ÓMINNI TÍMANS bók um stóratburði í Íslandssögunni
30.12.2024 | 15:31
Nýlega kom út bókin Óminni tímans og er eftir þann sem hér skrifar, blogghafann sjálfan.
Bókin fjallar um nokkur stórmerkilega atburði í sögu þjóðarinnar sem hafa haft mikil áhrif. Höfundurinn leyfir sér að draga ályktanir sem oft ganga gegn viðteknum skoðunum. Bókin tengir sama sagnfræði og jarðfræði og í henni eru birtar stórar myndir af einstæðri náttúru landsins.
Titill bókarinnar Óminni tímans vísar til þess að allt gleymist í tímans rás.
Svo kann að virðast sem Íslendingasögurnar gefi raunsanna mynd af því sem gerði frá landnámi og fram á elleftu öld. Þetta er ekki trúlegt. Fornsögunar eru ekki sagnfræði, þær eru meira í ætt við skáldskap.
Óminni tímans er 172 blaðsíður og í í brotinu A4, liggjandi.
Kaflar bókarinnar eru þrír og fjöldi undirkafla:
1. kafli: Um hvað reiddust goðin? Sagt er frá kristnitökunni sem sögð er hafa verið árið 1000. Varfærnislega er fullyrt að engin lög um kristni hafi verið sett. Einnig er fjallað um Svínahraunsbruna sem sannað er að hafi runnið árið 1000 og er því kristnitökuhraunið. Þarna á milli Lambafells í Þrengslum og Bláfjalla er fagurt útivistarsvæði sem fáir þekkja.
2. kafli: Uppruni landnámslagsins. Sagt er frá Vatnaöldum en þar varð mikið öskugos árið 877 og þá féll landnámslagið sem jarðfræðingar og fornleifafræðingar nota sem viðmiðun í aldursákvörðunum.
Vatnöldur eru vestan við við Veiðivötn. Þau urðu til í eldgosi árið 1477. Fyrir þann tíma var stunduð veiði í Stórasjó. Veiðimenn höfðust við í svokölluðu Hreysi sem er ofan við bakka Tungnaár sem nú rennur þar sem Stórisjór var.
3. kafli: Kalbletturinn í fornsögunum. Landsvæðisins sunnan og austar Mýrdalsjökuls er lítið getið í fornsögunum. Ástæðan er einfaldlega sú að árið 939 gaus í Kötlu og Eldgjá varð til. Líklegt er að gosið hafi í Eldgjá í allt að sex ár. Úr henni kom mikið hraun, um 844 ferkm, og gríðarleg gjóska. Allt bendir til að brennisteinsmóða úr eldum og hrauni hafi valdið hungursneyð og dauða þúsunda landsmanna líkt og gerðist í Skaftáreldum árið 1783. Þetta var allt gleymt þegar ritöld hófst á Íslandi.
Í bókinni Óminni tímans er fjöldi ljósmynda, sumar hverjar taka yfir heila opnu eins og sjá má á þeim myndum sem hér birtast. Einnig eru birtar skýringamyndir, töflur og jafnvel niðjatöl.
Bókin Óminni tímans fæst ekki í bókabúðum. Höfundurinn gefur bókina út, skrifaði hana, tók myndirnar og hannaði útlit hennar.
Bókin kostar 10.600 krónur. Hægt er að kaupa hana með því að millifæra fjárhæðina á reikning útgáfunnar og senda staðfestingu á greiðslu.
Ekki má gleyma að senda tölvupóst eða SMS með nafni, heimilisfangi, símanúmeri og netfangi.
- kt. 5107161750
- banki: 0513-26-009478
- verð 10.600 kr.
Senda á sigurdursig@me.com upplýsingar um:
- nafn kaupanda
- heimilisfang
- póstnúmer og staður
- síma
- netfang
Bókin er borin út á höfuðborgarsvæðinu en send í pósti utan þess.
Gott er að opna (tvísmella á) myndirnar sem fylgja pistlinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólasaga um vitleysisgang og hálfa kirkjuferð
26.12.2024 | 12:14
Jólin eru hjá mér tími mistaka og þá fer allt úrskeiðis en flest endar þó oftast vel. Ég gæti sagt margar hryllingssögur um atburði sem síst af öllu eru jólalegir. Þó er ýmislegt í frásögur færandi eins og þessi saga sem hér greinir frá sannar. Margir hafa skorað á mig að segja hana opinberlega því fullyrt er að hún sýni og sanni vandræða- og vitleysisganginn sem einkennir líf mitt. Sagt er að á jólunum eigi mannfólkið að gleðjast og þessi litla saga hljóti að geta skemmt sumum þó aðrir felli ef til vill tár.
Síðasta aðfangadagskvöld var ég eins og endranær boðinn í mat hjá syni mínum og fjölskyldu hans. Átti að mæta þar klukkan sjö og því fannst mér tilvalið að fara í kirkju á undan. Til að atburðarás sögunnar skiljist ber að taka það fram að ég bý lengst uppi í fjöllum eða því sem næst ... næstum því uppi í Heiðmörk. Sonurinn býr aftur á móti í Vesturbæ höfuðborgarinnar, nærri því úti við sjó. Neskirkja er skammt frá heimili hans og þess vegna ákvað ég að njóta þar helgistundar.
Ók ég nú varlega vestur í bæ. Kirkjudyrnar voru opnar er að var komið og gekk ég inn virðulegur í fasi og tók presturinn og meðhjálparinn á móti mér með handabandi því ég er heldri maður og er jafnan heilsað með virktum er ég geng til tíða. Ég var hissa á að sjá að í kirkjunni voru fáir, þó vantaði klukkuna þegar þarna var komið sögu aðeins um stundarfjórðung í sex. Fyrirfram hafði ég ekki búist við því að að fá sæti svona seint þó heldri maður sé. Svo hlédrægur og feiminn sem ég er, valdi ég mér sæti aftarlega, nærri því úti í horni, á bak við eina af súlunum sem líklega standa undir upphæðum kirkjunnar.
Svo gerðist kraftaverkið. Ég var ekki fyrr sestur en kirkjan fylltist af prúðbúnu fólki og helgihaldið hófst með fögrum og innilegum söng, tónum og ræðum presta. Mér vöknaði um augun og þurfti því að láta hugann reika langt frá athöfninni svo ég, vasaklútslaus maðurinn, færi nú ekki að skæla áður en Heimsumbólið yrði sungið.
Jú, ég var með pakkana úti í bíl, allir voru þeir að mínu mati fagurlega umvafðir skrautpappír og merktir. Sum sé, allt í góðum gír. Svo fraus ég, kólnaði allur að innan, var þó funheitt kirkjunni og ég enn í heldri manna loðfeldi. Ástæðan fyrir mínu innra frosti var að þarna í meinleysilegum hugrenningum mínum rann upp fyrir mér að gjafirnar frá dóttur minni og fjölskyldu hennar í Noregi og voru til fjölskyldu sonarins voru enn inni í skáp heima, lengst uppi í fjöllum, hálfa leið til Hveragerðis.
Nú voru góð ráð ekki aðeins dýr heldur vandfundin. Vissulega gæti ég brugðist minni elskulegu dóttur og afhent gjafirnar daginn eftir. Nei. Það var mér ekki sæmandi. Ég litaðist um í skyndi. Klukkan var tuttugu mínútur yfir sex og kórinn söng yndislega Núerglattídöprumhjörtum og á eftir átti að vera prédikun og síðan einsöngur. Sem betur fer hafði enginn beðið mig um að syngja svo ég bjó til plan eins og stjórnmálamaðurinn sagði fyrir síðustu kosningar.
Kórinn söng síðasta erindið og þá var komið að prédikuninni. Presturinn spjallaði alþýðlega við söfnuðinn, var elskulegur og sannfærandi svo klakinn innra með mér þiðnaði þó enn væri hjartslátturinn var yfir eitt hundrað slög á mínútu samkvæmt Eplaúrinu mínu.
Þarna voru taugar mínar þandar til hins ýtrasta og um leið og prestur sleppti síðasta orðinu rauk ég upp, hljóp yfir þrjár sætaraðir, stiklaði á höfði nokkurra aldraðra kirkjugesta og skaust á ofurhraða úr úr kirkjunni ... Nei, auðvitað ekki. Þó planið væri á þessa leið fór ég mér hægar.
Ég stóð varlega upp en kannski ekki nógu hljóðlega. Allir á bekkjarröðunum fyrir framan mig litu við, sumir sussuðu en lítil börn fóru að gráta. Ég fikraði mig eftir norðurvegg kirkjunnar, rakst óvart á súlu sem einhvern veginn hafði færst út á gangveginn, en hún skemmdist ekki mikið. Síðan hljóp ég út en fann um leið að augu allra kirkjugesta brunnu á baki mínu, vanþóknun þeirra var næstum heyranleg. Meira að segja einsöngvarinn gat ekki byrjað fyrr en bíllinn minn var kominn í gang. Hef ekki enn fengið þetta allt endanlega staðfest en allt bendir til að svona hafi þetta verið.
Á leiðinni upp í fjöllin braut ég nokkrar (margar) umferðarreglur á Hringbraut og Miklubraut en hirði ekki um að tíunda þær því löggan er vís með að lesa ritgerðina. Heim komst ég. Þar var sótsvört hríð en mér tókst að skríða inn um opinn glugga, sótti gjafirnar sem dóttir mín hafði pakkað svo snyrtilega inn. Í bílinn var ég aftur kominn er klukkan var sló korter í sjö.
Þetta stóð tæpt. Ég ók af stað, keyrði eins og druslan dró, skrensaði í beygjum og braut sömu umferðareglunar og áður en í öfugri röð. Tuttugu mínútum síðar var ég kominn gjóluna í Vesturbænum. Ég lagði upp á gangstétt fyrir framan heimili sonarins, hljóp út úr bílnum, varð samstundis fótaskortur á svellinu, reif sparibuxurnar og óhreinkaði skyrtuna, týndi vasaklútnum, húfan fauk og hárkollan með og Gammeldansk flaskan í buxnastrengnum brotnaði. Inn komst ég samt um síðir.
Enn var enginn sestur til borðs. Ég var nokkuð móður, lét þó ekki á neinu bera. Sagði engum frá því að ég hefði farið út úr messu í fyrri hálfleik (sem þykir nú ekki góð lenska á Meistaravöllum KR-inga). Nefndi ekki að ég hefði gleymt gjöfum dótturinnar heima heldur hlammaði mér í næsta stól og drakk sódavatn, viskí, koníak og bjór (í þessari röð) og náði þar með þokkalegu líkamlegu jafnvægi en andinn var enn órólegur.
Ýmsum þótti ég nokkuð fölur og var ég oft um kvöldið spurður um heilsufarið. Ég gaf fá svör en drafaði eitthvað um Íbettleheimerbarnossfætt og þóttust allir skilja. Gjafirnar frá fjölskyldu dóttur minnar voru vel þegnar. Og mínar einnig þó að ég hefði pakkað þeim inn í stóra kassa og þyngt með steinum og blómapottum en það er nú önnur saga og dagsannari en þessi hér.
Enginn lendir í svona hremmingum í jólastressinu á aðfangadegi jóla nema ég. Oftast hendir eitthvað álíka á hverju ári. Ástandið hefur samt ekkert lagast með hærri aldri enda fylgir honum ekki meira vit. Þvert á móti.
Í gamla daga sá ég yfirleitt um matinn á aðfangadegi eins og allir almennilegir feður gera. Eitt sinn matbjó ég kalkún heima og ók síðan á leifturhraða í gegnum bæinn til að komast til sonar míns sem hélt kvöldverðinn í nýju íbúðinni sinni. Þar biðu allir eftir aðalréttinum sem skoppaði um í aftursæti bílsins eins og bolti því hratt var ekið. Af þessu lærði ég að bíll með sósublettum í aftursæti selst við lægra verði en þeir sem enga hafa.
Eftir þetta tóku börnin mín sig til og hafa síðan búið til jólamatinn. Aldrei er ég beðinn um aðstoð. Mér er eiginlega sama, það á ágætlega við mig að éta. Þó var það eitt haustið að ég skaut ég átta rjúpur og á mig var skorað að búa til grafna rjúpu sem forrétt. Á þeim tíma þótti ég mikill veiðimaður, átti einstaklega auðvelt með að skjóta hvítar rjúpur á auðri jörð ef þær hreyfðu sig ekki mikið. Við matargerðina var mér það á að mislesa uppskriftina, notaði aðeins of mikið salt (jæja, alltof mikið) þegar ég gróf þær og forrétturinn varð þar af leiðandi óætur. Síðan hef ég ekki veitt rjúpur. Vil samt taka það fram að enginn hefur bannað mér mikið að fara á veiðar.
Í lokin er ágætt að taka það fram að fátt þykir mér betra en að gefa jólagjafir. Verst er þó að maður þarf samkvæmt siðvenjunni að pakka þeim inn í marglitan pappír sem er frekar tímafrekt, flókið og þreytandi verkefni. Læt mig þó hafa það þrátt fyrir aðhlátur enda eru jólin gleðitími. Er þaki?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Jólakveðjur af svölunum eru ódýrari en hjá Rúvsinu
23.12.2024 | 10:16
Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann, og hrópaði síðan af öllum kröftum á móti suðvestanáttinni.:
Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.
Sem betur fer hafði veðrið gengið niður og ekki var eins hvasst og um nóttina. Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust afar ógreinileg því nú tók að rigna:
Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.
Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.
Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.
Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.
Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, lét mér detta í huga að fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju. En nú erann Fróði kominn til himna en hver veit hvað þar er hægt að gera. Mér er sem ég heyri hann gelta, blessaðan.
Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).
Jólakveðjur útvarpsins
Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan og furðulegan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.
Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur.
Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis Stína, Barði, börnin og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig.
Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).
Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.
Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakka, ár, nýtt, líða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.
Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft.
Ríkisútvarpið græðir
Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.
Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega verður til þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór ef til vill aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkana eða gera eitthvað annað þarflegt. Svo agalega jólalegt. Ekki satt?
Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega þrjátíu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Útvarpsstjórinn las í hitteðfyrra í tvær mínútur meðan teknar voru hreyfimyndir og ljósmyndir af honum við þessa iðju og svo fór hann heim. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.
En bíddu nú aldeilis við, kæri lesandi. Nú kemur pylsan í rúsínuendanum.
Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.
Rafræna tómið
Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er ómissandi siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður um jólin. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur í fyrra, hitteðfyrr, þarhitteðfyrra, þarogþarogþarhitteðfyrra. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu, þar hverfur allt út í rafrænt tómið á bak við hringi Satúrnusar.
Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.
Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu og aðdáun fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem áður var nefnt og er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.
Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. Á skal á endanum vaða, eins og kellingin sagði. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.
Gasalega jólalegt
Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra bregðast við og lesa jólakveðjur í tíu mínútur (sem er svo gasalega jólalegt).
Kemur nú krókur á móti lævísu bragði Rúvsins og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn Íslands, Trump eða kóngurinn í Lúxsusborg eða einhver annar).
Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:
En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.
Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbbooooðsleeeeegaaaaa jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri!
(Vilji svo til að einhver drukkinn lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég kýs Katrínu Jakobsdóttir
10.5.2024 | 18:01
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Landsbankinn sýnir kjörnum fulltrúum fingurinn
20.3.2024 | 09:35
Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur. Bankastjórinn segir að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við. Bankinn sé ekki ríkisbanki heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins. Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu?
Leiðari Morgunblaðs dagsins er beinskeyttur og afar góður. Hann fjallar um kjörna fulltrúa á þingi og í sveitarfélögum og máttleysi þeirra gagnvart embættismannavaldi, álitsgjöfum og þrýstihópum. Nú er svo komið að kjörnir fulltrúar eru í aukahlutverki eins og það er orðað í fyrirsögn leiðarans.
Furðuleg kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM benda til þess að stjórnmálamenn, þjóðkjörnir fulltrúar, hafi afsalað sér völdum til þeirra sem bera ekki neina ábyrgð. Í leiðara Moggans segir:
Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.
Það er tímabært að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera, þeirra á valdið að vera og þeir þurfa að axla þá ábyrgð. Almannavaldinu má ekki útvista.
Bankasýslan var sett á fót til að ráðherra geti ekki haft bein áhrif á stjórnun ríkisbanka. Fyrirbærið er kalla armslengd frá ráðherra.
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng og höfundur leiðarans og segir í grein í Morgunblaði dagsins:
Uppákoman í kringum kaupin á TM er áminning um á hvaða villigötur við erum komin. Búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna.
Og í lok greinar sinnar segir Óli Björn:
Eftir því sem valdsvið úrskurðarnefnda eykst og þeim fjölgar, gjáin milli stjórna ríkis- fyrirtækja og eigandans breikkar, því óljósari er hugmyndin um að valdið sé sótt til almennings og að kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn kjósenda.
Einhvern veginn virðast mál þróast hægt og hægt á þann hátt að valdið færist frá kjörnum fulltrúum til einhvera annarra. Þegar þetta hefur gerst og mál eru komin í óefni og þá loks standa menn upp og gera athugasemdir.
Bankastjórn Landsbankans virðist fara sínu fram og bankastjórinn segir bankann almenningsfyrirtæki og stefna ráðherra eða ríkisstjórnar komi bankanum ekkert við. Gerður hefur verið samningur við annan banka um kaup á tryggingafélaginu án fyrirvara um samþykki hluthafafundar. Verði fallið frá kaupunum á TM virðist Landsbankinn þurfa að greiða seljandanum skaðabætur. Á skýru alþýðumáli kallast svona lagað að senda stjórnvöldum fingurinn.
Ekki er furða þó margir reki upp stór augu. Stjórnarandstaðan kennir fjármálaráðherra um og reynir að koma því inn hjá álitsgjöfum, þrýstihópum og fjölmiðlum að hann hafi alla tíð vitað um málavexti. Lætur svona í veðrinu vaka að hann hafi unnið til saka eins og segir í ljóðinu.
Stjórnarandstaðan horfir ekki á málavexti heldur notar tækifærið til að níða fjármálaráðherra vegna þess að hann gæti verið sekur um eitthvað óljóst. Er þetta ekki dálítið kunnugleg aðferðafræði?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Pópúlistinn Þórunn Sveinbjarnardóttir upphefur sjálfa sig
24.1.2024 | 10:44
Margir stjórnmálamenn eru svo illa málefnalega haldnir að þeir kunna ekkert ráð annað en að gera lítið úr skoðunum andstæðinga sinna og jafnvel niðurlægja þá. Aðferðin gengur þvert á málefnalega rökræðu.
Kjarni aðferðarinnar er að vitna aldrei beint til orða andstæðingsins heldur segja frá þeim með eigin orðum (í óbeinni ræðu).
Síðan er lagt út af hinum meintu orðum með af miklum þunga, gagnrýni og jafnvel hæðni. Markmiðið er augljóst og síst af öllu göfugt.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, alþingismaður, virðist vera geðug kona, þykist buguð undan vonsku heimsins og fellir tár þegar hún fréttir af nothæfum harmi til til að slá um sig með.
Í Morgunblaðinu 23.1.23 fær hún birta stutta grein eftir sig í henni segir stendur meðal annars:
Fyrir helgi skrifaði Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sig út úr ábyrgri og lýðræðislegri umræðu um málefni útlendinga hér á landi með ósmekklegri samsuðu útlendingaandúðar og hræðsluáróðurs.
Lesendur rekur í rogastans, ekki síst þeir sem þokkalega fylgjast með stjórnmálaumræðunni. Aðrir kunna að samsinna henni af því hún er svo geðþekk. Mjúkmált og elskulegt fólk segir aldrei neitt ljótt um aðra.
Engu að síður er ástæða til að greina stuttlega það sem hún segir um Bjarna Benediktsson, utanríkisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins í áðurnefndri grein:
- Skrif Bjarna eru ekki ábyrg.
- Skrifin eru þvert á lýðræðislega umræðu um málefni útlendinga.
- Skrif Bjarna markast af útlendingaandúð.
- Bjarni stendur fyrir hræðsluáróður
Allt þetta er rangt enda getur Þórunn ekki beint á neitt í skrifum Bjarna sem réttlætir ummælin. Þórunn er einfaldlega popúlisti, notar fasískar aðferðir til að gera lítið úr andstæðingi sínum og upphefja sjálfan sig í leiðinni sem væntanlega er tilgangurinn.
Hér er það helsta sem Bjarni sagði í færslu sinni á Facebook.19.1.23:
- Hann er ósáttur við að tjaldbúðir á Austurvelli.
- Erlendir þjóðfánar eiga ekki að vera fyrir framan Alþingi.
- Ekkert land hefur tekið við fleiri Palestínumönnum.
- Núverandi fyrirkomulag um hælisleitendamál ætti að vera svipað og hjá nágrannaþjónunum.
Bjarni leggur fram rök sem sumir kunna vissulega að vera á móti. Ekkert í orðum hans stendur undir skítkasti Þórunnar Sveinbjarnardóttur. Þórunn lýgur upp á Bjarna og skammast sín ekki.
Áður en einhver lesandi fari nú að agnúast út í það sem ég segi vil ég taka það fram að persónulega er mér alveg sama um tjöld og erlenda þjóðfána á Austurvelli. Þar að auki er ég hlynntur frjálsu palestínsku ríki rétt eins og stjórnvöld í Bandaríkjunum og víðar vilja.
Hins vegar finnst mér þeir sem búa í tjöldunum á Austurvelli vegi ódrengilega að þjóðinni sem hýsir þá með því að setja skilti á stórt tjald með orðinu barnamorðaráðherra. Sjá meðfylgjandi mynd. Að öllum líkindum er átt við íslenskan ráðherra. Við nánari umhugsun kunna Palestínumenn á Íslandi að vera í slæmum félagsskap hérlendra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frábær umfjöllun Moggans um atburðina í Grindavík
15.1.2024 | 10:06
Eldgosið við Grindavík er aðalumfjöllunarefni Mogga dagsins. Aðdáunarvert er hversu vel blaðið er unnið. Ritstjórnin er afar góð og skipulögð og blaðamenn standa undir væntingum lesenda.
Myndir ljósmyndara Moggans eru afskaplega góðar, vel unnar og klipptar. Forsíðumyndin er sláandi, tekin á þeim tíma dags er við, almenningur, héldum að nú væri öllu lokið, sprungan myndi teygja sig inn í bæinn og glóandi hraun myndi engu eira. Sem betur fer virðist nú að svartsýnustu spár muni ekki rætast. Grindavíkurbær stendur enn og íbúarnir eru eðlilega beygðir en alls ekki brotnir, eins og það hefur verið orðað.
Á einfaldan hátt rekja blaðmenn aðdraganda eldgosa við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur frá því 15. desember 2019 og fram til dagsins í gær, 14. janúar 2024. Mynd Kristins Magnússonar á blaðsíðu fjögur er stórkostleg og sýnir að varnargarðarnir björguðu bænum frá hrauninu sem hafði án efa runnið inn í hann. Um leið sýnir myndin varnarleysið gagnvart eldsprungunni sem opnaðist rétt við bæjarmörkin og eyðilagði þrjú hús. Mynd Árna Sæbergs ljósmyndara á blaðsíðu fimm til sex er tekin úr austri og sýnir á sama hátt jarðeldinn sem ryðst á íbúðarhúsin.
Ég tek sérstaklega eftir hversu allar myndirnar eru skarpar og eftirvinnslan góð.
Viðtölin við heimamenn og jarðvísindamenn eru fróðleg. Athygli mína vakti viðtalið við Vilhjálm Árnason, Grindvíkinginn sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Heimili hans er örskammt frá glóandi hrauninu. Hann segir í lok viðtalsins:
Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott.
Í þessum örfáu orðum felst kjarni málsins eins og sakir standa núna, á öðrum degi eldgossins, og nærri tveimur mánuðum eftir að ósköpin hófust.
Umfjöllun Moggans um eldsumbrotin eru afar góð. Þau eru fræðandi og upplýsandi fyrir almenning.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ójafnvægið sem veldur hlýnun jarðar
28.12.2023 | 11:31
Its freezing í New York - where the hell is global warming? sagði Donald Trump meðan hann var forseti Bandaríkjanna. Sumir landsmenn hans hlógu honum til geðs, aðrir hlógu vegna grunnhyggni mannsins sem jafnan talar án þess að íhuga málavexti.
Hérlendir spámenn hafa oftsinnis bent á snjóinn úti og fullyrt hæðnislega að hlýnun jarðar sé tóm vitleysa. Aðrir hafa sagt að koltvíoxíð geti varla verið slæm fyrir umhverfið því ljóstillífun gróðurs breytir því með vatni í sykrur og súrefni.
Upphrópanir eiga sjaldnast neitt sameiginlegt með rökræðum. Þeir sem hæst hrópa og eru sennilegastir ná oft miklu meiri árangri en þeir sem vanda sig og feta sig orðmargir að kjarna málsins. Þeir sem ekki lesa fjölmiðla eða bækur grípa óvandaðar fyrirsagnir og gera þær að sínum. Fyrirsagnahausar hafa oft hátt.
Júlíus Sólnes fyrrverandi prófessor ritar afar merkilega grein í Morgunblað dagsins. Hann segir, þvert á það sem margir hafa fullyrt, að varhugavert sé að túlka hærra hitastig jarðar sé af völdum sívaxandi losunar koltvíoxíðs. Júlíus og fjöldi annarra vísindamanna sem hann nefnir vilja fara aðra leið.
Kjarni málsins í grein Júlíusar er þessi:
Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, hefur nú um 40 ára skeið mælt orkustrauma sólar og jarðkerfisins inn og út úr gufuhvolfinu með gervitunglum sínum og geislamælitækjum, rétt fyrir ofan lofthjúp jarðar.
Jarðkerfið fær langmestan hluta þeirrar orku (99,98%) sem gerir jörðina byggilega frá sólinni. Ársmeðaltal orkunnar sem við fáum frá sólinni er 340 W/m2 (vött á fermetra) miðað við allt yfirborð jarðar (510,072 milljón ferkílómetrar).
Til þess að loftslag á jörðinni haldist stöðugt, verðum við skila sömu orku til baka út í geiminn. Ef við skilum minni orku en við fáum frá sólinni, hleðst hún upp í jarðkerfinu, það hlýnar. Ef við skilum meiri orku til baka, kólnar. Þetta er einföld eðlisfræði.
Þetta er ekki aðeins eðlisfræði heldur einfalt bókhald. Hvað verður svo um þessa orku sem hleðst upp í jarðarkerfinu ár hvert?
Júlíus vitnar í síðustu ástandsskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál. Þar kemur þetta fram:
- Um 91% umframorkunnar fer í að hita upp heimhöfin
- Um 3% fara í að bræða ísinn á Grænlandi, Suðurskautslandinu og landjökla jarðar
- um 5% hitar upp þurrlendi jarðar
- um 1% hitar upp andrúmsloftið.
Þetta eru stórmerkilegar upplýsingar og Júlíus lýkur grein sinni með þessum orðum:
Þótt ekki sé hægt að nota hitamælingar sem vísbendingu, er hlýnun sjávar og orkuójafnvægið skýr vitnisburður um hnattræna hlýnun, sem ekki er hægt að skýra nema með auknu magni gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp jarðar. Hana ber að taka alvarlega og grípa til viðeigandi ráðstafana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Déskotinn ...
24.12.2023 | 10:49
Ég var fyrsti maðurinn í Ríkið þennan Þorláksmessumorgun þegar aðventan reyndi af veikum mætti að lýsa upp skammdegismorguninn. Auðvitað vildi ég gera mitt til að gera tilveruna bjartari.
Gekk því út í rökkrið með nokkra bjóra í fanginu og rándýra koníaksflösku. Áður en ég bakkaði út úr stæðinu smellti ég einum bjór opnum með annarri hendi, með einari eins og við strákarnir segjum stundum. Munaði ekkert um það. Snjall, hugsaði ég og glotti eins og Skarphéðinn forðum í brennunni. Hjá mér var önnur glóð sem ég hugsaði gott til.
Ég bakkaði og ók síðan áfram en komst ekki út. Þar sem ég hafði ekið inn kom bíll á móti mér og að auki var þarna bannskilti; Útakstur bannaður. Ég glotti eins og Skarphéðinn í liðsbón á Þingvöllum. Umsvifalaust beygði ég til hægri og það ískraði næstum því í dekkjum. Flott.
Við hitt hliðið biðu nokkrir bílar eftir að komast út. Ég teygði mig í bjórinn og var kominn með hann að vörunum þegar ég tók eftir mótorhjólalöggumanni með hvítan hjálm sem stóð við fremsta bílinn.
Hvað í fjandanum er löggan að gera? hugsaði ég með mér. Ofurnæmur skilningur minn á aðstæðum var slíkur að svarið var lá mér í augum uppi. Varlega lagði ég bjórinn frá mér í flöskuhólfið á milli sætanna, setti húfuna mína ofan á og svo hann sæist nú ekki. Svo opnaði ég alla glugga til að lofta út gufunni úr bjórnum sem ég hafði opnað.
Löggan var með eitthvað tæki og otaði því að mér.
Hvað er þetta, spurði ég áhyggjufullur.
Það kemur í ljós, sagði löggan og brosti feimnislega. Blástu.
Má ég ekki bara koma síðar, spurði ég. Því þegar þarna var komið sögu sá ég dálítið eftir því að hafa burstað tennurnar í morgun upp úr vodka, en þá hafði mér fundist það alveg rosalega fyndið. Andremman sem fylgdi var hins vegar ekki góð. Ég át því piparkökur frá Bónusi í morgunmat til að eyða bragðinu.
Löggan hló og hélt ég væri að gera að gamni mínu.
Sko, ég verð örugglega betur upplagður á morgun, fullyrti ég.
Ha, ha, ha. Löggan hló innilega.
Ég blés og reyndi að velja skársta loftið úr lungunum en það misheppnaðist.
Heyrðu nú góði, sagði löggan, þegar tækið pípti. Röddin breytti um tón, hætti að vera föðurleg, og nú var hann eins og kennari sem komst að því að ég hafði ekki lært heima. Hann hló ekki lengur og brosti ekki heldur.
Viltu gjöra svo vel og stíga út úr bílnum? Svo mikill mannþekkjari er ég að ég áttaði mig nokkuð skjótt á því að þetta var ekki spurning.
Ég horfði á lögguna. Fann að haka seig.
Löggan horfði á mig. Gleðilaust.
Ég gaf í. Rúllaði upp öllum gluggum. Saug upp í nefið. Gerði þetta þrennt án þess að fipast. Bíllinn hökti fyrst en náði samt að komast áfram og ég ók á fullri ferð út úr bílastæðinu, upp næstu götu til austurs, niður þar næstu og svo til vinstri og þá hafði ég farið í hring, kominn aftur að hliðinu þar sem ég hafði ekið út án þess að kveðja kátu lögguna. Sá á eftir lögguhjólinu á leið upp götuna sem ég hafði ekið. Auðvitað myndi hann ekki vita að ég væri kominn aftur á sama stað.
Déskoti hvað ég er klókur, hugsaði ég, kveikti á græjunum og hlustaði á Va, pensiero, Þrælakórinn úr Nabucco eftir Verdi, þenja raust sína. Ég hækkaði og ók aftur sömu leið og ók eins og hinir, var bara rólegur. Kórinn fyllti bílinn. En uppi á horni beygði ég í vestur og saup á bjórnum. Hann var kaldur og góður. Snillingur þessi Verdi. Del Giordano le rive saluta ... söng kórinn.
Nokkru síðar heyrði ég í sírenu löggubíls. Blá, blikkandi ljós langt fyrir aftan mig. Ég svínbeygði til hægri og fyrir stóran vörubíl sem flautaði á mig og ljótur bílstjórinn sendi mér illt auga. Mér var alveg sama, ég hægði ferðina mikið og sendi honum fingurkveðju út um hliðargluggann. Ljótur bílstjórinn þeytti eimpípurnar og var alveg kominn upp að mér að aftan. Ég hafði búist við þessu. Nú skyggði vörubíllinn á mig svo löggan sá mig ekki enda ók hún á fullri ferð vestur. Bjánar. Áttu ekkert í mig. ... O mia Patria, si bella e perduta! ... Þvílík fegurð og ég trallaði með.
Ég yfirgaf félagsskap vörubílsins, gaf í og ók sem byssubrendur á eftir löggunni. Þessu býst enginn lögga við, að fulli kallinn aki á eftir henni í eftirleitinni. Þarna var ég eins og hann Arnes útilegumaður sem leitað var að í Akrafjalli á 18. öld. Hann hafði slegist í hóp leitarmanna og hjálpaði þeim að leita að sjálfum sér og gekk það eðlilega frekar illa. Enginn áttaði sig á klókindum Arnesar né heldur áttaði löggan sig á mínum.
Ég gaf í og fylgdi löggunni á þeysireið hennar í vestur. Þá varð mér litið í baksýnisspegilinn. Déskotinn. Fyrir aftan mig glömpuðu blá ljós og nógu skarpur var ég til að átta mig á að það voru engin jólaljós. Ég skipti eldsnöggt um akrein og bláu ljósin fylgdu. Dé...
Þetta hlýtur að vera tilviljun, hugsaði ég. Opnaði annan bjór með einari, saup á honum og fann að mér óx ásmegin. Ég get allt. Er mestur og bestur. Gatnamót voru framundan. Með bjórinn í hægri hendi beygði ég til vinstri, bíllinn tók vel við, í dekkjunum ískraði þegar hann skrensaði á blautu malbikinu, svona alveg eins og í bíómyndum. Í baksýnisspeglinum sá ég að löggan elti mig ekki, hún fjarlægðist, og ég sem af öllum háska hlæ, gaf í. Bíllinn þeyttist áfram og beint í fangið á kyrrstæðum strætó sem á óskiljanlegan hátt beið á rauðu ljósi. Ég fór ekki lengra þennan daginn nema ef verið gæti að ég hafi farið til himna. Til baka kom ég, man ekki hvort ég hafi verið rekinn vegna drykkjuskapar eða farið sjálfviljugur enda allt eins líklegt að þar hafi verið löng biðröð eins og eftir kóvid skimun. Skipti engu máli.
Verst þótti mér að ég hafði misst bjórinn og hann sullaðist út um allan bíl. Ég man svo glöggt eftir suðinu sem kom úr sprungnum bjórdósum á á gólfinu.
... che ne infonda al patire virtù! Þrælakórinn lauk söng sínum.
Déskotinn ... man ég að mér varð á orði, þegar ég sá bjórinn freyða á gólfinu. Skyldi koníakið vera óbrotið?
En þá vaknaði ég.
Sá að sængurverið var rifið. Lampinn lá brotinn á útvarpinu sem suðaði. Gluggatjöldin voru komin upp í rúm og ég hafði migið á mig.
Déskotinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tví-svala-jóla-kveðjur mínar eru jólalegri en síbylja Ríkisútvarpsins
23.12.2023 | 13:47
Í morgun gekk ég út á svalir, eins og ég geri jafnan árla á Þorláksmessu, dró nokkrum sinnum djúpt andann, og hrópaði síðan af öllum kröftum:
Sendi ættingjum og vinum hugheilar óskir um gleðileg jól og heillaríkt nýtt ár. Þakka allt á árinu sem er að líða.
Svo beið ég í dálitla stund þangað til svörin bárust:
Já, sömuleiðis, gleðileg jól, kallaði einhver.
Haltu kjafti, helv... þitt. Fólk er að reyna að sofa hérna, öskraði rámur kall.
Ha ..., kaseiru? hrópaði skræk kona.
Hundur gelti, annar tók umsvifalaust undir og köttur mjálmaði. Nagladekk skröltu á íslausu malbiki.
Ég gekk inn í stofu, nennti ekki að hlusta á hundgá, jafnvel þótt fyrr eða síðar myndi hundur sonar míns, hann Fróði (sko hundurinn heitir Fróði ekki sonurinn) hugsanlega gelta, mér eða einhverjum öðrum til ánægju.
Engu að síður velti ég því samt fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að senda jólakort eða tölvupóst. Hrópin á svölunum hef ég hins vegar stundað á Þorláksmessu frá því ég var barn og með því sparað mér ótrúlegar fjárhæðir í kaupum á jólakortum og frímerkjum. Og allir gleðjast yfir gleðilegjólaogfarsæltnýttárhrópum mínum (nema þessi rámi).
Jólakveðjur útvarpsins
Nú kann ábyggilega einhver að misskilja mig og halda að ég sé að gagnrýna rúmlega hálfra aldar gamlan sið að senda jólakveðjur á gufunni Ríkisútvarpsins. Skil ekki hvernig hægt er að finna það út.
Úr því að verið er að brydda upp á þessu, man ég aldrei eftir að hafa heyrt jólakveðju til mín á gufunni eða einhvers sem ég þekki og aldrei hef ég kannast við nöfn þeirra sem senda kveðjur. Sendendur eru alltaf einhverjir sem enginn þekkir, til dæmis Stína, Barði, börnin og fleiri sem ég man ekki hvað heita enda enn fleiri kveðjur þetta árið en í fyrra. Það bendir eindregið til þess að fleiri og fleiri láta Rúvið plata sig.
Sko, ég held því síst af öllu fram að kveðjurnar séu ómarkviss vitleysa fyrir kaupendur (og hlustendur).
Á kaffistofunni er því haldið fram að kveðjurnar séu að mestu leyti skáldaðar af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. Óneitanlega er það grunsamlegt hversu kveðjurnar eru allar keimlíkar.
Í þeim koma fyrir fyrir orðin óskir, jól, gleðilegt, þakka, ár, nýtt, líða og svo kryddað með innihaldsríkum samtekningum og forsetningum af ýmsu tagi. Nokkuð til í þessu.
Nú má vel vera að enginn sendi mér jólakveðju í útvarpinu, sem í sjálfu sér er dálítið sorglegt. Hitt er þó jafn líklegt að útilokað sé að hlusta með einbeittri athygli á yfir fjögur þúsund jólakveðjur lesnar í belg og biðu í tvo daga samfleytt og ná að grípa þá réttu. Hreint útilokað. Vonlaust. Óraunhæft.
Ríkisútvarpið græðir
Aðferðafræðin er doldið kjánaleg, svona markaðslega séð. Og enn vitlausari eru þeir sem punga út fullt af peningum til að senda kveðjur sem aldrei rata til móttakenda.
Margir nenna ekki lengur að hlusta á jólakveðjurnar sem er synd, illa farið með góða sorg sem óhjákvæmilega til verður þegar ekki næst að grípa kveðju sem maður vonar að hafi verið send en fór aldrei í loftið. Þó eru margir með gufuna opna og hlusta á kveðjurnar sem í síbylju hverfa út í algleymið meðan verið er að baka, pakka inn jólagjöfum, berja krakkanna eða eitthvað annað þarflegt. Það er nú svo agalega jólalegt. Ha? Ekki satt?
Hitt er ku vera dagsatt að Ríkisútvarpið græðir tæplega tuttugu milljónir króna á tiltækinu og kostar engu til nema þulunum sem þylja sig hása. Útvarpsstjórinn las í fyrra í tvær mínútur meðan teknar voru hreyfimyndir og ljósmyndir af honum við þessa iðju og svo fór hann heim. Allir hinir eru þegar á launaskrá svo kostnaðurinn er enginn. Bara tekjur. Stórbissniss.
En bíddu nú aldeilis við, kæri lesandi.
Í anda samkeppni og þjóðþrifa mun ég frá og með deginum í dag og fram yfir áramót bjóða landsmönnum að hrópa hjartnæmar jóla-, annaníjóla-, þriðjaíjóla-, fjórðaíjóla ... (og svo framvegis) og nýjárskveðjur af svölunum heima.
Rafræna tómið
Svo vel hefur tekist til á undanförnum árum að þetta er að verða siður, svo óskaplega jólalegur jólasiður um jólin. Spyrjið bara alla þá sem sendu og fengu kveðjur í fyrra, hitteðfyrr, þarhitteðfyrra, þarogþarogþarhitteðfyrra. Heimtur á kveðjum eru margfalt betri hjá mér en Ríkisútvarpinu, hjá því hverfur allt út í rafrænt tómið á bak við hringi Satúrnusar.
Verðið er miklu betra en hjá Ríkisútvarpinu, heilum 17,523% lægra. Og það sem meira er: Komist kveðja sannanlega ekki til skila fær kaupandinn 33,9% endurgreiðslu. Keppinauturinn getur sko ekki toppað þetta og mun ekki einu sinni reyna það.
Fyrst nú er verið að misskilja viljandi tilganginn með þessum skrifum mínum vil ég nefna þá staðreynd í fullkominni vináttu, kurteisi og virðingu og aðdáun fyrir hefðum fólks að það er ábyggilega ódýrara og markvissara að hrópa kveðjur af svölunum en að borga Ríkisútvarpinu fyrir að lesa þær út í rafræna tómið sem áður var nefnt og er að auki umhverfislega stórhættulegt og um síðir getur valdið ólæknandi veirusjúkdómum eins og dæmi síðustu ára sanna.
Eða heldur þú, lesandi góður, að Kóvid veiran hafi bara orðið til úr engu? Í Kína? Ó nei. Ekki aldeilis. Á skal á endanum vaða, eins og kellingin sagði. Eða hvers vegna mun yfirborð sjávar hækka um fimm sentímetra á næstu þrem árum og veiran stökkbreytast? Ég bara sper.
Gasalega jólalegt
Já, það má vel vera að Ríkisútvarpið reyni að klekkja á mér, samkeppnisaðilanum (aðili er svooo fallegt orð), með því að láta útvarpsstjóra bregðast við (og verða þá viðbragðsaðili) lesa jólakveðjur í tíu mínútur. Kemur nú krókur á móti þessu bragði og mun ég breyta um rödd í tíu mínútur og þykjast vera forsetinn (landsins, Trump eða kóngurinn í Lúxúmbúrg eða einhver annar).
Þá hrekkur þetta eflaust upp úr lesandanum:
En það er svo gasalega jólalegt að hlusta á jólakveðjulesturinn á gufunni.
Já, því skal ég nú trúa. Það er líka obbbbb-ooooðs-leeeeeg-aaaa-a jólalegt að tala til þjóðarinnar úti á svölunum mínum á Þorláksmessu-, aðfangadags- og jóladagsmorgni. Þar að auki hef ég tvennar svalir, í austur og suður. Toppaðu það, þú þarna útvarpsstjóri!
(Vilji svo til að einhver óglöggur lesandi telji sig hafa lesið ofangreindan pistil á Þorláksmessu á síðasta ári skal það fyrirfram dregið í efa vegna þess að fólk man ekkert stundinni lengur.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Er sá mótmælandi sem beitir ofbeldi?
8.12.2023 | 18:12
Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð. Ég er rosa fegin að hafa getað óskað honum gleðilegra jóla, segir Katrín Harðardóttir mótmælandi í samtali við Vísi.
Er ofbeldi alltaf réttlætanlegt? En er það stundum réttlætanlegt? Hvenær er það réttlætanlegt og hvenær ekki?
Þessar spurningar leita á mann þegar fréttir berast af því að Katrín Harðardóttir mótmælandi hafi ráðist að utanríkisráðherra og hellt yfir hann einhverju rauðu dufti sem kallað er glimmer. Er það ekki ofbeldi?
Er líklegt að sá sem verður fyrir ofbeldi breyti um skoðun og fari að vilja ofbeldismannsins?
Sautján manna hópur réðst fyrir sléttu ári á tvo menn í veitingahúsi í Bankastræti, barði þá til óbóta og annar þeirra var stunginn með hnífi. Þeim hafði ofboðið eitthvað sem tvímenningarnir höfðu gert.
Í ágúst kveiktu glæpamenn í bíl lögreglumanns. Þeim hefur líklega ofboðið starf mannsins.
Í september síðast liðinn réðust menn á útlending sem sótti ráðstefnu á vegum Samtakanna 78. Ljóst má vera að þeim ofbauð að kynhneigð ráðstefnugestsins var önnur en þeirra.
Eru einhverjar líkur á því að þeir sem urðu þarna fyrir ofbeldi hafi látið segjast? Samþykkt það sem ofbeldismennirnir vildu? Nei.
Getur smávægilegt ofbeldi stigmagnast og enda með limlestingum eða dauða?
Prófessorinn í bandaríska háskólanum tók upp byssu og skaut á samstarfsmenn sína af því af hann fékk ekki stöðuhækkun sem hann vildi.
Frakkinn greip hníf og lagði til fólks úti á götu af því að hann vildi hefna fyrir stuðning franskra stjórnvalda við morðæði Ísraela á Gaza.
Í New York ætlaði rithöfundurinn Salman Rushdie að flytja ræðu um Bandaríkin sem griðarstað fyrir rithöfunda úr öðrum löndum. Bandaríkjamaðurinn Hadi Matar stakk Rushdie margsinnis, meðal annar í hægra augað. Ástæðan var einfaldlega gagnrýni Rushdies á Islam og bók hans Sálmar Satans.
Ofbeldismaður réttlætir valdbeitingu sína, heldur að hún breyti tilverunni til hins betra. Það gerist aldrei. Blóð réttlætir ekkert.
Mér ofbýður ofbeldi Katrínar Harðardóttur mótmælanda. Hún réttlætir gerðir sína rétt eins og aðrir ofbeldismenn. Í sannleika sagt er enginn munur á ofbeldi annar en stigsmunur.
Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð.
Þetta segir mótmælandinn í viðtali við Vísi. Hann réttlætir ofbeldið rétt eins og aðrir ofbeldismenn.
Svo er það siðferðilega spurningin: Hvenær verður mótmælandi að ofbeldismanni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.12.2023 kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mynd af óróasvæðinu við Grindavík
20.11.2023 | 17:55
Veðurstofan gerir góð kort af óróasvæðinu í og við Grindavík. Þó hefur vantað nógu góðar myndir fyrir okkur sem erum ekki gjörkunnugir staðháttum. Um daginn gekk ég leyfislaust á Þorbjarnarfell og tók þar nokkrar myndir af staðháttum. Þar á meðal þá sem hér fylgir.
Ég leyfði mér að setja inn örnefnin sem koma oft fyrir í grindvísku fréttunum, hef vonandi sett þau rétt. Svo virðist sem myndin sé ekki alveg í fókus hér fyrir ofan en þá er best að tvísmella á hana og hún birtist í allri sinni fegurð enda er landslagið er tilkomumikið.
Mikið er talað um Hagafell. Það er móbergsfjall en gígar eru vestan við það og eru tengdir Sundhnúksgígunum sem eru norðaustan við fellið. Þeir urðu til í gosi fyrir rúmlega 2000 árum. Um helmingur húsa í Grindavík stendur á hrauninu sem þá rann. Hinn helmingurinn stendur á um 8000 ára gömlu hrauni og Hópsnes er úr sama gosi.
Fagradalsfjall er í baksýn og þar glittir í gíginn frá árinu 2021. Ef grannt er skoðað, hægra megin við Stóra-Hrút, sést dökkur hrauntaumur sem rann í sama gosi ofan í Nátthagadal.
Sýlingarfell er vinstra megin á myndinni. Hraunið úr Sundhnúksgígum rann allt í kringum fjallið og er Blá lónið á mörkum þess og Illhrauns sem rann á árunum 1210 og 1240. Jafngömul eru Eldvarpahraun og Arnarseturshraun sem eru skammt frá.
Sýlingarfell er torkennilegt örnefni við fyrstu sýn. Í Íslenskri orðsifjabók segir að sögnin að sýla merki að gera skarð eða skoru í eitthvað. Sýling, sýldur getur verið fjármark, eyrnamark. Efst í Sýlingarfelli er lægð, vera kann að nafn fjallsins sé dregið af henni, sýlingunni.
Að lokum tvennt. Taka verður undir með því sem jarðfræðingar segja að eldgos á Reykjanesi eru aldrei ofsaleg, eru yfirleitt skammvinn. Stærsta hættan er af hraunrennsli.
Loks er hér kortið sem Veðurstofan gaf út í dag. Afar skýrt fyrir þá sem vilja átta sig á staðháttum. Hægt er að stækka það með því að tvísmella.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Barbie þenaði - lofthelgi yfir landi - vel tókst að tímasetja gos
8.8.2023 | 10:25
Orðlof
Minna starfshlutfall
Ekki hefi ég ákveðnar skoðanir á því hvort það var rétt ákvörðun að loka sendiráðinu í Moskvu. Það hefði kannski mátt draga úr starfseminni eins og hin norrænu löndin gerðu í sínum sendiráðum.
Það var líklega erfiðara fyrir okkur að gera það því það eru bara fáar hræður starfandi í okkar sendiráði. En samt hefði mátt draga úr umfanginu, t.d. með því að láta sendiherrann sofa til hádegis annan hvern dag.
Þórir S. Gröndal ræðismaður í Ameríku í grein í Morgunblaðinu 8.8.823.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Að sögn Magnúsar Tuma Guðmundssonar, jarðeðlisfræðings, er óróinn ekki enn kominn niður í bakgrunnsgildi.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Hvað er átt við með bakgrunnsgildi? Af hverju skýrir blaðamaðurinn ekki orðið út fyrir lesendum? Blaðamaður þarf að vera gagnrýninn í störfum sínum. Spyrja, spyrja og spyrja.
Tillaga: Engin tillaga.
2.
Kallar eftir lengri frest fyrir Níger.
Frétt á mbl.is.
Athugasemd: Orðalagið kalla eftir skilst ekki. Er verið að biðja um lengri frest, óska eftir honum, krefjast, heimta eða álíka. Tillagan miðast við efni fréttarinnar.
Líklega er heimild blaðamannsins fréttveitan Reuters en þar stendur í fyrirsögn:
Italy calls on West African states (ECOWAS) to extend Niger ultimatum.
Þýðing blaðamannsins verður að teljast frekar hraðsoðin enda þýðir enska orðalagið calls on ekki að einhver hafa kallað eða kallað eftir. Líklega hefur utanríkisráðherrann skorað á Afríkuríkin að veit lengri frest.
Tillaga: Vilja lengri frest fyrir Niger.
3.
Barbie þénaði meira en milljarð.
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Þetta skilst en kvikmyndin Barbie þénar ekki neitt frekar en bíll eða aðrir dauðir hlutir. Framleiðendur myndarinnar hafa hins vegar þénað á henni og það allvel. Þó verður að viðurkenna að í fljótu bragði er nokkuð snúið að orða þetta á annan hátt en segir í tillögunni.
Blaðamenn sem hafa ekki alist upp við lestur skilja stundum ekki orðin sem þeir grípa til. Sögnin að þéna er fallegt orð og merkir að vinna sér inn pening.
Það er skylt orðinu þjóna, þénari og þénasta. Stundum er sagt að þénustan hafi verið góð og er þá átt við að þjónustuna, til dæmis á veitingahúsi. Í dönsku finnst orðið tjenlig einni tjene og svipuð orð í öðrum norðurlandamálum
Tillaga: Meira en milljarður í tekjur af Barbie.
4.
Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi yfir landinu vegna
Frétt á ruv.is.
Athugasemd: Alkunna er að lofthelgi landa er hvergi annars staðar en yfir þeim eins og orðið bendir til. Til að ekkert misskiljist tekur blaðamaðurinn það fram að hún sé yfir landinu. Það er góðra gjalda vert.
Tillaga: Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi landsins vegna
5.
Allt þýfi var endurheimt úr næturráni í Skerjafirði.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Orðaröðin skiptir máli. Tillagan er skárri.
Tillaga: Allt þýfi úr næturráni í Skerjafirði hefur verið endurheimt.
6.
Telja má jákvætt við nýafstaðið gos hve vel tókst að tímasetja það.
Forystugrein Morgunblaðsins 8.8.23.
Athugasemd: Þetta er óskiljanlegt. Í orðunum felst að mannlegur máttur hafi komið gosinu af stað. Flest bendir til að svo sé ekki.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ferðafrelsið og löggan á Suðurnesjum
5.8.2023 | 11:18
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir slæma hegðun gesta á gossvæðinu á föstudagskvöld hafa haft áhrif á þá ákvörðun sína að gönguleiðum að gosstöðvum verði framvegis lokað klukkan 18.
Svo segir í frétt í Morgunblaðinu 24.7.23. Er svona stjórnsýsla í lagi? Stenst hún lög? Getur bara löggan lokað á ferðafrelsi almennings vegna þess að nokkrir göngumenn fóru í taugarnar á henni? Eru refsingar af þessu tagi líðandi?
Þetta er álíka gáfulegt og að loka vínbúðum vegna þess að einhverjar fyllibyttur brjóta rúðu. Banna akstur á Reykjanesbraut vegna þess að nokkrir aka of hratt. Er þá ekki ástæða til að banna lögreglumönnum að hafa afskipti af fólki vegna þess að nokkrir hafa fengið dóma fyrir ofbeldi. Já, og banna björgunarsveitina því einn velti fjórhjólinu sínu og handleggsbrotnaði (hver gætti öryggis björgunarmannsins?).
Forvarnir?
Stjórnsýsla lögreglunnar á Suðurnesjum er farin að snúast um verklag hennar, vinnutíma og meintan skort á starfsmönnum. Allt tal um öryggi göngufólks er auðsjáanlega yfirvarp. Suðurnesjalöggan heldur að verkefnið sé forvarnir sem er rangt. Hún er einfaldlega að skipta sér af því sem hún á að láta að mestu leyti vera.
Víða um land er hættulegra en við Litla-Hrút, lengra að fara til aðstoðar og aðstæður erfiðari. Hvergi er þó landi lokað. Furðulegt.
Enn fær fólk að ganga óáreitt um Hornstrandir og Vonarskarð, klífa Herðubreið og Botnsúlur, leggja leið sína upp í Hveradal í Kverkfjöllum og arka um Fögrufjöll og fara á jökla svo örfá dæmi séu tekin.
Hver gætir að öryggi þessa fólks?
Jú, það sjálft.
Er því treystandi?
Varla að mati löggunnar á Suðurnesjum.
Hvað gerist þegar óhöpp verða í þessum gönguferðum? Jú, mikið rétt. Kallað er á aðstoð björgunarsveita, lögreglu og jafnvel Landhelgisgæslu. Allir þessir koma til aðstoðar, margir um langan veg. Til þess er nú leikurinn gerður. Af hverju er ekki sami háttur hafður á við Litla-Hrút?
Hvað myndi nú gerast ef lögreglustjórar um allt land færu að fordæmi löggunnar á Suðurnesjum og byrjuðu að skipta sér af göngufólki?
Líklega yrði fyrst yrði hlegið að þeim; vel, lengi og innilega. Ekki nokkur maður myndi taka mark á þeim. Síðan yrðu þeir kærðir fyrir embættisafglöp.
Loka Meradalsleið
Hafði löggan á Suðurnesjum öryggi fólks í huga þegar hún lét það ganga Meradalsleið á móti reyk af brennandi mosa og eiturgasi í upphafi gossins? Þegar hún loksins áttaði sig höfðu þúsundir höfðu farið að gosstöðvunum, vaðið nærri því eld og eimyrju, gengið í brunnum mosa upp að ökkla. Þá var gönguleiðinni lokað í marga daga og beðið eftir að hvassri norðanáttinni linnti. Á meðan mátti til ekki ganga reyklausa leið að gosstöðvunum frá Krókamýri við Vigdísarvallaveg. Honum var lokað og skrökvað til um ástæðuna.
Hvers vegna fer fólk hættulega nærri gígnum? Einfaldlega vegna þess að löggan smalar því að honum eftir lögguleiðinni, Meradalsleið. Hún endar vestan við Hraunsels-Vatnsfell þar sem mosi er brunninn og aðeins askan eftir. Væri löggunni annt um öryggi ferðamanna myndi hún loka Merardalsleið og hætta að áreita fólk.
Nú er gönguleiðum að gosstöðvunum lokað klukkan 18 dag hvern. Nóg er þó að koma einni mínútu áður og þá er hægt að dvelja við gíginn alla nóttina. Ætlar löggan ekki að gæta öryggis þessa fólks? Sem sagt lokað en ekki lokað. Gáfulegt.
Nýr dómsmálaráðherra virðist ekkert gera annað en að tala um erfiðu gönguleiðina frá Vigdísarvöllum en nefnir ekki Krókamýri. Er hún sátt við bjánaskapinn í löggunni? Er hún á móti ferðafrelsi?
Ferðafrelsi
Vesturleiðin yfir Fagradalsfjall er góð þó löng sé. Frábær útsýnisstaður er við Litla-Hrút og einnig af toppi hans.
Hér er loksins komið að aðalatriðinu. Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2003 segir:
c. tryggja rétt almennings til að fara um landið og njóta náttúrunnar og stuðla þannig að almennri útivist í sátt við náttúruna, landsmönnum til heilsubótar og velsældar.
Við hvað styðst Lögreglustjórinn á Suðurnesjum þegar hann lætur sem ofangreind lög séu ekki til. Að minnst kosti er honum ekki umhugað um heilsubótarþáttinn og velsældina þegar hann lætur fólk arka Meradalsleið á móti reyk og gasi úr eldgígnum.
Líkur benda til að eldgosið við Litla-Hrút muni ekki endast lengi. Engu að síður ættu yfirvöld að auðvelda fólki að komast að gosstöðvunum. Í stað þess að þykjast vita allt og kunna, finna upp hjólið af eigin takmörkuðu hyggjuviti, ætti löggan að leita aðstoðar hjá reyndum fjallamönnum til dæmis í Ferðafélagi Íslands, Alpaklúbbnum, Toppförum og öðrum snillingum með áratuga reynslu í skipulagningu gönguferða. Þó fyrr hefði verið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Reykjarvegur löggunnar og almannavarna að gosstöðvunum
17.7.2023 | 10:29
Fullyrða má að það sé með ólíkindum að lögreglan og almannavarnir tryggi ekki betur öryggi fólks í ferðalögum. Algjörlega eftirlitslaust flækist lýðurinn um öll fjöll, óbyggðir og jökla í alls kyns veðrum. Auðvitað á að loka landinu þegar hvessir, rignir, snjóar eða þegar sófaliðið í löggunni og almannavörnum finnur þreytu sækja á sig.
Fólk þvingað í 20 km göngu
Í alvöru. Frá því að eldgos hófust við Fagradalsfjall hafa yfirvöld orðið sér margsinnis til skammar fyrir fálmkenndar aðgerðir sínar. Í mars 2021 gaus í fyrsta sinn. Þá var Suðurstrandarvegi lokað milli Krýsuvíkurvegar og Grindavíkur og því borið við að hann væri skemmdur. Það var rangt. Göngufólki var ráðlagt að leggja bílum sínum í Grindavík og ganga þaðan að eldgosinu. Meira en tuttugu km leið. Hinn kosturinn var ekki skárri, að ganga frá Bláa lóninu, jafnlanga leið ef ekki lengri. Þetta var ekki boðlegt. Löggan og almannavarnir þekktu ekki landið, kunnu ekki að lesa á landakort og leituðu ekki til þeirra sem þekkingu og reynslu hafa.
Kaðalbrekkan
Allir vita hvernig gönguleiðirnar voru hannaðar að gosstöðvunum. Kaðalbrekkan var fræg að endemum. Ákveðið var að láta fólk ganga upp mjög bratta og langa brekku. Þegar ljóst var að fólki sóttist leiðin seint var settur langur kaðall í brekkuna svo fólk gæti nú handstyrkt sig upp og niður. Og þetta var á tímum smitfaraldurs. Þá var löggan ekki að gæta öryggis almennings.
Nátthagadalur
Aldrei flögraði að snjallmennunum í löggunni á Suðurnesjum eða Almannavörnum að gera gönguleið um dalinn sem kenndur er við Nátthaga. Var hann þó auðveldastur fyrir göngufólk. Því var borið við í upphafi að kvikugangurinn væri undir honum en það var nokkru síðar dregið til baka. Raunar virtist kvikugangurinn vera beint undir lögguleiðinni, leið A.
Fólk sat á kvikuganginum
Ekki flögraði að löggunni að huga að öryggi göngufólks sem settist oftar en ekki í brekkuna norðan við gígana tvo, snæddi nesti og hafði það gott. Stuttu síðar brast jörðin og eldsprunga myndaðist nákvæmlega þar sem fólk hafði setið þúsundum saman. Ekki var löggan þá að gæta öryggis almennings. Þarna varð til stóri gígurinn sem sendi frá sér gríðarlegt hraun. Hann er orðinn hærri en sjálft Gónfell sem var vinsæll útsýnisstaður.
Bannað börnum
Þegar gaus í dalverpi við Merardal tók löggan til þess ráðs að banna börnum innan tólf ára að ganga að gosinu. Hún var gerð afturreka með bannið, hafði engar heimildir til þess.
Þriðja gosið
Nú þegar gýs við Litla-Hrút hefur löggan og almannavarnir enn og aftur orðið sér til skammar fyrir einkennileg valdboð sem minna frekar á sérviskulegar tilskipanir einvaldskonunga fyrr á tímum: Ég einn veit, valdið er mitt. Svo virðist sem yfirvöld haldi að fólk sé fífl og hlaupi umsvifalaus ofan í næsta gíg eða leggist á fjórar fætur á glóandi hraunið. Allt í einu dettur löggunni í hug að skipuleggja hinn eina og sanna ríkisveg, svona í anda Marteins Mosdals í Spaugstofunni.
Reykjarvegur
Hann fékk með viðhöfn nafnið Meradalavegur. Fólki var ætlað að ganga tíu km leið á móti norðanátt, reyk frá mosabruna og mekki úr eldgosi. Þúsundir gengu að gosstöðvunum og nefndu veginn sín á milli Reykjarveg og er það réttnefni.
Skyndilega fékk löggan bakþanka og veginum og var lokað. Hvers vegna? Tja, sko, við erum að tryggja sko öryggi ferðamanna og sko veðbragðsaðila. En hvað með öryggislausa ferðamenn Esju, á Hornströndum, á Laugaveginum, á jöklum? Enginn tryggir öryggi þeirra.
Móhálsadalur
Ekki nóg með að Reykjarvegi væri lokað heldur ákváðu yfirvöld að loka veginum um Móhálsadal, þeim sem stundum er kenndur við Vigdísarvelli og ber númerið 428. Það var nú einkennileg ráðstöfun, þó er hann ekki lokaður nema á korti.
Ég spurðist því fyrir um lokunina hjá löggunni á Suðurnesjum, Almannavörnum og Vegagerðinni. Fékk aðeins svar frá þeirri síðastnefndu. Hún segir:
Þessi lokun er í samstarfi Vegagerðarinnar og Almannavarna svo að fólk sé ekki að keyra í grennd við gosstöðvar þar sem margir slóðar liggja út af Vigdísarvallarvegi 428.
Þetta bendir einungis til þess að yfirvöld vilji gera fólki eins erfitt fyrir að komast að gosstöðvunum og hægt er. Almannavarnir ríkislögreglustjóra ættu að heita Almannatálmanir. Það væri réttnefni.
Krókamýri
Besta leiðin að gosstöðvunum við Stóra-Hrút er frá Krókamýri í Móhálsadal. Þaðan eru aðeins um sex km að Hraunsels-Vatnsfelli.
Þokkalegur malarvegur er um Móhálsadal, nokkuð grófur en fær flestum bílum nema þeim allra minnstu. Nóg er af bílastæði við Krókamýri en leggja verður af skynsemi svo ekki hljótist af gróðurskemmdir.
Gangan upp á Vesturháls er auðveld sem og niður að Skolahrauni hinum megin. Sunna við Krókamýri er Vesturháls afar brattur að vestan þó grasi vaxinn sé.
Borgaraleg óhlýðni
Að öllum líkindum mun löggan nú setja sérsveitina á vegamót Krýsuvíkurvegar og Móhálsadals og þeir settir í járn sem leyfi sér að njóta gönguferða á brunareyks og gosmakkar. Engu að síður óska ég fólki góðrar ferðar og hvet almenning til að reyna að sniðganga bjánabönn yfirvalda í anda borgaralegrar óhlýðni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 15. júlí 2023.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ólafur Jóhann Ólafsson er einn besti rithöfundur þjóðarinnar
12.7.2023 | 14:08
Um daginn hlustaði ég á afar vel skrifaða bók og varð svo hrifinn að ég hef varla náð mér ennþá. Þetta var Höll minninganna eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Hann er tvímælalaust einn af mestu rithöfundum samtímans. Það get ég fullyrt eftir að hafa hlustað á fleiri eftir hann.
Oftast geri ég tvennt í einu, geng langar leiðir og hlusta um leið á sögur. Gerðist áskrifandi að Storytell fyrir rúmu ári og hef á þeim tíma lokið við að hlusta á meira en eitt hundrað bækur samkvæmt talningu vefsíðunnar. Einn og hálfur til tveir og hálfur tími á dag í göngu og hlustun.
Bækur hafa veitt mér mikla ánægju. Stundum get ég verið æði fordómafullur, treysti ekki íslenskum rithöfundum, hræddur um að verða fyrir vonbrigðum. Hins vegar hef ég gaman af öllu, sagnfræði, spennusögum, glæpasögum og svo framvegis.
Á tímabili fannst mér ég vera kominn í þrot, fann ég engar bækur sem mig langaði til að hlusta á. Horfði á bækurnar hans Ólafs Jóhanns á skjánum og ákvað að láta slag standa. Hafði aðeins lesið eina bók eftir hann áður en það var Endurkoman en var ekkert sérstaklega hrifinn. Nú veit ég að sökin er mín en ekki sögunnar. Ég las hana ekki rétt. Þorvaldur Davíð les hana einstaklega vel á Storytell.
Höll minninganna er stórkostleg bók. Hógvær upplestur og túlkun Sigurðar Skúlasonar leikara á sögunni eykur á áhrifin. Í bókarlok er maður því sem næst agndofa yfir örlögum aðalsöguhetjunnar og annarra í lífi hennar. Svo slyngur rithöfundur er Ólafur Jóhann að honum tekst auðveldlega að tvinna saman nokkrum sögum í eina heild að engin missmíð sést og lesandinn á mjög auðvelt með að fylgja söguþræðinum. Höfundurinn hefur mikinn og góðan orðaforða og beitir honum á lesandann sem kemst ekki undan ægivaldi sögunnar.
Aðrar sögur Ólafs Jóhanns eru með sömu skáldlegu einkennum. Skiptir engu hvort hann segi sögu karls eða konu í fyrstu persónu eða þriðju. Allt leikur í höndunum á honum. Vissulega sprettur engin saga alsköpuð út úr höfði neins manns, vinnan er gríðarleg.
Ég ákvað að hlusta á fleiri sögur eftir Ólaf Jóhann og þær ollu ekki vonbrigðum, Snerting, Sakramentið, Endurkoman og ekki síst Aldingarðurinn, safn smásagna.
Miklu skiptir hver les. Þorvaldur Davíð Kristjánsson les Sakramentið og Endurkomuna. Það tók mig nokkrar mínútur að venjast honum en verð að segja að lestur hans er afskaplega góður, tekur ekkert frá höfundinum en ljær sögunni vængi svo báðar sögurnar eru í seinn heillandi og angurværar.
Að sjálfsögðu er hægt að finna að stöku orðavali Ólafs Jóhanns og gagnrýna hann fyrir ýmislegt sem þó skiptir engu máli þegar upp er staðið. Sagan er allt og svo óskaplega fátt truflar hana þó margbrotin sé.
Stundum er hlaðborð matar girnilegt. Maður á það til að gleypa allt í sig, gleyma að njóta og upplifa. Bækur eru allt annað, þær þurfa sinn tíma. Góð bók gerir kröfur til lesandans sem þarf einbeitingu og næði. Þannig man ég eftir barnæsku minni rétt eins og svo margir af minni kynslóð. Á kafi í bókum og ótal ferðum á bókasafninu. Lífið er margbrotið en bókin eru besti uppalandi sem til er og ævilangur vinur.
Þó er eitt sem svo margir hafa sagt vera það versta og það er að ljúka við að lesa góða bók. Hana má þó lesa aftur og aftur og aftur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þrjár gönguleiðir að gosstöðvunum við Litla-Hrút
11.7.2023 | 13:16
Þegar byrjaði að gjósa við Litla-Hrút missti löggan og almannavarnir alla skynsemi. Halda að fólk muni bruna á staðinn og hlaupa beint í glóandi kvikuna eða jafnvel ofan í eldsprungu. Langflestir fara varlega og kunn fótum sínum forráð hvort sem um er að ræða eld eða gasmengun.
Löggan og almannavarnir virðast ekki vita margt um útiveru og gönguferðir. Þegar gaus á Fimmvörðuhálsi gekk fólk upp og niður á einum degi, meira en þrjátíu km. Önnur leið var ekki í boði. Uppi á Hálsinum strengdi löggan gula borða hér og þar, þóttist vera að vara við einhverri hættu. Þeir fuku auðvita og margir fundust löngu síðar samankuðlaðir í hrauninu.
Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall lokaði löggan beinlínis öllum stystu leiðunum og hvatti fólk til að ganga frá Grindavík eða Bláa lóninu. Ástæðan var einföld, löggan vissi ekkert hvað skyldi taka til bragðs. Atti fólki út í ófærur.
Nú gýs við Litla-Hrút og þá lokar löggan leiðinni að Höskuldarvöllum og veginum um Móhálsadal, lokar aðgengi að Vesturhálsi en af honum er engu að síður besta útsýnið til gosstöðvanna. Margir þurfa ekki að fara lengra. Þar er engin hætta á gasmengun, eiturgufum af neinu tagi. En auðvitað veit löggan ekkert um það.
Löggan vill frekar að fólk gangi enn lengri leið en þörf er á en gerir sér ekki grein fyrir hættunni. Allur almenningur veit að þegar vindurinn er í bakið er engin hætta á gasmengun, löggan áttar sig ekki á því.
Fólk er ekki fífl jafnvel þó löggan haldi það.
Á meðfylgjandi korti eru teiknaðar þrjár skástu leiðirnar að gosstöðvunum.
Ég mæli með þeirri sem er blálituð, að minnsta kosti meðan vindur er ekki vestlægur. Gallinn við þessa leið er að fara þarf um Móhálsadal en þar er vegurinn talsvert grófur, þó er fjórhjóladrif ekki nauðsynlegt. Gengið er frá Krókamýri og upp á Vesturháls. Gömlum jeppavegi er fylgt til að byrja með en snúið af honum og haldið vestur yfir Hálsinn. Sjá nánar ljósmyndina.
Litla myndin sýnir gróflega ómerkta gönguleið frá Krókamýri og yfir Vesturháls að Skolahrauni.
Í Skolahrauni eru víða troðningar yfir hraunið. Gott er að skoða landkort á netinu áður en lagt er í gönguna.
Síðast gekk ég yfir Vesturháls daginn áður en gaus. Sunnan við Krókamýri er Hálsinn mjög brattur vestan megin og getur þar verið mörgum erfiður. Frá Krókamýri og upp á Hraunsels-Vatnsfell eru um fimm km gangur.
Næst besti kosturinn er að ganga eftir jeppaveginum (gul punktalína á kortinu) sem liggur austan við gömlu eldstöðvarnar. Hann er ágætur fyrir gangandi og hjólandi. Ég hef nokkrum sinnum farið þessa leið á rafhjóli sem er frábært. Leiðin er um átt km löng, en mjög auðveld, frekar slétt alla leiðina.
Lakasti kosturinn er A leið löggunnar, jarðýtuleiðin frá bílastæðunum og upp á Fagradalsfjall (merkt með grænum lit). Leiðin er um tíu km löng, tuttugu alls. Munurinn á þessari leið og jeppaveginum er að sá síðari er mun sléttari, enginn bratti. Kosturinn við leiðina er að hún er mjög greinileg og varla möguleiki á að villast. Hægt er að ganga jeppaveginn til baka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Handarbaksvinnubrögð löggunnar og Almannavarna
5.7.2023 | 14:30
Þegar gaus í fyrra skiptið við Fagradalsfjall varð Suðurnesjalöggan og Almannavarnir sér til skammar vegna handarbaksvinnubragða og þekkingarleysis. Bæta má Vegagerðinni við sem lét hafa sig í að ganga erinda löggunnar. Suðurstrandavegur frá vegamótunum við Kleifarvatnsveg og allt vestur að Grindavík var lokaður um heila helgi og því borið við að skemmdir væru á veginum vegna jarðskjálfta. Það var fyrirsláttur.
Þúsundir manna vildu sjá eldgosið en löggan og Almannavarnir létu það að ganga frá Grindavík eða jafnvel Bláa lóninu. Mörgum reyndist það erfitt, meira en 20 km báðar leiðir yfir ógreiðfært hraun.
Í upphafi var með öllum ráðum reynt að tálma för fólks að gosstöðvunum. Allt fór í flækju þangað til einhverjum datt í hug að búa til bílastæði svo ekki þyrfti að skilja bíla eftir á vegkanti.
Fullyrt var að eldgosið væri öllum hættulegt. Það var rangt. Jarðfræðingar og allir þeir sem eitthvað þekkja til jarðfræði vissu frá upphafi að engin hætta var á ferðum. Þetta var sprungugos með stefnuna suðvestur-norðaustur eins og flest önnur eldgos hafa verið á Reykjanesi.
Aðeins ein eldsprunga opnast úr hverjum kvikugangi, ekki tvær og aldrei samsíða. Hins vegar getur sprungan verið slitrótt, ekki löng og samfelld.
Jarðeðlisfræðingur sagði gosið vera ræfil sem reyndist rétt þó svo að fjölmiðlar og fleiri reyndu að gera grín að honum fyrir vikið.
Löggan á Suðurnesjum og Almannavarnir ákváðu seint og um síðir að ryðja ekki gönguleið um Nátthagadal sem þó var einfaldasta og besta leiðin að gosstöðvunum. Fullyrt var að kvikugangur væri undir dalnum. Það var síðar dregið til baka.
Gönguleið A reyndist torsótt fyrir flesta. Hún var löng og ógreiðfær. Versti farartálminn var löng og brött brekka sem var afar erfið fyrir flesta. Þá var brugðið á það ráð að setja langan kaðal í brekkuna til að göngufólk gæti handstyrkt sig upp. Enginn fjallamaður hefði mælt með því. Skynsamlegra hefði verið að setja upp nokkra styttri kaðla. Margir misstu takið á kaðlinum er hann sveiflaðist til og frá.
Svo datt löggunni og Almannavörnum það snjallræði í hug að sneiða framhjá kaðalbrekkunni og fara upp gil skammt austan við hana. Vissu þeir ekki af gilinu, fóru þeir aldrei á staðinn, lásu þeir ekki landakort? Uppferðin reyndist þar aðeins skárri, engan kaðal þurfti. Loks datt sófaköllum í huga að nota jarðýtu til að ryðja leiðina, gera sneiðing framhjá þessum tveimur áðurnefndu bröttu brekkum. Það var skynsamlegt.
Aldrei flögraði að þeim í löggunni og Almannavörum að gera gönguleið um Nátthagadal. Þess í stað var fólk þvingað um leiðir sem nefndar voru A, B og C. Svo voru sett skilti hingað og þangað sem áttu að vara fólk við því að slasa sig. Hvergi var neitt gagn af þessum skiltum og óskiljanlegt hvernig þeim var valinn staður.
Varla hefur nokkur maður í löggunni eða Almannavörnum neina reynslu af fjallamennsku. Einfaldast hefði verið að tala við Ferðafélag Íslands og biðja félaga þar um að marka bestu leiðir að gosstöðvunum. Í því er mikil reynsla af ferðalögum og gerð gönguleiða. Auðvitað datt engum í hug að tala við þá sem hafa þekkingu eða reynslu. Þess í stað remmdust þeir sófaliðinu í löggunni og Almannavörnum að finna upp hjólið. Það tókst illa.
Tvær gönguleiðir á gosstöðvum reyndust bestar. Ókunnugir þurftu aðeins að skoða landakort og þá sást að Nátthagadalur og Langihryggur hentuðu best. Löggan og Almannavarnir virtust ekki kunna á landakort.
Um síðir rann hraun yfir allar gönguleiðir löggunnar og einnig í Nátthagadal. Aðeins Langihryggur hefur enst. Leiðin þar upp var unnin með jarðýtu og var skynsamlega að verki staðið.
Önnur gönguleið varð óvart til. Með jarðýtu voru gerðir sneiðingar upp kaðalbrekkuna sem nefnd var hér á undan. Ástæðan var sú að gera þurfti ryðja leiðigarða þar fyrir ofan. Dugðu þeir vel, stýrðu hrauni ofan í Nátthagadal.
Löggan þurfti samt að setja gula plastborða fyrir leiðina svo fólk færi sér ekki að voða. Fæstir létu þá trufla ferðir sínar. Um síðir fuku þeir út í veður og vind. Sprækir göngumenn gengu upp á Fagradalsfjall og fengu þaðan frábært útsýni að gosstöðvunum. Þegar gaus í Meradal fóru margir þessa leið. Löngu síðar kom löggan á eftir með jarðýtuna sína og ruddi leiðina. Það var þakkarvert þó stutt væri í goslok. Sem sagt, fólk markaði leiðina og löggan elti.
Svo ákveðin var löggan og Almannavarnir í því að bjarga fólki frá heimsku sinni að bannað var fyrir börn innan tólf ára að fara að gosstöðvunum í Meradal. Ekki reyndist lagastoð fyrir þeirri ákvörðun. Þegar kveðið var upp úr með það var gosið löngu búið en fjöldi barna hafði engu að síður farið með sínu fólki til að sjá það. Fólk virðir bjánalegar skipanir að vettugi.
Nú virðist sem að aftur muni gjósa við Fagradalsfjall. Vera má að sófakallarnir í Suðurnesjalöggunni og Almannavörum hafi lesið sér til í fjallamennsku. Það dugar hins vegar ekki. Menn læra af reynslunni.
Sófakallarnir ættu að hringja í Ferðafélagið og biðja þá sem þar stjórna um að skipuleggja leiðir að nýjustu gosstöðvum. Vit er í að fá aðstoð, vitleysa að ana áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eru líkur á eldgosi við Fagradalsfjall innan tveggja vikna?
5.7.2023 | 12:17
Þriðja lota elda á Reykjanesi er hafin með mikilli jarðskjálftahrinu norðvestan við Faradalsfjall. Skjálftarnir eru án efa vegna kvikugangs sem liggur suðaustur frá Keili og í áttina að gossvæðinu frá árunum 2021 og 2022.
Samkvæmt lauslegri athugun á jarðskjálftunum á vefum Veðurstofnunnar og map.is virðast upptök skjálftanna vera dýpri rétt suðvestan við Keili, á að giska fimm km, og þar eru þeir snarpastir. Nær gosstöðvunum í Meradal veru þeir færri en grynnri, upptökin nær fjórum km á dýpt.
Þetta er svipað og fyrir gosið við Fagradalsfjall árið 2021. Færðust þá upptökin æ nær svokölluðum Geldingadal þar sem loksins gaus. Jarðskjálftahrinan árið 2021 náði til sjávar og undir hafsbotninn.
Í yfirgnæfandi fjölda tilfella eru jarðskjálftar ekki undanfari eldgoss. Þetta hafa jarðfræðingar margoft sagt. Hins vegar geta jarðskjálftar verið undanfari eldgosa. Ástæðan er einföld. Kvika sem treðst upp í gegnum jarðskorpuna ryður frá sér bergi og við það mælast skjálftar. Þeir eru þó frekar litlir oftast í kringum eitt stig. Litlir skjálftar geta því samkvæmt þessu verið fréttaefni. En fáir gefa þeim gaum nema jarðfræðingar sem skoða þá vandlega, og að auki ýmislegt annað eins og óróa, lyftingu lands og margt fleira sem getur bent til að gos sé að hefjast.
Jarðfræðingar hafa í fréttamiðlum sagt að skjálftavirknin milli Fagradalsfjalls og Keilis sé svo ofsafenginn að miklar líkur séu til þess að jörð sé að bresta og eldur komi upp á yfirborðið. Miðað við reynsluna af síðustu gosum er ekki ólíklegt að nú gjósi innan tveggja vikna. Möttulkvikan virðist hafa fundið kvikuganginn sinn og þrýstingur frá henni sé nægur til að hreyfa við jarðskorpunni, valda skjálftum.
Hvað gerist næst? Miðað við það sem gerðist árið 2021 er hægt að ímynda sér að kvikugangurinn lengist í suðvestur, og aftur gjósi á sömu slóðum. Þá fullyrtu jarðvísindamenn að hann væri undir Nátthagdal og jafnvel undir gönguleið A. Fjölmargir skjálftar mældust undir sjávarbotni og veltu margir því fyrir sér hvort gjósa myndi í sjó. Það getur allt eins gerst núna.
Efri myndin hér fyrir ofan er tekin norðan við Meradalshnúk. Þar er talsverð slétta allt að fjalli sem nefnist Kistufell og er Keilir í hvarfi við það. Á miðri myndinni má greina jarðfall eða sprungu sem sést betur á þeirri neðri.
Jarðvísindamenn hafa lengi haft mikinn áhuga á sprungunni og sett einhver mælitæki við hana. Ástæðan er sú að sprungan virðist vera í beinu framhaldi af kvikuganginum sem olli gosinu í Geldingadal og Meradal. Ef til vill er hún núna að gliðna. Hver veit.
Þarna gæti gæti gosið og það er hinn besti staður Hraun myndi fyrst og fremst renna í Meradal og fylla hann. Flæddi út úr honum rynni hraun í Skolahraun og suður til sjávar.
Hér er kort af skjálftum síðustu dægra tekið af map.is sem er afskaplega góður vefur fyrir þá sem áhuga hafa á landafræði og ekki síður jarðskjálftum.
Ágætt er að tvísmella á myndir og kort til að stækka.
Neðsta myndin er tekin ófrjálsri hendi af vef Veðurstofunnar og sýnir upphaf eldgossins í Meradal. Eldsprungan teygir sig þarna upp í hlíð Merarfells. Sprungan sem nefnd var hér fyrir ofan og örin bendir á, er í beinu framhaldi af eldinum.
Af hverju var sprungan í Meradal svona stutt, komst ekki upp á sléttuna fyrir ofan. Skýringin er einföld, gosið var frekar kraftlítið, ekki nógur þrýstingur í kvikuganginum.
Orkuveitan hyggst reisa fjölda vindmylla örskammt frá Reykjavík
29.6.2023 | 16:27
Orkuveita Reykjavíkur hefur áhuga á að reisa vindmyllur í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Áformin vekja furðu. Vindgarðar er svo óskaplega vinalegt orð og sagðar muni verða í nágrenni Hellisheiðar. Allt svo sætt.
Hvers vegna fer Orkuveitan með rangt mál og notar villandi orðalag um vindmyllurnar?
Hér er mynd sem Orkuveitan lét gera og hefur verið birt í fjölmiðlum og á vefsíðu fyrirtækisins. Ég hef leyft mér að merkja Hellisheiði með rauðu inn á myndina, svona í stórum dráttum. Þess má geta að Hellisheiðarvirkjun er ekki á Hellisheiði, hún er vestan undir henni.
Á kortið hefur Orkuveitan merkt þrjá staði sem áhugi er fyrir að reisa vindmyllur og þeir eru allir fjarri Hellisheiði. Fullyrðingar um annað eru ósannindi.
Lyklafell
Orkuveitan hefur hugmyndir um að reisa vindmyllur við Lyklafell sem er skammt frá Suðurlandsvegi, til móts við Sandskeið. Fellið er um tíu km frá Hellisheiði og um ellefu km frá austustu byggð í Reykjavík. Sem sagt; miðja vegu milli byggðar í Reykjavík og Hellisheiðar.
Hvers vegna er Lyklafell sagt í nágrenni Hellisheiðar? Hið fyrsta sem manni dettur í hug er að verið sé að reyna að villa um fyrir almenningi, afvegaleiða hugsanlega umræðu.
Hvað er að því að segja að Orkuveitan vilji að reisa vindmyllur í nágrenni Reykjavíkur? Ástæðan er einföld. Fólk myndi leggjast hatrammlega gegn áformunum. Þeir hjá Orkuveitunni vita að ekki er sama hvernig málið er kynnt. Vandamálið er greinilega ekki léleg landfræðiþekking starfsmanna hennar heldur allt annað. Áróður?
Dyravegur
Fyrir bílaöld lá þjóðleið frá Elliðakoti (Helliskoti) að Lyklafelli. Þaðan voru tvær leiðir, yfir Hellisheiði og yfir Dyrafjöll. Síðarnefnda leiðin er nefnd Dyravegur og er friðaður eins og allar fornar leiðir. Hann er merktur á Herforingjaráðskort Dana og einnig á Atlaskort Landmælinga.
Nálægt Hengli, einhvers staðar milli Nesjavallavegar og Dyravegar hefur Orkuveitan áhuga á að reisa vindmyllur. Staðurinn er fjarri Hellisheiði. Þar munar um átta til tíu km eftir því hvar borið er niður. Hann er á Mosfellsheiði en starfsmenn Orkuveitunnar reyna að fela þá staðreynd og masa um Hellisheiði.
Sandfell er lítið fell sunnan við Þrengsli, rétt við þjóðveginn. Það hefur verið notað sem malarnámur og vont fólk hyggst nú moka því í burtu og selja til Þýskalands. Á rústunum er líklega ætlunin að reisa vindmyllur.
Sandfell er ekki í nágrenni við Hellisheiði. Tæpir átta km eru þangað í beinni loftlínu. Segja má fyrirhugaðar vindmyllur séu í nágrenni Þorlákshafnar því þangað eru tólf km.
Vindmyllur
Líklega má segja að vindmyllur geti verið þarfaþing. Þær eru hins vegar ekki alltaf nauðsynleg viðbót við orkukerfi landsins því framleiðsla þeirra er ekki endilega í beinum tengslum við eftirspurn, hún getur verið minni eða meiri, allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Bókstaflega.
Þær eru hins vegar hrikalega áberandi hvar sem er. Aðskotahlutir sem raska landslagi og eyðileggja tilfinningu fyrir víðernum.
Á svokölluðu Hafi fyrir ofan Búrfell standa tvær vindmyllur. Þegar armarnir eru í efstu stöðu eru þær hærri en Hallgrímskirkjuturn.
Hér fyrir ofan er ljósmynd af Þrengslum og Sandfelli (lengst til hægri). Vindmyllurnar yrðu á svipaðri hæð og fellið en þær yrðu varla tvær, líklega tíu hið minnsta.
Þeir hjá Orkuveitunni passa sig á því að nefna ekki fjölda vindmylla, það gæti skemmt fyrir þeim. Lúmskir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)