjaldbreið síðan ég fór að fylgjast með skjálftum hér á landi og eru það nokkur ár síðan. Hins vegar hef ég ekkert annað en minni mitt til að styðjast við. Þykist þó geta fullyrt að hér er um merkilegan atburð að ræða, að minnsta kosti fyrir mig.
Um 9.000 ár eru síðan Skjaldbreið gaus. Hún er dyngja og frá henni rann mikið hraun sem síðan hafa horfið undir yngri hraun. Eldgosið var á þeim tíma þegar svæðið var íslaust. Skammt frá er Hlöðufell sem er líka dyngja en myndaðist við gos undir jökli og telst því stapi, raunar móbergsstapi þar sem móberg varð til er hraun rann í vatn.
Jarðskjálftar þurfa alls ekki að vera fyrirboðar um eldgos, nema ... Jarðfræðingar meta hættu á eldsumbrotum á fjölmarga vegu. Mælar sýna breytingu á landi, lyftingu, færslu, óróa og fleira. Skjálftar undir Skjaldbreið þurfa ekki að vera neitt annað en jarðskorpuhreyfingar, skjálftar í rekbelti sem þarna gengur allt frá Reykjaneshrygg og upp í Langjökul. Þarna eru slitrótt sprungusvæði austur um landið. Á þeim geta vissulega orðið hreyfingar og jafnvel hrinur eins og í Skjaldbreið.
Svo er það þetta orð nema. Gosið getur norðan Þingvallavatns eins og annars staðar. Hins vegar eru meiri líkur á því að það gjósi í Heklu, Öræfajökli, Bárðarbungu, norðaustan Öskju, við suðurenda Kleifarvatns, í sjó fyrir norðaustan eða suðvestan landið.
Hins vegar hafa nú orðið 44 skjálftar í austurhlíðum Skjaldbreiðar en innan um tíu síðustu þrjá daga í Öræfajökli og þar er jafnvel búist við eldgosi.
Ég veðja á að hrinan í Skjaldbreið deyi út enda hef ég bara haft góðar draumfarir upp á síðkastið ... Hvað heldur þú, lesandi góður?
Á myndinni sést Skjaldbreiður og fjær er Hlöðufell. Hægra mgin við hinn knáa göngumann er Skriðan.
Skjálfti af stærð 3,5 í Skjaldbreið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þrjár tegundir stjórnenda
7.12.2017 | 14:16
Stjórnun er snúið fyrirbæri. Stjórnunarfræði hafa verið kennd í háskólum á langan tíma og hundruð bóka koma út á hverju ári um listina að stjórna, hvað einkenni góða stjórnendur og hvað beri að varast.
Þetta segir Þórður Sverrisson, ráðgjafi í stjórnun og stefnumótun, í pistli í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag. Í honum ræðir hann meðal annars um þrjár tegundir stjórnenda samkvæmt hugmyndafræði Adam Grant í bókinni Give and Take:
- Fjölmennasti hópurinn er sá sem vill hafa jafnvægi á því að gefa og þiggja hrós. Þórður segir þessa líklega til að vegna vel og segir það hlutverk góðs stjórnanda að hjálpa sínu fólki til að skína en flestir vilja þó fá sinn hluta af vegsemdinni.
- Annar hópur hugsar mest um að þiggja en gefa hrós. Þeir eru uppteknir af sjálfum sér, þiggja jafnvel það hrós sem öðrum er gefið og kastljósið má helst ekki sína á aðra en þá sjálfa. Þórður segir réttilega að slíkir stjórnendur verði sjaldnast farsælir til lengdar. Starfsfólkið sér einfaldlega í gegnum þá og verður óánægt.
- Í þriðja og síðasta hópnum eru stjórnendur sem vilja nánast eingöngu gefa af sér, fremur en að þiggja. Hann orðar þetta svona:
Hugsa sífellt um að styðja við fólkið sitt. Beina athyglinni að því sem aðrir hafa lagt til málanna, fremur en að vera uppteknir af eigin framlagi. Árangur teymisins er ofar í þeirra huga en eigin framgangur og frægð. Og andstætt því að vera uppteknir af því að gæta þess að eigin hugmyndir séu kirfilega við þá tengdar, vilja þessir stjórnendur fremur sá fræjum hugmynda fyrir aðra að uppskera. Fagna þegar þeirra eigin hugmyndir fá brautargengi með forystu annarra, sem fá síðan hrós fyrir. Lifa og starfa með það að leiðarljósi að sælla sé að gefa en þiggja...
Held að nokkuð sé til í þessu hjá Þórði og Grant. Ég hef starfað með mörgum stjórnendum og flestir falla í miðjuhópinn, alltof margir í þann efsta en frekar fáir í síðasta. Merkilegt er þó til þess að hugsa að þeir sem ég starfa mest með um þessar mundir falla í þann hóp, sem er afar ánægjulegt, einstök upplifun að vinna með slíku fólki.
Þórður vitnar í þann merka fræðimann Peter F. Drucker sem sagði einhvers staðar:
Þeir leiðtogar sem sinna hlutverki sínu vel segja aldrei ég. Og það er ekki vegna þess að þeir hafa þjálfað sig í að segja ekki ég.
Þeir hugsa ekki ég.
Þeir hugsa við; þeir hugsa liðið.
Þeir skilja að hlutverk þeirra er að láta liðið vinna saman sem heild. Þeir taka á sig ábyrgð og reyna ekki að komast undan henni, en við fær þakkirnar og hrósið. Þetta er það sem skapar traust, það sem gerir stjórnandanum kleift að vinna verkefnið, hvert sem það er
Þetta er vel mælt og pistillinn hjá Þórði Sverrissyni er góður eins og oft áður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar götulýður ákærði og dæmdi Steinunni Valdísi
3.12.2017 | 21:57
Ofstækið í fjölda manna gagnvart Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, fyrrum borgarfulltrúa og þingmanns var hryllilegur. Fjöldi fólks sat um heimili hennar og enn fleiri leyfðu sér að sakfella hana og dæma á einhverjum vafasömum grundvell.
Þann 20. apríl 2010 var mér nóg boðið og skrifaði þennan pistil hér á þessum vettvangi:
Ef eitthvað er verra en sönnuð sök á Steinunni þá eru það rangar sakagiftir. Sök er alltaf vond, hvort sem hún hefur verið sönnuð fyrir dómstóli eða með því að viðurkenning liggur fyrir. Sök er vond því hún hefur áhrif á samfélagið en við því er ekkert að gera.
Verst af öllu er sú árátta margra að kanna ekki málavöxtu heldur sakfella og dæma. Þegar slíkt er gert er litið framhjá siðferðilegum gildum og ákærandinn verður verri en sá sem fingurinn bendir á. Honum skiptir það engu hvort sektin er sönnuð. Hann hefur kveðið upp sinn dóm.
Í öllum frumstæðum þjóðfélögum hefur verið til fólk sem taldi sig mega sakfellfella, dæma og refsa. Þannig var farið að á miðöldum þegar galdraofsóknirnar stóðu sem hæst. Þannig gerðist það þegar gyðingar voru hundeltir um alla Evrópu og teknir af lífi. Þannig fóru menn að í suðurríkjum Bandaríkjanna er svörtu fólki var kennt um glæpi og refsingin var aldrei í neinu hlutfalli við meinta sök. Nú er nákvæmlega hið sama er að gerast á Íslandi þegar leitað er uppi stjórnmálamenn og þeir kallaðir mútuþegar fyrir þá sök eina að hafa fengið styrki frá fyrirtækjum útrásarvíkinga.
Þannig hagar sér illa upplýst fólk, lýðurinn, dómstóll götunnar, þeir sem vilja sjá blóð renna. Slíkir leita ekki sannleikans heldur taka þátt leiksins vegna. Þetta er sama fólkið og barði á lögreglumönnum í búsáhaldabyltingunnu-i, braut rúður, kveikti elda og felldi jólatré með undir tryllingslegum fagnaðarlátum. Slíkt fólk er ekki þjóðin.
Ég er langt í frá sammála Steinunni Valdísi Óskarsdóttur í stjórnmálum en ég hef enga trú á því að hún hafi þegið mútur og gengið erinda útrásarvíkinga. Hún er ekki verri þó hún hafi fengið styrki frá fyrirtækjum sem við metum núna lítils. Fleiri en hún fengu styrki og eru ekki verri fyrir þá sök.
Það er bara ekki þannig að þeir sem voru í sama herbergi og svokallaðir útrásarvíkingar hafi orðið fyrir einhverju smiti og sé síðan óalandi og óferjandi.
Mótmæli fyrir utan heimili fólks sem hvorki hefur verið ákært né saksótt er ógeðfelldur leikur sem verður að hætta.
Þó því sé ekki saman að jafna má minna á ofsóknir götulýðs gagnvart öðrum stjórnmálamönnum og einstaklingum. Lýðurinn hefur safnast saman fyrir utan heimili fleiri stjórnmálamanna en Steinunnar Valdísar, þó enginn hafi orðið fyrir öðrum eins viðbjóði og hún.
Öskureið að rifja þetta upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er bókaútgáfa hornsteinn, eftirlæti eða atvinnugrein?
1.12.2017 | 10:15
Bókaútgáfur eru einn af hornsteinum samfélagsins og gegna mikilvægu hlutverki sem menningarmiðlun.
Þetta segir í greinargerð með frumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, þingmanns og nú mennta- og menningarmálaráðherra. Fullyrðingin er röng. Bókaútgáfa er ekkert öðru vísi en aðrar atvinnugreinar. Hún byggist á markaðssetningu og sölu, rétt eins og verslun með aðrar vöru.
Hins vegar er afar flott að segja að bókaútgáfan sé einn af hornsteinum samfélagsins. Sé svo eru hornsteinarnir æði margir og varla pláss fyrir fólk á milli þeirra.
Hafi bókaútgáfa dregist saman undanfarin ár má fleiru en virðisaukaskatti kenna um. Hér eru nokkur atriði sem skipta máli:
- Margar bækur eru leiðinlegar
- Bækur geta verið illa skrifaðar
- Markaðssetningin bókar getur hafa verið árangurslaus
- Yngra fólk les síður bækur (og dagblöð)
- Menntakerfið hefur brugðist, bóklestur er ekki hluti af því
- Kennarar eru ekki nægilega góðir í bókmenntum
- Facebook og aðrir samfélagsmiðlar eru með stutta texta, ungt fólk ræður ekki við lengra mál
- Uppalendur yngstu kynslóðanna eru síður bókmenntalega sinnuð en eldra fólk
Eflaust er hægt að telja upp fleiri skýringar á minnkandi bóklestri og hnignandi sölu bóka.
Staðreyndin er hins vegar sú að ef markaðurinn hefur ekki sama áhuga á bókum og áður þá verður svo að vera. Verðlækkun hjálpar lítið til ef áhuginn fyrir bókum er ekki fyrir hendi.
Verði framtíðin sú að bókaþjóðin verði í framtíðinni ekki bókaþjóð þá er lítið sem hægt er að gera. Jú, eitt ráð er til og það er vænlegt. Gerum eins og í fótboltanum, byggjum upp unga fólkið, glæðum áhuga þess á bóklestri. Sérmenntum kennara í bókmenntum, virkjum menntakerfið, kynnum foreldrum dásemd barnabókmennta.
Bækur eru frábrugðnar öllum öðrum markaðsvörum. Hins vegar eiga allir sín eftirlæti og þau spilla hins vegar fyrir og þar af leiðandi verður verðið hærra á þeim vörutegundum sem ekki njóta eftirlætis. Er þá ekki betra að haga skattheimtunni þannig að allar vörur beri lágan virðisaukaskatt og stjórnvöld freistist ekki til að lækka eða afnema hann af eftirlæti sínu.
Hornsteinar samfélagsins eru margir og ýmis konar hagsmunir felast í því að lækka virðisaukaskatt af hinum og þessum vörutegundunum. Því meir sem það er gert því flóknara verður kerfið. Ef ég fengi að velja myndi ég hafa virðisaukaskatti 11% og engar undanþágur. Það væri nú almennilegur hornsteinn fyrir samfélagið, eftirlætislaus.
Ríkisstjórnin boðar afnám bókaskatts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Páll og Jón ekki ráðherrar, því miður
30.11.2017 | 13:29
Manni finnst ótrúlegt að hægt sé að ganga framhjá forystumanni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem réttilega er annað höfuðvígi flokksins á landinu. Sjálfsagt er að Páll Magnússon veki máls á þessu. Það sýnir þó manndóm að styðja ríkisstjórnina í stað þess að láta á þessu steyta.
Einnig finnst manni skrýtið hvers vegna Jón Gunnarsson haldi ekki áfram sem ráðherra. Hann hefur sýnt hvers hann er megnugur sem ráðherra samgöngu- og sveitarstjórna. Á hans vegum hafa stórhuga uppbyggingar í vegakerfinu á suðvesturlandi verið kynntar. Þær hugmyndir hefur maður ekki áður séð. Væntanlega verða þær að veruleika á næstu árum.
Þær raddir heyrðust að Sigríður Á. Andersen hefði átt að fara í Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið. Sú hugmynd hefði verið góð enda þarf nagla eins og hana þar.
Að endingu þetta: Styð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, VG og Landverndar til allra góðra verka eins og píratinn sagði af öðru tilefni.
Páll styður ekki ráðherralista Bjarna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Jón Þór Ólafsson hótar og hótar enda hót fyndinn
29.11.2017 | 14:45
Forseti Íslands sem hefur sagt að hann: vænti þess að þingið vindi ofan af þessari ákvörðun [Kjararáðs] getur gefið út að hann muni setja bráðabirgðalög áður en þing komi saman nema Kjararáð lækki launin eða hann fái það staðfest frá formönnum allra flokka að Alþingi muni vindi ofan af ákvörðuninni. Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun Kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.
Þetta sagði þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, í grein í Fréttablaðinu fyrir rúmu ári. Hann var svo mikið á móti ákvörðun Kjararáðs um hækkun launa alþingismanna og embættismanna að hann þáði hana, þó ekki með þökkum, en þáði engu að síður.
Jón Þór virðist unna kærum eða hann hótar kærum, hann er sumsé orðinn hótfyndinn. Í grein sinni í Fréttablaðinu sagðist hann ætla að kæra ákvörðun Kjararáðs til þessara aðila:
- Forseta Íslands
- Formönnum þingflokka
- Dómstóla
Síðan er liðið rúmt ár og þó hann hafi verið kominn með lögfræðing í kærumálið hefur hann ekkert gert, engin kæra hefur fylgt hótunum hans.
Jón kann ábyggilega vel að meta launahækkunina, hún nemur hvorki meira né minna en 4.059.048 krónum fyrir þetta ár plús verðbætur og annað smálegt.
Fjögurra milljón króna ástæða er fyrir því að Jón Þór Ólafson, þingmaður og eldhugi, kærði ekki.
Auðvitað er maðurinn ekki að gera neitt nema auglýsa sjálfan sig og um leið vaknar efi í huga lesandans, hvort vegi meira, sjálfsauglýsingin eða óánægjan með niðurstöðu Kjararáðs.
Þegar nánar er litið á feril þingmannsins kemur í ljós að hann hefur ekkert gert í vinnunni en tekur fyrir það rúmlega 13 milljónir króna á ári frá skattgreiðendum.
Á þinginu 2014 til 2015 greiddi Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata ekki atkvæði í 623 skipti af þeim 968 atkvæðagreiðslum sem hann átti að vera viðstaddur. Þar að auki var hann fjarverandi í 174 atkvæðagreiðslum.
Slóðin eftir manninn er þessi:
- Já atkvæði: 138, 17%
- Nei-atkvæði: 33, 4%
- Greiðir ekki: 623, 64%
Væri ekki sanngjarnt að frá launum Jóns Þórs drægjust 64% fyrir að kunna ekki að greiða atkvæði?
Vandséð er hvort Jón Þór Ólafsson eigi eitthvað erindi inn á þing en hann býður sig engu að síður fram - og það sem verra er, einhverjir ruglast og kjósa manninn.
Nú hótar maðurinn að kæra Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, haldi hún embætti sínu eftir stjórnarskiptin.
Takið eftir, hann hótar að kæra ef ... Hafi hann einhver efni til að kæra þá ætti hann auðvitað að kæra ráðherrann. En nei, hann hótar bara. Það segir nú dálítið um manninn, málstaðinn og stefnufestuna. Þvílík hótfyndni.
Jón Þór boðar vantraust á Sigríði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lekandi Fréttablaðsins og fjárhagstjón Kjarnans
20.11.2017 | 17:08
Sárlega kennir maður í brjóst um þá sem minna mega sín. Svo mikil er brjóstverkurinn að við liggur að ég telji mjólkurpeningana upp í virðulegt framlag. Hér er eitt dæmi um þá sem eiga erfitt:
Birting samtalsins nú veldur Kjarnanum fjárhagstjóni ...
Þannig kemst ritstjóri Fréttablaðsins að orði í leiðara sínum í dag. Á tilfinninganæman og sennilegan hátt fjallar hann um birtingu Morgunblaðsins á símtali Davíðs Oddssonar, Seðlabankastjóra við Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Sko, þetta samtal fornvinanna hefur verið tilefni margvíslegra samsæriskenninga vinstri manna um hrunið.
Fjölmiðillinn Kjarninn stefndi Seðlabankanum um daginn og krafðist að fá að endurrit af samtalinu. Dýrt er að stefna fólki eða fyrirtækjum fyrir dómstólanna og auðvitað fær Kjarnann þá ekki til baka, skiptir engu hvort hann tapar eða vinnur.
Ritstjóri Fréttablaðsins heldur því fram að Mogginn hafi valdið Kjarnanum fjárhagstjóni með því að birta samtalið. Líklega var þó fyrrnefnda fjölmiðlinum ókunnugt um að sá síðarnefndi hafi átt fyrsta veðrétt í birtingu samtalsins. Má samt vera að gleymst hafi að þinglýsa veðinu.
Í stuttu máli sagt er ekkert skemmtilegt að finna í samtali Geirs og Davíðs. Illu heilli slepptu þeir að ræða það sem þeir hefðu, að mati vinstri sinnaðra samsærissmiða, átt að gera. Fjárhagslegt tap Kjarnans liggur eiginlega í því að hann reyndi að kaupa eitthvað allt annað en köttinn í sekknum.
Stóra málið er að samtalið skuli birt nú og með þessum hætti. Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi kallað eftir því að þetta mikilvæga samtal verði birt almenningi. Enginn fjölmiðill hefur sótt það af viðlíka eftirfylgni og vefmiðillinn Kjarninn og það jafnvel með því að stefna Seðlabankanum með tilheyrandi kostnaði.
Segir Fréttablaðið. Auðvitað átti að halda þessu samtali leyndu þangað til að Kjarninn gæti grætt á því. Flett ofan af skúrkunum Geir og Davíð. Þeir hjá Kjarnanum eru vísir til að búa spinna upp eitthvað nýtt og ljótt um þá kumpána, eitthvað sem gæti verið satt.
Síðan samtalið var birt hafa aðrir samsærissmiðir ekki látið deigan síga. Þeir hamra járnið meðan það er heitt, jafnvel þó það sem þeir hamra á sé eitthvað allt annað en járn, kannski tré eða plast. Hér eru nokkur dæmi:
- Óvíst er hvort Mogginn hafi birt allt samtalið að sögn fyrrverandi varaformanns Vinstri grænna, Björns Vals Gíslasonar.
- Leki í Seðlabankanum og hann þarf að rannsaka að mati fyrrnefnds Björns Vals
- Mogginn ritskoðaði samtalið og sleppti því safaríkasta, að sögn virkra í athugasemdum og stjórnvitringsins Þórs Saari.
- Davíð Oddsson er ábyrgur fyrir lekanum af því að hann starfar hjá Mogganum, að sögn ákærenda hjá dómstóli götunnar og telja ónauðsynlegt að rekja málið frekar.
- Alveg gersamlega lygilegt fúsk og spilling og skítlegt eðli allt saman í einni kös, að sögn Helgu Völundar Draumland, dómara hjá dómstóli götunnar og virkrar í athugasemdum
- Ritstjóri Moggans stal afritinu af samtalinu úr Seðlabankanum, ályktar Magnús Guðmundsson, ritstjóri Fréttablaðsins.
- Kjósendur þurfa að þola svona birtingu af völdum hinna yfirgangssömu sérhagsmunaafla, fullyrðir ritstjóri Fréttablaðsins.
Nú er það aldeilis óþolandi að Mogginn skuli hafa stungið undan Kjarnanum og eyðilagt möguleika hans á að skúbba. Eftir situr fjölmiðillinn með útlagðan lögfræðikostnað hjá málflutningsstofu Reykjavíkur, Reykjavík Legal.
Verst er þó líðan góða fólksins yfir því að af öllum skuli það hafa verið Mogginn sem birti samtalið. Næstverst er að það var ekkert bitastætt að finna í því.
Eftir stendur vafamálið; hver lak? Var lekandinn stóri Seðlabankamaðurinn eða litli Seðlabankamaðurinn (sbr. litli landsímamaðurinn)? Eða lak einhver annar því ljóst er að afrit af þessu símtali er til víða um byggðir landsins?
Hitt er auðvitað athygli vert hvernig ritstjóri Fréttablaðsins tekur til orða í ofangreindum leiðara sínum. Líkast til hefur Steingrímur J. Sigfússon, fyrrum formaður VG og allsherjarmálaráðherra skrifað leiðarann. Orðalagið er slíkt að aðeins innmúraðir og innvígðir vinstri menn geta skrifað á þennan hátt.
Að lokum ber að geta þess að ég var með afrit samtalsins í höndunum og ætlaði að birta það síðasta sunnudag en helv... Mogginn gerði það að engu. Þess í stað ætla ég á næstunni að birta samtal tveggja leikskólabarna. Það flettir upp um hin yfirgangssömu sérhagsmunaöfl sem stjórna leikskólum landsins og kapítalísk eðli þeirra.
Því miður hef ég ekki bankanúmer Kjarnans og verð því að fresta því að veita þessum heiðarlega og gagnlega fjölmiðli styrk.
Munum bara að það er ekki sama hver er lekandinn og þaðan af síður hvar lekinn er birtur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Söngur fluttur og gerð er uppljóstrun
14.11.2017 | 20:06
1.
Ég er algjörlega óskorin karaoke-drottning og það í góðri merkingu.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Hvað þýðir að vera óskorin karaoke-drottning? Allt bendir til þess að sá sem skrifaði fréttina hafi einhvers staðar í huga sínum verið að leita að orðinu óskoraður sem er lýsingarorð og merkir algjör, eitthvað sem er óumbreytanlegt.
Óskoraður er líklega dregið af því að enginn skorar á viðkomandi um titilinn. Gæti veriðkomið frá þeim tíma er karlar gengu á hólm og börðust uns annar lá dauður.
Tillaga: Ég er algjörlega óskoruð karaoke-drottning og það í góðri merkingu.
2.
Innan skamms tekur gamanið að kárna þegar Bill gerir skelfilega uppljóstrun.
Kvikmyndagagnrýni á bls. 33 í Morgunblaðinu 2. nóvember 2017.
Athugasemd: Hér er hugsanlega einhver ruglingur á ferðinni. Eitt er að uppgötva, annað er að ljóstra upp. Óljóst er hvor höfundur þessara orða á við. Af máltifinningunni að dæma er réttara að ég uppgötvi eitthvað en að ég geri uppgötvun. Sama á við þegar einhver ljóstrar einhverju upp, varla gerir hann uppljóstrun.
Tillaga: Innan skamms tekur gamanið að kárna þegar Bill uppgötvar eitthvað skelfilegt. Eða: Bill ljóstrar upp skelfilegu leyndarmáli.
3.
VÍS fær 210 milljónir vegna láns í Úkraínu eftir langa mæðu
Fyrirsögn á frétt á visir.is.
Athugasemd: Orðaröð í setningu skiptir máli. Ef ekki er hægt að misskilja það sem sagt er eða að hún verður hálfhjákátleg. Í þessu tilviki gerist hvort tveggja.
Vís lánaði fé til Úkraínu en fékk þar ekki fé að láni eins og skilja má af fyrirsögninni. Þessa peninga hefur fyrirtækið nú fengið til baka. Þetta má orða á einfaldan hátt.
Tillaga: Vís fær endurgreiddar 210 milljónir vegna láns til Úkraínu.
4.
Öryrkja hent út fyrir hundahald í Hátúni.
Fyrirsögn á frétt á visir.is.
Athugasemd: Fyrirsögnina má skilja á þann veg að öryrkjanum hafi verið sagt upp húsnæði í Hátúni vegna þess að fyrirhugað er að koma á fót hundahaldi. Honum var hins vegað vísað á dyr vegna óleyfilegs hundahalds. Í fyrirsögninni kennir áhrifa úr ensku þar sem forsetningin for er þýdd hugsunarlaus.
Mikilvægt er að fyrirsagnir séu þannig samdar að enginn misskilningur vakni hjá lesandanum. Í því er þjónusta fjölmiðla falin. Þegar öllu er á botninn hvolft bjóða fjölmiðlar lesendum sínum eða áhorfendum upp á þjónustu.
Tillaga: Öryrkja hent út vegna hundahalds í Hátúni.
5.
Stjarnan þorði ekki að taka slaginn.
Fyrirsögn á bls. 2 í íþróttablaði Morgunblaðsins 7. nóvember 2017.
Athugasemd: Fréttin fjallar um leik Stjörnunar og Vals í handbolta og hann var vissulega slagur eins og allir leikir eru. Undarlegt er því að orða fyrirsögnina á þennan hátt, jafnvel þó leikmenn Stjörnunnar hafi ekki lagt sig eins mikið fram og þeir hefðu átt að gera.
Stjarnan tók slaginn en varð undir. Blaðamaðurinn hefði átt að kanna hvað felst í orðtakinu, svo virðist sem hann skilji það ekki. Engu að síður skrifaði hann ágætlega um leikinn, það vantar ekki.
Tillaga: Stjarnan lagði sig ekki fram og tapaði.
6.
Erlend fjárfestingarfyrirtæki eiga að minnsta kosti 41 millarð króna í Kauphöll Íslands en fyrir tveimur árum síðan stóð upphæðin í rúmum 15 milljörðum.
Úr frétt á mbl.is.
Athugasemd: Síðan er atviksorð og er hér troðið inn í setningu vegna misskilnings. Þegar tveir hittast sem hafa ekki sést lengi segir annar: Mikið er langt síðan ég hef séð þig.
Hinn svarar: Já, nú eru ábyggilega tvö ár síðan.
Sá fyrri bætir við: Fyrir tveimur árum hittumst við á Akureyri.
Berum þetta saman og síðan við fyrirsögnina. Þá kemur berlega í ljóst að atviksorðinu síðan er ofaukið. Hjálpar ekkert, er bara óþarfi. Engu að síður afar mikið notað, ofnotað
Tillaga: Erlend fjárfestingarfyrirtæki eiga að minnsta kosti 41 milljarð króna í Kauphöll Íslands en fyrir tveimur árum stóð upphæðin í rúmum 15 milljörðum.
7.
Dómsmálaráðherra flutti skínandi fína ræðu á laugardag og Jóhanna Guðrún Jónsdóttir flutti söng sem setti fallegan svip á athöfnina.
Úr frétt á blaðsíðu 4 í Morgumblaðinu 13. nóvember 2017.
Athugasemd: Æ, æ, æ. Eitt er að flytja ræðu en annað er að flytja söng sem er afar furðulegt athæfi. Tilvitnunin er úr frásögn manns af Kirkjuþingi og má vera að hann hafi tekið svo til orða. Hins vegar bar blaðamanni að laga orðalagið því hann hlýtur að vita að ræðumenn flytja ræður eða erindi en söngvarar syngja þó vissulega megi um hvort tveggja tala um góðan flutning.
Tillaga: Dómsmálaráðherra flutti skínandi fína ræðu á laugardag og söngur Jóhönnu Guðrúnar Jónsdóttur setti fallegan svip á athöfnina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 15.11.2017 kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fjöldi Sjálfstæðismanna á mót samstarfi við VG
13.11.2017 | 10:42
Auðvitað eru margir með ónot í maganum við þessa tilhugsun að fara að vinna með Sjálfstæðisflokknum og skil ég það bara mætavel. Við höfum auðvitað verið á sitthvoru rófinu í stjórnmálum en við höfum líka ábyrgð sem stjórnmálamenn og við gerðum tilraun með þessa fjóra flokka og Framsókn treysti sér ekki lengra í þeim formlegum viðræðum.
Þetta segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, í viðtali við Vísi.
Á mbl.is segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna:
Fyrir kosningar sögðum við að við útilokuðum ekki neinn. Það væri óheiðarlegt að koma eftir kosningar og útiloka Sjálfstæðisflokkinn.
Varaformaður VG, Edward H. Huijbens, frambjóðandinn sem kjósendur höfnuðu, segir á einhverjum samfélagsmiðlinum að formaður Sjálfstæðisflokksins ætti ekki að fá að vera ráðherra!
Hvergi í fjölmiðlum er leitað til Sjálfstæðismanna vegna vangaveltna og leiðinda Vinstri grænna vegna hugsanlegrar stjórnarmyndunar með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.
Höfum það hins vegar hugfast að fjöldi Sjálfstæðismanna, þeirra á meðal sá sem hér skrifar, er ekki neitt yfir sig hrifinn af samstarfi við VG og sumir jafnvel harðir á móti.
Eitt er að Vinstri grænir hafa allt frá stofnun verið afar ómálefnalegir í ræðu og riti í garð Sjálfstæðisflokksins. Út yfir allan þjófabálk tók þó þegar VG samþykkti málshöfðun fyrir Landsdómi gegn Geir H. Haarde, fyrrum formanni flokksins. Það voru pólitískar ofsóknir sem enduðu með því að hann var sýknaður af öllum ákærum nema að hafa ekki haldið fundargerðir í aðdraganda hrunsins. Þar sýndu Vinstri grænir samstarfsmanni á þingi ódrenglyndi og ruddaskap sem seint verður fyrirgefið.
Vinstri grænir sviku síðan þjóðina um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að ESB í júlí 2009 er flokkurinn greiddi atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðisflokksins um málið.
Sannast þá það sem Össur Skarphéðinsson, fyrrum þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, segir núna að VG sé að selja sig fyrir ráðherrastóla. Hann ætti að vita það enda var hann í forystu fyrir Samfylkinguna þegar hún seldi VG aðild að ríkisstjórn vorið 2009.
Greiðslan var mikil. VG sveik stefnu sína um andstöð við aðild að ESB og fjölmargir forystumenn flokksins urðu ómerkingar orða sinna í kosningabaráttunni vorið 2009.
Nei, við erum margir Sjálfstæðismennirnir sem viljum frekar kosningar en samstarf við Vinstri græna sem eru í besta falli hentistefnuflokkur.
Vilji forystu VG er hins vegar að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sú er ástæðan fyrir því að Katrín Jakobsdóttir talaði aldrei um vinstri stjórn fyrir kosningar og ekki heldur eftir þær.
Almannatenglar ráðlögðu henni og öðrum forystumönnum VG að forðast allt tal um vinstri stjórn eða vinstri stefnu, það væri ekki til árangurs. Þeir höfðu rétt fyrir sér. VG bætti við sig atkvæðum og einum þingmanni. Það var hins vegar ekki almannatenglunum að kenna þó flokkurinn færi úr 30% fylgi í skoðanakönnunum í 16% í kosningunum.
Þrjár ástæður til að hefja viðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Virkur í athugasemdum undir áhrifum
5.11.2017 | 23:50
Heimskan, illskan og stafsetningin (þessi ótæka og snarbrjálaða) eru hin heilaga þrenning virkra í athugasemdum. [...]
Í athugasemdakerfunum beita heimskustu 0,01% þjóðarinnar okkur hin, 99,99%, andlegu og félagslegu ofbeldi. Eiga þessir grunnhyggnu, illa þenkjandi og enn verr skrifandi alvitringar ekki aðstandendur sem geta bent þeim á að hætta þessu. Eða vísað þeim á viðeigandi stofnun?
Þetta segir Þórarinn Þórarinsson í Bakþönkum helgarblaðs Fréttablaðsins 4. nóvember 2017. Hann er að gefa þeim einkunn sem þekktir eru undir heitinu virkir í athugasemdum, liðið sem skrifar athugasemdir með fréttum vefmiðla eins og Vísis, DV, Pressunnar og Eyjunnar. Og hann segir:
Óþverralýðurinn sem rottar sig saman í athugasemdakerfum vefmiðlanna veit sjálfsagt jafn lítið og ég. Sennilega minna enda benda athugasemdir þeirra iðulega til þess að þau hafi ekki lesið þær fréttir sem þau gjamma undir. Kunni í það minnsta alls ekki að lesa sér til gagns.
Ég hef stundum lagt það á mig að lesa athugasemdir sem fylgja fréttum ofangreindra fjölmiðla. Vissulega eru þeir til sem ræða af viti, þekkingu og skynsemi. Þeir eru þó miklu fleiri sem láta vaða alls kyns óþverra og dónaskap og þeir sem reyna að malda í móinn fá samskonar yfirhalningu og þeir sem fréttir fjalla um.
Oftast eru þetta fyrirsagnahausar, fólk sem étur upp það sem aðrir segja og hefur ekki fyrir því að kynna sér málin. Í athugasemdunum er iðkað að hreyta ónotum í náungann og helst að tvinna saman óhróðri og leiðindum svo undan svíði. Fátt af þessu fólki myndi tala á þann hátt um þá sem eru því nákomnir.
Það sem virkur í athugasemdum myndi aldrei voga sér að segja um skyldmenni eða vini smyr hann miskunarlaust á fólk sem hann hefur aldrei séð, aldrei hitt eða veit eiginlega ekkert um.
Ég þekki sumt af þessu fólki, hreyki mér ekki af því en gæti þess að leggja fátt til í þessum athugasemdakerfum, jafnvel þegar ég sé að fólk fer rangt með staðreyndir.
Síðasta föstudag fór ég með vinum á krá og fengum okkur bjór sem gerist alltof sjaldan fyrir núorðið. Og þar sem við stóðum við barborðið í troðningi rak ég augun í einn af virkum í athugasemdum, gamlan kunningja, sem er þekktur fyrir rökleysur sínar.
Þegar hann sá mig vippaði hann sér í gegnum mannþröngina til mín með þvílíku offorsi að bjórinn minn skvettist yfir mig og nærstadda. Hann ætlaði að tala við mig með tveimur hrútshornum eins og stundum er sagt og kippti sér ekki upp við skaðann.
Ég spurði hann tíðinda. Hann hlustaði ekki, vildi bara tala um hinn vonda Sjálfstæðisflokk. Ég spurði hann á móti um heilsuna. Hann hlustaði ekki og hrópaði eitthvað um Bjarna Benediktsson og ríkisstjórn hans. Fæst gat ég greint vegna hávaða var maðurinn þó óþægilega nálægt andliti mínu. Af öllu var þarna ekki staður né stund til að ræða um pólitík, það sáu allir. Hver nennir annars að rökræða í þrengslum á krá þar sem hávaðinn var um 60 desibel.
Annars misskildi ég hann illilega. Hann var ekki að rökræða, hann hellti sér yfir mig og hellti úr glasinu mínu. Hversu oft sem ég náði að snúa baki í manninn tókst honum jafnóðum að komast fram fyrir mig og alltaf hélt hann áfram tuðinu. Svo greip hann í úlpuna mína og hélt mér föstum.
Þessi maður kann enga háttvísi, hvorki á prenti né augliti til auglitis. Honum fannst staðurinn og stundin góð fyrir ofbeldið, ausa yfir mig einhverjum óþverra sem ég hafði ekki nokkurn áhug á að heyra..
Ég fékk nóg og gekk út. Virkur í athugasemdum elti mig ekki út í norðan strekkinginn á Klapparstígnum.
Í tilvitnuninni hér að ofan segir Þórarinn Þórarinsson í Bakþönkum Fréttablaðsins þennan lýð beita 99,9% þjóðarinnar andlegu og félagslegu ofbeldi. Verra er þegar lýðurinn fer að láta hendur skipta og tukta þá til sem hann er ósammála. Dómstóll götunnar dæmir og refsar.
Þá er eiginlega nóg komið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)