Landsbankinn sýnir kjörnum fulltrúum fingurinn

Nýjasta dæmið um stjórnleysið og reiðarekið er í Landsbankanum, þar sem stjórnendur fóru fram með offorsi gegn eigendastefnu og samningi við eigendur. Bankastjórinn segir að ríkisstjórninni og almenningi komi málið ekki við. Bankinn sé ekki ríkisbanki heldur sé hann banki að verulegu leyti í eigu ríkisins. Af hverju leyfist þessu fólki að standa uppi í hárinu á fulltrúum fólksins í landinu?

Leiðari Morgunblaðs dagsins er beinskeyttur og afar góður. Hann fjallar um kjörna fulltrúa á þingi og í sveitarfélögum og máttleysi þeirra gagnvart embættismannavaldi, álitsgjöfum og þrýstihópum. Nú er svo komið að kjörnir fulltrúar eru í aukahlutverki eins og það er orðað í fyrirsögn leiðarans.

Furðuleg kaup Landsbankans á tryggingafélaginu TM benda til þess að stjórnmálamenn, þjóðkjörnir fulltrúar, hafi afsalað sér völdum til þeirra sem bera ekki neina ábyrgð. Í leiðara Moggans segir:

Hugmyndir um armslengd frá ráðherra voru ekki ætlaðar til þess að veita starfsmönnum ríkisfyrirtækja olnbogarými til þess að fara sínu fram.

Það er tímabært að kjörnir fulltrúar, sem almenningur velur og hafnar reglulega og með beinum hætti, verði aftur í aðalhlutverki á sviði hins opinbera, þeirra á valdið að vera og þeir þurfa að axla þá ábyrgð. Almannavaldinu má ekki „útvista“.

Bankasýslan var sett á fót til að ráðherra geti ekki haft bein áhrif á stjórnun ríkisbanka. Fyrirbærið er kalla „armslengd frá ráðherra“. 

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng og höfundur leiðarans og segir í grein í Morgunblaði dagsins:

Uppákoman í kringum kaupin á TM er áminning um á hvaða villigötur við erum komin. Búið er að framselja of mikið vald frá kjörnum fulltrúum til stjórna ríkisfyrirtækja, úrskurðarnefnda og embættismanna.

Og í lok greinar sinnar segir Óli Björn:

Eftir því sem valdsvið úrskurðarnefnda eykst og þeim fjölgar, gjáin milli stjórna ríkis- fyrirtækja og eigandans breikkar, því óljósari er hugmyndin um að valdið sé sótt til almennings og að kjörnir fulltrúar séu umboðsmenn kjósenda.

Einhvern veginn virðast mál þróast hægt og hægt á þann hátt að valdið færist frá kjörnum fulltrúum til einhvera annarra. Þegar þetta hefur gerst og mál eru komin í óefni og þá loks standa menn upp og gera athugasemdir.

Bankastjórn Landsbankans virðist fara sínu fram og bankastjórinn segir bankann almenningsfyrirtæki og stefna ráðherra eða ríkisstjórnar komi bankanum ekkert við. Gerður hefur verið samningur við annan banka um kaup á tryggingafélaginu án fyrirvara um samþykki hluthafafundar. Verði fallið frá kaupunum á TM virðist Landsbankinn þurfa að greiða seljandanum skaðabætur. Á skýru alþýðumáli kallast svona lagað að senda stjórnvöldum fingurinn. 

Ekki er furða þó margir reki upp stór augu. Stjórnarandstaðan kennir fjármálaráðherra um og reynir að koma því inn hjá álitsgjöfum, þrýstihópum og fjölmiðlum að hann hafi alla tíð vitað um málavexti. Lætur svona í veðrinu vaka að hann hafi unnið til saka eins og segir í ljóðinu.

Stjórnarandstaðan horfir ekki á málavexti heldur notar tækifærið til að níða fjármálaráðherra vegna þess að hann gæti verið sekur um eitthvað óljóst. Er þetta ekki dálítið kunnugleg aðferðafræði?

 

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Hversvegna er TM til sölu
Hversvegna vill Landsbankinn kaupa

Er það enn á ný frjálsa breytan "samlegðaráhrif"

sem breyta á taprekstri í ofsagróða

Grímur Kjartansson, 20.3.2024 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband