Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Byrja að deyja, félagsforðun og undir rannsókn
30.4.2020 | 16:24
Orðlof
Stakyrði
Eitt einkenna íslenskrar tungu er hve flókin hún er og stafar það ekki síst af hvers kyns óreglu og undantekningum á sviði beygingar- og setningafræði.
Prófessor Hans heitinn Kuhn benti þeim sem þetta ritar á þetta í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og taldi hann að miklu erfiðara væri að læra íslensku en önnur mál sem hann þekkti en það mætti einmitt rekja til undantekninganna.
Á alllangri starfsævi tel eg mig hafa sannreynt að Hans Kuhn hafði rétt fyrir sér.
Í flestum málum er það svo að litlir beygingarflokkar deyja drottni sínum en í íslensku er því á annan veg háttað, fjölmörg orð eru stakyrði í þeim skilningi að ekkert orð beygist eins, t.d. alin, dagur, guð og megin. Sama er upp á teningnum á sviði setningafræði. [ ]
Jón G. Friðjónsson. Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sá sem er byrjaður að deyja hlýtur með öðrum orðum að liggja banaleguna. Orðalagið er frekar kjánalegt. Með sögninni að deyja er varla hægt að nota byrja. Verið getur að einhver sé að byrja að smíða hús, byrja að taka til, byrja æfingar.
Í heimildinni Ap News segir:
a growing number of victims are now dying at home.
Þarna segir ekkert um að fólk sé byrjað að deyja, aðeins að fólk sé að deyja í heimahúsum.
Tillaga: og að útlit sé fyrir að margir séu að deyja á heimilum sínum.
2.
Auðjöfurinn Elon Musk var harðorður gagnvart félagsforðun og
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Var maðurinn ekki haðrorður um félagsforðun? Stundum er ekkert eitt réttast. Smekkur skiptir máli.
Gagnvart er forsetning rétt eins og um. Orðið var upphaflega gagnverður, það er á móti eins og segir í Málfarsbankanum. Nokkur dæmi eru tilgreind þar en svo segir:
Í tilgreindum dæmum öllum virðist merking forsetninganna gagnvert, gagnvart vera bein, það er andspænis; á móti, en í síðari alda máli hefur merkingin breyst.
Mælt er með því að lesendur kynni sér nánar það sem Jón G. Friðjónsson segir þarna í Málfarsbankanum.
Tillaga: Auðjöfurinn Elon Musk var harðorður um félagsforðun og
3.
Félagsforðun
Nýyrði um lágmarksfjarlægð milli fólks vegna smits.
Athugasemd: Félagsforðun er afar stirt orð. Ekkert jákvætt í því eða hjálplegt. Engu er líkar en að ætlunin sé að maður eigi að forðast félagsskap annarra en það er ekki svo.
Stundum finnst manni að nýyrði eða nýtt orðalag sem nær hljómgrunni meðal almennins sé samið af einhverjum með takmarkaðan orðaforða eða lítinn málskilning. Nefna má orð eins og ábreiða (notað um útgáfu tónverka), njóttu dagsins, tímapunktur og fleira dót.
Á Nýyrðavef Stofnunar Árna Magnússonar eru þessi samheiti gefin:
fjarlægðarmörk, félagsleg fjarlægð, bil, bil á milli fólks, fárými, félagsbil, félagsfjarlægð, félagsfjærni, félagsforðun, félagsgrið, félagsnánd, fjarrými, fjarstaða, fjarstæða, frákví, frávist, frávígi, friðrými, heilsurými, hæfileg fjarlægð, lýðhelgi, lýðrými, mannhelgi, millibilsástand, nándarmörk, náunganánd, olnbogarými, rými, rýmisfirð, rýmisforðun, rýmisnánd, rýmistóm, samskiptafjarlægð, seiling, smitbil, smitfirð, smithelgi, smitnánd, smitrýmd, snertibil, snertilaust svæði, sóttvarnabil, sóttvarnafjarlægð, sýkingarfjarlægð, sýkingarmörk, tveggja metra reglan, tveggjaseilingahaf, viðtalsbil, víðisfjarri, nándarbil, nálægðarbann
Mér finnst þessi þrjú betri en félagsforðun:
- nándarbil
- nándarmörk
- heilsurými
Orðin taka á svokallaðri tveggja metra reglu, eru frekar jákvæð, en ekki er ætlunin að koma í veg fyrir öll samskipti eins og hið kaldranalega orð félagsforðun.
Tillaga: Nándarbil.
3.
Kennari er nú undir rannsókn fyrir að öskra á nemendur og
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hvað er átt við með orðalaginu að vera undir rannsókn? Skyldi þetta vera þýðing úr ensku? Ju, ég og fleiri sem horfa alltof mikið á leynilöggumyndir í sjónvarpi eða bíó könnumst við enska orðalagið:
Teacher is now under investigation for screaming at students and
Blaðamaðurinn þýðir hvert einast orð og hvikar hvergi frá röðun þeirra. Þetta er ensk íslenska. Á íslensku er ekki hægt að segja að konan í fréttinni sé undir rannsókn. Þó er hægt að nota segja að fólk liggi undir grun.
Leyfum okkur að þýða merkinguna á íslenskum, hristum af okkur hlekkina.
Tillaga: Lögreglan er að rannsaka konu sem öskraði á nemendur og
4.
Ekkert bendi til þess á þessum tímapunkti að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Það er ljóta orðið þessi tímapunktur. Hér freistast blaðamaðurinn til að nota það og þar af leiðandi lendir hann í nástöðu með þess og þessum.
Ég kalla orðið tímapunkt ljótt vegna þess að það er eiginlega vita gagnslaust og þar að auki mikið notað af blaðamönnum. Í flestum tilvikum má sleppa orðinu, rétt eins og gert er hér fyrir neðan. Merking málsgreinarinnar breytist ekki hætis hót.
Tillaga: Ekkert bendi til þess að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Byrja að deyja, forða gjaldþrotum og værukært úthverfi
29.4.2020 | 23:42
Orðlof
Trufla
Trufla s. (18. öld) ónáða; rugla, . To. [tökuorð?] ættað úr fr. troubler, sbr. e. trouble [ ]
Ferill þessa to. inn í ísl. er ekki fullljós, e.t.v. hefur það borist um e.; fær. trupult flókið, erfitt og trupulleiki erfiðleiki, vandræði eru líkl. af þessum sama toga.
Af so. trufla eru leidd no. trufl h. og truflun kv. ónáðun; ruglingur, ruglun.
maldid.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sá sem er byrjaður að deyja hlýtur að liggja banaleguna. Orðalagið í fréttinni er ekki gott. Notuð er sögnin að byrja til að tákna nútíð sem er furðulegt. Nútíð er bara nútíð.
Í heimildinni Ap News segir:
a growing number of victims are now dying at home.
Þarna segir ekkert um að fólk sé byrjað að deyja, aðeins að fólk sé að deyja í heimahúsum (e. dying, lýsingarháttur nútíðar; deyjandi).
Tillaga: og að útlit sé fyrir að margir séu að deyja á heimilum sínum.
2.
Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum
Fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu 28.4.20.
Athugasemd: Sögnin að forða merkir samkvæmt orðabókinni að bjarga, koma undan, koma í burtu. Ríkisstjórnin ætlar ekki að að bjarga gjaldþrotum heldur að forðast þau, afstýra þeim, koma í veg fyrir gjaldþrot.
Hægt er að forða manni frá gjaldþroti en gjaldþrotinu er ekki forðað vegna þess að það er hugtak.
Tillaga: Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og afstýra gjaldþrotum
3.
Nýi iPhone síminn mættur í verslanir hérlendis.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Dauðir hlutir geta ekki mætt vegna þess að sögnin að mæta merkir að hitta annan. Fólk mætir á einhvern stað og jafnvel mætist á förnum vegi.
Blaðamaður sem segir að sími sé mættur á einhvern stað hefur ekki góðan skilning á íslensku máli. Svona fer illa í ritmáli.
Tillaga: Nýi iPhone síminn kominn í verslanir hérlendis.
4.
68 ára gömul heimavinnandi húsmóðir i værukæru úthverfi austan Óslóar, hefði horfið.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir lýsingarorðið værukær þann sem er latur. Eflaust má halda því fram að orðið geti líka átt við þann sem vill láta fara vel um sig, hafa það náðugt. Hugsanlega á blaðamaðurinn við það. Sé svo hefði hann átt að nota annað orð sem henta betur.
Í fréttinni er sagt að úthverfið í Ósló sé værukært. Betra er að segja það friðsælt.
Furðulegt að villuleitarforritið skuli ekki hafa fundið að því að þarna er i í stað forsetningarinnar í.
Tillaga: þá 68 ára gömul heimavinnandi húsmóðir í friðsælu úthverfi austan Óslóar, hefði horfið.
5.
Stórslysi forðað þegar risahola myndaðist á þjóðveginum.
Fyrirsögn á ruv.is.
Athugasemd: Orðalagið að forða slysi gengur aftur, aftur og aftur. Slysum verður ekki forðað heldur er reynt af alefli að koma í veg fyrir þau, afstýra þeim.
Forðumst slysin.
Tillaga: Stór hola á þjóðveginum hefði getað valdið stórslysi.
Dauðarefsing fyrir börn, eignmaður sinn og snúa á haus
27.4.2020 | 20:25
Orðlof
Gýgur eða gígur
Orðið gýgur merkir: skessa, en orðið gígur merkir yfirleitt: eldgígur.
Málfarsbankinn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Samböndin mín og búagarðurinn minn halda mér heilum í höfðinu.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Málsgreinin er ekki skýr. Hvaða sambönd er átt við? Hvað er að vera heill í höfðinu? Er hægt að vera hálfur í höfðinu? Áður en lengra að haldið í útúrsnúningum er betra að draga þá ályktun að blaðamaðurinn sé góður í ensku en slakur í íslensku.
Keep me whole in the head.
Þannig gæti orðalagið verið á ensku og þar verður blaðamanninum fótaskortur.
Í fréttinni segir:
Hann segir að það hafi verið óþægilegt þegar fjölmiðlar fjölluðu um að hann væri búinn að vera, en gat lifað með því að eigin sögn.
Ef til vill var þetta svona á ensku:
He says it was uncomfortable when the media said he was finished but he could live with it.
Sé þetta svo er þýðingin ekki góð. Enska orðasambandið to live with it er vissulega hægt að þýða frá orði til orðs. Hins vegar merkir það frekar að maðurinn hafi sætt sig við ummælin, þau hafi ekki truflað hann jafnvel að þau hafi ekki skipt hann neinu máli.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa afnumið dauðarefsingu fyrir börn.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Í Sádi-Arabíu eru börn tekin af lífi vegna glæpa. Ofmælt er að dauðarefsingar séu fyrir börn. Hér hefði blaðamaðurinn átt að hugsa sig um og orða setninguna betur.
Ýmislegt er fyrir börn. Leikföng eru fyrir börn. Ýmis konar námsefni er fyrir börn. Þríhjól eru til fyrir börn. Sandkassar eru fyrir börn. Dauðarefsingar eru ekki fyrir börn.
Tillaga: Yfirvöld í Sádi-Arabíu eru hætt að refsa börnum með lífláti.
3.
Íslendingarnir sem skara fram úr í útivist.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaður Moggans birtir myndir af níu manns og leyfir sér að segja að þeir skari fram úr í útivist.
Auðvitað er það tóm vitleysa. Ég gæti auðveldlega talið upp með nafni meira en eitt hundrað manns sem stunda útivist og eru síst af öllu eftirbátar þeirra níu sem eru á myndunum á vefsíðu Moggans.
Fyrirsögnin er einfaldlega vanhugsuð og flokkast sem oflof. Fólkið á myndunum mun ábyggilega ekki taka ummælunum fagnandi þó það njóti útivistar.
Blaðamenn eiga ekki að fullyrða neitt nema þeir hafi heimildir fyrir orðum sínum.
Tillaga: Íslendingar sem stunda útivist af kappi.
4.
Þýska flugfélagið Condor mun fá 550 milljónir evra, sem svarar til rúmlega 87 milljarða króna, að láni frá þýska ríkinu og Hesse
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Hver er þessi Hesse sem ætlar að lána flugfélaginu Condor peninga? Blaðamaðurinn þýðir blint úr ensku og gerir enga tilraun til að gefa lesendum ítarlegri upplýsingar.
Á flestum vefsíðum á ensku er talað um The state of Hesse eða einfaldlega Hesse. Hér er átt við eitt af þeim sextán sambandslöndum sem mynda Þýskaland og nefnist á þýsku Hessen. Í íslenskum fjölmiðlum er oftast notast við það heiti. Þess má geta að í Hessen eru aðalskrifstofur flugfélagsins Condor.
Sjá nánar um Hessen á Wikipedia.
Tillaga: Þýska flugfélagið Condor mun fá 550 milljónir evra, sem svarar til rúmlega 87 milljarða króna, að láni frá þýska ríkinu og sambandslandinu Hessen
5.
Hér má sjá Hönnu og eiginmann sinn Nikita ásamt eldri syninum.
Myndatexti á visir.is.
Athugasemd: Þessi texti birtist á laugardegi og mánudaginn á eftir var hann enn óbreyttur. Afturbeygða fornafnið sinn á þarna ekki við.
Birt er mynd af foreldrum og barni. Blaðamaðurinn orðar þetta svona;
Hér má sjá
Þetta er kjánalegt orðalag. Allir sjá það sem er á myndinni. Til hvers að orða þetta svona? Heldur blaðamaðurinn að lesandinn átti sig ekki á fólkinu og geti tengt þau við efni greinarinnar?
Allt þetta getur bent til eftirfarandi og á raunar við alla íslenska fréttamiðla:
- Margir blaðamenn lesa ekki yfir eigin frétt, hvorki fyrir né eftir birtingu.
- Blaðamenn virðast ekki lesa yfir fréttir samstarfsmanna sinna.
- Ritstjórar og ritstjórnafulltrúar virðast ekki lesa ekki yfir fréttir, hvorki fyrir né eftir birtingu.
- Ritstjórnir kunna að vera illa að sér í íslensku máli eða leggja ekki áherslu á það.
- Útgáfur hafa ekki sett ekki sett sér gæðastefnu í íslensku máli og virðast sama um skrif blaðamanna.
- Ritstjórnir virðast halda að lesendum sé sama um slæmt málfar og villur.
- Ritstjórnir gera sér líklega enga grein fyrir þeim áhrifum sem málvillur og slæmt málfar geta haft á lesendur.
- Fólk virðist ráðið í blaðamennsku eftir kunnáttu í erlendum tungum og menntun og þekkingu en ekki hvort það geti tjáð sig á góðri íslensku.
Nauðsynlegt er að taka það fram að á flestum fjölmiðlum starfa fjölmargir afar góðir blaðamenn með glöggan skilning á íslensku máli og skrifa læsilegar fréttir. Skussarnir koma óorði á hina.
Tillaga: Hanna og Nikita, eiginmaður hennar, með eldri syninum.
6.
Ég vil snúa þessu á haus.
Orð viðmælanda í Kastljósi á ruv.is 27.4.20..
Athugasemd: Talsverður munur er á því að snúa fullyrðingu á haus eða snúa henni við. Fullyrðing getur verið sönn í rökræðum en oft brugðið á það ráð að snúa henni við til að skýra málstaðinn.
Fréttamaður í Kastljósi spurði:
Er hægt að gera þetta án þess að vita hvernig framtíðin verður?
Og viðmælandinn svaraði:
Ég myndi snúa þessu á haus og segja, er hægt að gera of lítið þegar þú veist ekkert hvernig framtíðin verður?
Hann snéri fullyrðingu blaðamannsins ekki á haus heldur snéri henni við. Þetta gerðist tvívegis í þættinum.
Tillaga: Ég vil snúa þessu á við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hávaðaútkall, refsunarform og 15 manna andafjölskylda
26.4.2020 | 12:09
Orðlof
Í og á vík
Eina almenna reglan er sú að staðir sem enda á -vík taka með sér í frá Vík í Mýrdal og að Súðavík. Frá og með Hólmavík erum við á slíkum víkum.
Ekki er ráðlagt að hætta sér út í rökræður við staðkunnuga í þessum efnum og nefna að í Landnámu sé talað um að Garðar hafi verið í Húsavík á Skjálfanda þegar Húsvíkingurinn við afgreiðsluborðið segist vera á Húsavík.
Ekki eru öll jafn kurteis og Hofsósingar sem voru í Hofsós þar til ferðamenn komu í bæinn og voru á Hofsósi.
Ástæðan fyrir því að Bolungarvík er skrifuð með erri er svo sú að þannig er þetta örnefni skrifað í Landnámu þótt sumum þyki nú rökréttara að fella errið burt vegna þeirra bolunga sem víkin hljóti að vera kennd við.
Gísli Sigurðsson. Tungutak. Morgunblaðið, blaðsíða 20, 25.4.20.
Bolungur, bulungur k. viðarköstur; sver trjábolur, holur trjábolur; sbr. nno. bolung, bulung bolur (á manni eða skepnu). Sjá bolur, buðlungur (2) og bulung(u)r.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Öll vötn renna til þess að Liverpool kaupi hann.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Er hægt að bjóða upp á svona skrifa?
Til er þessi málsháttur:
Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.
Þetta segir Vésteinn Vésteinsson mágur, Gísla Súrssonar, í sögu sem kennd er við þann síðarnefnda.
Skyldur er málshátturinn:
Öll vötn renna til sjávar.
Orðalagið Öll rök benda til er hins vegar algjörlega óþekkt.
Líklegast er að blaðamaðurinn hafi af vanþekkingu sinni blandað saman hrafli af því sem hann man og í fljótfærni verður til orðalagið: Öll vötn renna til þess að
Mál er að blaðamaðurinn skrúfi fyrir rennslið og hætti að sulla.
Tillaga: Allt bendir til þess að Liverpool kaupi hann.
2.
Lögreglan fór m.a. í hávaðaútkall um kl. tvö í nótt í Grafarvogi í Reykjavík.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er hávaðaútkall? Líklega þegar löggan ekur með sírenum og blikkandi ljósum um götur og vegi þangað sem förinni er heitið.
Nei, á löggumáli er það hávaðaútkall þegar löggan er beðin um að lækka hávaðann í hljómflutningsgræjum og óþarflega kátu fólki einhvers staðar úti í bæ.
Skrýtið. Aldrei er talað um morðútkall, árekstrarútkall, brunaútkall, sinuútkall eða fyllikallaútkall. Má vera að hér sé að verða stefnubreyting í orðfæri löggumálsins. Stofnanamállýskan tekur óvenju hröðum breytinum og auðvitað til hins verra.
Annars má hrósa blaðamanninum fyrir að geta þess að Grafarvogur sé í Reykjavík. Alltof oft er eins og fréttir séu eingöngu skrifaðar fyrir Reykvíkinga. Blaðamaður á að vera hafinn upp yfir staðsetningu sína í fréttaskrifum.
Löggufréttir eru oft ítarlegri en efni standa til. Fjórtán lína frétt hefði mátt endurskrifa á þennan hátt:
Þetta gerðist í nótt hjá lögreglunni:
- Lögreglan stöðvaði bifreið á 194 km hraða á Reykjanesbraut. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum.
- Þrettán mál voru bókuð vegna hávaða og þurfti lögreglan í sumum tilvikum að skerast í leikinn.
- Gestur í samkvæmi er sagður hafa ráðist á nágranna sem kvartaði undan hávaða. Honum var stungið í fangelsi.
Stutt og laggott. Þannig ætti að afgreiða dagbók löggunnar telji ritstjórn svona mál og önnur álíka vera á annað borð fréttaefni. Ekki á næstum því allt sem löggan tekur sér fyrir hendur er fréttaefni.
Skammstafanir má rekja til þess tíma er spara þurfti plássið á pappír eða jafna settan texta svo hann passaði á blað án þess að of mikið bil væri á milli orða. Þetta var tími blýsetningar og jafnvel fyrr. Á tölvuöld þarf ekki skammstafanir á borð við m.a. (meðal annars). Nóg er plássið og umbrotsforrit og textaforrit sjá um að jafna texta á þann hátt sem hver og einn vill. Ég nota afar sjaldan skammstafanir og tel að texti líði ekki fyrir það. Þvert á móti.
Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var margoft kölluð út í nótt.
3.
TV í sóttkví: Þjóðkunnir einstaklingar mæla með áhorfsefni í samkomubanni.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Hvað er áhorfsefni? Baðmull, krossviður, stóll, landslag, teppi eða hvað? Nei, þarna er verið að tala um það sem vert er að horfa á í sjónvarpi. Blaðamaðurinn kallar sjónvarp TV upp á ensku (tíví) af því að það rímar við sóttkví.
Tilraunir blaðamannsins til að vera fyndinn eru fleiri:
Nú á tímum sem flestir húka heima við er óhjákvæmilegt að glápstundum fjölgi.
Sögnin að húka er þekkt, merkir að sitja í hnipri, sitja boginn eða óþægilega. Fæstir húka heima, fólk er heima, dvelur heima og reynir eins og kostur er að njóta þess meðal annars með því að horfa á sjónvarp.
Ekki heldur þykir sögnin að glápa virðuleg, þvert á móti. Hún merkir að góna, stara og álíka.
Oft er í hálfkæringi talað um að glápa á kassann og er þá átt við sjónvarpið. Unglingar húka heima vegna þess að aðrir kostir bjóðast ekki og þeim leiðist.
Sniðugt orðalag missir marks sé það notað í óhófi. Blaðamaðurinn kann sér ekki hóf. Hugsanlega skilur hann ekki þessi tvö orð, glápa og húka. Heldur að þau merki að horfa og dvelja. Margt bendir til að hann sé ekki vanur skrifum.
Ýmislegt má leiðrétta í fréttinni:
Nú á tímum sem flestir húka heima
Betur fer á því að segja: Nú á tímum er flestir
Vísir hafði því samband við nokkra smekkvísa þjóðþekkta einstaklinga og athugaði hvaða sjónvarpsefni eða kvikmyndum þau mæla með
Þarna hefði átt að standa þeir mæla með.
Grínistinn kunnugi hefur verið að glápa á sjónvarpsefni víðs vegar að úr heiminum undanfarið.
Vel má vera að grínistinn sé kunnugur mörgu en þarna hefði átta að standa grínistinn kunni, það er í merkingunni þekktur. Á þessum tveimur orðum er reginmunur.
Eigandi Priksins er smekksmaður
Orðið smekksmaður finnst ekki í orðabók en ef til vill má hafa það um þann sem notar smekk.
segir Þorsteinn um þessa sci-fi spennuseríu á Hulu.
Sci-fi, borið fram sæfæ, er skammstöfun á ensku orðunum Sience-Fiction sem þýðir vísindaskáldskapur. Auðvitað skilja allir betur fyrrnefnda orðið og hvers vegna að nota þá þessa púkalegu íslensku sem enginn getur lært almennilega nema lesa bækur.
Hulu er ekki hula heldur sjónvarpsstöð en blaðamaðurinn lætur þess ógetið. Hann vill að lesendur giski á það sem hann er að skrifa um.
Blaðamaðurinn hefur auðsjáanlega rýran orðaforða. Eflaust er honum ekki alls varnað í skrifum og fréttamennsku. Verst er að enginn á Vísi les yfir það sem hann skrifar og þar af leiðandi veit blaðamaðurinn aldrei hvort skrifin eru góð eða slæm. Vísir á við alvarlegan stjórnunarvanda að etja sem bitnar á lesendum vefsins.
Tillaga: Þjóðþekkt fólk mælir með sjónvarpsþáttum og kvikmyndum í samkomubanni.
4.
Sádi-Arabía afnemur hýðingar sem refsunarform.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Orðið refsunarform er arfaslæmt orð, þekkist raunar ekki í orðabókum. Blaðamaðurinn hnoðast í fréttinni með þýðingar úr ensku. Þessi setning bögglast fyrir honum.
Saudi Arabia is to abolish flogging as a form of punishment
Þannig er fyrirsögnin á vefútgáfu BBC og blaðamaðurinn verður endilega að nota formið, sér enga leið framhjá því.
Svo virðist sem blaðamenn á Vísi megi misþyrma íslensku máli eins og þá lystir, stjórnendur vefsins kæra sig kollótta um málfar og lesendur.
Væri Vísir matvælafyrirtæki yrði því lokað vegna sölu á skemmdri vöru.
Tillaga: Sádi-Arabía afnemur hýðingar í refsingarskyni.
5.
Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu.
Fyrirsögn á dv.is.
Athugasemd: Annað hvort er blaðamaðurinn ótrúlega hroðvirkur eða hann er Dani sem kann ekki íslensku.
Heimildin er dk.newsner.com. Þar segir í fyrirsögn:
Andemor og 14 små ællinger tager elevator ned fra 6. sal.
Ingenting om mænnesker i andefamilien, segjum við á menntaskóladönskunni.
Held að fyrirsögnin komist á lista yfir þær tíu verstu.
Þess ber þó að geta að blaðamaðurinn hefur lagfært fyrirsögnina. Nú er hún svona:
Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 anda andafjölskyldu.
Ég hló upphátt. Hvort var það blaðamaðurinn eða ritstjórinn sem lagaði fyrirsögnina og gerði illt verra? Andar í andafjölskyldu? Andar andafjölskyldan? Svona má endalaust snúa út úr fyrirsögninni.
Tillaga: Gott fólk bjargaði andapari með fjórtán unga.
6.
Samkvæmt þýskum reglum geta þeir sem yfirgáfu heimili sín án þess að þurfa þess átt von á 150 evra sekt, jafnvirði um 24 þúsund króna.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Hér er glæpafrétt, sagt frá tveimur ólöglegum hárgreiðslustofum í Þýskalandi. Einnig frá fólki sem yfirgaf heimilið án þess að þurfa þess. Óljóst er í fréttinni hvernig þetta tvennt tengist.
Í fréttinni kemur fram að hárgreiðslustofurnar hafi verið í kjöllurum heimahúsa en allir sem horft hafa á bíó- og sjónvarpsmyndir vita að þá nota glæponar til alls kyns myrkraverka, búa til eiturlyf, brugga áfengi og limlesta fólk.
Hversu lágt geta menn lagst. Klippa karla og snyrta hár kvenna í kjallara. Næst má búast við því að einhverjir glæponar fari að snyrta fætur, aðrir að lakka neglur og enn aðrir að snyrta augabrúnir. Allir sjá að svona framferði endar með ósköpum. Auðvitað þarf að stemma stigu við þessu með rosalega hárri sekt, 24.000 íslenskum krónum. Gott á glæpalýðinn.
En hvað á að gera við fólk sem yfirgefur heimili sitt án þess að þurfa þess?
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um leið og fer að blása, óíslenskumælandi og fólk er ekki að lesa
22.4.2020 | 18:57
Orðlof
Smjörþefur
Fá smjörþefinn af einhverju. fá að kenna á e-u, finna óþægilegar afleiðingar af e-u.
Orðtakið er kunnugt frá 19. öld: jafngott þó hann fengi smjerþefinn af því [ ] Brandur fékk ekki síður smjerþefinn af mýbitinu en aðrir. [ ]
Smjörþefur er hin vonda lykt sem leggur af súru eða þráu smjöri [ ].
Halldór Halldórsson. Íslenskt orðtakasafn. Almenna bókafélagið. 1969.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Að þessu er mikil óprýði, auk þess sem rusl eins og þetta fer allt af stað um leið og fer að blása.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Þarna er forsetningin að notuð í stað af. Hægt er að komast hjá þessu með því að læra reglurnar sem segir frá á malid.is:
Að: Um stefnu eða hreyfingu til e-s staðar/í áttina til e-s: Lögreglumaðurinn gekk að bílnum. Lóðin nær að girðingunni.
Og:
Af: Um stefnu eða hreyfingu frá e-m stað/í áttina frá e-u: Hann datt af hjólinu. Við komum seint heim af ballinu. Það er fallegt útsýni af fjallinu. Hrifsa bókina af henni.
Mjög oft segir fólk í barnslegri einlægni að það blási þegar vind hreyfir eða það hvessir. Svona orðalag er alls ekki rangt en ber vitni um frekar lítinn orðaforða. Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:
aftakaveður
andblær
andi
andvari
áhlaup
bál
bál
bálviðri
belgingur
blástur
blær
blæs
brimleysa
derringur
drif
dúnalogn
dús
fellibylur
fjúk
fok
foráttuveður
galdraveður
gambur
garri
gerringur
gjóla
gjóna
gjóstur
gol
gola
gráð
gustur
hrakviðri
hregg
hríð
hroði
hrök
hundaveður
hvassviðri
hviða
hvirfilbylur
hægviðri
illviðri
kaldi
kali
kári
kul
kuldastormur
kuldastrekkingur
kylja
kyrrviðri
kæla
lágdeyða
ljón
logn
lægi
manndrápsveður
mannskaðaveður
músarbylur
nepja
næðingur
næpingur
ofsarok
ofsaveður
ofsi
ofviðri
ókjör
óveður
remba
rembingur
rok
rokstormur
rumba
runta
ræna
skakviðri
slagveður
snarvindur
snerra
snerta
sperra
sperringur
stilla
stormur
stólparok
stólpi
stórastormur
stórveður
stórviðri
strekkingur
strengur
streyta
streytingur
stroka
strykur
súgur
svak
svali
svalr
sveljandi
svipur
tíkargjóla
túða
veðrahamur
veðurofsi
vindblær
vindkul
vindsvali
vindur
vonskuveður
ördeyða
öskurok
Fyrst að svona mörg orð eru til um vind og vindgang í íslenskri náttúru er lítil þörf á að nota ævinlega sögnina að blása. Þegar hreyfir vind má nota orð eins og anda, kula, næða, gjóla, gusta, rjúka, hvessa, stríðhvessa, snögghvessa og ábyggilega fleiri.
Tillaga: Mikil óprýði er af þessu og fýkur út um allar jarðir þegar hvessir.
2.
Íslenskum málefnum á Spotify stýrir starfsmaður í Svíþjóð, sem kvað vera óíslenskumælandi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Óíslenskumælandi er ógott enda óorð sem óskrifandi nota ósjaldan (þetta er léleg tilraun til að vera fyndinn).
Í staðinn má hiklaust nota fleiri orð. Dæmi; ekki íslenskumælandi, ekki talandi á íslensku, tala ekki íslensku, ómælandi á íslensku og svo framvegis.
Blaðamaðurinn segi að starfsmaðurinn kvað vera ómælandi á íslensku.Vel gert.
Í Málfarsbankanum segir:
Orðmyndin ku stendur fyrir kvað (3.p.et.þt. af sögninni kveða) í merkingunni: vera sagður (sögð, sagt). Hann ku vera mikill íþróttamaður. Hún ku vera farin af landi brott. Svo ku vera.
Aftur á móti segir á malid.is:
Ku, sagnorð; stirðnað form af kvað af sögninni kveða: er sagður. Dæmi: Hann ku vera í megrunarátaki. Þetta ku vera besta kaffihúsið í miðbænum.
Mér finnst þetta ekki stirðnað orð, þvert á móti heyri ég það oft og les. Ekkert að því að nota það.
Tillaga: Íslenskum málefnum á Spotify stýrir starfsmaður í Svíþjóð, sem er ekki sagður tala íslensku.
3.
Þetta er heilmikil skjálftavirkni sem hefur verið.
Fyrirsögn á visir.is.
Athugasemd: Þarna hefur orðaröðin aflagast dálítið. Það hefði ekki kostað blaðamanninn mikinn tíma eða vangaveltur að lagfæra hana, sjá tillöguna hér fyrir neðan.
Oftar en ekki þurfti ég að lagfæra orð viðmælenda minna þegar ég var í blaðamennsku. Öllum þótti það sjálfsagt enda ekki gott að dreifa illa orðaðri hugsun sem viðmælandinn hafði ekki tíma til að velta fyrir sér þegar viðtal var tekið.
Í dag virðast blaðamenn taka allt gagnrýnislaust sem viðmælendur segja, skrifa það samviskusamlega niður rétt eins og það sé gullaldarmál.
Engum er greiði gerður með þannig afgreiðslu, ekki viðmælandanum, lesandanum eða blaðamanninum. Tilvitnuðu orðin eru talmál, alls ekki ritmál og eiga óbreytt ekki erindi til lesenda.
Uppáhaldsorð blaðamannsins sem skrifaði fréttina er ómögulegt. Orðið kemur fjórum sinnum fyrir í stuttum texta. Auðvelt er að skrifa sig framhjá svona nástöðum.
Tillaga: Þarna hefur verið heilmikil skjálftavirkni.
4.
Greinilegt að fólk er ekki að lesa auglýsingarnar.
Fyrirsögn á frettabladid.is.
Athugasemd: Eflaust er ekki rangt að nota sögn í nútíð ásamt annarri í nafnhætti; er að lesa. Þannig málfar er þó frekar flatt og lítt áhugavert
Stundum lendir orðaröð í setningum í rugli. Hér eru nokkur dæmi sem byggð eru á tilvitnaðri fyrirsögn:
Greinilegt er að fólk er ekki að lesa auglýsingarnar.
Fáir myndu segja svona vegna þetta að þarna standa sömu sagnir of nálægt hvorri annarri.
Þetta er hins vegar eðlileg orðaröð:
Greinilegt er að fólk les ekki auglýsingarnar.
Svo eru þeir til sem myndu orða þetta svona:
Greinilegt er að fólk er ekki búið að lesa auglýsingarnar.
Hér er örlítill meiningarmunur. Sleppum honum og áttum okkur á því að verið er að búa til þátíð með sögn í nútíð og búinn (vera + búin + að + nafnháttur). Hér fer betur á því að segja:
Greinilegt er að fólk hefur ekki lesið auglýsingarnar.
Eða:
Greinilegt er að fólk las ekki auglýsingarnar.
Ekki veit ég ekki hvað hefur ruglað okkur í íslenskunni og hvers vegna við förum Fjallabaksleið í stað þess að tala einfalt mál. Ég stend sjálfan mig að því að segja og skrifa svona. Bít mig jafnan í tunguna á eftir, en er hættur því, enda stórsér á henni.
Nánara um þetta í málfarsbankanum.
Tillaga: Greinilegt er að fólk les ekki auglýsingarnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jóhannesarpassían
20.4.2020 | 11:08
Und siehe da, der Vorhang im Tempel zerriss in zwei Stück von oben an bis unten aus.
Und die Erde erbebete, und die Felsen zerrissen,
und die Gräber täten sich auf, und stunden auf viel Leiber der Heiligen.
Jóhannesarpassían eftir Jóhann Sebastian Bach er stórkostlegt tónverk. Um síðustu páska hlustaði ég á flutning Passíunnar í streymi frá Thomaskirch í Leipzig í Þýskalandi. Þar hefur hún verið flutt árlega í eitthundrað og fimmtíu ár. Í þetta sinn var sögumaðurinn Benedikt Kristjánsson, tenór.
Ég hef aldrei hlustað á Jóhannesarpassíuna alla en túlkun, látbragð og söngur Benedikts í upphafi var svo áhrifamikill að ég gat ekki hætt. Í henni er sagt frá atburðum föstudagsins langa, píslavættis Jesú þegar hann var dreginn fyrir Heródes og Pontíus Pílatus og loks göngu hans með krossinn um götur Jerúsalem og upp á Golgatahæð.
Ég kann aðeins aðeins hrafl í þýsku, það sem maður lærði í menntaskóla forðum daga, og studdist því við texta á vefsíðu sem nefnist Bach Cantatas Website. Þar gat ég fylgst með þýska textanum og stuðst við enska þýðingu mér til skilnings.
Passían er himneskt listaverk í tvennum skilningi þess orðs, og ekki spillir fyrir að Benedikt er einkar Jesúlegur með sítt hárið sitt og einlægnin skín úr svip hans.
Passían er einstaklega nútímalegt verk, engin tilgerð, orðin úr Jóhannesarguðspjalli eru flutt á áheyrilegan hátt og kórinn tekur undir.
Í fjölmiðlum hefur Benedikt fengið afar góða dóma fyrir þátt sinn í flutningnum.
Hægt er að hlusta á Jóhannesarpassíuna með Benedikt Kristjánssyni hér og textinn á þýsku og ensku er hér.
Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr,
jörðin skalf og björgin klofnuðu,
grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Matteasarguðspjall.
Kráfust milljarða, gelda fyrir og fjöldinn var ekki há tala
18.4.2020 | 14:20
Orðlof
Tvö ál egg
Fjölmiðlar og fyrirtæki af ýmsum toga þurfa að sýna meiri metnað í málfari en nú virðist oft raunin. Það er makalaust að sjá ítrekað birtast á sjónvarpsstöðvum auglýsingar þar sem fólk er hvatt til að kaupa pizzu með 2 áleggjum. Hver ætlar að borða pizzu með áleggjum?
Mörg álegg geta ekki verið neitt annað en egg úr áli og þótt nú sé að rísa stór og mikil álverksmiðja austur á fjörðum er full langt gengið að ætla að sneiða framleiðsluna þaðan ofan á pizzur. Á kannski að bræða þessi egg ofan á pizzurnar?
Álegg ofan á brauð er eintöluorð og getur aldrei orðið fleirtöluorð. Ekki frekar en við getum sagt margar mjólkur eða margir rjómar.
Sum orð eru einfaldlega föst, annað hvort í eintölu eða fleirtölu. Það gildir t.d. um klippur og ótrúlegt að virðulegt fyrirtæki sem rekur margar verslanir skuli ekki sjá sóma sinn í því að hafa málfar á auglýsingum í verslunum sínum í lagi.
Rafmagnsklippa er auglýst í ónefndri verslun í borginni. Er þá hægt að kaupa þar eina klippu? Er hún kannski þá hálf í því tilviki, þ.e. bara með einu blaði?
Enn sorglegra er þegar gildandi menn í skólamálum gera sig seka um að segja að skólafólk hafi góða grunnfærni.
Enginn vill vera grunnfær, þ.e. yfirborðskenndur, einfaldur eða vitgrannur svo vitnað sé í orðabók. Sá sem býr yfir grunnfærni er sem sagt heldur heimskur. Það er því dapurleg hugsanavilla að segja að einhver búi yfir góðri grunnfærni.
Inga Rósa Þórðardóttir. Málfar og metnaður. visir.is.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Huginn ehf. og Vinnslustöðin hf. eiga enn aðild að málsókninni á hendur ríkisins þar sem útgerðirnar kráfust 10,2 milljarða króna bóta.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Sögnin að krefjast er ekki erfið. Í fleirtölu þátíðar er hún kröfðust.
Vera má að þetta sé fljótfærnisvilla en í öllum tölvum á ritstjórn Vísis er forrit sem leiðréttir stafsetningarvillur. Notaði blaðamaðurinn það ekki? Varla getur hann borið fljótfærni eða gleymsku fyrir sig.
Tillaga: Huginn ehf. og Vinnslustöðin hf. eiga enn aðild að málsókninni á hendur ríkisins þar sem útgerðirnar kröfðust 10,2 milljarða króna bóta.
2.
Heilt yfir er talið að tekjutap þjóðgarðsins verði um 300 milljónir króna.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Afar auðvelt er að skrifa sig framhjá orðalaginu og sleppa tveimur fyrstu orðunum án þess að málsgreinin skaðist.
Eiður Guðnason skrifaði á vefsíðu sinni:
Heilt yfir er í tísku hjá fjölmiðlafólki. Í bakþankagrein í Fréttablaðinu (20.05.09) notar höfundur þetta orðatiltæki tvisvar. Þetta merkir það sama og enska orðtakið on the whole, eða þegar á heildina er litið, þegar allt kemur til alls, þegar öllu er á botninn hvolft, þegar á allt er litið, í það heila (i det hele) og svo mætti áfram telja.
Samkvæmt fyrirsögninni fjallar fréttin um mann sem reyndi að taka peninga upp úr Peningagjá á Þingvöllum. Uppbygging fréttarinnar er hins vegar hræðilega slæm.
Í gamla daga var manni kennt að byrja á aðalatriðunum, því sem fyrirsögnin vísar til. Þess í stað byrjar fréttin á sögulegu yfirliti sem skiptir ekki nokkru máli. Þessu næst koma tvær kostulega málsgreinar:
Íslendingur var þó gómaður við það í síðustu viku að reyna að ná peningum upp úr Peningagjá. Heilt yfir er talið að tekjutap þjóðgarðsins verði um 300 milljónir króna.
Í stuttu máli: Maður tekur peninga upp úr Peningagjá og þjóðgarðurinn tapar um þrjú hundruð milljónum króna.
Hvernig er hægt að skilja ofangreint á annan hátt?
Að vísu má draga þá ályktun af því sem síðar kemur fram í fréttinni að tekjutapið sé vegna fækkunar ferðamanna, ekki þjófnaðarins úr gjánni. Fréttin er skrifuð með slíkum endemum að lesendur eiga að giska á hvað fréttmaðurinn á við. Þetta kallast hroðvirkni.
Áhrif fjölmiðla á tungutak fólks er gríðarlega mikið. Þess vegna skiptir öllu að í starf blaðamanns veljist þeir sem kunni að skrifa, hafi góðan skilning á íslensku máli, drjúgan orðaforða og vilja til að þjóna lesendum.
Tillaga: Talið er að tekjutap þjóðgarðsins verði um 300 milljónir króna.
3.
þar sem hann neitar fyrir að ósætti sé innan bæjarstjórnar
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Hér er blaðamaðurinn líklega að rugla saman tvennskonar orðalagi. Annars vegar að neita einhverju og hins vegar að þvertaka fyrir eitthvað. Útkoman verður rassbagan neita fyrir. Þannig talar enginn.
Svo segir í fréttinni:
Theodóra segir að bæjarbúar geldi fyrir óstjórnina hjá meirihlutanum.
Þegar blaðamaðurinn skrifar neita fyrir og bæjarbúar geldi fyrir er næstum komin lögfull sönnun fyrir því að hann er illa að sér í íslensku og varla skriffær. Hann getur ekki beygt sögnina að gjalda.
Svona á málsgreinin að vera:
Theodóra segir að bæjarbúar gjaldi fyrir óstjórnina hjá meirihlutanum.
Blaðamaður verður að geta skrifað þokkalega vel á íslensku, hafa skilning á málinu og bera virðingu fyrir lesendum. Sá sem ekki getur þetta ætti að leita sér að öðru starfi.
Blaðamaðurinn segir í fyrirsögn og svo virðist sem hann túlki þar orð annarra, heimildarmanns:
og Ármann ljúgi til um stöðuna
Í meginmáli fréttarinnar segir og er enn vitnaði í sama heimildarmann:
segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra Kópavogsbæjar, ekki fara rétt með í viðtali
Þetta er nú ekki merkileg blaðamennska. Talsverður munur er á því að ljúga og fara ekki rétt með. Sé fréttin lesin er hið seinna réttara og þá er hið fyrra uppspuni blaðamannsins.
Persónuleg skoðun blaðamanns kemur lesandanum ekki við og því á hann ekki að blanda þeim inn í fréttaskrif sín, jafnvel þó hann geti skrifað þokkalegt mál.
Tillaga: þar sem hann neitar því að ósætti sé innan bæjarstjórnar
4.
Áhorfendafjöldinn á leiknum var ekki endilega há tala en
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaðurinn á líklega við að fáir hafi verið á leiknum. Af hverju hann ekki skrifað eðlilega?
Hvaða tilgangi þjónar atviksorðið endilega í fréttinni? Orðið er algjörlega gagnslaust, segir ekkert og lesandinn veltir því fyrir sér hvort það sé þarna fyrir mistök eða að blaðamaðurinn hafi ekki verið með sjálfum sér við skrifin.
Fréttin stendur alls ekki undir nafni, er algjörlega óunninn og tilgangurinn með henni er afar óljós svo ekki sé meira sagt. Reyndur blaðamaður á að gera betur.
Pistill sem blaðamaður skrifar í fyrstu persónu er sjaldnast frétt heldur skoðun. Hún á þar af leiðandi ekki að vera merkt sem frétt heldur á allt annan hátt.
Tillaga: Ekki voru margir á leiknum en
5.
15. apríl 2019 er þó ekki gleymdur.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Ekki skal byrja setningu á tölustaf. Það gengur gegn öllum hefðum. Bókstafir og tölustafir eru ólíkir að merkingu og eiginleikum.
Með punkti er setningu eða málgrein lokið og þá getur önnur byrjað og það er gert með stórum staf í upphafi fyrsta orðs. Þetta er öllum auðskiljanlegt, truflar ekkert. Tölustafur truflar hins vegar vegna þess stóran staf vantar. Tala stendur þarna eins og illa gerður hlutur.
Tillaga: Ekki voru margir á leiknum en
6.
Fólkið hefur verið flutt í fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík og munu yfirheyrslur yfir því fara fram síðar í dag.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Í stað þess að segja að fólkið verði yfirheyrt gerist eitthvað óskiljanlegt í kolli blaðamannsins og hann skrifar; munu yfirheyrslur yfir því fara fram. Þetta er skýrt dæmi um nafnorðaáráttuna sem tröllríður löggunni og sumum blaðamönnum. Enskan byggir á nafnorðum en íslenskan á sagnorðum.
Nástaðan er mikil í fréttinni. Talað er um fólkið í belg og biðu. Greinilegt er að blaðamanninum leiðist að skrifa löggufréttir og hann gerist því hroðvirkur. Vill komast í almennileg mál. Fyrir alla muni ekki setja hann í teiknimyndasögurnar.
Tillaga: Fólkið hefur verið flutt í fangageymslur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu í Reykjavík og mun verða yfirheyrt síðar í dag.
7.
Einn hefur sent næstum tvö hundruð í sóttkví.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Halda mætti að einhver í smitrakningarhópi landlæknis sé svona afkastamikill. Nei, samkvæmt fréttinni bendir allt til að einn maður hafi smitað tvö hundruð manns.
Þar af leiðandi er fyrirsögnin röng, enginn smitaður sendir fólk í sóttkví. Það er verkefni annarra. Hins vegar er líklegt að smitberinn hafi valdið því að aðrir þurftu að fara í sóttkví.
Fréttin er bara vel skrifuð. Blaðamaðurinn notar til dæmis hvergi tölustafi, skrifar prósentur og aðrar tölur með bókstöfum. Hann hefði þó átt að lagfæra orðalag viðmælenda sinna.
Tillaga: Tvö hundruð manns þurftu að fara í sóttkví vegna eins manns.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mis paranojað fólk, sigla yfir til Karabíahafsins og hverfi 105
16.4.2020 | 10:52
Orðlof
Þolmynd sagna
Stundum er notuð germynd sagna þar sem eðlilegra væri að nota þolmynd eða miðmynd. Oft er sagt að órökrétt sé að segja
verslunin opnar klukkan 10,
vegna þess að verslunin sé ekki gerandi; heldur eigi að nota þolmynd og segja
verslunin verður opnuð klukkan 10.
Sömuleiðis þykir betra að nota miðmynd í dæmum eins og
Frásögnin byggist á traustum heimildum
og
Bíllinn stöðvaðist fyrir framan aðalinnganginn,
í stað þess að nota germynd og segja
Frásögnin byggir á traustum heimildum
og
Bíllinn stöðvaði fyrir framan aðalinnganginn.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Fólk er mis-paranojað
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Enska orðið paranoja merkir tortryggni, jafnvel sjúkleg tortryggni. Er ekki betra að segja að fólk sé mismunandi tortryggið en nota blendinginn mis-paranojað. Raunar er það svo að þessi enskublendingur skilst illa.
Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að lagfæra orðalag viðmælanda síns. Honum ber þó að gera það, ekki að dreifa málvillum eða bulli.
Í fréttinni segir:
þetta er engin vegalengd þannig lagað.
Líklega á viðmælandinn við að ekki sé langt að fara. Þannig lagað er óskiljanlegt orðalag.
Fram kemur í fréttinni að blaðamaðurinn hafi verið búsettur í Noregi síðustu tíu árin. Það skýrir margt.
Tillaga: Fólk er mismunandi tortryggið.
2.
Ætla að sigla yfir til Karíbahafsins.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Blaðamaður þarf ekki að hafa migið í saltan sjó til að átta sig á því að það siglir enginn yfir til Karíbahafsins. Ekki frekar en að Eimskip siglir yfir til Eystrasaltsins eða Miðjarðarhafsins. Miklu betra er að fljúga ef ætlunin er að fara yfir.
Þar að auki er ekki hægt að skrifa svona:
Upprunalega planið er að sigla upp með ströndum Noregs, alla leið til Lofoten.
Norður er alltaf upp á kortum, suður niður. Enginn fer upp til Akureyrar. Svona orðalag er barnalegt og ekki samboðið þeim sem vill kalla sig blaðamann.
Tillaga: Ætla að sigla til Karíbahafsins.
3.
Veiran myndar ákveðin prótein sem hindra hina sýktu frumu frá því að framleiða þau vopn sem hún myndi annars framleiða til að verjast árás.
Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 14.4.20.
Athugasemd: Orðalagið er ekki alls kostar gott. Sögnin að hindra veldur því að orðin frá því eru óþörf.
Þarna hefði mátt segja: koma í veg fyrir að fruman geti varist árás. Gallinn er þó sá það kann að vera ónákvæmara en það sem segir í fréttinni. Á móti kemur að tilvitnað orðalag er frekar stirt og í því er nástaða, framleiða framleiða.
Tillaga: Veiran myndar ákveðin prótein sem koma í veg fyrir að sjúka fruman framleiði þau vopn sem hún myndi annars gera til að verjast árás.
4.
Margrét minnir líka á þá reglu að þegar mjög stutt erindi eru send í tölvupósti, þá má spara öllum tíma með því að setja erindið í yfirskriftar-línuna (e. subject), og enda með tveimur skástrikum eða skammstöfuninni EOM (e. end of message).
Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 14.4.20.
Athugasemd: Blaðamaður hefur þetta eftir starfsmanni á ráðgjafarstofu sem leggur til að í tölvupóstum Íslendinga verði framvegis notuð enska að hluta. Þetta er vont ráð og ráðgjafarstofunni síst af öllu til sóma. Blaðamaðurinn hefði átt að átta sig á þessu og fá viðmælandann til skoða betur orð sín.
Brýnast er að koma enskum slettum og enskri orðaröð út úr íslenskunni. Ráð ráðgjafans er óráð.
Tillaga: Engin tillaga.
4.
Atvikið átti sér stað í hverfi 105 í Reykjavík.
Frétt mbl.is.
Athugasemd: Póstnúmer eru ekki hverfi. Mörg hverfi eru í póstnúmeri 105; Hlíðarnar sem raunar eru alls ekki eitt hverfi þó götur þar endi á orðinu hlíð. Miklabrautin skiptir Hlíðunum. Norðurmýrin á lítið sameiginlegt með Hlíðunum og sama er með Holtin, hverfið í kringum Sjómannaskólann. Norðan Laugavegs eru Túnin sem eiga ekkert sameiginlegt með hverfinu sunnan eða norðan Miklubrautar, Norðurmýrinni og Holtunum.
Á sama hátt er hægt að færa rök fyrir því að önnur hverfi í Reykjavík tengjast ekki þó þau hafi sama póstnúmer. Sama er með póstnúmer annars staðar, til dæmis póstnúmerið 201 Kópavogur, það er ekki hverfi enda á íbúi vestast á Borgarholtsbraut fátt sameiginlegt með þeim sem búa til dæmis í Engihjalla, sem er austast.
Niðurstaðan er því þessi að tilraun löggunnar til að búa til hverfi er tóm vitleysa. atvik sem gerist í hverfi 105 segir sáralítið staðsetninguna. Við bíðum bara eftir því að löggan segi eitthvað hafi gerst í hverfi 601 á Akureyri. Þá væri nú fátt eftir en að fækka í löggunni.
Svo má ekki gleyma blaðamönnunum sem leiðist eðlilega að skrifa löggufréttir. Það afsakar hins vegar ekki að endurbirta athugasemdalaust vitleysuna sem löggan skrifar í dagbók sína, þar með talið bullið um hverfi 105
Tillaga: Atvikið gerðist í [Hlíðunum].
5.
Háskólinn opnar 4. maí, en engin próf.
Fyrirsögn á mbl.is.
Athugasemd: Háskóli Íslands opnar ekkert enda getur hann það ekki, hann er ekki gerandi. Hins vegar er húsvörðurinn og rektorinn ábyggilega með lykla og geta því opnað dyr og sé ólæst opnar hver fyrir sig.
Líklega á blaðamaðurinn við að Háskólinn taki aftur til starfa þann 4. maí, haldi áfram þar sem frá var horfið. Af hverju er það þá ekki sagt í stað þess að segja að steypa, gler, járn og loft geri eitthvað?
Smáatriði? Nei, ekki aldeilis. Svona er ekki rétt mál heldur er ætlast til að fólk skilji vitleysuna vegna þess að svo margir orða þetta svona. Eigum við að gefa afslátt, sætta okkur við að það sem er rangt sé sagt vera rétt? Afleiðingin verður sú að íslenskunni hrakar.
Tillaga: Háskólinn verður opnaður 4. maí, en engin próf.
Veftröllin sem ljúga, bölva og formæla
15.4.2020 | 15:29
Umræður á alþingi götunnar standa nú sem hæst. Þær bergmála í athugasemdakerfum dagblaðanna og lemur þar hver á öðrum með öllum því versta sem fólk í sandkassaleik getur upphugsað, hugsi það á annað borð. Ekki margir lesa athugasemdirnar enda engin ástæða til. Sjaldnast hefur neitt uppbyggilegt komið frá þeim sem þar tjá sig.
Hér er sýnishorn af talsmáta. Við grípum niður dv.is þar sem standa yfir umræður um hugsanlega forsetakosningar í sumar:
Hrafnhildur Sif Thorarensen: Það stefnir allt greinilega í spennandi kosningar. Guðmundur Franklín fær svo sannarlega mitt atkvæði!
Jack Hrafnkell Danielsson: Maðurinn er siðblindur fjárglæframaður sem hefur gert sér það að leik að hafa fé út úr sakleysingjum og reyndar heilum lífeyrissjóði, orðið margsinnis gjaldþrota eða í það minnsta fyrirtækin sem hann hefur stofnað og fengið fólk og félög til að fjárfesta í, stungið öllu saman undan og sett allt draslið á hausinn.
Það yrði þá félegur forseti að hafa þetta rasista, sjallakvikindi sem forseta því að sjálfsögðu fengi sjallamafían alla þá fyrirgreiðslu sem hún bæði um og yrði þar með einráð í landinu.
Er það kanski það sem fólk vill sem slefar yfir þessum glæpahundi?
Arnar Loftsson: Jack Hrafnkell Danielsson einstaklega ósmekkleg orð og flokkast eiginlega sem meinyrði gagnvart Guðmundi.
Ég myndi aldrei dirfast að dylgja svona um fólk opinberlega.
Þú ert væntanlega með hreinann skjöld sjálfur og hvítþeginn og aldrei gert nein mistök á ævinni?
Og æsast nú leikar.
Jack Hrafnkell Danielsson: Arnar Loftsson Hvað er meinyrði?
Held að þú ættir að byrja á að læra íslensku og hvað orð þýða áður en þú ferð að glenna á þér rassgatið og ræpa eins og sá fáviti sem þú ert.
Arnar Loftsson: Dæmir sjálfann þig....með ósmekkleg orð gagnvart mér lika.
Hef séð skrif þín á fjölmiðlum. Net tröll sem sem býr í útlöndum. Og orðljótur með afbrigðum.
Jack Hrafnkell Danielsson: Arnar Loftsson Hef líka lesið eitt og annað eftir þig og ekkert af því er hægt að kalla vitrænt eða skynsamlegt.
Orðagjálfur hálfvitans hafa margir sagt um þig og þín skrif.
Arnar Loftsson: Jack Hrafnkell Danielsson þú ert ekki bara ljótur í framan og heldur líka illa innrætur að innan, svo að það á ekki við um þig, um að dæma fólk ekki eftir útlitinu.
Ég væri líka alltaf reiður ef ég myndi horfa á þetta andlit í speglinum á hverjum degi
Jack Hrafnkell Danielsson: Arnar Loftsson Lýðræðislegur MARKAÐSSINNI - innblásin af Adam Smith, Milton Friedman, Voltaire & frjálshyggju. Segir allt sem segja þarf um þig því milli eyrnana á þér er ekki neitt.
Á alþingi götunnar eru ekki greidd atkvæði heldur hafa þeir alltaf betur sem háværastir teljast, tvinna saman mest bölv og formælingar. Þeir eru sagðir fara hallloka sem ekkert tjá sig eða nenna ekki að elta ólar við sorann. Þögnin er misskilin og espar þá hver annan, keppast um að gera lítið úr öðrum og skýra mál af engri þekkingu. Veftröllin taka þögn sem viðurkenningu á upploginni sök.
Varla er hægt að álasa fólki fyrir að tjá sig í athugasemdadálkunum en það kann sig ekki. Vandamálið eru þeir sem leggjast svo lágt að lesa forina sem þar birtist. Ótrúlegt er að fólk hafi ekki hreinlega skaðast af lestrinum. Okkur verður mörgum bumbult.
Einungis bólusetning gegn COVID19 bjargar
14.4.2020 | 10:23
Einasta vonin að útrýma kórónaveirunni er að nægilega stór fjöldi fólks verði með mótefni. Sú náttúrulega vörn fæst eingöngu með bólusetningu eða smiti. Þegar nógu stór hópur er kominn með mótefni á veiran erfiðara með að dreifa sér. Slíkt kallast hjarðónæmi.
Þetta segir Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði athyglisverðu viðtali í Morgunblaði dagsins. Þar með höfum við leikmenn loksins staðfesting á því sem margir hafa velt fyrir sér. Þegar allir hafa veikst deyr faraldurinn út. En hvernig er hægt að ná þessu markmiði?
Hugtakið hjarðónæmi hefur verið í umræðunni síðan veiran barst frá Kína. Sumir hafa haldið því fram að sem flestir ættu að smitast, talað hefur verið um að ef 60% þjóðar hafi smitast muni hjarðónæmi hafa myndast.
Sagt er að Svíar stefni beint og óbeint á að öll þjóðin veikist af COVID-19 sem er ansi djarft tiltæki og getur skaðað marga, jafnvel lífshættulegt fyrir fjölmarga áhættuhópa.
Besti árangurinn næst að sjálfsögðu ef mótefni finnst og hægt verði að bólusetja stærsta hluta þjóðar. Einungis með bóluefni komast þjóðfélög heimsins í samt lag aftur. Þetta á við efnahag ríkja, fyrirtækja og einstaklinga.
Ólíklegt er að fólk fái heimild til að ferðast um heiminn án vottorðs um að það hafi verið bólusett. Ég spái því að staðfesting á því muni framvegis verða sett í vegabréf á rafrænan hátt og jafnvel önnur persónuskilríki.
Efnahagsleg framtíð fólks byggist á því að mótefni finnist og hægt verði nota það til bólusetningar. Fólk þarf að geta aflað tekna, átt íbúð, fætt sig og klætt og búið börnum sínum heimili. Hér er allt í húfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)