Bloggfærslur mánaðarins, september 2020

Yrðir líflátinn, allt of og afturendinn

Orðlof

Kýmni

Mér er enn í fersku minni, þegar ég fyrst heyrði talað um Bréf til Láru. Fólkið var alveg höggdofa og grallaralaust. Öllum kom þó saman um, að höfundurinn hlyti að vera vitlaus — hefði líklega sloppið út af Kleppi. Hitt var mönnum ráðgáta, hvernig nokkrum mönnum með fullu viti gat dottið í hug að prenta bók eftir vitlausan mann.

Að vísu hefur fólk vitkazt mikið, síðan Bréf til Láru kom út. Þó skortir mikið á, að gildi kýmninnar í rituðu máli sé almennt viðurkennt. Flestir vaða í þeirri furðulegu villu, að ekkert mark sé takandi á ritsmíð, ef einhvers staðar örlar á fyndni eða græskulausu gamni. Ritað mál á að vera alvarlegt, eins og það feli í sér sinn eigin dauðadóm.

Tímarit Máls og menningar, 3. tbl.1944. Lifandi tunga eða dautt mál. Skúli Guðjónsson. 

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sæktu ofsóknum allt fram á síðasta dag.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Þaulvönum blaðamanni yfirsést fljótfærnisvillan. Enginn „sækir ofsóknum“. Í Málfarsbankanum segir:

Sögnin sæta stýrir þágufalli. Menn þurfa að sæta úrskurðinum. Hverju sætir þetta? Þeir sættu lagi. Það sætir undrum. 

Athuga að sögnin sæta með eignarfalli í orðasambandinu sæta færis er til orðið úr eldra sæta færi (líklega hefur orðasambandið neyta færis haft hér áhrif).

Ekkert er að því að segja að minnihlutahópar hafi verið ofsóttir. Raunar er það laglegra orðalag.

Hægt er að verjast fljótfærnisvillum með því að geyma textann um stund, lesa hann yfir síðar. Þá fæst oft önnur sýn á skrifin.

Í greininni segir:

Síðasta áratuginn sem Franco ríkti voru skipaður dómstóll …

Hér er enn ein fljótfærnisvillan.

Og bæjar- og borgarstjórnum bæja

Dálítið er þetta skrýtið. „Bæjarstjórar bæja“ og „borgarstjórar bæja“. Þarna hefði verið nóg að segja bæjar- og borgarstjórar …

Greinilegt er að blaðamanninum lá mikið á að klára skrifin. Gleymdi að lesa yfir.

Tillaga: Þá má ekki gleyma því að minnihlutahópar sættu ofsóknum allt fram á síðasta dag.

2.

„Gylfi: Yrðir tek­inn af lífi í klef­an­um.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                 

Athugasemd: Við fyrstu sýn mætti halda að fyrirsögnin væru um hann Yrði sem var tekinn af lífi í klefa. 

Þegar nánar er að gáð fjallar fréttin um fótboltaleik og er þetta haft eftir vangaveltinum (spekúlantinum), Gylfa Einarssyni, sem ræddi um leik Manchester United og Brighton, ekki við Moggann heldur á Sjónvarpi Símans.

Enginn „Yrðir“ var í leiknum og nafnið ekki þekkt meðal leikmanna liðanna og raunar ekki heldur sem íslenskt mannsnafn. Yrðlingur í Hornbjargi gæti þó borið nafnið ef um hann væri samin barnasaga.

Fyrirsögnin er engu að síður torkennileg vegna þess að í hana vantar persónufornafnið þú. En þarna er sögnin að verða komin í viðtengingarhátt. Hér sést hversu óregluleg hún er:

Framsöguháttur í nútíð:

Ég verð tek­inn af lífi í klef­an­um.

Þú verður tek­inn af lífi í klef­an­um.

Hann/hún/það verður tek­inn af lífi í klef­an­um.

Hins vegar er viðtengingarháttur í þátíð allt annar:

Ég yrði tek­inn af lífi í klef­an­um.

Þú yrðir tek­inn af lífi í klef­an­um.

Hann/hún/það yrði tek­inn af lífi í klef­an­um.

Og þarna er það komið. Málfræðilega er ekkert að fyrirsögninni í Mogganum. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Ekkert er haft eftir honum Gylfa vangavelti í fréttinni og virðist Mogginn láta nægja að vísa í klippu frá Sjónvarpi Símans. Er það góð vinnubrögð að fjalla ekki um efni fyrirsagnar í meginmáli fréttarinnar heldur vísa lesandanum í annan fréttamiðil? 

Í fréttinni eru leikmenn fótboltaliða kallaðir „lærisveinar“ þjálfarans. Þeir sem þjálfari vinnur með í fótbolta eru ekki lærisveinar hans. Ekki frekar en blaðamaður sé lærisveinn ritstjórans. Fótboltamenn og blaðamenn eru launaðir stafsmenn, ekki nemendur í skóla. Svo rammt kveður að þessari misnotkun að halda mætti að blaðamenn Moggans séu staðráðnir í því að breyta tungumálinu.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

Allt of, allt of, allt of mörg dæmi um einstaklinga sem hafa verið veikir á ferðinni.“

Fyrirsögn á visir.is.                                  

Athugasemd: Fyrirsögnin stingur í augun. Yfirleitt er allt of skrifað í einu orði, alltof. Hitt er ekki rangt eins og segir í Málfarsbankanum:

Annaðhvort er ritað allt of eða alltof.

Stutt og laggott þarna. Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir um allt of:

„of“ með sérstakri áherslu. 

DÆMI: kaffið er allt of dýrt, fundurinn var allt of langur, allt of margt fólk var í salnum

Stundum er framburðurinn svona: Allt „oof“ dýrt. Þá er áherslan dálítið hneykslunarkennd.

Ég hef vanist á að skrifa alltof en á það til að slíta orðið í sundur þegar mér er mikið niðri fyrir en leiðrétti komi ég auga á „villuna“.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Gott að fá smá spark í rass­gatið öðru hverju.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                   

Athugasemd: Viðmælendur blaðamanna tala vonandi alltaf frá hjartanu en þar með er ekki sagt að allt sé hafandi eftir þeim. Hér er ekki verið að mæla fyrir tepruskap en samt er óviðkunnanlegt að nota orðið „rassgat“ í fjölmiðlum. Það á ekki við. Þar að auki er hægt að ímynda sér að spark sem fer nákvæmlega í það sé síst af öllu gott, hvað svo sem fótboltamanninum finnst.

Ekki er öllum gefið að taka viðtöl og skrifa þau en með góðri tilsögn má læra listina. Mikilvægt er að kunna að segja sögu og viðtal er saga. Þar að auki vanda ekki allir viðmælendur mál sitt og raunar eru sumir frekar illa máli farnir. Þá er það verkefni blaðamannsins að umorða, færa til betri vegar.

Í fréttinni segir viðmælandinn:

… og það var þess vegna afar kær­komið að ná í sig­ur.

Þetta er alls ekki rangt orðað en í stað þess að vera svona nafnorðasinnaður hefði í staðinn verið hægt að segja:

… og það var þess vegna afar kær­komið að sigra.

Röð orða er stundum dálítið þvinguð í fréttinni. Í segir:

og eins höf­um við ekki verið að skora mörg mörk held­ur.

Blaðamaðurinn hefði mátt laga orð viðmælandans eitthvað á þessa leið:

… og við höfum ekki heldur skorað mörg mörk.

Sagt er að umhverfið móti einstaklinginn og skrif í fjölmiðlum hafa áhrif á lesendur. Þar af leiðir að afar mikilvægt er að í starf blaðamanns veljist vel skrifandi fólk sem fái leiðbeiningar frá samstarfsmönnum og yfirmönnum á ritstjórninni. Allir hafa gott af aðhaldi.

Tillaga: Gott að fá smá spark í afturendann öðru hverju.


Lína sem opnaði, þjóna sem dómari og annasamir dagar

Orðlof

Aukafrumlag

    • Það voru margir Íslendingar á fundinum.
    • Varst þetta þú?
    • Það erum við sem borgum launin. 

Eins og sést á þessum setningum hafa orðin það og þetta (nokkurs konar aukafrumlög) engin áhrif á beygingu sagnarinnar í setningunni heldur er það aðalfrumlagið (þ.e. margir Íslendingar, þú, við) sem ræður beygingu hennar.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég hef enga af­sök­un; það eru tvö ár síðan þessi lína opnaði, og ég meira að segja vígði hana. Þetta eru stór mis­tök.“

Frétt á mbl.is.                               

Athugasemd: Þarna er verið að tala um járnbrautateina og lest sem tafðist vegna þess að þingmaður lagði bíl sínum á þær.

Í heimildinni sem er vefur BBC segir:

"I have no excuse: it’s been two years since the line [opened] and I even inaugurated it… it’s a big mistake."

Blaðamenn þurfa að vita að stundum ætti ekki að þýða beint úr ensku. „Since the line opened“ þýðir ekki „síðan línan opnaði“. Í fyrsta lagi opnaði línan ekki neitt og í öðru lagi er lína á íslensku aðeins lína, strik, færi, band og álíka nema um sé að ræða konunafn sem jafnvel hefur viðurnefnið langsokkur.

Sögnin að vígja merkir að lýsa trúarlega helgi yfir (e-ð) með vígsluathöfn samkvæmt orðabókinni. Hér fer betur á því að segja að þingmaðurinn hafi opnað járnbrautaleiðina, líklega með viðhöfn, klippti á borða. 

Svokölluð Demantsleið (ekki „lína“) var formlega opnuð fyrir stuttu og er ferðamannaleið milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatns, Dettifoss og Ásbyrgis. Þrír ráðherrar opnuðu hana, klipptu á borða. Ofmælt væri að segja að þeir hefðu vígt hana.

Tillaga: Ég hef enga af­sök­un; það eru tvö ár síðan þessi leið var opnuð, og ég opnaði hana hana meira að segja. Þetta eru stór mis­tök.

2.

„Stunga í kvið með hnífi er ávallt lífsógnandi.“

Frétt á blaðsíðu 6 í Fréttablaðinu 22-9-20.                              

Athugasemd: Áður en einhverjir spakir menn fundu upp orðið „lífsógnandi“ var notast við lífshættulegt og dugði það ágætlega í langan tíma. Hvað breyttist er ekki alveg vitað en hugsanlega má kenna kóvítinu um, vanda ferðaþjónustunnar eða rýrnun jökla.

Hér skal viðurkennt að „lífsógandi“ er alveg fantagott orð og miklu skemmtilegra en flest önnur en það er verulega „skrifógnandi“.

Hér fer orðið í stjörnuflokk en þar geymast skrýtnu orðin og þau sem eru ofnotuð í fjölmiðlum:

    1. Um að ræða
    2. Til staðar
    3. Það er …
    4. Valkostur
    5. Ítreka
    6. Kalla eftir …
    7. Hvað varðar …
    8. Biðla til …
    9. Horfa til …
    10. Ákvarðanataka
    11. Viðbragðsaðilar
    12. Kynna til leiks
    13. Leggja hald á …
    14. Haldleggja …
    15. Þessi efnis …
    16. Með puttann á púlsinum
    17. Punkturinn yfir i-ið
    18. Sannkallað …
    19. Lífsógnandi
    20. Ferðamannaiðnaður
    21. Vista í fangaklefa
    22. Vegna rannsóknar málsins
    23. Vettvangur
    24. Labba
    25. Fjöldi sem telur (til dæmis tíu manns)
    26. Hópur sem samanstendur af (til dæmis tíu manns)
    27. Handan auglýsinga
    28. Framkvæma
    29. Léttast um (til dæmis tíu kg)
    30. Aðilar (framkvæmdaaðilar, viðbragðsaðilar, rekstraraðilar, skoðunaraðilar )

Höldum áfram að vera hátíðleg og skrifum í óumbreytanlegum stofnanastíl og þá er lítil hætta á að almenningur skilji.

Tillaga: Hnífstunga í kvið er ávallt lífshættuleg.

3.

„Ruth hafði þjónað sem dómari við réttinn í 27 ár …“

Leiðari Fréttablaðsins 22.9-20                              

Athugasemd: Þetta orðalag er ekki samkvæmt íslenskri málhefð. Höfundurinn skrifar um einn af dómurum Hæstaréttar Bandaríkjanna sem lést nýlega.

Í orðabókinni Lexico segir um ensku sögnina „to serve“:

Perform duties or services for (another person or an organization)

Og gefin eru mörg dæmi, til dæmis þessi:

Recently a priest who had served for years as an official in the chancery office was ordained an auxiliary bishop.

He served these organizations for some 23 years till his retirement in March 1996.

Á íslensku segjum við að konan sem lést hafi verið dómari. Sá sem er í hernum er hermaður. Annar er embættismaður, er þingmaður, er ráðherra og svo framvegis. Við hin getum þjónað öðrum til borðs, verði þjónar og svo framvegis.

Sögnin að þjóna merkir að gegna þjónustustarfi, vera þjónn, sinna þjónustustörfum. Prestur þjónar að vísu fyrir altari en það er annað en hér um ræðir. Benedikt Bogason þjónar ekki í hæstarétti, hann er hæstaréttardómari. Halldór Benóný Nellet þjónaði ekki sem skipherra á varðskipi Landhelgisgæslunnar, hann var skipherra. Í gamla daga var ég í sumarlöggunni en fjarri því að ég hafi þjónað sem lögga.

Þegar verið er að ráða blaðamann á fjölmiðil er spurt: Ertu góður í ensku? Allir þykjast góðir í ensku og sumir eru það. Já, þá ertu ráðinn. Aldrei virðist spurt hvort umsækjandinn kunni að koma þýða ensku yfir á íslensku. Það er gefið.

TillagaRuth hafði verið dómari við réttinn í 27 ár …

4.

„10% fjöl­skyldna á Ís­landi eiga samanlagt um 3.200 milljarða í eignir.“

Frétt á frettabladid.is.                              

Athugasemd: Fallbeyging orðsins eignir er röng, á að vera í þágufalli, eignum.

Tillaga: 10% fjöl­skyldna á Ís­landi eiga samanlagt um 3.200 milljarða í eignum.

5.

„… eykur enn á styrk sinn og orku með náttúrulegum og hreinum vítamínum frá Solaray. Með þeim fullnýtir hann annasama daga.“

„Kynningarblað“ Fréttablaðsins 23.9.20.                             

Athugasemd: Líklega á sá sem skrifaði auglýsinguna við að maðurinn geti með þessum vítamínum tekist á við annir dagsins. Dagar eru ekki annasamir

Svo veltir maður því fyrir sér hvað séu „hrein vítamín“. Líklega eitthvað annað en þau „menguðu“ eða „óhreinu“ sem við alþýðufólkið látum okkur nægja að gleypa á hverjum morgni.

Í auglýsingunni segir:

Solary-vítamín eru náttúrleg og án allra aukaefna …

Við hinir tökum þá „ónáttúrleg vítamín“. Þetta er nú meiri vitleysan.

Tillaga: Í krafti þeirra vinnst honum betur á hverjum degi.


Undirritunaraðilar, biðla til og sigra mót

Orðlof

Högg

Góður félagi benti mér á fyrirbæri sem einnig snertir íslenskt málfar nútímans: Nú táknar það „að fá högg“ ekki heimilisofbeldi, heldur faðmlag (e. hug):

„Viltu fá högg?“

„Gefðu mér högg“.

Annað málfræðitengt atriði læt ég fylgja. Ég fékk það í hendur næstum milliliðalaust frá norðlenska kórmanninum: Það kom eistneskur kór til að syngja með söngfélögum hans á Akureyri. Þegar hann lýsti uppákomunni eftir á sagði hann:

„Fyrst sungu þeir, svo sungum við. Og svo sungum við með eistunum, og þá ætlaði þakið af húsinu.“

Morgunblaðið, 19.9.20. Tungutak, blaðsíðu 28. Baldur Hafstað.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Sem upphaflegir undirritunaraðilar Atlantshafsbandalagsins hafa Bandaríkin og Ísland verið viðbúin að koma hvort öðru til varnar í yfir 70 ár.“

Morgunblaðið, grein á blaðsíðu 29, 19.9.90.                               

Athugasemd: Sendiherra erlends ríkis fær birta grein í Morgunblaðinu. Einhver hefur fengið það verkefni að þýða hana, líklega Google-Translate. 

Þarna er talað um „undirritunaraðila“ sem gæti verið þýðing á enska orðalaginu „original signatories“ eða „signatory party“. Hins vegar er þetta ekki óalgengt orðalag en ekkert meira aðlaðandi fyrir því. Prófið að gúgla.

Á málið.is segir:

Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili. T.d. fer mun betur á að segja ábyrgðarmaður, dreifandi, eigandi, hönnuður, innheimtumaður, seljandi, útgefandi en „ábyrgðaraðili“, „dreifingaraðili“, „eignaraðili“, „hönnunaraðili“, „innheimtuaðili“, „söluaðili“, „útgáfuaðili“.

Margt er líkt í íslensku og ensku en þar með er ekki sagt að bein þýðing sé viðeigandi. Oft fer miklu betur á því að nota fleiri orð í þýðingu úr ensku, þá umorðum við. 

Tillaga: Bandaríkin og Ísland voru meðal þeirra ríkja sem stofnuðu Atlantshafsbandalagið fyrir sjötíu árum og hafa síðan verið viðbúin að koma hvoru öðru til varnar.

2.

„Biden biðlar til þingmanna Repúblikana.“

Fyrirsögn á ruv.is.                               

Athugasemd: Notkun sagnarinnar að biðla er orðin dálítið skrýtin í fjölmiðlum og ekki alltaf vitað við hvað blaðamenn eiga. Samkvæmt orðabókinni merkir orðið að biðja sér konu, samanber nafnorðið biðill. Það getur líka merkt að biðja. Í fjölmiðlum virðist hafa dregið úr notkun biðja en biðla komið í staðinn.

Fyrirsögnin hér fyrir ofan óljós. Hins vegar er skýrt hvað átt er við þegar lesin er fyrsta málsgreinin í fréttinni sjálfra. Þar stendur:

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hvatti þingmenn í dag til að koma í veg fyrir að nýr hæstaréttardómari yrði skipaður fyrir kosningar. 

Ljóst er því að hann hvatti þingmenn en biðlaði ekki. Talsverður munur er á merkingu orðanna.

Tillaga: Biden hvetur þingmenn Repúblikana að tilnefna ekki dómara.

3.

„Snjór í hlíðum Esjunnar.“

Fyrirsögn á visir.is.                               

Athugasemd: Fyrirsögnin er alveg rétt, ekkert að henni. Þó má benda á að þegar snjóar lítilsháttar þannig að greina má jörð er talað um að það gráni, gráni í fjöll. Í morgun gránaði í Esjuna og líka í Hengli, Bláfjöllum og örugglega víðar á suðvesturhorninu.

Orðalagið að grána í fjöll er skemmtilega gegnsætt og jafnvel notalegt, fer vel með myndinni sem fylgir fréttinni.

Litríkar lýsingar geta verið skemmtilegar. Hér eru dæmi:

    1. Gránar í fjöll
    2. Bæta gráu ofan á svart
    3. Nú er’ða svart maður
    4. Eins og svart og hvítt
    5. Svartur blettur á einhverjum
    6. Svartur blettur á tungunni
    7. Hef séð það svartara
    8. Fram í rauðan dauðann
    9. Rauð rómantík
    10. Rauð jól
    11. Algjör græningi
    12. Undir grænni torfu
    13. Í einum grænum
    14. Ekki grænan grun
    15. Út í bláinn
    16. Bláa höndin
    17. Hvít jól
    18. Hvítur fyrir hærum
    19. Fjallið tjaldar hvítu
    20. Brenna til hvítra kola

Upp í hugann koma örfá orðatiltæki með litum en þegar leitað er heimilda í orðabókum finnast margir tugir ef ekki hundruð.

TillagaGránaði í Esjuhlíðar í nótt.

4.

„Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Fréttamaðurinn á örugglega við að kylfingurinn hafi sigrað Í mótinu. Enginn getur „sigrað mót“ en hægt er að vinna aðra keppendur, hafa betur, sigra í keppni eða móti.

Orðalagið hefur dreifst víða enda átta ekki allir sig á þversögninni. Önnur álíka þversögn er að „opna hurð“ sem er algjörlega vonlaust verkefni, rétt eins og að „standa með sjálfum sér“, „elta drauma sína“ og annað skemmtilegt.

Tillaga: Kylfingurinn Bryson DeChambeau sigraði á Opna bandaríska meistaramótið í golfi í gærkvöld.

 


Lappa upp á, ræna stúlku og fremja rán

Orðlof

Frekara, frekari

Í frekara mæli og í frekari mæli. Fyrri beygingin er fornleg, hin síðari í samræmi við beygingar í nútímamáli. 

Eldri beygingin veldur því e.t.v. að sumir telja að í orðasambandinu komi fyrir hvorugkynsorðið mæli (rödd, rómur, málfar; orðspor, eitthvað sem sagt er). Svo er ekki heldur er þetta karlkynsorðið mælir.

Málfarsbankinn.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Raunsæi verður að ráða för og ljóst er að á liðnum árum hefur, þrátt fyrir Dyflinnarreglugerð og vegna þeirra lausataka sem „fjölmiðlanálgunin“ hefur haft í för með sér, gríðarlegur fjöldi fólks komið hingað til lands á þeirri forsendu að það sé á flótta undan slæmum aðstæðum af einhverju tagi.“

Forystugrein Morgunblaðsins 18.9.20.                               

Athugasemd: Sá sem skrifar langar málsgreinar á það á hættu að ruglast og misst þráðinn. Lesi hann ekki vel yfir að loknum skrifum er hann í vanda. Flestir lesendur eiga erfitt með að halda þræðinum við lestur langra málsgreina. Þess vegna er skynsamlegt að vera hnitmiðaður í skrifum, vera óspar á punkt og lesa vel yfir.

Ekki veit ég hvað er að gerast á Morgunblaðinu. Fyrir nokkru fór að bera á afar löngum og flóknum málsgreinum í leiðurum blaðsins og jafnvel málvillum. Yfirleitt eru þeir skrifaðir af mikilli list og pólitískri glöggskyggni og síðustu árin leiftrandi húmor.

Leiðari dagsins er slæmur aflestrar. Gott dæmi er tilvitnunin hér að ofan sem er afar löng. Höfundurinn missti þráðinn á eftir innskotssetningunum tveim. Þar vantar sögnina að hafa, það er á milli tveggja orða sem hér eru feitletruð.

Höfundurinn skilur ekki nástöðu, upptugguna. Hann gleymir því sem hann hefur skrifar og telur í lagi að hnoðast með sömu orð eða orðalag. Hér er dæmi:

Hins síðari ár hefur hrikt í stoðum reglugerðarinnar …

Strax í næstu málsgrein á eftir stendur:

Hin síðari ár hafa því heyrst háværar raddir …

Nástaða í skrifum er merki um stílleysi en stafsetningavillur eru um leti, jafnvel hroðvirkni. Blaðamaður þarf að virkja leiðréttingaforritið í tölvu sinni sem bendir þá samstundis á villur í stafsetningu orða. Forritið hefur hins vegar ekkert vit, enga greind eða ályktunarhæfni. Það gerir ekki greinarmun á skó og skóg svo dæmi sé tekið. Þar af leiðandi þarf blaðamaðurinn að lesa skrif sín vandlega yfir fyrir birtingu svo hann orðið það ekki svo að einhver hafi klætt sig í skóg.

Í leiðaranum segir:

Og þó að reglugerðinni hafi ekki verið beitt af þeirri festu sem skyldi hefur hún hjálpað og án hennar dytti varla nokkrum manni í hug að verja þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu, sem er í meira lagi vafasamt, jafnvel með reglugerðinni.

Þetta er illskiljanleg málsgrein vegna þeirra orða sem eru feitletruð.

Fleira mætti gagnrýna í skrifunum. 

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Það er um 800 milljónum króna dýrara að reisa þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir sem tæki 8.600 áhorfendur en fyrir 5.000 áhorfendur.“

Frétt á ruv.is.                                

Athugasemd: Óvanir skrifarar falla oft í gildruna sem kennd er við nástöðu. Hér er óþarfi að skrifa tvisvar sinnum orðið áhorfendur, einu sinni dugar. Lesandinn skilur.

Aukafrumlagið „það“ getur stundum verið hvimleitt enda oft kallað leppur, stendur fyrir eitthvað óskilgreint. Yfirleitt er það merkingarlaust, hægt að sleppa því án þess að merking setningar eða málsgreinar breytist rétt eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Ofnotkun á aukafrumlaginu er sóðaskapur í rituðu máli, stílleysa. Góðir skrifarar reyna að komast hjá því, aðrir eru blindir á þetta en svo virðist að sumum sé alveg sama. Þeir síðastnefndu ættu ekki að vera í blaðamennsku.

Ég hafði ekki hugmynd um hvað aukafrumlag væri fyrr en ég rakst á grein eftir Eirík Rögnvaldsson prófessor í íslensku. Hér er dálítil umfjöllun um ’það’. Aðalatriðið er að nota aukafrumlagið það í hófi. Samt er óþarft að sleppa því alveg. Margvíslegt orðalag hefur fest í málinu: Það er blessuð blíðan, það rignir, það mætti segja mér það og svo framvegis.

Stílleysi háir mér mikið og er mér raun að því. Ég á það til að ofnota sum orð. Nefna má ábendingarfornafnið þessi og lausa greininn. Mér finnst skrif mín lagast ef ég gæti hófs í notkun þeirra. Auðvitað kostar það dálitla áreynslu að umorða setningar og málsgreinar, en ég græði á því - held ég.

Hvernig má orða á annan hátt eftirfarandi úr fréttinni með því að sleppa ’þetta’?

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu starfshóps sem var ætlað að gera tillögur um þjóðarleikvang fyrir inniíþróttir. 

Eða:

Bent er á í skýrslunni að það yrði mikil lyftistöng fyrir menningarstarf að hafa möguleika á slíku tónleikahaldi

Læt lesendum eftir að brjóta heilann.

Margir halda að svo framarlega sem efnislegt innihald fréttar skiljist skipti orðalagið engu máli. Ég er ósammála. Deila má um hvað sér „rangt“ mál en stíll skiptir jafnvel meira máli því í honum felst skýr hugsun. Aftur á móti er hvorki til réttur né rangur stíll, ekki frekar en röng eða rétt skoðun.

Tillaga: Um 800 milljónum króna dýrara að reisa þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir sem tæki 8.600 áhorfendur en fyrir 5.000.

3.

„Þrátt fyrir vonskuveður hafi gengið yfir höfuðborgarsvæðið í gær með rigningu og slagviðri létu starfsmenn Kópavogsbæjar það ekki á sig fá. Þeir löppuðu upp á brekkuna við Arnarnesveg með því að leggja af kostgæfni grasþökur á moldarflagið sem þar var.“

Myndatexti á blaðsíðu tvö í Fréttablaðinu 18.9.20.                               

Athugasemd: Hér er ekkert beinlínis rangt en samsetningin er hnoð. Orðalagið að lappa upp á eitthvað merkir að tjasla einhverju saman, gera lauslega við. Höfundur textans veit þetta ekki. 

„Hvað ertu að fara að gera?“ spurði móðir mín mig einhverju sinni er ég var á níunda ári. „Ég ætla að lappa upp á hjólið mitt,“ sagði ég. Þá hvein í mömmu. „Enginn lappar upp á nýtt hjól,“ sagði hún. Og ég skildi. Þannig læra börnin það sem fyrir þeim er haft. 

Ekki fer saman að lappa upp á eitthvað og gera eitthvað af kostgæfni. Miklar líkur eru á því að „moldarflagið“ sé engin tilviljun, unnið hafi verið gott undirlag fyrir grasþökurnar. Og hvað er þá betra en mold?

Blaðamaður í heita pottinum hvíslaði því að mér um daginn að blaðamenn skrifi ekki alltaf fyrirsagnir og myndatexta. Útlitshönnuðir, ritstjórnarfulltrúar og aðrir sem þykjast kunna að valda penna taki iðulega fram fyrir hendurnar á þeim. Texti þarf að passa í plássið og þar af leiðir að fjöldi stafa eða orða skiptir meiru en innihaldið. Þannig verður til hnoð.

Tillaga: Þrátt fyrir vonskuveður í gær lögðu starfsmenn Kópavogsbæjar af kostgæfni grasþökur á mönina.

4.

„Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, myrti hann lögreglumann, rændi stúlku og framdi nokkur rán.“

Frétt á blaðsíðu 8 í Fréttablaðinu 18.9.20.                              

Athugasemd: Já, það er einmitt það. Bófinn rændi stúlku og „framdi síðan rán“. Blaðamaðurinn hefði getað orðað fréttina svona:

Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, framdi hann morð á lögreglumann, framdi rán á stúlku og framdi síðan fleiri rán.

Orðalagið ’að fremja eitthvað’ er núorðið oftast tengt óhæfuverkum: Fremja rán, fremja morð, fremja óhæfuverk. Sjaldnast fremur einhver góðverk, en það er vissulega til en minna notað (prófið samt að gúggla orðið). 

Sögnin að fremja er náskyld orðinu framur sem merkir framgjarn, frekur eða hraustur. Af því er leitt orðið fremd sem merki efling, vegsauki eða frægð.

Líkast til er best að sleppa nafnorðahnoðinu og orða þetta einhvern veginn á þann máta sem segir í tillögunni.

Tillaga: Á fyrsta flótta sínum, árið 1987, myrti hann lögreglumann, og rændi fólk.


Öryggið sem áður var óöryggi

UnknownFyrir nokkrum misserum bárust fréttir frá Frakklandi að konur í yfirklæðnaði þóttu ógna öryggi þarlendra. Föt sem hylja allt nema augun kalla útlenskur „búrku“ og sumir „níköb“ og til eru fleiri orð sem lýsa tískunni sem þraukað hefur í dálaglegan tíma, jafnvel frá því að spámaðurinn Múhameð var uppi.

Sem sagt, franskir áttu við mikið öryggisleysi að stríða af því að konur sáust ekki inni í fötunum og helst var því borið við að í þeim gætu verið fúlskaggjaðir karlar með alvæpni eða fullhlaðin sprengjuhöldur. Allir vita að öryggisleysi er smitandi og fyrr en varði leið Dönum afar illa, líka Bretum, Spánverjum og öðrum þjóðum.

imagesSko, andlitið er aðalatriði. Myndavélar á Oxford götu í Lundúnum eða á Ódáinsvöllum í Parísu geta greint alla vegfarendur á örskotshraða, þjóðerni, kennitölu, fjölskyldubönd og skónúmer. Hef þetta frá áreiðanlegum heimildum úr bíómynd.

Svo fréttist í byrjun árs að meinleg flensa uppgötvaðist í Kínaveldi þó þarlendir vildu fyrst sem minnst úr henni gera. Engu að síður barst hún með ógnarhraða um heimsbyggðina og þá hafði uppgötvast að hún var ekkert venjuleg flensa heldur kóvítis andskoti sem getur verið banvænn. Á hraðferð hennar komust skýrir menn að þeirri niðurstöðu að úðasmit frá munni og nefi geti borist nokkuð langt í lofti.

5e86e60a90630-funny-coronavirus-masks-protection-2-5e8482f6dfcd1__700Þegar einhver hóstar eða hnerrar er voðinn vís. Sagt er að fyrir fimm hundruð árum þegar svarti dauði reið um íslensk héruð að sá sem hnerraði væri sýktur. „Guð hjálpi þér,“ var þá sagt af djúpri vorkun. Þetta hefur síðan verið sagt allt fram á þennan dag. Hefðu forfeðurnir vitað að smit gæti borist með hnerra eða hósta hefðu þeir talið mikilvægara að biðja guð um að hjálpa sjálfum sér fremur en hnerraranum.

5e86e60d2ca21-5e84509052e73_6rhzuz3_700.jpgNú, nú. Með því að hylja nef og munn með grímum fullyrða hinir vísu að takmarka mætti kóvítissmitið. Líklega margfalt.

Það hefir líka frést að víða um heimsbyggðina sé skylt að ganga með grímur sem hylja munn og nef. 

Og þannig hefur nú heimskringlan snúist að almúginn arkar í erindum sínum hulinn grímu, er nær andlitslaus rétt eins og íslamska konan í búrkunni. Enginn nefnir lengur búrkuógnina vegna þess að því minna sem sést í andlit fólks því öruggari er lýðurinn sagður vera.

images-1Eins gott að fylgjast vel með vendingum í öryggismálum. 


Honestly með samvisku og ný andlit spreyta sig í fótbolta

Orðlof

Sakir rigningu

Það er orðið algengt að Íslendingar noti þágufallsmynd kvenkynsorða sem enda á –ing þar sem eignarfall er viðeigandi. Ég hef þegar nöldrað yfir tilhneigingunni til að spyrja spurningu í stað spurningar. Það er hreint ekki eina útbreidda dæmið um notkun þágufalls í stað eignarfalls. Sumir fresta öðrum framkvæmdum vegna byggingu hússins og fara snemma heim af útihátíð sakir rigningu.

Ég hélt að fólk væri þarna að slá saman út af því og vegna þess, þar til kona nokkur sagði mér að dóttir hennar ætlaði að safna hári fram til fermingu. Þetta er ljótt og rangt. Stúlkur ættu að safna hári fram að fermingu, eða bíða með það til fermingar að láta klippa sig ef þær vilja hafa sítt hár á fermingardaginn. Sömuleiðis ættum við að fresta ferðalagi vegna rigningar.

Kvennablaðið. Eva Hauksdóttir.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ég er kominn með nóg af FIFA og öllum hinum tölvuleikjunum. Ég er líka hættur að hlusta á podköst. Núna er ég einungis tilbúinn að horfa á kvikmyndir.“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Blaðamaður fór í sóttkví. Honum leiddist eftir að hafa spilað tölvuleiki, hlustað á podköst og horft á kvikmyndir í tíu daga.

Honum hefði örugglega ekki leiðst hefði hann haft hjá sér góðar bækur. Lestur bóka er eitt hið stórkostlegasta fyrirbrigði sem til er. Og þá líður tíminn.

Verst að margt ungt fólk les ótilneytt fátt annað en textaskilaboð eða tölvupósta. Sorglegt.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

Honestly með allri minni samvisku …“

Frétt á dv.is.                                    

Athugasemd: Nú skal segja, nú skal segja: hvernig ungar stúlkur  tala. Nokkrar íslenskar stúlkur gerðu sér dælt við unga fótboltamenn í landsliði Englendinga. 

Þær sjá eftir öllu saman og ein þeirra skýrir mál sitt á vefnum Instagram. Hún virðist tala það sem sumir efna „ísl-ensku“, blöndu af íslensku og ensku:

  1. Honestly með allri minni samvisku …
  2. Ég þurfti að læra það the hard way að …
  3. Ég setti þetta í private storie á …

Að öðru leyti er lítið að frásögninni. Hún er svo til villulaus og snyrtileg að slettunum undanskildum. Stúlkan á örugglega framtíð fyrir sér í skrifum ef hún léti fylgdarþjónustuna lönd og leið - og sletturnar.

Tillaga: Engin tillaga.

3.

„Mörg ný andlit fengu að spreyta sig í gærkvöldi.“

Frétt kl. 12.20 Ríkisútvarpinu 9.9.20.                                  

Athugasemd: Hvernig spreyta andlit sig? Íþróttafréttamenn tala stundum skrýtilega og orðavalið er ekki alltaf í samræmi við efni fréttar, stundum út í hött. 

Hér var verið að tala um frammistöðu landsliðsmanna í fótboltaleik. Vegna forfalla fengu margir að spreyta sem ekki höfðu hingað til fengið mikið að spila.

Leikurinn gengur út á að leika bolta með fótunum, ekki andlitinu. 

Tillaga: Margir nýir leikmenn fengu að spreyta sig í gærkvöldi.

4.

Viðbragðsaðilar leituðu í fjóra daga og …“

Frétt á frettabladid.is.                                   

Athugasemd: Orðið „viðbragðsaðilar“ er einkar illa samið orð því algjörlega óljóst er hverjir tilheyri þessum hópi. Þar að auki er orðið „aðilar“ ofnotað. 

Á vef CNN sem er heimild fréttarinnar segir:

Police, the Royal Air Force (RAF) and mountain rescue workers spent four days searching for the experienced hiker and a press conference was planned for Wednesday at The Tan Hill Inn, situated within the national park.

Þarna er ekki talað um „viðbragðsaðila“ aðeins lögreglu, flugherinn og björgunarsveitarmenn. 

Andlausir blaðamenn vita skrifa illa, eru hvorki gagnrýnir á eigin skrif né sinna þýðingum úr erlendum málum af þeirri kostgæfni sem nauðsynleg er. Sannast sagna er fréttin á CNN miklu fróðlegri og betri en sú íslenska. 

Hvaðan kemur þetta orð, „viðbragðsaðili“. Má vera að blaðamenn þekki enska orðalagið „response team“ og þýði það sem „viðbragðsaðili“ sem er lélegur kostur.

Á vef Wikipediu segir:

An incident response team or emergency response team (ERT) is a group of people who prepare for and respond to any emergency incident …

Algjör óþarfi að kalla björgunarsveit annað er því nafni eða öðru sem það ber. Sama er með lögreglu, slökkvilið, landhelgisgæslu og sjúkraflutningamenn. Ég hef komið að slysi og gerði það sem ég gat til að hjálpa. Var ég ekki „viðbragðsaðili“? Eða þarf að gefa öllum sem að slysi eða óhappi koma eitthvert samheiti? Sé ekki þörfina á því.

Tillaga: Lögreglan, flugherinn og björgunarsveitarmenn leituðu í fjóra daga og …

5.

Hvað gerðist fyrir skrifstofuna þína, maður?“

Skopmyndaserían Pondus í Fréttablaðinu 102.2.20.                                 

Athugasemd: Þarna hefur þýðandanum orðið á. Miklu betra er að nota sögnin að koma í stað gerast.

Í gamla daga voru nýliðar í blaðamennsku þvingaðir til að þýða það sem þá var kalla „skrípómyndir“. Verkefnið þótti það aumasta af öllum aumum en það var mikill misskilningur. Hvorki þarna né annars staðar í útgáfu dagblaðs má kasta til höndunum. Vera má að það sem vel er skrifað fái ekki sanngjarna viðurkenningu lesenda. Hitt gerist iðulega að lesendur gagnrýna ótæpilega þegar ekki er vandað til verka.

Svo er það hitt: Teiknimyndir í fjölmiðlum eru ekki aðeins fyrir börn. Pondus er gott dæmi um „skrípó“ fyrir fullorðna, bráðfyndinn. Börn skilja hann ekki.

Höfundur teiknimyndaseríunnar Pondus er Norðmaðurinn Frode Øverli.

Tillaga: Hvað kom fyrir skrifstofuna þína, maður.

 


Standa að baki, blettur á trausti og fremja eggjavopnaárás

Orðlof

Verkjaður

Guðjón Lárusson, lyflæknir, hringdi og tjáði óánægju sína með orðaval í sumum læknabréfunum sem honum berast. Sérstaklega er hann ósáttur við orðin bjúgaður, verkjaður og lyfjaður, og bað undirritaðan að herða baráttuna gegn þeim.

Um þessi orð var fjallað í 170. pistli (Lækna­blaðið 2004; 10: 713) eftir að leitað hafði verið fulltingis hjá sérfræðingum Íslenskrar málstöðvar. Þeir töldu orðin ekki samræmast íslensku málkerfi. 

Fram kom í pistlinum að þau ætti líklega að flokka sem lýsingarorð, mynduð af nafnorðunum, bjúgur, verkur og lyf. Gott dæmi um myndun lýsingarorðs af nafnorði er kjarkaður (af kjarkur). 

Flest þau orð sem enda á -aður eru hins vegar lýsingarháttur þátíðar af sagnorði, svo sem málaður (af mála) og ölvaður (af ölva).

Læknablaðið. Jóhann Heiðar Jóhannsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Einnig þakka ég barnsmóður minni … fyrir að standa að baki mér …“

Frétt á mbl.is.                                    

Athugasemd: Sá sem ’stendur að baki einhverjum’ getur verið fyrir aftan hann. Orðalagið getur einnig merkt að sá sé slakari en sem bakið á.

Þarna er vitnað í formála bókar sem er nýkomin út og þakkar höfundur mörgum fyrir liðveisluna meðal annars með þessum orðum. Ekki er þó laust við að lesandinn brosi í kampinn. 

Í Njáls sögu biður Kári Sölmundarson Björn í Mörk að standa að baki sér og aðhafast lítið. Lesandinn veit að Kári er frækinn bardagamaður en Björn ekki þó málugur sé, og er þetta hið besta fyrirkomulag fyrir Björn.

Líklegast er að höfundur formálans hafi viljað þakka barnsmóður sinni fyrir að standa með sér á tímum sem hann þurfti aðstoð.

Þetta er ágætt dæmi um að skrifarar þurfa oftast einhvern til að lesa yfir skrif sína annars er hætt við að illa fari.

Tillaga: Einnig þakka ég barnsmóður minni … fyrir að styðja mig …

2.

„Aukn­ar lík­ur á eng­um smit­um.“

Fyrirsögn á mbl.is.                                    

Athugasemd: Líkur eru á engu. Nei, svona talar enginn, nema kannski hátimbraðir vísindamenn. 

Hér er vitnað í greinargerð sem fylgir spálíkani Háskóla Íslands. Þar segir með orðum blaðamannsins:

Alltaf er þó mögu­leiki á því að mörg smit grein­ist …

Þetta er nú ekki ýkja spámannslega sagt. Frekar í ætt við það sem veðurfræðingurinn gæti sagt þegar hann er spurður um veðrið í vetur: 

Jú, það eru alltaf líkur á snjókomu.

Ég gerði athugasemd við ofangreind orð á Facebook-síðu Thors Aspelunds sem svaraði mér kurteislega og sagði:

Götumál líftölfræðinga og jafnvel líkindafræðinga. 

Ég var nú ekki alveg sammála og þá svaraði hann meðal annars:

Það er ekki rétt að segja að nú förum við að sjá daga með engin smit. Heldur er rétt að segja nú aukast líkurnar á að við förum að sjá daga með engin smit. En mikilvægt að útskýra vel og koma "talmálinu" rétt inní talmálið.

Ég get vel sætt mig við svarið enda ljóst að Thor áttaði sig vel á því sem ég átti við. Orðalagið ’förum að sjá’ er ekki eins gott og að segja blátt áfram að við munum sjá.

Tillaga: Litlar líkur á smitum.

3.

„Myndlistarsýningin On Common Ground opnar í dag á Hlöðulofti Korpúlfsstaða …“

Frétt á frettabladid.is.                                     

Athugasemd: Listamenn frá Póllandi, Litháen og Íslandi opna myndlistasýningu. Af hverju er heiti hennar á ensku? 

Á nokkur vafa er óskað eftir því að Íslendingar komi á sýninguna og hvers vegna er yfirskriftin þá ekki á íslensku? Þetta er enn eitt dæmið um niðurlægingu tungunnar, henni er ekki beitt heldur gripið til ensku sem enginn listamannanna á að móðurmáli.

Blaðamaðurinn gerir vel og þýðir enskuna á íslensku eins og lesa má í tillögunni hér fyrir neðan.

Þar að auki „opnar sýningin“ ekki neitt. Hún er opnuð af fólki.

Tillaga: Á sameiginlegri jörð.

4.

„Það setur blett á traust til Mannréttindadómstóls Evrópu af hálfu þeirra Tyrkja sem reka mál fyrir dómstólnum að forseti hans þiggi heiðursdoktorsnafnbót …“

Frétt á ruv.is.                                     

Athugasemd: Þetta er einhvers konar varfærnisorðlag sem gengur ekki fullkomlega upp. Betra er að nota lýsingarorðin lítið traust, mikið traust eða eitthvað þar á milli frekar er að blanda blettum inn í orðalagið.

Sagt er að blettur falli á mannorð einhvers og þá er átt við að orðspor hans hafi beðið skaða. Stundum er talað um skammarbletti. Í þessu tilvikið hefði verið tilvalið að segja að bletti hafi verið kastað á Evrópudómstólinn, það er að orðstír hans hafi rýrnað.

Evrópudómstóllinn byggir á trausti aðildarríkja og almennings á honum. Fyrir kemur að úr trausti dragi og þannig orðalag skilja allir og frekari málalalengingar eru því óþarfar.

Tillaga: Það rýrir traust til Mannréttindadómstóls Evrópu af hálfu þeirra Tyrkja sem reka mál fyrir dómstólnum að forseti hans þiggi heiðursdoktorsnafnbót …

5.

2.988smit kór­ónu­veiru greind­ust í Bretlandi síðasta sól­ar­hring.“

Frétt á mbl.is.                                      

Athugasemd: Svo virðist sem stjórnendum Moggans sé alveg sama hvernig blaðamenn skrifa. Engin gæðastjórnun á þeim bæ. Krakkar sem tóku ekki eftir í íslenskutímum í skóla byrja hiklaust setningar á tölustöfum. Þetta gerist aftur og aftur á mbl.is (takið eftir að hér er ekki sagt „ítrekað“ sem er vinsælasta orð blaðamanna um þessar mundir).

Allir fjölmiðlar hafa sínar tiktúrur. Á Ríkisútvarpinu er fréttamönnum skipað að segja „í gærkvöld“ ekki í gærkvöldi. Hvort tveggja er þó rétt.

Á Mogganum er nýliðunum sagt að byrja setningar á tölustöfum, ekki á bókstöfum. Það er kolrangt.

Ímyndum okkur að eins eitt nýtt smit hafi greinst í Bretlandi. Þá hefði gáfupenninn skrifað:

1 nýtt smit kórónuveiru greindist í Bretlandi síðasta sólarhring.

Myndi sá sem þetta les skrifa svona?

Af hverju skrifar blaðamaðurinn „smit kórónuveiru“ sem þó er alls ekki rangt en flestir myndu segja kórónuveirusmit.

Tillaga: Síðasta sólarhring greindust 2.988 ný kórónuveirusmit í Bretlandi.

6.

„Lögreglan í Birmingham á Englandi hefur handtekið 27 ára karlmann sem grunaður er um að hafa framið eggvopnsárásir  “

Frétt á visir.is.                                      

Athugasemd: Þekkjastskammbyssuárásir“ eða „bareflisárásir“? Án efa, en þetta er ekki vel skrifað. Árásarmaðurinn stakk fólk, það kemur greinilega fram í heimildinni sem er frétt BBC. Þó kemur ekki fram hvort það hafi verið gert með skærum, sveðju eða hnífi svo dæmi séu tekin. Ýmislegt bendir til þess að það hafi verið hnífur, sem raunar má telja til eggvopna, með þeirri undantekningu að hnífur er alls ekki alltaf vopn.

Ekki er rangt að tala um að „fremja árás“ en þetta er nafnorðastíll sem hæglega má víkja sér undan og skrifa ’ráðast á fólk’ sem er eðlilegt orðalag nema fyrir þá sem hafa vanist ensku máli.

Í fréttinni segir:

Sá sem lést var 23 ára gamall maður og dó hann á Irving stræti klukkan.

„Klukkan …“ Hvað erindi á þessi stubbur þarna? Nennti blaðamaðurinn ekki að lesa skrifin yfir fyrir birtingu? Er ekkert gæðaeftirlit með skrifum blaðamanna á Vísi? Þeim leyfist allt en ábyrgðin er ritstjórans sem virðist ekki gera kröfur til starfsmanna.

Í fréttinni segir:

Maður og kona, 19 og 32 ára, hlutu alvarlega áverka og eru sögð í lífshættu.

Sem sagt, konur eru ekki menn. Er betra að skrifa nítján og þrjátíu og tveggja ára? 

Tillaga: Lögreglan í Birmingham á Englandi hefur handtekið 27 ára karlmann sem grunaður er um að hafa stungið fólk með hnífi.


Hnignun Laugardalslaugar

IMG_2110Laugardalslaug er frekar sóðaleg. Það er ekki starfsmönnum að kenna, miklu frekar borgaryfirvöldum sem virðist vera nákvæmlega sama um laugina, veita ekki nægt fé til viðhalds og þrifa.

Vegna heimsfaraldursins voru sundlaugar landsins lokaðar frá 23. mars til 18. maí. Í Laugardalslaug var tíminn notaður til viðhalds. Sundlaugargestir komu í vel þrifna búningsklefa með nýlökkuðu tréverki og allt ilmaði af hreinlæti og gleði. Sumir stungu sér í laugina en aðrir renndu sér fótskriðu í pottana. Lífið var gott.

Svo tóku ýmsir góðborgarar eftir smáatriðunum sem höfðu gleymst. Rennurnar í lauginni voru óþrifnar, þær eru grænar, þó ekki fagurgrænar. Tröppur upp úr lauginni voru jafn skítugar og fyrr. Við pottana voru tvær efstu tröppurnar svo skítugar að þar áttu smágerð skorkvikindi lífvænlegt landnám. Skíturinn hefur síðan haldið áfram að safnast þar saman og jafnvel á milli potta. Blátt plast sem einhvern tímann var sett á bakka laugarinnar og víðar er sums staðar orðið grænleitt af óþrifum.

IMG_2066Þegar rignir lekur vatn ofan úr stúkunni og ofan í saltpottinn og lekandinn heldur áfram um tíma þó stytt hafi upp.

Má vera að handriðin við pottana hafi verið lökkuð meðan á lokuninni stóð. Það breytir því ekki að þau voru og eru enn kolryðguð. Ryðbrunnið gat er á handriði á austasta heita pottinum og hugsanlega fleirum.

Í svokölluðum nuddpotti eru gráar ólar sem pottagestir geta stungið höndum sínum í. Þær hafa varla nokkru sinni verið þrifnar og eru orðnar dökkar af skít eftir núning þúsunda handa. Eflaust má í þeim greina ótal lífsýni. Skyld'ann Kári vita af'essu?

Fyrir nokkrum dögum var einn góður sundlaugargestur orðinn svo þreyttur á sóðaskapnum að hann greip í sundlaugarvörð og benti honum á nokkur atriði sem hér hefur verið minnst á. Sá kom af fjöllum.

IMG_2114„Næturvaktin sér um þrifin,“ sagði vörðurinn, en lofaði að koma athugasemdum á framfæri. Daginn eftir var búið að þrífa, að minnsta kosti að nafninu til.

Hér hefur ekki verið fjallað um búningsklefana og gesti af báðum kynjum sem fara ekki í sturtu og menga því laugarvatnið fyrir öðrum. Um það má skrifa langan pistil.

Myndirnar sem fylgja voru teknar eftir „þrifin“. Af þeim má ráða að enn er mikið verk óunnið. Sumir myndu orða það þannig að komin sé tími á gagngera endurnýjun á lauginni.

Myndirnar skýra sig sjálfar. Þó má vekja athygli á einni. Greina má að tvær plöntur hafa skotið rótum í tröppum ofan í heitan pott (sjá neðstu myndina). Hugsanlega er þetta smári. Já, það er líf í laugunum, jafnvel eftir lokun.

IMG_2069 bSvo eru það tæknimálin. Fyrir kemur að sturturnar verða sjóðheitar og stundum ískaldar. Sjaldnast eru pottarnir með sama hitastigi frá einum degi til annars. „Þetta er ónýtt drasl,“ sagði sundlaugarvörður þegar kvartað var við hann. Líklega er það rétt, lagnir og stýritæki eru örugglega jafngömul lauginni sem opnuð var árið 1968.

Hversu lengi á að bjóða gestum upp á svona sundlaug? Hvernig stendur á því að Laugardalslaug er ekki lengur besta sundlaugin í Reykjavík?

En ágæti lesandi, ekki spyrja mig hvers vegna ég fer nær daglega í þessa laug.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 1. september 2020.

Síðan hefur svolítið verið unnið að þrifum. Mikið er ógert. Enn er eftir að þrífa rennur laugarinnar. Bakkarnir eru óásjálegir sem og gamli plastdúkurinn sem settur var fyrir óralöngu á kanta laugarinnar. Niðurstaðan er sú að fyrir löngu er kominn tími á endurnýjun. Betri er ný laug en kattarþvottur.

Kjallari er hringinn í kringum laugina. Mér er sagt að veggir hennar séu stífaðir svo þeir falli ekki inn. Þar að auki munu þeir vera sprungnir og lekir.

Skyld’ann Davíð Dagur vita af’essu?


Fárra daga könnun, náði sér í veiruna og veita styrkveitingar

Orðlof

Bæ, bæ

Smáorðið er kunnugt sem upphrópun í fornu máli og fram í nútímann en notkun þess sem kveðju í merkingunni ’halló’ er naumast eldri en frá síðasta þriðjungi 20. aldar, t.d.:

Hæ (öll); Hæ, manni; Hæ, þú þarna.

Hér gætir áhrifa frá ensku: hi (eftirhermuorð) eða hey. Smáorðið , einnig bæ-bæ, er í nútímamáli einnig notað sem kveðja í merkingunni ’bless’. 

Það er fengið úr e. good-by, good-bye, samandregin mynd úr God be with ye (Klein), sbr. enn fremur e. bye; bye-bye (barnamál) (Klein).

Málfarsbankinn. Jón G. Friðjónsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Ragnar hefur starfað á vettvangi í meira en fjörutíu ár og …“

Frétt á visir.is.                                   

Athugasemd: Hvar er vettvangur? Orðið er skilgreint svona á málið.is:

vettvangur, véttvang(u)r, ’víttvangur k. ’staður þar sem e-ð gerist, atburðasvið, mótstaður’. Af vétt- ’bardagi, víg’ og vangur ’völlur’. Upphafl. merk. ’vígvöllur, staður þar sem barist er’. Sjá vetfang, vætt- (3), vega (3) og víg.

Þetta er afar fróðlegt. Hins vegar dugar ekki blaðamanni að tala um vettvang án þess að tilgreina hann nánar því þeir eru margir. Blaðamenn og þar með ljósmyndarar fara víða og bera fréttir til lesenda. Í þessu er sannleikurinn fólginn. 

Vettvangur er ábyggilega sá staður sem eitthvað gerist. Þar ég datt á skíðum og meiddi mig lítilsháttar var vettvangur. Ragnar var ekki þar. Vinkonur mínar hittust á kaffihúsi og þar var vettvangur þeirra. Ragnar var ekki þar. Ungir menn börðu á liggjandi manni í Bakarabrekku í Reykjavík. Ragnar var ekki þar. Af þessu má draga að vettvangur þarf ekki að vera þar sem orðið hafa slys eða óhöpp. Ragnar starfar ekki á vettvangi þó hann hafi komið að þeim mörgum.

Tillaga: Ragnar hefur tekið myndir víða í meira en fjörutíu ár og …

2.

Um leið og vél­in lenti tóku marg­ir af sér grím­una um leið.“

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Orðalagið um leið getur merkt strax. Blaðamaðurinn hefur eflaust ekki lesið yfir skrif sín. Hafi hann gert það hefði hann átt að lagfæra. Eða að hann er gjörsamlega óvanur skrifum og margt í fréttinni bendir til að svo sé.

Tillaga: Þegar vél­in lenti tóku marg­ir af sér grím­una.

3.

„Háar upp­hæðir til nets­vindlara.

Frétt á mbl.is.                                   

Athugasemd: Eru upphæðir það sama og fjárhæðir? Líklega er það svo núorðið.

Einhvern tímann heyrði ég þetta haft eftir Bjarna Benediktssyni (1908-1970), forsætisráðherra:

Drottinn allsherjar er í upphæðum, en peningar í fjárhæðum.

Frá því í KFUM í gamla daga man ég eftir að í Biblíunni segir:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Stundum bregst skrifurum bogalistin og vitandi um fjárhæðir skrifa þeir „peningafjárhæðir“ sem er bjánalegt orð. Fer í flokk með orðum eins og  „ákvarðanataka“, „valkostur“, „bílaleigubíll“, „pönnukökupanna“ svo eitthvað sé nefnt.

Tillaga: Svíkja fólk um háar fjárhæðir á netinu.

4.

„Taka verður fárra daga könnunum með gát, en óneitanlega eru sveiflurnar miklar.“

Forystugrein Morgunblaðsins 1.9.20.                                   

Athugasemd: Hvað eru „fárra daga kannanir“? Þarna er fjallað um skoðanakannanir vegna forsetakosninga í Bandaríkjunum. Má vera að þetta séu kannanir sem unnar eru á skömmum tíma, nokkrum dögum. Ég veit það ekki því höfundurinn er ekki nógu skýr í orðavali.

Síðar segir í forystugreininni:

Þótt ekki megi draga stórkarlalegar ályktanir af svo skömmu skeiði, er það þó afsakanlegra en þegar horft er til einnar könnunar með mikið frávik.

Þetta er illskiljanlegt. Hvaða ályktanir eru „stórkarlalegar“ og hvað er átt við með „skömmu skeiði“. Halda mætti að höfundurinn hafi þurft að stytta skrif sín og óvart þurrkað út mikilvæg orð eða setningar sem hefðu getað hjálpað lesandanum að skilja samhengið.

Í seinni forystugrein blaðsins segir:

Fyrir utan þær alvarlegu spurningar sem vakna, þegar friðsamir mótmælendur eru beittir ofbeldi, hjálpar ekki til að Bashaga þykir valdamikill í borginni Misrata, og seta hans í ríkisstjórninni hefur verið tengd þeim ítökum sem hann hefur þar. 

Enn er höfundurinn illskiljanlegur. Hvað er átt við með orðalaginu „sem hann hefur þar“?

Höfundurinn skrifar langar málsgreinar og virðist ráða þokkalega við það en hugsunin er stundum frekar óskýr. Hann ætti að láta einhvern lesa yfir skrifin. Oft eru forystugreinarnar Morgunblaðsins skrifaðar af mikilli þekkingu og skilningi á stjórnmálum, innanlands og utan en svo fá aðrir að reyna sig en gengur misjafnlega.

Tillaga: Engin tillaga.

5.

„Neymar náði sér í kórónuveiruna á Ibiza.

Fyrirsögn á visir.is.                                   

Athugasemd: Þetta er alrangt. Maðurinn fékk veiruna. Fólk nær í hitt og þetta sem það þarf til handargagns eða næringar, kaffibolla, penna og álíka. Varla nokkur maður veikist með vilja.

Já, það var íþróttablaðamaður sem skrifaði.

Tillaga: Neymar fékk kórónuveiruna á Ibiza.

6.

„Við veitum styrkveitingar“

Auglýsing fyrir hádegisfréttir Ríkisútvarpsins 4.9.20                                   

Athugasemd: Er hægt að skrifa svona skrif? Má tala svona tal? Má veita veitingar? Orðahnútar sem þessir grípa athygli hlustenda og má vera að það sé markmiðið. Seint verður þetta þó talið gullaldarmál.

Tillaga: Við veitum styrki.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband