Barbie þenaði - lofthelgi yfir landi - vel tókst að tímasetja gos

Orðlof

Minna starfshlutfall

Ekki hefi ég ákveðnar skoðanir á því hvort það var rétt ákvörðun að loka sendiráðinu í Moskvu. Það hefði kannski mátt draga úr starfseminni eins og hin norrænu löndin gerðu í sínum sendiráðum. 

Það var líklega erfiðara fyrir okkur að gera það því það eru bara fáar hræður starfandi í okkar sendiráði. En samt hefði mátt draga úr umfanginu, t.d. með því að láta sendiherrann sofa til hádegis annan hvern dag. 

Þórir S. Gröndal ræðismaður í Ameríku í grein í Morgunblaðinu 8.8.823. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

Að sögn Magnús­ar Tuma Guðmunds­son­ar, jarðeðlis­fræðings, er óró­inn ekki enn kominn niður í bak­grunns­gildi.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Hvað er átt við með „bakgrunnsgildi“? Af hverju skýrir blaðamaðurinn ekki orðið út fyrir lesendum? Blaðamaður þarf að vera gagnrýninn í störfum sínum. Spyrja, spyrja og spyrja.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Kallar eftir lengri frest fyrir Níger.“

Frétt á mbl.is. 

Athugasemd: Orðalagið „kalla eftir“ skilst ekki. Er verið að biðja um lengri frest, óska eftir honum, krefjast, heimta eða álíka. Tillagan miðast við efni fréttarinnar.

Líklega er heimild blaðamannsins fréttveitan Reuters en þar stendur í fyrirsögn: 

Italy calls on West African states (ECOWAS) to extend Niger ultimatum.

Þýðing blaðamannsins verður að teljast frekar hraðsoðin enda þýðir enska orðalagið „calls on“ ekki að einhver hafa kallað eða kallað eftir. Líklega hefur utanríkisráðherrann skorað á Afríkuríkin að veit lengri frest.

Tillaga: Vilja lengri frest fyrir Niger.

3.

Barbie þénaði meira en millj­arð.“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Þetta skilst en kvikmyndin Barbie þénar ekki neitt frekar en bíll eða aðrir dauðir hlutir. Framleiðendur myndarinnar hafa hins vegar þénað á henni og það allvel. Þó verður að viðurkenna að í fljótu bragði er nokkuð snúið að orða þetta á annan hátt en segir í tillögunni.

Blaðamenn sem hafa ekki alist upp við lestur skilja stundum ekki orðin sem þeir grípa til. Sögnin að þéna er fallegt orð og merkir að vinna sér inn pening. 

Það er skylt orðinu þjóna, þénari og þénasta. Stundum er sagt að þénustan hafi verið góð og er þá átt við að þjónustuna, til dæmis á veitingahúsi. Í dönsku finnst orðið „tjenlig“ einni „tjene“ og svipuð orð í öðrum norðurlandamálum 

Tillaga: Meira en milljarður í tekjur af Barbie.

4.

Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi yfir landinu vegna …“

Frétt á ruv.is. 

Athugasemd: Alkunna er að lofthelgi landa er hvergi annars staðar en yfir þeim eins og orðið bendir til. Til að ekkert misskiljist tekur blaðamaðurinn það fram að hún sé yfir landinu. Það er góðra gjalda vert.

Tillaga: Herstjórnin í Níger hefur lokað lofthelgi landsins vegna …

5.

Allt þýfi var endurheimt úr næturráni í Skerjafirði.“

Frétt á dv.is. 

Athugasemd: Orðaröðin skiptir máli. Tillagan er skárri.

Tillaga: Allt þýfi úr næturráni í Skerjafirði hefur verið endurheimt.

6.

Telja má jákvætt við nýafstaðið gos hve vel tókst að tímasetja það.“

Forystugrein Morgunblaðsins 8.8.23.

Athugasemd: Þetta er óskiljanlegt. Í orðunum felst að mannlegur máttur hafi komið gosinu af stað. Flest bendir til að svo sé ekki.

Tillaga: Engin tillaga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband