Hávaðaútkall, refsunarform og 15 manna andafjölskylda

Orðlof

Í og á vík

Eina almenna reglan er sú að staðir sem enda á -vík taka með sér í frá Vík í Mýrdal og að Súðavík. Frá og með Hólmavík erum við á slíkum víkum. 

Ekki er ráðlagt að hætta sér út í rökræður við staðkunnuga í þessum efnum og nefna að í Landnámu sé talað um að Garðar hafi verið í Húsavík á Skjálfanda – þegar Húsvíkingurinn við afgreiðsluborðið segist vera á Húsavík. 

Ekki eru öll jafn kurteis og Hofsósingar sem voru í Hofsós þar til ferðamenn komu í bæinn og voru á Hofsósi. 

Ástæðan fyrir því að Bolungarvík er skrifuð með erri er svo sú að þannig er þetta örnefni skrifað í Landnámu þótt sumum þyki nú rökréttara að fella errið burt vegna þeirra bolunga sem víkin hljóti að vera kennd við.

Gísli Sigurðsson. Tungutak. Morgunblaðið, blaðsíða 20, 25.4.20.

Bolungur, bulungur k. ’viðarköstur; sver trjábolur, holur trjábolur’; sbr. nno. bolung, bulung ’bolur (á manni eða skepnu)’. Sjá bolur, buðlungur (2) og bulung(u)r.

malid.is.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Öll vötn renna til þess að Liverpool kaupi hann.“

Fyrirsögn á dv.is.                        

Athugasemd: Er hægt að bjóða upp á svona skrifa?

Til er þessi málsháttur:

Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar.

Þetta segir Vésteinn Vésteinsson mágur, Gísla Súrssonar, í sögu sem kennd er við þann síðarnefnda.

Skyldur er málshátturinn:

Öll vötn renna til sjávar.

Orðalagið „Öll rök benda til …“ er hins vegar algjörlega óþekkt. 

Líklegast er að blaðamaðurinn hafi af vanþekkingu sinni blandað saman hrafli af því sem hann man og í fljótfærni verður til orðalagið: „Öll vötn renna til þess að …

Mál er að blaðamaðurinn skrúfi fyrir rennslið og hætti að sulla.

TillagaAllt bendir til þess að Liverpool kaupi hann.

2.

„Lög­regl­an fór m.a. í hávaðaút­kall um kl. tvö í nótt í Grafar­vogi í Reykjavík.“

Frétt á mbl.is.                         

Athugasemd: Hvað er „hávaðaútkall“? Líklega þegar löggan ekur með sírenum og blikkandi ljósum um götur og vegi þangað sem förinni er heitið. 

Nei, á löggumáli er það „hávaðaútkall“ þegar löggan er beðin um að lækka hávaðann í hljómflutningsgræjum og óþarflega kátu fólki einhvers staðar úti í bæ. 

Skrýtið. Aldrei er talað um morðútkall, árekstrarútkall, brunaútkall, sinuútkall eða fyllikallaútkall. Má vera að hér sé að verða stefnubreyting í orðfæri löggumálsins. Stofnanamállýskan tekur óvenju hröðum breytinum og auðvitað til hins verra.

Annars má hrósa blaðamanninum fyrir að geta þess að Grafarvogur sé í Reykjavík. Alltof oft er eins og fréttir séu eingöngu skrifaðar fyrir Reykvíkinga. Blaðamaður á að vera hafinn upp yfir staðsetningu sína í fréttaskrifum.

Löggufréttir eru oft ítarlegri en efni standa til. Fjórtán lína frétt hefði mátt endurskrifa á þennan hátt:

Þetta gerðist í nótt hjá lögreglunni:

  1. Lögreglan stöðvaði bifreið á 194 km hraða á Reykjanesbraut. Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum.
  2. Þrettán mál voru bókuð vegna hávaða og þurfti lögreglan í sumum tilvikum að skerast í leikinn.
  3. Gestur í samkvæmi er sagður hafa ráðist á nágranna sem kvartaði undan hávaða. Honum var stungið í fangelsi.

Stutt og laggott. Þannig ætti að afgreiða dagbók löggunnar telji ritstjórn svona mál og önnur álíka vera á annað borð fréttaefni. Ekki á næstum því allt sem löggan tekur sér fyrir hendur er fréttaefni.

Skammstafanir má rekja til þess tíma er spara þurfti plássið á pappír eða jafna settan texta svo hann passaði á blað án þess að of mikið bil væri á milli orða. Þetta var tími blýsetningar og jafnvel fyrr. Á tölvuöld þarf ekki skammstafanir á borð við „m.a.“ (meðal annars). Nóg er plássið og umbrotsforrit og textaforrit sjá um að jafna texta á þann hátt sem hver og einn vill. Ég nota afar sjaldan skammstafanir og tel að texti líði ekki fyrir það. Þvert á móti.

Tillaga: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var margoft kölluð út í nótt.

3.

TV í sóttkví: Þjóð­kunnir ein­staklingar mæla með áhorfs­efni í sam­komu­banni.“

Fyrirsögn á visir.is.                       

Athugasemd: Hvað er áhorfsefni? Baðmull, krossviður, stóll, landslag, teppi eða hvað? Nei, þarna er verið að tala um það sem vert er að horfa á í sjónvarpi. Blaðamaðurinn kallar sjónvarp „TV“ upp á ensku („tíví“) af því að það rímar við sóttkví.

Tilraunir blaðamannsins til að vera fyndinn eru fleiri:

Nú á tímum sem flestir húka heima við er óhjákvæmilegt að glápstundum fjölgi. 

Sögnin að húka er þekkt, merkir að sitja í hnipri, sitja boginn eða óþægilega. Fæstir „húka“ heima, fólk er heima, dvelur heima og reynir eins og kostur er að njóta þess meðal annars með því að horfa á sjónvarp.

Ekki heldur þykir sögnin að glápa virðuleg, þvert á móti. Hún merkir að góna, stara og álíka.

Oft er í hálfkæringi talað um að „glápa á kassann“ og er þá átt við sjónvarpið. Unglingar húka heima vegna þess að aðrir kostir bjóðast ekki og þeim leiðist.

Sniðugt orðalag missir marks sé það notað í óhófi. Blaðamaðurinn kann sér ekki hóf. Hugsanlega skilur hann ekki þessi tvö orð, glápa og húka. Heldur að þau merki að horfa og dvelja. Margt bendir til að hann sé ekki vanur skrifum.

Ýmislegt má leiðrétta í fréttinni:

Nú á tímum sem flestir húka heima 

Betur fer á því að segja: Nú á tímum er flestir … 

Vísir hafði því samband við nokkra smekkvísa þjóðþekkta einstaklinga og athugaði hvaða sjónvarpsefni eða kvikmyndum þau mæla með …

Þarna hefði átt að standa þeir mæla með.

Grínistinn kunnugi hefur verið að glápa á sjónvarpsefni víðs vegar að úr heiminum undanfarið.

Vel má vera að grínistinn sé kunnugur mörgu en þarna hefði átta að standa grínistinn kunni, það er í merkingunni þekktur. Á þessum tveimur orðum er reginmunur.

Eigandi Priksins er smekksmaður

Orðið „smekksmaður“ finnst ekki í orðabók en ef til vill má hafa það um þann sem notar smekk.

… segir Þorsteinn um þessa sci-fi spennuseríu á Hulu.

„Sci-fi“, borið fram „sæfæ“, er skammstöfun á ensku orðunum „Sience-Fiction“ sem þýðir vísindaskáldskapur. Auðvitað skilja allir betur fyrrnefnda orðið og hvers vegna að nota þá þessa púkalegu íslensku sem enginn getur lært almennilega nema lesa bækur.

„Hulu“ er ekki hula heldur sjónvarpsstöð en blaðamaðurinn lætur þess ógetið. Hann vill að lesendur giski á það sem hann er að skrifa um.

Blaðamaðurinn hefur auðsjáanlega rýran orðaforða. Eflaust er honum ekki alls varnað í skrifum og fréttamennsku. Verst er að enginn á Vísi les yfir það sem hann skrifar og þar af leiðandi veit blaðamaðurinn aldrei hvort skrifin eru góð eða slæm. Vísir á við alvarlegan stjórnunarvanda að etja sem bitnar á lesendum vefsins.

Tillaga: Þjóðþekkt fólk mælir með sjónvarpsþáttum og kvikmyndum í samkomubanni.

4.

„Sádi-Arabía af­nemur hýðingar sem refsunar­form.“

Fyrirsögn á visir.is.                        

Athugasemd: Orðið „refsunarform“ er arfaslæmt orð, þekkist raunar ekki í orðabókum. Blaðamaðurinn hnoðast í fréttinni með þýðingar úr ensku. Þessi setning bögglast fyrir honum.

Saudi Arabia is to abolish flogging as a form of punishment

Þannig er fyrirsögnin á vefútgáfu BBC og blaðamaðurinn verður endilega að nota „formið“, sér enga leið framhjá því. 

Svo virðist sem blaðamenn á Vísi megi misþyrma íslensku máli eins og þá lystir, stjórnendur vefsins kæra sig kollótta um málfar og lesendur.

Væri Vísir matvælafyrirtæki yrði því lokað vegna sölu á skemmdri vöru. 

Tillaga: Sádi-Arabía afnemur hýðingar í refsingarskyni.

5.

„Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 manna andafjölskyldu.“

Fyrirsögn á dv.is.                       

Athugasemd: Annað hvort er blaðamaðurinn ótrúlega hroðvirkur eða hann er Dani sem kann ekki íslensku.

Heimildin er dk.newsner.com. Þar segir í fyrirsögn:

Andemor og 14 små ællinger tager elevator ned fra 6. sal.

„Ingenting om mænnesker i andefamilien,“ segjum við á menntaskóladönskunni.

Held að fyrirsögnin komist á lista yfir þær tíu verstu.

Þess ber þó að geta að blaðamaðurinn hefur lagfært fyrirsögnina. Nú er hún svona:

Góðhjartaðir borgarar björguðu 15 anda andafjölskyldu.

Ég hló upphátt. Hvort var það blaðamaðurinn eða ritstjórinn sem „lagaði“ fyrirsögnina og gerði illt verra? Andar í andafjölskyldu? Andar andafjölskyldan? Svona má endalaust snúa út úr fyrirsögninni.

TillagaGott fólk bjargaði andapari með fjórtán unga.

6.

„Samkvæmt þýskum reglum geta þeir sem yfirgáfu heimili sín án þess að þurfa þess átt von á 150 evra sekt, jafnvirði um 24 þúsund króna. “

Frétt á ruv.is.                       

Athugasemd: Hér er glæpafrétt, sagt frá tveimur ólöglegum hárgreiðslustofum í Þýskalandi. Einnig frá fólki sem yfirgaf heimilið án þess að þurfa þess. Óljóst er í fréttinni hvernig þetta tvennt tengist.

Í fréttinni kemur fram að hárgreiðslustofurnar hafi verið í kjöllurum heimahúsa en allir sem horft hafa á bíó- og sjónvarpsmyndir vita að þá nota glæponar til alls kyns myrkraverka, búa til eiturlyf, brugga áfengi og limlesta fólk.  

Hversu lágt geta menn lagst. Klippa karla og snyrta hár kvenna í kjallara. Næst má búast við því að einhverjir glæponar fari að snyrta fætur, aðrir að lakka neglur og enn aðrir að snyrta augabrúnir. Allir sjá að svona framferði endar með ósköpum. Auðvitað þarf að stemma stigu við þessu með rosalega hárri sekt, 24.000 íslenskum krónum. Gott á glæpalýðinn.

En hvað á að gera við fólk sem yfirgefur heimili sitt án þess að þurfa þess? 

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Meðan Húsavík á Tjörnesi var eins og hver önnur bújörð—reyndar líka prestssetur, var forsetningin í, en þegar hún varð kaupstaður varð forsetningin á smám saman. 

Björn S. Stefánsson (IP-tala skráð) 26.4.2020 kl. 13:51

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir fyrir þetta, Björn. Merkileg skýring. Samt held ég að áður fyrr hafi fólk farið á bæi (bújarðir) eins og segir í vísunni um hann afa sem fór á honum Rauð. Þó má vera að orðalagið hafi verið misjafnt eftir landshlutum, jafnvel innan þeirra. 

Hér fyrir sunnan er oft sagt að einhver sé að fara austur fyrir fjall, og þá átt við austur yfir Hellisheiði. Held að orðalagið austur yfir fjall sé líka til. Er þó ekki hvorki farið yfir eða fyrir fjall.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.4.2020 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband