Dauðarefsing fyrir börn, eignmaður sinn og snúa á haus

Orðlof

Gýgur eða gígur

Orðið gýgur merkir: skessa, en orðið gígur merkir yfirleitt: eldgígur.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Sam­bönd­in mín og búag­arður­inn minn halda mér heil­um í höfðinu.“

Fyrirsögn á mbl.is.                         

Athugasemd: Málsgreinin er ekki skýr. Hvaða sambönd er átt við? Hvað er að vera heill í höfðinu? Er hægt að vera hálfur í höfðinu? Áður en lengra að haldið í útúrsnúningum er betra að draga þá ályktun að blaðamaðurinn sé góður í ensku en slakur í íslensku.

Keep me whole in the head.

Þannig gæti orðalagið verið á ensku og þar verður blaðamanninum fótaskortur. 

Í fréttinni segir:

Hann seg­ir að það hafi verið óþægi­legt þegar fjöl­miðlar fjölluðu um að hann væri bú­inn að vera, en gat lifað með því að eig­in sögn. 

Ef til vill var þetta svona á ensku:

He says it was uncomfortable when the media said he was finished but he could live with it.

Sé þetta svo er þýðingin ekki góð. Enska orðasambandið „to live with it“ er vissulega hægt að þýða frá orði til orðs. Hins vegar merkir það frekar að maðurinn hafi sætt sig við ummælin, þau hafi ekki truflað hann jafnvel að þau hafi ekki skipt hann neinu máli.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Yfirvöld í Sádí-Arabíu hafa afnumið dauðarefsingu fyrir börn.“

Frétt á visir.is.                         

Athugasemd: Í Sádi-Arabíu eru börn tekin af lífi vegna glæpa. Ofmælt er að dauðarefsingar séu „fyrir börn“. Hér hefði blaðamaðurinn átt að hugsa sig um og orða setninguna betur. 

Ýmislegt er fyrir börn. Leikföng eru fyrir börn. Ýmis konar námsefni er fyrir börn. Þríhjól eru til fyrir börn. Sandkassar eru fyrir börn. Dauðarefsingar eru ekki „fyrir börn“. 

Tillaga: Yfirvöld í Sádi-Arabíu eru hætt að refsa börnum með lífláti.

3.

„Íslend­ing­arn­ir sem skara fram úr í úti­vist.“

Fyrirsögn á mbl.is.                          

Athugasemd: Blaðamaður Moggans birtir myndir af níu manns og leyfir sér að segja að þeir skari fram úr í útivist. 

Auðvitað er það tóm vitleysa. Ég gæti auðveldlega talið upp með nafni meira en eitt hundrað manns sem stunda útivist og eru síst af öllu eftirbátar þeirra níu sem eru á myndunum á vefsíðu Moggans.

Fyrirsögnin er einfaldlega vanhugsuð og flokkast sem oflof. Fólkið á myndunum mun ábyggilega ekki taka ummælunum fagnandi þó það njóti útivistar. 

Blaðamenn eiga ekki að fullyrða neitt nema þeir hafi heimildir fyrir orðum sínum.

Tillaga: Íslendingar sem stunda útivist af kappi.

4.

„Þýska flug­fé­lagið Condor mun fá 550 millj­ón­ir evra, sem svar­ar til rúmlega 87 millj­arða króna, að láni frá þýska rík­inu og Hesse …“

Fyrirsögn á mbl.is.                          

Athugasemd: Hver er þessi Hesse sem ætlar að lána flugfélaginu Condor peninga? Blaðamaðurinn þýðir blint úr ensku og gerir enga tilraun til að gefa lesendum ítarlegri upplýsingar.

Á flestum vefsíðum á ensku er talað um „The state of Hesse“ eða einfaldlega „Hesse“. Hér er átt við eitt af þeim sextán sambandslöndum sem mynda Þýskaland og nefnist á þýsku Hessen. Í íslenskum fjölmiðlum er oftast notast við það heiti. Þess má geta að í Hessen eru aðalskrifstofur flugfélagsins Condor.

Sjá nánar um Hessen á Wikipedia. 

Tillaga: Þýska flug­fé­lagið Condor mun fá 550 millj­ón­ir evra, sem svar­ar til rúmlega 87 millj­arða króna, að láni frá þýska rík­inu og sambandslandinu Hessen

5.

„Hér má sjá Hönnu og eiginmann sinn Nikita ásamt eldri syninum.“

Myndatexti á visir.is.                         

Athugasemd: Þessi texti birtist á laugardegi og mánudaginn á eftir var hann enn óbreyttur. Afturbeygða fornafnið „sinn“ á þarna ekki við. 

Birt er mynd af foreldrum og barni. Blaðamaðurinn orðar þetta svona; 

Hér má sjá …

Þetta er kjánalegt orðalag. Allir sjá það sem er á myndinni. Til hvers að orða þetta svona? Heldur blaðamaðurinn að lesandinn átti sig ekki á fólkinu og geti tengt þau við efni greinarinnar?

Allt þetta getur bent til eftirfarandi og á raunar við alla íslenska fréttamiðla:

  1. Margir blaðamenn lesa ekki yfir eigin frétt, hvorki fyrir né eftir birtingu.
  2. Blaðamenn virðast ekki lesa yfir fréttir samstarfsmanna sinna.
  3. Ritstjórar og ritstjórnafulltrúar virðast ekki lesa ekki yfir fréttir, hvorki fyrir né eftir birtingu.
  4. Ritstjórnir kunna að vera illa að sér í íslensku máli eða leggja ekki áherslu á það.
  5. Útgáfur hafa ekki sett ekki sett sér gæðastefnu í íslensku máli og virðast sama um skrif blaðamanna.
  6. Ritstjórnir virðast halda að lesendum sé sama um slæmt málfar og villur.
  7. Ritstjórnir gera sér líklega enga grein fyrir þeim áhrifum sem málvillur og slæmt málfar geta haft á lesendur.
  8. Fólk virðist ráðið í blaðamennsku eftir kunnáttu í erlendum tungum og menntun og þekkingu en ekki hvort það geti tjáð sig á góðri íslensku.

Nauðsynlegt er að taka það fram að á flestum fjölmiðlum starfa fjölmargir afar góðir blaðamenn með glöggan skilning á íslensku máli og skrifa læsilegar fréttir. Skussarnir koma óorði á hina.

Tillaga: Hanna og Nikita, eiginmaður hennar, með eldri syninum.

6.

„Ég vil snúa þessu á haus.

Orð viðmælanda í Kastljósi á ruv.is 27.4.20..                          

Athugasemd: Talsverður munur er á því að snúa fullyrðingu á haus eða snúa henni við.  Fullyrðing getur verið sönn í rökræðum en oft brugðið á það ráð að snúa henni við til að skýra málstaðinn.

Fréttamaður í Kastljósi spurði:

Er hægt að gera þetta án þess að vita hvernig framtíðin verður?

Og viðmælandinn svaraði:

Ég myndi snúa þessu á haus og segja, er hægt að gera of lítið þegar þú veist ekkert hvernig framtíðin verður?

Hann snéri fullyrðingu blaðamannsins ekki á haus heldur snéri henni við. Þetta gerðist tvívegis í þættinum.

Tillaga: Ég vil snúa þessu á við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Örn Einar Hansen

Það er orðið löngu langþreytt að lesa greinar moggans hér. Málfarið er svo slæmt, að málvillingar eins og mér ... blöskrar.

Annars er það vanalegt að segja "lifa við það" ... sem er í raun bein þýðing úr ensku "to live with it". Þannig að viðkomandi er hvorki fær í ensku, né Íslensku.

Síðan vil ég spyrja um orðið "gýgur" ... er þetta ekki öfugt? Er ekki "gýgur", í merkingunni eld-gýgur", komið af orðinu gjóta ... sem þá verður gýgur ... en ekki gígur?

Örn Einar Hansen, 29.4.2020 kl. 17:24

2 Smámynd: Örn Einar Hansen

Málvillingum eins og mér ...úff ...

Örn Einar Hansen, 29.4.2020 kl. 17:25

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sá sem gagnrýnir málfar þarf ekkert endilega að vera með doktorspróf í málfræði. Ekki frekar en áhorfandi að fótboltaleik þurfi að vera atvinnumaður til að mega gagnrýna.

Annars er ágætt að fletta upp á vefsíðunni málið.is og kanna hvort maður fari rétt með. Þar er langflestum álitamálum svarað. Að vísu er þar fullyrt að vefurinn sé ekki tæmandi brunnur um málið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 29.4.2020 kl. 18:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband