Byrja að deyja, forða gjaldþrotum og værukært úthverfi

Orðlof

Trufla

Trufla s. (18. öld) ’ónáða; rugla,…’. To. [tökuorð?] ættað úr fr. troubler, sbr. e. trouble []

Ferill þessa to. inn í ísl. er ekki fullljós, e.t.v. hefur það borist um e.; fær. trupult ’flókið, erfitt’ og trupulleiki ’erfiðleiki, vandræði’ eru líkl. af þessum sama toga. 

Af so. trufla eru leidd no. trufl h. og truflun kv. ’ónáðun; ruglingur, ruglun’.

maldid.is.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„… og að útlit sé fyrir að margir séu byrjaðir að deyja á heimilum sínum.“

Frétt á visir.is.                          

Athugasemd: Sá sem er „byrjaður að deyja“ hlýtur að liggja banaleguna. Orðalagið í fréttinni er ekki gott. Notuð er sögnin að byrja til að tákna nútíð sem er furðulegt. Nútíð er bara nútíð.

Í heimildinni Ap News segir:

… a growing number of victims are now dying at home.

Þarna segir ekkert um að fólk sé „byrjað að deyja“, aðeins að fólk sé að deyja í heimahúsum (e. „dying“, lýsingarháttur nútíðar; deyjandi).

Tillaga: … og að útlit sé fyrir að margir séu að deyja á heimilum sínum.

2.

„Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum …“

Fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu 28.4.20.                        

Athugasemd: Sögnin að forða merkir samkvæmt orðabókinni að bjarga, koma undan, koma í burtu. Ríkisstjórnin ætlar ekki að að „bjarga gjaldþrotum“ heldur að forðast þau, afstýra þeim, koma í veg fyrir gjaldþrot.

Hægt er að forða manni frá gjaldþroti en gjaldþrotinu er ekki forðað vegna þess að það er hugtak.

Tillaga: Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og afstýra gjaldþrotum …

3.

„Nýi iP­hone síminn mættur í verslanir hér­lendis.“

Frétt á frettabladid.is.                         

Athugasemd: Dauðir hlutir geta ekki mætt vegna þess að sögnin að mæta merkir að hitta annan. Fólk mætir á einhvern stað og jafnvel mætist á förnum vegi.

Blaðamaður sem segir að sími sé mættur á einhvern stað“ hefur ekki góðan skilning á íslensku máli. Svona fer illa í ritmáli.

Tillaga: Nýi iP­hone síminn kominn í verslanir hér­lendis.

4.

„… 68 ára gömul heimavinnandi húsmóðir i værukæru úthverfi austan Óslóar, hefði horfið.“

Frétt á ruv.is.                          

Athugasemd: Samkvæmt orðabókinni merkir lýsingarorðið værukær þann sem er latur. Eflaust má halda því fram að orðið geti líka átt við þann sem vill láta fara vel um sig, hafa það náðugt. Hugsanlega á blaðamaðurinn við það. Sé svo hefði hann átt að nota annað orð sem henta betur. 

Í fréttinni er sagt að úthverfið í Ósló sé „værukært“. Betra er að segja það friðsælt. 

Furðulegt að villuleitarforritið skuli ekki hafa fundið að því að þarna er „i“ í stað forsetningarinnar í.

Tillaga: … þá 68 ára gömul heimavinnandi húsmóðir í friðsælu úthverfi austan Óslóar, hefði horfið.

5.

Stórslysi forðað þegar risahola myndaðist á þjóðveginum.“

Fyrirsögn á ruv.is.                          

Athugasemd: Orðalagið að „forða slysi“ gengur aftur, aftur og aftur. Slysum verður ekki „forðað“ heldur er reynt af alefli að koma í veg fyrir þau, afstýra þeim.

Forðumst slysin.

Tillaga: Stór hola á þjóðveginum hefði getað valdið stórslysi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband