Geldknappur texti til uppeldis

Sá vandi sem steðjar að íslensku máli er ekki erlend tungumál heldur fólk sem kann hvorki skil á móðurmáli sínu né öðrum málum, er svona slarkfært í hvort tveggja. Þetta ástand stýrir aungri lukku og með nokkrum rökum má halda því fram að framtíðin sé ekki björt.

Í Morgunblaðið dagsins er vel skrifað viðtal við Ólaf Hauk Símonarson, leikskáld og rithöfund sem ræðir um tungumál okkar af skynsemi. Flestir munu ábyggilega geta tekið undir þessi orð hans:

Breytingar í tungumálinu blasa við hvert sem litið er. Jafnt í sjónvarpi, útvarpi og prentmiðlum er skrifað og talað mál sem hefði, að mati Ólafs, ekki þolast fyrir aldarfjórðungi. Unga fólkið virðist eiga fullt í fangi með að tjá sig á móðurmálinu, og raunar líka á öðrum tungumálum.

„Það virðist ekki lengur vera ámælisvert að tala rangt mál í útvarpi og jafnvel fastráðið starfsfólk notar kolvitlaust mál fyrir framan alla þjóðina. Fyrir nokkrum áratugum hefði þessu sama fólki verið sagt upp störfum á stundinni, en núna virðist aðalatriðið að tala hratt og vera ofurhress.“

Í lok viðtalsins brýnir Ólafur þjóðina:

Tungumálið og bókmenntir okkar er líklega það eina sem er á heimsmælikvarða, ef svo má segja. Ef við glötuðum tungunni og þar með aðgangi að fortíð okkar í bókmenntum og sögu yrðum við mikið fátækari,“ segir hann.

„Hugsun manna er bundin tungumálinu – þjóð sem lendir á milli tungumála á erfiðara með að hugsa. Ef við ætlum ekki að nota íslensku til frambúðar þá þurfum við að velja okkur annað tungumál, og það strax. Við verðum að gera þetta upp við okkur – ætlum við að tala og skrifa íslensku í framtíðinni? Þá þarf að setja allt á fullt, taka íslenskuna af alefli inn í stafræna geirann, tölvurnar, símana, leikina, fræðslu- og kennsluefni og stórefla þýðingar á grundvallarritum í öllum fræðigreinum. Ef það er ekki gert er leikurinn tapaður.“

Ef það er ekki gert er leikurinn tapaður.“

Margt bendir til þess að leikurinn sé tapaður. Svo virðist sem að við höfum ekki alið nýjar kynslóðir nógu vel upp. Alltof margt ungt fólk er blint á lestur fjölmiðla, hefur ekki þolinmæði til að lesa bækur vegna þess að það ólst upp við að lesa geldknappan texta á sjónvarpsskjám. Eina vonin er sú að þessar nýju kynslóðir geri sér grein fyrir vandanum og ali sín börn betur upp en við gerðum. 

Hér hefur ekki verið fjallað um þátt menntakerfisins í hingnum íslenskunnar. Hvernig gerist það að heilu kynslóðirnar geti farið í gegnum öll skólastig án þess að öðlast brennandi áhuga á að lesa bækur? Í þeim er sá orðaforði bundinn sem öllum er nauðsynlegur til að geta tjáð sig skilmerkilega.

Hafið þér megingjarðir hér? spurði gamli maðurinn í fataverslun, ábyggilega sposkur á svip.

Ahhh, ehhh stundi afgreiðslustúlkan/drengurinn, roðnar og og muldrar eitthvað í barm sér og stikar í burtu. Kemur skömmu síðar með verlsunarstjórann.

Can I help you, sir, spyr hann kurteislega.

Tja ..., sagði sá gamli. Ég ætlaði nú bara að kaupa belti.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband