Er sá mótmælandi sem beitir ofbeldi?

„Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð. Ég er rosa fegin að hafa getað óskað honum gleðilegra jóla,“ segir Katrín Harðardóttir mótmælandi í samtali við Vísi.

Er ofbeldi alltaf réttlætanlegt? En er það stundum réttlætanlegt? Hvenær er það réttlætanlegt og hvenær ekki?

Þessar spurningar leita á mann þegar fréttir berast af því að Katrín Harðardóttir mótmælandi hafi ráðist að utanríkisráðherra og hellt yfir hann einhverju rauðu dufti sem kallað er glimmer. Er það ekki ofbeldi? 

Er líklegt að sá sem verður fyrir ofbeldi breyti um skoðun og fari að vilja ofbeldismannsins?  

Sautján manna hópur réðst fyrir sléttu ári á tvo menn í veitingahúsi í Bankastræti, barði þá til óbóta og annar þeirra var stunginn með hnífi. Þeim hafði ofboðið eitthvað sem tvímenningarnir höfðu gert.

Í ágúst kveiktu glæpamenn í bíl lögreglumanns. Þeim hefur líklega ofboðið starf mannsins.

Í september síðast liðinn réðust menn á útlending sem sótti ráðstefnu á vegum Samtakanna 78. Ljóst má vera að þeim ofbauð að kynhneigð ráðstefnugestsins var önnur en þeirra.

Eru einhverjar líkur á því að þeir sem urðu þarna fyrir ofbeldi hafi látið segjast? Samþykkt það sem ofbeldismennirnir vildu? Nei.

Getur smávægilegt ofbeldi stigmagnast og enda með limlestingum eða dauða?

Prófessorinn í bandaríska háskólanum tók upp byssu og skaut á samstarfsmenn sína af því af hann fékk ekki stöðuhækkun sem hann vildi.

Frakkinn greip hníf og lagði til fólks úti á götu af því að hann vildi hefna fyrir stuðning franskra stjórnvalda við morðæði Ísraela á Gaza.

Í New York ætlaði rithöfundurinn Salman Rushdie að flytja ræðu um Bandaríkin sem griðarstað fyrir rithöfunda úr öðrum löndum. Bandaríkjamaðurinn Hadi Matar stakk Rushdie margsinnis, meðal annar í hægra augað. Ástæðan var einfaldlega gagnrýni Rushdies á Islam og bók hans Sálmar Satans.

Ofbeldismaður réttlætir valdbeitingu sína, heldur að hún breyti tilverunni til hins betra. Það gerist aldrei. Blóð réttlætir ekkert.

Mér ofbýður ofbeldi Katrínar Harðardóttur mótmælanda. Hún réttlætir gerðir sína rétt eins og aðrir ofbeldismenn. Í sannleika sagt er enginn munur á ofbeldi annar en stigsmunur. 

Manni ofbýður aðgerðarleysi stjórnvalda og það er það eina sem drífur mann í svona beina aðgerð.

Þetta segir mótmælandinn í viðtali við Vísi. Hann réttlætir ofbeldið rétt eins og aðrir ofbeldismenn.

Svo er það siðferðilega spurningin: Hvenær verður mótmælandi að ofbeldismanni?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Gleymum ekki hnum ágæta manni Helga Hó, sem sletti skyri á þinheim um árið.

Það var þjóðlega gert af honum.

Í Frakklandi fara bændur og hella saur á opinberar bygginger ef þeim mislíkar.

Allt mjög tilkomumikil mótmæli.

En eins og þú segir: það var ekkert tekið mark á Helga (ekki viss um að það hafi einu sinni verið hægt) og það lítur ekki út fyrir annað en frakkinn hætti með landbúnað, vegna þess að náttúran er svo skaðleg náttúrunni.  Segir ríkið.

Í því samhengi eru þessi mótmæli frekar skaðlaus.

Tilgangur mótmælanna er hinsvegar vafaamur: stuðningur við hryðjuverkasamtök.

Ég get skilið að menn kasti skyri þegar það er ekkert hlustað á þá né reynt að koma til móts við þá, sbr Helgi Hó, og ég get vel skilið að menn vilji ekki deyja úr hungri vegna einhvrra trúarbragða yfirvalda.

Það að vera með uppsteit vegna þess að einhver útlend bæði og fjarlæg hryðjuverkasamtök fá ekki að stunda fjöldamorð, það finnst mér mjög einkennileg hegðun.

Ásgrímur Hartmannsson, 10.12.2023 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband