Frábær umfjöllun Moggans um atburðina í Grindavík

Screenshot 2024-01-15 at 09.59.09Eldgosið við Grindavík er aðalumfjöllunarefni Mogga dagsins. Aðdáunarvert er hversu vel blaðið er unnið. Ritstjórnin er afar góð og skipulögð og blaðamenn standa undir væntingum lesenda. 

Myndir ljósmyndara Moggans eru afskaplega góðar, vel unnar og klipptar. Forsíðumyndin er sláandi, tekin á þeim tíma dags er við, almenningur, héldum að nú væri öllu lokið, sprungan myndi teygja sig inn í bæinn og glóandi hraun myndi engu eira. Sem betur fer virðist nú að svartsýnustu spár muni ekki rætast. Grindavíkurbær stendur enn og íbúarnir eru eðlilega beygðir en alls ekki brotnir, eins og það hefur verið orðað.

Á einfaldan hátt rekja blaðmenn aðdraganda eldgosa við Fagradalsfjall og norðan Grindavíkur frá því 15. desember 2019 og fram til dagsins í gær, 14. janúar 2024. Mynd Kristins Magnússonar á blaðsíðu fjögur er stórkostleg og sýnir að varnargarðarnir björguðu bænum frá hrauninu sem hafði án efa runnið inn í hann. Um leið sýnir myndin varnarleysið gagnvart eldsprungunni sem opnaðist rétt við bæjarmörkin og eyðilagði þrjú hús. Mynd Árna Sæbergs ljósmyndara á blaðsíðu fimm til sex er tekin úr austri og sýnir á sama hátt jarðeldinn sem ryðst á íbúðarhúsin.

Ég tek sérstaklega eftir hversu allar myndirnar eru skarpar og eftirvinnslan góð.

Viðtölin við heimamenn og jarðvísindamenn eru fróðleg. Athygli mína vakti viðtalið við Vilhjálm Árnason, Grindvíkinginn sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Heimili hans er örskammt frá glóandi hrauninu. Hann segir í lok viðtalsins:

Við eyðum ekki óvissunni með náttúruna, en við getum eytt óvissu fólks hvað varðar húsnæðismál og fjárhag. Það verður líka að hafa svör fyrir fyrirtækin, svo þau flytji ekki varanlega á brott.

Í þessum örfáu orðum felst kjarni málsins eins og sakir standa núna, á öðrum degi eldgossins, og nærri tveimur mánuðum eftir að ósköpin hófust.

Umfjöllun Moggans um eldsumbrotin eru afar góð. Þau eru fræðandi og upplýsandi fyrir almenning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband