Mis “paranojað“ fólk, sigla yfir til Karabíahafsins og hverfi 105

Orðlof

Þolmynd sagna

Stundum er notuð germynd sagna þar sem eðlilegra væri að nota þolmynd eða miðmynd. Oft er sagt að órökrétt sé að segja 

verslunin opnar klukkan 10, 

vegna þess að verslunin sé ekki gerandi; heldur eigi að nota þolmynd og segja 

verslunin verður opnuð klukkan 10. 

Sömuleiðis þykir betra að nota miðmynd í dæmum eins og 

Frásögnin byggist á traustum heimildum 

og 

Bíllinn stöðvaðist fyrir framan aðalinnganginn, 

í stað þess að nota germynd og segja 

Frásögnin byggir á traustum heimildum 

og 

Bíllinn stöðvaði fyrir framan aðalinnganginn.

Málsnið og málnotkun.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Fólk er mis-„paranojað“

Fyrirsögn á mbl.is.                       

Athugasemd: Enska orðið „paranoja“ merkir tortryggni, jafnvel sjúkleg tortryggni. Er ekki betra að segja að fólk sé mismunandi tortryggið en nota blendinginn „mis-paranojað“. Raunar er það svo að þessi enskublendingur skilst illa.

Blaðamaðurinn gerir enga tilraun til að lagfæra orðalag viðmælanda síns. Honum ber þó að gera það, ekki að dreifa málvillum eða bulli.

Í fréttinni segir:

… þetta er eng­in vega­lengd þannig lagað.

Líklega á viðmælandinn við að ekki sé langt að fara. „Þannig lagað“ er óskiljanlegt orðalag.

Fram kemur í fréttinni að blaðamaðurinn hafi verið búsettur í Noregi síðustu tíu árin. Það skýrir margt.

Tillaga: Fólk er mismunandi tortryggið.

2.

„Ætla að sigla yfir til Karíbahafsins.“

Fyrirsögn á mbl.is.                       

Athugasemd: Blaðamaður þarf ekki að hafa migið í saltan sjó til að átta sig á því að það siglir enginn „yfir til Karíbahafsins“. Ekki frekar en að Eimskip siglir yfir til Eystrasaltsins eða Miðjarðarhafsins. Miklu betra er að fljúga ef ætlunin er að fara yfir.

Þar að auki er ekki hægt að skrifa svona:

Upp­runa­lega planið er að sigla upp með strönd­um Nor­egs, alla leið til Lofoten.

Norður er alltaf upp á kortum, suður niður. Enginn „fer upp“ til Akureyrar. Svona orðalag er barnalegt og ekki samboðið þeim sem vill kalla sig blaðamann.

Tillaga: Ætla að sigla til Karíbahafsins.

3.

„Veiran myndar ákveðin prótein sem hindra hina sýktu frumu frá þvíframleiða þau vopn sem hún myndi annars framleiða til að verjast árás.“

Frétt á blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu 14.4.20.                      

Athugasemd: Orðalagið er ekki alls kostar gott. Sögnin að hindra veldur því að orðin „frá því“ eru óþörf.

Þarna hefði mátt segja: koma í veg fyrir að fruman geti varist árás. Gallinn er þó sá það kann að vera ónákvæmara en það sem segir í fréttinni. Á móti kemur að tilvitnað orðalag er frekar stirt og í því er nástaða, framleiða … framleiða.

Tillaga: Veiran myndar ákveðin prótein sem koma í veg fyrir að sjúka fruman framleiði þau vopn sem hún myndi annars gera til að verjast árás.

4.

„Margrét minnir líka á þá reglu að þegar mjög stutt erindi eru send í tölvupósti, þá má spara öllum tíma með því að setja erindið í yfirskriftar-línuna (e. subject), og enda með tveimur skástrikum eða skammstöfuninni EOM (e. end of message).“

Frétt á blaðsíðu 12 í Morgunblaðinu 14.4.20.                      

Athugasemd: Blaðamaður hefur þetta eftir starfsmanni á ráðgjafarstofu sem leggur til að í tölvupóstum Íslendinga verði framvegis notuð enska að hluta. Þetta er vont ráð og ráðgjafarstofunni síst af öllu til sóma. Blaðamaðurinn hefði átt að átta sig á þessu og fá viðmælandann til skoða betur orð sín.

Brýnast er að koma enskum slettum og enskri orðaröð út úr íslenskunni. Ráð ráðgjafans er óráð.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„At­vikið átti sér stað í hverfi 105 í Reykja­vík.“

Frétt mbl.is.                       

Athugasemd: Póstnúmer eru ekki hverfi. Mörg hverfi eru í póstnúmeri 105; Hlíðarnar sem raunar eru alls ekki eitt hverfi þó götur þar endi á orðinu hlíð. Miklabrautin skiptir Hlíðunum. Norðurmýrin á lítið sameiginlegt með Hlíðunum og sama er með Holtin, hverfið í kringum Sjómannaskólann. Norðan Laugavegs eru Túnin sem eiga ekkert sameiginlegt með hverfinu sunnan eða norðan Miklubrautar, Norðurmýrinni og Holtunum.

Á sama hátt er hægt að færa rök fyrir því að önnur hverfi í Reykjavík tengjast ekki þó þau hafi sama póstnúmer. Sama er með póstnúmer annars staðar, til dæmis póstnúmerið 201 Kópavogur, það er ekki hverfi enda á íbúi vestast á Borgarholtsbraut fátt sameiginlegt með þeim sem búa til dæmis í Engihjalla, sem er austast. 

Niðurstaðan er því þessi að tilraun löggunnar til að búa til hverfi er tóm vitleysa. „atvik“ sem gerist í „hverfi 105“ segir sáralítið staðsetninguna. Við bíðum bara eftir því að löggan segi eitthvað hafi gerst í hverfi 601 á Akureyri. Þá væri nú fátt eftir en að fækka í löggunni.

Svo má ekki gleyma blaðamönnunum sem leiðist eðlilega að skrifa löggufréttir. Það afsakar hins vegar ekki að endurbirta athugasemdalaust vitleysuna sem löggan skrifar í „dagbók“ sína, þar með talið bullið um „hverfi 105“

Tillaga: Atvikið gerðist í [Hlíðunum].

5.

„Há­skól­inn opn­ar 4. maí, en eng­in próf.“

Fyrirsögn á mbl.is.                        

Athugasemd: Háskóli Íslands opnar ekkert enda getur hann það ekki, hann er ekki gerandi. Hins vegar er húsvörðurinn og rektorinn ábyggilega með lykla og geta því opnað dyr og sé ólæst opnar hver fyrir sig.

Líklega á blaðamaðurinn við að Háskólinn taki aftur til starfa þann 4. maí, haldi áfram þar sem frá var horfið. Af hverju er það þá ekki sagt í stað þess að segja að steypa, gler, járn og loft geri eitthvað?

Smáatriði? Nei, ekki aldeilis. Svona er ekki rétt mál heldur er ætlast til að fólk skilji vitleysuna vegna þess að svo margir orða þetta svona. Eigum við að gefa „afslátt“, sætta okkur við að það sem er rangt sé sagt vera rétt? Afleiðingin verður sú að íslenskunni hrakar.

Tillaga: Háskólinn verður opnaður 4. maí, en engin próf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Orðlof?!!! Hvað er nú það? Ég hef heyrt þetta stundum í útvarpsviðtölum, en orðið er ekki til í mínum orðabókum, og ég efast um, að Mörður Árnason eða þeir í íslenskudeild Háskóla Íslands kannist nokkuð við orðið eða viti nokkuð, hvað það merkir, enda hef ég stundum sagt við útvarpið, þegar ég heyri þetta sagt, að maðurinn verði nú að útskýra mál sitt og segja hlustendum, hvað þetta þýðir, sem hann segir. Það er ekki alltaf svo gott að skilja, hvað fólk segir, eins og þetta með paranojuna. Ég sagði líka einu sinni við einn af vinum mínum, sem var að agnúast út af málfari unga fólksins, að það sé sífellt verið að tönglast á, hvað sé súrrealískt og hvað ekki. Ég sagðist einu sinni hafa flett upp á orðinu í þeim orðabókum, sem ég hef hérna, en fékk aðeins útskýringuna "súrrealískt". Það var því lítið á því að græða. Ég held ég viti svo sem, hvað er verið að meina með þessu orði, en það er ekki nóg. Maður verður að vita hundrað prósent, hvað það þýðir, nema þetta sé eitt af þessum óþýðanlegu orðum svokölluðum. Það minnir mig á Engel Lund, söngkonu, sem spurði mig einu sinni, hvort ég gæti þýtt orðið temmeligt með einu orði. Það gæti nefnilega enginn. Hún nefndi mörg slík dönsk orð, sem ekki væri hægt að þýða með neinu einu orði. Kannske súrrealískt og jafnvel paranojan séu ein af þeim orðum. Þó að við gerum nú býsna mikið af því að sletta - einkum dönskuslettum, sem hafa oft á tíðum festst í tungumáli okkar, þá er slíkt heldur hvimleitt, verð ég að segja. Hins vegar las ég í fyrra í grein í Ekstrabladet um Ísland, að Danir mættu læra meira af okkur Íslendingum, þegar verið væri að taka upp erlend orð inn í tungumálið, og hrósuðu okkur af því að hafa þó vit á því oftast nær að fella þau að íslensku málkerfi og beygingum, sem er fjarri því, að Danir geri alltaf, og nánast aldrei eiginlega - a.m.k. eftir dönsku orðabókunum að dæma. Mér finnst líka, að það verði að fylgja því eftir. Annað ætti ekki að koma til greina.

Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.4.2020 kl. 16:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband